Mál 19 2008

Ár 2009, mánudaginn 9. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2008:

 

T

gegn

U, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 7. október 2008 frá T kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum U, hrl., kærða, við málshöfðun í landskiptamáli og uppgjör bóta frá V. Greinargerð kærða barst nefndinni 6. janúar 2009. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð kærða í bréfum, dags. 29. janúar og 16. febrúar 2009. Kærða var gefinn kostur á að tjá sig frekar um málið, með fresti til 19. mars 2009, en engar frekari athugasemdir bárust frá honum.

Málsatvik og málsástæður.

 

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að á árinu 1993 varð kærandi eigandi að 1/7 hluta jarðarinnar A á B í C, á móti systkinum sínum og mágkonu. Byggðist eignarhaldið á fyrirframgreiddum arfi foreldra kæranda.

Þann 13. ágúst 2000 veitti kærandi bróður sínum, D, umboð til þess að annast og ganga frá fyrir sína hönd skiptum á landi milli jarðanna A og Þ í C. Meðeigendur kæranda að jörðinni A veittu D samhljóða umboð dagana 14. og 15. ágúst 2000.

Vegna fyrirhugaðra vegaframkvæmda samdi V þann 1. desember 2000 við eigendur A og Þ um nýja legu Xvegar, þ.e. um vegstæðið og efnistöku úr námu, gegn tilgreindum bótum. Hið nýja vegstæði átti meðal annars að liggja um land sem var í óskiptri sameign jarðanna tveggja. Heildarbætur áttu að nema 1.092.100 krónum. Undir samninginn ritaði bróðir kæranda, D, fyrir hönd eigenda A.

Eigendur A gerðu eignaskiptasamning þann 25. júní 2001, þar sem kærandi fékk í sinn hlut tilgreinda landspildu úr jörðinni en meðeigendur hennar voru áfram eigendur jarðarinnar óskiptrar að öðru leyti. Ekki liggur fyrir hvort þessi landspilda var gerð að sérstakri fasteign, með eigin landnúmeri, en þessi spilda var ekki málsett og flatarmál hennar var ekki reiknað út og skráð. Í eignaskiptasamningnum var ekki tekin afstaða til réttinda kæranda til hins óskipta lands, sem samningurinn við V náði til.

Þegar kom að uppgjöri bóta frá V kom upp ágreiningur milli eigenda A og Þ um skiptingu fjárins. Laut ágreiningurinn að hlutdeild hvorrar jarðar um sig í hinu óskipta landi þeirra, sem þjóðvegurinn lá um. Reynt var að leysa ágreininginn fyrir landskiptanefnd, sem skipuð var, án árangurs. Af því tilefni var þess freistað af hálfu eigenda A að fá dómsviðurkenningu fyrir kröfum sínum um það í hvaða hlutföllum landinu skyldi skipt. Dómsmálið var höfðað fyrir Héraðsdómi T þann x. nóvember 200x en með úrskurði, uppkveðnum x. febrúar 200x, var málinu vísað frá dómi vegna vanreifunar. Stefnendur kærðu þann úrskurð til Hæstaréttar Íslands sem þann x. mars 200x staðfesti frávísunina með vísun til forsendna héraðsdóms.

Dóm Hæstaréttar Íslands bar fyrir augu kæranda í lok júlí 200x. Af því tilefni leitaði kærandi strax til kærða og óskaði upplýsinga um málið, meðal annars um það hvar hann hefði fengið umboð frá sér til málarekstursins. Kveður kærandi kærða hafa neitað að tjá sig um málið á nokkurn hátt. Kærandi leitaði einnig upplýsinga um málið frá bróður sínum, D, en kveðst ekki hafa fengið nein svör frá honum.

Í nóvember 2007 ræddi kærandi við D, bróður sinn, um málið, þar á meðal um uppgjör bótanna frá V. Kveðst kærandi þá hafa fengið upplýst að búið væri fyrir löngu að greiða bæturnar en þær hefðu nánast allar runnið upp í lögfræðikostnað. Í lok febrúar 2008 hafði kærandi enn samband við kærða og ræddi meðal annars umboðsleysi hans til að reka dómsmálið fyrir sína hönd og uppgjör bótanna frá V. Kveður kærandi kærða hafa neitað að láta sig fá uppgjör en hann hafi ætlað að senda sér umboðið til málarekstursins. Umboðið hafi enn ekki borist.

II.

Kærandi krefst þess að kærði verði áminntur en til vara að honum verði veitt aðfinnsla. Þess er einnig krafist að kærða verði gert að greiða kæranda 111.503 krónur með dráttarvöxtum frá 10. ágúst 2006 til greiðsludags. Þá er þess krafist að kærða verði gert að greiða kæranda málskostnað vegna lögfræðiaðstoðar við innheimtu kröfunnar og vegna meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefndinni, alls 88.239 krónur.

Kærandi heldur því fram að kærði hafi ekki haft málsóknarumboð frá sér til höfðunar dómsmálsins um landskiptin. Kærði hafi einungis haft undir höndum umboð kæranda til D, sem hafði „fullt umboð til að annast og ganga frá [fyrir hönd kæranda] skiftum á landi, milli jarðanna A og Þ í C”. Telur kærandi að vegna sérgreiningar á eignarhluta sínum í jörðinni hafi hún ekki verið lengur í óskiptri sameign. Því hafi kærandi ekki lengur átt lögvarða hagsmuni af málinu. Kveðst kærandi hafa verið miður sín yfir að nafn sitt hefði verið notað á þennan hátt án sinnar vitundar.

Kærandi kveðst viðurkenna að sér hafi verið kunnugt um hæstaréttardóminn í lok júlí 200x og því megi velta fyrir sér hvort liðinn sé ársfresturinn til þess að skjóta málinu til nefndarinnar. Kærandi kveðst ekki hafa fengið skýringar frá kærða, þegar leitað var eftir þeim, fyrr en 6. júlí 2008, en þá hafi kærði gert grein fyrir því á hvaða grundvelli málsóknarumboðið væri reist. Tómlæti kærða á því að gera hreint fyrir sínum dyrum ætti ekki að valda því að kærandi fyrirgerði rétti sínum til að kvarta til úrskurðarnefndarinnar.

Kærandi telur að krafa sín á hendur V eigi rætur sínar í samningnum þann 1. desember 2000 og hún hafi því stofnast áður en eignarhluti kæranda í jörðinni var sérgreindur. Kveðst kærandi þannig vera réttilega að greiðslum frá Vegagerðinni komin. Þótt komið hafi í ljós að kærði hafi umboðslaus samið við V um fullnaðarbætur og gert reikning á kæranda vegna þess, kveðst kærandi láta það liggja milli hluta fái hún hlut sinn í bótunum greiddan auk vaxta og málskostnaðar. Kærandi kveður kærða hins vegar ekki hafa skilað sér fjármunum, heldur tekið þá upp í reikning þar sem kærandi var ekki verkbeiðandi. Kærði gæti hugsanlega hafa borið fyrir sig gáleysi, þar til nú, að málavextir væru ljósir og búið væri að vekja athygli hans á þeim. Engur síður þverskallist hann við að skila fjármununum og héldi fast við að ráðstafa þeim upp í reikningsskuld sem hann augljóslega gæti ekki krafið kæranda um. Kveðst kærandi telja þetta varða kærða áminningu.

Kærandi kveður kröfu sína um greiðslu höfuðstóls byggjast einfaldlega á því að fjármunum hafi borið að skila til sín og að kærði hefði ekki ráðstafað þeim með lögmætum hætti. Krafan hafi gjaldfallið í síðasta lagi 10. ágúst 2006 þegar kærði hafi ráðstafað peningnum upp í málskostnað samkvæmt reikningi nr. 429 og afhent systur kæranda, R, umboðslausri, afganginn af peningunum.

Um dráttarvexti vísar kærandi til 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur. Að því er málskostnaðarkröfu sína varðar bendir kærandi á að löng venja sé fyrir því að kröfuhafi eigi rétt á að fá bættan kostnað sinn við innheimtu fjárkröfu. Þetta gildi óháð því hvort úrskurðarnefndin ákveði málskostnað sérstaklega vegna meðferðar málsins fyrir nefndinni. Kveðst kærandi telja nefndina bæra um að fjalla um innheimtukostnað, í ljósi þess að meðferð málsins fyrir nefndinni hafi lidins pendens verkanir gagnvart dómstólum. Því hljóti nefndin að fjalla um slíka kröfu á hendur kærða.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar krefst kærði þess að kvörtun og kröfum kæranda verði vísað frá. Þá krefst kærði þess að kröfum kæranda um áminningu, aðfinnslu og peningagreiðslur, verði hafnað. Loks krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Frávísunarkröfu sína styður kærði þeim rökum að samkvæmt 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir nefndinni verði erindi til nefndarinnar að hafa borist nefndinni eigi síðar en ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við hana. Kærandi hafi í lok júlí 200x rekist á nafn sitt í dómi Hæstaréttar Íslands og hafi farið að athuga málið þá. Kæranda hafi þannig gefist kostur á að koma erindi sínu til nefndarinnar á þeim tíma. Þannig hafi liðið liðlega 3 ár frá þessari vitneskju og þar til kvörtun barst. Því beri að vísa málinu frá. Kærði mótmælir því sem röngu að hann hafi neitað að tjá sig um málið við kæranda. Þegar fram hafi komið í máli kæranda að dómsmálið hefði verið höfðað í hennar óþökk þá hefði verið vísað á D, sem hefði komið fram fyrir hönd eigenda jarðarinnar, meðal annars á grundvelli umboðs frá kæranda.

Kærði telur að bróðir kæranda, D, hafi haft fullnægjandi umboð til þess að leiða til lykta ágreininginn um landskiptin, þar með talið umboð til málshöfðunar. Telur kærði sig ekki hafa farið út fyrir það umboð. Þá hafi umboð kæranda til bróður síns ekki falið í sér neina fyrirvara og það hafi ekki verið afturkallað. Kærði telur kæranda hafa verið réttan málsaðila. Spilda sú, sem eignaskiptasamningur kæranda við meðeigendur sína snerist um, hafi ekki verið klofin út úr jörðinni, heldur aðgreind frá öðrum hlutum hennar. Virðist bróðir kæranda hafa litið svo á að kærandi væri enn einn eigenda jarðarinnar. Það hafi verið metið svo að kærandi ætti samaðild að málinu ásamt öðrum eigendum A. Hvorki héraðsdómur né Hæstiréttur hafi gert athugasemdir við málsaðildina sóknarmegin. Kærði bendir ennfremur á að eignarhluti kæranda úr jörðinni hefði ekki verið málsettur og að flatarmálið hefði ekki verið reiknað út. Kveðst kærði ekki hafa haft neina ástæðu til að efast um að eignarhaldið að jörðinni A hafi verið annað en lýst hefði verið.

Kærði mótmælir því að það varði hann áminningu eða aðfinnslu fyrir misgjörðir í starfi þegar hann í góðri trú hefði tilgreint kæranda sem málsaðila í stefnu dómsmálsins. Málshöfðunin hefði verið ákveðin í samráði við bróður kæranda, en kærði telur hann hafa haft fullt umboð jarðeigendanna til þess að annast og leiða til lykta ágreininginn um skipti hins umdeilda lands.

Að því er varði b-liðinn í málatilbúnaði kæranda þá sé það rétt að samningurinn við V hafi verið gerður árið 2000 en eignaskiptasamningurinn um jörðina hafi verið gerður á árinu 2001. Í eignaskiptasamningnum hafi ekki beinlínis verið tekið á því hvernig fara skyldi með efnistökubæturnar frá V. Þó segi þar að aðilar skyldu hirða arð af sínum eignarhlutum frá skiptum jarðarinnar. Hlutdeild kæranda hafi þannig verið 1/7 hluti af 106.610 krónum, eða 15.230 krónur, eins og fram komi í uppgjöri til systur kæranda þann 10. ágúst 2006.

Kærði bendir á að ekki sé uppi ágreiningur um vinnuframlag sitt eða fjárhæð reikninga, heldur aðeins að kæranda hafi ekki borið að greiða reikninginn þar sem hún hefði ekki verið réttur aðili að dómsmálinu. Yrði fallist á sjónarmið kæranda um aðildarskort þá hefði henni borið 1/7 hluti af bótunum frá V, þ.e. af 838.902 krónum, eða 119.843 krónur. Hins vegar næmi krafa kæranda 111.503 krónum vegna þessa og yrði krafan því ekki hærri að höfuðstóli en krafist hefði verið. Telur kærði að kröfu þessari ætti fyrst að beina að eigendum A.

Kærði hafnar málskostnaðarkröfu kæranda þar sem hún hefði getað og hefði átt að leggja kvörtun sína fyrir úrskurðarnefndina innan ársfrestsins, sem hefði tekið að líða á miðju ári 2005. Að öðru leyti yrði kærandi að bera kostnað sinn sjálf, þ. á m. málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærði styður sína eigin málskostnaðarkröfu þeim rökum að málið sé orðið gamalt, tilefnislaust og að kærandi hafi sýnt af sér mikið tómlæti við að halda fram meintum rétti sínum.

IV.

Í athugasemdum sínum við greinargerð kærða til nefndarinnar ítrekar kærandi sjónarmið sín um að aðild sín að dómsmálinu um landskiptin hafi verið óþörf og telur að vegna eignaskiptasamningsins hafi hún ekki lengur verið eigandi að óskiptu landi jarðanna A og Þ. Einnig eru ítrekuð sjónarmið um að kærði hafi ekki haft umboð kæranda til þess að semja við V, að taka við fjármunum fyrir hönd kæranda og til að ráðstafa peningunum með þeim hætti sem gert var.

Niðurstaða.

 

I.

Kærði heldur því fram að erindi kæranda sé ranglega beint gegn sér og því beri að hafna kröfum kæranda vegna aðildarskorts síns. Á þetta sjónarmið fellst nefndin ekki. Kærði tók að sér að gæta hagsmuna eigenda A í landskiptamáli gagnvart eiganda Þ. Kærandi var einn umbjóðenda hans í því máli. Þá tók kærði að sér að annast bótauppgjör við V, en gögn málsins bera með sér að kærandi hafi eða geti hafa átt þar nokkurra hagsmuna að gæta. Kærandi telur að kærði hafi í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna og sendi því erindi það til nefndarinnar sem hér er til afgreiðslu. Um aðildarskort kærða getur því ekki verið að ræða að mati nefndarinnar, jafnvel þótt hann hafi sinnt tveimur verkefnum fyrir milligöngu tveggja eigenda A.

II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar telur kærandi að kærði hafi, án umboðs frá sér, höfðað dómsmál í nóvember 2003 fyrir sína hönd og annarra einstaklinga, er tengjast jörðinni A, gegn eiganda jarðarinnar Þ vegna ágreinings um hlutföll jarðanna í óskiptu landi þeirra. Fram kemur í erindinu að kærandi hafi komist að því, í lok júlí 2005, að hún hefði verið aðili dómsmálsins fyrir Héraðsdómi T og fyrir Hæstarétti Íslands.

Samkvæmt lýsingu kæranda á málsatvikum hafði hún strax samband við kærða og tjáði skoðun sína á málinu og vildi fá nánari upplýsingar, þar á meðal um það hvar kærði hefði fengið umboð frá sér til málarekstursins. Kærandi kveður kærða hafa neitað að tjá sig um málið en þess í stað vísað á bróður kæranda, D, um nánari upplýsingar. Kærandi kveðst hafa haft samband við bróður sinn en ekki fengið þá nein svör frá honum um málið.

Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, vísar nefndin kvörtun, sem beint er til hennar, frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Miðað við lýsingu kæranda á málsatvikum telur nefndin að hún hafi átt þess kost að koma erindi sínu, er varðaði málflutningsumboðið eða eftir atvikum skort á umboði, til nefndarinnar innan árs frá því kæranda var kunnugt um aðild sína að dómsmálinu gegn eiganda Þ. Af þeim sökum ber samkvæmt fyrrgreindu ákvæði lögmannalaga að vísa þessum þætti erindisins frá nefndinni.

III.

Þann 7. nóvember 2001 veitti D kærða fullt og óskorað umboð til þess að fara með mál fyrir hönd eigenda A vegna landskiptanna, en sýslumaðurinn á Z-firði hafði þá falið sérstökum matsmönnum að annast landskiptin á grundvelli landskiptalaga nr. 46/1941. Í umboðinu kom fram að D hefði fullt og ótakmarkað umboð frá meðeigendum sínum að A, þar á meðal kæranda, til að annast og ganga frá skiptunum. Á grundvelli þessara umboða var meðal annars rekið dómsmálið fyrir Héraðsdómi T og Hæstarétti Íslands um hlutdeild hvorrar jarðar um sig, A og Þ, í hinu óskipta landi í eigu beggja jarðanna.

Í júní 2006 veitti systir kæranda, R, fyrir sína hönd og annarra skráðra eigenda A, kærða fullt og ótakmarkað umboð til að ganga til uppgjörs við V og taka við bótagreiðslum vegna malarnáms og vegastæðis fyrir þjóðveginn yfir S-heiði úr óskiptu landi A og Þ. Að baki umboði R lágu skrifleg umboð frá öðrum, skráðum eigendum A samkvæmt þinglýsingarvottorði. Kæranda var ekki getið á vottorðinu sem þinglýsts eiganda jarðarinnar.

Þann 10. júlí 2006 undirritaði kærði, fyrir hönd eigenda A samkvæmt umboðinu, samkomulag við V um bótauppgjörið, sem nam 838.902 krónum. Um fullnaðaruppgjör var að ræða. Eftir því sem fram kemur í greinargerð kærða greiddi hann andvirði bótanna, að frádregnum málskostnaði vegna reksturs dómsmálsins gegn eiganda Þ og að frádregnum kostnaði við bótauppgjörið, til R, alls 106.610 krónur, þann 12. júlí 2006.

Þegar bótauppgjörið fór fram voru liðnir um 16 mánuðir frá úrskurði Hæstaréttar í málinu, sem rekið var í því skyni að eyða óvissu um rétta skiptingu hins sameiginlega lands A og Þ, en það var forsenda fyrir því að uppgjörið gæti farið fram. Bótauppgjörið, sem fór fram án athugasemda af hálfu V um aðild í uppgjörinu, var gert í umboði allra þeirra sem í þinglýsingabókum voru skráðir eigendur A. Að mati úrskurðarnefndar er ekki unnt að fullyrða að kærði hafi vitað eða mátt vita að fleiri gætu átt aðild í bótauppgjörinu en þeir sem þinglýsingabækur báru með sér að voru eigendur A. Telur nefndin því ekki að kærði hafi í störfum sínum við bótauppgjörið gert á hlut kæranda.

IV.

Í erindi sínu til nefndarinnar krefst kærandi þess að kærða verði gert að greiða sér 111.503 krónur, með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Byggist krafan á því sjónarmiði kæranda að hún hafi átt rétt til 1/7 hluta bótanna frá V og að kærða hafi borið að skila sér þessum bótum eftir að uppgjör fór fram.

Krafa kæranda er í eðli sínu bótakrafa gagnvart kærða. Kröfunni tengjast ýmis lögfræðileg álitaefni sem, eftir atvikum, leysa ber úr fyrir almennum dómstólum, svo sem um rétt kæranda til hlutdeildar í bótauppgjörinu frá V. Það fellur utan lögbundins valdsviðs nefndarinnar að fjalla um slíka bótakröfu og verður því ekki tekin afstaða til þessarar kröfu kæranda.

V.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Þeim þætti málsins er varðar meintan skort á málflutningsumboði er vísað frá.

Kærði, U, hrl., hefur í störfum sínum fyrir eigendur A að uppgjöri bóta frá V ekki gert á hlut kæranda, T, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA