Mál 7 2021

Mál 7/2021

Ár 2021, fimmtudaginn 7. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 14. apríl 2021 erindi kæranda, A, þar sem annars vegar er lýst ágreiningi við kærða, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum kærða í störfum gegn lögum og siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998. 

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 16. apríl 2021 og barst hún þann 29. sama mánaðar. Kæranda var send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi dags. 29. apríl 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar dagana 14. maí og 13. júní 2021 en viðbótarathugasemdir kærða þann 4. og 14. hinn síðargreinda mánuð. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi leitað til kærða í septembermánuði 2019 með beiðni um lögmannsaðstoð vegna máls sem húsfélagið að C 11 hafði höfðað gegn honum og þingfest hafði verið þann x. júní sama ár í Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. málið nr. E-xxxx/201x. Fyrir liggur að kærandi hafði áður leitað til þriggja aðila um lögfræðilega ráðgjöf vegna málarekstursins og greitt kostnað vegna þeirra starfa að fjárhæð 375.324 krónur. Kærði hefur þó vísað til þess í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að vinna fyrri ráðgjafa hafi ekki komið að notum enda hafi þar verið um munnlega ráðgjöf að ræða við kæranda.

Gögn málsins bera með sér að aðilar hafi átt með sér fund þann 19. september 2019 þar sem kærði tók að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna fyrrgreinds dómsmáls. Mun kærandi hafa látið kærða þá í té gögn vegna málsins, sem jafnframt eru á meðal málsgagna fyrir nefndinni, en þau eru umtalsverð að umfangi þótt ekki þyki sérstök ástæða til að reifa efni þeirra vegna sakarefnis málsins. Ágreiningur er hins vegar um hvað hafi verið rætt um þóknun vegna starfa kærða í þágu kæranda á fundinum. Hefur kærandi þannig vísað til þess að kærði hafi tekið að sér hagsmunagæsluna gegn greiðslu að fjárhæð 180.000 krónur auk virðisaukaskatts, þ.e. vegna reksturs alls dómsmálsins. Kærði hefur hins vegar mótmælt þeim málatilbúnaði kæranda sem fráleitum.

Fyrir liggur að kærði lagði fram greinargerð fyrir hönd kæranda í fyrrgreindu héraðsdómsmáli á dómþingi þann x. september 201x. Var þess þar aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi en til vara var krafist sýknu eða lækkunar á dómkröfum stefnanda. Er á meðal málsgagna að finna tölvubréfasamskipti aðila í tengslum við vinnu við tilgreinda greinargerð og gagnaöflun þar að lútandi. Þakkaði kærandi kærða sérstaklega fyrir greinargerðina í tölvubréfi, dags. 2. október 2019, meðal annars með orðunum „vel að sér vikið.

Af málsgögnum verður ráðið að D hf. hafi í júlímánuði 2019 hafnað kröfu kæranda um að kostnaður vegna málarekstursins yrði bættur úr málskostnaðartryggingu. Framsendi kærandi samskipti um það efni til kærða þann 25. október 2019. Í framhaldi af því mun kærði hafa kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar í E. Með úrskurði nefndarinnar í desembermánuði 2019 var fallist á kröfu kæranda á grundvelli tryggingarinnar og var kærandi upplýstur um það efni í tölvubréfi kærða, dags. 12. desember 2019. Í svörum kæranda þann sama dag til kærða var meðal annars eftirfarandi tiltekið:

Varðandi greiðsluna, kemur þá ekki greiðslan til þín frá D eins og við töluðum um þegar D greiðir úr málskostnaðartryggingunni?

Munnlegur málflutningur fór fram um frávísunarkröfu kæranda í máli nr. E-xxx/20xx í Héraðsdómi Reykjavíkur þann x. nóvember 20xx. Mun dómari málsins hafa kveðið upp munnlegan úrskurð á staðnum þar sem frávísunarkröfunni var hafnað. Upplýsti kærði um það efni í tölvubréfi til kæranda þann sama dag, jafnframt því sem tekið var fram að næsta fyrirtaka í málinu færi fram x. desember 20xx. Áttu aðilar í frekari tölvubréfasamskiptum um þetta efni, næstu fyrirtöku og hugsanlega gagnaframlagningu í kjölfar þessa.

Fyrir liggur að sáttaumleitanir fóru fram vegna héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/20xx í janúarmánuði 2020, en þær reyndust árangurslausar. Í sama mánuði, þ.e. þann 31. janúar 2020, sendi kærði tölvubréf til kæranda vegna reikninga sem þá höfðu verið gefnir út vegna málsins en þar var meðal annars eftirfarandi tiltekið:

Í sambandi við reikningagerðina vil ég ítreka að reikningana í málinu, fyrir utan þennan fyrsta þarft þú ekki að stökkva til og greiða. Við munum bara krefja D um þá fyrst nú er komin málskostnaðartrygging. Þú munt ekki þurfa að greiða neina vexti af þeim, ég sé til þess. Þegar málinu lýkur förum við með alla reikninga í D, líka þennan fyrsta sem ég vil fá greiddan núna. – Oft er það þannig að afsláttur er gefinn hjá lögmanni, þannig að 20% sjálfsábyrgðin lendir á lögmanninum, en ekki vátryggingataka, t.d. þér.

Á meðal málsgagna er að finna tölvubréfasamskipti sem aðilar áttu með sér í febrúarmánuði 2020 vegna fyrirtöku í málinu, stöðu þess, mögulegrar gagnaframlagningar og annarra atriða. Ekki þykir sérstök þörf á að rekja þau samskipti vegna úrlausnar máls þessa.

Aðalmeðferð málsins nr. E-xxx/20xx var fyrirhuguð í Héraðsdómi Reykjavíkur þann x. maí 20xx. Skömmu fyrir aðalmeðferð tókst sátt með aðilum þess sem fól í sér að málið var fellt niður og hvor aðili um sig bar sinn kosnað af rekstri þess.

Samkvæmt gögnum málsins munu þrír reikningar hafa verið gefnir út af lögmannsstofu kærða vegna ofangreindra lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda. Kærði kveðst hafa sent alla reikninga í pósti til kæranda en kærandi hefur vísað til þess að hann hafi ekki móttekið þann reikning sem síðast var gefinn út af hálfu lögmannsstofu kærða.

Í fyrsta lagi var gefinn út reikningur þann 3. september 2019 að fjárhæð 186.000 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt reikningnum tók hann til vinnu kærða í alls 5 klukkustundir á tímagjaldinu 30.000 krónur auk virðisaukaskatts. Fyrir liggur að reikningurinn var ekki greiddur fyrir eindaga hans en við greiðslu hans var krafa samkvæmt honum að fjárhæð 191.121 krónur með virðisaukaskatti.

Í öðru lagi gaf lögmannsstofa kærða út reikning þann 31. desember 2019 vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda. Tók hann til alls 12 klukkustunda vinnu kærða á tímabilinu frá 9. október til 16. desember 2019 á tímagjaldinu 28.900 krónur auk virðisaukaskatts. Þá tók reikningurinn til útlagðs kostnaðar að fjárhæð 14.100 krónur. Samkvæmt því nam fjárhæð reikningsins 445.308 krónum með virðisaukaskatti. Mun tilgreindur reikningur enn hafa verið ógreiddur við málslok og þegar til greiðslu úr málskostnaðartryggingu kom.

Í þriðja og síðasta lagi gaf lögmannsstofa kærða út reikning á kæranda þann 20. maí 2020. Var tiltekið að reikningurinn væri samkvæmt vinnuskýrslu sem tók til alls 20 klukkustunda vinnu kærða á tímagjaldinu 28.900 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því var reikningurinn að fjárhæð 713.000 krónur með virðisaukaskatti. Mun tilgreindur reikningur hafa verið ógreiddur við málslok og þegar til greiðslu úr málskostnaðartryggingu kom.

Fyrir liggur að kærandi sendi tölvubréf til kærða þann 25. maí 2020 þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvenær vænta mætti greiðslu úr málskostnaðartryggingunni.

Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna tjónskvittun sem D hf. sendi til lögmannsstofu kærða þann 28. maí 2020. Kemur þar fram að lögmannsstofa kærða hafi fengið greiðslu frá tryggingafélaginu vegna tjóns úr nánar tilgreindri tryggingu kæranda að fjárhæð 1.359.866 krónur.

Degi síðar, þ.e. þann 29. maí 2020, svaraði kærði erindi kæranda frá 25. sama mánaðar en þar var meðal annars eftirfarandi tiltekið um uppgjör vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda og greiðslu úr málskostnaðartryggingu:

Uppgjörið frá D kom í gær. Það stendur sem ég sagði þér að við tökum bara 80% af þeirri fjárhæð en sjálfsábyrgð í svona tryggingum er alltaf 20% hjá einstaklingum. – Fjárhæðin sem kom frá D dugir ekki alveg fyrir öllum kostnaði, þú leitar til þriggja fjögurra mismunandi aðila sem allir gera það sama, hefðirðu t.d. komið beint til mín hefði kostnaður við málið verið 3-400.000 kr. lægri. – En uppgjörið er þá svona:

Frá D kemur 1.359.866 kr. – 80% af því til okkar, 1.087.893 kr. – Þar af endurgreiðum við þér 191.121 kr. (reikningur sem var greiddur skv. samkomulagi).

Til viðbótar færðu endurgreitt vegna vinnu annarra lögmanna 271.973 kr. Það er í raun umfram skyldu okkar að sjá til að þú fáir endurgreiddan kostnað annarra lögmanna, en ég var búinn að lofa þér að við tækjum bara 80% af því sem kæmi frá tryggingafélaginu. Ekki endilega að við tækjum á okkur kostnað annarra lögmanna líka. Þú verður dálítið sjálfur að bera ábyrgð á því að hafa leitað til fjögurra aðila með málið, aðeins einn kláraði það. – Þannig að í dag færðu greiddar 463.094 kr. upp í það sem þú hefur greitt vegna málsins. Útistandandi reikningar frá okkur teljast greiddir að fullu og munu detta úr heimabanka ef þeir eru þar.

Ekki verður séð að aðilar hafi átt í frekari samskiptum vegna málsins, en eins og áður greinir var kvörtun í máli þessu móttekin þann 14. apríl 2021.

II.

Af kvörtun verður helst ráðið að hún taki annars vegar til ágreinings á milli kærða og kæranda um endurgjald eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar verður að mati nefndarinnar að leggja þann skilning í kvörtun kæranda að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun er vísað til þess að henni sé beint að ófullnægjandi háttsemi og uppgjöri kærða gagnvart kæranda.

Í upphaflegu erindi kæranda til nefndarinnar er vísað til þess að kærði hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir hans hönd vegna héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/20xx. Hafi sakarefni málsins varðað ætlaðan fjárdrátt kæranda í störfum sem formaður og gjaldkeri nánar tilgreinds húsfélags. Kveðst kærandi í upphafi hafa fengið aðstoð frá öðrum löglærðum aðilum sem ekki hafi gengið eftir. Í kjölfar þess hafi kærði komið að málinu. Dómsmálið hafi hins vegar verið fellt niður á síðari stigum og málinu þar með lokið.

Kærandi kveðst ósáttur við nokkur atriði. Þannig hafi í fyrsta lagi ekkert formlegt eða skriflegt umboð verið gert við kærða. Í öðru lagi vísar kærandi til þess að munnlegt samkomulag hafi verið gert um að kærði fengi 180.000 krónur auk virðisaukaskatts fyrir alla vinnu við málið. Í þriðja lagi bendir kærandi á að samkvæmt yfirliti frá D hf. hafi kærði fengið 1.359.866 krónur úr tryggingu eftir að 20% sjálfsáhætta hafi verið dregin frá. Kærandi hafi hins vegar ekki kvittanir nema fyrir 1.006.632 krónum frá þeim aðilum sem unnið hafi að málinu, en þar af séu reikningar frá kærða að fjárhæð 631.308 krónur. Sé þar um að ræða óútskýrðan mismun að fjárhæð 493.368 krónur. Kærandi vísar til þess að í uppgjöri hafi kærði greitt honum 463.094 krónur en þá skilji á milli aðila alls 728.558 krónur, þ.e. 1.359.855 krónur að frádregnum 631.308 krónum. Sé þar um að ræða mismun sem kærði hafi tekið án reikningsgerðar. Byggir kærandi á að þarna sé um að ræða fjármuni sem kærandi hafi áður greitt til annarra lögmanna fyrir aðkomu kærða að málinu, þ.e. alls 375.324 krónur.

Kærandi kveðst hafa haft samband við tilgreint tryggingafélag sem hafi upplýst að allur kostnaður félli undir þær bætur sem greiddar væru út samkvæmt tryggingu en ekki einungis kostnaður kærða. Sé fyrirkomulag tryggingafélagsins með þeim hætti að það borgi allt að 1.500.000 krónur úr málskostnaðartryggingu en tekið sé frá vegna sjálfsáhættu sem nemi 20%. Samkvæmt því séu 1.359.866 krónur greiddar úr tryggingunni.

Kærandi bendir á að frá þeim degi sem kærði hafi móttekið greiðslu úr tryggingunni hafi liðið fjórir dagar þar til kærandi hefði fengið sinn hluta greiddan. Gerir kærandi einnig athugasemdir við að hann hafi fyrst fengið upplýsingar um þetta efni frá tryggingafélaginu en ekki kærða. Hafi það verið ámælisvert og í andstöðu við siðareglur lögmanna.

Byggir kærandi jafnframt á að framkoma kærða hafi ekki verið eins og venja sé til. Kveðst kærandi því óska eftir leiðréttingu sinna mála gagnvart kærða. Krefst kærandi þess að kærði fari framvegis eftir siðareglum lögmanna og að hann fái þá fjármuni til baka sem hann hafi lagt út til aðila sem staðið hafi að málinu áður en kærði tók við því.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að reikningar frá fyrri lögmönnum og lögfræðingum, þ.e. F, G lögmönnum og H, hafi verið framvísaðir til tryggingafélagsins svo og reikningar frá kærða. Lýsir kærandi því að hann telji að hann eigi þá fjármuni sem tryggingafélagið hafi greitt vegna fyrri vinnu og áður en aðkoma kærða hófst. Kveðst kærandi hins vegar ekki hafa séð alla þá reikninga sem kærði hafi fengið greidda þó að mælt sé fyrir um slíkt í siðareglum lögmanna.

Kærandi kveðst lýsa furðu á skrifum kærða þar sem ýjað sé að því að kærandi hafi farið með ófrjálsri hendi um sjóði viðkomandi húsfélags. Sé sá málatilbúnaður ótækur enda hafi verið tekið til varna fyrir dómi í máli sem hafi að endingu verið fellt niður. Hafi enda komið fram í málsgögnum að samþykki hafi legið til grundvallar úttektunum. Bendir kærandi einnig á að það hafi verið hans hugmynd að fá yfirlýsingar fyrrum húseiganda um það efni en ekki kærða. Telur kærandi að hlutleysis sé ekki gætt í málatilbúnaði kærða.

Varðandi afhent gögn til kærða bendir kærandi á að þar hafi einungis verið um örfá skjöl að ræða úr bókhaldi húsfélagsins. Líklega hafi blaðsíðurnar verið um 350 talsins en að megninu til hafi verið um kvittanir að ræða sem fljótlegt hafi verið að líta yfir. Samkvæmt því hafi vinna kærða í raun verið töluvert minni en hann láti uppi.

Kærandi ítrekar að hann óski eftir uppgjöri kærða enda komi fram í siðareglum lögmanna að lögmanni beri að sýna skjólstæðingum sínum uppgjör. Vegna málatilbúnaðar kærða vísar kærandi einnig til þess að það sé engin hætta á að hann hagnist í málinu enda hafi hann greitt hundruð þúsundir til fyrri lögmanna og lögfræðinga áður en kærði komi að málinu. Óskar kærandi eftir að hann fái þær bætur sem tryggingafélagið hafi greitt út og að kærði standi við sín orð, þar á meðal það munnlega samkomulag sem gert hafi verið um fjárhæð þóknunar.

Í síðustu athugasemdum kæranda er bent á að kærði hafi lagt fram nýjan reikning sem ekki hafi komið fram áður. Hljóði sá reikningur uppá því næst sömu krónutölu og reikningar fyrri aðila hafi tekið til. Kveðst kærandi gera verulegar athugasemdir við það og að reikningnum hafi ekki verið framvísað fyrr. Bendir kærandi einnig á þann mikla mun sem sé á þóknun lögmanna. Þannig sé kærði að fá rúmlega 1.300.000 króna á meðan lögmaður viðkomandi húsfélags hafi fengið rúmlega 620.000 krónur.

III.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað og að staðfest verði að kærði hafi ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Krefst kærði jafnframt staðfestingar á því að áskilin þóknun hans vegna starfa í þágu kæranda hafi falið í sér hæfilegt endurgjald og kærði eigi rétt á því.

Kærði vísar til þess að kærandi hafi leitað til sín í septembermánuði 2019 vegna máls sem húsfélag hafði höfðað gegn honum. Hafi stefna í málinu verið þingfest þann x. júní 20xx en þar hafi kærandi verið krafinn um greiðslu á rúmlega 2.700.000 krónum auk dráttarvaxta nokkur ár aftur í tímann, auk málskostnaðar. Þar sem langt hafi verið liðið frá þingfestingu og þar til kærði kom að málinu hafi dómstóllinn verið óviljugur að gefa kæranda frekari fresti til að skila greinargerð.

Vísað er til þess að kærandi hafi leitað til þriggja löglærðra einstaklinga um ráðgjöf í málinu áður en leitað var til kærða. Hafi hver og einn þessara aðila veitt kæranda ráðgjöf og krafið hann um endurgjald fyrir, samtals að fjárhæð 375.324 krónur samkvæmt fyrirliggjandi reikningum. Kærði bendir hins vegar á að hann hafi ekki getað nýtt þá vinnu enda hafi í öllum tilvikum verið um munnlega ráðgjöf að ræða til kæranda og skoðun aðila á gögnum. Vegna þessa hafi kostnaður kæranda verið meira en ef hann hefði leitað strax til lögmanns sem farið hefði með málið frá upphafi.

Kærði lýsir því að hann hafi átt fund með kæranda í september 2019 um málið. Hafi kærði þar lýst því að vegna annmarka á málatilbúnaði húsfélagsins væru ágætar líkur á að málinu yrði vísað frá dómi. Á þeim fundi hafi kærði einnig farið yfir kostnað og þóknun vegna málsins. Með hliðsjón af málatilbúnaði kæranda sé ljóst að hann hafi misskilið það efni enda sé fráleitt að kærði hafi samþykkt að reka heilt dómsmál fyrir kæranda fyrir 180.000 krónur. Sé það ekki síst fráleitt í því ljós að kærandi hafi afhent kærða umfangsmikil gögn sem tekið hafi tíma að fara í gegnum.

Kærði vísar til þess að hann hafi gert kæranda grein fyrir því, að þar sem frestur til að leggja fram frávísunargerð eingöngu væri liðinn yrði að skila efnisvörnum í málinu. Ef málinu yrði vísað frá yrði úrskurðaður málskostnaður en óvíst væri hvort að hann dygði að öllu leyti fyrir kostnaði við varnir í málinu. Samkomulag hafi hins vegar orðið um að reikningur fram til þess að úrskurðað yrði í málinu um frávísun yrði ekki hærri en 150.000 krónur auk virðisaukaskatts, eða samtals 186.000 krónur, þó að vinna við að skila greinargerð yrði hluti af vinnunni. Kveðst kærði hafa lofað að bíða með frekari reikningagerð þar til ljóst yrði hvort málinu yrði vísað frá dómi. Um ástæður þess vísar kærði til þess að kærandi hafi borið sig mjög illa fjárhagslega og því hafi kærði viljað koma til móts við hann og gera málið upp ef til frávísunar kæmi en yrði ekki fallist á frávísun kæmi til frekari reikningagerðar.

Kærði kveðst hafa skilað greinargerð til héraðsdóms þar sem krafist hafi verið frávísunar en sýknu til vara eða lækkunar á kröfum stefnanda. Er vísað til þess að samhliða því hafi verið gefinn út reikningur að fjárhæð 150.000 krónur auk virðisaukaskatts en útgáfu reikninga fyrir öðrum lögmannskostnaði sem þá var fallinn hafi verið frestað á kostnað kærða. Bendir kærði á að kærandi hafi hins vegar ekki greitt reikninginn á gjalddaga og hafi hann því farið að safna dráttarvöxtum. Hafi það átt að gefa kærða tilefni til að segja sig frá málinu, en í stað þess hafi kærði gengið mun lengra í aðstoð við kæranda en hann hafi mátt búast við.

Kærði vísar til þess að áður en kærandi leitaði til hans hafi hann fengið synjun á bótaskyldu úr heimilistryggingu sem hann hefði verið með hjá D hf. Í kjölfar skoðunar kærða á þeim atvikum hefði hann talið rétt að láta reyna á málið fyrir úrskurðarnefnd í E og upplýst kæranda um það. Hafi kærði tjáð kæranda að vinna við það yrði færð í tímaskýrslu en reikningaútgáfu vegna hennar frestað. Þá myndi kærði leggja út útlagðan kostnað fyrir nefndinni, þ.e. svonefnt málskotsgjald. Bendir kærði á að kærandi hafi samþykkt þetta með orðinu „endilega.“

Vísað er til þess að kærði hafi lagt fram mikla og vandaða kæru hjá úrskurðarnefnd í E og lagt út málskotsgjald. Hafi niðurstaða nefndarinnar orðið að kærandi ætti rétt á bótum úr tryggingunni. Er á það bent að við þessa niðurstöðu hafi kærandi getað verið viss um að lögmannskostnaður hans myndi greiðast af stærstum hluta, en í viðkomandi tryggingu hafi sjálfsáhætta vátryggðs verið 20%. Ef dómsmálið tapaðist hins vegar gæti fallið á kæranda kostnaður sem hann þyrfti að greiða gagnaðila.

Kærði vísar til þess að málið hafi verið flutt um frávísunarkröfu kæranda í nóvember 20xx. Þrátt fyrir augljós rök um að vísa ætti málinu frá dómi hafi dómari kveðið upp munnlegan úrskurð á staðnum um að ekki skyldi vísa málinu frá dómi. Hafi rökin verið þau að þrátt fyrir augljósa vankanta á málatilbúnaði stefnanda þætti rétt að gefa aðilanum kost á að skýra málið og leggja fram þau gögn sem hann teldi þurfa. Bendir kærði á að kærandi hafi verið mjög ósáttur við niðurstöðuna og haldið því beinlínis fram að kærði hefði lofað því að málinu yrði vísað frá dómi, en það hafi verið rangt.

Kærði vísar til þess að í kjölfar þessa hafi farið fram nokkrar fyrirtökur og umfangsmikil gagnaframlagning á báða bóga. Stefnandi hafi hins vegar fallið frá stórum hluta kröfugerðar sinnar undir rekstri málsins, vegna sönnunarskorts.

Kærði ítrekar að kærandi hafi afhent honum mikið magn gagna, bæði í skjölum og rafænt. Hafi það verið skylda kærða að fara í gegnum öll slík gögn, sem telji líklega um þúsund blaðsíður. Í málið hafi því farið mikil vinna. Eftir að ljóst hafi verið að málið myndi halda áfram fyrir dómi hafi kærði gefið út reikning í málinu í lok desember 2019 að fjárhæð 455.448 krónur. Vísar kærði til þess að kærandi hafi tekið því mjög illa og meðal annars vísað til sjónarmiða um að kærði hafi tekið að sér málið fyrir 150.000 krónur auk virðisaukaskatts. Því hafi kærði hins vegar hafnað.

Vísað er til þess að aðilar hafi átt fund um málið eftir þetta. Til að koma til móts við kæranda hafi kærði boðið honum að taka á sig 20% sjálfsáhættuna, þ.e.a.s. veita afslátt umfram 80% af kostnaði kærða við lok málsins. Með því hafi kærði vonað að kærandi myndi láta af ólátum sínum, enda þá engin ástæða til að deila um þóknun ef fyrir lægi að kærandi þyrfti ekkert að greiða kærða á endanum. Kærandi hafi hins vegar ekki lagt skilning í það og kærði því óskað eftir að hann myndi leita til annars lögmanns.

Kærði bendir á að kærandi hafi spurt í tölvubréfi í janúar 2020 hvort að hann gæti fengið gögn málsins afhent gegn því að greiða reikninginn að fjárhæð 186.000 krónur með dráttarvöxtum. Kærandi hafi hins vegar fallið frá áformum um að skipta um lögmann og óskaði eftir áframhaldandi þjónustu kærða. Vísar kærði til þess að við sama tímamark hafi kærandi lofað að greiða fyrsta reikninginn sem gefinn hafði verið út. Kveðst kærði hafa samþykkt það sem og að kærandi mætti bíða með að greiða útgefinn reikning frá desember 2019 án þess að dráttarvextir bættust við kröfuna.

Kærði vísar til þess að skömmu fyrir aðalmeðferð málsins hafi húsfélagið tekið ákvörðun um að falla frá málsókninni. Hafi það verið gert og því komið að þeim tímapunkti að gera þyrfti upp kostnað í málinu. Er því lýst að gefinn hafi verið út reikningur að fjárhæð 713.000 krónur sem sendur hafi verið vátryggingafélaginu ásamt öðrum útgefnum reikningum en þeir hafi jafnframt verið sendir kæranda. Jafnframt því hafi kærði sent tölvubréf til kæranda þann 29. maí 2020 þar sem fram hafi komið að vátryggingafélagið hefði sent uppgjör og að til útgreiðslu yrði 1.359.866 krónur. Fjárhæðin myndi ekki duga alveg fyrir öllum kostnaði sem kærandi hefði stofnað til þar sem hann hefði leitað með sama ágreininginn til nokkurra aðila. Upplýsti kærði að fjárhæðin sem rynni upp í kostnað hans af málinu væri 1.087.983 krónur með virðisaukaskatti en inni í þeirri fjárhæð væri reikningurinn sem hann hefði greitt, alls 191.121 krónur með virðisaukaskatti og dráttarvöxtum. Restin, 271.937 krónur, rynnu til kæranda sem hann gæti fengið upp í kostnað annarra ráðgjafa. Alls fengi kærandi því greiddar 463.094 krónur af vátryggingabótunum og teldist skuldlaus við kærða.

Kærði bendir á að kærandi hafi í engu svarað þessu. Fjárhæðin hafi borist í kjölfarið og kærði ráðstafað henni upp í reikning þann sem gefinn hafi verið út í desember 2019, án dráttarvaxta, og reikning þann sem gefinn hafi verið út við lok málsins. Þá hafi kærði millifært 463.094 krónur til kæranda. Samkvæmt því hafi kærandi engan kostnað borið af störfum kærða í málinu, ekki einu sinni vegna dráttarvaxta.

Vísað er til þess að nokkrum dögum síðar hafi kærandi sótt frumgögn málsins til kærða. Hafi kærði ekki haft frekari samskipti við kæranda. Hins vegar hafi kærða borist tölvubréf frá D hf. í mars 2021 þar sem óskað hafi verið eftir afriti umboðs í málinu. Hafi þá komið á daginn að ekki hefði verið gengið frá skriflegu umboði. Bendir kærði á að enginn ágreiningur sé um að kærandi hafi falið honum að fara með viðkomandi mál og að greiða þyrfti þóknun vegna þess. Jafnframt því sé ljóst að ef tryggingafélagið hefði greitt kæranda til viðbótar við það sem greitt hafði verið beint til kærða hefði kærandi hagnast vel á málarekstrinum. Ef kærði hefði endurgreitt tryggingafélaginu fjárhæðina hefði kærandi jafnframt staðið í skuld við kærða vegna málsins og hún þá verið innheimt. Samkvæmt því hafi engu máli skipt hver móttók bæturnar, þ.e. kærði eða kærandi sjálfur.

Kærði bendir á að það sé rangt sem kærandi haldi fram að hann hafi ekki fengið skýringar á greiðslu úr tryggingunni. Þær skýringar hafi bæði kærði og tryggingafélagið veitt. Sömuleiðis sé það rangt að kærandi hafi fyrst frétt af greiðslu tryggingafélagsins frá því, enda hafi kærði sent tvö tölvubréf um það efni til kæranda í lok maí 2020.

Kærði bendir á að fyrsti aðilinn sem kærandi leitaði til hafi verið lögfræðingur, sem ekki hafi verið með virk málflutningsréttindi. Jafnframt því hafi kærandi leitað til F. Samkvæmt skilmálum viðkomandi réttaraðstoðartryggingar bætir hún einungis kostnað af störfum lögmanns. Féll kostnaður vegna tilgreindra ráðgjafa því ekki undir trygginguna og vísar kærði til þess að kærandi hafi ekki getað vænst slíks. Fyrir orðastað kærða við starfsmann tryggingafélagsins, meðal annars þar sem kærandi þurfti að leita til úrskurðarnefndarinnar, hafi hins vegar verið talið sanngjarnt að leggja þá reikninga til grundvallar í tilviki kæranda þótt slíkt væri alla jafna ekki gert.

Kærði vísar til þess að fram komi á útgefnum reikningum og tímaskýrslum að málið hafi verið unnið á tímagjaldinu 28.900 krónur auk virðisaukaskatts. Er á það bent að þóknun sem greidd hafi verið kærða án virðisaukaskatts í málinu fyrir að fara yfir gögn málsins, leggja fram greinargerð, flytja málið um frávísun, reka mál fyrir úrskurðarnefnd í E, undirbúa að fullu aðalmeðferð í málinu og gerð dómsáttar hafi numið 877.353 krónum. Miðað við tilgreint tímagjald séu það 30 unnar stundir, sem telja verði afar hóflegt og líklega helmingi minna en eðlilegt geti talist. Byggir kærði einnig á að tímagjaldið sé hóflegt.

Áréttar kærði að þegar dómsátt milli aðilanna var ákveðin og gerð í maí 2020 hafi undirbúningi fyrir aðalmeðferð málsins verið lokið. Eina vinnan sem eftir stóð í málinu hafi verið munnlegur málflutningur fyrir dómi, á að giska 5-6 klukkustundir.

Í samræmi við framangreint byggir kærði á að engin efni standi til annars en að hafna kröfum kæranda að því marki sem þær lúta að ágreiningi um endurgjald eða fjárhæð þess. Þannig hafi kærandi setið uppi með lítið brot af kostnaðinum sem hafi eingöngu verið fólginn í því að hann leitaði til nokkurra aðila með málið áður og hafði af því verulegan kostnað. Það sem eftir sat af kostnaði í málinu sé svipuð fjárhæð og sjálfsáhætta kæranda hefði orðið af þeim kostnaði einum.

Í viðbótarathugasemdum kærða er vísað til þess að það sé rangt að kærandi hafi ekki séð alla reikninga sem tryggingafélagið greiddi vegna málskostnaðartryggingar. Vísar kærði um það efni til tölvubréfs tryggingafélagsins frá júní 2020 þar sem allir reikningar hafi legið fyrir. Jafnframt því hafi kærandi sjálfur látið kærða í té reikninga frá öðrum ráðgjöfum auk þess sem reikningar vegna lögmannsstarfa kærða hafi verið sendir til kæranda í pósti.

Kærði ítrekar að það hafi verið útskýrt rækilega hvers vegna kærandi fékk greiddar 463.094 krónur frá kærða í samræmi við uppgjör. Liggi vandamálið í því að kærandi skilji ekki uppgjörið. Þá sé það rangt að kærandi hafi ekki fengið uppgjör sent frá kærða, sbr. tölvubréf frá 29. maí 2020.

Kærði kveður það einnig rangt að þóknun til hans vegna málsins hafi numið 1.300.000 króna. Hið rétta sé að þóknun hafi verið að fjárhæð 1.087.893 krónur með virðisaukaskatti. Vegna málatilbúnaðar kæranda bendir kærði á að í fundargerð húsfélagsins, þar sem samþykkt hafi verið að fella málið niður, hafi komið fram að kostnaður lögmanns stefnanda hafi numið um 900.000 krónum en að gefinn hafi verið afsláttur af þeirri fjárhæð. Ljóst sé að vinna kærða við málið hafi verið töluvert meiri en vinna við stefnu málsins. Skipti það þó engu máli enda sé skilningur kæranda rangur um að kostnaður beggja aðila að dómsmáli þurfi að vera sá sami.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Kærandi hefur borið því við fyrir nefndinni að hann sé ósáttur við nokkur atriði er varðað hafi lögmannsstörf kærða í hans þágu. Hefur kærandi um það efni vísað til þess að ekkert formlegt eða skriflegt umboð hafi verið gert vegna starfa kærða, að uppgjör við lok málsins hafi verið ófullnægjandi, að hann hafi fyrst fengið upplýsingar um það efni frá D hf. jafnframt því sem fjórir dagar hafi liðið þar til kærandi hefði fengið sinn hluta greiddan úr tryggingunni frá kærða.

Að mati nefndarinnar eru ekki efni til að telja að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna vegna þeirra kvörtunarefna sem hér um ræðir.

Er þá í fyrsta lagi að líta til þess að ágreiningslaust er á milli aðila að kærði tók að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna reksturs málsins nr. E-xxxx/20xx sem og vegna kæru og málsmeðferðar fyrir úrskurðarnefnd í E vegna ágreinings um rétt til greiðslu úr málskostnaðartryggingu sem kærandi hafði hjá D hf. Samkvæmt því og með hliðsjón af umfangi skriflegra samskipta aðila undir rekstri málanna er ótvírætt að mati nefndarinnar að samningssamband komst á milli aðila um hagsmunagæslu kærða í þágu kæranda vegna fyrrgreindra mála og að það stóð frá septembermánuði 2019 og allt þar til uppgjör fór fram í kjölfar niðurfellingar málsins nr. E-xxxx/20xx í x 20xx. Samkvæmt því verður ekki talið að þýðingu hafi að þessu leyti þótt skriflegt umboð hafi ekki verið gert á milli aðila vegna samningssambandsins eða að í því hafi falist háttsemi af hálfu kærða sem brotið hafi í bága við lög eða siðraeglur lögmanna.

Í öðru lagi verður að líta til þess að úrskurðarnefnd í E féllst á kröfugerð kæranda í desembermánuði 2019, þ.e. á meðan mál nr. E-xxxx/20xx var til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, um að kostnaður hans vegna dómsmálsins skyldi bættur úr viðkomandi málskostnaðartryggingu hjá D hf. Fyrir liggur að í framhaldi af því óskaði kærandi eftir upplýsingum frá kærða um það hvort greiðslur myndu ekki berast til kærða frá tryggingafélaginu, sbr. tölvubréf kæranda frá 12. desember 2019 sem lýst er til í málsatvikalýsingu að framan. Að sama skapi var kæranda veittur greiðslufrestur af hálfu kærða vegna þess reiknings sem gefinn var út þann 31. desember 2019 vegna viðurkenningar á greiðsluskyldu úr tryggingunni, líkt og tölvubréf kærða til kæranda frá 31. janúar 2020 ber með sér. Þá liggur fyrir að kærði upplýsti kæranda ítarlega um það hvernig endanlegu uppgjöri væri háttað í tölvubréfi þann 29. maí 2020, en efni þess er orðrétt tekið upp í málsatvikalýsingu að framan. Samkvæmt framlögðum gögnum og málatilbúnaði aðila stóðst það uppgjör sem kærði kynnti kæranda, en í því fólst að kærandi bar í reynd engan kostnað vegna lögmannsstarfa kærða í hans þágu.

Í samræmi við framangreint er ekki unnt að leggja annað til grundvallar að áliti nefndarinnar en að uppgjör og skil kærða gagnvart kæranda hafi farið fram með greinargóðum hætti og í samræmi við áskilnað 14. gr. siðareglna lögmanna. Breytir þar engu um þótt ágreiningur sé á milli aðila um hvort kærandi hafi móttekið reikning sem lögmannsstofa kærða gaf út þann 20. maí 2020, sem kærði kveðst hafa sent til kæranda í pósti, en fyrir liggur að kærandi veitti þeim reikningi í síðasta lagi viðtöku þann 2. júní 2020 er honum barst tölvubréf ásamt viðhengi frá D hf.

Í þriðja lagi er þess að gæta að kærði móttók tjónskvittun frá D hf. þann 28. maí 2020 þar sem tilkynnt var um að greitt hefði verið úr viðkomandi málskostnaðartryggingu inn á reikning lögmannsstofu kærða. Strax degi síðar sendi kærði fyrrgreint uppgjör og skýringar að baki því í tölvubréfi til kæranda og veitti þar með svör við erindi kæranda frá 25. sama mánaðar. Að mati nefndarinnar voru þær greinargóðu skýringar um uppgjör og skil sem kærði sendi til kæranda þann 29. maí 2020 veittar án ástæðulauss dráttar og því í samræmi við áskilnað 41. gr. siðareglna lögmanna.

Í samræmi við allt framangreint verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærði hafi í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af málsgögnum að mati nefndarinnar en að kærði hafi í hvívetna rækt þau störf sem honum var trúað fyrir af alúð og að hann hafi neytt allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarðra hagsmuna kæranda í viðkomandi málarekstri, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Líkt og áður er rakið annaðist kærði hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna reksturs málsins nr. E-xxxx/20xx fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á tímabilinu frá september 2019 og þar til það var fellt niður í x 20xx. Hefur kærandi borið því við fyrir nefndinni að munnlegt samkomulag hafi verið gert um að kærði fengi 180.000 krónur auk virðisaukaskatts í þóknun fyrir alla vinnu við málið.

Engra gagna nýtur við fyrir nefndinni sem fært gætu stoð undir hið ætlaða samkomulag sem kærandi byggir á að aðilar hafi gert með sér um þóknun við upphaf samningssambands þeirra. Samkvæmt því og gegn neitun kærða um þetta efni hefur ekki verið leitt í ljós að mati nefndarinnar að slíkt samkomulag hafi komist á milli aðila.

Fyrir liggur að heildarþóknun sem kærði áskildi sér og fékk greidda vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda á tímabilinu frá september 2019 til maí 2020 var að fjárhæð 1.087.893 krónur með virðisaukaskatti. Jafnframt því verður ráðið af atvikum og málsgögnum að endurgjald kærða vegna lögmannsstarfanna var að endingu greitt að öllu leyti úr þeirri málskostnaðartryggingu sem kærandi naut hjá D hf. Tók áskilið endurgjald kærða til starfa hans vegna fyrrgreinds dómsmáls, þ.e. fyrir að fara yfir gögn, leggja fram greinargerð, flytja málið um frávísun og undirbúa það að fullu fyrir aðalmeðferð þess. Þá tók endurgjaldið jafnframt til starfa kærða í tengslum við reksturs máls í þágu kæranda fyrir úrskurðarnefnd í E sem lauk með úrskurði sem féll kæranda í vil í x 20xx.

Á meðal málsgagna er einnig að finna þá reikninga sem lögmannsstofa kærða gaf út vegna starfa í þágu kæranda á fyrrgreindu tímabili og tímaskýrslur að baki þeim. Að mati nefndarinnar var hvorki áskilið tímagjald né fjöldi þeirra vinnustunda sem þar voru tilgreindar úr hófi að teknu tilliti til umfangs viðkomandi mála. Samkvæmt því er það niðurstaða nefndarinnar að áskilið endurgjald kærða vegna starfa hans í þágu kæranda hafi verið hæfilegt, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin þóknun kærða, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu kæranda, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson