Mál 10 2008

Ár 2009, mánudaginn 9. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2008:

 

L ehf.

gegn

M, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 27. maí 2008 frá N, hrl., fyrir hönd L ehf., kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum M, hdl., kærða, í tengslum við innheimtumál sem rekið var gegn skuldara í heimabyggð kærða. Eftir ítrekuð tilmæli úrskurðarnefndar sendi kærði greinargerð sína um málið þann 11. maí 2009. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerð kærða en engar athugasemdir bárust frá honum.

Málsatvik og málsástæður.

 

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að á árinu 2006 fól kærandi lögmanni sínum í Reykjavík að innheimta reikningskröfu á hendur viðskiptavini, sem var með aðsetur á Þ. Stefna var gefin út í október 2006 til þingfestingar x. nóvember sama ár. Lögmaður kæranda fór þess á leit við kærða að hann tæki að sér að mæta fyrir Héraðsdómi Z til þess að þingfesta málið. Kærði mætti við þingfestinguna og síðan tvisvar við síðari fyrirtökur málsins, en stefndi óskað eftir fresti til að skila greinargerð í því. Málið var dómtekið x. febrúar 200x, án þess að greinargerð hefði verið skilað í því.

Stefnan var árituð um aðfararhæfi þann 5. mars 2007 og aðfararbeiðni var útbúin þann 7. júní 2007. Við aðfarargerð þann 2. júlí 2007 hjá sýslumanninum á Þ mætti kærði fyrir hönd gerðarbeiðanda og var að hans ábendingu gert fjárnám í fasteign gerðarþolans á Þ. Kærði lét ekki þinglýsa fjárnáminu en sendi frumrit þess til lögmanns kæranda í Reykjavík.

Endirriti fjárnámsins var þinglýst þann 3. september 2007. Skömmu áður, eða þann 15. ágúst 2007 var fasteignin seld fyrir milligöngu fasteignasölu kærða og var kaupsamningnum þinglýst 27. ágúst 2007. Þinglýsingarstjóri ritaði athugasemd á fjárnámsendurritið um kaupsamninginn. Haft var samband við kærða vegna þessa og upplýsti hann þá að kaupverðið fyrir fasteignina væri að fullu greitt og að búið væri að millifæra til seljandans, gerðarþola, þann hluta kaupverðsins sem var umfram áhvílandi veðkröfur, um 3 milljónir króna.

Bú skuldarans, gerðarþola, var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði þann x. desember 200x. Kröfu kæranda var lýst í þrotabúið en skiptum lauk þann x. mars 200x án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.

II.

Kærandi krefst þess að viðurkennt verði að kærði hafi með háttsemi sinni gert á hlut kæranda í skilningi 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998. Þá krefst kærandi þess að kærða verði gert að greiða sér málskostnað fyrir úrskurðarnefndinni, að mati nefndarinnar.

Kærandi heldur því fram að kærði hafi valdið sér tjóni með störfum sínum og að hann hafi brotið gegn þeim skyldum sem á honum hvíla samkvæmt lögmannalögum, nr. 77/1998, og samkvæmt siðareglum lögmanna. Vísar kærandi í þessu sambandi til 22. gr. lögmannalaga og 9. og 2. mgr. 11. gr. siðareglnanna.

Kærandi heldur því fram að kærði hafi áður sinnt lögmannsstörfum fyrir skuldarann og að hann hafi meðal annars fyrir hönd skuldarans stefnt kæranda til greiðslu kröfu. Það mál hefði síðan verið fellt niður þar sem krafan hefði verið greidd. Kveður kærandi sig og kærða hafa lent í orðaskaki í dómsal vegna þessa máls. Þá heldur kærandi því fram að kærði hafi aðstoðað fyrirsvarsmann skuldarans vegna fjármála þess félags.

Kærandi kveðst hafa, í ábyrgðarbréfi þann 26. október 2007, beðið kærða að senda afrit allra ganga vegna sölu fasteignar skuldara, en þeirri beiðni hefði ekki verið sinnt. Þá hafi kærði ekki sinnt ítrekuðum skilaboðum, þegar reynt var að ná sambandi við hann til að freista þess að leysa málið.

Kærandi telur að kærða hafi borið að upplýsa sig og lögmann sinn um það að hagsmunir kæranda kynnu að rekast á hagmuni annars umbjóðanda kærða, þ.e. skuldarans. Kærandi telur að með því að annast sölu á fasteign skuldarans og látið kaupsamningsgreiðslur fara fram án þess að upplýsa kaupanda eða seljanda um hið óþinglýsta fjárnám, sem hann sjálfur hefði haft milligöngu um að gert var í fasteigninni, hafi kærði ekki lagt til sölunnar það sem hann vissi sannast, sbr. 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna. Með því að upplýsa ekki lögmann kæranda um kaupsamninginn, áður en honum var þinglýst, eða í það minnsta áður en greiðslur fóru fram, verði að telja að kærði hafi brotið gegn 2. mgr. 25. gr. siðareglna lögmanna. Háttsemin hafi einnig farið í bága við 18. gr. lögmannalaga og hafi kærði á þann hátt gert á hlut kæranda í skilningi 27. gr. laganna.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar krefst kærði þess að verða sýknaður af öllum kröfum kæranda. Þá krefst kærði þess að kæranda verði gert að greiða sér málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærði kveðst hafa mætt fyrir lögmann kæranda í dómsmáli hans gegn skuldaranum og síðar við fjárnámsgerð vegna sömu kröfu. Kærði kveðst hafa mætt við fjárnámsgerðina vegna beiðni frá lögmanni kæranda í tölvupósti þann 29. júní 2007, en fjárnámsgerðin átti þá að fara fram x. júlí 200x. Kærði kveður fjárnámsgerðina hafa farið fram, eins og um hafi verið beðið, og þann 6. júlí hafi hann sent reikning til lögmanns kæranda vegna mætingarinnar ásamt fjárnámsendurritinu. Ekki hafi verið beðið um að kærði legði fjárnámsendurritið inn til þinglýsingar og því hafi það ekki verið gert.

Kærði kveður forsvarsmenn skuldarans og annars fyrirtækis hafa leitað til sín þann 15. ágúst 200x og beðið sig um að ganga frá kaupsamningi vegna fasteignar skuldarans. Þetta hafi verið seinnipart dags, svo seint að ekki hafi gefist tími til að afla nákvæmra upplýsinga um stöðu áhvílandi veðskulda og lögveða. Það hafi því verið ákveðið að kaupandinn greiddi kaupverðið til lögmannsstofu kærða, jafnframt því sem kærða var falið að ráðstafa kaupverðinu til greiðslu áhvílandi veðskulda og lögveða og greiða seljanda eftirstöðvarnar. Þetta hafi gengið eftir og kaupsamningi hafi verið þinglýst þann 27. ágúst 2007.

Kærði kveður tvo starfsmenn lögmanns kæranda hafa haft samband við sig í september 2007. Annar þeirra hafi lýst fyrir sér og ritara sínum að fjárnámsendurritið hafi mislagst á lögmannsstofunni og farist hefði fyrir að senda það til þinglýsingar. Hafi starfsmaðurinn verið miður sín vegna þessara mistaka, sem hafi virst vera að valda kæranda tjóni. Af þeim sökum hafi verið farið fram á það við kærða að hann beitti sér fyrir því að skuldarinn greiddi kröfu kæranda. Kærði kveðst hafa rætt við skuldarann nokkrum sinnum og þrýst á að hann greiddi kröfuna til kæranda. Hafi skuldarinn sagst vera í viðræðum við kæranda og lögmann hans um skuldina og hún yrði greidd með vinnuvél. Kærði kveðst ekki hafa haft frekari afskipti af þessu og kveðst ekki vita hvort þetta gekk eftir.

Kærði kveður samskipti sín við hinn starfsmann lögmanns kæranda fyrst hafa snúist um að reyna að fá skuldarann til þess að greiða skuld sína við kæranda. Síðar hafi þessi starfsmaður fundið að því að kærði hefði gengið frá kaupsamningi um fasteign skuldarans. Hafi starfsmaðurinn viljað fá afrit allra gagna vegna sölu fasteignarinnar en kærði kveðst hafa litið svo á að sér væri óheimilt að verða við þeirri beiðni. Niðurstaðan hafi orðið sú að starfsmaðurinn hafi ætlað fá afrit kaupsamnings og/eða afsals hjá sýslumanni. Kærði kveður starfsmanninn hafa þrýst mjög á sig um að sjá til þess að skuldarinn greiddi skuld sína við kæranda, ella yrði kærði kærður til úrskurðarnefndar lögmanna. Kærði kveðst hafa reynt að aðstoða í málinu en án árangurs.

Kærði, sem kveðst vera löggiltur fasteignasali auk þess að vera lögmaður, kveður helstu rök kæranda vera þau að fasteignasali væri skyldugur til þess að gæta að óþinglýstum réttindum við sölumeðferð. Kærði kveðst hafa í samtölum við lögmannsstofuna lýst því yfir að hann hefði ekki munað eftir umræddu fjárnámi þegar kaupsamningurinn var gerður og því síður áttað sig á því að skuldin væri ógreidd. Þá kveðst kærði hafa lýst því yfir að hann teldi skyldu fasteignasalans til þess að gæta að óþinglýstum réttindum einungis ná til þess að athuga hvort einhver lögveð hvíldu á fasteign, en skyldan næði ekki til þess að athuga hvort óþinglýst samningsveð eða fjárnám hvíldu á eigninni. Þá kveðst kærði hafa lýst því yfir að hann teldi skyldu fasteignasalans lúta að því að tryggja hagsmuni kaupandans en ekki hagsmuni fjárnámshafa sem ekki hefði tryggt réttindi sín með þinglýsingu.

Kærði kveðst hafa fengið skriflega beiðni frá lögmanni kæranda um að mæta við fjárnámsgerð, en þar hafi verið skýr fyrirmæli um andlag. Ekkert hafi verið rætt um þinglýsingu og því síður um greiðslu þinglýsingarkostnaðar. Kærði telur sér hafa verið rétt að líta svo á að þess hefði ekki verið óskað, heldur hefði sér borið að senda fjárnámsendurritið óþinglýst til lögmanns kæranda. Kærði telur raunar mega fullyrða að mætingaþjónustu sinni við fjárnámsgerðir fylgi ekki þinglýsingarumsýsla, nema þess sé sérstaklega óskað. Kærði telur að í þessu tilviki hafi sérstök ástæða verið til að halda að aldrei kæmi til þinglýsingar þar sem fyrir hafi legið að forsvarsmaður skuldarans ætlaði að greiða kröfuna sama dag og fjárnámsgerðin fór fram.

Kærði bendir á að þinglýsa þarf fjárnámi til þess að öðlast veðrétt í eign. Fjárnámi kæranda í eign skuldarans hefði ekki verið þinglýst og því hefði það ekki hvílt á henni. Kærði telur sér hvorki hafa verið heimilt né skylt að horfa til þess þegar eignin var seld. Umboð sitt til þess að selja eignina hafi tekið til þess að greiða upp áhvílandi veðskuld við Ö, auk fasteignagjalda, gatnagerðargjalda og brunatryggingariðgjalda. Kærði telur jafnframt að þrátt fyrir að kaupverðið hafi runnið gegnum fasteignasölu sína hafi sér ekki verið heimilt að halda eftir fé vegna hins óþinglýsta fjárnáms.

Kærði bendir á að þegar gengið var frá skjölum vegna sölu fasteignarinnar hafi hann ekki verið með það í huga að gert hafði verið fjárnám í eigninni. Kærði kveðst mæta við fjárnámsgerðir um það bil tvisvar í mánuði, auk þess að mæta við fyrirtökur í nauðungarsölumálum og á dómþingum. Kærði kveður sýslumanninn á Þ hafa tekið fyrir 47 mál þann dag sem fjárnámið var gert vegna kröfu kæranda og hafi kærði mætt í talsverðum hluta þeirra mála. Kærði kveður starfsmenn á lögmannsstofu sinni annast undirbúning og frágang vegna mætingaþjónustu sinnar. Sjálfur fari hann með lista í fyrirtökurnar. Kærði telur fráleitt að einstök mál og afgreiðsla þeirra séu manni í huga á öðrum vettvangi einum og hálfum mánuði síðar. Það sé einfaldlega ekki hægt að gera slíkar kröfur til mætingalögmanna.

Þá bendir kærði á að það hafi legið í loftinu, þegar hann var beðinn um að mæta við fjárnámsgerðina, að skuldarinn væri að fara að borga. Því hefði verið eðlilegt að ætla að það hefði verið skýringin á því að fjárnámið var ekki að finna á veðbókarvottorði vegna eignarinnar.

Kærði kveður réttarsamband sitt og lögmanns kæranda vegna þessa máls hafa varað frá 29. júní til verkloka 2. júlí 200x. Um ódýrt viðvik hafi verið að ræða, líklega það smávægilegasta sem lögmaður tæki að sér. Ekki hafi verið um hagsmunaárekstur að ræða í málinu.

Kærði vísar því á bug að sér hafi borið að upplýsa kaupanda og seljanda fasteignarinnar um hið óþinglýsta fjárnám. Og jafnvel þótt hann hefði munað eftir fjárnáminu og vitað að skuldin væri ógreidd, þá hefði kaupanda ekki komið þetta neitt við og seljanda hefði átt að vera kunnugt um fjárnámsgerðina, meðal annars vegna tilkynningarskyldu sýslumanns samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Ef um brot gegn þessum aðilum hefði verið ræða, þá væri minnt á að þeir væru ekki að kvarta til úrskurðarnefndar lögmanna.

Niðurstaða.

 

Kærandi telur kærða hafa brotið gegn 18. og 22. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, og þar með í störfum sínum gert á hlut kæranda, sbr. 27. gr. laganna. Þá telur kærandi kærða hafa brotið gegn 2. mgr. 1. gr., 9. gr., 2. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 25. gr. siðareglna lögmanna.

I.

Kærandi heldur því fram að kærði hafi ekki sinnt ítrekuðum beiðnum sínum um afhendingu gagna er vörðuðu sölu fasteignar skuldara. Þá hafi kærði ekki sinnt ítrekuðum skilaboðum, en ekki er gerð nánari grein fyrir þessu umkvörtunaratriði í erindi kæranda. Í greinargerð kærða er lýst samskiptum hans við starfsmenn lögmanns kæranda, þar á meðal vegna þeirrar afstöðu kærða að afhenda ekki gögn vegna sölunnar en benda lögmanni kæranda þess í stað á að afla sér gagna frá sýslumanninum á Þ. Lýsing kærða á samskiptunum við lögmannsstofuna hefur ekki sætt andmælum eða athugasemdum af hálfu kæranda. Úrskurðarnefnd lögmanna gerir ekki athugasemdir við háttsemi kærða í þessum samskiptum, eins og henni er lýst fyrir nefndinni, og telur ekki felast í henni brot kærða á starfsskyldum sínum samkvæmt lögmannalögum eða siðareglum lögmanna.

II.

Kærandi heldur því fram, með vísan til 22. gr. lögmannalaga og 9. og 2. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna, að kærða hafi borið skylda til að upplýsa sig eða lögmann sinn um það að hagsmunir sínir kynnu að rekast á hagsmuni annars umbjóðanda kærða, skuldarans í þessu máli.

Kærandi fól lögmanni sínum að innheimta kröfu á hendur skuldara. Lögmaður kæranda bað kærða um að mæta fyrir sig á reglulegu dómþingi við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Austurlands og á síðari dómþingum í lok greinargerðarfresta. Þá bað lögmaðurinn kærða um að mæta fyrir sig við fjárnámsgerð þann x. júlí 200x. Sinnti kærði þeirri beiðni og var fjárnám gert í fasteign skuldara, samkvæmt ábendingu lögmanns kæranda í tölvupósti starfsmanns hans þann 29. júní 200x til kærða. Í sama tölvupósti var þess getið að skuldarinn hefði lofað að greiða inn á kröfuna sama dag og fjárnámið færi fram. Kærði gerði lögmanni kæranda reikning þann 6. júlí 200x vegna mætingar sinnar við fjárnámið, en sjálfur telur hann verklok hafa orðið sama dag og fjárnámsgerðin fór fram, x. júlí 200x.

Úrskurðarnefnd lögmanna telur að á kærða hafi hvílt sú skylda að sjá til þess að hagsmuna kæranda yrði gætt við fjárnámsgerðina, innan marka þeirra fyrirmæla sem kærði fékk frá lögmanni kæranda. Verkefni kærða lauk með fjárnámsgerðinni og liggur ekki fyrir að honum hafi verið falið að gæta frekar hagsmuna kæranda í málinu.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að kærði hafi áður unnið fyrir skuldarann við innheimtu kröfu gagnvart sér, en það mál mun meðal annars hafa verið rekið fyrir héraðsdómi. Ekkert liggur fyrir um það hvenær það verk var unnið eða hvenær því lauk. Ekkert liggur fyrir um að það verkefni tengdist á einhvern hátt beiðni lögmanns kæranda um að kærði mætti fyrir sig við fjárnámsgerðina. Það er því mat úrskurðarnefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að á þessu tímamarki hafi einhver atvik legið fyrir sem gerðu kærða vanhæfan til þess að mæta fyrir lögmann kæranda við fjárnámsgerðina eða að hætta hafi verið á hagsmunaárekstri vegna þess verkefnis, sbr. 2. mgr. 22. gr. lögmannalaga og 9. og 2. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna.

III.

Kærandi heldur því fram að kærði hafi brotið gegn 2. mgr. 25. gr. siðareglna lögmanna með því að upplýsa lögmann sinn ekki um söluna á fasteigninni áður en kaupsamningnum var þinglýst, eða í það minnsta áður en hann lét greiðslur fara fram. Þá heldur kærandi því fram að kærði hafi brotið gegn 2. mgr. 1. gr. siðareglnanna með því að annast sölu eignarinnar og láta greiðslur fara fram án þess að upplýsa kaupandann eða seljanda um hið óþinglýsta fjárnám, en með þessu hafi kærði ekki lagt til sölunnar eins og hann vissi sannast.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. siðareglnanna skulu lögmenn sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings.

Samkvæmt lýsingu kærða leituðu eigandi fasteignarinnar og væntanlegur kaupandi til hans þann 15. ágúst 200x og óskuðu eftir liðsinni hans við að ganga frá sölu eignarinnar. Voru þá liðnar tæplega 6 vikur frá því fjárnámsgerðin fór fram. Um tveir mánuðir liðu frá því fjárnámið var gert og þar til fjárnámsendirritinu var þinglýst á fasteignina. Kaupsamningnum var þinglýst á eignina í millitíðinni. Hið nýja verkefni fól í sér skjalafrágang vegna sölu eignarinnar og ráðstöfun kaupverðsins á þann hátt að hagsmunir kaupandans yrðu tryggðir. Greiddar voru upp áhvílandi veðkröfur samkvæmt veðmálabókum og lögveðskröfur, en andvirði kaupverðs rann að öðru leyti til seljandans.

Tengsl kærða við rekstur innheimtumálsins gegn skuldaranum voru bundin við mjög afmarkaðan þátt verksins. Það er mat nefndarinnar að við þessar aðstæður hafi ekki skapast víðtækari skyldur á kærða en þær sem lutu að því að sjá um mætingu við fjárnámsgerðina og að senda endurritið til lögmanns kæranda.

Nefndin getur því ekki fallist á það með kæranda að kærði hafi brotið gegn 2. mgr. 25. gr. siðareglnanna, með því að upplýsa hvorki hann né lögmann hans um sölu eignarinnar, sem fór fram mörgum vikum eftir fjárnámsgerðina. Þá telur nefndin ekkert benda til þess að kærði hafi brotið gegn 2. mgr. 1. gr. siðareglnanna á þann hátt sem kærandi telur, þ.e. með því að hafa ekki veitt kaupanda og seljanda fasteignarinnar fullnægjandi upplýsingar til þess að kaupin gætu farið fram.

IV.

Samkvæmt framangreindu telur úrskurðarnefnd lögmanna kærða ekki hafa brotið gegn 18. og 22. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 og 2. mgr. 1. gr., 9. gr., 2. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 25. gr. siðareglna lögmanna og þar með gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. gr. lögmannalaga.

Það athugist að lögbundið valdsvið úrskurðarnefndar lögmanna nær til starfa kærða sem lögmanns en ekki vegna starfa hans sem fasteignasala.

V.

Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli úrskurðarnefndar til kærða, um að hann skilaði greinargerð sinni um málið til nefndarinnar, liðu margir mánuðir þar til greinargerðin loks barst nefndinni. Er sú háttsemi kærða aðfinnsluverð og felur í sér brot á 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, M, hdl., hefur í störfum sínum við framkvæmd fjárnámsgerðar vegna fjárkröfu kæranda, L ehf., og við sölu fasteignar skuldarans, ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

 Dráttur kærða á að gera úrskurðarnefnd lögmanna grein fyrir máli sínu vegna erindis kæranda er aðfinnsluverður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA