Mál 8 2004

Ár 2006, mánudaginn 23. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2004:

 

J og T

 

gegn

A, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R :

 Í erindi G, fyrir hönd J og T, sóknaraðila, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 11. maí 2004, var kvartað yfir vinnubrögðum A, hdl., varnaraðila, vegna þjónustu hans í þágu sóknaraðila við skuldaskil o.fl. Í tilefni fyrirspurnar frá nefndinni var því lýst yfir af hálfu sóknaraðila að erindi þeirra lyti eingöngu að áskilinni þóknun varnaraðila fyrir störf sín.

Varnaraðili sendi nefndinni greinargerð þann 17. september 2004. Sóknaraðilum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina en engar athugasemdir bárust frá þeim.

 Málsatvik, kröfur og málsástæður.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að þann 27. maí 2002 veittu sóknaraðilar varnaraðila skriflegt umboð til þess að gæta hagsmuna sinna við samningaumleitanir við lánardrottna og tilraunir til skuldaskila í því sambandi, en sóknaraðilar voru þá í greiðsluerfiðleikum. Samkvæmt umboðinu fólst í því heimild varnaraðila til þess að gera hvaðeina sem hann teldi nauðsynlegt til að tryggja réttindi sóknaraðila og hagsmuni, innan réttar sem utan, leita sátta, niðurfellingar og/eða annarra samninga fyrir hönd sóknaraðila, afla gagna og greiða til kröfuhafa þá fjármuni sem afhentir yrðu í þeim tilgangi. Sóknaraðilar skuldbundu sig til þess að greiða fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá varnaraðila hverju sinni, en tímagjaldið við undirritun umboðsins nam 7.500 krónum auk virðisaukaskatts.

Varnaraðili gaf út reikning vegna vinnu sinnar þann 1. október 2002, að fjárhæð 270.000 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 336.150 krónur. Reikningurinn fól í sér vinnu í 36 klst. samkvæmt tímaskýrslu. Reikningurinn var gefinn út á nafn fyrirtækisins M, en samkvæmt skýringartexta var hann fyrir lögfræðiaðstoð vegna „… J, skv. samkomulagi við J …“. Sóknaraðilar höfðu greitt 150.000 krónur inn á reikninginn þann 10. júní 2002 en fyrirtækið M ehf. greiddi 100.000 krónur upp í skuldina þann 2. desember 2002. Eftirstöðvar reikningsins námu þannig 86.150 krónum.

 Íbúðarhúsnæði sóknaraðila var selt nauðungarsölu hjá sýslumanninum í A þann 14. janúar 200X, en samþykkisfrestur var ákveðinn til 11. mars 200X.

Þann 22. janúar 2003 veittu sóknaraðilar G umboð sitt til að afla upplýsinga um og semja um frágang skulda, m.a. þeirra sem voru með veði í íbúð sóknaraðila. Umboðið náði jafnframt til þess að semja um þær skuldir Vélaverkstæðis V ehf., sem sóknaraðili J var í ábyrgð fyrir.

 Varnaraðili gaf út reikning á nafn sóknaraðila þann 24. febrúar 2003, að fjárhæð 60.000 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 74.700 krónur. Varnaraðili tilgreindi þar 8 klst. vinnu samkvæmt tímaskýrslu, frá 30. október 2002 til 24. febrúar 2003.

Vegna ágreinings um áskilda þóknun varnaraðila og kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu þess, sem greitt hafði verið og niðurfellingu síðari reikningsins, var erindi það sent úrskurðarnefnd lögmanna, sem hér er til umfjöllunar.

 II.

Erindi sóknaraðila lýtur eingöngu að áskilinni þóknun varnaraðila og snýst um endurgreiðslukröfu þeirra og niðurfellingu reikningskröfu varnaraðila. Telja sóknaraðilar varnaraðila ekki hafa innt þjónustu sína af hendi með skilmerkilegum hætti eða nokkrum árangri. Er í erindi sóknaraðila m.a. vísað til þess að í skýrslu varnaraðila til þeirra þann 6. september 2002 hafi einungis falist óljósir spádómar. Í annari slíkri skýrslu frá 21. janúar 2003 hafi ekki falist nein skuldaskrá en á hinn bóginn ýmsar „fabúleringar“.

Fram kemur af hálfu sóknaraðila að hinn nýi umboðsmaður þeirra hafi náð samningum við lánardrottna um niðurfellingu nauðungarsölu á íbúð þeirra, en til þess hafi þurft 300.000 krónur. Þá kemur fram að varnaraðili hafi kosið að svara ekki bréfi skattstjórans í R-umdæmi vegna innsendra kæra varnaraðila fyrir hönd sóknaraðila. Hinn nýi umboðsmaður hafi hins vegar, eftir viðræður við skattstjóraembættið og bréfaskriftir þangað, fengið viðurkennda 850.000 króna lækkun opinberra gjalda. Með samningum við lánardrottna og skipulagningu greiðslna, í samstarfi við Sparisjóð P, hafi verið lokið við uppgreiðslu allra lausaskulda innan 6 mánaða. Endursamið hafi verið um langtímalán og samið um greiðsluþjónustu.

 Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðila verði gert að endurgreiða þeim 250.000 krónur og jafnframt að hann felli niður eftirstöðvar fyrri reiknings síns, svo og allan seinni reikninginn.

III.

Í greinargerð varnaraðila er vísað til umboðsins frá 27. maí 2002 að því er varðar verkefnið er hann tók að sér fyrir sóknaraðila. Bendir varnaraðili á það að sóknaraðilum hafi verið gerð grein fyrir áætluðum heildarkostnaði af verkinu en sér virtist að reikningsfærð vinna væri innan þeirra marka. Virtust athugasemdir sóknaraðila ekki lúta að þessu atriði heldur því, að vinnan hefði ekki borið þann árangur sem þau áttu von á.

 Varnaraðili kveður vinnu sína hafa falist í því að skýra skuldastöðu sóknaraðila og að leggja á ráðin um að koma á samningum um skuldaskil og að hefja þá vinnu. Ákveðið hafi verið að ljúka fyrst samningum við aðalkröfuhafann, Sparisjóð P, áður en gengið yrði á aðra. Ljóst hafi verið að næðust ekki samningar við sparisjóðinn yrðu sóknaraðilar báðir gjaldþrota. Varnaraðili telur gögn málsins sýna að samningar við sparisjóðinn hafi verið langt komnir þegar hann hætti vinnu við verkefnið.

 Varnaraðili kveðst hafa mætt við nauðungarsölu á íbúð sóknaraðila þann 14. janúar 2003 og fengið lengdan samþykkisfrest til þess að ná samkomulagi við veðhafa um uppgjör krafna þeirra. Í framhaldinu hafi sóknaraðili Jóhann haft samband við sig og lýst óánægju með störf sín. Hafi hann haft í heitingum við sig vegna þessa.

 Varnaraðili kveður fyrri reikning sinn hafa verið gefinn út á nafn M, þáverandi vinnuveitanda sóknaraðila J, að hans beiðni. Inn á þennan reikning hafi J greitt 150.000 krónur en fyrirtækið hafi greitt 100.000 krónur þann 2. desember 2002. Varnaraðili kveður sig eiga ógreitt fyrir vinnu sína 161.850 krónur auk vaxta. Sóknaraðilar hafi ekki tekið tilboði sínu um uppgjör.

Varnaraðili kveður alla vinnu samkvæmt tímaskýrslum hafa verið innta af hendi í þágu sóknaraðila. Málið hefði verið komið á góðan rekspöl þegar vinnunni lauk og engin efni hefðu verið til kvörtunar af hálfu sóknaraðila. Hinn nýi umboðsmaður sóknaraðila virtist hafa lokið verkinu á grundvelli vinnu sinnar.

 Niðurstaða.

 I.

Eins og áður er getið snýst erindi sóknaraðila eingöngu um áskilda þóknun varnaraðila.

Hvorki hið skriflega umboð sóknaraðila til varnaraðila né önnur gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi ábyrgst gagnvart sóknaraðilum árangur vinnu sinnar í þeirra þágu. Hins vegar tók hann að sér að freista þess að ná samningum við lánardrottna um skuldaskil og að tryggja eftir því sem kostur var hagsmuni sóknaraðila.

Samkvæmt skriflegu umboði sóknaraðila til varnaraðila og skýringartexta á hinum umdeildu reikningum varnaraðila byggist áskilin þóknun hans á tímaskýrslum, sem hann hélt yfir störf sín í þágu sóknaraðila. Varnaraðili sendi nefndinni nokkrar útprentanir af tímaskýrslu sinni yfir verkefnið ásamt ýmsum gögnum er varða verkið og samskiptin við hinn nýja umboðsmann sóknaraðila.

Samkvæmt tímaskýrslu varnaraðila voru þar skráðar 36 klst. fyrir tímabilið frá 27. maí til loka október 2002 en það er sami tímafjöldi og fram kemur á fyrri reikningi varnaraðila. Sá reikningur er dagsettur 1. október 2002 en ekki liggur fyrir nein skýring á því misræmi sem er milli þeirrar dagsetningar og þess tímabils er reikningurinn nær til. Seinni reikningur varnaraðila felur í sér 8 klst. vinnu frá nóvember 2002 til 21. janúar 2003. Varnaraðili áskilur sér samkvæmt þessu þóknun fyrir 44 klst. vinnu.

Að mati úrskurðarnefndar veitir tímaskýrsla varnaraðila takmarkaðar og að sumu leyti ófullnægjandi upplýsingar um störf hans. Þá veita framlögð gögn af hans hálfu takmarkaða yfirsýn á umfang vinnu hans. Meðal þeirra eru gögn er sýna samskipti varnaraðila við helsta lánardrottinn sóknaraðila, Sparisjóð P, og á hvaða nótum sparisjóðurinn var reiðubúinn til að semja við sóknaraðila um skuldir þeirra. Einnig eru ýmis gögn frá öðrum lánardrottnum sem varnaraðili aflaði, ýmist beint eða fyrir milligöngu sóknaraðila.

Í málinu liggja fyrir 2 verkyfirlit varnaraðila. Það fyrra er dagsett 6. september 2002 og þar eru tilgreindar heildareignir og heildarskuldir sóknaraðila. Með verkyfirlitinu er sundurliðun á skuldum sóknaraðila við ýmsa lánardrottna. Varnaraðili setur þar fram hugmyndir um að gengið verði til samninga við lánardrottna um uppgjör á tiltekinn hátt. Í hugmyndum varnaraðila fólst m.a. að hann myndi senda þeim bréf þar sem gerð yrði grein fyrir stöðu mála og kynnt tillaga að uppgjöri. Ekki verður þó séð að slíkt bréf hafi verið sent.

Í síðara verkyfirliti varnaraðila, sem er dagsett 21. janúar 2003, eru taldir upp veðhafar í íbúð sóknaraðila og hugmyndir varnaraðila um samkomulag við þá um greiðslu vanskila. Bera þær með sér að viðræður hafi farið fram um skuldaskilin. Varnaraðili víkur þar einnig að hugmyndum um skuldaskil við aðra lánardrottna.

Í verkyfirlitinu tilgreinir varnaraðili hversu mikinn tíma hann telur þurfa til að ljúka verkinu og hver heildarkostnaður gæti orðið af því fyrir sóknaraðila. Varnaraðili rekur þar jafnframt hvað hafi fram að þeim tíma falist í vinnu hans og tilgreinir m.a. fundahöld, könnun á og greining skulda sóknaraðila, ráðleggingar um aðgerðir og möguleika til að forðast gjaldþrot án þess að missa íbúð á nauðungarsölu, skoðun á málefnum einkahlutafélags, tillögu að lausnum, skoðun á skattamálum sóknaraðila, málsvörn í dómsmáli er höfðað var af einum kröfuhafa, skjalagerð vegna afsala, umboða og kaupsamninga, bréfaskriftir, samskipti við Sparisjóð P vegna skuldaskila, samskipti við veðhafa vegna nauðungarsölu o.fl.

Þessi upptalning varnaraðila á verkum sínum ber með sér að hann hafi unnið að fleiri verkefnum en hið skriflega umboð sóknaraðila bar beinlínis með sér, þ. á m. verkefnum er tengdust fyrirtæki sóknaraðila Jóhanns. Upplýsingar eru þó mjög af skornum skammti um þessi verkefni varnaraðila. Af hálfu sóknaraðila hafa ekki verið gerðar aðrar athugasemdir við upptalninguna en þær að þar séu settar fram ýmsar „fabúleringar“.

II.

Verkefni þau, sem varnaraðila voru falin, virðast hafa verið unnin í samráði og samvinnu við sóknaraðila. Þá ber ein útprentun tímaskýrslu varnaraðila með sér að hún hafi verið send sóknaraðila J í lok október 2002 ásamt orðsendingu varnaraðila til hans um verkefnið. Í orðsendingunni var leitað eftir leiðbeiningum J um hvert ætti að senda reikninginn auk þess sem þar kom fram útreikningur reikningsfjárhæðar. Að fengnum þessum upplýsingum virðist reikningurinn hafa verið gefinn út og inn á hann greitt þann 2. desember 2002. Í þessum samskiptum virðast engar athugasemdir hafa verið gerðar af hálfu sóknaraðila um störf varnaraðila og grundvöll reikningsins.

Að öllu framangreindu virtu telur nefndin ekki forsendur til að skera niður áskilda þóknun varnaraðila samkvæmt fyrri reikningi hans.

Varnaraðili hélt áfram störfum fyrir sóknaraðila í nóvember 2002 og janúar 2003, þ. á m. vegna nauðungarsölu á íbúð þeirra. Nær síðari reikningurinn til þeirrar vinnu. Tímaskýrsla varnaraðila með síðari reikningnum gefur ekki tilefni til athugasemda, að mati úrskurðarnefndar.

 Samkvæmt framangreindu ber sóknaraðilum að greiða varnaraðila það sem á vantar fullnaðargreiðslu á fyrri reikningi hans, 86.150 krónur, svo og síðari reikninginn, 74.700 krónur, eða alls 160.850 krónur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Sóknaraðilar, J og T, greiði varnaraðila, A, hdl., in solidum 160.850 krónur.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA