Mál 36 2018

Mál 36/2018

Ár 2019, 12. apríl 2019, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2018:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 15. nóvember 2018 erindi kæranda, A, þar sem vísað er til ágreinings aðilans við kærða, B, um fjárhæð endurgjalds vegna lögmannsstarfa, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 19. nóvember 2018, sem kærandi fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna málsins.

Greinargerð kærða barst þann 7. desember 2018 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 20. desember 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða samdægurs. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum liggur fyrir að kærandi leitaði til kærða þann 6. október 2017 vegna fyrirhugaðs málareksturs fyrir Héraðsdómi Y í tengslum við ágreining um réttmæti nánar tilgreindrar fjárnámsgerðar þar sem kærandi hafði notið stöðu gerðarbeiðanda. Sendi starfsmaður kæranda gögn málsins í tölvubréfi til kærða þann dag auk þess sem meðal annars var upplýst um að málið yrði þingfest í héraðsdómi þann 12. sama mánaðar. Þá sagði eftirfarandi í tölvubréfinu:

Væri fínt ef þú gætir kíkt yfir þetta og gefið okkur kostnaðaráætlun vegna reksturs málsins. Eins og málið liggur fyrir okkur þá er þetta tiltölulega einfalt mál þar sem liggur fyrir hæstaréttardómur um áhrif innborgana skuldara inn á kröfur þó svo viðkomandi hafi verið úrskurðaður gjaldþrota sbr. dóm hæstaréttar nr. xxx/2016. Ég mun svo útvega frekari gögn þegar nær dregur.

Kærði svaraði fyrrgreindu tölvubréfi þann 10. október 2017 þar sem fram kom að erfitt væri að „áætla þetta af nákvæmni.“ Tiltók kærði þó í tölvubréfi sínu til starfsmanns kæranda að hann áætlaði að 8 – 13 klukkustundir færu í málið og að tímagjaldið væri 20.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Kærði mun hafa tekið að sér hagsmunagæslu í framhaldi þessa fyrir kæranda, sem varnaraðila, vegna reksturs ofangreinds máls fyrir héraðsdómi sem hlaut málsnúmerið Y-x/2017 við þingfestingu þess þann x. október 2017. Þá liggur fyrir að greinargerð sóknaraðila í málinu, sem liggur fyrir í málsgögnum, var lögð fram á dómþingi þann x. október 2017 sem kærði móttók í þágu kæranda.

Samkvæmt málsgögnum mun í kjölfar þessa hafa farið fram gagnaöflun af hálfu starfsmanna kæranda annars vegar og kærða hins vegar til að bregðast við málatilbúnaði í framangreindri greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms. Auk tilgreiningar um gagnaöflun í tímaskýrslu kærða liggja fyrir tölvubréfasamskipti á milli starfsmanns kæranda og kærða um það efni frá 7., 14., 21. og 28. nóvember 2017. Þá sendi kærði drög að greinargerð til starfsmanns kæranda í tölvubréfi þann x. nóvember 2017 og óskaði eftir að skoðaðar yrðu samantektir og afstemmingar í samræmi við málatilbúnað sóknaraðila í málinu.

Þann 29. nóvember 2017 sendi kærði tölvubréf til starfsmanns kæranda þar sem finna mátti uppfærð drög greinargerðar eftir endurbætur á henni. Óskaði kærði eftir að hann yrði látinn vita með athugasemdir en að fyrirtaka í málinu væri fyrirhuguð daginn eftir. Ekki verður séð af málsgögnum að kærandi hafi gert athugasemdir við tilgreind greinargerðardrög kærða.

Á dómþingi héraðsdómsmálsins nr. Y-x/2017 sem haldið var þann x. nóvember 2017 lagði kærði fram greinargerð fyrir hönd kæranda, en afrit hennar liggur fyrir í málsgögnum. Samkvæmt tímaskýrslu kærða mun hann hafa sótt dómþing í málinu fyrir hönd kæranda dagana x. janúar og x. mars 2018. Á þessu tímabili mun kærði jafnframt hafa átt í samskiptum við starfsmann kæranda vegna málsins.

Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Y þann x. maí 2018. Samkvæmt tímaskýrslu kærða mun hann hafa varið alls 8,42 klukkustundum í undirbúning aðalmeðferðar á tímabilinu frá 16. apríl til 21. maí 2018 auk þess sem áætlaður tími vegna aðalmeðferðarinnar sjálfrar var alls 2 klukkustundir.

Samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda varði kærði alls 26,68 klukkustundum í málið á tímabilinu frá 6. október 2017 til og með 22. maí 2018. Nánar tiltekið voru 13,67 klukkustundir færðar í tímaskýrslu kærða á árinu 2017 á tímagjaldinu 20.500 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 347.491 króna með virðisaukaskatti. Þá voru 13,01 klukkustund færð í tímaskýrslu kærða á árinu 2018 á tímagjaldinu 21.500 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 346.846 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt því nam áskilin þóknun kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda að heildarfjárhæð 694.337 krónur með virðisaukaskatti.

Kærði sendi tilgreinda tímaskýrslu til starfsmanns kæranda í tölvubréfi þann 14. ágúst 2018, sem bar yfirskriftina „Uppgjör v. máls nr. Y-x.2017.“ Kvaðst kærði þar jafnframt vita að fjöldi tíma væri töluvert meiri en hann hefði áætlað í upphafi en málið hefði reynst flóknara tölulega séð en gert hefði verið ráð fyrir. Þá hafi meiri tími farið í „fræðilega þáttinn“ en kærði hefði gert ráð fyrir enda hafi verið lítið um fordæmi um skilyrtar greiðslur. Lýsti kærði því að hann teldi að tímaskýrslan væri sanngjörn lýsing á þeirri vinnu sem farið hafi í verkið og óskaði því eftir að uppgjör færi fram samkvæmt henni.

Í svari starfsmanns kæranda þann sama dag var óskað eftir skýringum kærða á áföllnum vinnustundum í ljósi þeirrar áætlunar sem hann hefði gefið upp við upphaf málsins auk skýringa á því af hverju áskilið tímagjald kærða væri hærra en gefið hefði verið upp. Þá kom fram hjá starfsmanni kæranda að kærandi hefði fullan skilning á að tímafjöldi færi eitthvað umfram áætlun en að í þessu tilviki væri um „tvöföldun að ræða rúmlega miðað við hærri áætlunina.“

Í umbeðnum skýringum kærða, sem veittar voru í tölvubréfi þennan sama dag þann 14. ágúst 2018, var tiltekið að hann hefði tekið fram í upphafi að erfitt væri að áætla kostnað af nákvæmni. Málið hafi reynst umfangsmeira en kærði hafi búist við auk þess sem óhjákvæmilegt hafi verið að fara í töluverða gagnaöflun. Reynt hafi verið að vanda til verka og í raun meiri tími farið í það en skráð hafi verið í tímaskýrslu. Þá lýsti kærði því að uppgefið tímagjald hafi verið fyrir árið 2017 en að það hafi hækkað um tæp 5% í byrjun árs 2018.

Í tölvubréfi starfsmanns kæranda til kærða, dags. 5. september 2018, var óskað eftir að reikningur yrði sendur vegna málsins en tiltekið að hann yrði greiddur með fyrirvara um tímafjölda og fjárhæð tímagjalds. Var því lýst að reikningurinn væri talinn of hár miðað við upphaflega áætlun. Þá kvaðst starfsmaður kæranda hafa fengið samþykki fyrir því að málinu yrði lokið með 15% afslætti af heildarreikningi en í slíku tilviki þyrfti að breyta greiðsluseðli í banka auk þess sem reikningurinn yrði greiddur um leið og hann bærist.

Kærði svaraði erindi þessu sama dag þar sem hann kvað áætlun sína ekki hafa verði tilboð og að sanngjarnt væri að miða við raunverulega vinnu við málið.

Viðkomandi starfsmaður kæranda sendi á ný tölvubréf til kærða þann 6. september 2018 þar sem upplýst var að kærandi hefði móttekið reikning, dags. 3. sama mánaðar, með eindaga sama dag. Var í tölvubréfinu óskað eftir nýjum reikningi með síðari gjalddaga svo unnt yrði að greiða hann á réttum tíma án dráttarvaxta eða að eindagi kröfunnar yrði leiðréttur í heimabanka. Þá var ítrekað að fyrir lægju fyrirmæli frá forstjóra kæranda um að greiða reikninginn með fyrirvara nema hann yrði merktur með 15% afslætti.

Af málsgögnum verður ráðið að kærði hafi breytt eindaga kröfunnar í samræmi við beiðni kæranda þar að lútandi.

Í samræmi við framangreint mun ágreiningur í málinu lúta að fjárhæð endurgjalds kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda í tengslum við rekstur héraðsdómsmálsins nr. Y-x/2017.  

II.

Í málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni er þess aðallega krafist að við mat á hæfilegu endurgjaldi vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda verði miðað við upphaflega tímaáætlun kærða, þ.e. 8 – 13 klukkustundir og að tímagjaldið verði lækkað í það sem upphaflega hafi verið samið um. Til vara krefst kærandi þess að fallist verði á tilboð aðilans um að greiða hinn umþrætta reikning með 15% afslætti.

Kærandi vísar til þess í málatilbúnaði sínum að reikningur kærða sér of hár miðað við upphaflegt tilboð hins síðargreinda. Þannig hafi áætlaður tímafjöldi kærða tvöfaldast auk þess sem tímagjaldið hafi hækkað einhliða án tilkynningar.

Um þetta efni bendir kærandi á að kærði hafi áætlað alls 8 – 13 klukkustundir í verkið en þegar uppi hafi verið staðið hafi alls 26,68 klukkustundir verið færðar á málið í tímaskýrslu kærða. Hafi kærði ekki tilkynnt kæranda um hinn aukna tímafjölda frá því sem greindi í upphaflegri áætlun fyrr en við útgáfu reiknings.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi borið því við í samskiptum aðila að hinn aukni tímafjöldi hafi verið til kominn vegna gagnaöflunar. Bendir kærandi í því skyni á að samkvæmt tímaskýrslu kærða hafi alls 7,68 klukkustundir farið í gagnaöflun en af þeim hafi 3,64 klukkustundir farið í gagnaöflun kærða en að önnur gögn hafi hann fengið send frá starfsmanni kæranda.

Kærandi byggir á að ekkert í málinu réttlæti það frávik frá áætluðum tímafjölda sem hér um ræðir. Auk þess hafi kærði hækkað tímagjald einhliða í ársbyrjun 2018 án þess að slíkt hafi verið með nokkru tilkynnt til kæranda.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða fyrir nefndinni var vísað til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 10. gr. siðareglna lögmanna. Var því jafnframt lýst að kærandi hefði talið að mál það sem kærði hefði tekið að sér væri einfalt í undirbúningi, en starfsmenn kæranda hefðu töluverða reynslu á þessu sviði lögfræðinnar. Hafi áætlun kærða um tímagjald verið sett fram fyrirvaralaust enda hafi ekki verið ágreiningur um að málið lægi ljóst fyrir og væri einfalt í undirbúningi og meðförum.

Kærandi bendir á að kærði hafi aldrei tilkynnt eða upplýst um að hann teldi málið umfangsmeira en talið hafi verið í fyrstu. Þvert á móti hafi kærði hækkað einhliða tímagjaldið í ársbyrjun 2018 án nokkurrar tilkynningar og í kjölfar þess farið rúmlega tvöfalt yfir efri mörk eigin tímaáætlunar, eða í alls 26,68 klukkustundir. Hafi kærandi ekki fengið nauðsynlegt tækifæri til þess að taka afstöðu til þess hvort málinu skyldi haldið áfram eða ekki með tilliti til hins aukna tímafjölda kærða og þar með tilheyrandi margföldun kostnaðar.

Er á því byggt að kærða hafi verið bæði rétt og skylt að láta kæranda vita að tímafjöldinn stefndi í að fara verulega fram yfir áætlun eins fljótt og kostur hafi verið, auk þess sem tilkynna hafi átt um hækkun tímagjalds.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni þannig að þess sé krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði kveðst hafa gætt hagsmuna kæranda í máli nr. Y-x/2017 sem rekið hafi verið fyrir Héraðsdómi Y. Ekki hafi verið gerður bindandi samningur um fasta þóknun á milli aðila.

Kærði vísar til þess að starfsmaður kæranda hafi haft samband símleiðis við sig þann 6. október 2017 með beiðni um lögmannsþjónustu vegna málsins. Hafi viðkomandi starfsmaður talið að málið lægi nokkuð ljóst fyrir með vísun til nýlegs dóms Hæstaréttar í sambærilegu máli. Í framhaldi samtalsins hafi gögn málsins verið send til kærða auk þess sem starfsmaður kæranda hafi óskað eftir kostnaðaráætlun vegna málsins sem sagt var einfalt.

Kærði kveðst hafa svarað því erindi kæranda þann 10. október 2017 þar sem því hafi meðal annars verið lýst að erfitt væri að áætlað kostnaðinn af nákvæmni. Hafi hann þó áætlað að 8 – 13 klukkustundir færu í vinnu við málið og að tímagjaldið væri 20.500 krónur auk virðisaukaskatts. Bendir kærði á að engin frekari samskipti hafi farið á milli aðila um þóknun. Þá hafi kærandi ekki farið fram á að gerður yrði samningur um fasta þóknun kærða vegna málsins. Samkvæmt því hafi kærði talið ljóst að samið hafi verið um þóknun sem tæki mið af almennu tímagjaldi skrifstofu hans og byggðist á sundurliðaðri tímaskýrslu.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kærða að hann hafi lagt sig fram við að gæta hagsmuna kæranda í samræmi við siðareglur lögmana og hefðbundið verklag. Þá hafi kærði engin fyrirmæli fengið frá kæranda um að takmarka hafi átt vinnuframlag hans í þágu málsins.

Kærði kveður málið hafa reynst umfangsmeira en reiknað hafi verið með í upphafi. Þannig hafi aðfararkrafa kæranda, sem legið hafi til grundvallar fjárkröfu hans í málinu, ekki stemmt fyllilega við upphafleg fylgigögn og hafi því töluverð vinna verið lögð í að stemma við alla liði kröfunnar. Hafi slíkt verið nauðsynlegt til að varna því að aðfarargerðin yrði ógilt vegna ósamræmis á milli kröfu og fylgigagna, en sóknaraðili hafi haft uppi áskorun þess efnis í greinargerð til héraðsdóms í málinu. Bendir kærði á að vinna þessi hafi verið unnin í samstarfi við starfsmann kæranda sem hafi engar athugasemdir gert við verklagið eða vinnu kærða að þessu leyti.

Kærði vísar til þess að málið hafi snúist að miklu leyti um hvort greiðslur sóknaraðila samkvæmt skilagreinum hefðu rofið fyrningu á kröfu kæranda. Við vinnslu málsins hafi komið í ljós að nánar tilgreindur dómur Hæstaréttar, sem kærandi hefði vísað til sem fordæmis vegna sakarefnisins, styddi ekki nema að hluta málatilbúnað kæranda í málinu. Af þeim sökum hafi verið nauðsynlegt að kanna sjálfstætt atriði til stuðnings málatilbúnaði kæranda í dómum og fræðiritum. Hafi sú vinna tekið tíma sem ekki hafi verið reiknað með í upphafi.

Kærði mótmælir því að hann hafi gert tilboð í vinnu við málið. Bendir aðilinn á að um lauslega áætlun hafi verið að ræða sem aldrei hafi verið samið um að lögð yrði til grundvallar um endanlega þóknun. Þá hafi tilgreint tímagjald verið miðað við almennt tímagjald skrifstofu kærða árið 2017 auk virðisaukaskatts en það hafi hækkað um 4,9% þann 1. janúar 2018. Vísar kærði til þess að viðskiptamönnum hans, sem ekki hafi gert fasta samninga um þóknun, hafi ekki verið tilkynnt um hækkun tímagjaldsins.

Samkvæmt framangreindu krefst kærði þess að sjónarmiðum kæranda verði hafnað um að viðkomandi endurgjald hafi verið of hátt. Bendir aðilinn jafnframt á að ekki sé á því byggt af hálfu kæranda að endurgjaldið hafi verið ósanngjarnt miðað við vinnuframlag.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Eins og rakið er í málsatvikalýsingu að framan þá leitaði kærandi til kærða þann 6. október 2017 og óskaði eftir að hann myndi annast hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna málsins nr. Y-x/2017 sem þingfesta átti í Héraðsdómi Y þann x. sama mánaðar. Fyrir liggur að kærði tók að sér þá hagsmunagæslu og hélt uppi vörnum í þágu kæranda í héraði en aðalmeðferð málsins fór fram þann x. maí 2018.

Ágreiningur í málinu lýtur annars vegar að fjölda vinnustunda sem kærði varði í rekstur málsins samkvæmt tímaskýrslu, sem liggur fyrir í málsgögnum. Hins vegar lýtur ágreiningur í málinu að áskildu tímagjaldi vegna verkstunda sem féllu til á árinu 2018.

Um hið fyrrgreinda ágreiningsefni er til þess að líta að kærandi óskaði í upphafi samskipta aðila eftir kostnaðaráætlun frá kærða vegna reksturs hins fyrirhugaða dómsmáls. Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan upplýsti kærði um að erfitt væri að áætla kostnað af nákvæmni en tiltók þó að hann áætlaði að 8 – 13 klukkustundir færu í málið og að tímagjaldið væri 20.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Fyrir liggur að hagsmunagæsla kærða í þágu kæranda stóð yfir í um átta mánuði en tímaskýrsla hins fyrrgreinda vegna verksins tekur til tímabilsins frá 6. október 2017 til 22. maí 2018. Ekki er ágreiningur um að kærði upplýsti kæranda ekki undir rekstri málsins um áfallnar vinnustundir heldur sendi hann fyrst tímaskýrslu til starfsmanns kæranda eftir uppkvaðningu úrskurðar í viðkomandi máli, nánar tiltekið í tölvubréfi þann 14. ágúst 2018. Þá liggur fyrir að aðeins einn reikningur var gerður vegna umræddra lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda en hann mun hafa verið gefinn út um mánaðamót ágúst- og septembermánaðar 2018. Mun fjárhæð reikningsins hafa tekið mið af sundurliðaðri skráningu kærða í tímaskýrslu vegna verksins en hún tók alls til 26,68 klukkustunda á tímagjaldinu 20.500 krónur auk virðisaukaskatts vegna vinnu sem féll til á árinu 2017 en á tímagjaldinu 21.500 krónur auk virðisaukaskatts vegna vinnu kærða á árinu 2018.

Að mati nefndarinnar er fyrrgreind tímaskýrsla kærða vegna starfa í þágu kæranda greinargóð um það sem gert var hverju sinni og ekki úr hófi. Á hinn bóginn er þess að gæta að vinnustundir voru rúmlega tvöfalt fleiri en þær sem kærði hafði áætlað upphaflega í verkið og kynnt kæranda um. Þótt ekki sé hægt að leggja til grundvallar af samskiptum aðila að kærði hafi verið bundinn af þeirri tímaáætlun sem hann lét kæranda í té við upphaf réttarsambands aðila verður að áliti nefndarinnar ekki litið fram hjá því að tímafjöldi fór verulega fram úr áætluninni án þess þó að kærði hefði upplýst kæranda þar um. Verður þá jafnframt að líta til þess að kærandi óskaði sérstaklega eftir kostnaðaráætlun frá kærða við upphaf málsins. Mátti kærða samkvæmt því vera ljóst að upplýsingar um það efni gátu varðað kæranda miklu.

Í fyrri úrskurðum nefndarinnar hefur verið lagt til grundvallar að skylda lögmanns til að upplýsa umbjóðanda sinn um verkkostnað, í samræmi við ofangreind ákvæði laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmana, sé virk á meðan verkinu vindur fram, sbr. úrskurði nefndarinnar 24. maí 2018 í máli nr. 6/2018 og 30. ágúst 2018 í máli nr. 11/2018.

Ágreiningslaust er að frá því að kærði gerði kæranda grein fyrir að 8 – 13 klukkustundir væru áætlaðar í vinnu vegna málsins, sbr. tölvubréf dags. 10. október 2017, var kærandi ekki upplýstur um áfallnar vinnustundir fyrr en eftir að viðkomandi málarekstri var lokið. Var kæranda þannig fyrst upplýstur um að kærði hefði varið 26,68 klukkustundum í verkið í tölvubréfi þann 14. ágúst 2018. Að teknu tilliti til samskipta aðila við upphaf réttarsambandsins var kærða í lófa lagið að upplýsa kæranda undir rekstri málsins um áfallnar vinnustundir og að fyrirséð væri að tímaáætlun sú sem látin hefði verið í té kæmi ekki til með að standast. Verður í því samhengi ekki fram hjá því litið að þegar í árslok 2017 voru áfallnar vinnustundir kærða vegna verksins komnar yfir efstu mörk tilgreindrar áætlunar, en þær námu þá alls 13,67 klukkustundum. Hafði þá enn ekki verið ákveðin dagsetning fyrir aðalmeðferð málsins í héraði og undirbúningur hennar af hálfu kærða því ekki hafinn.

Samkvæmt framangreindu er að mati nefndarinnar eðlilegt að þegar sanngjörn þóknun er metin, sé tekið tillit til þess að kærði upplýsti kæranda undir rekstri málsins hvorki um áfallnar vinnustundir né kostnað. Á slíkt ekki hvað síst við í ljósi þeirrar tímaáætlunar sem kærði lét kæranda í té við upphaf starfans auk þess sem fyrir lá þegar í árslok 2017 að þóknun kærða myndi fara verulega fram úr þeirri áætlun.

Með vísan til alls framangreinds og að teknu tilliti til atvika allra telur nefndin að við mat á hæfilegu endurgjaldi kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda á tímabilinu frá 6. október 2017 til 22. maí 2018, í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998, sé rétt að miða við 20 klukkustunda vinnuframlag af hálfu kærða.

Um hið síðargreinda ágreiningsefni þá liggur fyrir að kærði upplýsti kæranda um í tölvubréfi þann 10. október 2017 að tímagjald hans væri 20.500 krónur auk virðisaukaskatts. Í tímaskýrslu og við útgáfu reiknings kærða var miðað við það tímagjald vegna vinnustunda sem féllu til á árinu 2017 en vegna vinnu kærða í þágu kæranda á árinu 2018 var hins vegar tímagjaldið 21.500 krónur auk virðisaukaskatts lagt til grundvallar. Hefur kærði í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni vísað til þess um þá breytingu að tímagjald lögmannsstofu hans hafi hækkað um 4,9% þann 1. janúar 2018 og að þeim viðskiptamönnum sem ekki hafi gert fasta samninga um þóknun hafi ekki verið tilkynnt um hækkunina.

Hvað þetta atriði varðar er til þess að líta að tölvubréf kærða um áskilið tímagjald að fjárhæð 20.500 krónur auk virðisaukaskatts var sett fram án nokkurs fyrirvara auk þess sem í því fólst svar við fyrirspurn starfsmanns kæranda um „kostnaðaráætlun vegna reksturs málsins.“ Samkvæmt því, og þar sem kærandi var ekki upplýstur um hið breytta og hækkaða tímagjald lögmannsstofu kærða á árinu 2018 fyrr en eftir lok málarekstursins og við uppgjör þóknunar vegna þess, verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærandi hafi mátt treysta því að það tímagjald sem kærði tilkynnti um við upphaf réttarsambands aðila myndi eiga við um viðkomandi verk sem kærði tók að sér enda yrði ekki um annað samið á síðari stigum. Verður í því samhengi þá jafnframt að líta til þess að um afmarkað verk var að ræða sem kærði tók að sér í þágu kæranda sem fyrirséð var að myndi standa yfir um nokkurra mánaða skeið. Með vísan til þess er það mat nefndarinnar að leggja beri tímagjaldið 20.500 krónur auk virðisaukaskatts vegna þess verks sem kærði tók að sér í þágu kæranda og unnið var á tímabilinu frá 6. október 2017 til 22. maí 2018.

Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða nefndarinnar að við mat á hæfilegu endurgjaldi í málinu, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998, beri að leggja til grundvallar að fjöldi vinnustunda kærða í þágu kæranda sem unnt sé að reikningsfæra fyrir í ljósi atvika allra séu 20 á umræddu tímabili og að miða beri við tímagjaldið 20.500 krónur auk virðisaukaskatts vegna allra verkþátta, þ.e. hvort heldur sem þeir féllu til á árinu 2017 eða 2018. Með vísan til þess er það niðurstaða nefndarinnar að hæfilegt endurgjald kærða vegna starfa í þágu kæranda sé að fjárhæð 508.400 krónur með virðisaukaskatti. Í þeirri niðurstöðu felst að áskilið endurgjald kærða samkvæmt tímaskýrslu vegna verksins og reikningi sem gefinn mun hafa verið út á hendur kæranda samkvæmt henni, að fjárhæð 694.337 krónur, sætir lækkun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald kærða, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu kæranda, A, sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 508.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson