Mál 13 2020

Mál 13/2020

Ár 2020, fimmtudaginn 8. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2020:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 29. maí 2020 erindi kæranda, A, þar sem lýst er ágreiningi við kærðu, B lögmann, hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindis kæranda og barst hún þann 7. júlí 2020. Var kæranda send greinargerð hennar til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 4. ágúst 2020 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærðu þann 12. sama mánaðar. Loks bárust frekari athugasemdir frá kærðu þann 1. september 2020 og voru þær sendar til kæranda með bréfi þann 3. sama mánaðar þar sem jafnframt var tiltekið að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Ágreiningur í þessu máli lýtur að rétti kærðu til endurgjalds eða fjárhæð þess fyrir störf sem hún innti af hendi í þágu C ehf. og D á árunum 2016 – 2019.

Samkvæmt málsgögnum lést D þann 6. apríl 2015. Þann 19. ágúst 2015 veitti embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra erfingum hins látna, þar á meðal kæranda, leyfi til einkaskipta á dánarbúinu en frestur til að ljúka skiptum var til 6. apríl 2016. Í leyfisbréfi var tiltekið að E hefði fengið umboð erfingja til að koma fram af þeirra hálfu og í nafni dánarbúsins í samskiptum við aðra, þar á meðal við ráðstöfun eigna, viðtöku andvirðis þeirra og opinbera skýrslugerð sem og til að taka við tilkynningum í þeirra þágu.

Fyrir liggur að á meðal eigna dánarbúsins var annars vegar íbúðarhúsnæði að F og hins vegar allt hlutafé í C ehf. Meðal eigna tilgreinds einkahlutafélags var jörðin að F sem og útihús jarðarinnar.

Þann 29. janúar 2016 voru gerðir kaupsamningar um íbúðarhúsnæðið að F annars vegar og um jörðina og önnur mannvirki hennar hins vegar. Undirritaði fyrrgreindur E nefnda kaupsamninga eftir umboði fyrir hönd seljenda, þ.e. C ehf. annars vegar og dánarbú D hins vegar. Var umsamið kaupverð vegna íbúðarhúsnæðisins að fjárhæð 10.000.000 króna en 30.000.000 króna vegna jarðarinnar og annarra mannvirkja. Af málsgögnum verður ráðið að afsöl vegna viðskiptanna hafi verið gefin út þann 30. janúar 2018

E mun hafa leitað til kærðu vegna málefna C ehf. og dánarbús D í byrjun febrúarmánaðar 2016. Af því tilefni sendi kærða ítarlegt tölvubréf til E þann 8. febrúar 2016 þar sem lýst var þeim fyrirhuguðu verkefnum sem ráðast þyrfti í vegna félagsins annars vegar og dánarbúsins hins vegar. Var jafnframt með tölvubréfinu að finna umboð sem kærða lýsti að erfingjar þyrftu að undirrita. Þá var tiltekið í tölvubréfinu að tímagjald kærðu vegna verksins væri með afslætti að fjárhæð 22.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Á meðal málsgagna er að finna umboð, dags. 8. febrúar 2016, sem kærandi og G veittu kærðu til hagsmunagæslu vegna skipta á dánarbúinu.

Þann 1. mars 2016 var embætti ríkisskattstjóra tilkynnt um breytingu á stjórn, framkvæmdastjórn og prókúru í C ehf. Samkvæmt tilkynningunum tók E sæti í stjórn félagsins jafnframt því að vera framkvæmdastjóri þess og prókúruhafi. Kærða var hins vegar tilkynnt inn sem varamaður í stjórn félagsins þar sem hún sat uns hún tilkynnti um úrsögn sína með bréflegu erindi til ríkisskattstjóra sem móttekið var þann 16. október 2018.

Þann 9. mars 2016 veitti E fyrir hönd C ehf. kærðu umboð til þess að ganga frá sölu á jörðinni F að öllu leyti. Var því lýst að umboðið tæki til allra mögulegra ráðstafana er tengdust sölunni, þ. á m. til að ráðstafa eignum félagsins, veita veðleyfi, ganga frá skuldum tengdum félaginu, undirrita afsal, veita fjármunum móttöku vegna sölunnar og gefa kvittun. Þá tók umboðið til upplýsingaöflunar hjá þriðju aðilum sem og til að koma fram fyrir hönd félagsins og í nafni þess í samskiptum við aðra, til að annast opinbera skýrslugerð og til að taka við tilkynningum.

Fyrir liggur að kærða óskaði eftir lengri fresti til að ljúka skiptum á dánarbúinu með bréfi til sýslumannsins á Norðurlandi eystra, dags. x. apríl 201x. Var tiltekið í bréfinu að kærða hefði tekið að sér að aðstoða erfingja við skiptin en að þau hefðu tekið lengri tíma þar sem koma hafi þurft helstu eign dánarbúsins í verð og til þess að greiða upp skuldir þess. Fylgdi með erindi kærðu yfirlit yfir eigna og skuldastöðu dánarbúsins, dags. 6. sama mánaðar, sem einnig er á meðal málsgagna.

Á meðal málsgagna er jafnframt að finna ársreikning C ehf. 2014, leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts ásamt fylgiskjölum sem kærða skilaði í þágu félagsins þann 14. júní 2017, skattframtal D 2015 sem og skattframtal dánarbúsins 2017 sem kærða undirritaði eftir umboði. Þá liggur einnig fyrir erfðafjárskýrsla vegna dánarbúsins sem kærða undirritaði eftir umboði þann 5. desember 2017. Ekki þykir ástæða til að reifa tilgreind gögn sérstaklega vegna sakarefnis málsins.

Ágreiningslaust er að kærða móttók fjármuni fyrir hönd C ehf. og dánarbús D inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu sinnar á árinu 2016. Þá liggur jafnframt fyrir að kærða annaðist greiðslu skulda tilgreindra aðila með útborgun af fjárvörslureikningnum á árunum 2016 – 2019 sem og greiðslur til erfingja. Liggja ýmis skjöl fyrir í málsgögnum um þetta efni sem og heildaryfirlit yfir fjárvörsluna í málatilbúnaði kærðu fyrir nefndinni. 

Ekki mun hafa verið búið að ganga endanlega frá skiptum á dánarbúinu í aprílmánuði 2019. Mun kærandi þá hafa leitað til annars lögmanns, nánar tiltekið H, vegna málsins. Þann 10. apríl 2019 sendi kærða tölvubréf til tilgreinds lögmanns kæranda vegna málefna dánarbúsins og C ehf. og fyrirhugaðs fundar þeirra næsta dag. Kvaðst kærða þá vera búin að útbúa heildaruppgjör vegna inn- og útborgana af fjárvörslureikningi í tengslum við málið, en það yfirlit fylgdi með erindinu. Þá sagði eftirfarandi í tölvubréfinu:

Tímagjald mitt var umsamið kr. 22.000 og reikningsfærðir tímar nú eru í 106,25 vegna vinnu við uppgjör á dánarbúinu og skuldum félagsins, skattframtölum og leiðréttingu vsk. skila vegna félagsins. Eftir samtal mitt við fulltrúa sýslumanns í dag þá þarf að reikna með ca. 6 klukkustundum til viðbótar, skrifa þarf nýja erfðafjárskýrslu með þeim breytingum að eignir sem einn erfinginn seldi utan skipta verði teknar inn og skiptayfirlýsingar útbúnar. – Vonandi er þetta sett fram eins skýrt og um var beðið, ég er við á morgun fram að fundinum til að svara frekari spurningum ef einhverjar eru.

Í fyrrgreindu yfirliti sem fylgdi með erindi kærðu kom meðal annars fram að vinna kærðu væri að fjárhæð 2.898.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Ágreiningslaust er að kærða hélt fund með kæranda og lögmanni hennar þann 11. apríl 2019 vegna málefna dánarbúsins og fyrrgreinds einkahlutafélags. Hefur kærða lýst því að á fundinum hafi hún lagt fram vinnuskýrslu sína vegna tímabilsins frá 8. febrúar 2016 til 10. apríl 2019 en hún tók til alls 106,25 klukkustunda, í samræmi við efni tölvubréfs kærðu frá deginum áður.

Í tölvubréfi lögmanns kæranda til kærðu í kjölfar fundarins, þ.e. þann 12. apríl 2019, kom fram að lögmaðurinn hefði farið yfir fjárhagsgögn og að niðurstaðan væri sú að á fjárvörslureikningi kærðu ætti að vera 12.211.348 krónur sem væri eign viðkomandi erfingja, þ. á m. kæranda. Lýsti lögmaðurinn því jafnframt að umbjóðendur hans gerðu kröfu um að fjármunirnir yrðu greiddir sem fyrst og eigi síðar en á boðuðum fundi þann 2. maí 2019. Í fylgiskjali með tölvubréfinu kom fram að gert væri ráð fyrir kostnaði að fjárhæð 2.898.500 krónur vegna vinnu kærðu undir liðnum „Kostnaður skiptastjóra“.

Í svörum kærðu þennan sama dag til lögmanns kæranda kom fram að inná fjárvörslu hennar væru 10.717.450 krónur auk þess sem veittar voru nánari skýringar. Óskaði kærða eftir að lögmaður kæranda myndi fara yfir uppleggið með tilliti til gagna og óskaði jafnframt eftir greiðsluupplýsingum svo unnt yrði að koma fjármunum áfram af fjárvörslureikningnum.

Fyrir liggur að kærða ráðstafaði fjármunum af fyrrgreindum fjárvörslureikningi vegna málsins inn á fjárvörslureikning lögmanns kæranda dagana 18. júlí 2019, 30. júní og 7. júlí 2020 að heildarfjárhæð 10.500.412 krónur. Þá liggur fyrir að kærða sendi tölvubréf til lögmanns kæranda þann 23. janúar 2020 þar sem tiltekið var að kærða væri búin að taka saman þau bókhaldsgögn sem hún hefði móttekið vegna dánarbúsins og einkahlutafélagsins og að þau yrðu send til lögmannsins þar sem kærða hefði hætt allri hagsmunagæslu vegna málsins.

Af málsgögnum verður ráðið að kærða hafi gefið út fjóra reikninga vegna fyrrgreindrar vinnu í þágu C ehf. og dánarbús D.

Í fyrsta lagi var gefinn út reikningur af lögmannsstofu kærðu á hendur C ehf. þann 17. mars 2016, sbr. reikning nr. 815. Í nánari sundurliðun kom fram að um væri að ræða reikning vegna lögmannsráðgjafar samkvæmt tímaskýrslu auk útlagðs kostnaðar. Tók reikningurinn til alls 14 klukkustunda á tímagjaldinu 21.360 krónur auk virðisaukaskatts, að teknu tilliti til 20% afsláttar. Var heildarfjárhæð reikningsins 373.760 krónur. Samkvæmt yfirliti yfir fjárvörslur kærðu var reikningurinn greiddur þennan sama dag með útborgun af fjárvörslureikningnum.

Í öðru lagi var gefinn út reikningur af lögmannsstofu kærðu á hendur C ehf. þann 2. nóvember 2016, sbr. reikning nr. 924. Í nánari sundurliðun kom fram að um væri að ræða innborgun inn á þóknun vegna lögmannsráðgjafar samkvæmt tímaskýrslu. Var heildarfjárhæð reikningsins 1.750.000 krónur. Samkvæmt yfirliti yfir fjárvörslur kærðu var reikningurinn greiddur þennan sama dag með útborgun af fjárvörslureikningnum.

Í þriðja lagi var gefinn út reikningur af lögmannsstofu kærðu á hendur C ehf. þann 24. nóvember 2018, sbr. reikning nr. 1294. Í nánari sundurliðun kom fram að um væri að ræða reikning vegna lögmannsráðgjafar samkvæmt tímaskýrslu. Var heildarfjárhæð reikningsins 664.144 krónur. Samkvæmt yfirliti yfir fjárvörslur kærðu var reikningurinn greiddur þennan sama dag með útborgun af fjárvörslureikningnum.

Í fjórða og síðasta lagi var gefinn út reikningur af lögmannsstofu kærðu á hendur dánarbúi D þann 17. júlí 2019, sbr. reikning nr. 1218. Í nánari sundurliðun kom fram að um væri að ræða reikning vegna lögmannsráðgjafar kærðu auk útlagðs kostnaðar. Tók reikningurinn til alls 25,75 klukkustunda á tímagjaldinu 22.000 krónur auk virðisaukaskatts. Var heildarfjárhæð reikningsins 712.169 krónur. Fyrir liggur að kærða sendi tilgreindan reikning ásamt tímaskýrslu til lögmanns kæranda í tölvubréfi þann 13. ágúst 2019.

Í málatilbúnaði kærðu er því lýst að ekki hafi komið til greiðslu reiknings nr. 1218 og að hann hafi verið bakfærður af hennar hálfu. Fær það stoð í fyrirliggjandi gögnum þar sem er að finna kreditreikning nr. 1222 frá 17. júlí 2019 þar sem fram kemur að um sé að ræða leiðréttingu á reikningi nr. 1218.

Á meðal málsgagna er jafnframt að finna tölvubréfasamskipti kærðu og lögmanns kæranda frá desembermánuði 2019 vegna hinna útgefnu reikninga sem áður greinir. Kærandi hefur jafnframt lagt fyrir nefndina samantekt lögmanns hennar þar sem gerð er grein fyrir yfirliti lögmannsstarfa vegna frágangs á fyrrgreindu dánarbúi og einkahlutafélagi. Þá hefur kærða lagt fram í málinu vinnuskýrslu sína vegna verksins sem tekur til tímabilsins frá 6. febrúar 2016 til 16. júlí 2019 en samkvæmt henni varði kærða alls 134 klukkustundum í viðkomandi mál.

 

 

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé krafist að útgefnir reikningar lögmannsstofu kærðu vegna lögmannsstarfa í þágu dánarbús D verði felldir niður eða sæti lækkun og að greiðslur sem inntar hafi verið af hendi á grundvelli reikninganna verði endurgreiddar, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærandi vísar til þess að kvörtun sé beint að reikningum fyrir vinnu kærðu í þágu dánarbús sem hvergi finnist en rætt sé um í tölvubréfi, dags. 16. desember 2019.

Nánar tiltekið vísar kærandi til þess að faðir hennar, D, hafi andast þann 6. apríl 2015 og að kærða hafi tekið við búinu sem skiptastjóri. Í samræmi við hefðbundið verklag hafi eignir verið seldar og skuldir greiddar. Ágreiningur í málinu lúti að tveimur reikningum. Annars vegar reikningi sem einungis sé vitnað til í ódagsettu færsluyfirliti sem borist hafi frá kærðu en þar komi fram að þóknun til hennar hafi numið 2.898.500 krónum með virðisaukaskatti. Hins vegar lúti ágreiningur að reikningi nr. 1218, dags. 17. júlí 2019, en kærandi kveðst draga vinnuskýrslu sem fylgt hafi með reikningnum stórlega í efa.

Vísað er til þess að eini reikningurinn sem fengist hafi útprentaður frá kærðu sé fyrrgreindur reikningur nr. 1218. Hafi sá reikningur ekki farið í innheimtuferli heldur hafi upphæð hans verið dregin af eignum dánarbúsins líkt og gert hafi verið varðandi fyrri reikning að fjárhæð 2.898.500 krónur. Hafi hinn fyrri reikningur ekki fundist og kærða ekki viljað afhenda afrit hans þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Er á það bent að H lögmaður hafi tekið við skiptastjórn búsins af kærðu. Sé á meðal málsgagna að finna greinargerð hennar þar sem meðal annars sé farið yfir þá fjármálaóreiðu sem verið hafi á dánarbúinu. Hafi gríðarleg aukavinna farið í tiltekt, leiðréttingar og frágang búsins en fyrir það hafi verið greitt alls 1.311.300 krónur. Megi ráða af vinnuskýrslum fyrrgreinds lögmanns að stærstu kostnaðarliðirnir hafi verið vegna úrvinnslu gagna frá kærðu. Þá sé ljóst að töluvert lægri kostnaður hefði verið við skipti dánarbúsins ef lögmaðurinn hefði tekið við því í upphafi í stað kærðu.

Kærandi byggir á að dánarbúið, sem hafi ekki verið eignamikið til að byrja með, hafi þurft að þola gríðarlega rýrnun vegna starfa kærðu sem skiptastjóra. Samkvæmt því kveðst kærandi óska eftir að nýta heimild í 26. gr. laga nr. 77/1998 til þess að skjóta ágreiningnum til nefndarinnar. Er um það efni einnig vísað til 1. mgr. 24. gr. laganna um að lögmanni sé rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skuli umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar sem kærða hafi hvorki birt vinnuskýrslu né reikning fyrir kröfu að upphæð 2.898.500 krónur telur kærandi að kærða hafi fyrirgert rétti sínum til slíks endurgjalds.

Krefst kærandi þess því að hinn umþrætti reikningur verði felldur niður og endurgreiddur til erfingja dánarbúsins. Þá krefst kærandi þess að reikningur nr. 1218, dags. 17. júlí 2019, verði lækkaður í samræmi við mat nefndarinnar.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að ágreiningur lúti ekki að því hvort tímagjald kærðu hafi verið hóflegt og sanngjarnt heldur að tveimur greiðslum úr viðkomandi dánarbúi sem kærða greiddi sér. Sé önnur greiðslan samkvæmt reikningi nr. 1218 en hin samkvæmt reikningi sem kærða neiti að afhenda eða rökstyðja með tímaskýrslu. Kveðst kærandi draga framlagða reikninga og tímaskýrslur kærðu stórlega í efa. Þá sé ekkert í gögnum frá kærðu sem sýni að hún hafi endurgreitt reikning nr. 1218 með kreditreikningi nr. 1222.

Á það er bent að kærða reyni að kaffæra málatilbúnaði kæranda með ósannindum og dylgjum sem komi málinu ekki við. Kveðst kærandi jafnframt hafna öllum leiðréttingum sem kærða setji fram í málatilbúnaði sínum. Fyrir liggi að kvörtun í málinu lúti að þeirri vinnu sem kærða greiddi sér fyrir úr dánarbúinu en ekki að málsatvikum.

Varðandi reikning nr. 1218 bendir kærandi á að vinnuskýrsla að baki þeim reikningi geri grein fyrir litlu öðru en samskiptum við kæranda eða H lögmann, þrátt fyrir málatilbúnað kærðu um hið gagnstæða.

Kærandi vísar til þess að fullyrðingar kærðu um að hún hafi ekki verið að vinna fyrir dánarbúið heldur E veki upp spurningar um af hverju dánarbúið hafi verið látið borga þá reikninga sem hér um ræðir. Sé þannig nú fyrst að koma í ljós samkvæmt framlögðum gögnum af hálfu kærðu í málinu að reikningar hafi verið gefnir út C ehf.

Vísað er til þess að framlögð gögn af hálfu kærðu telji alls 107 blaðsíður. Óskar kærandi eftir að litið verði framhjá þessari „document dumb“ aðferð sem kærði beiti til að verja sig í málinu og að horft verði á hið einfalda ágreiningsefni. Sé kvörtun í málinu sett upp á einfaldan hátt enda deiluefnið ekki flókið auk þess sem það hafi fengið stuðning í greinargerð H lögmanns sem á endanum hafi lokað dánarbúinu fyrir miklu lægri fjárhæð en kærða hafi tekið sér í þóknun. Í því samhengi er á það bent að kærða hafi sent öll gögn vegna málsins til H þann 24. janúar 2020 en þar hafi verið um að ræða alls 262 blaðsíður, þar með talið ársreikninga og uppgjör sem kærða hafi ekki unnið að. Samkvæmt því hafi kærða sérvalið gögn fyrir nefndina, en þar á meðal sé að finna skjöl sem ekki hafi verið í þeim gagnapakka sem kærða sendi frá sér í ársbyrjun 2020.

Kærandi vísar til þess að sú vinna sem H lögmaður hafi unnið hafi verið mun meiri en sú sem kærða hafi lagt til. Hafi hinn fyrrgreindi lögmaður þannig klárað erfðafjármálin, farið yfir fjárvörslureikninga, greitt úr þeirri flækju sem kærða hafi skilið eftir sig og slitið dánarbúinu þann 22. maí 2020. Fyrir þetta hafi lögmaðurinn innheimt alls rúmlega 1.700.000 krónur en þar af hafi verið reikningur frá endurskoðanda fyrir ársreikningum félags hins látna árin 2015 – 2018 upp á tæplega 700.000 krónur. Kveður kærandi það miklu nær hæfilegu endurgjaldi fyrir það þrekvirki sem H lögmaður vann til að loka dánarbúinu.

Að endingu kveðst kærandi ítrekað hafa gert athugasemdir við kostnað kærðu. Ávallt hafi verið búist við að einhverjir reikningar yrðu lagfærðir og að betri mynd kæmi á málið þegar nær drægi skiptalokum. Úr því hafi ekki orðið. Hafi það ekki komið fyllilega í ljós fyrr en við afhendingu málsgagna af hálfu kærðu þann 24. janúar 2020 hvaða gögn kærða hefði unnið. Eftir það hafi verið ákveðið að leggja fram kvörtun til nefndarinnar.

III.

Kærða krefst þess í málinu að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að nefndin staðfesti að áskilin heildarþóknun að fjárhæð 2.787.904 krónur með virðisaukaskatti feli í sér hæfilegt endurgjald. Þá krefst kærða málskostnaðar úr hendi kæranda vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærða kveðst í upphafi vilja leiðrétta fullyrðingar sem fram komi í kvörtun kæranda sem og í bréfi lögmanns kæranda. Vísar kærða þannig til þess að hún hafi aðallega unnið fyrir einkahlutafélagið C ehf. að beiðni fyrirsvarsmanns þess, E, stjúpföður kæranda. Hafi kærða byrjað að vinna fyrir félagið í febrúarmánuði 2016, en ekki árið 2015 eins og kærandi haldi ranglega fram. Að sama skapi hafi kærða ekki verið skiptastjóri dánarbús D, föður kæranda. Hið rétta sé að veitt hafi verið leyfi til einkaskipta á dánarbúinu í ágúst 2015 og hafi fyrrgreindur E verið umboðsmaður erfingja. Samskipti kærðu vegna dánarbúsins hafi fyrst og fremst verið við E, sem umboðsmann erfingja. Þá hafi kærða aldrei komið fram sem umboðsmaður kæranda eða dánarbúsins heldur aðeins aðstoðað umboðsmann erfingja við skiptin.

Kærða vísar til þess að reikningar vegna vinnu hennar hafi verið gerðar á C ehf. enda hafi vinna kærðu einkum verið í þess þágu. Kveðst kærða jafnframt hafna því að hafa ekki svarað erindum kæranda um langan tíma og að erfitt hafi verið að ná í kærðu. Þvert á móti hafi reynst erfitt og tafsamt að hafa samband við erfingja, eftir því sem vinnan við skiptin hafi kallað á fulltingi þeirra, svo sem við undirritun skjala.

Vísað er til þess að frágangi á fasteignum félagsins og dánarbúsins hafi lokið 30. janúar 2018 með undirritun E undir afsöl. Áður, eða í desembermánuði 2017, hafi erfðafjárskýrslu dánarbúsins verið skilað inn.

Kærða bendir á að lögmaður kæranda, H, hafi haft samband við sig þann 29. mars 2019 og að þær hafi átt með sér fund þann 11. apríl sama ár. Hafi kærða sent lögmanninum yfirlit yfir fjárvörslur vegna sölu fasteigna ásamt afriti af öllum kvittunum þar að baki með tölvupósti þann 2. apríl 2019. Jafnframt því hafi kærða sent lögmanninum heildaryfirlit yfir fjárvörslur með tölvupósti 10. apríl 2019 þar sem fram hafi komið upplýsingar um þóknun kærðu og tímaskýrslu. Þá hafi kvittanir sem tengdust fjárvörslu kærðu og tímaskýrsla verið afhentar lögmanni kæranda á fyrrgreindum fundi þann 11. apríl 2019. Hafi engar athugasemdir verið gerðar á þeim fundi um þóknun kærðu eða tímaskýrslu. Þá hafi kærða ekki tekið að sér frekari vinnu fyrir félagið, dánarbúið eða kæranda eftir þann tíma.

Nánar um forsögu málsins vísar kærða til þess að þann 19. ágúst 2015 hafi erfingjar fengið leyfi til einkaskipta vegna dánarbús D. Hafi verið tiltekið í leyfinu að E væri umboðsmaður erfingja. Samkvæmt yfirliti yfir eignir og skuldir dánarbúsins hafi verið ljóst að dánarbúið væri eignalaust.

Kærða vísar til þess að dánarbúið hafi átt íbúarhúsnæði að F og verið eigandi alls hlutafjár í C ehf. Hafi helsta eign félagsins verið jörð og útihús á F. Í kjölfar leyfis til einkaskipta hafi jörðin að F verið sett á sölu, þ.e. íbúðarhúsnæði, jörðin og útihúsin.  Þá hafi fasteignirnar verið seldar með kaupsamningum, dags. 29. janúar 2016, sem E hafi undirritað. Leggur kærða áherslu á að umræddar ráðstafanir hafi átt sér stað áður en hún tók að sér hagsmunagæslu í þágu félagsins, en á þessum tíma hafi fjármunum dánarbúsins og félagsins verið blandað saman. Er í því samhengi á það bent að fjárvörsluyfirlit, þar sem fram komu innborganir kaupanda vegna beggja kaupsamninga og ráðstöfun á þeim til greiðslu skulda, hafi lögmaður kæranda fengið sent með tölvubréfi hinn 2. apríl 2019.

Vísað er til þess að E hafi leitað til kærðu í febrúar 2016 fyrir hönd og sem fyrirsvarsmaður C ehf. Á þeim tíma hafi E verið búinn að undirrita kaupsamninginn fyrir hönd félagsins, nánar tiltekið þann 30. janúar 2016, án þess að hafa til þess formlega heimild. Hafi kærða upplýst E um að breyta þyrfti stjórn félagsins svo þinglýsa mætti samningnum. Auk þess þyrfti að tilnefna varamann í stjórn þess. Vegna erfiðleika við að finna varamann í stjórn félagsins hafi kærða samþykkt að taka það að sér tímabundið og var gengið frá þeirri skipan þann 1. mars 2016. Bendir kærða þó á að á meðan hún sat í varastjórn félagsins hafi hún engu hlutverki gegnt og aldrei komið í stað aðalmanns, þ.e. E. Kærða hafi hins vegar sagt sig úr stjórn með tilkynningu til embættis ríkisskattstjóra þann 16. október 2018.

Kærða bendir á að um mitt ár 2017 hafi legið fyrir að óhjákvæmilegt væri að erfingjar tækju við hlutabréfum í fyrrgreindu einkahlutafélagi og þar með ábyrgð á skilum á skattframtölum og ársreikningum fyrir það. Hafi þá jafnframt legið fyrir að ljúka þyrfti einkaskiptum á dánarbúinu og úthluta hlutabréfum til erfingja.

Kærða mótmælir málatilbúnaði kæranda um að með hagsmunagæslu fyrir félagið hafi kærða samtímis tekið að sér dánarbússkipti föður kæranda. Vísar kærða til þess að hið rétta sé að vegna vinnu hennar fyrir félagið, hafi kærða af óhjákvæmilegum ástæðum tekið að sér að aðstoða E og þar með kæranda vegna skiptanna. Hafi vinna og liðsinni kærðu vegna dánarbúsins staðið frá febrúar 2016 til mars 2019 og verið takmörkuð við afmarkaða þætti. Hins vegar hafi kærða aldrei tekið að sér að verða umboðsmaður erfingja dánarbúsins eða skiptastjórn, eins og kærandi haldi ranglega fram.

Bent er á að við hagsmunagæslu í þágu félagsins hafi samskipti kærðu verið að meginstefnu til við E en ekki kæranda. Hafi samskipti kærðu við kæranda og aðra erfingja verið mjög takmörkuð enda í samræmi við þá staðreynd að kærða hafi ekki verið umboðsmaður erfingja dánarbúsins.

Kærða kveðst hafa útbúið umboð frá kæranda og öðrum erfingja til sín svo unnt væri að fá frekari upplýsingar um dánarbússkiptin og mögulega fresti. Hafi skjölin verið send með tölvubréfi til E sem hafi útvegað undirritanir. Er jafnframt vísað til þess að kærða hafi sent E yfirlit yfir hvaða verkefni væru framundan og að tímagjald vegna verksins væri að fjárhæð 22.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Kærða vísar til þess að hún hafi útbúið yfirlit yfir helstu eignir og skuldir dánarbúsins og sent beiðni um frekari frest til að ljúka skiptum til sýslumanns þann 8. apríl 2016. Kveður kærða óumdeilt að hlutverk hennar við dánarbússkiptin hafi verið mjög takmarkað allt frá upphafi. Hafi umboðsmaður erfingja áfram verið E og því ekki mögulegt fyrir kærðu að ljúka skiptum eins og kærandi fullyrði í kvörtun.

Kærða vísar til þess að ávallt hafi legið fyrir að áður en kærandi og aðrir erfingjar gætu fengið greiddan arf úr dánarbúi föður þeirra yrði að ganga frá skattskuldbindingum félagsins. Hafi kærða af þeim sökum leitað til endurskoðanda með beiðni um aðstoð vegna skila á skattframtölum og fleiru fyrir félagið. Í ljós hafi hins vegar komið að erfitt yrði að ganga frá skattframtölum og ársreikningum vegna áranna 2015 og 2016, bæði vegna þess að bókhald það sem kærða hafði fengið var mjög takmarkað og einnig þar sem vantað hafi alveg skýringar á rýrnun á lausafé félagins. Hafi sá þáttur því verið látinn bíða. Þá hafi vinna kærðu leitt í ljós að félagið væri í skuld við föður kæranda, en sú skuld hafði ekki verið talin fram í skattframtölum. Hafi það því ekki verið fyrr en eftir vinnu kærðu að mögulegt var að greiða erfingjum inn á arfshluta með greiðslu á skuld félagsins við föður kæranda.

Vísað er til þess að um leið og kaupandi innti af hendi lokagreiðslu til dánarbúsins vegna íbúðarhúsnæðisins að F í nóvember 2017 hafi erfðafjárskýrsla verið útbúin og send til yfirferðar hjá viðkomandi sýslumannsembætti. Hafi kærða þá jafnframt annast skil á skattframtölum dánarbúsins. Ómögulegt hafi hins vegar reynst að skila skattframtölum og ársreikningum C ehf. vegna áranna 2015 og 2016.

Kærða vísar til þess að eftir að hún sendi gögn til sýslumanns í mars 2018 og að í ljósi þeirrar niðurstöðu að úr málefnum félagsins yrði ekki leyst nema með aðkomu endanlegra hluthafa, þar á meðal kæranda, hafi hún lítið aðhafst í málefnum félagsins. Hafi það verið mat kærðu að í reynd væri allri vinnu í þágu félagsins lokið og að næstu skref í málefnum dánarbúsins og félagsins væru ekki í hennar höndum. Kveðst kærða hins vegar hafa svarað öllum erindum sem henni hafi borist.

Kærða byggir á að vinna hennar í þágu félagsins ásamt aðstoð við E vegna skipta á dánarbúinu hafi verið mjög umfangsmikil og að þurft hafi að leysa úr ýmsum flóknum álitaefnum. Kveðst kærða mótmæla því með öllu að sú vinna sem lögmaður kæranda hafi innt af hendi hafi verið nauðsynleg og/eða komi í stað fyrir vinnu kærðu á tímabilinu. Þá sé fjarstæðukennt að kærandi hafi orðið fyrir tjóni í tengslum við ætlaðan drátt á afhendingu reikninga.

Varðandi ágreining um endurgjald fyrir vinnu sína krefst kærða þess að nefndin staðfesti að þóknun hennar að fjárhæð 2.787.904 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti feli í sér hóflegt endurgjald og að umsamið tímagjald kærðu, að fjárhæð 22.000 krónur auk virðisaukaskatts, sé hóflegt og sanngjarnt. Bendir kærða á að vinna hennar í þágu C ehf. sé lýst í fyrirliggjandi tímaskýrslu. Þá mótmælir kærða fullyrðingum kæranda sem röngum um að vinnuskýrslur hafi ekki verið birtar. Vísar kærða um það efni til þess að hún hafi afhent tímaskýrslur á fundi með kæranda og lögmanni hennar þann 11. apríl 2019. Á sama fundi hafi verið farið yfir yfirlit yfir fjármuni þá sem kærða móttók fyrir félagið annars vegar, samtals að fjárhæð 25.294.705 krónur, og dánarbúið hins vegar, að fjárhæð 2.00.000 krónur, eða alls 27.294.705 krónur.

Um þetta efni bendir kærða jafnframt á að í kjölfar fundarins, eða þann 12. apríl 2019, hafi henni borist tölvubréf frá lögmanni kæranda þar sem gert hafi verið ráð fyrir þeirri þóknun kærðu sem kynnt hafði verið á fundi aðila degi fyrr. Er vísað til þess að í kjölfarið hafi kærða og lögmaður kæranda átt í miklum samskiptum án þess að nokkrar athugasemdir hefðu verið gerðar við reikninga kærðu. Hafi því komið flatt upp á kærðu að nú rúmu ári síðar kvarti kærandi til nefndarinnar vegna endurgjaldsins. Byggir kærða á að ársfrestur kæranda til þess að gera athugasemd við endurgjald kærðu hafi verið liðinn þegar kvörtun í málinu var móttekin af nefndinni.

Vísað er til þess að eftir að lögmaður kæranda kom að málinu hafi kærða innt af hendi umtalsverða vinnu. Að mati kærðu hafi sú vinna verið á ábyrgð lögmanns kæranda. Sökum þessa hafi vinna kærðu verið reikningsfærð með reikningi nr. 1218 að fjárhæð 712.169 krónur. Kærða kveðst hins vegar hafa bakfært reikninginn með kreditreikningi nr. 1224 í kjölfar athugasemda af hálfu lögmanns kæranda. Án tillits til útlagðs kostnaðar hafi kærða þannig reikningsfært 102 tíma, sem sé mun minna en skráður tímafjöldi sé í málinu, en þeir telji alls 134 klukkustundir.

Um allt framangreint bendir kærða jafnframt á að hún hafi sent lögmanni kæranda yfirlit í tölvubréfi þann 10. apríl 2019 þar sem fram komu upplýsingar um innborganir inn á fjárvörslureikning vegna félagsins og dánarbúsins. Í því tölvubréfi hafi jafnframt verið tekið fram að vinna kærðu væru 106,25 klukkustundir og að tímagjaldið væri 22.000 krónur auk virðisaukaskatts. Hafi þær upplýsingar byggt á útprentaðri tímaskýrslu kærðu, dags. 10. apríl 2019, sem hafi verið afhent á fundi með kæranda og lögmanni kæranda degi síðar, líkt og áður er rakið.

Í viðbótarathugasemdum kærðu er vísað til þess að ljóst sé af athugasemdum kæranda í málinu að kvörtun lúti að endurgjaldi kærðu, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Kærða bendir á að umþrættur reikningur nr. 1218 hafi aldrei verið greiddur úr dánarbúi föður kæranda. Sé það staðfest í greinargerð kæranda þar sem fram kemur að gerður hafi verið kreditreikningur skömmu eftir útgáfu reikningsins. Áréttar kærða jafnframt að dánarbú föður kæranda hafi enga reikninga greitt fyrir vinnu kærðu.

Kærða vísar til þess að vinna hennar hafi einkum verið fólgin í því að greiða úr málefnum C ehf. Hafi öll samskipti kærðu verið við E, fyrirsvarsmann félagsins. Mótmælir kærða því sérstaklega að upplýsingar um reikninga og þóknun hafi ekki legið fyrir fyrr en með greinargerð hennar til nefndarinnar.

Að endingu vísar kærða til þess að óskýrleiki í kvörtun málsins hafi gert henni erfitt um vik að átta sig á hvert raunverulegt ágreiningsefni væri. Af þeim sökum hafi kærða talið nauðsynlegt að leggja í mikla vinnu við að gera grein fyrir atvikum málsins svo og fylgiskjölum í því skyni að svara fullyrðingum í málatilbúnaði kæranda. Nú þegar ljóst sé að ágreiningur lúti eingöngu að endurgjaldi kærðu, liggi fyrir að verulegur hluti af þeirri vinnu hafi verið þarflaus. Krefst kærða þess að það verði haft í huga við ákvörðun málskostnaðar.

Niðurstaða

I.

Að mati nefndarinnar þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins eins og það hefur verið lagt fyrir nefndina.

Fyrir liggur að erindi kæranda til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn en í því er lýst ágreiningi um rétt kærðu til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess. Er nánar tiltekið kveðið á um í 1. málslið greinarinnar að ef lögmann greinir á við umbjóðandi sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er slíkt hið sama áréttað í 1. tölul. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir nefndinni.

Líkt og áður greinir verður að skilja kröfugerð kæranda í málinu þannig að þess sé annars vegar krafist að reikningar kærðu sem gefnir voru út á árunum 2016 – 2018 verði felldir niður og endurgreiddir til erfingja dánarbús D.

Þeir reikningar sem hér um ræðir voru gefnir út af lögmannsstofu kærðu á hendur C ehf. dagana 17. mars 2016, 2. nóvember 2016 og 24. nóvember 2018, sbr. reikninga nr. 815, 924 og 1294 í reikningskerfi kærðu. Svo sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan var heildarfjárhæð reikninganna þriggja 2.787.904 krónur. Voru reikningarnir í öllum tilvikum greiddir samdægurs til kærðu með greiðslu af fjárvörslureikningi sem hún hélt vegna vinnu í þágu félagsins annars vegar og dánarbús D hins vegar.

Ágreiningslaust er að kærða annaðist hagsmunagæslu jöfnum höndum í þágu fyrrgreinds einkahlutafélags annars vegar og dánarbús hins vegar á árunum 2016 – 2018. Kærða hefur þó vísað til þess fyrir nefndinni að vinna hennar hafi að miklu leyti lotið að hagsmunagæslu vegna félagsins en fyrir liggur að fyrirsvarsmaður þess, E, fór jafnframt með umboð erfingja til að koma fram af þeirri hálfu og í nafni dánarbúsins vegna málefna þess samkvæmt veittu einkaskiptaleyfi. Var kærða þannig einkum í samskiptum við nefndan E vegna þeirrar hagsmunagæslu sem hún sinnti. Þá liggur fyrir samkvæmt málatilbúnaði kærðu og málsgögnum að öðru leyti að hún móttók til fjárvörslu alls 25.294.705 krónur vegna félagsins en 2.000.000 króna vegna dánarbúsins.

Í samræmi við framangreint liggur fyrir að hinir umþrættu reikningar sem hér um ræðir voru gefnir út af hálfu lögmannsstofu kærðu á hendur C ehf. Að sama skapi liggur fyrir að reikningarnir voru greiddir með fjármunum sem tilheyrðu því félagi.

Varðandi formhlið málsins verður að mati nefndarinnar að líta til þess að C ehf. var sjálfstæður lögaðili. Á þeim tíma sem kærða annaðist hagsmunagæslu í málinu var E stjórnarmaður félagsins, framkvæmdastjóri þess og prókúruhafi. Að mati nefndarinnar hefur á engan hátt verið leitt í ljós með hvaða hætti kærandi í máli þessu geti átt aðild að ágreiningi um rétt kærðu til endurgjalds úr hendi félagsins eða fjárhæð þess að öðru leyti. Getur engu breytt í því samhengi að mati nefndarinnar þótt dánarbú D hafi verið eigandi alls hlutafjár í félaginu. Er þannig ekki unnt í lagalegu tilliti að áliti nefndarinnar að samsama dánarbúið og félagið með þeim hætti sem málatilbúnaður kæranda í málinu er í reynd reistur á. Samkvæmt því verður ekki talið að slíkt samningssamband hafi verið á milli kærðu annars vegar og kæranda hins vegar, vegna þeirra umþrættu reikninga sem hér um ræðir, sem 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er afmörkuð við.

Um þetta efni er þess jafnframt að gæta að í 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Líkt og áður er rakið voru þeir reikningar sem hér um ræðir gefnir út og greiddir samdægurs dagana 17. mars 2016, 2. nóvember 2016 og 24. nóvember 2018. Hvað sem líður ætlaðri vanrækslu kærðu á að upplýsa erfingja dánarbúsins um þær ráðstafanir á nefndum tíma, þá liggur fyrir að kærða upplýsti lögmann kæranda um í tölvubréfi hinn 10. apríl 2019 að þegar hefðu verið reikningsfærðar vegna málsins 106,25 klukkustundir á umsömdu tímagjaldi að fjárhæð 22.000 krónur auk virðisaukaskatts. Kom slíkt hið sama fram í fylgiskjali með tölvubréfinu. Verður með óyggjandi hætti ráðið að mati nefndarinnar að kærandi var upplýstur um þetta efni enda var sérstaklega vísað til þóknunar kærðu að þessu leyti í fylgiskjali tölvubréfs sem lögmaður kæranda sendi til kærðu þann 12. apríl 2019, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan. Samkvæmt því getur ekki haft þýðingu í máli þessu þótt ágreiningur sé um hvort kærða hafi í reynd afhent kæranda og lögmanni hans afrit af tímaskýrslu á fundi aðila sem haldinn var degi fyrr, þ.e. þann 11. apríl 2019.

Í samræmi við framangreint er ljóst að mati nefndarinnar að það sakarefni sem hér um ræðir lá fyrir þegar í aprílmánuði 2019. Að áliti nefndarinnar er ekki unnt að miða við annað en að kærandi hafi þá þegar átt þess kost að koma ágreiningsefninu á framfæri við nefndina. Voru því lögbundnir tímafrestir til að leggja málið fyrir nefndina að þessu leyti liðnir þegar kvörtun kæranda í máli þessu var móttekin þann 29. maí 2020.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður ekki hjá því komist að vísa tilgreindu ágreiningsefni frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 og 1. tölul. 3. gr. og 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Ágreiningur í málinu lýtur hins vegar að reikningi nr. 1218 sem lögmannsstofa kærðu gaf út á hendur dánarbúi D þann 17. júlí 2019 að heildarfjárhæð 712.169 krónur. Hefur kærandi krafist þess að reikningurinn verði lækkaður í samræmi við mat nefndarinnar.

Ágreiningslaust er í málinu að tilgreindur reikningur var ekki greiddur. Hefur kærða jafnframt lýst því í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að hún hafi bakfært reikninginn í kjölfar athugasemda frá lögmanni kæranda. Í samræmi við málatilbúnað kærðu um þetta efni er að finna kreditreikning lögmannsstofu kærðu nr. 1222, dags. 17. júlí 2019, vegna fyrrgreinds reiknings nr. 1218. Er sérstaklega tiltekið á kreditreikningnum að um sé að ræða leiðréttingu á reikningi nr. 1218.

Samkvæmt þessu liggur fyrir að kærða hefur bakfært þann reikning sem ágreiningur var um. Ekki er unnt að skilja þá ráðstöfun kærðu og málatilbúnað hennar að öðru leyti um þetta efni fyrir nefndinni með öðrum hætti en að hún telji sig ekki eiga rétt til þess endurgjalds úr hendi dánarbús D sem reikningur nr. 1218 tók til. Þar sem reikningnum er ekki lengur til að dreifa verður ekki talið að mati nefndarinar að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr þeirri kröfu sinni fyrir nefndinni að reikningurinn sæti lækkun. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa máli þessu í heild sinni frá nefndinni.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Helgi Birgisson, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Anna Lilja Hallgrímsdóttir