Mál 2 2009

Ár 2009, mánudaginn 9. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2009:

 

V

gegn

A, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 6. janúar 2009 frá V, kæranda, þar sem kvartað var yfir gjaldtöku A, hrl., kærða, í máli sem snerist um innheimtu bóta vegna þjófnaðar á innbúi. Kærði tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 23. mars 2009. Kærandi gerði nokkrar athugasemdir við greinargerð kærða í bréfi, dags. 27. apríl 2009. Kærða var gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir kæranda, en engin svör bárust frá honum. Þá óskaði úrskurðarnefndin eftir því að kærði sendi reikning þann sem ágreiningur aðila snerist um, svo og undirgögn, til dæmis tímaskýrslu. Umbeðin gögn bárust ekki til nefndarinnar.

Málsatvik og málsástæður.

 

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að á árunum 2007-2008 rak kærði dómsmál gegn T hf. fyrir kæranda til innheimtu tryggingabóta vegna tjóns sem kærandi varð fyrir þegar brotist var inn heima hjá honum og stolið þaðan verðmætum.

Í dómi Héraðsdóms X, sem kveðinn var upp x. maí 200x, var tryggingafélagið dæmt til að greiða kæranda 8 milljónir króna auk dráttarvaxta frá 25. maí 2006 og 995.000 krónur í málskostnað.

Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands x. ágúst 200x og fékk málið þar númerið xxx/200x. Þann x. september 200x náðu málsaðilar, kærandi og T hf., samkomulagi um lyktir ágreinings þeirra. Í samkomulaginu fólst að tryggingafélagið samþykkti að una þeirri niðurstöðu héraðsdóms að um bótaskylt atvik hefði verið að ræða og að ekki hefði verið um tryggingarsvik að ræða af hálfu kæranda. Kærandi féllst á að hluti tjóns síns lægi utan bótaábyrgðar tryggingafélagsins. Samkomulagið fól síðan í sér að kærandi fékk greiddar 4,1 milljón króna frá tryggingafélaginu og 995.000 krónur í málskostnað. Greiðslur voru inntar af hendi inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu kærða. Með samkomulaginu féllu málsaðilar frá öllum kröfum sínum á hendur hinum og tryggingafélagið felldi niður hæstaréttarmálið.

Þann x september 200x greiddi kærði 3.592.199 krónur inn á bankareikning kæranda og var það uppgjör hans á hinum innheimtu bótum. Kærandi brást þannig við að hann sendi kærða bréf sama dag þar sem óskað var eftir skýringum og sundurliðuðum reikningi fyrir öllum málskostnaði.

II.

Kærandi krefst þess í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna að kærða verði gert að endurgreiða sér eftirstöðvar bóta sinna, 507.801 krónu, ásamt því að kærði gefi út reikning til sín ásamt skýringum og rökstuðningi. Þá krefst kærandi þess að kærði fái ávítur fyrir ólögmannslega hegðun gagnvart sér sem viðskiptavini.

Kærandi kveðst ekki hafa verið sáttur við þau málalok, sem fram komu í samkomulaginu við T. Kærði hefði hins vegar lagt hart að sér að samþykkja samkomulagið. Kærandi kveður það koma greinilega fram í tölvupóstum milli sín og kærða í aðdraganda sáttarinnar að hann, kærandi, ætti að fá óskertar 4,1 milljón króna í sinn hlut, enda hefði verið dæmdur hár málskostnaður sem bersýnilega hefði nægt fyrir öllum þeim tíma sem kærði hafði eytt í málið.

Kærandi kveðst hafa gengið eftir skýringum frá kærða á því hvers vegna hann hefði ekki fengið alla bótafjárhæðina til sín. Sama dag og bótafjárhæðin hafi verið greidd inn á bankareikning sinn hafi hann fengið SMS-skilaboð frá kærða um að virðisaukaskattur hefði bæst við málskostnaðinn. Að auki hefði verið til staðar eldri reikningur frá H, hdl. Kærandi kveðst hafa talið þessar skýringar fráleitar, sérstaklega vegna þess að hann hefði ekki beðið H um nokkra vinnu. Raunar hefði hann sagt kærða að hann vildi ekki að H kæmi að málinu. Kærandi kveðst hafa reynt að ná sambandi við kærða vegna þessa en hann hefði ekki svarað sér. Þá kveðst kærandi hafa útbúið bréf og farið með það á skrifstofu kærða, þar sem hann krafðist skýringa og sundurliðaðs reiknings fyrir allan málskostnað. Ekkert svar hefði hins vegar borist frá kærða.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveður kærði það vera rangt að hann hafi lagt hart að kæranda að samþykkja samkomulagið við tryggingafélagið, frekar en að láta reyna á málið fyrir Hæstarétti Íslands. Hið rétta væri að þrýst hefði verið á það af hálfu gagnaðila að fá svör, áður en til ágripsgerðar kæmi. Kærði kveðst hafa mælt með samkomulaginu en að sjálfsögðu hefði kærandi ráðið för.

Kærði kveður ekkert í tölvupóstum sínum og kæranda bera það með sér að virðisaukaskattur hafi ekki átt að leggjast á þóknun sína, sem hafi verið nokkuð í samræmi við framlagða tímaskýrslu. Þá hafi ekkert komið fram um að lögmannsstofa sín hafi fallið frá reikningi vegna starfa H, hdl., sem lutu að viðtölum við kæranda, bréfaskriftum við T og símtölum.

Kærði kveður kæranda hafa fengið allar þær skýringar sem hann hefði beðið um. Meira að segja hafi honum verið send SMS-skilaboð úr miðri yfirheyrslu, eftir 10 látlaus símtöl, þrátt fyrir að honum hafi verið gerð grein fyrir að kærði væri í yfirheyrslu. Kærði kveðst ekki geta gert að því þótt kærandi hafi ekki sætt sig við skýringarnar.

Kærði kveður kæranda aldrei hafa afþakkað þjónustu H, hdl., og ekki hafi kærandi mótmælt reikningi vegna vinnu hans, en reikningur sá hafi farið í lögfræðiinnheimtu. Þvert á móti hafi verið samkomulag um að sá reikningur færi í bið og kæmi til greiðslu við lokauppgjör.

Kærði kveður uppgjör lögmannsstofu sinnar við kæranda hafa verið fyllilega í samræmi við það sem um hafi verið rætt á milli aðila. Eftiráskýringar kæranda séu aðeins tilraun hans til þess að hafa meira upp úr bótamálinu á hendur T.

III.

Í athugasemdum sínum við greinargerð kærða kveður kærandi hann ekki svara því sem kvartað var yfir og ekki hafi kærði reynt að gera tilraun til að útskýra á nokkurn hátt reikningsgerð sína, sem sé hulin þoku. Kærandi kveðst aldrei hafa fengið reikning frá kærða og enga sundurliðun á reikningnum.

Kærandi kveðst ekki neita því að hafa verið ágengur við að fá svör, en þrátt fyrir það hafi kærði ekki haft neinn rétt til þess að fótumtroða siðareglur lögmanna og að draga af sér háar fjárhæðir í málskostnað, án nokkurra skýringa. Kærandi kveðst standa við það að hann hafi ekki viljað að H kæmi nærri sínu máli. Hafi kærði notið aðstoðar H við rekstur málsins megi gera ráð fyrir að það hafi dregið úr þeim tíma sem kærði hafi eytt í málið að sama skapi. Kærandi kveðst ekki botna í þeirri skýringu kærða að reikningur H, hdl., hafi farið í lögfræðiinnheimtu og spyr hvernig það mætti vera á sama tíma og kærði hafi sagst hafa dregið reikningsfjárhæðina frá bótunum. Kærandi kveðst ekki kannast við þennan reikning.

Niðurstaða.

 

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna.

Samkvæmt 15. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

II.

Meðal gagna málsins eru tölvupóstsamskipti kæranda og kærða í aðdraganda samkomulagsins sem gert var við T hf. þann x. september 200x. Í tölvupósti kæranda til kærða þann x. september 200x spurði kærandi um nokkur atriði vegna sáttaumleitana við tryggingafélagið, þar á meðal um það hvernig dráttarvextir reiknuðust og hver yrði endanleg fjárhæð til sín. Í svari kærða daginn eftir kom einungis fram að hann skyldi klára sátt „um þetta þar sem tekið verður á þessu”. Í tölvupósti kærða til kæranda þann 17. september kom fram að hann væri búinn að ná tryggingafélaginu eins langt í þreifingum og hægt yrði. Hann kvað félagið tilbúið til að greiða 4,1 milljón króna og málskostnaðinn. Lagði hann til við kæranda að gengið yrði að þessu. Daginn eftir sendi kærandi umboð til kærða til frágangs samkomulaginu.

Meðal gagnanna er einnig afrit bréfs kæranda til kærða, dags. x. september 200x, móttekið á skrifstofu kærða samkvæmt áritun þann x. september. Í bréfinu kvaðst kærandi hafa verið afar hissa á því að það skyldi hafa verið dregin um hálf milljón króna frá þeim bótum sem tryggingafélagið greiddi samkvæmt samkomulaginu, sérstaklega vegna þess að kærði hefði fengið fullan málskostnað greiddan með vöxtum frá tryggingafélaginu. Kvaðst kærandi hafa staðið í þeirri trú að allur málskostnaður væri þar með dekkaður. Óskaði kærandi eftir því að fá skýringar og sundurliðaðan reikning fyrir öllum málskostnaði sem sér bæri að greiða.

Eins og fram hefur komið kveðst kærandi ekki hafa fengið nein svör frá kærða við beiðnum sínum um uppgjör og skýringar.

III.

Í dómsmáli kæranda gegn T hf. var honum tildæmdur málskostnaður úr hendi tryggingafélagsins að fjárhæð 995.000 krónur. Í almennu einkamáli bindur málskostnaðarákvörðun dómara hins vegar að jafnaði ekki lögmann þegar hann gerir skjólstæðingi sínum reikning. Enginn reikningur liggur fyrir í þessu máli og engin tímaskýrsla eða upplýsingar úr tímaskýrslu, þrátt fyrir tilmæli úrskurðarnefndar lögmanna til kærða um að hann sendi nefndinni þessi gögn. Er því ekki hægt að styðjast við þau við mat á hæfilegu endurgjaldi til kærða vegna málflutningsstarfa hans í þágu kæranda.

Ekkert liggur fyrir um það hvort kærði hafi upplýst kæranda sérstaklega um það á hvaða grunni þóknun hans skyldi reiknuð. Kærandi virðist þó hafa leitað upplýsinga um það hjá kærða hvað hann fengi út úr samkomulaginu við T, sbr. fyrrnefnd tölvupóstsamskipti þeirra x. og x. september 200x. Við það tækifæri upplýsti kærði ekkert um það að hann áskildi sér hærra endurgjald en sem næmi hinum tildæmda málskostnaði, sem samkomulag var um að tryggingafélagið greiddi. Með hliðsjón af þessu og þar sem ekki nýtur við annarra gagna í málinu við úrlausn þess, telur úrskurðarnefnd lögmanna rétt að líta til hins tildæmda málskostnaðar. Telur nefndin þannig hæfilegt endurgjald kærða fyrir málflutningsstörf í þágu kæranda við innheimtu bóta frá T nema 995.000 krónum, þar með talinn virðisaukaskattur.

Kærði hefur þegar fengið framangreinda fjárhæð greidda. Í uppgjöri gagnvart kæranda á bótunum frá T millifærði kærði 3.592.199 krónur inn á bankareikning kæranda, en tryggingafélagið hafði greitt 4,1 milljón króna inn á fjárvörslureiking kærða, auk málskostnaðarins. Ber kærða þannig að greiða kæranda mismuninn, 507.801 krónu.

IV.

Svo sem að framan greinir ber lögmanni, samkvæmt 15. gr. siðareglna lögmanna, að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað. Ekki verður séð að kærði hafi orðið við kröfu kæranda um að fá sundurliðaðan reikning og skýringar á uppgjöri. Þá sinnti kærði ekki tilmælum nefndarinnar um að senda reikninginn og undirgögn með honum. Er þetta aðfinnsluverð vanræksla kærða á starfsskyldum sínum gagnvart umbjóðanda sínum og gagnvart úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 15. gr. og 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna og 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, A, hrl., greiði kæranda, V, 507.801 krónu.

Vanræksla kærða á að senda kæranda og úrskurðarnefnd lögmanna reikning og eftir atvikum undirgögn með reikningi er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA