Mál 9 2023

Ár 2023, fimmtudaginn 31. ágúst, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna. 

Fyrir var tekið mál nr. 9/2023: 

A f.h. B ehf.  

gegn 

C lögmanni 

og kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R : 

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 23. febrúar 2023 kvörtun sóknaraðila, A f.h. B ehf., […] gegn varnaraðila, [C] lögmanni, […], vegna hópfundar sem hann hélt með fyrirhuguðum skýrslugjöfum í dómsmáli í aðdraganda aðalmeðferðar þess.  

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna málsins þar sem tekið var fram að úrskurðarnefnd liti svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. 

Greinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum vegna málsins barst nefndinni þann 27. mars 2023 og var hún send sóknaraðila til athugasemda. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila bárust nefndinni þann 13. apríl 2023. Viðbótarathugasemdir varnaraðila bárust síðan 4. maí 2023. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður 

Málsatvik eru þau helst að þann 15. apríl 2016 var félagið [D] ehf. stofnað samkvæmt heimild í breytingarlögum nr. 24/2016 á lögum Seðlabanka Íslands nr. 36/2001. Félaginu var m.a. ætlað að annast sölu eigna sem lagðar voru til ríkissjóðs sem hluti af stöðugleikaframlagi fjármálafyrirtækja. Átti félagið að undirbúa sölu og aðra ráðstöfun eigna ríkissjóðs sem mótteknar væru, leita tilboða, meta tilboð og hafa umsjón með samningaviðræðum og annast samningagerð því tengdu. Sala og ráðstöfun skyldi sér stað eiga að undangengnu opnu tilboðsferli.  

Þann 28. apríl 2016 gerði [D] ehf. verktakasamning við [F] ehf. um framkvæmdastjórn og lögfræðiþjónustu. Varnaraðili er annar eiganda [F] ehf. og var ráðgjafi [D], sinnti daglegum rekstri félagsins og var með prókúru fyrir það. Þá var varnaraðili stjórnarmaður í félaginu [E] ehf. frá 10. febrúar 2016. 

Þann 29. september 2016 auglýsti [D] á heimasíðu sinni opið söluferli fyrir hönd ríkissjóðs þar sem auglýstir voru til sölu eignarhlutir og tengdar kröfur, þ.m.t. hlutafé í [E] ehf. og nauðasamningskröfur á hendur [E] ehf. Sóknaraðili lagði fram kauptilboð í umrædda eignarhluti og tengdar kröfur sem ekki var tekið.  

Þann […] höfðaði sóknaraðili af því tilefni dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur nr. […] á hendur [D] ehf. og [G] vegna missis hagnaðar og þess að efnis- og málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar í útboðsferlinu. Varnaraðili er lögmaður [D] ehf. og [G] í málinu. Vegna framangreindra tengsla varnaraðila við félögin [D] ehf. og [E] ehf. var varnaraðili jafnframt vitni í dómsmálinu.  

Aðalmeðferð fór fram í héraðsdómsmálinu dagana [...] þar sem teknar voru skýrslur m.a. af varnaraðila og þáverandi stjórnarmönnum [D] ehf. Í framburði umræddra vitna kom fram að varnaraðili hafi hitt þau á sama stað og tíma á fundi í aðdraganda aðalmeðferðarinnar. Telur sóknaraðili þá háttsemi varnaraðila brjóta í bága við siðareglur lögmanna og kvartaði því til nefndarinnar.  

Þann […] var dómur uppkveðinn í héraðsdómsmálinu nr. […] þar sem [D] ehf. og [G] voru sýknuð af öllum kröfum sóknaraðila.  

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði beittur viðeigandi viðurlagaákvörðun samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 sbr. jafnframt VII. kafla siðareglna LMFÍ og 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar vegna reksturs málsins fyrir úrskurðarnefnd lögmanna samkvæmt 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. 

Sóknaraðili telur að með þeirri háttsemi að funda með nokkrum vitnum dómsmálsins á sama stað og tíma í aðdraganda aðalmeðferðar í málinu hafi varnaraðili gerst brotlegur gegn ákvæðum siðareglna lögmanna. Vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt ákvæði 3. mgr. 3 gr. samþykkta Lögmannafélags Íslands, beri félagsmenn réttindi og skyldur samkvæmt lögmannalögum nr. 77/1998 og öðrum lögum og að um réttindi þeirra og skyldur fari einnig eftir samþykktum LMFÍ og öðrum reglum þess, svo sem siðareglum.  

Sóknaraðili byggir á því að háttsemi varnaraðila feli í sér tvíþætt brot. Annars vegar brot gegn þeim hátternisreglum sem gilda um samskipti lögmanna og dómstóla samkvæmt III. kafla siðareglna lögmanna. Hins vegar hafi háttsemi varnaraðila verið í andstöðu við góða lögmannshætti sbr. I. kafla siðareglna lögmanna.  

Varðandi fyrra brotið um að háttsemi varnaraðila sé í andstöðu við þær hátternisreglur sem gilda um samskipti lögmanna og dómara vísar sóknaraðili til þess að með því að halda hópfund með nokkrum vitnum, þ.e. þáverandi stjórn [D] ehf. í aðdraganda aðalmeðferðar málsins, hafi varnaraðili gerst brotlegur gegn 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna.  

Vísar sóknaraðili til endurrita skýrslugjafa téðra vitna fyrir dómi til sönnunar um að umræddur fundur hafi farið fram og hverjir hafi verið þar viðstaddir.  

Byggir sóknaraðili á að ákvæði 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna heimili aðeins fund lögmanns með einu vitni en ekki hópi vitna og að varnaraðila hafi mátt vera það ljóst. Þá telur sóknaraðili regluna vega einkar þungt þegar lögmaður er sjálfur vitni í dómsmálinu og hafi verið ráðinn sérstakur ráðgjafi og daglegur umsjónarmaður stjórnarinnar sem vitnin sátu í.  

Vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt 3. mgr. 56. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skuli vitni að jafnaði prófuð sér án þess að önnur vitni hlýði á. Jafnframt vísar sóknaraðili til 1. mgr. 57. gr. sömu laga þar sem kveðið er á um að við skýrslugjöf vitnis leiti dómari eftir þörfum vitneskju um atriði sem varði mat á trúverðugleika þess. Í þeim efnum skuli dómari jafnan leitast við að ganga úr skugga um hvort skýrsla vitnis sé reist á skynjun þess sjálfs eða sögusögn annarra. Þá beri dómara að horfa til þess hvort horf vitnis til máls eða aðila sé með einhverjum þeim hætti að það geti haft áhrif á sönnunargildi framburðar þess. Telur sóknaraðili því að háttsemi varnaraðila feli í sér skýlaust brot gegn siðareglum lögmanna þar sem háttsemin sé til þess fallin að rýra trúverðugleika vitna og sé því í öllu falli aðfinnsluverð.  

Þá telur sóknaraðili að framangreind háttsemi sóknaraðila feli í sér vinnubrögð sem eigi ekkert skylt við góða lögmannshætti. Vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna beri lögmönnum að efla rétt og hrinda órétti og að samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skuli þeir gæta heiðurs lögmannsstéttarinnar.  

Byggir sóknaraðili á því að með skráðum siðareglum sem birtar séu opinberlega, geri meðlimir lögmannsstéttarinnar opinbert með hvaða hætti þeir skuldbindi sig til að vinna sín störf. Sóknaraðili telur að framganga varnaraðila sem fjallað hefur verið um vegi að heiðri lögmannstéttarinnar. Um sé að ræða vinnubrögð af hálfu varnaraðila sem sóknaraðili telur ekki eiga að líðast í samfélagi lögmanna. Það sé forsenda fyrir farsælu réttarfari að á milli lögmanna ríki gagnkvæmt traust. Þannig eigi lögmenn að geta treyst því fullkomlega að lögmenn gagnaðila fylgi siðareglum í hvívetna og hafi t.a.m. ekki áhrif á framburð vitna.  

Telur sóknaraðili skýringar varnaraðila í málflutningi fyrir dómi um að fundurinn hafi verið haldinn vegna aldurs og heilsu eins vitnisins vera eftiráskýringu sem standist ekki skoðun, enda hefði varnaraðila þá verið í lófa lagið að hitta einungis það vitni. Hópfundurinn hafi verið óþarfur og í andstöðu við góða lögmannshætti.  

III. 

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara krefst hann þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu vegna reksturs málsins fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.  

Um málsatvik að baki þeim málarekstri sem liggur til grundvallar kvörtun sóknaraðila vísar varnaraðili til dóms héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. […] sem kveðinn var upp […]. Vísar varnaraðili til þess að málsatvik og málsástæður aðila séu þar ítarlega raktar og telur varnaraðili ekki ástæðu til að rekja þær nánar fyrir nefndinni að öðru leyti en að benda á að dómsforsendurnar hafi verið skýrar á þá leið að hafna öllum málatilbúnaði sóknaraðila og sýkna stefnda í málinu af öllum hans kröfum.  

Varnaraðili hafnar málatilbúnaði sóknaraðila öllum sem rakalausum og haldlausum og mótmælir fullyrðingum í greinargerð sóknaraðila til nefndarinnar sem ósönnuðum.  

Frávísunarkröfu sinni til stuðnings vísar varnaraðili til þess að í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sé skýrt kveðið á um að til að hægt sé að leggja fram kvörtun fyrir úrskurðarnefnd lögmanna á hendur lögmanni verði þeim skilyrðum að vera fullnægt að lögmaðurinn hafi í starfi sínu gert á hlut þess sem kvartar með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna.  

Varnaraðili telur að í erindi sóknaraðila til nefndarinnar sé hvergi að finna umfjöllun um það hvernig varnaraðili eigi að hafa gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Kveðst varnaraðila sér virðast að sóknaraðili telji sig hafa gert á hans hlut með því einu að hafa gætt hagsmuna gagnaðila sóknaraðila í áðurnefndu dómsmáli. Þegar af þeirri ástæður telur varnaraðili að kvörtunin sé ekki tæk til meðferðar og að vísa hafi átt málinu frá nefndinni samkvæmt 8. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Með vísan til sama ákvæðis málsmeðferðarreglna nefndarinnar telur varnaraðili að jafnframt hafi átt að vísa kvörtun sóknaraðila frá nefndinni þar sem hún sé bersýnilega ekki á rökum reist. Þá vísar varnaraðili til 2. og 3. mgr. 10. gr. sömu reglna þar sem kveðið er á um að ef mál er ekki nægilega upplýst eða ef í máli er réttarágreiningur sem fellur ekki undir valdsvið nefndarinnar, vísi hún máli frá.  

Þá vísar varnaraðili til þess að í III. kafla siðareglna lögmanna sé fjallað um samskipti lögmanna og dómara, en þar sé ekki vikið að gagnaðilum skjólstæðinga lögmanna með neinum hætti og því vandséð hvernig sóknaraðili geti byggt á þeim ákvæðum. Enda sé sérstaklega fjallað um skyldur lögmanns við gagnaðila skjólstæðinga sinna í V. kafla siðareglna lögmanna. Þegar af þeirri ástæður telur varnaraðili að vísa beri málinu frá nefndinni.  

Varðandi tilvísanir sóknaraðila til ákvæða einkamálalaga um vitni og vitnaleiðslur í dómsmáli bendir varnaraðili á að samkvæmt 59. gr. sömu laga komi skýrt fram að dómari meti sönnunargildi vitnisburða við úrlausn máls. Því telur varnaraðili tilvísanir sóknaraðila til ákvæða einkamálalaga ekkert gildi hafa, enda sé hvergi rökstutt með hvaða hætti þau ákvæði varði erindi sóknaraðila. Byggir varnaraðili á því að af orðalagi 59. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 megi ráða að löggjafinn hafi falið dómara í dómsmáli hverju sinni að leysa úr því hvaða sönnunargildi skuli ljá vitnisburðum fyrir dómi. Byggir varnaraðili á að því geti ekki komið til greina að um það sé jafnframt fjallað á öðrum vettvangi, jafnvel þótt um sé að ræða starfandi lögmenn. Beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni enda falli slíkur ágreiningur ekki undir valdsvið nefndarinnar sbr. 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.  

Þá bendir varnaraðili á að við munnlegan málflutning málsins í héraðsdómi Reykjavíkur hafi lögmaður sóknaraðila fjallað ítarlega um umræddan fund sem varnaraðili var viðstaddur með fyrrum stjórn [D] ehf. og núverandi fyrirsvarsmanni félagsins og gert sömu athugasemdir og í kvörtun til nefndarinnar. Þann málatilbúnað hafi héraðsdómur að sögn varnaraðila haft að engu og í forsendum dómsins sé vísað til framburðar fyrrum stjórnarmanna fyrir dómi og á þeim byggt. Engar athugasemdir hafi verið gerðir af hálfu dómsins um ágreiningsefnið eins og nánar kemur fram í dóminum. Að mati varnaraðila ber að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni þar sem dómsmáli er lokið um ágreiningsefnið sbr. 2. mgr. 4. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.  

Sé eigi fallist á frávísun málsins krefst varnaraðili þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og vísar því til stuðnings til alls framangreinds. Ítrekar varnaraðili að málatilbúnaður sóknaraðila sé haldlaus og mótmælir honum alfarið.  

Vísar varnaraðili til þess að nauðsynlegt kunni að vera fyrir lögmenn að ræða við vitni og ekkert í lögum um meðferð einkamála setji skorður við samskipti lögmanna við vitni í einkamálum né samskipti vitna við önnur vitni eða aðila. Byggir varnaraðili á að tilvísanir sóknaraðila í ákvæði einkamálalaga hafi ekkert gildi hvað það varðar, enda sé sú tilvísun í engu útskýrð.  

Ítrekar varnaraðili að á þeim fundi sem sóknaraðili byggir kvörtun málsins á hafi setið annars vegar fyrirsvarsmaður annars stefnda í málinu og hins vegar fyrrum fyrirsvarsmenn þess stefnda, aðilar sem sátu í stjórn þess stefnda og fóru með fyrirsvar fyrir hann og tóku í sameiningu, sem stjórnarmenn, ákvarðanir sem málatilbúnaður sóknaraðila í dómsmálinu hverfist um. Þau atvik hafi átt sér stað fyrir rúmum sex árum síðan.  

Byggir varnaraðili á að hvergi í settum lögum, hvorki lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála né lögum nr. 77/1998 um lögmenn né siðareglum lögmanna sé lagt bann við að lögmenn hafi samband við vitni heldur sé þvert á móti gert ráð fyrir og talið eðlilegt að lögmenn hafi samband við vitni. Það sé lögmönnum bæði rétt og geti verið skylt. Komi þetta skýrlega fram í ákvæði 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Kveðst varnaraðili hafa gert nákvæmlega það sem í ákvæðinu felist og fullyrðingum sóknaraðila um annað sé harðlega mótmælt sem röngum og ósönnuðum.  

Kveður varnaraðili í því máli sem hér um ræðir ljóst að hefði hann ekki haft samband við þau vitni sem um ræðir hefði hann verið að vanrækja skyldur sínar gagnvart skjólstæðingum sínum, stefndu í málinu. Telur varnaraðili óskiljanlegt að fundið sé að því að lögmaður hafi samband við og eigi í samskiptum við núverandi og fyrrverandi fyrirsvarsmenn umbjóðanda síns.  

Bendir varnaraðili á að hvergi í lögum um lögmenn eða siðareglum lögmanna finnist bein fyrirmæli um það hvernig samtöl og samskipti lögmanna við núverandi eða fyrrverandi fyrirsvarsmenn eða vitni utan réttar eigi eða skuli fara fram eða hvernig þeim skuli háttað.  

Varnaraðili hafnar þeim málatilbúnaði sóknaraðila og túlkun að ákvæði 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna heimili lögmanni aðeins að eiga fund með einu vitni en ekki hópi vitna. Slíkt telur varnaraðili ekki eiga við nein haldbær rök að styðjast heldur séu einungis fullyrðingar sóknaraðila og hans túlkun á siðareglum lögmanna. Þrátt fyrir að varnaraðili telji ekki á hinu gagnstæða hafa verið byggt í kvörtun málsins, tekur hann fram að hann hafi sýnt viðeigandi tillitssemi og forðast alfarið að hafa áhrif á framburð vitnanna og fullnægt því í þeim vísireglum sem fram komi í framangreindu ákvæði siðareglna lögmanna. Sé öðru haldið fram hafnar varnaraðili því sem röngu og ósönnuðu.  

Þá hafnar varnaraðili því sem röngu og ósönnuðu að hann hafi brotið gegn góðum lögmannsháttum eða að hann hafi með einhverjum hætti farið gegn 1. og 2. gr. siðareglna lögmanna. Áréttar varnaraðili að honum virðist það eitt valda sóknaraðila ama, að hann hafi tekið að sér að reka mál gagnaðila sóknaraðila fyrir dómi. Vísar varnaraðili til þess að við málsmeðferð dómsmálsins hafi sóknaraðili ítrekað gert athugasemdir við að varnaraðili gætti hagsmuna stefndu og krafist þess að dómari beindi því til stefndu í málinu að varnaraðili viki úr því. Þeirri kröfu hafi héraðsdómur hafnað.  

Í viðbótarathugsemdum sóknaraðila til nefndarinnar áréttar hann kröfur sínar og málatilbúnað til nefndarinnar og margt af því sem fram kom í upphaflegri greinargerð hans til nefndarinnar. Byggir sóknaraðili á því að með því að hitta vitni á hópfundi hafi varnaraðili samræmt framburð þeirra í dómsmálinu. Byggir sóknaraðili á að varnaraðila sé kunnugt um ákvæði siðareglna lögmanna og hafi mátt vera ljóst að slíkur fundur væri til þess fallinn að hafa áhrif á framburð sem vitnin áttu eftir að gefa. Telur sóknaraðili óhjákvæmilegt að slíkur fundur hafi áhrif á málarekstur sóknaraðila fyrir dómi. Því hafi háttsemi varnaraðila verið í andstöðu við góða lögmannshætti og þær hátternisreglur sem gilda um samskipti lögmanna og dómara, sbr. 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna.  

Sóknaraðili vísar til fyrri málatilbúnað síns um stöðu varnaraðila gagnvart stefnda í málinu og hlutverks hans í opnu söluferli á hlut ríkisins í [E] ehf. Vísar sóknaraðili því til stuðnings til tölvupósts frá árinu 2016 þar sem varnaraðili lagði til verklag og næstu skref til allra þeirra vitna sem hittust síðar á hópfundi varnaraðila í Seðlabankanum í aðdraganda aðalmeðferðar málsins. Byggir sóknaraðili á að varnaraðili sem lögmaður [G] og [D] í málinu og sem vitni í því, hafi þannig verið búinn að lesa yfir öll dómskjöl málsins og haft tækifæri til að rifja upp og fara yfir framburð vitnanna fyrir dómi.  

Mótmælir sóknaraðili því að þeim málatilbúnaði varnaraðila að það eina sem sóknaraðili telji halla á sinn hlut sé að varnaraðili hafi gætt hagsmuna gagnaðila í dómsmálinu.  

Sóknaraðili ítrekar tilvísun sína í greinargerð til III. kafla siðareglna lögmanna, sem fjallar um samskipti lögmanna og dómara. Minnir sóknaraðili á að forsaga kvörtunarinnar sé það dómsmál sem sóknaraðili höfðaði á hendur [D] og [G]. Tilvísun í III. kafla siðareglna lögmanna snúi að þeim hátternisreglum sem gildi um samskipti lögmanna og dómstóla, enda hafi umrætt mál farið fyrir dómstóla. Byggir sóknaraðili á að það að lögmaður hafi samband við vitni í máli þýðir að honum beri að gæta viðeigandi tillitssemi og forðast að hafa áhrif á framburð vitnis, sbr. lokamálslið 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Brjóti háttsemi varnaraðila með hópfundi vitna því gegn framangreindu ákvæði siðareglna lögmanna. Þá sé óhjákvæmilegt að slíkur fundur hafi áhrif á málarekstur sóknaraðila fyrir dómi.  

Þá ítrekar sóknaraðili tilvísanir í kvörtun til nefndarinnar til áðurgreindra ákvæða einkamálalaga. Með þeim kveðst sóknaraðili hafa verið að færa rök fyrir því að ef heimilt væri fyrir lögmenn að halda hópfundi með vitnum í aðdraganda aðalmeðferðar, gætu umrædd vitni allt eins verið inni í dómsal og hlýtt á framburð annarra vitna, þar sem þau væru þá þegar búin að ræða dómsmálið sín á milli og samræma framburð sinn fyrir dómi. Telur sóknaraðili því óvíst að skýrslur umræddra vitna hafi verið reistar á skynjun þeirra sjálfra, enda geti hópfundur í aðdraganda aðalmeðferðar haft áhrif á framburð vitna. Vísar sóknaraðili til þess að viðurkennt sé að hópfundurinn hafi verið haldinn til að rifja upp málavexti og atburði málsins, en ekki til þess að kanna hvað vitni gætu borið um, enda hafi varnaraðila verið fyllilega ljóst hver aðkoma vitnanna hafi verið í málinu og hvað þau gætu borið vitni um, enda hafi hann verið allt um kring í aðdraganda og atburðarás söluferlisins. Telur sóknaraðili að um sé að ræða vinnubrögð sem eigi ekki að líðast í samfélagi lögmanna.  

Loks ítrekar sóknaraðili kröfur sínar í málinu og mótmælir sérstaklega málskostnaðarkröfu varnaraðila.  

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila ítrekar hann efni greinargerðar sinnar til nefndarinnar. Þá áréttar hann mörg þau sjónarmið og mótmæli sem þar komu fram gagnvart kvörtun sóknaraðila.  

Þá hafnar varnaraðili því að hafa haft áhrif á framburð vitna sbr. 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. Kveðst varnaraðili hafa að fullu og öllu gætt að viðeigandi tillitssemi og forðast með öllu að hafa áhrif á framburð vitna og fullnægt öllum þeim vísireglum sem fram komi í ákvæðum siðareglna lögmanna. Hafnar varnaraðili því að hafa samræmt framburð vitna í dómsmáli með því einu að hafa hitt núverandi og fyrrverandi fyrirsvarsmenn umbjóðanda hans á fundi.  

Jafnframt hafnar varnaraðili því að hafa verið í lykilhlutverki í því opna söluferli sem fjallað sé um í málinu. Kveðst varnaraðili jafnt nú og þá verið sjálfstætt starfandi lögmaður fyrir hönd umbjóðanda síns, [D] ehf. og tekið að sér þau verk sem honum hafi verið falin af hálfu umbjóðandans. Kveðst varnaraðili engar ákvarðanir hafa tekið fyrir hönd umbjóðanda hans í ferlinu enda hafi stjórn umbjóðandans tekið allar þær ákvarðanir sem um ræðir. Það hafi verið stjórn umbjóðanda varnaraðila sem ákvað allt verklag og tók þær ákvarðanir um allt sem viðkom fyrrnefndu söluferli og málatilbúnaður sóknaraðila í dómsmálinu hverfist um. Vísar varnaraðili til þess að allt þetta komi fram og sé staðfest í dóm héraðsdóms í máli nr. […] síðan […].  

Þá vísar varnaraðili til þess að hann eigi rétt á að vera ekki samsamað við hagsmuni og sjónarmið skjólstæðinga sinna líkt og kvörtun í málinu byggi á. 

Mótmælir varnaraðili því sem röngu og ósönnu að hann hafi farið yfir framburði vitnanna og bendir á að ekkert sem fram komi í málinu styðji þær fullyrðingar sóknaraðila. Þá bendir varnaraðili á að þeir einstaklingar sem tóku þær ákvarðanir sem sóknaraðili byggir málshöfðun sína á, hafi verið sérfræðingar sem tóku að sér að setjast í stjórn [D] ehf. og bera sem stjórnarmenn ábyrgð á öllum ákvörðunum félagsins. Þeir hafi síðan komið fyrir dóm og borið um verk sín sem stjórnarmenn að viðlagðri refsiábyrgð sem liggi við röngum framburði fyrir dómi.  

Bendir varnaraðili á gagnaðilar geti ekki komið í veg fyrir að tilteknir lögmenn gæti hagsmuna skjólstæðinga sinna fyrir dómi með því einu að boða þá sem vitni í einkamáli og reyna þannig að koma í veg fyrir að gagnaðilinn njóti þeirra grundvallarréttinda að ráða til sín þann lögmann sem hann óskar til að gæta hagsmuna sinna fyrir dómi. Það að lögmenn aðila séu jafnframt vitni í einkamáli sé vel þekkt og engar athugasemdir við það gerðar af hálfu dómstóla, hvorki í þessu tiltekna máli né öðrum einkamálum þar sem á þetta hafi reynt. 

Niðurstaða 

Varnaraðili krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Frávísunarkrafa varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að kvörtun sóknaraðila sé svo óskýr og vanreifuð að ómögulegt sé að skilja með hvaða hætti varnaraðili eigi að hafa gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna í skilningi 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998. Í öðru lagi byggir varnaraðili á að ágreiningur málsins falli utan valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, þar sem um sé að ræða álitaefni sem heyri undir dómara í dómsmáli að leysa úr sbr. 59. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í þriðja lagi byggir varnaraðili á að ráða megi af dóminum að dómari málsins hafi ekki talið neitt að vanbúnaði að byggja á skýrslum téðra skýrslugjafa í málinu. Af því leiði að dómsmáli sé lokið um ágreiningsefnið sbr. 2. mgr. 4. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og því beri að frávísa því. 

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum. Vísast jafnframt um þetta til 2. tölul. 3. gr. og 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna. 

Í 2. mgr. 4. gr. reglna um meðferð mála er kveðið á um að ef dómsmáli er lokið um ágreiningsefni, en það síðan borið undir nefndina, vísar hún málinu frá sér. Þá vísar nefndin frá máli ef í því er réttarágreiningur sem fellur ekki undir hennar valdsvið samkvæmt 3. mgr. 10. gr. sömu reglna.  

Í málinu kvartar sóknaraðili undan þeirri háttsemi varnaraðili að boða tiltekin vitni í fyrrnefndu dómsmáli sem sóknaraðili höfðaði, til hópfundar í aðdraganda aðalmeðferðar í málinu, í þeim tilgangi að rifja þar saman upp málsatvik. Með þessari háttsemi telur sóknaraðili að varnaraðili, sem bæði lögmaður stefndu í málinu og vitni í því, hafi samstillt vitnin og með því haft áhrif á skýrslur þeirra og rýrt trúverðugleika skýrslna þeirra fyrir dómi. Telur sóknaraðili lögmönnum óheimilt að ræða við vitni í dómsmáli með slíkum hætti auk þess sem sóknaraðili telur þá háttsemi ekki samrýmast góðum lögmannsháttum. Skilja má af málatilbúnaði sóknaraðili að hann telji varnaraðila hafa með þessum hætti raskað málsgrundvelli þess dómsmáls sem hann höfðaði. Að mati nefndarinnar er kvörtun málsins nægilega skýr um það hvaða háttsemi sé kvartað undan og með hvaða hætti sóknaraðili telji hana hafa gert á sinn hlut í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá telur nefndin að óháð því hvort deilt hafi verið um sönnunargildi skýrslnanna fyrir dómi og því hvaða sönnunargildi dómari málsins kann að hafa gefið skýrslum aðilanna, sé ekkert því til fyrirstöðu að nefndin leysi úr því hvort framangreind háttsemi varnaraðila samrýmist lögum eða siðareglum lögmanna í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Eru því ekki talin skilyrði til að vísa kvörtun sóknaraðila frá nefndinni á þeim grundvelli sem varnaraðili krefst.  

Heimild til að bera ágreining þennan undir nefndina er í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn líkt og ofar greinir. Kemur því til úrlausnar hvort varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með framangreindri háttsemi sem stríði gegn ákvæðum laga eða siðareglna lögmanna.  

Í 1. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti. 

Í 2. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum. 

Í 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmanni sé heimilt að hafa samband við vitni í máli til að kanna hvað það getur borið um atvik og, ef því er að skipta, til að gera því kleift að búa sig undir vitnaleiðslu. Sé um að ræða vitni, sem eru í sérstökum tengslum við gagnaðila, er lögmanninum skylt að tilkynna lögmanni gagnaðila áður en haft er samband ef þess er nokkur kostur en ella jafn skjótt og kostur er. Hafi lögmaður samband við vitni ber honum að gæta viðeigandi tillitssemi og forðast að hafa áhrif á framburð vitnisins. 

Eins og fram kemur í umfjöllun um málsatvik og málsástæður að framan, byggir kvörtun í málinu annars vegar á því að varnaraðila hafi verið óheimilt að ræða við fleiri en eitt vitni í máli samtímis og hins vegar að sú háttsemi varnaraðila hafi ekki samrýmst góðum lögmannsháttum.  

Í samræmi við fyrrnefnt ákvæði 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna eiga lögmenn rétt á að hafa samband við vitni til að kanna hvað þau geti borið um málsatvik og til að gera vitninu kleift að búa sig undir vitnaleiðslu. Ber þá lögmönnum að gæta að viðeigandi tillitssemi og forðast að hafa áhrif á framburð vitnisins. Enda þótt ákvæðið heyri undir kafla siðareglna lögmanna sem lýtur að samskiptum lögmanns og dómstóla telur nefndin þær aðstæður geta skapast þar sem vanræksla lögmanns á að framfylgja þeim skyldum getur haft áhrif á hagsmuni annarra og þar af leiðandi gert á hlut þeirra. Hvergi er í lögum eða siðareglum lögmanna lagt bann við því að lögmaður ræði við fleiri en eitt vitni í einu. Við slíkar aðstæður ber lögmanni hins vegar að gæta sérstaklega að því að forðast það að hafa áhrif á framburð vitnanna. Hafi lögmaður áhrif á framburð vitna getur það leitt af sér brot gegn skyldum lögmanns bæði gagnvart vitninu sjálfu en jafnframt gegn skyldum lögmannsins til að gæta góðra lögmannshátta, m.a. til að efla rétt og hrinda órétti samkvæmt 1. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna og til að gæta heiðurs lögmannsstéttarinnar samkvæmt 2. gr. sömu reglna. Óumdeilt er í málinu að varnaraðili hitti hóp vitna sem sátu í stjórn stefnda, [D] ehf., á fundi til að rifja saman upp málsatvik í aðdraganda aðalmeðferðar í fyrrnefndu dómsmáli. Þrátt fyrir það er ósannað að varnaraðili hafi haft áhrif á framburði vitnanna eða samstillt vitnisburðum þeirra líkt og sóknaraðili byggir á. Að virtum gögnum málsins þykir nefndinni ekkert fram komið í þessu máli sem styður þann málatilbúnað sóknaraðila. Þegar af þeirri ástæðu telst ósannað að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð : 

Kröfu varnaraðila, [C] lögmanns, um að málinu verði vísað frá nefndinni er hafnað. 

Varnaraðili, [C] lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, [B] ehf., með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. 

Málskostnaður fellur niður.  

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA 

Helgi Birgisson, formaður  

Einar Gautur Steingrímsson 

Valborg Þ. Snævarr 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir 

 

 

________________________ 

Arnar Vilhjálmur Arnarsson