Mál 15 2006

Ár 2008, mánudaginn 22. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 15/2006:

 H

gegn

S, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 5. maí 2006 frá H, kæranda, þar sem kvartað var yfir starfsaðferðum S, hrl., kærða, í tengslum við rekstur dómsmáls fyrir kæranda.

Kærða var veittur frestur til 7. júní 2006 til að skila nefndinni greinargerð af sinni hálfu um erindið. Vegna utanlandsferðar kærða var honum veittur viðbótarfrestur til 23. júní 2006 til að skila greinargerð um málið. Þann 24. ágúst 2006 var kærði minntur á að hann hefði ekki skilað greinargerð til nefndarinnar og fékk hann þá frest til 29. ágúst.

Á síðari hluta september 2006 var höfðað mál af hálfu lögmannsstofu kærða á hendur kæranda, þar sem þess var krafist að kærandi yrði dæmdur til að greiða alls 1.545.200 krónur fyrir lögmannsþjónustu, auk dráttarvaxta og kostnaðar, að frádregnum 100.000 krónum og 800.000 krónum, sem greiddar höfðu verið inn á verklaun kærða vegna málarekstursins fyrir kæranda. Af þessu tilefni sendi úrskurðarnefnd lögmanna tölvupóst til lögmannsstofu kærða þann 28. september 2006 og benti á að ekki yrði rekið dómsmál um sama ágreiningsefni og fjallað væri um á vettvangi nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. lögmannalaga. Staðfesting barst frá lögmannsstofunni um að málið yrði fellt niður.

Í bréfi nefndarinnar til kærða, dags. 27. október 2006, var hann minntur á skyldur sínar samkvæmt lögmannalögum nr. 77/1998 og samkvæmt siðareglum lögmanna gagnvart umbjóðendum sínum og nefndinni. Bærist ekki greinargerð frá honum í síðasta lagi 5. nóvember 2006 mætti hann búast við að nefndin beitti þeim viðurlögum, er kveðið væri á um í 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga.

Kærði nefndinni bréf þann 13. nóvember 2006 en með því fylgdi tímaskráning hans vegna vinnu við mál kæranda. Kvaðst kærði ekki sjá ástæðu til þess að elta ólar við margháttaðar rangfærslur í erindi kæranda til nefndarinnar og vísaði kröfugerð hans algerlega á bug.

Kærandi gerði athugasemdir við skrif kærða í bréfum til nefndarinnar, dags. 25. september og 14. nóvember 2007. Kærði hefur ekki tjáð sig frekar um málið.

 Málsatvik og málsástæður

  I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að vegna langvarandi samstarfserfiðleika kæranda og sóknarnefndarmanna í kirkjusókn þeirri, sem kærandi þjónaði sem sóknarprestur, leitaði hann í lok október 2004 til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar með kröfu um að tilteknum nefndarmönnum yrði veitt áminning og að tveir starfsmenn kirkjunnar yrðu fluttir til í starfi. Niðurstaða nefndarinnar þann x. apríl 200x varð sú að leggja til við biskup að kærandi yrði fluttur til í starfi. Hann kærði úrskurðinn til áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar þann 6. maí 2005 og í úrskurði þann x. júní 200x lagði nefndin m.a. til að kærandi yrði fluttur til í starfi. Í kjölfar úrskurðarins fór biskup þess á leit við kirkjumálaráðherra að hann samþykkti að kærandi yrði fluttur til í starfi. Samþykkti ráðherra þá málaleitan þann 18. ágúst 2005.

 Í framhaldi af úrskurði áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar höfðaði kærandi dómsmál gegn fjórum einstaklingum, sem voru aðilar að kærumálinu fyrir nefndinni, og íslensku þjóðkirkjunni, til þess að þola ógildingu á þeim þætti úrskurðar nefndarinnar er varðaði tillöguna um að hann skyldi færður til í starfi. Kærði rak málið fyrir kæranda fyrir Héraðsdómi B.

 Stefndu kröfðust aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu. Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna fór fram x. janúar 200x og í úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum x. febrúar 200x, var málinu vísað frá dómi. Að auki var kæranda gert að greiða 480.000 krónur í málskostnað.

 Niðurstaða héraðsdóms um að vísa málinu frá, svo og samskiptin við kærða eftir uppkvaðningu úrskurðarins og áskilin verklaun, urðu kæranda tilefni erindis þess, sem hér er til umfjöllunar.

 II.

Kærandi kveður upphaf starfa kærða fyrir sig mega rekja til þess að kærði hafi hringt í sig og boðið fram aðstoð sína, þegar kærandi þurfti að taka afstöðu til þess hvort kæra skyldi úrskurð úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar til áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar.

 Þegar niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar lá fyrir hafi kærði, fyrir hönd kæranda, höfðað dómsmálið fyrir Héraðsdómi B. Hann hafi virst áhugasamur til að byrja með um verkefnið en kærandi telur jafnframt hafa komið fram að kærði hafi virst ekki vera mjög vel inni í málarekstri er tengdist málefnum kirkjunnar og starfsmannarétti.

 Kærandi telur samskipti sín við kærða hafa verið eðlilegt til að byrja með en síðan hafi farið að bera á því að erfiðlega hafi gengið að ná sambandi við kærða, hvort sem hringt var í hann, lögð fyrir munnleg skilaboð eða SMS-skilaboð, eða með tölvupósti. Kærandi kveðst hafa haft miklar áhyggjur vegna þessa, sérstaklega eftir að niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar lá fyrir en áður en kirkjumálaráðherra tók sína ákvörðun, en kærði hafi farið um þetta leyti í frí til Ítalíu. Hafi hann ekki gert neinar ráðstafanir, svo sem að fá annan lögmann til þess að vera kæranda til stuðnings á meðan.

 Kærandi kveðst hafa lagt allt sitt traust á kærða og hafa hlítt ráðslagi hans í einu og öllu. Það hafi orðið gríðarleg vonbrigði þegar málinu var vísað frá héraðsdómi, að því er virtist vegna vanrækslu kærða um nokkur grundvallaratriði í stefnu málsins.

 Þegar héraðsdómur kvað upp úrskurð sinn kveðst kærandi hafa fengið svohljóðandi SMS-skeyti frá kærða: „Frávísun. Verð í sambandi.“ Kærði hafi hins vegar ekki haft samband við sig. Eftir réttan hálfan mánuð hafi kærandi ítrekað reynt að ná samband við kærða og í það eina skipti sem það hafi tekist hafi kærði sagst vera að skoða málið með tilliti til kæru til Hæstaréttar. Kærandi kveðst síðar hafa náð sambandi við fulltrúa kærða, hálfum mánuði eftir uppkvaðningu frávísunarúrskurðarins, sem hafi talið að kærufresturinn væri 3 vikur. Kærandi kveðst hafa fengið upplýsingar sama dag í héraðsdómi um að kærufresturinn væri 2 vikur og væri hann því liðinn í þessu máli. Kærandi kveðst hafa verið miður sín vegna þessa, en ekki hafi kærði efnt til fundar til þess að ræða málið.

 Kærandi kveðst hafa sent kærða bréf 2. mars 2006 og m.a. farið fram á að hann greiddi þann málskostnað sem kæranda var gert að greiða stefndu samkvæmt frávísunarúrskurði héraðsdóms. Bréfinu hafi ekki verið svarað og hafi kærandi því ítrekað efni þess í tölvupósti 16. mars 2006. Þar hafi jafnframt verið farið fram á endurskoðun verklauna kærða. Kærði hafi svarað samdægurs og hafnað endurgreiðslu kostnaðarins. Jafnframt hafi kærði talið kæranda hafa sýnt starfsmanni sínum óþolandi dónaskap. Hafi kærði talið sér ókleift að vinna frekar að málinu fyrir kæranda.

 Kærandi kveðst hafa átt fund með kærða þann 11. janúar 2006 þar sem m.a. hafi verið rætt um mikið annríki kærða að öðrum verkefnum. Einnig hafi verið rætt um og ákveðið að höfða dómsmál gegn ráðherra eða íslenska ríkinu til ógildingar á tilfærslu og skerðingar launa kæranda. Málið hafi hins vegar ekki verið höfðað. Einnig hafi á fundinum verið rætt um önnur tengd verkefni sem kærði hafi ætlað að sinna fyrir kæranda, en ekkert hafi gerst í þeim málum.

 Kærandi kveður erindi sitt til nefndarinnar beinast annars vegar að alvarlegum vanbúnaði í málinu nr. E-xxxx/200x fyrir Héraðsdómi B, sem vísað var frá dómi þann x. febrúar 200x, og hins vegar að því hvernig kærði hafi látið undir höfuð leggjast að upplýsa sig um stöðu hinna ýmsu atriða sem sinna hefur þurft í málarekstrinum.

 Kærandi kveður forsendur kvörtunar sinnar til úrskurðarnefndar hafa verið þær að þegar frávísun málsins hafi legið fyrir hafi það komið fram hjá héraðsdómi að hann ætti að sjálfsögðu rétt á því að málið yrði tekið aftur fyrir í dóminum, þegar búið væri að lagfæra það sem athugavert hefði verið við framsetningu málsins þar. Sem verkkaupi lögmannsþjónustu hafi hann talið fullvíst að hann gæti treyst því að fagmannlega og einarðlega yrði staðið að framsetningu málsins í héraðsdómi, ekki síst í ljósi þess hvernig með málið hefði verið farið innan vébanda þjóðkirkjunnar.

 Kærandi telur ljóst vera að hagsmuna sinna hafi ekki verið gætt í því að setja málið fram með nægilega vönduðum hætti og stuðla þannig að greiðri og góðri málsmeðferð fyrir dómi. Einnig hafi lögvarðir hagsmunir sínir verið fyrir borð bornir fyrir héraðsdómi með ómarkvissum undirbúningi málsins, sem dómurinn hefði gert athugasemdir við.

 Kærandi telur það, að kærði hafi ekki hirt um að bregðast við kvörtun sinni með öðrum hætti en að telja athugasemdir sínar og röksemdir fyrir kvörtuninni ekki vera svara verðar og með því að senda seint og um síðir einungis afrit reikningsyfirlits fyrir vinnu sína og aðstoðarmanns síns, vera framkomu sem ekki samræmdist virðingu lögmanns fyrir skjólstæðingi.

Kærandi kveðst hafna þeim kostnaðartölum sem fram komu í stefnukröfu kærða gegn sér, enda hefði engin sú vinna verið innt af hendi af hálfu kærða sem réttlætt gæti kostnaðartölurnar. Kærandi nefnir sérstaklega vinnu aðstoðarmanns kærða í athugasemdum sínum, svo og samskipti við Breska sálfræðingafélagið, en kærandi kveðst hafa samið sjálfur flest þau bréf eða greinargerðir sem sendar hafi verið til Bretlands, með milligöngu kærða.

Kærandi kveður það vera einstaklega þungbært að leggja kvörtunina fram til úrskurðarnefndar lögmanna. En í ljósi þeirra miklu hagsmuna, sem hann hafi átt í málinu hvað varðaði starfsheiður og æru, hafi verið algerlega óásættanlegt að fá frávísun héraðsdómsmálsins í andlitið og vera gert að greiða gagnaðilum málskostnað þeirra einnig fyrir héraðsdómi. Það, að frávísunin hafi komi til einungis vegna þess hvernig kærði útbjó málið til héraðsdóms, án tillits til málavaxta, sé hlutur sem hvorki kærandi né Lögmannafélagið sem metnaðarfullt fagfélag, geti við unað.

Kærandi krefst greiðslu alls málskostnaðar fyrir Héraðsdómi B, bæði eigin kostnaðar og kostnaðar til gagnaðila, sem kæranda hafi verið gert að greiða samkvæmt frávísunarúrskurðinum. Þá krefst kærandi þess að áfallin verklaun kærða verði endurskoðuð að hluta til eða að öllu leyti vegna ómarkvissrar vinnu hans að málinu.

 III.

Eins og áður greinir tjáði kærði sig einungis um erindi kæranda með því að senda nefndinni afrit tímaskýrslna sinna ásamt því að tilkynna nefndinni að hann sæi ekki ástæðu til að elta ólar við margháttaðar rangfærslur í erindi kæranda, en kröfugerð hans væri vísað algerlega á bug.

 

Niðurstaða

 I.

Fram kemur í erindi kæranda til nefndarinnar að hann krefst þess annars vegar að fá greiddan úr hendi kærða eigin kostnað og hins vegar að fá greiddan úr hendi kærða allan þann málskostnað fyrir héraðsdómi, sem honum var í frávísunarúrskurðinum gert að greiða gagnaðilum sínum.

 Hvorug krafnanna fellur innan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna samkvæmt lögmannalögum nr. 77/1998. Ber því að vísa þessum kröfuliðum frá nefndinni.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess er hægt að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga. Kærandi krefst þess að áfallinn lögmannskostnaður kærða verði endurskoðaður að hluta eða öllu leyti vegna ómarkvissrar og lítt skipulagðrar vinnu við málið frá upphafi.

 Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum krefur kærði kæranda um greiðslu 1.545.200 króna í þóknun vegna lögmannsþjónustu á tímabilinu frá 25. maí 2005 til 6. mars 2006. Alls er krafist þóknunar fyrir vinnu í 101 klst. samkvæmt tímaskráningu. Samkvæmt því er tímagjaldið að jafnaði 15.300 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur. Kærði greiddi 100.000 krónur upp í verklaun kærða þann 9. desember og 700.000 krónur þann 13. desember 2005, eða alls 800.000 krónur.

 Samkvæmt því sem fram kemur í málsgögnum kærði kærandi niðurstöðu úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar til áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar þann x. maí 200x, eða nokkru áður en hann leitaði til kærða. Samkvæmt tímaskýrslu kærða vann hann í lok maí og í júní meðal annars við að aðstoða kæranda við rekstur kærumálsins til áfrýjunarnefndarinnar. Fram til 28. júní, þegar áfrýjunarnefndin kvað upp úrskurð sinn, fóru 41,5 klst. í þessa vinnu kærða.

 Samkvæmt tímaskýrslu kærða skráði hann 44,75 klst. í vinnu í þágu kæranda frá útgáfu stefnu, allt þar til frávísunarúrskurður var kveðinn upp þann x. febrúar 200x. Eftir það skráði hann 14,75 klst. vegna ýmissa verkefna og samskipta við kæranda, til 6. mars 2006 eins og áður greinir.

 Samkvæmt frávísunarúrskurði héraðsdóms var málatilbúnaði í stefnu ábótavant. Taldi dómurinn að gera hefði átt skýrari grein fyrir tilgreindum atvikum og gera glögga grein fyrir því hvers vegna stefnandi (kærandi) taldi sönnunarmat áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar rangt. Taldi héraðsdómur því ekki unnt að greina samhengi málsástæðna við atvik máls og þær réttarreglur sem byggt var á. Var ekki talið fullnægjandi varðandi málsástæður og lagarök að vísa í stefnu til þess sem kynni að vera skýrt í öðrum gögnum málsins. Að þessu leyti taldi héraðsdómur málatilbúnað stefnanda í andstöðu við e- og f-liði 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

 Málinu var þó ekki vísað frá vegna þessa heldur með vísun til 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála. Taldi héraðsdómur að dómur um ógildingu á úrskurði áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar, eins og dómkrafa stefnanda var í málinu, hefði ekki neina þýðingu fyrir stefnanda vegna þess að slíkur dómur myndi ekki skera úr um lögmæti þeirrar ákvörðunar ráðherra að flytja stefnanda (kæranda) til í starfi. Ákvörðun ráðherra myndi standast enda þótt fallist yrði á dómkröfur stefnanda í málinu.

 Eðli málsins samkvæmt ábyrgjast lögmenn ekki niðurstöðu málareksturs fyrir úrskurðaraðilum, svo sem kæru- og úrskurðarnefndum og dómstólum. Hins vegar eiga skjólstæðingar þeirra kröfu til þess að þeir sinni af alúð verkefnum sem þeim eru falin og þeir eiga kröfu til þess að lögmenn beiti markvissum vinnubrögðum og vinni af fagmennsku í hverju verkefni sem þeim er falið.

 Gagnrýni kæranda beinist einkum að því að hann telur lögvarða hagsmuni sína hafa verið fyrir borð borna fyrir héraðsdómi með ómarkvissum undirbúningi dómsmálsins. Telur hann hagsmuna sinna ekki hafa verið gætt með því að setja málið fram með nægilega vönduðum hætti og stuðla þannig að greiðri og góðri málsmeðferð.

 Gagnrýni kæranda fær stoð í umfjöllun héraðsdóms um ófullnægjandi málatilbúnaðinn í stefnu málsins. Þá verður að ætla að rétt hefði verið að taka málatilbúnaðinn til athugunar og endurskoðunar í kjölfarið á ákvörðun kirkjumálaráðherra þann x. ágúst 200x um tilfærslu á kæranda í starfi, en sú ákvörðun kippti fótunum undan málsókninni. Ekki verður séð af gögnum málsins að kærði hafi rætt þessi atriði við kæranda eða veitt honum ráðgjöf um breytta stefnu í málatilbúnaði hans.

 Að mati úrskurðarnefndar lögmanna er það gagnrýnivert að kærði hefur á engan hátt gert grein fyrir störfum sínum í þágu kæranda og tímaskráningu sinni í því sambandi. Tímaskýrslan sjálf veitir einungis takmarkaðar upplýsingar um þau verkefni sem kærði sinnti fyrir kæranda. Þó má af henni ráða að í málarekstri fyrir áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar, undir rekstri héraðsdómsmálsins og eftir uppkvaðningu frávísunarúrskurðarins átti kærði í margvíslegum samskiptum við umbjóðanda sinn, umboðsmenn gagnaðila, yfirvöld þjóðkirkjunnar og aðra þá, sem erindirekstur fyrir kæranda gaf tilefni til, með bréfaskriftum, á fundum, með tölvupósti og í símtölum. Fáum öðrum gögnum en stefnu í dómsmálinu og frávísunarúrskurði héraðsdóms er til að dreifa er varpað gætu ljósi á eðli og umfang starfa kærða.

 Að teknu tilliti til þessara athugasemda og með hliðsjón af því sem fyrir liggur í málinu um vinnuframlag kærða er það niðurstaða úrskurðarnefndar að endurgjald kærða sé metið að álitum hæfilegt 800.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

 III.

Kærða var veittur frestur til 7. júní 2006 til að gera úrskurðarnefndinni grein fyrir sinni hlið málsins, eftir að erindi kæranda barst henni. Að beiðni fulltrúa kærða var honum veittur viðbótarfrestur til 23. júní 2006 vegna utanlandsferðar. Engin svör bárust frá kærða fyrr en 13. nóvember 2006, að undangengnum ítrekuðum tilmælum nefndarinnar um að hann skilaði greinargerð sinni um málið.

 Engar skýringar voru gefnar af hálfu kærða um umkvörtunaratriði í erindi kæranda, en látið nægja að vísa kröfugerð kæranda á bug. Nefndin telur þessa framkomu kærða gagnvart sér og kæranda aðfinnsluverða, en hún felur í sér brot á skyldum kærða samkvæmt 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Kröfum kæranda, H, á hendur kærða, S, hrl., um að fá greiddan úr hendi kærða eigin kostnað og allan þann málskostnað fyrir héraðsdómi, sem honum var í frávísunarúrskurðinum gert að greiða gagnaðilum sínum í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/200x, er vísað frá.

 Hæfilegt endurgjald kærða fyrir störf í þágu kæranda er 800.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

 Sú háttsemi kærða, að svara seint og ófullnægjandi tilmælum úrskurðarnefndar lögmanna um að gera grein fyrir máli sínu um erindi kæranda, er aðfinnsluverð. 6