Mál 13 2018

Mál 13/2018

Ár 2019, 22. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 13/2018:

A

gegn

B lögmanni

 og gefið út svofellt

Á L I T:

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 7. júní 2018 erindi A (hér eftir nefndur „álitsbeiðandi“), þar sem óskað var eftir álitsgerð nefndarinnar, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, í máli Héraðsdóms Y nr. E-xxxx/2017, þar sem lögmannsstofa B lögmanns (hér eftir nefndur „lögmaðurinn“), C ehf., krefur um greiðslu reiknings vegna lögmannsþjónustu í þágu álitsbeiðanda á árunum 2008 – 2014.

Nefndin óskaði eftir greinargerð lögmannsins með bréfi, dags. 8. júní 2018. Með bréfi, dags. 15. júní 2018, var óskað eftir auknum fresti af hálfu lögmannsins til að skila greinargerð í málinu og var um það efni meðal annars vísað til þess að krafa hans, fyrir hönd C ehf., um að bú álitsbeiðanda yrði tekið til gjaldþrotaskipta biði úrskurðar fyrir Héraðsdómi Y. Féllst nefndin á beiðni lögmannsins og veitti honum frest til að skila greinargerð í málinu til 15. ágúst 2018.

Með bréfi lögmannsins til nefndarinnar, dags. 9. júlí 2018, var upplýst að bú álitsbeiðanda hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt beiðni C ehf. með úrskurði Héraðsdóms Y 4. júlí 2018 í máli nr. X-x/2018. Var því meðal annars lýst í bréfinu að óljóst væri hvernig aðild að málinu yrði háttað og hvort að þrotabú álitsbeiðanda myndi standa að álitsbeiðninni sem gerð hefði verið í órofa tengslum við dómsmál það sem rekið væri fyrir Héraðsdómi Y. Í ljósi þeirrar óvissu væri óhjákvæmilegt að vísa málinu frá nefndinni.

Í septembermánuði 2018 upplýstu málsaðilar nefndina um að héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/2017 yrði haldið til streitu fyrir Héraðsdómi Y og að beiðni um álitsgerð nefndarinnar stæði því óhögguð. Af þeim sökum beindi nefndin því til lögmannsins, með bréfi dags. 27. september 2018, að skila greinargerð vegna málsins sem skyldi berast eigi síðar en þann 12. október sama ár.

Nefndinni barst greinargerð lögmannsins þann 11. október 2018 og var hún send samdægurs til álitsbeiðanda til athugasemda. Hinn 2. nóvember 2018 bárust athugasemdir álitsbeiðanda sem sendar voru lögmanninum þann 5. sama mánaðar. Viðbótarathugasemdir lögmannsins bárust loks þann 13. nóvember 2018 og voru þær sendar álitsbeiðanda til upplýsinga auk þess sem tiltekið var að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir bárust. Er álitsgerð þessi byggð á fyrirliggjandi athugasemdum og gögnum, sem málsaðilar hafa lagt fyrir nefndina.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Samkvæmt málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni og málsgögnum mun álitsbeiðandi hafa leitað til lögmannsins síðla árs 2008 vegna ætlaðrar skaðabótakröfu aðilans á hendur D banka hf. (hér eftir nefndur „D“), sem þá hafði verið tekinn yfir af hálfu Fjármálaeftirlitsins samkvæmt heimild í lögum 161/2002 um fjármálafyrirtæki vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, sbr. lög nr. 125/2008. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 var nánar tilgreindum eignum D ráðstafað til hins nýstofnaða E hf. (hér eftir nefndur „E“). Meðal eigna sem sættu slíku framsali voru réttindi samkvæmt lánssamningi á milli álitsbeiðanda og D frá 11. apríl 2008. Samkvæmt málsgögnum mun álitsbeiðandi hafa átt í ágreiningi vegna tilgreinds lánssamnings við E og fól álitsbeiðandi lögmanninum jafnframt að annast hagsmunagæslu í sína þágu vegna þess þáttar.

Með tölvubréfi, dags. 9. desember 2008, veitti álitsbeiðandi lögmanninum fullt og ótakmarkað umboð til að fara með mál álitsbeiðanda „gagnvart hinum Nýja D banka og einnig hinum gamla.“ Var tiltekið í umboðinu að lögmanninum væri veitt heimild til að afla allra nauðsynlegra gagna vegna málanna.

Sem fyrr greinir tók lögmaðurinn að sér hagsmunagæslu vegna ætlaðra kröfuréttinda álitsbeiðanda á hendur D annars vegar, þ. á m. en ekki takmarkað við að lýsa kröfu við slitameðferð hins fallna banka, og hins vegar vegna lánssamnings þess sem ráðstafað hafði verið til E samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008.

Ágreiningur er á milli aðila um það hvort samið hafi verið um fast tímagjald við upphaf starfa lögmannsins í þágu álitsbeiðanda. Um það efni hefur álitsbeiðandi vísað til þess að aðilar hafi samið um fast tímagjald vegna verksins sem hafi verið að fjárhæð 14.600 krónur. Lögmaðurinn hefur hins vegar vísað til þess að við upphaf starfans hafi álitsbeiðandi verið upplýstur um að reikningar yrðu sendir reglulega á gildandi tímagjaldi hverju sinni samkvæmt  gjaldskrá C ehf. Þá hefur lögmaðurinn vísað til þess í málatilbúnaði sínum að álitsbeiðanda hafi verið kynnt gjaldskrá lögmannsstofunnar við upphaf lögskipta aðila en álitsbeiðandi hefur mótmælt þeim málatilbúnaði aðilans fyrir nefndinni sem röngum og ósönnuðum.

Hvað sem því líður þá liggur fyrir og er ágreiningslaust að lögmaðurinn sinnti hagsmunagæslu í þágu álitsbeiðanda vegna þeirra mála sem áður greinir. Þannig lýsti lögmaðurinn kröfu fyrir hönd álitsbeiðanda við slit D þann x. nóvember 2009 að höfuðstólsfjárhæð 233.520.219 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar jafnframt því sem þess var krafist að hún kæmi eftir þörfum til skuldajafnaðar við skuld álitsbeiðanda við E samkvæmt lánssamningnum frá 11. apríl 2008. Slitastjórn D mun hafa hafnað tilgreindri kröfu álitsbeiðanda við slitameðferðina og var ágreiningi um hana beint til úrlausnar Héraðsdóms Y, eftir ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var málið þar þingfest þann x. maí 2011 sem héraðsdómsmálið nr. X-xxx/2011.

Ágreiningslaust er að lögmaðurinn sinnti hagsmunagæslu í þágu álitsbeiðanda fyrir dómi vegna ofangreinds ágreiningsmáls við slitameðferð D. Liggja fyrir í málsgögnum greinargerðir aðila í héraði og fyrir Hæstarétti í viðkomandi dómsmáli. Með úrskurði Héraðsdóms Y uppkveðnum x. nóvember 2012 var öllum kröfum álitsbeiðanda hafnað við slitameðferðina. Álitsbeiðandi kaus að una ekki úrskurði héraðsdóms og sætti hann því kæru til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar x. apríl 2013 í máli nr. xxx/2012 var hinn kærði úrskurður ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og uppkvaðningar úrskurðar á ný.

Á sama tíma og ofangreint ágreiningsmál var rekið fyrir héraðsdómi stóð yfir málarekstur E á hendur álitsbeiðanda vegna ætlaðrar skuldar hins síðargreinda samkvæmt lánssamningnum frá 11. apríl 2008. Mun tilgreint mál hafa verið höfðað með stefnu birtri x. apríl 2010 þar sem þess var krafist að álitsbeiðandi yrði gert að greiða E 110.297.583 krónur auk dráttarvaxta, að frádregnum nánar tilgreindum innborgunum inn á kröfuna. Fyrir liggur að lögmaðurinn hélt uppi vörnum í þágu álitsbeiðanda í málinu fyrir dómi. Liggja fyrir í málsgögnum stefna og greinargerðir aðila í héraði og fyrir Hæstarétti í viðkomandi dómsmáli. Var kröfu álitsbeiðanda um frávísun málsins hafnað með úrskurði héraðsdóms uppkveðnum þann x. febrúar 2011.

Með dómi Héraðsdóms Y í málinu, sem hlotið hafði málsnúmerið E-xxxx/2010, uppkveðnum x. september 2012 var álitsbeiðanda gert að greiða E stefnukröfur málsins auk málskostnaðar. Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu álitsbeiðanda. Með dómi Hæstaréttar x. apríl 2013 í máli nr. xxx/2012 var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný þar sem talið var að skort hefði mjög á að héraðsdómur hefði tekið afstöðu til allra málsástæðna álitsbeiðanda, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Úrskurður var lagður á ný á ágreiningsmál álitsbeiðanda gagnvart D í Héraðsdómi Y þann x. nóvember 2013, sbr. héraðsdómsmálið nr. X-xxx/2011. Með úrskurðinum var krafa álitsbeiðanda að fjárhæð 167.297.508 krónur viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð D jafnframt því sem viðurkenndur var réttur aðilans til að skuldajafna kröfunni á móti kröfu samkvæmt lánssamningi, dags. 11. apríl 2008, sem ráðstafað hafði verið til E.

Úrskurðurinn var kærður af hálfu beggja aðila til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar x. janúar 2014 í máli nr. xxx/2013 var krafa álitsbeiðanda viðurkennd við slitameðferð D samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 135.359.752 krónur. Kröfu álitsbeiðanda um skuldajöfnuð tilgreindra krafna var hins vegar hafnað. Þá var D gert að greiða álitsbeiðanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samtals að fjárhæð 1.500.000 krónur.

Ekki er ágreiningur um að í framhaldi þessa hafi lögmaðurinn annast sáttaumleitanir gagnvart E í þágu álitsbeiðanda vegna skuldar samkvæmt þeim lánssamningi sem sakarefni héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/2010 tók til. Mun hafa tekist samkomulag á milli aðila vegna allra krafna í septembermánuði 2014 sem fól meðal annars í sér niðurfellingu tilgreinds héraðsdómsmáls af hálfu E. Mun störfum lögmannsins í þágu álitsbeiðanda hafa lokið í kjölfar undirritunar þess samkomulags og niðurfellingar málsins fyrir dómi.

Af málsgögnum verður ráðið að aðilar áttu í umtalsverðum samskiptum undir rekstri þeirra mála sem lögmaðurinn sinnti í þágu álitsbeiðanda frá árslokum 2008 til septembermánaðar 2014. Áttu þau samskipti sér ýmist stað í gegnum fundi málsaðila, símtöl eða tölvubréfasamskipti.

Í kjölfar verkloka lögmannsins í þágu álitsbeiðanda mun hafa risið upp ágreiningur vegna þeirrar þóknunar sem lögmaðurinn áskildi sér úr hendi álitsbeiðanda vegna starfans. Fyrir liggur að á verktíma voru alls 6.898.589 krónur greiddar inn á lögmannskostnaðinn af hálfu álitsbeiðanda samkvæmt útgefnum reikningnum eins og nú verður vikið að.

Í fyrsta lagi var gefinn út reikningur af hálfu C ehf. þann 30. júní 2010 að fjárhæð 698.633 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða áfangareikning vegna lögmannsþjónustu til 30. apríl 2010, alls 31,90 klukkustund, í tengslum við lögfræðiaðstoð vegna kröfu E, viðtöl, gagnalestur, kröfulýsingu, mót í héraðsdómi og fleira. Var tiltekið að tímagjald væri að fjárhæð 17.200 krónur auk virðisaukaskatts. Þá tók reikningurinn jafnframt til útlagðs kostnaðar vegna fyrirtaka í héraðsdómi, að fjárhæð 8.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Ekki er ágreiningur um að reikningsfjárhæðin hafi komið fram á heimabanka álitsbeiðanda. Þá liggur fyrir að álitsbeiðandi greiddi reikninginn í gegnum heimabanka þann 26. júlí 2010 auk dráttarvaxta að fjárhæð 4.949 krónur, eða alls 702.692 krónur.

Í öðru lagi var gefinn út reikningur af hálfu tilgreindrar lögmannsstofu þann 10. nóvember 2010 að fjárhæð 1.695.897 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða áfangareikning vegna tímabilsins frá 1. maí 2010 til 5. október sama ár vegna alls 77,80 klukkustunda á tímagjaldinu 17.200 krónur auk virðisaukaskatts. Var því lýst að reikningurinn tæki til vinnu við greinargerð o.fl. vegna dómsmáls gegn E. Þá var tiltekið að útlagður kostnaður vegna fyrirtaka og aksturs væri 16.200 krónur auk virðisaukaskatts.

Ekki er ágreiningur um að reikningsfjárhæðin hafi komið fram á heimabanka álitsbeiðanda. Þá liggur fyrir að álitsbeiðandi greiddi reikninginn í gegnum heimabanka þann 3. desember 2010.

Eftir þetta tímamark er ágreiningur á milli aðila um það hvernig reikningagerð lögmannsins gagnvart álitsbeiðanda hafi verið háttað. Hefur álitsbeiðandi þannig vísað til þess að hann hafi millifært fjárhæðir inn á vörslufjárreikning viðkomandi lögmannsstofu eftir því sem lögmaðurinn hafi gert kröfu til en að hann hefði aldrei móttekið reikninga vegna þessa frá lögmanninum. Lögmaðurinn kveðst hins vegar hafa samþykkt beiðni álitsbeiðanda um að hann fengi að greiða inná vinnuna eftir því sem efni stæðu til enda hefði hann verið atvinnulaus á þessum tíma. Hafi reikningar vegna slíkra innborgana verið gerðir jafnharðan og sendir álitsbeiðanda á skráð lögheimili hans þar sem fram hafi komið sá tímafjöldi sem innheimtur hafi verið hverju sinni. Aldrei hafi komið fram athugasemdir frá álitsbeiðanda um fjárhæð tímagjaldsins fyrr en löngu eftir að vinnu lögmannsins hafi verið lokið.

Þrátt fyrir framangreindan ágreining þá liggur fyrir að álitsbeiðandi innti af hendi greiðslu að fjárhæð 700.000 krónur inn á vörslufjárreikning lögmannsstofunnar þann 15. nóvember 2011. Mun lögmannsstofan hafa gert hinn þriðja reikning á hendur álitsbeiðanda í framhaldi þess að sömu fjárhæð með virðisaukaskatti, sbr. reikning nr. 4114. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða áfangareikning „sbr. innborgun“ og að reikningsfærðar væru alls 28,89 klukkustundir. Var tímagjald ekki sérstaklega tiltekið á reikningnum en samkvæmt handritun á reikninginn mun hafa verið miðað við tímagjaldið 19.200 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var jafnframt samkvæmt reikningnum innheimtur útlagður kostnaður að fjárhæð 3.800 krónur auk virðisaukaskatts á þá fjárhæð.

Sami háttur var hafður á vegna hins fjórða reiknings sem gefinn var út þann 7. september 2012. Þann sama dag hafði álitsbeiðandi millifært 500.000 krónur inn á vörslufjárreikning lögmannsstofunnar og var gerður reikningur vegna þeirrar fjárhæðar. Var tiltekið að um væri að ræða áfangareikning vegna innborgunar inn á lögfræðiþjónustu vegna tveggja mála fyrir héraðsdómi. Þá var því lýst að reikningurinn tæki til alls 20,12 klukkustunda en tímagjald var ekki þar sérstaklega auðkennt. Af reikningsfjárhæð og tilgreiningu á tímafjölda verður ráðið að miðað hafi verið við tímagjaldið 19.800 krónur auk virðisaukaskatts.

Álitsbeiðandi innti á ný greiðslu af hendi inn á fjárvörslureikning lögmannsstofunnar þann 6. nóvember 2012 að fjárhæð 500.000 krónur. Þann sama dag var gefinn út reikningur af hálfu lögmannsstofunnar að þeirri sömu fjárhæð þar sem tiltekið var að um væri að ræða áfangareikning samkvæmt fyrrgreindri innborgun vegna vinnu við tvö héraðsdómsmál. Mun hafa verið miðað við sama tímagjald og vegna útgefins reiknings í september sama ár, þ.e. kr. 19.800 krónur auk virðisaukaskatts, auk þess sem reikningurinn tók til útlagðs kostnaðar að fjárhæð 2.145 krónur.

Álitsbeiðandi innti greiðslur af hendi inn á vörslufjárreikning viðkomandi lögmannsstofu dagana 6. desember 2012, 15. febrúar 2013, 12. mars 2013 og 23. september 2013 að heildarfjárhæð 1.300.000 krónur. Gaf lögmannsstofan út hinn sjötta reikning vegna þeirra innborgana að heildarfjárhæð 900.000 krónur með virðisaukaskatti þann 29. nóvember 2013. Var tiltekið að um væri að ræða áfangareikning vegna 33,89 klukkustunda vegna innborgana „að frádregnum útlögðum kostnaði.“ Þá var því lýst að um væri að ræða reikning vegna reksturs dómsmála gagnvart E og D auk þess sem hann tæki til funda, ráðgjafar og fleira. Áskilið tímagjald var ekki sundurliðað sérstaklega á reikningnum en samkvæmt fjárhæð hans og að teknu tilliti til fjölda vinnustunda mun tímagjaldið hafa verið að fjárhæð 21.160 krónur auk virðisaukaskatts.

Loks var gefinn út reikningur á hendur álitsbeiðanda af hálfu lögmannsstofunnar þann 25. febrúar 2014 að fjárhæð 1.500.000 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða áfangareikning vegna innborgaðs dæmds málskostnaðar frá D en samkvæmt málsgögnum mun tilgreind fjárhæð hafa verið innt af hendi inn á vörslufjárreikning lögmannsstofunnar þann 5. sama mánaðar. Þá var því lýst að reikningurinn tæki til 55,5 klukkustunda og var tímagjald samkvæmt því að fjárhæð 21.535 krónur auk virðisaukaskatts.

Eins og áður greinir varð ágreiningur á milli aðila um rétt lögmannsins til frekari þóknunar úr hendi álitsbeiðanda en greidd hafði verið undir rekstri málanna, sem áður greinir. Þar sem ekki tókst samkomulag um það efni á milli aðila var gefinn út reikningur af hálfu C ehf. á hendur álitsbeiðanda þann 7. desember 2016 að heildarfjárhæð 17.030.439 krónur með virðisaukaskatti, sbr. reikning nr. 3315.

Á reikningnum var í fyrsta lagi tiltekið að hann tæki til lögfræðiþjónustu vegna reksturs mála gegn D og E ásamt ráðgjöf og almennri lögfræðiþjónustu samkvæmt verkbókhaldi á tímabilinu frá 16. febrúar 2009 til 9. september 2014. Var því lýst að samtals unnar klukkustundir á tímabilinu hefðu verið 800,10 og að áður reikningsfærðar og greiddar vinnustundir væru alls 234,25. Samkvæmt því tæki reikningurinn til mismunarins, alls 565,85 klukkustunda á tímagjaldinu 25.000 krónur auk virðisaukaskatts. Undir liðnum „magn“ á reikningnum voru hins vegar tilgreindar alls 531,96 klukkustund og samtala að teknu tilliti til áskilins tímagjalds að fjárhæð 13.299.000 krónur auk virðisaukaskatts. Í öðru lagi var tiltekið á reikningnum að reikningsfærðar væru alls 45 akstursferðir þar sem kostnaður væri 2.500 krónur á hverja ferð auk virðisaukaskatts, alls 112.500 krónur án virðisaukaskatts. Þá tók reikningurinn í þriðja lagi til útlagðs kostnaðar vegna réttargjalda og endurrita að fjárhæð 400.179 krónur án virðisaukaskatts.

Álitsbeiðandi mun hafa talið sér óskylt að greiða viðkomandi reikning. Höfðaði lögmannsstofa lögmannsins sem útgefandi reikningsins, C ehf., því mál á hendur álitsbeiðanda með stefnu sem þingfest var í Héraðsdómi Y þann x. desember 2017 til heimtu skuldarinnar. Samkvæmt stefnu er þess krafist í málinu, sem fékk númerið E-xxxx/2017, að álitsbeiðandi verði dæmdur til að greiða C ehf. 17.030.439 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Álitsbeiðandi hélt uppi vörnum í málinu með greinargerð sem lögð var fram á dómþingi þann x. febrúar 2018 þar sem krafist er sýknu af öllum kröfum C ehf. Tekur álitsgerð þessi til ágreinings málsaðila í tilgreindu héraðsdómsmáli, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Eins og áður greinir var bú álitsbeiðanda tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu C ehf. með úrskurði Héraðsdóms Y uppkveðnum x. júlí 2018.

Auk þess sem áður greinir þá liggja fyrir í málsgögnum ýmis tölvubréfasamskipti á milli málsaðila, þ.e. bæði samskipti aðila á meðan á störfum lögmannsins í þágu álitsbeiðanda stóð sem og samskipti þeirra eftir að þeim var lokið. Jafnframt liggja fyrir tímaskýrslur úr verkbókhaldi lögmannsins, þ.e. annars vegar tímaskýrsla dags. 5. febrúar 2014 og hins vegar 19. september sama ár. Er ágreiningur á milli aðila um gildi þeirra tímaskýrslna en álitsbeiðandi hefur haldið því fram fyrir nefndinni að ekki sé á þeim byggjandi, meðal annars í ljósi þess misræmis sem greini á milli skýrslnanna. Auk þess hafi álitsbeiðandi ekki fengið afrit af tímaskýrslunum fyrr en löngu eftir að störfum lögmannsins var lokið. Hefur álitsbeiðandi um þetta efni lagt fyrir nefndina yfirlit yfir misræmi í tímaskráningu lögmannsins.

Þá liggja fyrir í málsgögnum ýmis önnur gögn, þ. á m. gjaldskrá C ehf. sem útgefin mun hafa verið þann 1. janúar 2016, viðskiptamannayfirlit álitsbeiðanda úr bókhaldskerfi lögmannsins, dags. 5. júní 2014, og álitsgerð KPMG ehf. um meðferð hins umþrætta sölureiknings í ársreikningi og virðisaukaskattsskilum C ehf., dags. 4. október 2018. Ekki þykir ástæða til að rekja efni tilgreindra skjala umfram það sem greinir í málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni.

II.

Í beiðni álitsbeiðanda er vísað til þess að þess sé óskað að nefndin láti í té álitsgerð til afnota í dómsmáli aðila um hver sé hæfileg fjárhæð þóknunar lögmannsins úr hendi álitsbeiðanda, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Álitsbeiðandi vísar til þess að við fall íslensku bankanna haustið 2008 hafi álitsbeiðandi hafið leit að lögmanni til að lýsa fyrir sig kröfu við slit D vegna viðskipta hans við einkabankaþjónustu bankans. Eftir ábendingu hafi álitsbeiðandi sett sig í samband við lögmanninn sem hafi boðist til að annast kröfulýsingu við slitameðferðina og að tímagjald vegna verksins væri að fjárhæð 14.600 krónur. Byggir álitsbeiðandi á að hann hafi samið við lögmanninn um fast tímagjald á þeim grundvelli. Þá hafi álitsbeiðandi ekki verið látinn rita undir umboð þar sem þóknun lögmannsins hafi verið tilgreind auk þess sem gjaldskrá hefði hvorki verið afhent né verið vísað til þess að eftir slíkri gjaldskrá yrði farið.

Álitsbeiðandi kveður ágreiningslaust að verkið hafi reynst umfangsmeira og tímafrekara en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi. Byggir aðilinn hins vegar á að þegar svo hafi verið komið hafi lögmaðurinn ekki gert sér ljóst, eftir því sem unnt hafi verið, hvert endurgjald hans gæti orðið í heild sinni, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998.

Varðandi það verk sem lögmaðurinn innti af hendi vísar álitsbeiðandi til þess að hann hafi lýst bótakröfu við slit D vegna tjóns sem verðbréfaviðskipti að tilstuðlan og/eða af hálfu einkabankaþjónustu bankans hefði valdið álitsbeiðanda. Hafi slitastjórn D hafnað kröfunni og ágreiningi um þá afstöðu verið vísað til úrausnar Héraðsdóms Y þar sem málið hafi hlotið númerið X-xxx/2011.

Í beiðni er það rakið að á sama tíma hafi verið rekið innheimtumál á hendur álitsbeiðanda fyrir Héraðsdómi Y, sbr. málið nr. E-xxx/2010, af hálfu E sem þá hafði tekið við tilgreindum réttindum og skyldum D. Hafi málið verið sprottið af skuld álitsbeiðanda sem tengdist áðurgreindum verðbréfaviðskiptum hans við D. Samkvæmt því hafi málið verið að hluta til um sama sakarefni og ágreiningsmálið nr. X-xxx/2011. Hafi lögmaðurinn séð um rekstur beggja dómsmálanna, sem voru af sömu rót runnar, í þágu álitsbeiðanda.

Álitsbeiðandi vísar til þess að með úrskurði Héraðsdóms Y x. nóvember 2012 hafi verið fallist á hluta krafna hans í ágreiningsmálinu nr. X-xxx/2011. Með dómi Hæstaréttar x. apríl 2013 í máli nr. xxx/2012 hafi ágreiningsmálinu hins vegar verið vísað aftur heim í hérað til aðalmeðferðar og uppkvaðningar úrskurðar á ný vegna þess að skort hefði þótt á að héraðsdómur hefði tekið afstöðu til allra málsástæðna. Ágreiningsmálinu hafi lokið þann x. janúar 2014 með dómi Hæstaréttar í máli nr. xxx/2013 þar sem fallist hafi verið á hluta krafna álitsbeiðanda. Í kjölfar þess hafi verið gerð sátt við E þann x. september 2014 í málinu nr. E-xxxx/2010 sem fól meðal annars í sér skuldajöfnuð tilgreindra krafna aðila.

Um hina umþrættu þóknun kveðst álitsbeiðandi hafa greitt fyrir vinnu lögmannsins með millifærslum úr heimabanka eftir því sem verkinu hafi undið fram og lögmaðurinn hafi gert kröfu til. Á tæplega fjögurra ára tímabili, eða frá 26. júlí 2010 til 5. febrúar 2014, hafi lögmaðurinn þannig fengið greiddar tæplega 7.000.000 krónur samkvæmt viðskiptamannayfirliti. Álitsbeiðandi hafi hins vegar ekki fengið í hendur sundurliðaða reikninga eða svokallaða áfangareikninga. Fyrir utan eitt tilvik hafi álitsbeiðandi séð slíka reikninga fyrst eftir málshöfðun. Álitsbeiðandi telur sig allt að einu ekki hafa viðurkennt viðskiptaskilmála eða gjaldskrá með greiðslum inn á verkið enda hafi verið samið um fast verð. Þá hafi álitsbeiðandi með engu getað brugðist við því ef áskilin þóknun skyldi, af einhverjum orsökum, miðast við annað en það sem aðilar hefðu samið um.

Álitsbeiðandi vísar til þess að gengið hafi verið út frá því þegar störfum lögmannsins lauk í septembermánuði 2014 að álitsbeiðandi hefði þá þegar gert upp við lögmanninn vegna vinnu hans. Álitsbeiðandi hafi hins vegar vænst þess að fá í hendur einhvers konar uppgjör frá lögmanninum þar sem fram kæmi með sundurliðuðum hætti sú vinna sem álitsbeiðandi hefði greitt fyrir.

Í álitsbeiðni er vísað til þess að málsaðilar hafi átt með sér fund þann 5. febrúar 2016, eða um einu og hálfu ári eftir að störfum lögmannsins lauk, þar sem álitsbeiðanda hafi verið afhent tímaskýrsla sem sögð hafi verið lokaskýrsla vegna þeirrar vinnu sem að baki væri. Samkvæmt skýrslunni hafi samanlagður fjöldi vinnustunda verið 673,8. Hafi álitsbeiðandi talið tímafjöldann óhæfilegan miðað við umfang verksins auk þess sem hann hafi staðið í þeirri trú að þegar væri búið að gera upp við lögmanninn vegna veittrar þjónustu.

Fyrir liggur að lögmaðurinn gaf út reikning á hendur álitsbeiðanda þann 7. desember 2016 en það er sá reikningur sem sakarefni héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/2017 lýtur að. Bendir álitsbeiðandi á að reikningurinn sé að fjárhæð 17.030.439 krónur og að hann sé sagður vera vegna 800,10 klukkustunda vinnu á fimm og hálfs árs tímabili, þ.e. frá 26. febrúar 2009 til 9. september 2014. Áður hafi verið greiddar og reikningsfærðar 234,25 klukkustundir. Þá sé álitsbeiðandi einnig rukkaður fyrir ætlaðan akstur og útlagðan kostnað. Hafi reikningurinn verið gefinn út tæplega átta árum eftir að störf lögmannsins hófust og um einu og hálfi ári eftir að þeim lauk.

Álitsbeiðandi bendir á að 126,3 vinnustundir hafi bæst við reikninginn miðað við fyrrnefnda lokaskýrslu sem afhent hafi verið á fundi málsaðila þann 5. febrúar 2016. Hafi mismunurinn, 565,85 vinnustundir, verið sagðar reikningsfærðar en undir liðnum „magn“ hafi stundirnar hins vegar verið tilgreindar 531,96. Kveðst álitsbeiðandi ekki átta sig á ástæðu þessa misræmis í samtölu ætlaðra vinnustunda lögmannsins.

Í álitsbeiðni er því lýst að málsaðilar hafi átt með sér nokkur samskipti eftir fundinn þann 5. febrúar 2016 þar sem álitsbeiðandi hafi hafnað frekari greiðslum. Jafnframt hafi lögmaðurinn lagt fram nýja tímaskýrslu á fundi aðila þann 11. maí 2017 sem hinn umþrætti reikningur hafi síðar verið byggður á. Vísar álitsbeiðandi til þess að rekja hafi mátt misræmið að hluta til þess að hin nýja skýrsla náði yfir lengra tímabil en að aftur á móti hafi 76,3 klukkustundir bæst við það tímabil sem fyrri skýrsla hafi tekið til, einkum í formi fleiri tilgreindra vinnustunda við færslur. Þá hafi við reikningsgerð verið miðað við tímagjald að fjárhæð 31.000 krónur með virðisaukaskatti eða ríflega tvöfalt hærra (117%) en það sem álitsbeiðandi byggir á að samið hafi verið um í upphafi. Hafi slíkt falið í sér trúnaðarbrest á milli aðila og álitsbeiðandi því hafnað frekari greiðslum.

Álitsbeiðandi byggir á að hann hafi að fullu greitt fyrir þá þjónustu sem lögmaðurinn hafi látið í té. Hafi lögmanninum þannig borið að gefa út reikninga fyrir sinni þjónustu jafnóðum og hún var innt af hendi. Þá hafi lögmaðurinn í engu gert grein fyrir því hvert endurgjaldið gæti orðið, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 auk þess sem ekki hafi verið samið um hækkun á umsömdu tímagjaldi, úr 14.600 krónur, eða að lögmanninum væri heimilt að hækka það einhliða og/eða án tilkynninga.

Þá lýsir álitsbeiðandi því að hann telji það ekki standast að honum hafi verið kynnt gjaldskrá sem lögmaðurinn hafi vísað til í dómsmáli aðila áður en störf lögmannsins hófust enda hafi hún verið sett sjö árum eftir að vinna hófst og löngu eftir að henni lauk.

Álitsbeiðandi kveðst jafnframt hafna því að samkomulag hafi verið um að lögmaðurinn gæfi út svokallaða áfangareikninga fyrir hluta af þjónustunni, þ.e. því sem álitsbeiðandi greiddi, en biði með eiginlega reikningagerð í nærri áratug. Hafi það verið ætlun lögmannsins að haga reikningagerð með slíkum hætti byggir álitsbeiðandi á að lögmanninum hafi staðið nær að tryggja sér sönnun um það.

Álitsbeiðandi byggir einnig á að tímaskráning af hálfu lögmannsins hafi oft og tíðum verið úr hófi miðað við verkliði og því sé ekki unnt að leggja skráninguna til grundvallar nema að mjög takmörkuðu leyti. Í dæmaskyni vísar álitsbeiðandi til þess að vinna við málsgögn til Hæstaréttar hafi samtals verið 40,5 klukkustundir á tímabilinu frá 17. – 23. janúar 2012, en sami liður í fyrri tímaskýrslu hafi verið 37,5 klukkustundir. Samkvæmt skráningu lögmannsins og hinum umþrætta reikningi hafi viðkomandi lögmannsstofa þannig áskilið sér 1.255.500 krónur fyrir samantekt málsgagna til Hæstaréttar. Bendir álitsbeiðandi á að slík vinna útheimti almennt ekki lögfræðimenntun og sé fjöldi vinnustunda þar að auki úr hófi að mati aðilans.

Auk þess sé að finna stundir vegna ætlaðrar vinnu annars lögmanns á stofu lögmannsins sem álitsbeiðandi hafi ekki veitt umboð til starfa. Að öðru leyti bendir álitsbeiðandi á misræmi í tímaskýrslum lögmannsins.

Í viðbótarathugasemdum álitsbeiðanda til nefndarinnar var áréttað að fyrir utan eitt tilvik hefði aðilinn ekki fengið í hendur reikning frá lögmanninum. Sé hið gagnstæða ósannað af hálfu lögmannsins.

Álitsbeiðandi kveður fyrirliggjandi reikninga sýna fram á þær breytingar sem orðið hafi á tímaskýrslum lögmannsins eftir á. Þannig hafi tímafjöldi samkvæmt reikningi útgefnum 30. júní 2010 verið sagður 31,9 klukkustundir fyrir tímabilið fram til 30. apríl 2010. Bendir aðilinn á að sá tímafjöldi hafi verið í samræmi við tímaskýrslu lögmannsins frá 5. febrúar 2014, sem afhent hafi verið tveimur árum síðar. Samkvæmt þeirri tímaskýrslu sem lögmaðurinn vilji byggja á, dags. 19. september 2014,  sé tímafjöldi fyrir sama tímabil hins vegar 41,5 klukkustund. Hafi tímafjöldi aukist án skýringa eftir útgáfu reiknings um 9,6 klukkustundir eða 30%. Auk þess hafi verið átt við 9 færslur af 21 á umræddu tímabili. Með vísan til þessa hafnar álitsbeiðandi því að lögmaðurinn byggi á „samtímafærðum verkskýrslum“ svo sem haldið sé fram í málinu.

Álitsbeiðandi byggir á að tilgreint misræmi gefi til kynna að slíkur misbrestur sé á tímaskýrslum lögmannsins að þær verði ekki lagðar til grundvallar mati á hæfilegri lögmannsþóknun en í öllu falli beri að vísa á bug þeirri tímaskýrslu sem lögmaðurinn byggi á. Bendir álitsbeiðandi á að mismunur á umræddum tímaskýrslum nemi hátt í hundrað klukkustundum og að lögmaðurinn hafi engar skýringar gefið á því misræmi.

Álitsbeiðandi kveðst hafna þeim skýringum sem lögmaðurinn hafi veitt varðandi misræmi í samtölu hins umþrætta reiknings. Bendir aðilinn í því samhengi á að hvorki sé að finna sennilega mælieiningu á reikningnum né sé þar að finna tilgreiningu á afslætti, líkt og lögmaðurinn vísi til. Beri allt þetta að sama brunni, þ.e. að ekkert mark sé takandi á reikningagerð eða tímaskýrslum lögmannsins.

Álitsbeiðandi hafnar málatilbúnaði lögmannsins um að honum hafi verið gerð grein fyrir því að reikningar yrðu sendir reglulega á gildandi tímagjaldi hverju sinni samkvæmt verðskrá C ehf. Áréttar aðilinn fyrri málatilbúnað um að hann hafi hvorki móttekið reikninga né tímaskýrslur undir rekstri málsins frá lögmanninum. Standi það lögmanninum því nær að tryggja sér sönnun um að hann hafi gert álitsbeiðanda grein fyrir því hvert endurgjaldið gæti orðið, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Þvert á móti hafi álitsbeiðandi greitt þær fjárhæðir sem lögmaðurinn hafi gert kröfu til, eftir því sem vinnan hafi verið innt af hendi, og með því gert lögmannsþóknunina upp að fullu.

Því er lýst í viðbótarathugasemdum álitsbeiðanda að ágreiningslaust sé að málareksturinn hafi útheimt talsverða vinnu enda hafi aðilinn greitt lögmanninum tæplega 7.000.000 krónur. Kveður aðilinn það endurgjald úr hófi og bendir á að það jafngildi hátt í 500 klukkustunda vinnu samkvæmt umsömdu tímagjaldi, 14.600 krónur. Þá byggir álitsbeiðandi á að málið hafi ekki verið meira að umfangi eða flóknara en ýmis önnur mál af sama toga auk þess sem hann hafi treyst því að lögmaðurinn tæki ekki að sér málið nema hann væri fær um að sinna því af kunnáttu, einkum á sviði verðbréfamarkaðsréttar.

Í málatilbúnaði álitsbeiðanda er jafnframt vísað til málskostnaðarákvörðunar í dómi Hæstaréttar í máli nr. xxx/2013 og á því byggt að framsetning málsins hafi verið á ábyrgð lögmannsins. Aðalatriðið sé hins vegar að lögmaðurinn hafi hvorki gert álitsbeiðanda grein fyrir því hversu kostnaðarsamur málareksturinn kynni að verða né að málareksturinn væri orðinn sérstaklega umfangsmikill og jafnvel farinn að valda gagnaðilum í viðkomandi dómsmálum óeðlilega miklum kostnaði. Þá hafi álitsbeiðandi falið lögmanninum að ákveða, á grundvelli reynslu og hans þekkingar, hvernig málatilbúnaði álitsbeiðanda skyldi háttað enda aðilinn ólöglærður. Hafi álitsbeiðandi því treyst á að lögmaðurinn myndi ráða sér heilt í þeim efnum.

Álitsbeiðandi áréttar jafnframt að þrátt fyrir að um hafi verið að ræða tvö dómsmál og  nokkrar aðalmeðferðir vegna þeirra að þá liggi fyrir að sakarefnið hafi verið meira og minna það sama í öllum tilvikum sem hafi leitt til umtalsverðs hagræðis. Auk þess hafi álitsbeiðandi tekið saman öll málsgögn í upphafi sem hann hafi haft undir höndum, raðað í tímaröð og afhent lögmanninum. Í framhaldi þess hafi gagnaöflun verið meira og minna í höndum D.

Að endingu var vísað til þess í viðbótarathugasemdum álitsbeiðanda að hann hefði leitað til nánar tilgreinds endurskoðunarfyrirtækis í því skyni að fá álitsgerð um reikningagerð lögmannsins. Kveðst aðilinn byggja á tilgreindri álitsgerð, sem liggur fyrir í málsgögnum, til stuðnings kröfu sinni um að lögmaðurinn eigi ekki heimtingu á frekari þóknun úr hans hendi vegna veittrar þjónustu.

III.

Lögmaðurinn vísar til þess að í málinu liggi fyrir reikningur á hendur álitsbeiðanda um greiðslu á eftirstandandi vinnu lögmanna C ehf., sem séu 531,6 klukkustund á tímagjaldinu 25.000 krónur auk aksturskostnaðar fyrir 45 bílferðir á 2.500 krónur í hvert skipti auk útlagðs kostnaðar. Ekki sé ágreiningur á milli aðila um útlagðan kostnað. Heildarvinnuframlag á því sex ára tímabili sem um ræði, þ.e. frá 14. nóvember 2008 til 9. september 2014, sé samkvæmt framlagðri vinnuskýrslu samtals 800,10 klukkustundir en áður hafi álitsbeiðandi greitt sem samsvaraði 234,25 klukkustundum samkvæmt framlögðum reikningum þar sem finna megi ítarlega tilgreiningu á fjölda tíma sem reikningsfærðir hafi verið hverju sinni á því tímagjaldi sem þá hafi gilt samkvæmt gjaldskrá C ehf. og álitsbeiðanda hafi verið vel kunnugt um.

Í greinargerð lögmannsins er á það bent að veittur hafi verið heildarafsláttur af tímafjölda sem nemi 33,89 klukkustundum svo sem reikningurinn beri með sér. Byggir lögmaðurinn á því að reikningurinn sé sanngjarn og hóflegur þegar horft sé til hins mikla vinnuframlags í þeim flóknu málum sem til úrlausnar hafi verið. Þá sé reikningurinn reistur á efalausum og samtímafærðum verkskýrslum um vinnuframlag lögmanna C ehf. auk þess sem tímagjald hafi verið eðlilegt og sanngjarnt.

Hvað tímagjald varðar þá vísar lögmaðurinn til þess að þegar álitsbeiðandi hafi óskað eftir aðstoð hans hafi aðilinn verið upplýstur um að reikningar yrðu sendir reglulega á því tímagjaldi sem gilti samkvæmt verðskrá C ehf. Jafnframt hafi álitsbeiðanda verið kynnt gjaldskrá C ehf. Þá hafi álitsbeiðandi jafnframt verið upplýstur um að verkskýrsla yrði haldin þar sem fram kæmi sá tími er í verkið færi og við hvað væri unnið hverju sinni.

Kveðst lögmaðurinn hafna þeirri staðhæfingu álitsbeiðanda að tímagjald hafi verið umsamið að fjárhæð 14.600 krónur á klukkustund, enda hafi á þeim tíma verið allsendis óljóst hversu umfangsmikið málið yrði og hvað það tæki yfir langt tímabil. Bendir lögmaðurinn á að staðhæfing álitsbeiðanda að þessu leyti sé ekki studd neinum gögnum.

Lögmaðurinn bendir á að fyrsti reikningurinn hafi verið útgefinn þann 30. júní 2010. Hafi reikningurinn náð yfir tímabil allt fram til 30. apríl 2010, alls 31,90 klukkustundir á tímagjaldinu 17.200 krónur án virðisaukaskatts sem hafi verið í samræmi við verðskrá C ehf. Er vísað til þess að reikningurinn hafi verið sendur á skráð heimilisfang álitsbeiðanda á þeim tíma, þ.e. að F 5 í Reykjavík. Hafi álitsbeiðandi greitt reikninginn án athugasemda í heimabanka þann 26. júlí 2010 ásamt dráttarvöxtum að fjárhæð 4.949 krónur.

Í málatilbúnaði lögmannsins er vísað til þess að næsti reikningur hafi verið sendur álitsbeiðanda þann 10. nóvember 2010 fyrir tímabilið frá 1. maí 2010 til 5. október sama ár þar sem fram hafi komið 77,80 klukkustundir á tímagjaldinu 17.200 krónur án virðisaukaskatts. Hafi álitsbeiðandi greitt þann reikning án athugasemda þann 3. desember 2010. Reikningurinn hafi verið sendur á heimilisfang álitsbeiðanda að G 2 í Reykjavík sem og síðar útgefnir reikningar enda hafi álitsbeiðandi verið með skráð lögheimili þar allt til málsloka.

Lögmaðurinn kveðst hafa samþykkt beiðni álitsbeiðanda eftir þetta tímamark um að hann fengi að greiða inná vinnuna eftir því sem efni stæðu til enda aðilinn atvinnulaus á þeim tíma. Beri tölvubréf vitni um það, en í þeim hafi verið lagt að álitsbeiðanda að greiða inná vinnuna eftir því sem málinu yndi fram. Er vísað til þess að álitsbeiðandi hafi fullvissað lögmenn C ehf. um að hann gæti staðið í skilum þó greiðslur drægjust þar sem félag í hans eigu ætti verðmætar eignir. Hafi reikningar vegna slíkra innborgana verið gerðir jafnharðan og sendir álitsbeiðanda þar sem fram hafi komið sá tímafjöldi sem innheimtur hafi verið hverju sinni. Aldrei hafi komið neinar athugasemdir frá álitsbeiðanda um fjárhæð tímagjaldsins fyrr en löngu eftir að vinnu lögmannsins hafi verið lokið.

Lögmaðurinn hafnar því sem röngu að álitsbeiðandi hafi ekki fengið umrædda reikninga í hendur og bendir á að það sé ótrúverðugt að hann hafi greitt í heimabanka háa reikninga án þess að gera sér grein fyrir því fyrir hvað hann væri að greiða. Sé álitsbeiðandi alvanur viðskiptum enda hafi hann átt og rekið um árabil mjög stórt fyrirtæki. Þá hafi álitsbeiðandi fylgst grannt með vinnuframlaginu enda í miklum samskiptum við lögmannsstofuna. Auk þess hafi hann nokkrum sinnum fengið afhent afrit verkskýrslu líkt og málsgögn beri með sér. Álitsbeiðandi hafi hins vegar ekki gert athugasemdir um verkskýrsluna og tímagjald fyrr en eftir að lögmaðurinn hefði lokið vinnu við málið í september 2014.

Lögmaðurinn byggir á að umrædd gögn og samskipti við álitsbeiðanda sýni glögglega að álitsbeiðanda hafi verið vel kunnugt um tímagjald það sem áskilið hafi verið hverju sinni og byggt hafi á gjaldskrá C ehf., enda hafi hann greitt það jafnan án athugasemda. Þá beri reikningar með sér að innheimtir hafi verið þeir tímar sem þá hafi legið undir og eru greindir sérstaklega í reikningunum. Þá sé tímagjald á umþrættum reikningi í samræmi við það tímagjald sem gilti samkvæmt verðskrá C ehf. þegar hver reikningur var gefinn út. Sé það eðlilegt og hóflegt að mati lögmannsins þegar horft sé til þess afsláttar sem veittur hafi verið.

Um verkskýrslu og umfang vinnuframlags C ehf. er vísað til þess að álitsbeiðandi hafi leitað til lögmannsins vegna ágreinings við D og E er lotið hafi annars vegar að tjóni sem álitsbeiðandi hafi talið að D hefði valdið sér við framkvæmd einkabankaþjónustu og hins vegar að lánafyrirgreiðslu gagnvart sama félagi, sem flust hafi til E í kjölfar efnahagshrunsins og var til innheimtu þar.

Lögmaðurinn kveður E hafa höfðað mál á hendur álitsbeiðanda til greiðslu á 110.297.583 krónum ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 2. nóvember 2008. Hafi verið tekið til varna í málinu með greinargerð sem lögð hafi verið fram á dómþingi þann x. október 2010 þar sem fram hafi komið efnisvarnir við kröfum bankans auk þess sem krafist hafi verið frávísunar málsins. Er vísað til þess að hinni síðargreindu kröfu hafi verið hafnað með úrskurði héraðsdóms uppkveðnum x. febrúar 2011. Þá hafi álitsbeiðandi áfrýjað efnisdómi í málinu, uppkveðnum x. september 2012, til Hæstaréttar sem vísað hafi málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný með dómi þann x. apríl 2013. Telur lögmaðurinn að greinargerðir aðila fyrir Hæstarétti lýsi vel umfangi málsins og hversu flókin úrlausnarefnin hefðu verið þar, þ. á m. að teknu tilliti til fjölda málsgagna.

Í greinargerð lögmannsins er vísað til þess að samhliða þessu hafi verið tekist á um það fyrir héraðsdómi hvort og þá hversu miklu tjóni D hefði valdið álitsbeiðanda við framkvæmd einkabankaþjónustu og þá hvers eðlis sú þjónusta hafi verið. Hafi þar reynt á mjög flókin úrlausnarefni auk þess sem gagnamagn hafi verið gríðarlegt. Þannig hafi hreyfingar og uppgjör vegna allra undirliggjandi viðskipta, sem hafi verið umfangsmikil, verið yfirfarin og greind yfir margra ára tímabil, þar sem meðal annars var byggt á að álitsbeiðandi hefði ranglega verið látinn taka yfir skuldbindingar nánar tilgreinds einkahlutafélags þegar í óefni hafi verið komið auk þess sem verslað hafi verið með óskráð bréf í blóra við einkabankasamning sem hafi legið til grundvallar. Er vísað til lýsingar í dómi Hæstaréttar í máli nr. xxx/2013 um þetta efni. Þá hafi yfirferð gagna og greining þeirra verið gríðarlega tímafrek auk þess sem um flókin og margháttuð viðskipti hafi verið að ræða.

Á það er bent að áður en lokadómur fékkst um kröfu álitsbeiðandi fyrir Hæstarétti hafi aðilinn kært úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar um höfnun krafna hans við slit D. Með dómi Hæstaréttar x. apríl 2012 í máli nr. xxx/2012 hafi málinu verið vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og uppkvaðningar úrskurðar á ný. Lokadómur hafi svo gengið í Hæstarétti þann x. janúar 2014 í máli nr. xxx/2013.

Lögmaðurinn kveður fyrirliggjandi verkskýrslu greina vel hvert umfang vinnunnar hafi verið, þ. á m. vegna kröfulýsingar við slit D sem unnin hafi verið undir mikilli tímapressu. Þurft hafi að afla gagna bæði frá E og D er náð hafi allt aftur til ársins 2005. Þá hafi vinna staðið yfir við öflun gagna og greiningu þeirra þegar unnið hafi verið að málum álitsbeiðanda fyrir dómi svo sem verkskýrsla beri með sér.

Lögmaðurinn telur að verkskýrslan lýsi sannanlega þeim tíma sem varið hafi verið í að gæta hagsmuna álitsbeiðanda og að þar greini hvað unnið hafi verið hverju sinni. Verkskýrslan sé eins ítarleg og unnt hafi verið þegar litið sé til þeirrar vinnu sem lögð hafi verið fram, hún sé rétt og upplýsandi. Þá megi vel greina við hvað hafi verið unnið hverju sinni, þ. á m. hinar fjölmörgu fyrirtökur sem voru í umræddum dómsmálum, þann tíma sem fór í gagnaöflun og yfirferð gagna, bréfaskriftir, ritun greinargerða ásamt gagnaframlagningu og þann tíma sem farið hafi í undirbúning aðalmeðferða og flutning mála fyrir dóma sem tekið hafi í að minnsta kosti einu tilfelli tvo daga. Auk þess hafi farið fram málflutningur vegna frávísunar- og „heimvísunarkrafna“ fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Þá hafi aðalmeðferð verið endurtekin að minnsta kosti tvívegis fyrir héraðsdómi. Kveður lögmaðurinn að vinnuskýrslan greini einnig vel samskipti lögmanns og fundi við hina ýmsu aðila sem málin hafi snert, þar með talið slitastjórn D, E, endurskoðanda álitsbeiðanda og álitsbeiðanda sjálfan.

Í málatilbúnaði lögmannsins er lögð áhersla á að um mikla fjárhagslega hagsmuni hafi verið að ræða í málunum og að um flókin og umfangsmikil viðskipti hafi verið að ræða sem þurft hafi að greina. Er vísað til þess að álitsbeiðandi hafi viljað láta reyna til hins ýtrasta á allar þær málsástæður sem byggt hafi verið á og að honum hafi verið vel kunnugt um hina umfangsmiklu vinnu, enda hafi hann bæði komið að þeirri vinnu með lögmanninum til að útlista og skýra þau viðskipti sem legið hafi til grundvallar auk þess sem hann hafi setið allar aðalmeðferðir málanna, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Hafi aldrei komið fram neinar athugasemdir um vinnuframlag lögmannsins eða tímagjald fyrr en eftir vinnulok lögmannsins.

Lögmaðurinn bendir á að eftir að lokadómur Hæstaréttar lá fyrir í janúar 2014 hafi verið leitað leiða að beiðni álitsbeiðanda til að ljúka málinu með sátt við E á grundvelli skuldajöfnunar. Megi sjá á verkskýrslu að fundur hafi verið haldinn þann 5. febrúar 2014 með álitsbeiðanda þar sem farið hafi verið yfir þá möguleika auk þess sem rætt hafi meðal annars verið við lögmann bankans. Sama dag hafi verkskýrsla sem liggi fyrir í málsgögnum verið prentuð út og afhent álitsbeiðanda og yfirfarin. Hafi engar athugasemdir komið fram af hálfu álitsbeiðanda. Verkskýrslan lýsi að öðru leyti vinnuframlagi lögmannsins við að ná umræddu samkomulagi sem álitsbeiðandi hafi undirritað þann 5. september 2014. Í kjölfar þess hafi mál E verið fellt niður þann x. sama mánaðar í héraðsdómi og vinnu lögmannsins þar með verið lokið.

Á það er bent að aðilar hafi verið í samskiptum um greiðslur inná verkið á verktíma auk þess sem ítrekað hafi verið gengið eftir því að hlutagreiðslur yrðu inntar af hendi. Þá hafi aðilar átt með sér fundi á skrifstofu lögmannsins um uppgjör eftir lok málsins.

Lögmaðurinn kveður rangt sem fram komi í málatilbúnaði álitsbeiðanda um að aðeins einn fundur hafi verið haldinn vegna uppgjörs og að þá hafi lokaverkskýrsla verið lögð fram sem prentuð hafi verið út þann 5. febrúar 2014, eða hálfu ári áður en vinnu lögmannsins lauk. Er vísað til þess að sú skýrsla hafi eðli málsins samkvæmt ekki sýnt heildarvinnuframlag lögmannsins. Hins vegar sýni skýrsla útprentuð 19. september 2014 heildarvinnuframlag lögmannsins við vinnulok. Hafi sú skýrsla verið afhent álitsbeiðanda á fundi þann dag.

Á því er byggt af hálfu lögmannsins að hann hafi rækt starfa sinn með hagsmuni álitsbeiðanda að leiðarljósi, sem hafi verið miklir og varðað fjárhagslega framtíð aðilans. Þá hafi lögmaðurinn rækt þá lögmannsskyldu sína að gæta hagsmuna álitsbeiðanda í hvívetna og í samræmi við 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá kveðst lögmaðurinn hafna því að vinna annarra lögmanna á skrifstofunni geti ekki verið skuldfærð á álitsbeiðanda, enda um að ræða vinnu í þágu aðilans.

Að endingu vísar lögmaðurinn til þess að vinnuframlagið hafi verið í fullu samræmi við gerðan reikning og krefst þess því að nefndin staðfesti að fjárhæð reikningsins feli í sér sanngjarnt og hæfilegt endurgjald fyrir þá vinnu sem af hendi hafi verið látin.

Í viðbótarathugasemdum lögmannsins er vísað til þess að álitsbeiðandi sé með málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni kominn út fyrir sakarefni málsins samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Þannig rúmist málatilbúnaður sem lúti að álitsgerð tilgreinds endurskoðunarfélags ekki innan kröfugerðar álitsbeiðanda og málsástæðna í fyrirliggjandi dómsmáli aðila auk þess sem álitsgerðin hafi ekkert með sakarefnið að gera, hvorki fyrir dómi né úrskurðarnefnd lögmanna. Þá sé enginn ágreiningur á milli aðila um rétt lögmannsins til endurgjalds fyrir störf sín, heldur sé ágreiningur afmarkaður við fjárhæð tímagjalds og umfang vinnuliðar samkvæmt verkskýrslu.

Lögmaðurinn vísar til þess að staðhæfing álitsbeiðanda um að hann hafi aldrei fengið eða séð fyrirliggjandi reikninga sé mjög ótrúverðug, meðal annars vegna þess að álitsbeiðandi hafi greitt fyrstu tvo reikninga í heimabanka auk þess sem aðilar hafi átt í miklum samskiptum, ýmist á fundum, með símtölum eða tölvubréfum. Hafi aldrei komið fram í þeim samskiptum að álitsbeiðanda hafi ekki borist reikningar frá C ehf.

Áréttaði lögmaðurinn það í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar að gagnaöflun hafi verið gríðarlega umfangsmikil og flókin í málunum. Hafi þannig greining nýrra gagna kallað á nýja gagnaöflun sem hafi reynst tímafrekt verk, enda um flókin gögn að ræða og torlesin. Bendir lögmaðurinn á að fullt tilefni hafi verið til svo umfangsmikillar gagnaöflunar enda hafi verið um mikla hagsmuni að ræða sem áhrif gátu haft á niðurstöðu málsins. Þá hafi héraðsdómur fallist á hluta krafna álitsbeiðanda sem byggt hafi meðal annars á viðkomandi gögnum og viðurkennt skaðabótakröfu aðilans á hendur D að fjárhæð 167.297.508 krónur.

Vísað er til þess að álitsbeiðandi hafi ekki komið fram með neinar efnislegar athugasemdir við verkskýrsluna eða reynt að sýna fram á að vinnumagn hafi reynst annað en greinir í skýrslu, utan þeirra leiðréttinga sem gerðar hafi verið við verklok. Ítrekar aðilinn að skýringa á misræmi skráninga sé að leita í því að verkskýrslan hafi ekki verið yfirfarin og staðreynd við afhendingu hennar til álitsbeiðanda í febrúarmánuði 2014, enda hafi vinnu þá ekki verið lokið. Þá hafi sú vinnuskýrsla ekki tekið yfir allt tímabil samkvæmt hinum umþrætta reikningi.

Við gerð lokareiknings hafi leiðréttingar verið gerðar þar sem í ljós hafi komið rangar tímaskráningar í nokkrum tilfellum. Skýringa á leiðréttingum megi rekja til þess að samtímaskýrslur hafi verið handfærðar og að við færslu þeirra í rafræna skýrslu hafi ýmist verið um að ræða misræmi í færslum eða að ekki höfðu verið færðar inn viðbótarskýrslur er ýmist hafi fækkað eða aukið tímafjölda.

Lögmaðurinn kveður verkskýrsluna sýna að öðru leyti allt vinnuframlag lögmanna C ehf. sem álitsbeiðandi hafi ekki hrakið að neinu leyti, miðað við verktíma og umfang vinnu lögmanna. Þá ítrekar lögmaðurinn að ekki sé ágreiningur um útlagðan kostnað auk þess sem álitsbeiðandi hafi ekki gert athugasemd við aksturskostnað.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum. Lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 getur úrskurðarnefnd lögmanna látið í té álitsgerð til afnota um ágreiningsefni sem dómsmál er rekið um, að ósk annars eða beggja aðila dómsmálsins en tilgreint ákvæði  fjallar um ágreining lögmanns við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín. Lýtur álitsgerð þessi annars vegar að því að meta umfang starfa lögmannsins, en hins vegar að því álitaefni hvert er sanngjarnt endurgjald fyrir þau. Að því er síðarnefnda atriðið varðar skal áréttað að jafnan þegar nefndin tekur afstöðu til þess hvert sé  hæfilegt endurgjald fyrir störf lögmanns, ræðst matið að meginstefnu af því um hvað hafi verið samið og hvað sé sannað í þeim efnum og hvernig fjallað hefur verið um gjaldtökuna í samskiptum lögmanns og umbjóðanda hans. Eins og endranær eiga dómstólar þó síðasta orðið um sönnun og túlkun þessara samskipta. Verður heldur ekki komið við fyrir nefndinni munnlegri sönnunarfærslu sem kynni að hafa áhrif á þetta mat.

II.

Ágreiningslaust er að lögmaðurinn tók að sér hagsmunagæslu í þágu álitsbeiðanda síðla árs 2008 gagnvart D annars vegar og E hins vegar en tilgreindum málum, þ. á m. meðferð þeirra fyrir dómstólum, er nánar lýst í málsatvikalýsingu að framan. Af málsgögnum verður ráðið að málareksturinn hafi verið þó nokkur að umfangi auk þess sem hann varðaði mikla hagsmuni álitsbeiðanda. Þá liggur fyrir að lögmaðurinn gætti hagsmuna álitsbeiðanda vegna tilgreindra mála um tæplega sex ára skeið, þ.e. frá nóvember 2008 til septembermánaðar 2014.

Lögmannsstofa lögmannsins, C ehf., reisir kröfugerð sína í fyrirliggjandi dómsmáli aðila á tímaskýrslu úr verkbókahaldi vegna lögmannsstarfa í þágu álitsbeiðanda sem tekur til tímabilsins frá 14. nóvember 2008 til 9. september 2014. Samkvæmt tímaskýrslunni voru heildarvinnustundir lögmanna C ehf. í þágu álitsbeiðanda á tímabilinu 800,10 klukkustundir. Eins og rakið er í málatilbúnaði álitsbeiðanda fyrir nefndinni er ágreiningur um gildi tímaskýrslunnar og umfang vinnustunda, þ. á m. að teknu tilliti til misræmis sem gæti í skýrslunni frá fyrri tímaskýrslu sem hafi tekið til áfallinna vinnustunda til 5. febrúar 2014.

Eins og atvikum er háttað verður að áliti nefndarinnar að leggja mat á lögskipti aðila frá upphafi veittrar lögmannsþjónustu lögmanna C ehf. í þágu aðila álitsbeiðanda til loka hennar í september 2014 við mat á umfangi starfans og rétt til endurgjalds fyrir þau eða fjárhæð þess.

III.

Fyrir liggur að lögmannsstörf lögmannsins hófust í nóvembermánuði 2008 og að þau stóðu yfir óslitið til 9. september 2014.

Fyrsti reikningur vegna C ehf. vegna lögmannsþjónustu í þágu álitsbeiðanda var gefinn út þann 30. júní 2010, eins og nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða áfangareikning vegna lögmannsþjónustu til 30. apríl 2010 og tók hann til alls 31,90 klukkustunda. Þrátt fyrir að ágreiningur sé á milli aðila um hvort álitsbeiðandi hafi móttekið tilgreindan reikning lögmannsstofunnar, en álitsbeiðandi hefur undir rekstri málsins vísað til þess að hann hafi aðeins móttekið einn af fyrirliggjandi reikningum í málinu á meðan á lögmannsstörfum stóð, þá liggur fyrir að reikningsfjárhæðin kom fram á heimabanka álitsbeiðanda þar sem hún var jafnframt greidd af hálfu aðilans þann 26. júlí 2010.

Hinn næsti reikningur var gefinn út af hálfu lögmannsstofunnar þann 10. nóvember 2010. Var þar tiltekið að um væri að ræða áfangareikning vegna tímabilsins frá 1. maí 2010 til 5. október sama ár vegna alls 77,80 klukkustunda. Með sama hætti og áður greinir kom reikningsfjárhæðin fram á heimabanka álitsbeiðanda þar sem hann var greiddur af hálfu aðilans þann 3. desember 2010.

Í samræmi við framangreint tóku framangreindir áfangareikningar til starfa lögmanna C ehf. í þágu álitsbeiðanda á tímabilinu frá 14. nóvember 2008 til 5. október 2010, eða alls 109,7 klukkustundir. Hvort sem álitsbeiðandi hafi í reynd móttekið tilgreinda reikninga lögmannsstofunnar þá liggur fyrir að þeir voru greiddir athugasemdalaust af hálfu aðilans. Að mati nefndarinnar verður að leggja til grundvallar með vísan til orðalags reikninganna að þeir hafi tekið til heildarvinnuframlags lögmanna C ehf. á tilgreindu tímabili og að álitsbeiðandi hafi mátt treysta því að svo væri.

Af tímaskýrslu þeirri sem C ehf. reisir málatilbúnað sinn á, sem tekur til tímabilsins frá 14. nóvember 2008 til 9. september 2014, voru heildarvinnustundir lögmanna félagsins í þágu álitsbeiðanda 134,3 talsins vegna tímabilsins frá 14. nóvember 2008 til 5. október 2010. Er þar mismunur upp á 24,6 vinnustundir frá útgáfu áðurgreindra áfangareikninga vegna sama tímabils. Í samræmi við áðurgreint mat nefndarinnar voru áfangareikningar C ehf. bindandi gagnvart álitsbeiðanda vegna þessa tímabils. Samkvæmt því er það álit nefndarinnar að umfang veittrar lögmannsþjónustu á tímabilinu hafi verið alls 109,7 vinnustundir, en í þeirri niðurstöðu felst það mat nefndarinnar að fyrirliggjandi tímaskýrslur hafi verið glöggar um þau verk sem innt hafi verið af hendi á hverjum tíma upp að fjölda þeirra vinnustunda.

Eins og rakið er í málsatvikalýsingu þá er ágreiningur á milli aðila um það hvernig reikningagerð C ehf. gagnvart álitsbeiðanda var háttað eftir þetta tímamark. Hefur álitsbeiðandi þannig vísað til þess að hann hafi millifært fjárhæðir inn á vörslufjárreikning viðkomandi lögmannsstofu eftir því sem lögmaðurinn hafi gert kröfu til en að hann hefði aldrei móttekið reikninga vegna þessa frá lögmanninum. Lögmaðurinn kveðst hins vegar hafa samþykkt beiðni álitsbeiðanda um að hann fengi að greiða inná vinnuna eftir því sem efni stæðu til enda hefði hann verið atvinnulaus á þessum tíma. Hafi reikningar vegna slíkra innborgana verið gerðir jafnharðan og sendir álitsbeiðanda á skráð lögheimili hans þar sem fram hafi komið sá tímafjöldi sem innheimtur hafi verið hverju sinni. Aldrei hafi komið fram athugasemdir frá álitsbeiðanda um fjárhæð tímagjaldsins fyrr en löngu eftir að vinnu lögmannsins hafi verið lokið.

Um þetta efni er þess að gæta að engin gögn liggja til grundvallar staðhæfingu álitsbeiðanda um þetta efni. Að mati nefndarinnar bera gögn málsins þvert á móti með sér, þ.e. einkum fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti á milli aðila sem og sá háttur sem hafður var á með síðari reikningagerð þar sem reikningar voru gerðir jafnóðum og innborganir bárust frá álitsbeiðanda inn á vörslufjárreikning C ehf., að samkomulag hafi komist á milli aðila um að álitsbeiðandi myndi inna af hendi innborganir inn á kröfu C ehf. vegna veittrar lögmannsþjónustu en að til lokauppgjörs kæmi þegar staða álitsbeiðanda hefði vænkast.

Hvað umfang lögmannsstarfa varðar frá 6. október 2010 til 9. september 2014 verður því að leggja mat á þau verk sem sannanlega voru innt af hendi af hálfu lögmanna C ehf., eftir atvikum að teknu tilliti til fyrirliggjandi tímaskýrslna og málatilbúnaðar aðila um þær.

Fyrir liggur að það sem eftir lifði árs 2010, þ.e. frá 6. október 2010 til ársloka þess árs, voru færðar alls 26 vinnustundir í tímaskýrslu þá sem C ehf. reisir málatilbúnað sinn á fyrir nefndinni. Í fyrri tímaskýrslu, sem prentuð mun hafa verið út þann 5. febrúar 2014 og lögmaðurinn kveðst hafa afhent álitsbeiðanda á fundi þann dag, var tímafjöldi vegna nákvæmlega sömu færslna á sömu dögum hins vegar 22,8 klukkustundir. Að mati nefndarinnar hafa ekki komið fram fullnægjandi skýringar af hálfu lögmannsins á því misræmi sem greinir í tímaskýrslu prentaðri annars vegar 5. febrúar 2014, sem hann lýsir sjálfur að hafi verið afhent álitsbeiðanda, og þeirri tímaskýrslu sem aðilinn reisir málatilbúnað sinn á fyrir dómi og nefndinni, dags. 9. september 2014, alls 3,2 klukkustundir. Um það efni verður heldur ekki fram hjá því litið að álitsbeiðandi mátti treysta því að sú tímaskýrsla sem lögmaðurinn kveðst hafa afhent honum í febrúarmánuði 2014 hafi verið tæmandi að efni til vegna fyrra tímabils, þ. á m. vegna tímafjölda. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar, að teknu tilliti til fyrirliggjandi tímaskýrslna, að hæfilegt umfang vegna starfa lögmanna C ehf. á tímabilinu frá 6. október 2010 til 31. desember 2010 hafi verið alls 22,8 klukkustundir.

Að áliti nefndarinnar verður að leggja sömu sjónarmið til grundvallar og áður greinir vegna lögmannsstarfa á árunum 2011 og 2012. Vegna hins fyrrgreinda árs þá voru alls færðar 168,7 vinnustundir í tímaskýrslu þá sem C ehf. byggir á í málinu á því ári. Samkvæmt tímaskýrslu þeirri sem lögmaðurinn kveðst hafa afhent álitsbeiðanda 5. febrúar 2014, og tók til allra áfallinna vinnustunda fram að þeim tíma, voru vinnustundirnar hins vegar tilgreindar sem 146,9 talsins, en eins og áður greinir er um nákvæmlega sömu færslur að ræða í tímaskýrslunum tveimur að því breyttu að umkrafinn tímafjöldi lögmannsstofunnar jókst um alls 21,8 klukkustund. Eins og fyrr greinir eru að mati nefndarinnar ekki komnar fram fullnægjandi skýringar af hálfu lögmannsins á tilgreindu misræmi í tímaskýrslunum. Samkvæmt því er ekki unnt að líta til síðari tíma leiðréttinga á færðum tímum í verkbókhaldi líkt og á er byggt af hálfu lögmannsins. Samkvæmt því, og að teknu tilliti til færslna í tímaskýrslu á árinu 2011 að öðru leyti, er það mat nefndarinnar að hæfilegt umfang starfa lögmanna C ehf. í þágu álitsbeiðanda á því ári hafi alls numið 146,9 klukkustundum.

Vegna ársins 2012 þá nemur sambærilegt misræmi á milli tímaskýrslna alls 18,1 klukkustund. Tekur tímaskýrsla, dags. 9. september 2014, þannig til alls 141,8 klukkustundar en tímaskýrsla vegna þessa sama tímabils, dags. 5. febrúar 2014, tilgreinir hins vegar 123,7 klukkustundir. Á sama hátt og áður verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar, að teknu tilliti til tilgreinds misræmis og færslna í tímaskýrslu vegna ársins 2012 að öðru leyti, að hæfilegt umfang lögmannsstarfa í þágu álitsbeiðanda á því ári hafi verið alls 123,7 klukkustundir.

Slíkt hið sama greinir í fyrirliggjandi tímaskýrslum úr verkbókhaldi lögmanna C ehf. vegna færslna á árinu 2013. Þannig voru færslur á árinu í tímaskýrslu, dags. 9. september 2014, alls 242,2 klukkustundir, en 235,7 klukkustundir í tímaskýrslu, dags. 5. febrúar 2014. Nemur tilgreint misræmi því 6,5 vinnustundum.

Vegna ársins 2013 hefur álitsbeiðandi jafnframt gert sérstakar efnislegar athugasemdir við færslur í verkbókhaldi lögmannsins vegna tímabilsins frá 8. – 24. janúar 2013 þar sem færðar voru alls 40,5 klukkustundir í tímaskýrslu, dags. 9. september 2014, vegna ágripsgerðar til Hæstaréttar, sbr. eftirfarandi:

            8.1.2013          3,5 klst.           Unnið við ágrip.

            18.1.2013        3,0 klst.           Ágripsgerð.

            21.1.2013        4,0 klst.           Ágripsgerð. Efnisyfirlit.

            22.1.2013        5,5 klst.           Ágrip – viðtal.

            24.1.2014        20,0 klst.         Unnið að ágripi HR. Samant. tími 17. – 23. janúar. ÁRS.

            24.1.2014        4,5 klst.           Ágrip klárað. Fjölföldun með tímaskrá.

Ekki hafa komið fram skýringar af hálfu lögmannsins undir rekstri málsins á þeim fjölda tíma sem varið var í ágripsgerð á tilgreindu tímabili þrátt fyrir athugasemdir og málatilbúnað álitsbeiðanda þar að lútandi. Þrátt fyrir að fyrir liggi samkvæmt málsgögnum, þ. á m. greinargerðum aðila að viðkomandi dómsmáli til Hæstaréttar, að um umfangsmikið mál hafi verið að ræða er það mat nefndarinnar að umkrafinn tímafjöldi vegna ágripsgerðar af hálfu lögmannsins sé úr hófi. Að teknu tilliti til allra atvika, þ. á m. um að eitt viðtal er jafnframt fært í tímaskýrslu lögmannsins á nefndu tímabili, verður að áliti nefndarinnar að leggja til grundvallar að hæfilegt umfang lögmannsstarfa vegna þessa þáttar séu alls 12 klukkustundir. Samkvæmt því sætir umkrafinn tímafjöldi lögmanna C ehf. samkvæmt tímaskýrslu, dags. 9. september 2014, lækkun um alls 28,5 klukkustundir.

Vegna umfangs starfa lögmanna C ehf. í þágu álitsbeiðanda á árinu 2013 lýtur nefndin jafnframt til þess að það misræmi sem áður greinir á milli tímaskýrslna, alls 6,5 klukkustundir, má að hluta til rekja til færslna í verkbókhald lögmannsins á tímabilinu 8. – 24. janúar 2013, eða alls 3 klukkustundir. Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að hæfilegt umfang lögmannsstarfa í þágu álitsbeiðanda á árinu 2013 hafi verið alls 210,2 klukkustundir (242,2 – 3,5 – 28,5).

Vegna lögmannsþjónustu í þágu álitsbeiðanda á árinu 2014 er til þess að líta að samkvæmt tímaskýrslu, dags. 9. september 2014, voru heildarvinnustundir vegna ársins tilgreindar sem 87,1. Í tímaskýrslu, dags. 5. febrúar 2014, sem tók meðal annars til færslna í verkbókhald lögmanna C ehf. til og með 24. janúar 2014, var misræmi á skráðum tímafjölda frá ársbyrjun til hinnar síðargreindu dagsetningar alls 2,5 klukkustundir. Með hliðsjón af sömu sjónarmiðum og áður hafa verið reifuð og að teknu tilliti til færslna að öðru leyti í fyrirliggjandi tímaskýrslu, dags. 9. september 2014, er það mat nefndarinnar að hæfilegt umfang starfa lögmanna C ehf. í þágu álitsbeiðanda á árinu 2014 hafi numið alls 84,6 klukkustundum.

Álitsbeiðandi hefur borið því fyrir nefndinni að við mat á rétti til endurgjalds eða fjárhæðar þess í málinu sé ekki unnt að líta til þess vinnuframlags sem H lögmaður hjá C ehf. hafi innt af hendi í þágu aðilans samkvæmt færslum í verkbókhald þar sem umboð álitsbeiðanda í málinu hafi verið takmarkað við B lögmann. Á þann málatilbúnað álitsbeiðanda getur nefndin ekki fallist.

Er þá til þess að líta að ekki virðist efnislegur ágreiningur um að H lögmaður hafi innt af hendi þau lögmannsstörf í þágu álitsbeiðanda sem greinir í fyrirliggjandi tímaskýrslum í málinu, en þær eru að öllu leyti samhljóða að þessu leyti, bæði hvað varðar tilgreiningu á aðkomu lögmannsins að málinu sem og tímafjölda. Verður ekki heldur fram hjá því litið að í tölvubréfasamskiptum aðila var álitsbeiðandi meðal annars upplýstur um aðkomu H lögmanns að málinu, þ. á m. í tölvubréfi þann 15. nóvember 2013 þar sem lögmaðurinn lýsti því að niðurstaða hans og viðkomandi lögmanns hefði verið sú að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms. Verður ekki séð af málsgögnum að álitsbeiðandi hafi hreyft nokkrum athugasemdum vegna aðkomu lögmannsins að málinu. Þá er þess jafnframt að gæta að aðkoma viðkomandi lögmanns að málinu fólst meðal annars í því að annast mætingu fyrir héraðsdómi fyrir hönd B lögmanns í þágu álitsbeiðanda en samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 21. gr. laga nr. 77/1998 getur lögmaður falið fulltrúa sínum eða öðrum lögmanni að sækja fyrir sig dómþing, enda sé það ekki háð til aðalmeðferðar máls eða munnlegrar sönnunarfærslu.

Ekki eru efni fyrir nefndina til að taka til skoðunar málatilbúnað álitsbeiðanda sem reistur er á álitsgerð KPMG, dags. 4. október 2008, enda lýtur efni hennar hvorki að umfangi þeirra lögmannsstarfa sem málið tekur til né fjárhæð endurgjalds vegna þeirra starfa.

Í samræmi við allt framangreint er það niðurstaða nefndarinnar að hæfilegt umfang lögmannsstarfa í þágu álitsbeiðanda frá 14. nóvember 2008 til 9. september 2014 sé sem hér segir:

            14.11.2008 - 5.10.2010                      109,7 klst.

            6.10.2010 – 31.12.2010                     22,8 klst.

            1.1.2011 – 31.12.2011                       146,9 klst.

            1.1.2012 – 31.12.2012                       123,7 klst.

            1.1.2013 – 31.12.2013                       210,2 klst.

            1.1.2014 – 9.9.2014                           84,6 klst.

            Samtals:                                             697,9 klst.

IV.

Ágreiningur í málinu lýtur jafnframt að fjárhæð endurgjaldsins, þ.e. á hvaða grundvelli sé rétt að reikna þóknun vegna starfa lögmannsins í þágu álitsbeiðanda og hvert sé sanngjarnt endurgjald fyrir þau. Um það efni hefur álitsbeiðandi vísað til þess að aðilar hafi samið um fast tímagjald vegna verksins í upphafi sem hafi verið að fjárhæð 14.600 krónur, en málatilbúnaður álitsbeiðanda um þetta efni verður ekki skilinn á annan hátt en að virðisaukaskattur hafi verið innifalinn í þeirri fjárhæð. Lögmaðurinn hefur hins vegar vísað til þess að við upphaf starfans hafi álitsbeiðandi verið upplýstur um að reikningar yrðu sendir reglulega á gildandi tímagjaldi hverju sinni samkvæmt gjaldskrá C ehf. Þá hefur lögmaðurinn vísað til þess í málatilbúnaði sínum að álitsbeiðanda hafi verið kynnt gjaldskrá lögmannsstofunnar við upphaf lögskipta aðila en álitsbeiðandi hefur mótmælt þeim málatilbúnaði aðilans fyrir nefndinni sem röngum og ósönnuðum.

Hvað þetta ágreiningsefni varðar þá er til þess að líta að hvergi í málsgögnum er að finna þeirri staðhæfingu álitsbeiðanda stað að samist hafi um á milli málsaðila að þóknun vegna lögmannsstarfa í þágu álitsbeiðanda yrði reiknuð á grundvelli tímagjaldsins 14.600 krónur með virðisaukaskatti. Verður ráðið af útgefnum reikningum C ehf. undir rekstri lögmannsþjónustunnar að umkrafin þóknun var í engu tilviki miðuð við slíkt tímagjald sem álitsbeiðandi heldur fram að hafi verið umsamið. Þannig var sérstaklega tiltekið á reikningum útgefnum 30. júní 2010 og 11. október 2010, sem álitsbeiðandi greiddi athugasemdalaust í gegnum heimabanka sinn, að tímagjald væri að fjárhæð 17.200 krónur auk virðisaukaskatts. Þótt ekki hafi verið tiltekið sérstakt tímagjald á síðari reikningum C ehf., sem gerðir voru í kjölfar innborgana álitsbeiðanda inn á áfallinn kostnað líkt og áður greinir, mátti ráða af þar tilgreindum tímafjölda og reikningsfjárhæð að tímagjaldið gat í engu tilviki verið 14.600 krónur. Þannig verður ráðið af fyrirliggjandi reikningum að umkrafið tímagjald vegna ársins 2011 hafi verið að fjárhæð 19.200 krónur auk virðisaukaskatts, 19.800 krónur auk virðisaukaskatts á árinu 2012, 21.160 krónur auk virðisaukaskatts vegna ársins 2013 og 21.535 krónur auk virðisaukaskatts á árinu 2014.

Þótt ágreiningur sé á milli aðila um hvort álitsbeiðandi hafi móttekið útgefna reikninga C ehf. á árunum 2010 – 2014 þá liggur fyrir samkvæmt málatilbúnaði álitsbeiðanda sjálfs að hann móttók í öllu falli einn reikning á tímabilinu og mátti samkvæmt því vera ljóst að reikningsfjárhæð hafi ekki verið grundvölluð á því tímagjaldi sem aðilinn kveðst byggja á að samist hafi um. Þrátt fyrir það verður ekki séð að álitsbeiðandi hafi hreyft nokkrum athugasemdum þar að lútandi gagnvart lögmanninum. Þá verður ekki fram hjá því litið að mati nefndarinnar að álitsbeiðandi greiddi annars vegar tvo hina fyrstu reikninga í gegnum kröfu sem stofnast hafði á heimabanka hans auk þess sem hann innti af hendi þó nokkrar innborganir inn á lögmannskostnaðinn á tímabilinu með millifærslum inn á vörslufjárreikning lögmannsstofunnar, sem reikningsfærðar voru í kjölfarið af hálfu C ehf. Að mati nefndarinnar var álitsbeiðanda í lófa lagið að óska eftir að fá hina útgefnu reikninga í sínar hendur undir rekstri lögmannsþjónustunnar í ljósi þeirra greiðslna sem hann innti af hendi, þ.e. hafi reikningarnir ekki borist honum með þeim hætti sem lögmaðurinn heldur fram í málinu.

Í málatilbúnaði lögmannsins fyrir nefndinni greinir að umkrafin þóknun úr hendi álitsbeiðanda samkvæmt útgefnum reikningum á árunum 2010 – 2014 hafi verið í samræmi við tímagjald það sem gilt hafi á hverjum tíma samkvæmt gjaldskrá C ehf. Eins og áður greinir verður ráðið að tímagjaldið hafi á tímabilinu verið frá 17.200 krónur til 21.535 krónur auk virðisaukaskatts. Að mati nefndarinnar var tímagjald lögmannsins ekki úr hófi. Fyrir liggur að lögmannsþjónustan var veitt óslitið yfir sex ára tímabil. Að teknu tilliti til þess langa tíma er að mati nefndarinnar ekki óeðlilegt, þ. á m. en ekki takmarkað við verðlag á greindu tímabili, að tímagjald lögmannsins hafi tekið breytingum til hækkunar á milli ára til samræmis við gjaldskrá C ehf.

Eins og rakið er í málsatvikalýsingu að framan lýtur sakarefni héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/2017 að reikningi sem C ehf. gaf út á hendur álitsbeiðanda þann 7. desember 2016 að fjárhæð 17.030.439 krónur með virðisaukaskatti. Svo sem áður greinir var vinnuliður reikningsins að fjárhæð 13.299.000 krónur án virðisaukaskatts en hann tók til 531,96 vinnustunda á tímagjaldinu 25.000 krónur án virðisaukaskatts. Þá tók reikningurinn jafnframt til aksturs og útlagðs kostnaðar lögmannsstofunnar, samtals að fjárhæð 512.679 krónur án virðisaukaskatts.

Af hálfu lögmannsins hefur verið vísað til þess að umkrafið tímagjald samkvæmt reikningnum, að fjárhæð 25.000 krónur auk virðisaukaskatts, sé í samræmi við gjaldskrá C ehf. við útgáfu reikningsins, en í málsgögnum liggur fyrir tilgreind gjaldskrá sem mun hafa verið gefin út þann 1. janúar 2016.

Fyrir liggur að sú lögmannsþjónusta sem reikningurinn tekur til var veitt á tímabilinu frá 16. febrúar 2009 til 9. september 2014 líkt og sérstaklega er tilgreint á reikningnum. Samkvæmt því var að mati nefndarinnar ekki stoð fyrir því að leggja tímagjald það sem gilti samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofunnar á árinu 2016 til grundvallar við útgáfu reikningsins. Bar lögmannsstofunni þvert á móti við útgáfu reikningsins að leggja til grundvallar það tímagjald sem gilti hverju sinni samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofunnar á þeim tíma sem þjónustan var veitt og vinnustundir féllu til enda liggur ekki fyrir að aðilar hafi samið á annan veg í máli þessu.

Í samræmi við allt framangreint er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald vegna allra lögmannsstarfa lögmanna C ehf. í þágu álitsbeiðanda á tímabilinu frá 14. nóvember 2008 til 9. september 2014 sé sem hér segir, en tilgreindar fjárhæðir eru án virðisaukaskatts:

            Tímabil                                   Vinnustundir  Tímagjald án vsk.       Þóknun án vsk.

14.11.2008 - 5.10.2010          109,7 klst.       kr. 17.200                   kr. 1.886.840 

            6.10.2010 – 31.12.2010         22,8 klst.         kr. 17.200                   kr. 392.160

            1.1.2011 – 31.12.2011           146,9 klst.       kr. 19.200                   kr. 2.820.480

            1.1.2012 – 31.12.2012           123,7 klst.       kr. 19.800                   kr. 2.449.260

            1.1.2013 – 31.12.2013           210,2 klst.       kr. 21.160                   kr. 4.447.832

            1.1.2014 – 9.9.2014               84,6 klst.         kr. 21.535                   kr. 1.821.861 

            Samtals:                                 697,9 klst.                                          kr. 13.818.433

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það álit nefndarinnar að hæfilegt endurgjald vegna lögmannsstarfa lögmanna C ehf. í þágu álitsbeiðanda frá 14. nóvember 2008 til 9. september 2014 sé að fjárhæð 13.818.433 krónur auk virðisaukaskatts, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Eins og málið liggur fyrir nefndinni verður hvorki séð að sérstakur ágreiningur sé á milli aðila um rétt lögmannsins til að innheimta útlagðan kostnað úr hendi álitsbeiðanda vegna starfa í þágu aðilans né kostnað vegna akstursferða, í samræmi við fyrirliggjandi reikninga. Að mati nefndarinnar eru því ekki efni til annars en að taka umkrafða kostnaðarliði lögmannsins að því leyti til greina að fullu.

 

Á L I T S O R Ð :

Það er álit úrskurðarnefndar lögmanna að hæfilegt endurgjald B lögmanns vegna lögmannsstarfa hans í þágu álitsbeiðanda, A, á tímabilinu frá 14. nóvember 2008 til 9. september 2014 sé að fjárhæð 13.818.433 krónur auk virðisaukaskatts, sbr. 1. mgr. 24. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

 

______________________________________

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

 

 

______________________________________

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

 

 

______________________________________

Kristinn Bjarnason lögmaður