Mál 13 2011

 

Ár 2012, fimmtudaginn 3. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 13/2011:

W

gegn

D hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 20. desember 2011 erindi W þar sem hún kvartar yfir því að D hrl. tregðist við að loka máli sínu og sýni vanvirðingu í sinn garð.

Kærandi sendi nefndinni greinargerð um málið þann18. janúar 2012 og var kærða gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kærandavið greinargerð kærða bárust 3. mars 2012. Kærða var gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir vegna þeirra og bárust þær 14. mars 2012.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Kærandi varð fyrir umferðarslysi árið 2003. Var örorka hennar metin 20% og voru henni greiddar skaðabætur í samræmi við það mat. Kærandi sætti sig ekki við þessi málalok og leitaði til kærða í nóvember 2005. Í framhaldi af því gekkst hún undir annað örorkumat árið 2008. Niðurstaðan af því mati var aðeins kynnt henni munnlega, en kærði kynnti henni þá að hún myndi þurfa að bera töluverðan kostnað ef hún vildi halda máli sínu til streitu.

20. febrúar 2009 sendi kærði kæranda bréf þar sem hann fer stuttlega yfir stöðu málsins, sérstaklega að til að fá gjafsókn, sem væri næsta skref í málinu, þyrfti að afla nýrra vottorða, sem kynnu að kosta kæranda um 100.000 krónur. Virðist málið eftir þetta lítt hafa hreyfst.

Kærandi vildi fá gögn málsins afhent hjá kærða. Sumarið 2010 kveðst hún hafa haft samband við kærða vikulega í þessum tilangi en hann dregið sig á asnaeyrum og beðið sig að koma í næstu viku og borið fyrir sig að hann hafi ekki getað ljósritað gögnin vegna anna. Loks hafi kærði ekki hleypt sér inn heldur látið duga að segja sér í gegn um gættina að gögnin væru ekki tilbúin.

Sendi kærandi kvörtun vegna þessa til dómsmálaráðuneytisins 26. júlí 2010, en ráðuneytið, framsendi hana til LMFÍ daginn eftir. Sendi kærði LMFÍ skýringar sínar í september 2010, en ekki verður séð að þessi erindi hafi í það sinn orðið tilefni til sérstakrar athugunar.

Þann 15. september 2010 sendi kærði kæranda öll gögn máls hennar. Þeirri sendingu fylgdi bréf hans til kæranda þar sem hann fer yfir stöðuna og ráðleggur henni að fá gögnin lesin yfir. Kemur í bréfinu fram það mat kærða að greinilegt sé að heilsa kæranda hafi versnað frá því bætur voru mótteknar og að rétti farvegurinn fyrir málið sé að klára nýtt mat, gera kröfur á grundvelli þess og sækja um gjafsókn. Loks kveðst kærandi í bréfi þessu vera reiðubúinn að gera lokatilraun í málinu en þá verði kærandi að mæta með einhvern sem geti talað við sig á íslensku, enda sé skilji hann ekki pólsku.

Í framhaldi af bréfi þessu sneri kærandi sér á nýjan leik til kærða í ársbyrjun 2011. Er óumdeilt að kærði tók þá að sér að skoða mál hennar frekar, en kvaðst þá að eigin sögn þurfa að hafa sinn tíma til þess og benti í því samhengi á að kærandi hefði enn ekkert greitt sér vegna málsins.

Kæranda segist svo frá að hún hafi hitt kærða ásamt túlki í október 2011. Túlkur hennar hafi þá pantað tíma í eigin nafni, en þegar þær mættu hjá kærða hafi hann ekki tekið á móti þeim en fallist á að hitta þær á ganginum í stutta stund. Kærði hafi þá lofað að hringja en ekki efnt það. Kærði segir hins vegar um málsatvik að þessu leyti að eftir að hann tók málið aftur til skoðunar hafi kærandi farið að birtast ásamt túlki fyrirvaralaust og hann hafi þá ekki getið sinnt þeim. Eins hafi túlkurinn pantað tíma og mætt svo með kæranda, en það hafi kærða þótt miður og verið afundinn við þær. Þegar kærði hafi svo boðað kæranda til að mæta með túlk hafi það ekki gengið og kærandi mætt og einnig á tímum sem hún átti ekki pantaða.

II.

Í kvörtun kæranda til úrskurðarnefndar kemur fram að kærði hafi neitað að tala við hana þegar hún mætti á skrifstofu hans með túlk. Kærði sýni sér vanvirðingu með því að hleypa sér ekki inn á skrifstofuna. Kærði hafi lofað þeim túlki sem mætti með kæranda á hans fund í október 2011 að senda til hans nótu vegna málsins. Krefst kærandi þess í kærunni að kærði loki máli hennar endanlega og að hann biðji hana afsökunar fyrir hegðun sína. Í viðbótargreinargerð sinni krefst hún þess hins vegar að málið verði klárað og að hún fái afrit af örorkumati sem framkvæmt hafi verið á fasteignasölunni H. Þá gerir hún athugasemd við framkvæmd þess örorkumats, en ekki verður séð að þær athugasemdir eigi erindi til úrskurðarnefndar lögmanna.

III.

Kærði hefur í málatilbúnaði sínum lagt áherslu á að mál kæranda hafi verið erfitt viðfangs, en hún hafi sýnt því lítinn skilning. Fyrrverandi lögmaður kæranda hafi tekið við bótum fyrir hennar hönd í nóvember 2005 án fyrirvara og snúi mál hennar að því hvort unnt sé að taka þá bótaákvörðun upp í ljósi versnandi ástand hennar á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga. Athugun á því hafi verið í gangi þegar kærandi tók málið úr hans höndum haustið 2010, og hafi hann látið meta kæranda og átt í samtölum við matsmenn. Þá hafi ýmsir dómar gengið sem áhrif gætu haft á niðurstöðuna. Hún hafi svo komið með málið aftur og hafi kærði ætlað að athuga möguleika hennar á að fá bótaákvörðun endurupptekna. Hafi kærandi þá byrjað að birtast með túlki án þess að panta tíma. Þá hafi túlkurinn pantað tíma og mætt svo með kæranda eins og áður var rakið, en það hafi kærða þótt miður og verið afundinn við þær. Þegar kærði hafi svo boðað kæranda til að mæta með túlk hafi það ekki gengið og kærandi mætt og einnig á tímum sem hún átti ekki pantaða.

Kærði hefur lýst því að sér þyki leitt hvernig málið hafi farið og kveðst viss um að það væri komið lengra ef það hefði ekki verið tekið af honum aftur. Þá hefur hann bent á að hann hafi frá upphafi greint henni frá því að mál af þessu tagi væru tímafrek. Hún hafi aldrei greitt svo mikið sem útlagðan kostnað vegna málsins.

Kveðst kærði biðjast afsökunar á því ef hann hafi valdið kæranda erfiðleikum og vandamálum.

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í samræmi við þetta verður í máli þessu fjallað um það álitaefni hvort kærði verði beittur þeim viðurlögum sem að ofan greinir. Kröfum um að kærði loki málum eða klári þau verður hins vegar að vísa frá nefndinni, enda hefur hún ekki lagaheimildir til að mæla fyrir um slík úrræði. Hið sama gildir um kröfu kæranda um afsökunarbeiðni af hálfu kærða, en við þeirri kröfu hefur kærði raunar þegar orðið. Krafa kæranda um gagnaafhendingu var ekki hluti af upphaflegu kærumáli hennar og verður ekki fjallað um hana hér, en tekið skal fram að kærði kveðst hafa sent nefndinni öll gögn málsins og hefur kærandi fengið afrit þeirra. Af þeim virðist mega ráða að engum skriflegum niðurstöðum hafi verið skilað vegna umræddrar læknisskoðunar.

Kærði hefur í máli þessu gert grein fyrir því hvernig mál kæranda var vaxið og hvernig það hafi verið unnið. Virðast engin efni til að gera athugasemdir við það hvernig hann stóð að því framan af að meta tjón kæranda og vinna málið áfram, þótt ljóst sé að samskipti hans við kæranda hafa lengi gengið brösuglega. Nefndin lítur annars svo á, að þegar kærði skilaði kæranda málsgögnum í september 2010 hafi byrjað að líða ársfrestur kæranda til að kæra fyrri samskipti þeirra til nefndarinnar, en hún hafði raunar leitað stuðnings við að fá málsgögnin afhent. Af því leiðir að í þessu máli verður eingöngu tekin afstaða til háttsemi kærða eftir að hann féllst á að taka við máli kæranda á nýjan leik í janúar 2011. Það er því sakarefni máls þessa, eins og kærandi leggur það fyrir nefndina, hvort kærði hafi eftir það tímamark brotið gegn siðareglum lögmanna eða lögum með því að neita að tala við hana, m.a. þegar hún mætti á skrifstofu hans með túlk og með því að loka ekki máli hennar, en með því virðist átt við að kærði hafi ekki afhent kæranda gögn eða lokið samskiptum sínum við hana.

Kærða var rétt að neita að inna frekari vinnu af hendi og sérstaklega að neita því að leggja út í kostnað fyrir kæranda án þess að greiðsla bærist. Var honum raunar rétt að halda gögnum máls hennar þar til uppgjör hefði farið fram, en það gerði hann þó ekki. Þess í stað tók hann mál hennar að sér á nýjan leik í ársbyrjun 2011.

Nefndin tekur fram að hún hefur ekki fulla yfirsýn yfir tilraunir kæranda til að ná tali af kærða. Á hinn bóginn getur nefndin ekki fundið að því þó lögmaður sé ekki til viðtals nema á fyrirfram ákveðnum tímum, enda felst ekki vanvirðing í því. Þá virðist nefndinni vart unnt að gera athugasemdir við að kærði hafi brugðist illa við þegar kærandi freistaði þess að ná fundi hans með því að bóka fund í annars nafni.

Þegar atvik málsins eru virt í heild sinni er augljóst að aðilum þess hefur ekki tekist að ræða saman um mál kæranda og vinnslu þess með eðlilegum hætti um langt skeið. Virðist engin breyting til batnaðar hafa orðið eftir að kærandi fól kærða mál sitt í seinna sinnið. Má þar eflaust kenna um að einhverju leyti tungumálaörðugleikum. Getur nefndin á hinn bóginn ekki lagt ábyrgðina á þessu alfarið á kærða eða gert aðfinnslur við störf hans á þeim grundvelli sem kærandi byggir á.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfum kæranda, W, um að kærði, D hrl., loki máli hennar og um að hann klári það er vísað frá nefndinni. Kröfu kæranda um afhendingu gagna og um afsökunarbeiðni af hálfu kærða er einnig vísað frá.

Kærði hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, hrl., formaður

Kristinn Bjarnason, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson