Mál 26 2013

Ár 2014, þriðjudaginn 15. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 26/2013:

A ehf.

gegn

R hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. nóvember 2013 erindi kæranda, A ehf., þar sem kvartað var yfir störfum kærða, R hrl., og áskilinni þóknun hans.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 8. nóvember 2013. Ekki barst greinargerð frá kærða og þann 10. desember 2013 voru tilmæli nefndarinnar um að kærði gerði grein fyrir málinu ítrekuð. Greinargerð kærða barst loks þann 13. febrúar 2014. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða þann 19. febrúar 2014. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Hvorki kærandi né kærði hafa gert grein fyrir atvikum málsins með heildstæðum hætti en af framlögðum gögnum og málatilbúnaði þeirra má ráða að málið varðar störf og áskilda þóknun kærða vegna innheimtu á skuld B við kæranda.

Fyrri eigendur kæranda fengu kærða til að innheimta skuld B og fleiri viðskiptamanna við kæranda.  Fyrir liggur í málinu tölvupóstur frá nóv? 2011 þar sem starfsmaður lögmannsstofu kærða gerir starfsmanni kæranda grein fyrir stöðu 5? innheimtumála, þ.á.m. að búið sé að gera árangurslaust fjárnám hjá B.

Þann 9. desember 2011 sendi kærði bréf til B og gaf þeim kost á að ganga frá málinu áður en krafist væri gjaldþrotaskipta á búi félagsins.

Nýir eigendur tóku yfir rekstur kæranda í apríl 2012. Nýr framkvæmdastjóri, C, vissi af því að B hefði greitt lögmannsstofu kærða, S, rúmlega milljón kr. inn á skuldina.

Þann 12. nóvember 2012 óskaði C eftir því að fá upplýsingar um stöðu innheimtumálsins frá kærða og hvernig málið yrði klárað. Fyrirspurnin var ítrekuð þann 3. janúar 2013, 14. janúar 2013, 29. janúar 2013 og 13. febrúar 2013. Ekki bárust svör frá kærða.

Þann 14. febrúar 2013 sendi kærandi D hrl. tölvupóst vegna málsins og spurði hvort hann gæti tekið kröfuna á hendur B í innheimtu og krafið S til að gera upp það sem þeir hefðu fengið. Þann 27. febrúar 2013 kvaðst D hafa heyrt í kærða sem ætlaði að klára uppgjörið en hann væri með mótreikning sem hann ætti eftir að taka saman. Kærandi ítrekaði málið nokkrum sinnum við D í kjölfarið.

Þann 30. september 2013 barst kæranda reikningur frá S, að fjárhæð kr. 904.934 með vsk. Skýring reikningsins var innborgun á lögfræðiaðstoð og ráðgjöf 2011-2012. Sama dag var skilagrein, kröfunúmer X frá S, dagsett. Kröfuhafi var tilgreindur kærandi og skuldari B. Lýsing kröfu var skuld skv. 16 reikningum, dags. frá 14.12.2009 til 20.08.2010, samtals kr. 2.472.772. Samkvæmt skilagreininni var höfuðstóll skuldarinnar kr. 2.472.772 og dráttarvextir til 27. september 2013 kr. 885.776, samtals kr. 3.358.548. Inneign var kr. 1.200.000. Málskostnaður var kr. 391.855 og veittur 40% afsláttur á málskostnað kr. -156.742. Frádregið í málskostnað var kr. -235.113, frádregið í vsk. var kr. -59.953 og reikningur lögmanns vegna annarra starfa var kr. -904.934. Eftirstöðvar kröfuhafa voru því kr. 0.

Kærandi óskaði þann 4. október 2013 eftir tímaskýrslu vegna vinnu við innheimtu á framangreindri skuld frá kærða. Umbeðnar upplýsingar bárust ekki.

II.

Kærandi bendir á að eftirstöðvar kröfuhafa skv. skilagrein, dags. 30. september 2013, hafi verið kr. 0. Hefði verið um önnur störf heldur en að innheimta umrædda skuld B að ræða veltir kærandi því fyrir sér hvort ekki hefði átt að vera búið að senda reikning eða uppgjör á þeim fyrir löngu, t.d. 2011 eða 2012. Bendir kærandi á að frá því að hann hafi tekið við í apríl 2012 hafi þessi innheimta skuldar B verið það eina sem S hafi unnið fyrir kæranda.

Kærði óskar eftir því að úrskurðarnefndin fari yfir málið og það hvort vinnubrögðin teljist sómasamleg við innheimtu á einni skuld. Kærandi tekur fram að greiðslan frá B muni ekki skipta miklu í fjárstreymi kæranda en hins vegar séu vinnubrögðin slík að ekki sé hægt annað en að koma þessu á framfæri og fá úr því skorið hvort þetta kallist góð vinnubrögð lögmanns eða skrifstofu hans.

III.

Kærði áréttar að því er viðkemur reikningi hans nr. 0000168, dags. 30. september 2013, að eftir að L hafi komið að rekstri kæranda í október 2010, í kjölfar gjaldþrots félagsins, hafi fyrrverandi framkvæmdastjóri E leitað eftir aðstoð kærða, m.a. varðandi lögfræðileg málefni, s.s. innheimtur, upplýsingaöflun úr vanskilaskrá varðandi viðskiptamenn, lögfræðiráðgjöf þ.á.m. vegna kæru- og klögumála skiptastjóra gagnvart fyrri eigendum o.s.frv. Svo sem skýrt komi fram á reikningnum sé um innborgun að ræða á lögfræðiaðstoð og -ráðgjöf 2011 til 2012, þ.e. vegna lögfræðistarfa á u.þ.b. 16 mánaða tímabili, 2,5 tíma á mánuði.

Kærði kveður það ekki hafa staðið til að krefja kæranda um frekari greiðslur vegna lögfræðistarfa en reikningurinn kveði á um þó svo vinnan hafi verið mun meiri.

Kærði telur ljóst að það sé ekki við hann að sakast að uppgjör innheimtunnar á hendur B hafi dregist. Kærði andmælir því ákveðið að hann hafi á einn eða annan hátt brotið af sér í starfi sínu vegna þessa máls til tjóns fyrir kæranda.

Kærði bendir á að uppgjörið beri með sér að innheimtan sé ekki unnin í tímavinnu heldur sé notast við innheimtukerfi lögmanna.

Kærði sér ekki með nokkru móti að mál þetta varði ágreining um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í þessu sambandi áréttar kærði að hann hafi í upphafi starfa sinna fyrir kæranda í lok árs 2010 og í upphafi árs 2011 gert kæranda grein fyrir því að ekki kæmi til þess að félaginu yrðu gerðir mánaðarlegir reikningar vegna lögfræðiaðstoðar, þar sem innborganir á innheimtumál stæðu á móti vinnu kæranda. Jafnframt því sem lögmanni kæranda hafi verið gerð grein fyrir því að vinna kærða stæði á móti uppgjöri hinnar margnefndu innheimtu á hendur B.

Niðurstaða.

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

Í öðrum kafla siðareglnanna er fjallað um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum. Þar segir m.a. í 2. mgr. 10 .gr. að lögmanni beri að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Beri lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Í 14. gr. siðareglnanna er sérstaklega fjallað um skil á innheimtufé og uppgjör. Þar segir:

Lögmanni ber án ástæðulauss dráttar að gera skjólstæðingi skil á innheimtufé og öðrum fjármunum, er lögmaður hefur móttekið fyrir hönd skjólstæðings síns.

Ávallt er þó lögmanni rétt að halda eftir nægu fé til tryggingar greiðslu áfallins verkkostnaðar þeirra mála, sem lögmaður hefur til meðferðar fyrir skjólstæðing sinn á hverjum tíma, enda geri lögmaður skjólstæðingi viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði.

Uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skulu vera greinargóð.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skuli upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Þegar samskipti kæranda og kærða eru borin saman við þær kröfur sem ofangreind ákvæði gera til lögmanna, er augljóst að kærði hefur ekki staðist þær. Þrátt fyrir margítrekaðar beiðnir kæranda um upplýsingar, sinnti kærði þeim í engu um margra mánaða skeið, allt frá 12. nóvember 2012 og til septemberloka 2013. Kærði gerði kæranda enga grein fyrir grundvelli þeirrar gjaldtöku sem lá að baki reikningi hans fyrir „lögfræðiaðstoð og ráðgjöf" fyrr en í greinargerð sinni fyrir nefndinni. Mátti honum þó vera ljóst að allan þennan tíma héldu fyrirsvarsmenn kæranda að hann ætti eftir að gera upp við þá vegna inngreiðslu skuldarans á einni milljón króna. Urðu þannig mjög veruleg vanhöld á að kærði gerði kæranda viðhlítandi grein fyrir þeim áfallna kostnaði sem hann taldi sig eiga inni hjá kæranda og skilaði greinargóðum uppgjörum vegna þeirra, sbr. niðurlag fyrrnefndrar 14. gr. siðareglna lögmanna.

Þegar litið er til hins langa tíma sem leið, margítrekaðra fyrirspurnar kæranda og þess að kærði hefur enn ekki gert viðhlítandi grein fyrir þeimverkum sem hann áskilur sér tæplega milljón króna verklaun fyrir, verður ekki undan því vikist að veita kærða áminningu vegna þessa.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Eftir að greinargerð kærða var send kæranda, hefur hann ekki andmælt því sérstaklega að kærði hafi unnið fyrir félagið að fleiri innheimtumálum. Fær það enda stuðning í fram lögðum tölvupósti kærða til kæranda frá nóvember 2011 þar sem rakin er staða fleiri innheimtumála. Óhögguð standa þó mótmæli kærða við þessum kröfum sem síðbúnum. Eins og málið hefur þannig verið lagt fyrir nefndina telur hún ekki unnt að fjalla í því um gjaldtöku kæranda að fjárhæð 904.934.- vegna annarra starfa kæranda fyrir kærða en þeirra sem lutu að innheimtu skuldar B.

Varðandi innheimtukostnað vegna þess innheimtumáls er til þess að líta að um var að ræða fjárkröfu að höfuðstóls fjárhæð kr. 2.472.772 auk dráttarvaxta. Kærði hafði ekki nein raunhæf úrræði til löginnheimtu eftir að árangurslaust fjárnám hafði verið gert hjá skuldaranum en tókst þó með samningum við hann að fá 1.200.000 kr. greiddar upp í skuldina. Fram lagður tölvupóstur kærða ber með sér að hann hafi einnig verið í einhverjum samskiptum við fyrri fyrirsvarsmenn kæranda vegna málsins. Virðist áskilin innheimtuþóknun hans vegna málsins að fjárhæð rúmlega  235.000 kr. ekki óhæfileg í þessu ljósi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, R hrl. sætir áminningu.

Áskilin innheimtuþóknun kærða að fjárhæð 235.113 auk vsk hæfileg fyrir innheimtu á skuld B við kæranda, A ehf. er hæfileg.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson