Mál 2 2010

 

Ár 2010, miðvikudaginn 11. júní,var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið málið nr. 2/2010:

T

gegn

U, hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi T, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna þann 29. janúar 2010, var kvartað yfir vinnubrögðum U, hdl., kærða, við málarekstur fyrir kæranda gegn V-bæ. Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 4. mars 2010 og gerði kærandi athugasemdir við hana í bréfi, dags. 22. mars 2010. Kærði tilkynnti nefndinni um að hann myndi ekki tjá sig frekar um málið.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Samkvæmt lýsingu kæranda eru málsatvik þau að í nóvember 2009 leitaði hann til kærða og bað hann að annast fyrir sig rekstur máls gegn T-bæ vegna synjunar bæjaryfirvalda á að kærandi reisti smáhýsi fyrir snyrtiaðstöðu á leigulóð sem hann hugðist breyta í útivistarsvæði. Kærði hafi sérstaklega verið spurður um það hvort hann tengdist T-bæ á einhvern hátt, þannig að hann treysti sér ekki til að taka málið að sér. Svarið hafi verið nei. Kærandi kveðst ítrekað hafa spurst fyrir um gang mála hjá kærða og þar hafi hann fengið þau svör að bréf til bæjaryfirvalda hafi verið sent. Kærandi kveðst síðar hafa fengið upplýsingar frá bæjaryfirvöldum um að ekkert bréf hefði verið móttekið þar frá kærða.

Kærandi kveður það vera með ólíkindum að kærði segi ítrekað við sig að bréfið sé farið frá honum en síðan komi í ljós að það barst aldrei viðtakanda.

Kærandi kveður þetta vera óskiljanlegt og að það komi sér mjög illa fyrir sig þar sem hann hafi ætlað að stefna sveitarfélaginu. Telur kærandi að kærða hafi þótt erindið léttvægt og valið að halda friðinn við sveitarfélagið.

Kærandi kveðst munu fara fram á skaða- og miskabætur frá kærða og jafnframt fari hann fram á að kærði útskýri nákvæmlega hvers vegna hann hafi brugðist sér í þessu máli.

II.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveðst kærði hafa fallist á að rita T-bæ bréf vegna málsins og það hafi hann gert, að sig minnir í nóvember eða desember 2009. Því miður hafi sér láðst að halda eftir ljósriti bréfsins, að minnsta kosti hafi hann ekki fundið það hjá sér þrátt fyrir ítarlega leit.

Kærði kveðst síðar hafa haft samband við símleiðis við T-bæ og þar hafi sér verið tjáð að erindi sitt væri til afgreiðslu. Fyrir skömmu hafi sér hins vegar borist þær fréttir að svo væri ekki. Því hafi legið fyrir að hann þyrfti að rita nýtt bréf til bæjarins. Það hefði ekki verið gert þegar erindi kæranda til úrskurðarnefndar barst honum. Kærði kveðst ekki hafa neinar skýringar á þessu misræmi.

Kærði kveðst hafa ákveðið að hætta afskiptum af málinu þar sem kærandi hefði sett málið í þennan farveg. Kveðst kærði hafa endursent gögn málsins til kæranda.

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmanna hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga.

Það fellur utan lögbundins valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um skaða- eða miskabætur vegna meints fjárhagslegs tjóns af völdum lögmanns. Er þessum þætti í kröfugerð kæranda því vísað frá.

Óumdeilt er að kærði tók að sér erindisrekstur fyrir kæranda gagnvart T-bæ haustið 2009. Að sögn kærða ritaði hann bréf til sveitarfélagsins í nóvember eða desember 2009 og síðar hafi hann fengið það staðfest hjá sveitarfélaginu að erindið biði þar afgreiðslu. Enn síðar hafi hann hins vegar fengið upplýsingar um að svo væri ekki og hafi hann þá ætlað að rita sveitarfélaginu á ný erindi fyrir kæranda. Af því hafi ekki orðið vegna erindisreksturs kæranda til úrskurðarnefndar lögmanna.

Ljóst er af málsatvikum að fullyrðingar aðila stangast á um það atriði, hvort sveitarfélagið hafi móttekið bréf kærða eður ei. Kærði bar, gagnvart kæranda, ábyrgð á því að rita og senda bréfið til sveitarfélagsins. Að mati nefndarinnar telst það til góðra lögmannshátta að taka afrit bréfa og eftir atvikum annarra skjala, sem rituð eru fyrir eða vegna umbjóðenda lögmanna, og varðveita þau, sbr. t.d. 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna. Nauðsynlegt er fyrir lögmenn að geta sýnt umbjóðendum sínum, gagnaðilum eða öðrum hlutaðeigandi aðilum þau bréf og önnur skjöl sem rituð eru í tengslum við tiltekið verkefni.

Kærði kveðst ekki finna hjá sér afrit bréfsins til sveitarfélagsins, hvort sem það hefur týnst eða að afrit var ekki tekið áður en bréfið var sent. Var honum því ekki unnt að afhenda kæranda afritið og sýna honum þannig að bréfið hefði verið ritað og eftir atvikum sent sveitarfélaginu. Að mati nefndarinnar eru þessi vinnubrögð aðfinnsluverð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Þau vinnubrögð kærða, U, hdl., að taka ekki eða varðveita afrit bréfs til T-bæjar, eru aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA