Mál 8 2008

Ár 2009, fimmtudaginn 12. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2008:

 

R ehf.

gegn

S, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 4. apríl 2008 frá R ehf., kæranda, þar sem þess var krafist að S, hdl., kærðu, yrði gert að endurgreiða kæranda 708.850 krónur auk lögmannskostnaðar og útlagðs kostnaðar. Upphaflegur frestur kærðu til að gera úrskurðarnefndinni grein fyrir afstöðu sinni til erindisins var framlengdur nokkrum sinnum að hennar beiðni vegna heilsufarsástæðna. Lagði hún fram læknisvottorð til stuðnings beiðnum sínum um viðbótarfresti. Greinargerð kærðu barst nefndinni 2. október 2008. Kærandi gerði nokkrar athugasemdir við greinargerðina í bréfi, dags. 28. nóvember 2008. Kærðu var gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdirnar og var henni veittur frestur í þessu skyni til 6. janúar 2009. Kærða tjáði sig ekki frekar um málið.

Málsatvik og málsástæður.

 

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í júlí 2005 tók kærða að sér að gæta hagsmuna T í forsjár- og fjárslitamáli gegn fyrrum sambýliskonu hans. Kærða vann að þessum málum frá ágúst 2005 til loka febrúar 2007, en þá sagði hún sig frá málunum vegna þess að umbjóðandi hennar greiddi ekki áskilda lögmannsþóknun.

Meðan á vinnu kærðu í þágu umbjóðanda síns stóð fékk hún í nokkur skipti greitt upp í verklaun, svo sem nánar er sundurliðað í gögnum málsins. Voru nokkrar greiðslnanna inntar af hendi í nafni umbjóðanda kærðu en nokkrar greiðslur voru inntar af hendi í nafni kæranda. Umbjóðandi kærðu er sonur eiganda kæranda og vann hjá því fyrirtæki.

Ágreiningur aðila fyrir úrskurðarnefndinni snýst um greiðslurnar til kærðu og hvort þær hafi verið inntar af hendi vegna vinnu hennar í þáguT að forsjár- og fjárslitamálunum eða hvort um greiðslu inn á verklaun vegna vinnu í þágu kæranda hafi verið að ræða.

II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar krefst kærandi þess að kærðu verði gert að endurgreiða sér 708.850 krónur. Þá krefst kærandi þess að kærðu verði gert að greiða sér kostnað vegna lögmannsaðstoðar í samskiptunum við kærðu og vegna útlagðs kostnaðar.

Samkvæmt erindi kæranda og gögnum er fylgdu því til nefndarinnar, þar á meðal bréfi U, lögmanns, til kærðu þann 13. september 2007, telur kærandi sig hafa innt af hendi greiðslur til kærðu vegna lögmannsþjónustu, án þess að hafa fengið útgefna reikninga fyrir allri fjárhæðinni. Kveður kærandi þá fjárhæð, sem ekki hafi verið gefnir út reikningar fyrir, nema 708.850 krónum samkvæmt bókhaldi sínu. Krefur kærandi kærðu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Þá krefur kærandi kærðu um greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar, sem hann telur sig hafa þurft að greiða vegna tilrauna við að fá endurgreiðslu frá kærðu. Nemur sá kostnaður 46.688 krónum samkvæmt reikningi U. Ennfremur krefst kærandi þess að kærða greiði sér 50.000 krónur vegna ýmiss útlagðs kostnaðar.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar rekur kærða ítarlega málsatvik, eins og þau líta út frá hennar sjónarhóli. Hún kveður umbjóðanda sinn, T, hafa farið þess á leit að hún gæfi út, honum til hagræðis, reikninga á fyrirtæki föður hans, þ.e. kæranda, sem hann vann hjá. Kveðst kærða hafa talið þá feðga mundu síðan gera þau mál upp sín á milli sem tekjur T frá kæranda. Kveðst kærða hafa fengið samþykki fyrir þessu fyrirkomulagi í símtali við föður T, R, forsvarsmann kæranda.

Kærða kveður hvorki kæranda né X nokkru sinni hafa verið skjólstæðinga sína, hvorki í þeim málum sem hún vann að fyrir T né í öðrum málum.

Kærða kveður umbjóðanda sinn, T, hafa farið fram á að fá að vinna við endurbætur húsnæðis fyrir kærðu persónulega, þar sem hann hafi vantað aukavinnu.

Kærða kveður forsvarsmann kæranda hafa komið á skrifstofu sína þann 13. mars 2007 með reikning að fjárhæð 394.465 krónur, útgefinn af kæranda á nafn lögmannsstofu kærðu. Kærða kveðst hafa mótmælt þeim reikningi umsvifalaust og endursent hann til kæranda, þar sem reikningurinn hefði verið kolrangur, gefinn út af röngum aðila og til rangs aðila. Kærða kveðst síðar hafa fengið sent bréf frá U, lögmanni, haustið 2007, þar sem hún hafi verið krafin um endurgreiðslu 708.850 króna til kæranda.

Kærða krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá þar sem kærandi hafi ekki verið umbjóðandi sinn. Styður kærða kröfu sína við það að samkvæmt lögmannalögum, nr. 77/1998, skeri úrskurðarnefndin úr ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds eða fjárhæðar endurgjalds úr hendi umbjóðanda síns. Kærandi hafi ekki verið umbjóðandi sinn. Kærða vísar einnig til a-liðar 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir nefndinni. Þá vísar kærða til þess að kvörtun kæranda sé órökstudd og ekki studd nauðsynlegum sönnunargögnum, sbr. 1. mgr. 28. gr. lögmannalaga, 1. mgr. 7. gr. málsmeðferðarreglnanna og stjórnsýslulög nr. 37/1993. Loks styður kærða frávísunarkröfu sína við 2. og 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglnanna, en samkvæmt þeim ákvæðum geti nefndin vísað máli frá ef í máli séu sönnunaratriði sem örðugt kunni að vera að leysa úr undir rekstri máls eða mál sé að öðru leyti ekki nægilega upplýst eða ef í máli sé réttarágreiningur sem falli ekki undir valdsvið nefndarinnar.

Kærða krefst þess til vara að úrskurðarnefndin hafni kröfu kæranda um endurgreiðslu hinnar tilgreindu fjárhæðar og byggist varakrafan á sömu málsástæðum og lagarökum og aðalkrafan. Samningssamband sé ekki milli lögmannsstofunnar og kæranda. Þá séu röksemdir og sönnunargögn af hálfu kæranda ófullnægjandi. Það geti ekki hafa stofnast á nokkurn hátt krafa á milli kæranda og kærðu. Kærða kveðst andmæla því sérstaklega að hægt sé að styðjast við einhliða hreyfingalista úr bókhaldi kæranda.

Kærða telur endurgreiðslukröfu kæranda ekki eiga sér neina stoð. Vísar hún til meginreglna kröfuréttar og almennra reglna samningaréttar.

Kærða krefst þess einnig að hafnað verði kröfu kæranda um að henni verði gert að greiða honum lögmannsþóknun Bjarna Haukssonar og kröfu kæranda vegna útlagðs kostnaðar.

Kærða krefst málskostnaðar úr hendi kæranda vegna reksturs máls þessa fyrir úrskurðarnefndinni.

IV.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærðu kveður hann það ekki vera rétt að hann hafi ekki verið skjólstæðingur hennar og sanni útgefnir reikningar hennar það mál. Viðskiptasambandið hafi verið á báða bóga því kærandi hafi unnið við uppsetningu milliveggja fyrir kærðu á árinu 2006 og farið nokkrar flutningsferðir fyrir hana. Reikningur kæranda að fjárhæð 394.465 krónur hafi verið gefinn út vegna þessarar vinnu í þágu kærðu.

Kærandi telur útgáfu reiknings á nafn T sýna óvönduð vinnubrögð kærðu, en um pro forma reikning hafi verið að ræða.

Kærandi telur í framlögðum skjölum kærðu koma fram svo ekki verði um villst að hann hafi verið skjólstæðingur hennar, en meðal gagnanna séu reikningar hennar gefnir út á nafn kæranda.

Kærandi telur kærðu hafa fengið greiddar frá sér og T alls 1.857.000 krónur en reikningar sem hún hafi gefið út á hendur sömu aðilum nemi aðeins 1.148.150 krónum. Því beri henni að greiða sér mismuninn, 708.850 krónur.

Niðurstaða.

 

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga nr. 77/1998. Um hlutverk nefndarinnar er einkum fjallað í 26. og 27. gr. reglnanna. Greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir nefndina, sbr. 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna getur sá, sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefndina kvörtun á hendur lögmanninum. Í 2. mgr. 27. gr. er kveðið á um þau úrræði sem nefndin getur beitt telji hún kvörtun á hendur lögmanni eiga við rök að styðjast. Nefndin getur þannig fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu.

Samkvæmt gögnum sem kærða lagði fyrir nefndina gaf hún út 4 reikninga vegna vinnu sinnar. Þrír reikninganna voru gefnir út á nafn kæranda, samtals að fjárhæð 1.148.150 krónur, og einn á nafn T, að fjárhæð 678.850 krónur, eða alls 1.827.000 krónur. Greiðslur til hennar námu alls 1.499.365 krónum.

Samkvæmt yfirliti kæranda gaf kærða út reikninga að fjárhæð 1.148.150 krónur. Á yfirlitinu er ekki tilgreindur reikningur gefinn út á nafn T, en þar er þó tilgreind greiðsla að fjárhæð 344.385 krónur frá Jóni Þór og 1.118.150 krónur frá kæranda. Með því að bæta eigin reikningi kæranda á hendur kærðu við, að fjárhæð 394.465 krónur, fær hann út upphæðina 1.857.000 krónur en mismunur þeirrar fjárhæðar og reikninganna þriggja eru 708.850 krónur sem er sú fjárhæð sem kærandi krefur kærðu um.

Erindi kæranda lýtur fyrst og fremst að kröfu um að kærðu verði gert að greiða honum 708.850 krónur. Sú fjárhæð er fengin með því að tilgreina greiðslur til hennar frá T og frá kæranda sjálfum auk verklaunareiknings kæranda á hendur kærðu. Til frádráttar koma þrír reikningar kærðu á hendur kæranda. Ekki er getið um reikning hennar á hendur T.

Það er álit úrskurðarnefndar að erindið snúist samkvæmt þessu ekki um ágreining um þóknun eða rétt kærðu til endurgjalds fyrir störf sín. Krafa kæranda um að kærðu verði gert að endurgreiða honum tilgreinda fjárhæð fellur því utan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndar. Sömuleiðis fellur það utan lögbundins valdsviðs nefndarinnar að taka afstöðu til kröfu kæranda um greiðslu á útlögðum kostnaði sínum vegna lögmannsþjónustu U og vegna annars útlagðs kostnaðar. Ber af þessum sökum að vísa erindi kæranda frá nefndinni.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Erindi kæranda, R ehf., er vísað frá.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA