Mál 22 2014

 

 

Ár 2015, föstudaginn 13. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 22/2014:

A

gegn

R hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 22. ágúst 2014 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir því að R hrl., kærði, hafi ekki sinnt fjölmörgum innheimtumálum sem hann hefði tekið að sér fyrir kæranda og ekki afhent kæranda gögn vegna málanna, þegar eftir því hafi verið leitað.

Kærði hefur ekki tjáð sig um erindið, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli úrskurðarnefndar til hans um að hann gerði grein fyrir afstöðu sinni til þess.Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila um erindið þann 1. september 2014. Þann 17. nóvember 2014 ítrekaði nefndin tilmæli til varnaraðila um að hann gerði nefndinni grein fyrir málinu af sinni hálfu. Í því bréfi var kærði minntur á skyldur sínar gagnvart umbjóðendum sínum og gagnvart úrskurðarnefndinni. Bent var á að bærust umbeðnar upplýsingar ekki í síðasta lagi 1. desember 2014 mætti hann búast við að nefndin beitti þeim viðurlögum, sem kveðið væri á um í 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Með símtali við kærða 21. janúar 2015 var hann enn minntur á erindi nefndarinnar og fékk þá frest til 27. janúar 2015 til að skila greinargerð. Engin svör eða viðbrögð hafa borist frá kærðu vegna málsins.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Samkvæmt erindi kæranda eru málavextir í stuttu máli þeir að kærði hefur síðastliðin ár haft til innheimtu fjölmargar kröfur fyrir kæranda. Telur kærði innheimtu kærða ábótavant og kveðst hann hafa óskað eftir að kærði skili gögnum vegna innheimtunnar ásamt skilagreinum í innheimtumálum. Við því hafi ekki verið orðið, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Í greinargerð kæranda eru þessi atvik og samskipti vegna innheimtumálanna rakin nánar, allt frá árinu 2011, en kærandi kveðst fyrst hafa byrjað að kalla eftir upplýsingum um málin það ár. Hafi hann fengið upplýsingar frá kærða árið 2012, sem hafi borið með sér að innheimtunni væri mjög ábótavant í mörgum tilfellum. Hafi hann þá kallað eftir því að fá gögn innheimtumálanna afhent og gert það af nokkurri fresti allt frá því síðla árs 2013. Hefur kærandi lagt fram tölvupóstsamskipti síðari lögmanns síns við kærða, en þar er um að ræða margítrekaðar óskir um upplýsingar og afhendingu gagna, ásamt nokkrum stuttum svörum frá kærða. Bera svörin með sér að kærði hefur ítrekað lofað svörum og gögnum fljótlega án þess að þau hafi verið send.

 

II.

Niðurstaða.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 4. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. getur nefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu.

Samkvæmt 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni skylt að boði úrskurðarnefndar lögmanna að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á siðareglunum. Ber lögmanni í því efni að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum nefndarinnar.

Erindi þetta var sent nefndinni eftir ítrekaðar tilraunir kæranda við að fá upplýsingar og gögn frá kærða vegna fyrrnefndra innheimtumála. Eins og lýst er hér að framan hefur kærða verið veittur rúmur frestur af hálfu úrskurðarnefndar til að gera grein fyrir máli sínu, en hann hefur ítrekað hunsað tilmæli nefndarinnar þar að lútandi.

Að mati úrskurðarnefndar felur framferði kærða, sem hér hefur verið lýst, þ.e. sú vanræksla hans að senda eða afhenda kæranda ekki upplýsingar og gögn  vegna innheimtumála hans, í sér brot á starfsskyldum hans samkvæmt siðareglum lögmanna, sbr. t.d. 41. gr. reglnanna. Einnig felur framferði hans í sér brot á skyldum hans gagnvart nefndinni, sbr. 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna, sem leiðir til þess að mál þetta verður ekki fyllilega upplýst á vettvangi nefndarinnar. Hefur kærði þannig sýnt af sér hegðun sem telja verður lögmannastéttinni ósamboðna.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísun til 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 veitir úrskurðarnefnd lögmanna kærða, R hrl., áminningu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, R hrl., sætir áminningu.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson