Mál 19 2018

Mál 19/2018

Ár 2018, 17. desember 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2018:

A lögmaður,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 12. október 2018 erindi kæranda A, þar sem kvartað er yfir því að kærði B lögmaður, hafi brotið gegn 31. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 12. október 2018 og barst hún þann 29. sama mánaðar. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 30. október 2018. Ekki bárust frekari athugasemdir af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Ekki er að finna sérstaka málsatvikalýsingu í kvörtun kæranda til úrskurðarnefndar og verður málsatvikum því lýst eins og þau koma fyrir í gögnum málsins og greinargerð kærða til nefndarinnar, en sú lýsing hefur ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu kæranda.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum x. september 2016 var bú C ehf. (hér eftir „þb. C ehf.“) tekið til gjaldþrotaskipta. Mun kærandi hafa verið skipaður skiptastjóri búsins þann sama dag.

Í málsgögnum liggur fyrir frétt sem birtist á vefmiðli D þann x. janúar 2017 þar sem grein var gerð fyrir kæru kæranda, sem skiptastjóra þb. C ehf., á hendur nánar tilgreindum einstaklingum til embættis E en kæran, dags. x. janúar 2017, mun jafnframt hafa verið aðgengileg á umræddum vefmiðli frá sama tímamarki.

Með bréfi kærða til embættis E, dags. 14. nóvember 2017, var annars vegar gerð krafa um niðurfellingu rannsóknar samkvæmt kæru þeirri sem kærandi hafði beint til embættisins þann x. janúar 2017, sem áður greinir. Hins vegar var í bréfinu að finna kæru vegna meintra brota kæranda sem skiptastjóra við gjaldþrotaskipti þb. C ehf. Í inngangi bréfsins var tiltekið að bréfið væri ritað fyrir hönd nánar tilgreindra umbjóðenda kærða.

Fréttir um tilgreinda kæru umbjóðenda kærða á hendur kæranda, dags. x. nóvember 2017, voru birtar á vefsíðum ýmissa fréttamiðla þann x. sama mánaðar, en afrit þeirra liggja fyrir í málsgögnum.

Með bréfi kæranda til héraðssaksóknara, dags. 13. júní 2018, veitti aðilinn, sem skiptastjóri þb. C ehf., andsvör við kæru þeirri sem kærði hafði ritað og sent til embættisins fyrir hönd sinna umbjóðenda þann 14. nóvember 2017.

Í málsgögnum liggja jafnframt fyrir afrit frétta sem birtar voru í F annars vegar þann x. júní 2018 og á vefmiðlinum G hins vegar þann x. september 2018 sem og bréf kærða fyrir hönd tiltekinna umbjóðenda aðilans til kæranda, dags. 27. september 2018, þar sem gerðar voru athugasemdir við kærur og tilkynningar kæranda sem skiptastjóra þb. C ehf. Ekki þykir ástæða til að rekja efni tilgreindra gagna umfram það sem greinir í málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni.

II.

Kvörtun kæranda lýtur að því að kærði hafi í störfum sínum brotið gegn 31. gr. siðareglna lögmanna gagnvart kæranda. Hafi kærði brotið gegn tilgreindu ákvæði með því að leggja fram kæru á hendur kæranda til embættis E þann 14. nóvember 2017 án þess að kæranda hafi verið gert aðvart áður eða gefinn kostur á að koma sjónarmiðum á framfæri. Hafi kærandi, sem hinn kærði einstaklingur, ekki fengið afrit af viðkomandi kæru til héraðssaksóknara fyrr en löngu síðar og þá eftir krókaleiðum.

Byggir kærandi á að um sé að ræða skýrt brot kærða á siðareglum og fer aðilinn þess því á leit að kærði verið látinn sæta þeim viðurlögum sem úrskurðarnefnd lögmanna telur hæfa.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að nefndin kveði á um að kærði hafi ekki brotið gegn 31. gr. siðareglna lögmanna. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda að mati nefndarinnar.

Í greinargerð kærða er jafnframt vísað til þess að kærandi hafi ekki ástundað góða lögmannshætti í samskiptum við kærða. Sé því gerð sú gagnkrafa að kærandi verði látinn sæta viðeigandi agaviðurlögum fyrir það sem kærði telur vera brot gagnvart sér af hans hálfu á 2. mgr. 1. gr., 2. gr., 2. mgr. 8. gr. og 27. gr. siðareglna lögmanna.

Kærði vísar til þess að um skipan skiptastjóra í þrotabúum sé fjallað í 75. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt ákvæðinu sé ekki skilyrði að lögum að skiptastjóri sé lögmaður. Bendir aðilinn á að í fjölmörgum úrskurðum úrskurðarnefndar lögmanna hafi nefndin hafnað að fjalla um störf skiptastjóra á þeirri forsendu að löggjafinn hafi fellt ágreining um störf þeirra í ákveðinn farveg, sbr. einkum 76. gr. laga nr. 21/1991. Fleiri atriði leiði einnig til þess að vísa beri málinu frá nefndinni, sbr. 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir nefndinni, eða fallast eigi á að kærði hafi ekki brotið gegn 31. gr. siðareglna lögmanna.

Kærði bendir á að sá lögmaður sem skipaður sé skiptastjóri fari með málefni þrotabús og sé aðili máls. Þannig sé sjálfstæða skaðabótareglu að finna í 4. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991, er varði störf skiptastjóra en ekki lögmanns. Sé ágreiningur aðila að þrotabúi þannig ekki innbyrðis ágreiningur lögmanna.

Byggir kærði á að þegar af þeirri ástæðu að kærði eigi ekki í neinum innbyrðis deilum við kæranda og hafi ekki persónulega kært hann fyrir yfirvöldum eða dómstólum vegna lögmannsstarfa, né í raun annarra starfa, beri að vísa kvörtun skiptastjórans frá nefndinni. Bendir kærði á að skýrlega sé kveðið á um í 31. gr. siðareglna lögmanna að hún taki aðeins til innbyrðis deilna lögmanna, sem stjórn Lögmannafélags Íslands gæti hugsanlega leyst, sbr. og 2. mgr. 43. gr. siðareglnanna.

Kærði vísar til þess að umbjóðendur aðilans séu ekki lögmenn og eigi enga aðild að Lögmannafélagi Íslands. Hafi þeir enga skyldu borið til að upplýsa skiptastjóra þb. C ehf. hvort þeir hygðust, vegna kæru hans til héraðssaksóknara á hendur þeim, kæra kæranda sem skiptastjóra fyrir meint brot í starfi. Bendir kærði á að lögmaður, sem fái það verkefni að útbúa slíka kæru, geti ekki fellt umbjóðendur sína undir 31. gr. siðareglna lögmanna líkt og kærandi geri kröfu um í kvörtun sinni. Um leið hafi kærandi samsamað kærða við skjólstæðinga aðilans.

Er á því byggt að skiptastjóri eigi aðild að máli, hvort sem hann sé lögmaður eða ekki. Bendir kærði í því samhengi á frétt sem birt hafi verið þann x. júní 2018 þar sem nafn kærða hafi réttilega hvergi verið að finna enda hafi hann enga aðild átt að deilum kæranda, sem skiptastjóra, við umbjóðendur kærða. Þvert á móti hafi þar réttilega verið haldið til haga að umbjóðendur kærða hefðu kært kæranda, sem skiptastjóra, til E.

Í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni er sem fyrr greinir gerð gagnkrafa um að kærandi verði látinn sæta agaviðurlögum vegna meintra brota hans gegn 2. mgr. 1. gr., 2. gr., 2. mgr. 8. gr. og 27. gr. siðareglna lögmanna. Byggir tilgreind krafa kærða á efni bréfs kæranda til embættis E, dags. 13. júní 2018, svo sem nánar er lýst í málatilbúnaði aðilans fyrir nefndinni.

Að endingu kveður kærði í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að kvörtun kæranda sé tilhæfulaus og sé ekki til þess fallin að auka heiður lögmannastéttarinnar.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar.

Um þá kröfu er í greinargerð kærða vísað til þess að úrskurðarnefnd lögmanna hafi í fjölmörgum úrskurðum hafnað því að fjalla um störf skiptastjóra á þeirri forsendu að löggjafinn hafi fellt ágreining um störf þeirra í ákveðinn farveg. Bendir kærði á að kærandi hafi verið skipaður skiptastjóri í þb. C ehf. Fyrir liggi að ágreiningur aðila að þrotabúi geti ekki verið innbyrðis ágreiningur lögmanna sem 31. gr. siðareglna lögmanna taki til. Þá eigi málsaðilar ekki í neinum innbyrðis deilum, í samræmi við áskilnað tilgreinds ákvæðis siðareglnanna, auk þess sem kærði hafi ekki kært kæranda fyrir yfirvöldum eða dómstólum. Beri því að vísa kvörtun kæranda frá nefndinni.

Um frávísunarkröfu kærða er til þess að líta að kvörtun í málinu lýtur að ætluðu broti aðilans, sem lögmanns, gegn 31. gr. siðareglna lögmanna. Heyrir slíkur ágreiningur undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Breytir engu í því samhengi þótt kærandi fari sem lögmaður með bústjórn í þb. C ehf. samkvæmt skipun Héraðsdóms Reykjavíkur enda lýtur málið ekki að störfum kæranda sem skiptastjóra.

Í samræmi við framangreint fellur umkvörtunarefni kæranda á hendur kærða, sem lögmanni, undir valdsvið nefndarinnar. Þá verður að líta svo á að álitaefni um hvort málsaðilar eigi í innbyrðis deilum sem lögmenn í skilningi 31. gr. siðareglna lögmanna sé atriði, sem taka verði afstöðu til við efnisúrlausn málsins, en geti ekki varðað frávísun frá nefndinni. Samkvæmt því er frávísunarkröfu kærða í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 1. mgr. 31. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að í innbyrðis deilum beri lögmanni, sem hyggst kæra annan lögmann fyrir yfirvöldum eða dómstólum, að gera honum og stjórn LMFÍ aðvart áður og gefa þeim kost á að tjá sig um málsefnið. Heimilt er þó að víkja frá þessari reglu ef brýna nauðsyn ber til vegna eðlis málsins, sbr. 2. mgr. 31. gr. siðareglnanna.

Kvörtun kæranda í máli þessu lýtur að því að kærði hafi í störfum sínum brotið gegn 31. gr. siðareglnanna með því að hafa lagt fram kæru á hendur kæranda til embættis E þann 14. nóvember 2017 án þess að hafa gert aðilanum aðvart áður eða gefið honum kost á að koma sjónarmiðum á framfæri.

Um tilgreint kvörtunarefni er þess að gæta að kærði beindi kæru þeirri á hendur kæranda sem um ræðir til E fyrir hönd fimm tilgreindra skjólstæðinga sinna eins og skýrlega verður ráðið af kærunni. Var þannig sérstaklega tiltekið í upphafsorðum kærunnar að hún væri rituð af hálfu kærða fyrir hönd viðkomandi skjólstæðinga og að henni væri beint að kæranda vegna starfa hans sem skipaðs skiptastjóra þb. C ehf.

Samkvæmt því og af efni bréfs kærða frá 14. nóvember 2017 að öðru leyti verður að leggja til grundvallar að ágreiningur um störf kæranda við viðkomandi bústjórn hafi verið á milli skjólstæðinga kærða annars vegar og kæranda hins vegar. Var ritun bréfsins þannig liður í lögmannsstörfum kærða í þágu skjólstæðinga sinna en ágreiningslaust er að skjólstæðingar aðilans eru ekki lögmenn. Verða þær skyldur sem hvíla á lögmönnum samkvæmt 1. mgr. 31. gr. siðareglna lögmanna ekki heimfærðar til innbyrðis deilna sem skjólstæðingar lögmanns kunna að eiga í við annan lögmann. Í því samhengi verður ekki fram hjá því litið að kærði hefur skýlausa kröfu til þess sem lögmaður að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðinga sína, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

Með vísan til framangreinds er hvorki unnt að leggja til grundvallar að málsaðilar eigi eða hafi átt í innbyrðis deilum sem lögmenn í skilningi 1. mgr. 31. gr. siðareglna lögmanna né að bréf kærða, dags. 14. nóvember 2017, hafi falið í sér kæru af hálfu kærða til embættis E vegna starfa kæranda. Samkvæmt því eru engin efni að áliti nefndarinnar til að telja að kærða hafi borið að gera kæranda aðvart og þannig veita honum kost á að tjá sig um málefnið áður en bréfið var sent til E. Hefur kærði því ekki gagnvart kæranda gerst brotlegur gegn 31. gr. siðareglnanna í störfum sínum.

III.

Áður er rakið efni 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 þar sem fram kemur að ef einhver telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna geti hann lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum.

Auk krafna kærða um að málinu verði vísað frá nefndinni eða að kröfum kæranda verði hafnað hefur kærði í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni borið því við að kærandi hafi með ýmsum hætti, sem lögmaður, gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. Í stað þess að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefnd á þeim grundvelli, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, kaus kærði að lýsa hinum ætluðu brotum kæranda að þessu leyti í greinargerð með andsvörum og umsögn aðilans vegna kvörtunar kæranda til nefndarinnar samkvæmt áðurgreindri 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Fyrir slíkum málatilbúnaði er ekki heimild. Með vísan til þessa verður ekki hjá því komist að vísa gagnkröfu kærða að þessu leyti frá nefndinni.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A lögmanns, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.  

Kröfu kærða, um að kærandi verði látinn sæta viðeigandi agaviðurlögum vegna brota á 2. mgr. 1. gr., 2. gr., 2. mgr. 8. gr. og 27. gr. siðareglna lögmanna, er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson