Mál 15 2005

Ár 2006, mánudaginn 18. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 15/2005:

 

P

gegn

J, hdl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 30. september 2005 frá P, kæranda, þar sem kvartað var yfir störfum J, hdl., kærða, við innheimtu á launakröfu kæranda á hendur fyrrverandi vinnuveitanda hans.

 Kærði sendi nefndinni greinargerð um erindi kæranda þann 24. nóvember 2005. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina og bárust athugasemdir frá honum 7. mars 2006, að fengnum viðbótarfresti. Kærði tjáði sig um athugasemdirnar í bréfi til nefndarinnar, dags. 10. apríl 2006.

 Málsatvik og málsástæður

  I.

Málsatvik eru þau í stuttu máli að á árunum 1995-1996 vann kærandi hjá fyrirtæki, en hætti störfum vorið 1996 vegna vangoldinna launa. Kærandi fól kærða að innheimta fyrir sig launakröfu sína og í því skyni var fyrirtækinu stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Dómur var kveðinn upp xx. mars 200X þar sem fyrirtækið var dæmt til að greiða kæranda 1.914.799 krónur ásamt dráttarvöxtum og 410.000 krónur í málskostnað.

 Kærði fylgdi dómsniðurstöðunni eftir með aðfararbeiðni þann 13. mars 2000, sem endaði með að gert var árangurslaust fjárnám hjá vinnuveitandanum þann X. júlí 200X. Hinni árangurslausu fjárnámsgerð var ekki fylgt eftir með gjaldþrotaskiptabeiðni. Dómi héraðsdóms var áfrýjað af hálfu dómþola til Hæstaréttar Íslands og tók kærði að sér að halda upp vörnum fyrir kæranda í því máli. Þingfesta átti málið xx. júlí 200X en það var fellt niður vegna útivistar af hálfu áfrýjanda.

 Dómþoli var úrskurðaður gjaldþrota þann xx. maí 200x. Kröfu kæranda var ekki lýst í búið og fékk kærandi það staðfest með bréfi skiptastjóra þann 30. september 200x. Skömmu áður hafði hann reynt að afla upplýsinga frá kærða um hvort kröfunni hefði verið lýst í búið en ekki fengið svör við þeirri fyrirspurn.

 Á síðari hluta árs 2004 og fram á árið 2005 freistaði kærandi þess að fá greiðslu úr ábyrgðarsjóði launa en málaleitan hans þar var hafnað í bréfi sjóðsins, dags. 19. júlí 2005. Kærandi taldi kærða hafa brugðist hlutverki sínu og skyldum með því að hafa ekki lýst launakröfunni í þrotabúið, og þannig valdið sér fjárhagslegu tjóni. Af þessu tilefni sendi hann úrskurðarnefnd lögmanna erindi það, sem hér er til umfjöllunar.

 II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna kveðst kærandi hafa falið kærða að innheimta launakröfu sína og það hafi leitt til dóms, uppkveðnum á árinu 200X, þar sem málið vannst. Í framhaldi þess hafi kærði hafið innheimtuaðgerðir á grundvelli dómsins, sem enduðu með árangurslausu fjárnámi hjá vinnuveitandanum. Á því stigi hafi kærði haft samband við sig og tjáð sér að til þess að fá launakröfuna greidda úr ábyrgðarsjóði launa yrði að taka fyrirtækið til gjaldþrotaskipta. Það myndi kosta kæranda 150.000 krónur. Á þeim tíma hefði fjárhagsstaða sín ekki verið það sterk að hann treysti sér í slíkar aðgerðir. Kærði hefði einnig tjáð sér að þann kostnað fengi hann að öllum líkindum ekki endurgreiddan. Að samkomulagi hefði orðið að þess yrði freistað að bíða eftir því að einhver annar krefðist gjaldþrotaskipta á fyrirtækinu vegna opinberra gjalda eða af öðrum ástæðum, en talið var líklegt að það gerðist fyrr en síðar.

 Kærandi kveður það ekki hafa farið milli mála að kærði tók að sér að fylgjast áfram með málinu og að hann hafi ætlað að gera viðeigandi ráðstafanir þegar þar að kæmi.

 Kærandi kveðst á þessum tíma hafa treyst kærða algerlega til að sjá um hagsmuni sína í málinu og kveðst því ekki hafa haft áhyggjur af því. Vorið 2004 hafi sig verið farið að lengja eftir að eitthvað gerðist í málinu og því hafi hann farið að grafast fyrir um stöðu þess. Kveðst kærandi hafa þá uppgötvað, sér til mikillar furðu, að fyrirtækið hefði þá þegar verið lýst gjaldþrota árið áður, án þess að hann hefði heyrt orð um það frá kærða eða fengið greitt úr ábyrgðarsjóði launa. Kveðst kærandi hafa þá reynt að ná sambandi við kærða til þess að spyrja hann um afdrif málsins. Engin skýr svör hefði hann fengið frá kærða.

 Kærandi telur að kærði hafi ekki sinnt vinnu sinni sem skyldi. Dómsmálið hafi hann rekið á sína ábyrgð (kæranda) en hafi svo gleymt að klára það. Telur kærandi kærða bera ábyrgð á þeirri handvömm sinni að hafa ekki lýst launakröfunni í þrotabú fyrirtækisins á sínum tíma. Kærandi krefst þess að viðurkennt verði að kærða beri að greiða skaðabætur sem nemi þeirri fjárhæð er hefði fengist greidd ef hann hefði lýst launakröfunni í þrotabú fyrirtækisins á réttum tíma. Þá fer kærandi fram á að kærða verði gert að greiða sér málskostnað að skaðlausu, að mati nefndarinnar. Loks fer kærandi fram á að viðurkennt verði að kærði hafi ekki sinnt starfi sínu líkt og ætlast hafi mátt til af honum sem lögmanni og að hann hafi þar með brotið gegn starfsskyldum sínum samkvæmt lögmannalögum og siðareglum lögmanna.

 III.

Í greinargerð sinni til nefndarinnar krefst kærði þess að hafnað verði með öllu kröfum kæranda og að sér verði dæmdur málskostnaður að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi kæranda, að mati nefndarinnar.

 Kærði kveðst hafa tekið að sér að innheimta launakröfu kæranda og því máli hafi lokið með dómi, uppkveðnum xx. mars 200X. Málið hafi unnist að fullu, þrátt fyrir fátækleg gögn frá kæranda. Um tímafreka vinnu hafi verið að ræða og því hafi sá málskostnaður, sem dæmdur var, ekki verið of í lagður, hvort sem litið var til vinnuframlags eða hagsmuna.

 Kærði kveðst hafa sent aðfararbeiðni til sýslumannsins í Reykjavík þann 13. mars 2000 en árangurslaust fjárnám hafi verið gert xx. júlí s.á. Kærði kveðst þá hafa gert kæranda grein fyrir úrslitum málsins og jafnframt, að hann gæti óskað eftir gjaldþrotaskiptum í búi vinnuveitandans. Kæranda hafi verið gerð grein fyrir kostnaði kærða af málinu, sem kæranda bæri að greiða.

 Kærði bendir á að kærandi hafi viðurkennt í greinargerð sinni að hafa ekki óskað eftir því að aðgerðum yrði haldið áfram og jafnframt að hann, kærandi, hafi hvorki getað lagt út fyrir skiptatryggingu né greitt upp í áfallinn kostnað til kærða. Kveðst kærði hafa óskað eftir að kærandi greiddi sér þegar úr rættist hjá honum en ella væri afskiptum sínum af málinu lokið. Ekki hafi því orðið af frekari aðgerðum og hefði málið verið lagt upp.

 Kærði kveður staðhæfingu kæranda, um að hann hafi sagt kæranda að líkindi væru á að skiptatrygging fengist ekki endurgreidd, vera ranga. Þá séu rangar staðhæfingar kæranda um að kærði hafi ætlað að fylgjast áfram með aðstæðum vinnuveitandans og aðgerðum á hendur honum, einnig vera rangar. Vinnuveitandinn hafi verið úrskurðaður gjaldþrota tæpum þremur árum síðar.

 Kærði kveðst hafa um svipað leyti og innheimtumálið var rekið fyrir dómi hafa sótt annað mál fyrir héraðsdómi fyrir kæranda, konu hans og börn, gegn VÍS hf. Dómur hafi verið kveðinn upp xx. apríl 200X þar sem tryggingafélagið var sýknað en málskostnaður felldur niður. Að ósk kæranda hafi dóminum verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Kærandi hafi greitt 50.000 krónur upp í útlagðan kostnað vegna þess máls. Kærði kveðst hafa lagt út fyrir öllum kostnaði vegna beggja dómsmálanna og því sé ljóst að þessi fjárhæð hafi ekki hrokkið fyrir slíkum kostnaði. Þann xx. febrúar 200X hafi tryggingafélagið verið sýknað í Hæstarétti, en málskostnaður felldur niður. Kveðst kærði hafa tilkynnt kæranda úrslitin og jafnframt að hann og fjölskylda hans yrðu að greiða sér málskostnað. Kveðst kærði hafa boðið kæranda verulegan afslátt ef hann greiddi inn á málið. Kveðst kærði síðan ekki hafa heyrt orð frá kæranda og hafi ekki átt orðastað við hann síðan. Því sé staðhæfing kæranda um hið gagnstæða alröng.

 Kærði kveður skuld kæranda við sig vera alls 1.050.248 krónur auk þóknunar fyrir afskipti af aðfarargerð og áfrýjun launamálsins til Hæstaréttar. Forn kynni við foreldra kæranda og bág fjárhagsstaða hans hafi orðið til þess að kærði hafi ekki gert reka að því að innheimta endurgjaldskröfu sína hjá honum.

 Kærði telur 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, eiga við í málinu. Hins vegar óski hann þess að nefndin taki málið til efnismeðferðar svo hann verði hreinsaður af áburði kæranda.

 Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni bendir kærði á að allmikla vinnu hafi þurft að inna af hendi við að leita að og safna gögnum, enda langt um liðið frá því atvik gerðust. Einnig sé kæran úr lausu lofti gripin, alvarlegar sakir séu bornar á sig með ósvífinni ósanngirni og að tilefnislausu og til þess beitt bersýnilegum ósannindum. Röngum staðhæfingum sé haldið fram fyrir nefndinni í því skyni að afla ólögmæts ávinnings úr hendi kærða.

 Kærði telur ljóst að hann hafi ekki valdið kæranda tjóni. Skaðabótakrafa kæranda eða aðrar kröfur eigi sér því ekki neina stoð.

 IV.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða kemur m.a. fram að aldrei hafi verið rætt um málskostnað og kveðst kærandi hafa haldið að kærði hefði fengið hann greiddan. Kærandi kveður það rétt vera hjá kærða, að fjárhagsstaða sín hafi ekki boðið upp á að leggja út í kostnað til að gera fyrirtækið gjaldþrota og að samkvæmt ráðleggingum kærða væri betra að bíða eftir því að annar aðili bæði um gjaldþrotaskipti. Kærandi kveður kærða einhliða hafa hætt að sinna sínum hagsmunum í málinu á ákveðnum tímapunkti vegna skulda sinna við kærða. Sú aðgerð af hans hálfu, að hætta afskiptum af málinu, hafi ekki verið sér kunn auk þess sem kærði hafi aldrei krafið sig um greiðslur vegna innheimtumálsins. Kærandi kveðst hafa staðið í þeirri trú að kærði hafi ætlað að fylgjast með fyrirtækinu og freista þess að ná tildæmdum fjármunum þegar það yrði gjaldþrota, með því að lýsa kröfu í búið og leita síðan í framhaldinu til ábyrgðarsjóðs launa. Kærandi kveðst taka það skýrt fram að kærði hafi aldrei tjáð sér að hann væri hættur afskiptum af málinu, eins og hann haldi fram í greinargerð sinni. Kærandi kveðst mótmæla málskostnaðarkröfu kærða í þessu kærumáli.

 Í síðari athugasemdum kærða ítrekar hann m.a. áður framkomnar staðhæfingar sínar um að kærandi hafi sjálfur óskað eftir því að málinu yrði ekki haldið áfram með gjaldþrotabeiðni, bæði vegna þess að hann hefði ekki greitt kostnað sem og vegna þess að hann gat ekki eða vildi ekki leggja fram skiptatryggingu. Kærði telur að af sjálfu leiði að lögmaður sé ekki af sjálfsdáðum skyldur til að halda áfram máli með gjaldþrotabeiðni, eftir að lýst hefur verið árangurslausu fjárnámi hjá gerðarþola. Síst af öllu þegar umbjóðandi lögmannsins óskar þess sjálfur að svo verði ekki gert. Kærði kveður vegið verulega að starfsheiðri sínum og að taka beri tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

 Niðurstaða

 I.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 4. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum Lögmannafélags Íslands, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsliður 1. mgr. 27. greinar.

 Samkvæmt gögnum málsins varð kærandi var við það á árinu 2004 að fyrrum vinnuveitandi hans hefði verið úrskurðaður gjaldþrota árið áður. Hann leitaði eftir upplýsingum um það hvort launakröfu sinni hefði verið lýst í þrotabúið, fyrst hjá kærða en að lokum hjá skiptastjóra búsins. Með tölvupósti skiptastjórans, dags. 30. september 2004, var staðfest að launakröfunni hefði ekki verið lýst í búið. Erindi kæranda er dagsett 30. september 2005 og er skráð móttekið sama dag hjá nefndinni. Með vísan til þessa telur nefndin að kvörtun kæranda hafi borist sér innan þess frests, sem kveðið er á um í 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga.

 II.

Samkvæmt 2. mg. 27. gr. lögmannalaga getur nefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin brugðist svo við sem um ræðir í 1. mgr. 14. gr. laganna, þ.e. í rökstuddu áliti lagt til við dómsmálaráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum ef sakir eru miklar.

 Krafa kæranda, um að viðurkennt verði að kærða beri að greiða sér skaðabætur er nemi þeirri fjárhæð sem fengist hefði greidd ef hann hefði lýst launakröfunni í þrotabú vinnuveitanda kæranda, fellur utan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ber því að vísa þessum þætti í erindi kæranda frá nefndinni.

 III.

Verklok í þeim verkefnum, sem lögmönnum er falið að annast, getur borið að með ýmsum hætti. Verklok geta þannig verið við uppkvaðningu dóms í máli sem lögmaður flutti af hálfu annars málsaðila, við uppgjör innheimtrar kröfu sem fengist hefur greidd að hluta eða öllu leyti, við undirritun samnings, við skiptalok í dánar- eða þrotabúi, o.s.frv. Reikningur er að jafnaði gefinn út við verklok, áskilji lögmaður sér á annað borð endurgjald fyrir tiltekið verkefni. Verkefni getur skipst í 2 eða fleiri áfanga og fer það eftir atvikum hvort lögmaður heldur sjálfkrafa áfram með mál eftir að einum áfanga þess er lokið. Að auki getur lögmaður á öllum stigum sagt sig frá verki sem honum hefur verið falið, sbr. 6. mgr. 21. gr. lögmannalaga, en gæta verður hann þess að umbjóðandi hans verði ekki fyrir réttarspjöllum.

 Verklok þurfa að vera skýr og ótvíræð af hálfu lögmanns og gildir þá einu hvort hann áskilji sér endurgjald fyrir störf sín eður ei.

 Óumdeilt er að kærði tók að sér að innheimta launakröfu kæranda með málsókn gegn vinnuveitanda hans. Þá er óumdeilt að kærði tók að sér, í kjölfar dóms í málinu, að leita fullnustu dómsins með aðfarargerð hjá vinnuveitandanum. Þeirri aðgerð lauk xx. júlí 200X. Fyrir liggur hins vegar að kærandi óskaði þess að árangurslausri fjárnámsgerð hjá vinnuveitandanum yrði ekki fylgt eftir með gjaldþrotaskiptabeiðni, enda var fjárhagur hans bágur um þetta leyti og hann gat ekki lagt fram tryggingu í héraðsdómi fyrir skiptakostnaði.

 Ágreiningur aðila snýst um það hvort kærði hafi tekið það að sér að fylgjast með framgangi mála hjá vinnuveitandanum eftir það og þá sérstaklega því hvort bú vinnuveitandans yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

 Ekkert liggur fyrir um það að kærði hafi formlega tilkynnt kæranda um að afskiptum sínum af málinu væri lokið. Þó er ljóst, eins og áður er fram komið, að kærða var ekki falið að gera reka að gjaldþrotaskiptum vinnuveitanda kæranda með framlagningu gjaldþrotaskiptabeiðnar. Þá var honum ekki falið, á árunum 2000 til 2003, að staðfesta eignaleysi og/eða ógjaldfærni vinnuveitandans með nýrri aðfarargerð. Verður raunar ekki séð að samskipti hafi verið milli kæranda og kærða vegna launakröfunnar á þessu tímabili.

 Verklok kærða í málinu voru óskýr, sem helgast m.a. af því að hann gaf ekki út reikning fyrir þóknun sinni. Mun það hafa stafað af bágri fjárhagsstöðu kæranda. Þrátt fyrir óskýrleika að þessu leyti af hálfu kærða telur úrskurðarnefnd lögmanna ekki hafa verið sýnt fram á það, gegn eindreginni neitun hans, að hann hafi tekið að sér, á árinu 200X eða síðar, að fylgjast með stöðu og framgangi mála hjá vinnuveitanda kæranda og þá sérstaklega því hvort bú vinnuveitandans yrði tekið til gjaldþrotaskipta, og í kjölfar þess að lýsa launakröfu kæranda í þrotabúið. Telst kærði þannig ekki í störfum sínum hafa gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, J, hdl., hefur í störfum sínum við innheimtu launakröfu fyrir kæranda, P, ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA