Mál 12 2011

Ár 2011, fimmtudaginn 29. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 12/2011:

B

gegn

S hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi B, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 12. október 2011, var kvartað yfir háttsemi S hrl., kærðu, vegna tölvupósts sem hún sendi lögmanni kæranda og fól í sér tilboð um að stíla reikning á einkahlutafélag kæranda.

Kærða sendi nefndinni greinargerð um málið þann 17. nóvember 2011 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Kærandi hefur ekki gert sérstakar athugasemdir vegna greinargerðarinnar

Málsatvik og málsástæður.

I.

Kærunni fylgdi ekki heildstæð málsatvikalýsing, en í greinargerð kærðu eru atvik málsins rakin og studd gögnum. Hefur þeirri lýsingu ekki verið mótmælt. Eftir því sem þar kemur fram eru málsatvik þau að kærandi átti í hjónaskilnaðarmáli við fyrrum eiginkonu sína. Var deilt bæði um forsjá og fjárskipti, en kærða kom fram fyrir hönd konunnar í málinu.

Í byrjun júlí 2011 var gerð dómssátt um lyktir forsjármálsins og lögmenn náðu samkomulagi um fjárskiptin. Í því samkomulagi fólst m.a. að kærandi skyldi greiða fyrrum eiginkonu sinni 500.000 krónur vegna lögmannskostnaðar hennar við fjárskiptin. Var upphaflega miðað við að sú greiðsla færi fram þá þegar, um leið og kærða hefði gefið út reikning. Þar sem lögmaður kærða vakti máls á því að kærandi kynni að eiga erfitt með að greiða reikninginn strax í júlí, um leið og hann væri að greiða konunni bauðst kærða til að gefa reikninginn út í september. Í samningaviðræðum lögmannanna kvaðst kærða geta stílað þennan reikning á einkahlutafélag kæranda og sendi hún tölvupóst þessa efnis á lögmann kæranda þann 7. júlí 2011. Umræddur tölvupóstur er svohljóðandi:

Sæl aftur.

Ég held að það þýði hvorki að ræða við mína konu að helminga hennar lögmannskostnað og það þýðir alls ekki að ræða að draga tilbaka lögreglukæruna. Á það mun hún aldrei fallast þannig að ég mun ekki einu sinni nefna það við hana. Framfærslukröfuna er hægt að samþykkja að fella niður. Það verður ekki vandamál. Ég sagði þér að ég væri tilbúin að bíða með að fá lögmannskostnaðinn og að gefa út reikninginn á [X ehf.]svo hann geti notað vsk.- þannig að með því er nú ekki mikill munur ´´a (sic) því og helmingi. Sjáðu hvað þér tekst. Annars verður þetta bara að fara sína leið í sölu o.s.frv. Þau taka bæði áhættu á því að mínu mati.

Bkv.

S

Lögmaður kæranda kvað hann ekki vilja að reikningurinn yrði gefinn út á einkahlutafélagið og var það mál þar með úr sögunni að mati kærðu. Lögmaður kæranda innti kærðu eftir því hvort hún vildi bíða með tilkynningu um skiptalok þar til greiðsla hefði farið fram en kærða taldi það óþarft. Tilkynnti skiptastjóri því um skiptalok um mánaðamótin júlí / ágúst 2011.

Þann 20. september lét kærða gefa út reikning í samræmi við fyrrgreint samkomulag. Brást kærandi við með því að senda tölvupóstinn frá 7. júlí til kærðu. Gerði hann kærðu þá kosti að fella reikninginn niður, en sæta því ella að hann myndi koma tölvupóstinum á framfæri við Ríkisskattstjóra auk þess sem hann myndi nýta „tengsl inn í blaðaheiminn til að koma þessum vinnubrögðum á framfæri" Áréttar kærandi að hann þekki til í fréttaheiminum og segir að „vilji er þar fyrir hendi, að koma á framfæri öllu því sem varpar ljósi á vinnubrögð þín."

Kærða brást við þessari sendingu með því að hafa samband við lögmanninn sem komið hafði samningnum á fyrir hönd kæranda. Kærandi hélt hins vegar áfram að senda kærðu hótanir um að hann myndi nýta tölvupóstinn frá 7. júlí til að koma á hana höggi ef hún felldi ekki reikninginn niður. Hótaði hann því að koma póstinum á framfæri við Dómsmála / Innanríkisráðuneytið auk þess að senda kærðu hótanir um málssóknir og óskir um ófarnað.

Svo fór að kærandi greiddi umræddan reikning 10. október 2011, en sendi kærðu um leið yfirlýsingar um að „Skatturinn sem og Lögmannafélag Íslands" hefðu tekið vel á móti honum.

Kærða taldi að hótanir kæranda kynnu að varða við 251. gr. almennra hegningarlaga og tilkynnti þær til lögreglu.

II.

Kærandi krefst þess í máli sínu fyrir nefndinni í fyrsta lagi að kærðu verði umsvifalaust vikið úr Lögmannfélagi Íslands, í öðru lagi að félagið gefi út yfirlýsingu um vanhæfi hennar og í þriðja lagi að kærðu verði meinað að starfa og eða kalla sig lögmann og missi réttindi sín sem slík.

Kvörtun kæranda lýtur að því að kærða hafi hvatt til skattsvika með því að bjóðast til að senda reikning á kæranda persónulega á fyrirtæki hans. Kærandi byggir málið ekki á tilgreindum ákvæðum siðareglna, en staðhæfir að lögmaður geti „ekki annað en verið að brjóta starfsreglu, siðareglur og sannarlega skattalög Íslands með þessum hætti." Háttsemi kærðu sé óheiðarleg og hann trúi ekki að Lögmannafélag Íslands vilji hafa lögmenn sem þennan innan sinna félagasamtaka.

III.

Kærða krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd lögmanna, en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Frávísunarkröfu sína styður kærða þeim rökum að þar sem kærandi tilgreini ekki hvaða starfsreglur eða hvaða ákvæði siðareglna hann telur kærðu hafa brotið beri að vísa málinu frá, þegar af þeirri ástæðu. Þá vísar hún til atvika málsins til stuðnings aðal- og varakröfu sinni og lítur nefndin svo á að þannig sé vísað til þeirrar háttsemi kæranda að hóta kærunni til að losna undan greiðslu reikningsins.

Kröfu um synjun á kröfum kæranda styður kærða við að það sé misskilningur hjá kæranda að komið hafi til greina að greiða ekki virðisaukaskatt af umræddum reikningi. Kærða hafi staðið skil á virðisaukaskatti vegna reikningsins og hefði jafnt gert það þótt reikningurinn hefði verið gefinn út á einkahlutafélag kærða. Telur kærða að alvarlegs misskilnings gæti hjá kæranda að þessu leyti.

Kærða leggur áherslu á að ljóst sé að kærandi hafi frá upphafi ætlað sér að beita hótunum til að fá kærðu til að losa hann undan greiðslu reiknings sem hann hafði gengist undir að greiða í samkomulagi um fjárskiptin.

Kærða telur kæranda samsama kærðu og skjólstæðing hennar. Samkomulag um greiðslu reikningsins hafi verið hluti af samkomulagi um fjárskipti þeirra á milli.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Með vísan til þessara ákvæða verður að vísa frá kröfum kæranda um að kærðu verði umsvifalaust vikið úr Lögmannfélagi Íslands og að félagið gefi út yfirlýsingu um vanhæfi hennar. Hins vegar verður um fjallað um háttsemi kærðu í þessu máli eins og öðrum sem berast nefndinni á grundvelli 27. gr. lögmannalaga og lýtur efnismeðferð þess að því að ákveða hvort og þá hvaða viðurlögum 2. mgr. ákvæðisins verði beitt vegna hennar.   

II.

Að því er varðar frávísunarkröfu kærðu er til þess að líta að fullkomlega er ljóst af kærunni að hvaða háttsemi kærðu kvörtunin beinist. Verður ekki fallist á það með kærðu að það varði frávísun málsins að kærandi tilgreini ekki þau ákvæði skattalaga og siðareglna lögmanna sem hann telur kærðu hafa brotið. Myndi gagnstæð niðurstaða fela í sér að ólöglærðir einstaklingar sem teldu lögmenn hafa gert á sinn hlut þyrftu að heimfæra háttsemi viðkomandi lögmanna til ákvæða laga og siðareglnanna. Stjórnsýslulög gera ekki þá kröfu til málshefjenda að þeir rökstyðji erindi sín með ítarlegri tilvísan til ákvæða laga og annarra reglna. Þá virðist nefndinni ljóst hvaða ákvæði siðareglna lögmanna það eru sem til álita koma í máli þessu.

Kvörtuninni verður ekki vísað frá úrskurðarnefnd með vísan til þeirrar háttsemi kæranda að freista þess að nýta þetta úrræði til að komast undan greiðslu lögmæts reiknings, en úrlausnarefnið hér er aðeins að fjalla um hvort kærða hafi gerst sek um háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Kærða hefur sjálf beint því úrlausnarefni í réttan farveg, eftir því sem best verður séð, hvort kærandi hafi framið lögbrot með háttsemi sinni.

III.

Ekki er ágreiningur um málsatvik. Verður á því byggt að í tölvupósti kærðu frá 7. júlí 2011 til lögmanns kæranda komi fram ráðagerð um að reikningur hennar, sem kæranda bæri að greiða samkvæmt skilnaðarkjarasamkomulagi sem þá var unnið að, yrði stílaður á einkahlutafélag hans.

Kærða hefur enga tilraun gert til að útskýra hvaða ástæður aðrar gætu legið til þess að félagið greiddi reikninginn en þær sem fram koma í tölvupóstinum sjálfum, þ.e. að þar með gæti félagið ranglega nýtt innskattinn til frádráttar á sínum virðisaukaskattsgreiðslum. Er útilokað, eins og málið horfir við nefndinni, að fallast á það með kærðu að ekki hafi falist í þessu ráðagerð um skattalagabrot.

Lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti, sbr. 1. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku, sbr.  2. mgr. sömu greinar.  Samkvæmt 2. gr. siðareglnanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannsstéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum. Verður að telja að sú háttsemi kærðu sem hér hefur verið lýst stangist á við þessi ákvæði.

Með því að bollaleggja um lögbrot við rækslu lögmannsstarfa sinna hefur kærða brotið gegn starfsskyldum sínum með þeim hætti að nefndin telur rétt að veita kærðu áminningu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfum kæranda, B, um að kærðu, S, verði umsvifalaust vikið úr Lögmannfélagi Íslands og að félagið gefi út yfirlýsingu um vanhæfi hennar er vísað frá nefndinni.

Kærða sætir áminningu fyrir brot á 1. og 2. gr. siðareglna lögmanna

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA