Mál 31 2013

Ár 2014, föstudaginn 14. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 31/2013:

A

gegn

R hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 3. desember 2013 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir störfum kærða, R hrl., með því að fullyrða opinberlega að kæra hennar til sérstaks saksóknara væri ekki að hennar frumkvæði og að hafa veitt fjölmiðli trúnaðarupplýsingar um fjárhagsmálefni hennar án heimildar.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 6. desember 2013. Greinargerð kærða barst þann 13. desember 2013. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða þann 19. desember 2013. Athugasemdir kæranda bárust þann 14. janúar 2014. Kærða var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum þann 23. janúar 2013. Athugasemdir bárust þann 4. febrúar 2014.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Þann 8. júlí 2013 kærði kærandi máls þessa stjórnendur B til embættis sérstaks saksóknara vegna meintrar innheimtu ólögmætra dráttarvaxta.Kærandi kveðst hafa fengið C hdl. til að rita kæruna.

Í kærunni er því haldið fram að stjórnendur B hafi framið fjársvik í skilningi 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og blekkt með skjölum í skilningi 156. gr. sömu laga.

Kærði gætti hagsmuna stjórnenda B vegna framangreinds máls. Í greinargerð sem send var sérstökum saksóknara frá stjórnendum B kom fram að hún væri send vegna tilhæfulausra sakargifta C hdl. í kæru til embættisins þann 8. júlí 2013, ritaðrar í nafni kæranda, A.

Í viðtali við DV þann 16. júlí 2013 kom fram að B hygðist kæra C fyrir rangar sakargiftir. Þá kom einnig fram að kærandi hafi ekki verið krafin um neitt í langan tíma.

Samkvæmt ákvörðun sérstaks saksóknara, dags. 6. september 2013, var kærunni vísað frá með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem ekki þóttu efni til að hefja rannsókn út af henni. Sú ákvörðun var síðan kærð af hálfu kæranda til ríkissaksóknara sem staðfesti ákvörðun sérstaks saksóknara þann 4. nóvember 2013.

II.

Kærandi lýsir þeirri skoðun sinni í athugasemdum við greinargerð kærða að hún telji ljóst að öll nefndin þurfi að víka sæti vegna vanhæfis í ljósi þess að kærði er einn skipaðra aðalmanna í nefndinni.

Kærandi vísar til þess að í siðareglum lögmanna segi að lögmaður hafi kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gæti fyrir skjólstæðing sinn. Á sama hátt hljóti skjólstæðingur lögmanns að geta gert þá kröfu að vera ekki samkenndur lögmanninum og niðurlægður með því að vera sagður málpípa hans.

Kærandi telur kærða með fullyrðingum sínum lítillækka hana sem skjólstæðing lögmanns. Augsýnilega hafi kærði aðra skoðun en lögmaður hennar á lögfræðinni sem upphafleg kæra snúist um. Það veiti honum engan rétt til að smána hana. Það sé hún sem standi að kærunni og hefði kærði viljað kæra einhvern fyrir rangar sakargiftir þá hefði hann átt að kæra hana. Sérstaklega særandi séu þau ummæli kærða að C riti kæruna í hennar nafni og að óvíst sé að hún hafi átt frumkvæði að málinu. Kærði færi engin rök fyrir ávirðingum sínum heldur niðurlægi hana í áróðursherferð B. Tilgangurinn virðist sá einn að hræða lögmenn frá því að aðstoða fólk í glímu við það fyrirtæki.

Kærandi bendir á að með ummælum sínum í DV þann 16. júlí 2013 hafi kærði, sem talsmaður B brotið gegn þagnarskylduákvæðum. Sem lögmaður fjármálafyrirtækis eigi hann að vita að miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni sé óheimil án samþykkis hlutaðeigandi. Þess samþykkis hafi ekki verið leitað.

III.

Kærði bendir á að það sé rangt að fullyrt sé af kærða að kæran sé ekki orð kæranda. Hins vegar sé óhætt að fullyrða að kærði sé ekki þeirrar skoðunar að kærandi hafi samið skjalið. Ekki sé annað vitað en það sé samið af þeim sem hafi undirritað það og tekið með sér til sérstaks saksóknara með miklum bumbuslætti svo myndlíkingar séu notaðar. Það væri eins og að halda því fram að lögmaður kæranda hafi samið þessa kvörtun en ekki hún sjálf. Því hafi aldrei verið haldið fram að lögmaður kæranda hafi fengið nafn hennar að láni. Hún muni hins vegar hafa fengið peninga að láni og hafi kæran til sérstaks saksóknara lotið að skáldaðri innheimtu þeirra.

Kærði kveður ástæður óvissu hans hafa m.a. verið eftirfarandi ummæli C hdl. í fjölmiðlum: DV.is, 9. júlí 2013: „Lögmaður A, C, segir B hafa framið auðgunarbrot með álagningu dráttarvaxtanna. Hann segist einnig vita af fjölda svipaðra mála í starfsemi fyrirtækisins.", Morgunblaðið, 10. júlí 2013: „Við teljum að þegar menn reyna að hámarka kröfur sínar með því að fara á svig við lögin sé það auðgunarbrot, segir C...", Morgunblaðið 10. júlí 2013: „Við teljum að þegar menn reyna að hámarka kröfur sínar með því að fara á svig við lögin sé það auðgunarbrot. Það er verið að beita blekkingum. Þeir segjast hafa heimild til að rukka dráttarvexti þegar þeir hafa hana ekki. Þetta er gert með ákveðnum ásetningi. Þetta er verklag sem stjórn B ákveður og er gegnumgangandi í mörgum málum, segir C..."

Kærði telur að þarna sé lögmaðurinn sjálfur að samkenna sig þeirri skoðun að verið sé að brjóta hegningarlög, með því að nota orðið „við" og láta hafa orðrétt eftir sér.

Kærði vísar ennfremur til eftirfarandi ummæla C: Bylgjan, Í bítið 13. maí 2013: „ „C er lögmaður hópsins." „Já, já þetta er slagur, það er alveg rétt." „... hvað finnst þér eftir að þú tókst að þér að vinna fyrir hópinn?" „...þá er alveg ljóst að af þeim málum sem ég hef skoðað fyrir þennan hóp að það eru mjög mörg alvarleg brot búin að eiga sér stað gagnvart ja, ja gagnvart þessu fólki" „Það er ýmislegt að gerast þarna og ég tel að það sé orðið tímabært að stjórnvöld taki sig á og taki á þessu fyrirtæki þannig að það sé ekki að valda einstaklingum og fyrirtækjum frekara tjóni en þeir hafa gert nú þegar." „Já það er það sem náttúrulega við erum að gera í þessum hópi er það að við erum að skoða ýmsar leiðir og, og aðgerðir gagnvart B sem munu skýrast á næstu vikum en þær verða frábrugðnar því sem hingað til hefur verið farið út í." „... þeir hafa ekki farið eftir þeim leikreglum sem þeim bar að fara eftir varðandi þessar leiðréttingar." "

Kærði telur að ekki sé vafi að farnar hafi verið „frábrugðnar" leiðir. Þar hafi lögmaðurinn haldið á gunnfánanum. Ekki sé vitað um frábrugðnar og nýstárlegar leiðir, aðrar en þessar, þ.e. að vera með aðför að saklausum mönnum með röngum sakargiftum, baðað í kastljósi fjölmiðla.

Kærði bendir á eftirfarandi ummæli: RÚV.is, 9. júlí 2013: „C segir að innheimtuaðilar sem starfi fyrir hönd BB[svo] fari fram með þeim hætti að þeir reyni að telja skuldurum trú um að þeim beri að greiða dráttarvexti meðan þeir eru í greiðsluskjóli, en það sé ekki rétt. Því sé verið að beita ákveðnum blekkingum.", Eyjan/Pressan, 9. júlí 2013: „Að mati þeirra er að kærunni standa er um að ræða klárt brot á lögum og að skuldarinn hafi verið beittur blekkingum.", Bylgjan, hádegisfréttir, 9. júlí 2013: „C, lögfræðingur konunnar, segir að B hafi framið auðgunarbrot með álagningu 18 milljón króna dráttarvaxta á lán á meðan konan var og er í greiðsluskjóli.", Rás 1 og 2, hádegisfréttir, 9. júlí 2013: „Hér fara innheimtuaðilar fyrir hönd BB fram með þeim hætti að þeir eru að reyna að telja skuldurum trú um það að þeim beri að greiða dráttarvexti meðan þeir eru í greiðsluskjóli, meðan slíkt er ekki rétt. Þarna er verið að beita ákveðnum blekkingum.", Stöð 2, fréttir, 9. júlí 2013: „Við teljum það vera brot á almennum hegningarlögum að viljum láta reyna á það.", „Það að stjórnendur B og BB geti tekið ákvarðanir með þessum hætti, það auðvitað varðar í raun og veru bara almenn hegningarlög og auðvitað er orðið löngu tímabært fyrir eftirlitsaðila að taka til skoðunar þessa starfsemi."

Kærði bendir á að með framangreindum tilvitnunum sé lögmaðurinn að tala fyrir umbjóðanda sinn, kæranda í máli þessu, og noti fyrstu persónu fleirtölu á nokkurs fyrirvara. Með þessum ummælum samkenni lögmaður kæranda málstaðnum. Í fæstum þessara yfirlýsinga virðist hann hafa skjólstæðing sinn í huga, mest sjálfan sig og svo samstöðuhópinn.

Kærði kveðst af þessum ástæðum hafa verið í óvissu um frumkvæði kæranda og hafi viljað láta hana njóta vafans um þátttöku í svo auvirðilegri atlögu að fjórum nafngreindum lögmönnum. Kærði bendir á að kærandi leggi sjálf fram tilvísun í ummæli lögmanns síns í DV þar sem hann vísi frumkvæðinu á hendur „Samtökum gegn B". Lögmaðurinn segi samtök þessi eiga frumkvæðið, hann sé lögmaður samtakanna og fari með málið áfram í nafni kæranda. Kærði kveður allt þetta hafa vakið þá hugsun hjá sér að lögmaðurinn væri að vekja athygli á sjálfum sér. Kærði hafi því kosið að láta liggja milli hluta hver væri þáttur kæranda sjálfrar í atburðarrásinni. Hafi ekkert verið fullyrt um það. Þrái kærandi að vera talin guðfaðir þessarar atlögu sé henni í lófa lagið að auglýsa slíkt opinberlega. Sé henni varla miski gerður þótt kærði hafi ekki viljað fullyrða um þátttöku hennar í tiltækinu.

Kærði tekur fram að kærandi vaði í þeirri villu að lögmenn beri ekki ábyrgð á skammarstrikum sínum hafi þeim verið falið slíkt af umbjóðendum sínum. Í þessu máli verði lögmaðurinn að bera ábyrgð á gerðum sínum. Umbjóðanda hans sé enginn miski gerður þótt reynt hafi verið að vernda æru hennar frá prakkarastrikum lögmanns síns. Kærði kveður það rangt sem fram komi í kvörtuninni að hann hafi fullyrt að kærandi væri saklaus af athæfinu.. Aðeins hafi verið upplýst að kærði væri í óvissu um hversu mikill hlutur kæranda væri í uppátækinu.

Kærði bendir á að í fjölmiðlum og í kæru til embættis sérstaks saksóknara hafi kærandi eða lögmaður hennar gert eftirfarandi fjárhagsupplýsingar opinberar: Kæra til embættis sérstaks saksóknara, 8. júlí 2013: „Á árunum 2006 og 2007 tók kærandi tvö fasteignalán hjá BB hf. í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, annað lánið upprunalega að fjárhæð kr. 26.000.000, tekið 28. nóvember árið 2006, og hitt að fjárhæð kr. 2.500.000, tekið 22. mars árið 2007. Lánin voru með veði í D, heimili kæranda og fjölskyldu hennar. ... Á þeim tíma sem kærandi berið [svo] eftir að lánin yrðu endurreiknuð var hún í miklum fjárhagsörðugleikum.", RÚV.is, 9. júlí 2013: „Á árunum 2006 og 2007 tók kona í Hafnarfirði tæplega 30 milljóna króna gengistryggt lán hjá BB. Eftir hrun tók B, eignarhaldsfélag BBB, til við að innheimta lánið. Eftir dóma Hæstaréttar var lánið svo endurreiknað og lækkað. Konan lenti í greiðsluerfiðleikum og nýtti sér því úrræði um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara í byrjun árs 2011. Síðan hefur hún ekki greitt af láninu.", Eyjan/Pressan, 9. júlí 2013: „Málið snýr að þriggja barna móður úr Hafnarfirði, A, sem tók tæplega 30 milljóna króna gengislán hjá BB á árunum 2006 og 2007, en þau lán færðust sem kunnugt er til BB hf. við gjaldþrot bankans. Lánin voru úrskurðuð ólögmæt og þau endurreiknuð. A lenti í greiðsluerfiðleikum og eftir ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til að semja um greiðslur af lánunum sótti hún um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara í ársbyrjun 2011 og hefur hún ekki greitt af láninu síðan.", Rás 1 og 2, hádegisfréttir, 9. júlí 2013: „Á árunum 2006 og 2007 tók kona í Hafnarfirði tæplega 30 milljóna króna gengistryggt lán hjá BB. Eftir hrun tók B, eignarhaldsfélag BBB, til við að innheimta lánið. Eftir dóma Hæstaréttar var lánið svo endurreiknað og lækkað. Konan lenti í greiðsluerfiðleikum og nýtti sér því úrræði um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara í byrjun árs 2011. Síðan þá hefur hún ekki greitt af láninu.", Stöð 2, fréttir, 9. júlí 2013: „Á árunum 2006 og 2007 tók A, þriggja barna móðir úr Hafnarfirði tvö gengistryggð fasteignalán hjá BB upp á rúmar 29 milljónir króna samanlagt. Eftir hrun fer lánið til B sem annast innheimtu lána BB og BBB. Hún skuldaði ríflega 41 milljón áður en Hæstiréttur dæmdi gengislánið ólöglegt. ... A hefur ekki greitt af láninu í tvö ár eða frá því að hún leitaði til Umboðsmanns skuldara í ársbyrjun 2011 vegna greiðsluerfiðleika og var sett í greiðsluskjól." Vísir.is, 9. júlí 2013: „Á árunum 2006 og 2007 tók A þriggja barna móðir úr Hafnarfirði tvö gengistryggð fasteignalán hjá BB upp á rúmar 28 milljónir samanlagt[svo]. Eftir hrun fer lánið til B sem annast innheimtu lána sem BB og BBB veittu. Hún skuldar ríflega fjörtíu [svo] og eina milljón áður en Hæstiréttur dæmir gengislánið ólöglegt. Hún fær leiðréttingu samkvæmt dómum hæstaréttar og lánin fara í rúmlega 26 milljónir, svo fer hún í greiðsluskjól. ... A hefur ekki greitt af láninu í tvö ár eða frá því hún leitaði til Umboðsmanns skuldara í ársbyrjun 2011 vegna greiðsluerfiðleika og var sett í greiðsluskjól.", Morgunblaðið, 10. júlí 2013: „A lenti í erfiðleikum með tvö gengistryggð lán hjá BB í kjölfar hrunsins sem námu samtals um 28 milljónum króna. Hún samdi um viðmiðunargreiðslur við B en slitastjórnin hafi svo neitað að standa við samkomulagið þar sem lánið væri löglegt. Síðan hafi verið reynt að þvinga hana til að skrifa undir nýtt skuldabréf í íslenskum krónum. Það var áður en dómur um lögmæti gengislána féll. Í kjölfarið leitaði A til umboðsmanns skuldara og fékk greiðsluskjól."

Kærði bendir á að kærandi leggi mikla áherslu á að kæran á hendur fjórum einstaklingum hafi verið runnin undan hennar rifjum. Þar hafi þeir verið sakaðir um að hafa krafið hana um fjármuni í greiðsluskjóli. Svo glæpsamlegur hafi verknaðurinn verið að þeir ættu að sitja lengur inni en nokkur annar sem dæmdur hafi verið fyrir auðgunarbrot.

Kærði telur það skjóta nokkuð skökku við ef lögmaður sem beri blak af skjólstæðingum sínum við þessar aðstæður fái á sig kvörtun fyrir það eitt að segja þetta rangt. Einkum sé þetta undarlegt þar sem kærandi telji lögmenn ekki geta borið ábyrgð á gerðum sínum séu þær vegna starfa þeirra fyrir skjólstæðinga sína. Væntanlega telji kærandinn að lögmenn beri því aðeins ábyrgð í störfum sínum hafi þeir enga skjólstæðinga. Orðin „í langan tíma" hafi verið notuð til að leggja áherslu á að kærandi hafi verið látin í friði með innheimtu á meðan hún hafi verið í greiðsluskjóli. Í þessum orðum hafi því að auki engar nýjar upplýsingar falist. Hafi kærði örugglega mátt leiðrétta ósannindi sem höfð hafi verið í frammi um rétta málavexti og notuð hafi verið sem röksemd fyrir því að umbjóðendur kærða hafi framið alvarlegan glæp. Ásakanirnar hafi verið auglýstar í fjölmiðlum með skipulegum hætti og hafi mátt svara á þeim vettvangi sem öðrum.

IV.

Í athugasemdum kæranda við athugasemdir kærða, sem bárust 14. janúar 2014, kveðst kærandi telja að í ljósi þess að kærði sé einn aðalmanna í úrskurðarnefnd lögmanna þá þurfi öll nefndin, svo og varamenn að víkja við umfjöllun um kvörtun hennar. Aðstæður séu til þess fallnar að draga óhlutdrægni aðal- og varamanna í nefndinni í efa. Kærandi kveðst treysta því að úrskurðarnefndin vilji hafa vaðið fyrir neðan sig, enda hljóti viðlíka hæfiskröfur að vera gerðar til hennar og handhafa dómsvalds miðað við þær afgerandi valdheimildir sem nefndin hafi samkvæmt lögum.

Kærandi telur það vægast sagt ósvífinn útúrsnúning að kvörtun hennar til úrskurðarnefndarinnar snúist um að „fá ekki að vera sökudólgurinn í málinu". Kærði sé enginn dómari um það hvort hún eða lögmaður hennar séu „sökudólgar". Svona orðfæri sé algjör rökleysa og ekki sæmandi lögmanni.

Kærandi bendir á að fullyrðing kærða um að lögmaður hennar hafi farið með rangar sakargiftir til sérstaks saksóknara sé hugarburður hans eins. Hið rétta sé að kærandi hafi kært stjórnendur B til sérstaks saksóknara fyrir lögbrot þegar þeir hafi krafið hana með ólögmætum hætti um dráttarvexti.

Kærandi bendir á að kærði segi það rangt að hann hafi fullyrt að kæran væri ekki orð kæranda. Kærandi telur óhjákvæmilegt að rifja upp lítið brot af orðalagi kærða um þetta í kæru hans til sérstaks saksóknara til að sýna að þetta sé rangt hjá honum: „Efni: Vegna tilhæfulausra sakargifta C hdl. í kæru til embættisins þann 8.7.2013 ritaðrar í nafni A", „Verknaður C hdl. byggist á hörðum ásetningi...", „Lögmaðurinn er með ósannar ávirðingar", „Með þessu er lögmaðurinn með leiksýningu og loddaraskap", „Ekki er verið að elta ólar við umbjóðanda lögmannsins því óvíst er að hún hafi átt frumkvæðið í þessu máli".

Kærandi vísar til þess að kærði segi hins vegar „óhætt að fullyrða að hann sé ekki þeirrar skoðunar að kvartandi hafi samið skjalið". Þetta orðalag noti hann ekki í kærunni. Þar segist hann hvergi vera „þeirrar skoðunar" heldur fullyrði hann að C hafi ritað kæruna og einungis fengið nafn kæranda að láni.

Kærandi bendir á að kærði segist ekki þeirrar skoðunar að hún hafi samið skjalið. Úr því að hann hafi nafnbótina lögmaður hljóti hann að vita, líkt og allur almenningur, að auðvitað semji lögmenn skjöl fyrir fólk og skrifi oft undir þau í umboði þess. Þegar kærandi hafi hitt C vegna lögbrota B gagnvart henni hafi hún lagt upplýsingar fyrir hann og falið honum að kæra stjórnendur fyrirtækisins til sérstaks saksóknara. Að sjálfsögðu hafi C samið kæruna sem send hafi verið til sérstaks saksóknara. Kærði hljóti að vera meðvitaður um að þannig vinni lögmenn alla jafna. Lögmaður gæti hagsmuna umbjóðanda síns.

Kærandi vísar til þess að kærði segi orðrétt: „Aldrei var því haldið fram að lögmaður kvartanda hafi fengið nafn hennar að láni". Þetta telur kærandi þvætting, sbr. tilvitnuð ummæli úr kæru kærða til sérstaks saksóknara.

Kærandi bendir á að kærði telji upp fjölmörg ummæli kærða úr fjölmiðlum til að styðja „ástæður óvissu" sinnar um aðkomu hennar. Kærandi segir að sig megi einu skipta um hvað C tjái sig í fjölmiðlum og fái hún ekki séð að málflutningur hans þar sé með öðrum hætti en fjölmargra annarra lögmanna sem tjái sig nánast daglega í fjölmiðlum um málefni umbjóðenda sinna. Engu skipti hversu sterkt að orði þessir lögmenn komist eða hvort þeir tali í fyrstu persónu eintölu eða fleirtölu. Lög um lögmenn kveði á um að lögmenn skuli ekki samkenndir umbjóðendum sínum.

Kærandi bendir á að kærði kveði upp úr um að henni sé svo sem í lófa lagið að vera talinn guðfaðir „þessarar atlögu. Kærandi telur kærða með þessu enn og aftur kjósa að gera lítið úr henni, rangtúlka málið og setjast í dómarasæti. Kveðst kæranda alveg sama þótt kærði telji kæru hennar til sérstaks saksóknara vera skammarlega atlögu að fjórum alsaklausum einstaklingum. Það breyti ekki þeirri staðreynd að kærandi hafi kært þessa meintu sakleysingja til sérstaks saksóknara. Það sé skýrt brot á lögum um lögmenn og siðareglum þeirra að fullyrða að kærandi hafi lánað einhverjum öðrum nafn sitt í kæru til sérstaks saksóknara eða að óvíst sé að hún hafi átt frumkvæðið að málinu. Kærði geti ekki leyft sér að ráðast að C með því að gera lítið úr kæranda.

Kærandi bendir á að kærði telji að hann hafi haft vaðið fyrir neðan sig þegar hann hafi tjáð sig um fjárhagsmálefni kæranda í viðtali við DV þann 16. júlí 2013. Vísi hann til nokkurra frétta um þetta leyti þar sem fram komi að kærandi hafi ekki greitt af láninu. Kveður kærandi þær upplýsingar frá henni komnar.

Kærandi bendir á að kærði hafi ekki tjáð sig um það við DV hvort hún hefði greitt af láninu. Hann hafi sagt: „Hún [A] hefur ekki verið krafin um neitt í langan tíma". Með öðrum orðum hafi kærði sagt að umbjóðandi hans, B, hafi ekki gert kröfu til hennar um greiðslu í langan tíma. Þessi fullyrðing hafi ekki getað verið byggð á öðru en upplýsingum frá B. Það sé skýrt brot á þagnarskylduákvæðum fjármálafyrirtækja. Kærði geti ekkert frekar en starfsmenn B tjáð sig opinberlega um persónuleg fjárhagsmálefni kæranda án hennar heimildar. Heimildina kveðst kærandi ekki hafa veitt.

Kærandi telur að beiting kærða á þessari fullyrðingu, fyrir hönd B, hafi verið til að sannfæra almenning um að hún færi með rangt mál. Sem lögmaður B hafi kærði talað í umboði fyrirtækisins til að gera kæranda ótrúverðuga og hafi hann brotið þagnarskylduákvæði með því. Þessi ákvæði séu mjög skýr og í þeim sé enginn afsláttur veittur. Ummæli kærða hafi því verið fullkomlega óheimil.

Kærandi bendir á að kærði bæti um betur og segi að hann hafi með orðum sínum mátt leiðrétta ósannindi sem höfð hafi verið um rétta málavexti. Staðreyndin sé hins vegar að þó svo fjármálafyrirtæki séu borin þungum og jafnvel ósönnuðum sökum þá geti þau ekki rofið þagnarskyldu til að svara fyrir sig, sama þótt undan svíði, nema með leyfi viðkomandi. Um þessa stöðu fjármálafyrirtækjanna gagnvart opinberri umræðu hafi margsinnis verið fjallað í fjölmiðlum. Með orðum sínum hafi kærði farið yfir línu sem enginn fulltrúi fjármálafyrirtækis hafi vogað sér til þessa.

V.

Í lokaathugasemdum kærða tekur hann fram að kæra C hdl. hafi verið algjörlega tilefnislaus. Í fyrsta lagi hafi lýsing hans á sakarefninu ekki getað verið refsiverð, hvernig sem á málið sé litið. Í öðru lagi hafi hann farið rangt með málavexti eða snúið út úr þeim á villandi hátt. Í þriðja lagi séu slitastjórnarstörf lögmannsstörf og meðal algengustu lögmannsstarfa.

Kærði tekur fram varðandi þagnarskylduna að kæran um refsiverða háttsemi hafi snúist um hvort að A hafi verið krafin um greiðslur í andstöðu við ákvæði laga um greiðsluaðlögun. Það sé ekki brot á þagnarskyldu þegar menn beri af sér sakir vegna kæru sem eigi hvorki meira né minna en varða sex ára fangelsi. Kæran hafi lotið að því að greiðslu hafi verið krafist.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 2.mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn.

Í 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki er fjallað um þagnarskyldu þeirra sem starfa í þágu fjármálafyrirtækja. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins eru stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum.  Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins nær þagnarskyldan jafnframt til þeirra sem veita viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr.

II.

Nefndin telur ekki efni til þess að hún víki öll sæti í málinu, enda eru nefndarmenn sjálfir undir agavaldi hennar.

III.

Kærði taldi að lögmaður kæranda hefði farið offari gegn umbjóðendum sínum og gerst brotlegur við lög og siðareglur lögmanna. Var honum heimilt að leita úrskurðar nefndarinnar um það efni. Kærði taldi lögmanninn sjálfan hafa farið fram með offorsi og vildi leggja á hann ábyrgðina á umræddri kæru til sérstaks saksóknara. Honum var í sjálfu sér heimilt að byggja á þessu sjónarmiði í málinu, þótt ekki fengi það að fullu hljómgrunn hjá nefndinni. Er ekki unnt að fallast á að með þessu hafi hann smánað kæranda eða misgert við hana með broti á siðareglum.

IV.

Að framan er rakið hvernig kærandi hafði sjálf upplýst á opinberum vettvangi um viðskiptamálefni sín og stöðu þeirra, þ.á.m. að hún hefði ekki greitt af lánunum um nokkra hríð. Hún bar upp á viðkomandi fyrirtæki að það hefði ranglega freistað þess að innheimta hjá sér umræddar kröfur, og byggir nú á því fyrir nefndinni að þrátt fyrir þetta hafi talsmönnum fyrirtækisins verið óheimilt að upplýsa að í raun hefðu engar innheimtutilraunir farið fram. Á þetta getur nefndin ekki fallist. Hugtakið „Viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna",  í skilningi tilvitnaðra lagaákvæða,  verður ekki túlkað svo vítt að það nái til upplýsinga um innheimtuaðferðir viðkomandi fyrirtækis, þegar viðskiptamaðurinn kýs að gera þær að opinberu umtalsefni.

Að öllu þessu athuguðu verður ekki litið svo á að kærði hafi misgert við kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, R hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Berglind Svavarsdóttir, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson