Mál 6 2005

Ár 2006, mánudaginn 19. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 6/2005:

U

gegn

H, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 15. febrúar 2005 frá U, sóknaraðila, sem varðar ágreining um áskilda þóknun H, hrl., varnaraðila, fyrir málflutningsstörf hans i í þágu sóknaraðila.

 Afstaða varnaraðila liggur fyrir í bréfi, dags. 9. maí 2006. Sóknaraðili hefur tjáð sig frekar um málið í bréfum til nefndarinnar þann 7. mars 2005 og 22. maí 2006.

 Málsatvik og málsástæður.

  I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að þann 6. maí 2002 leitaði sóknaraðili til varnaraðila og bað um lögfræðilega aðstoð vegna ágreinings um rétt sóknaraðila sem sjálfstætt starfandi einstaklings til atvinnuleysisbóta samkvæmt 6. tölulið 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hafði úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta í umdæmi því, er sóknaraðili bjó, tekið þá ákvörðun þann 15. desember 1998 að fella niður atvinnuleysisbætur henni til handa. Sóknaraðili kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar  atvinnuleysisbóta, sem staðfesti ákvörðun úthlutunarnefndarinnar með úrskurði, uppkveðnum 31. maí 1999. Sóknaraðili kvartaði vegna þessa til umboðsmanns Alþingis. Í áliti hans frá x. apríl 200x komst hann að þeirri niðurstöðu að ákvörðun úthlutunarnefndarinnar og staðfesting úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta á þeirri ákvörðun hefði verið ólögmæt.

 Varnaraðili hafði veitt sóknaraðila aðstoð vegna málsins á fyrri stigum og hafði hún m.a. greitt reikning er varnaraðili gaf út 20. febrúar 2002.

 Gjafsóknarheimild var veitt þann 8. nóvember 2002 til reksturs dómsmáls fyrir héraðsdómi um rétt sóknaraðila til atvinnuleysisbótanna. Gengið var frá skriflegu umboði sóknaraðila til varnaraðila þann 3. janúar 2003. Umboðið var svohljóðandi:

 „Ég undirrituð, U, kt. xxxxxx-xxxx, veiti hér með H, hrl., X, Reykjavík, fullt umboð til þess að fara með mál mitt fyrir dómstóla en málið varðar útreikning á atvinnuleysisbótum.

  Lögmaðurinn hefur fengið gjafsókn fyrir mína hönd. Hann hefur gert mér grein fyrir því að til þess geti komið að gjafsóknarkostnaður dugi ekki til þess að gera upp kostnað við málið og að ég undirrituð ábyrgist honum þann hluta kostnaðarins.

 

                                            Reykjavík, 3. janúar 2003,

                                              ______________________

                                            U”

Aðalmeðferð málsins var háð þann x. nóvember 200x. Í dómi, uppkveðnum x. janúar 200x, var fallist á kröfur sóknaraðila um rétt til atvinnuleysisbótanna og Atvinnuleysistryggingasjóði og úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta gert að greiða henni 1.514.213 krónur með dráttarvöxtum af stighækkandi fjárhæðum frá 1. janúar 1999. Að auki var sóknaraðila dæmdur gjafsóknarkostnaður úr ríkissjóði, að fjárhæð 678.333 krónur, þar með talinn útlagður kostnaður að fjárhæð 228.333 krónur samkvæmt reikningum og málflutningsþóknun varnaraðila, 450.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.

 Þann 10. nóvember 2003 ritaði sóknaraðili bréf til varnaraðila og krafðist þess að hann endurgreiddi sér 177.288 krónur vegna greiðslna hennar til hans fyrr á árinu. Kvaðst sóknaraðili hafa um það upplýsingar frá gjafsóknarnefnd að lögfræðingur ætti að senda reikninga sína beint til nefndarinnar og fá allan útlagðan kostnað endurgreiddan þaðan. Kvaðst sóknaraðili því ekki hafa átt að fá reikninga varnaraðila senda.

 Þann 14. janúar 2004 gaf varnaraðili út reikning sem sendur var dóms- og kirkjumálaráðuneytinu vegna gjafsóknarkostnaðarins. Tilgreind var málflutningsþóknun varnaraðila samkvæmt dómi, 361.446 krónur, útlagður kostnaður að fjárhæð 228.333 krónur og virðisaukaskattur af málflutningsþóknun 88.554 krónur, eða alls 678.333 krónur.

 Sóknaraðili sendi varnaraðila bréf þann 26. janúar 2004 og afturkallaði umboð sitt til hans. Jafnframt ítrekaði hún kröfu sína um að varnaraðili endurgreiddi henni 177.288 krónur.

 Þann 4. febrúar 2004 gaf varnaraðili út reikning á nafn sóknaraðila vegna málskostnaðar. Þar nam áskilin þóknun samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu varnaraðila 585.699 krónum auk virðisaukaskatts að fjárhæð 143.496 krónur. Til frádráttar kom málflutningsþóknunin sem ákvörðuð var í héraðsdómi, 450.000 krónur, og greiðslur sóknaraðila á árinu 2003. Nettóreikningsfjárhæðin nam þannig 101.907 krónum.

 Reikninginn sendi varnaraðili með bréfi sama dag til sóknaraðila. Hann kvað dómsmálið hafa unnist að fullu og að miðað við höfuðstól dómkröfunnar og dráttarvexti næmi krafa hennar á hendur Atvinnuleysistryggingasjóði tæplega 4 milljónum króna. Varnaraðili kvað þóknun samkvæmt hagsmunatengdri gjaldskrá lögmannsstofu sinnar nema 585.699 krónum auk virðisaukaskatts. Miðað við tímagjald og 52,2 klst. sem farið hafi í rekstur málsins hefði málskostnaður numið 638.060 krónum auk virðisaukaskatts. Varnaraðili kvaðst kjósa að miða við lægri fjárhæðina.

 Í bréfi sínu minnti varnaraðili á það að hann hefði gert sóknaraðila grein fyrir því að kostnaðurinn gæti orðið meiri en sem næmi ákvörðun héraðsdóms um gjafsóknarkostnað og að sóknaraðili hefði ábyrgst sér þann mismun. Varnaraðili kvað 101.907 krónur standa eftir samkvæmt reikningi sínum og drægi hann þær frá inneign sóknaraðila, þ.e. hinum tildæmda kostnaði að fjárhæð 228.333 krónur. Eftirstöðvar inneignarinnar, 126.426 krónur, hefðu verið lagðar inn á bankareikning sóknaraðila þann dag er bréfið var ritað. Loks benti varnaraðili á að sóknaraðili hefði sagt upp lögmannsumboðinu og hún yrði því sjálf að innheimta kröfu sína samkvæmt dóminum.

 II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar krefst sóknaraðili þess að varnaraðili gefi út réttan reikning vegna héraðsdómsmálsins og jafnframt að hann greiði tafarlaust 264.255 krónur inn á bankareikning sinn.

 Sóknaraðili kveður varnaraðila aldrei hafa gert sér grein fyrir gjaldskrá lögmannsstofu sinnar eða að til greina hafi komið að reikna málskostnað samkvæmt hagsmunatengdri gjaldskrá. Kveður sóknaraðili það ekki hafa falist í umboði sínu til varnaraðila að hún hafi ábyrgst greiðslu hagsmunatengdrar þóknunar.

 Sóknaraðili kveður reikning varnaraðila nr. 489 fullan af villum. Á reikningnum sé röng kennitala, númer héraðsdómsmálsins sé rangt, virðisaukaskattur sé rangt reiknaður og loks að á reikningnum komi ekki fram fjárhæð útlagða kostnaðarins sem ákvarðaður var í héraðsdóminum. Þar af leiðandi séu tölur á reikningnum ekki réttar.

 Að því er innborganir sínar til varnaraðila varðar bendir sóknaraðili m.a. á að þegar varnaraðili gaf út reikning þann 13. janúar 2003 hafi hann upplýst sig um það að hún ætti að fá þann kostnað til baka frá ríkinu þegar að því kæmi. Sömuleiðis hafi hann upplýst sig um það að hún fengi útlagða kostnaðinn, 14.940 krónur, endurgreiddan í formi málskostnaðar síðar.

 Sóknaraðili vísar til bágrar fjárhagsstöðu sinnar og fjölskyldu sinnar. Hún hafi reynt að safna saman peningum til að borga reikninga varnaraðila. Vegna þessarar bágu fjárhagsstöðu hafi hún ekki getað neitað varnaraðila um að bæta inn í hið skriflega umboð sitt til hans að hún bæri ábyrgð á hugsanlegum mismun umkrafins málskostnaðar og tildæmdrar málflutningsþóknunar, án þess að tefja málið.

 Sóknaraðili kveður varnaraðila ekki hafa endurgreitt sér útlagða kostnaðinn samkvæmt dómsorði, 228.333 krónur. Að auki hafi vantað upp á að hún fengi áður greidda fjárhæð, 162.348 krónur. Varnaraðili hafi einungis endurgreitt sér 126.426 krónur. Mismunurinn sé 264.255 krónur (228.333+162.348-126.426).

 Kröfur sínar fyrir úrskurðarnefndinni styður sóknaraðili einkum við 126., 127. og 129. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og reifar í því sambandi ýmis sjónarmið og túlkun sína á þeim lagaákvæðum. Þá telur hún varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 10., 14. og 15. gr. siðareglna lögmanna

 IV.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar bendir varnaraðili á gögn málsins, sérstaklega umboð sóknaraðila til sín. Í því umboði kæmi skýrt fram að til þess gæti komið að gjafsóknarkostnaður tæmdi ekki kostnað hennar af málinu. Varnaraðili vísar einnig til þess, er fram kæmi í bréfi sínu til sóknaraðila þann 3. febrúar 2004. Samningur hennar við sig hefði enn verið í fullu gildi er málið var unnið. Sóknaraðili gæti ekki síðar, þegar hana hentaði, fallið frá þeim samningi.

 Niðurstaða.

 I.

Undir meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni var kallað eftir gögnum og sjónarmiðum aðila vegna hugsanlegrar fyrningar samkvæmt 26. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998, sbr. 15. gr. laga nr. 93/2004, en síðarnefndu lögin tóku gildi 1. nóvember 2004. Að lokinni athugun er það niðurstaða nefndarinnar að vegna lagaskilasjónarmiða sé málið ófyrnt og því tækt til efnismeðferðar.

 II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.

 Um málskostnað í gjafsóknarmálum er fjallað í 20. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laganna skal þóknun umboðsmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls vera ákveðin í dómi ef hún er ekki undanskilin gjafsókn. Ákvæðið hefur verið túlkað þannig af úrskurðarnefnd lögmanna, í málinu nr. 33/2001 fyrir nefndinni, að það takmarkaði heimild lögmanns til að áskilja sér hærra endurgjald fyrir flutning gjafsóknarmáls en sem næmi tildæmdri málflutningsþóknun, nema hlutaðeigandi lögmaður semdi sérstaklega um annað við umbjóðanda sinn.

 Samkvæmt fyrirliggjandi umboði sóknaraðila til varnaraðila skuldbatt hún sig til þess að greiða varnaraðila þann hluta kostnaðar af málarekstrinum, er kynni að verða umfram gjafsóknarkostnaðinn.

III.

Fram að aðalmeðferð málsins greiddi sóknaraðili til varnaraðila vegna reksturs málsins eins og hér greinir:

 Reikn.nr.              Dagsetn.                                Fjárhæð                 Greiddur

30                            20.02.2002                              kr. 62.250                                06.05.2002

134                          25.06.2002                              kr. 62.250                                24.06.2002

186                          24.09.2002                              kr. 88.893                                07.10.2002

265                          13.01.2003                              kr. 162.348                              25.03.2003    (82.348)

                                                                                                                                16.06.2003    (50.000)

                                                                                                                                01.08.2003    (30.000)

                                                                                kr. 14.940                                15.01.2003    (útl. kostn.)

                                                                                __________

                                                                                kr. 390.681

Samkvæmt ákvörðun héraðsdóms fengust reikningar nr. 30, 134 og 186, svo og útlagði kostnaðurinn (14.940 krónur), alls 228.333 krónur, viðurkenndir sem útlagður kostnaður við rekstur dómsmálsins og töldust þeir hluti gjafsóknarkostnaðar, eins og áður er getið. Þessi hluti gjafsóknarkostnaðar, ásamt tildæmdri málflutningsþóknun, voru innheimt hjá dómsmálaráðuneytinu með reikningi, útgefnum 14. janúar 2004, Heildargreiðsla samkvæmt reikningnum nam 678.333 krónum.

Varnaraðili gaf út málskostnaðarreikning til sóknaraðila þann 4. febrúar 2004 (reikningur nr. 489). Áskilin þóknun samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu varnaraðila nam 585.699 krónum. Að viðbættum virðisaukaskatti nam umkrafinn málskostnaður varnaraðila alls 729.195 krónum. Til frádráttar kom tildæmd málflutningsþóknun, þ.m.t. virðisaukaskattur, að fjárhæð 450.000 krónur, og greiðsla frá sóknaraðila samkvæmt reikningi hans nr. 265, er gefinn var út 13. janúar 2003. Síðast nefnda frádráttartalan nam 177.907 krónum og er það 15.559 krónum hærri tala en samkvæmt reikningi nr. 265. Nettófjárhæð reiknings nr. 489 nam þannig 101.907 krónum, en hefði átt að nema 101.288 krónum, miðað við uppgefnar fjárhæðir. Engin skýring liggur fyrir um þennan mismun en ætla má af nettótölunni, 14.940 krónum, að um sé að ræða útlagða kostnaðinn fyrir sömu fjárhæð, sem greiddur var í janúar 2003. Það kemur þó ekki að sök fyrir sóknaraðila í málinu þar sem hún fær samsvarandi hærri greiðslu til sín. Virðist hún raunar fá þann kostnað tvígreiddan þar sem sama tala er innifalin í hinum tildæmda útlagða kostnaði, 228.333 krónum.

 Varnaraðili hafði innheimt fyrir sóknaraðila þann hluta gjafsóknarkostnaðar, er nefndur var útlagður kostnaður í dómsniðurstöðunni, 228.333 krónur. Með þeirri inneign sóknaraðila hjá sér greiddi varnaraðili nettóreikningsfjárhæðina, 101.907 krónur. Eftirstöðvarnar, 126.426 krónur, lagði varnaraðili inn á bankareikning sóknaraðila, eins og áður er getið.

 Samkvæmt framangreindu krefur varnaraðili sóknaraðila um 264.255 krónur (390.681-126.426) í þóknun og virðisaukaskatt umfram hina tildæmdu málflutningsþóknun í gjafsóknarmálinu. Lýtur krafa sóknaraðila í erindinu til úrskurðarnefndar öðrum þræði að því að fá þá fjárhæð endurgreidda.

 IV.

Enginn skriflegur samningur liggur fyrir um grundvöll þóknunar varnaraðila fyrir rekstur héraðsdómsmálsins. Hins vegar liggur fyrir í umboði sóknaraðila til varnaraðila að hann hafi gert henni grein fyrir því að tildæmd málflutningsþóknun kynni að verða lægri en sem næmi áskilinni þóknun hans. Skuldbatt sóknaraðili sig til þess að greiða mismuninn. Telja verður samkvæmt þessu að sóknaraðili hafi verið upplýst um tilhögun á útreikningi verklauna og að henni hafi að minnsta kosti mátt vera ljóst að hún kynni að vera krafin um greiðslu umfram tildæmda málflutningsþóknun. Breytir engu í því sambandi þótt sú fjárhæð hafi ekki verið sérstaklega tilgreind í umboðinu. Verður samkvæmt þessu ekki talið að varnaraðili hafi brotið gegn ákvæði 10. gr. siðareglna lögmanna.

 Varnaraðili kýs að reikna þóknun sína út frá hagsmunatengdri gjaldskrá lögmannsstofu sinnar. Hagsmunatenging þóknunar, t.d. fyrir málflutningsstörf þar sem fjárhagsleg verðmæti eru í húfi, er viðurkennd aðferð og hefur tíðkast hér á landi frá því snemma á síðustu öld. Eru ekki gerðar athugasemdir af hálfu úrskurðarnefndar við þá aðferð varnaraðila.

 Varnaraðili hefur upplýst að í rekstur héraðsdómsmálsins hafi farið um 52 tímar, en ekki liggur þó fyrir tímaskýrsla hans um málið. Er sá tímafjöldi þó ekki ótrúverðugur í ljósi þess hvers eðlis málið var.

 Það er mat úrskurðarnefndar lögmanna, sem byggist á framlögðum gögnum málsins, að áskilin þóknun varnaraðila fyrir rekstur og flutning héraðsdómsmálsins fyrir sóknaraðila, 585.699 krónur auk virðisaukaskatts, sé hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

 Varnaraðila, eins og öðrum lögmönnum, ber að gefa út reikninga vegna seldrar þjónustu. Eiga reikningarnir að uppfylla formskilyrði laga og reglna um virðisaukaskatt, þ. á m. með tilgreiningu á kaupanda þjónustunnar og kennitölu hans. Á reikningi nr. 489 er ekki tilgreind rétt kennitala. Nefndin telur að varnaraðili eigi að leiðrétta þessa misritun. Nefndin telur hana hins vegar ekki þess eðlis að hún kalli á beitingu viðurlaga samkvæmt lögmannalögum.

 Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi gert upp við sóknaraðila innan hæfilegs tíma frá því hann tók við greiðslu úr ríkissjóði í lok janúar eða byrjun febrúar 2004. Hefur hann þannig ekki brotið gegn ákvæði 14. gr. siðareglna lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Áskilin þóknun varnaraðila, H, hrl., að fjárhæð 585.699 krónur auk virðisaukaskatts, fyrir vinnu við rekstur og flutning héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/200x fyrir Héraðsdómi V í þágu sóknaraðila, U, telst hæfilegt endurgjald.

 Varnaraðili telst í störfum sínum fyrir sóknaraðila ekki hafa gert á hlut hennar með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA