Mál 17 2006

Ár 2006, mánudaginn 4. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 17/2006:

 

P

gegn

M hf.

og S, hdl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 12. maí 2006 frá E, fyrir hönd P, kæranda, þar sem kvartað var yfir reikningi fyrir lögmannsþjónustu frá M hf. og vegna hagsmunaáreksturs í tengslum við lögmannsstörf S, hdl.

 Lögmannsstofan sendi nefndinni greinargerð um erindið 10. ágúst 2006, að fengnum viðbótarfresti. Vegna frávísunarkröfu lögmannsstofunnar var kæranda beðinn um að tjá sig sérstaklega um þá kröfu. Athugasemdir bárust frá kæranda í bréfi, dags. 23. september 2006. Þá bárust athugasemdir frá lögmannsstofunni í bréfi, dags. 10. nóvember 2006.

 Málsatvik og málsástæður

  I.

Samkvæmt gögnum málsins fól kærandi M hf., í lok október 2003, að senda stjórnsýslukæru til menntamálaráðuneytisins vegna stjórnsýslubrots Q Íslands. Kæranda var gert að greiða upp í verkkostnað 63.495 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur, með útgáfu reiknings þann 3. nóvember 2003. Verkinu lauk í júní 2004 og var þá gerður annar reikningur, að fjárhæð 137.573 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur. Kærandi gerði athugasemd við síðari reikninginn með tölvupósti haustið 2004. Lögmannsstofan höfðaði mál gegn kæranda til innheimtu reikningskröfunnar og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann xx. apríl 200x.

 Kærandi beindi erindi til Samkeppnisstofnunar vegna starfsemi Q Íslands þann 1. ágúst 200x. L ehf. greip til andsvara fyrir hönd Q. S, hdl., starfaði á þeim tíma á lögmannsstofunni og ritaði undir greinargerð sem send var Samkeppnisstofnun þann 28. október 2004. Þann 1. nóvember s.á. hætti hann störfum hjá L ehf. og gerðist meðeigandi að M hf.

 Reikningur lögmannsstofunnar og breyting á aðsetri S, hdl., urðu kæranda tilefni erindis þessa, sem hér er til umfjöllunar.

 II.

Í erindi sínu gerir kærandi ýmsar athugasemdir við skráða tíma á vinnuskýrslu þeirri, sem reikningur lögmannsstofunnar byggðist á, svo sem skráða tíma vegna símtala, reynsluleysi þess lögmanns er annaðist verkið og töluverðar fjarvistir lögmannsins. Krefst kærandi þess að reikningur lögmannsstofunnar verði afskrifaður að fullu og skráning hjá Lánstrausti verði afturkölluð. Telur kærandi að hann hafi ekki verið upplýstur um áætlaðan kostnað af verkinu og því hafi verið brotið gegn 2. mgr.10. gr. siðareglna lögmanna.

 Kærandi heldur því fram að M hf. hafi tekið að sér verkefni fyrir sig í árslok 200x gegn Q og að því verki hafi lokið á árinu 200x. Síðar sama ár hafi S, hdl., á þessari lögmannsstofu tekið að sér mál fyrir Q gegn kæranda. Á þeim tíma hafi lögmaðurinn haft aðgang að ýmsum gögnum og upplýsingum um kæranda. Telur kærandi að lögmaðurinn og lögmannsstofan hefðu átt að tilkynna sér um störf lögmannsins fyrir Q. Kærandi krefst þess að lögmannsstofan verði áminnt fyrir að taka að sér mál gegn fyrrum umbjóðanda sínum án þess að viðunandi tími hafi liðið frá því fyrra málinu lauk.

 III.

Af hálfu lögmannsstofunnar er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá en til vara er gerð sú krafa að úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé tilefni til að aðhafast nokkuð í málinu.

 Því er haldið fram af hálfu lögmannsstofunnar að ársfrestur til að bera ágreining um reikning stofunnar hafi vart getað byrjað að líða síðar en við það tímamark þegar reikningurinn, sem var gefinn út 3. júní 200x, komst til kæranda, sem telja verði að hafi verið nokkrum dögum eftir útgáfu hans. Þá telur lögmannsstofan að kæranda hafi átt að vera ljóst í nóvember 200x að S, hdl., hafði verið með málið fyrir Q.

 Að því er reikningsfjárhæðina varðar er bent á að samkvæmt framlagðri tímaskýrslu hafi verið unnið í verkefninu fyrir kæranda í 20,5 tíma en að 19 tímar hafi verið reikningsfærðir. Þá er bent á að kærandi hafi ekki sýnt fram á að um óhóflegt endurgjald hafi verið að ræða. Kæranda hafi í upphafi verið gerð grein fyrir því að fyrri reikningurinn væri ígildi fyrirframgreiðslu og að frekari kostnaður gæti fallið til. Kæranda hafi átt að vera ljóst að fyrri reikningurinn væri ekki lokareikningur. Því gæti ekki verið um brot á 2. mgr. 10. gr. siðareglnanna að ræða.

 Af hálfu lögmannsstofunnar er bent á að S, hdl., hafi gengið til liðs við eigendur stofunnar þann 1. nóvember 200x en áður hafi hann verið fulltrúi hjá L ehf. Hafi breytingin verið tilkynnt LMFÍ á sínum tíma. Andmæli fyrir Q, sem unnin hafi verið af lögmanninum, hafi verið dagsett 28. október 200x og unnin fyrir L ehf., sem gerði Q reikning fyrir vinnuna. Bent er í því sambandi á bréf Samkeppnisstofnunar til kæranda, dags. 11. nóvember 200x, þar sem félaginu var send umsögn L ehf. fyrir hönd Q. Vegna þessa sé ljóst að ekki hafi verið um neinn hagsmunaárekstur að ræða, þar sem lögmaðurinn hafi ekki hafið störf hjá M á þeim tíma, sem umsögnin var send.

 Einnig er bent á að vinna á vegum lögmannsstofunnar hafi lotið að stjórnsýslukæru til menntamálaráðuneytisins en ekki erindi til Samkeppnisstofnunar. Í 11. gr. siðareglna lögmanna sé kveðið á um að lögmaður megi ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra eru andstæðir eða veruleg hætta sé á slíku. Í 2. mgr. 11. gr. komi fram að lögmaður skuli varast að taka að sér nýjan skjólstæðing ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta geti verið á slíku. Samkvæmt tímaskýrslu lögmannsstofunnar hafi vinnu vegna stjórnsýslukærunnar lokið í júní 200x. Ekki hefði því orðið um brot að ræða á siðareglum lögmanna þótt umrædd vinna S, hdl., hefði verið unnin á vegum lögmannsstofunnar, einkum þegar tillit væri tekið til þess að ekki hefði verið um sama mál að ræða.

 IV.

Vegna frávísunarkröfu lögmannsstofunnar var kæranda gefinn kostur á því að upplýsa úrskurðarnefndina um það hvort einhver sérstök atvik hafi valdið því að erindi hans var ekki komið á framfæri við nefndina fyrr en með bréfi hans, dags. 5. maí 2006, sem móttekið var á skrifstofu LMFÍ þann 12. maí. Bent var á að samkvæmt 26. og 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 gæti það varðað frávísun málsins ef meira en eitt ár liði frá því kostur var á að koma erindum til nefndarinnar.

 Kærandi kveðst hafa fengið upplýsingar um gang málsins seint vegna starfa forsvarsmanns fyrirtækisins erlendis frá ársbyrjun 2004 og þar sem almennur póstur hafi ekki borist. Frumrit reikningsins hafi að öllum líkindum borist á rangt heimilisfang. Mest öll samskipti hafi verið með netpósti. Fyrst hafi verið kunnugt um reikninginn í árslok 2005, eftir að dómkvaðning hafi borist, og hafi þá verið gerð athugasemd í símtali við lögmannsstofuna. Þar sem svar hafi ekki borist hafi verið litið svo á að málið hafi fallið niður. Þá hafi forsvarsmaður fyrirtækisins verið frá vinnu frá maí til nóvember 2005 vegna veikinda innan fjölskyldu hans og fráfalls móður. Kærandi kveðst ekki hafa verið upplýstur um það á sínum tíma að S, hdl., hefði hafið störf hjá M hf. þremur dögum eftir að hann ritaði undir greinargerð Q til Samkeppnisstofnunar.

 Niðurstaða

 I.

Samkvæmt 26. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, vísar úrskurðarnefnd lögmanna frá sér ágreiningsmáli um endurgjald fyrir lögmannsstarf, ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því kostur var á að koma erindinu á framfæri við nefndina. Hið sama gildir að því er kvartanir vegna vinnubragða lögmanna varðar, sbr. 27. gr. laganna.

 Hinn umdeildi reikningur í máli þessu var gefinn út 3. júní 2004, um það leyti er máli um stjórnsýslukæru kæranda til menntamálaráðuneytisins vegna starfsemi Q lauk. Í upphaflegu erindi sínu til nefndarinnar kveðst kærandi hafa gert athugasemdir við reikninginn í tölvupósti til lögmannsstofunnar haustið 2004, en ekkert svar hafi borist. Sömu upplýsingar komu fram í bréfi kæranda til lögmannsstofunnar, dags. 27. apríl 2006, en afrit þess bréfs er meðal gagna málsins. Þá ber afrit reikningsins með sér að hann hafi verið lagður fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann xx. apríl 200x þegar innheimta reikningsins var reynd með málsókn gegn kæranda. Með hliðsjón af þessu telur nefndin að meira en eitt ár hafi liðið frá því kærandi átti þess kost að bera ágreining um endurgjaldið undir nefndina. Ber því að vísa málinu frá, sbr. 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

 Ekki kemur fram í gögnum málsins að kærandi hafi fengið vitneskju um það þegar S, hdl., gekk til liðs við eigendur að M hf. í byrjun nóvember 2004. Verður ráðið af skrifum kæranda að það hafi fyrst verið vorið 2006 sem honum var kunnugt um breytinguna. Telur nefndin að sá þáttur málsins, er lýtur að meintum hagsmunaárekstri, sé ekki of seint fram kominn. Er frávísunarkröfu lögmannsstofunnar að þessu leyti því hafnað.

 II.

Samkvæmt gögnum málsins vann S, hdl., að máli fyrir Q vegna erindis kæranda til Samkeppnisstofnunar. Verkið vann hann sem starfsmaður L ehf., en hjá þeirri lögmannsstofu vann hann til loka október 2004. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að hann hafi komið að verkefninu frá því hann undirritaði greinargerð fyrir hönd Q þann 28. október 2004, hvorki meðan hann starfaði enn hjá L ehf. né eftir að hann hóf störf á nýjum vettvangi. Þá er ljóst að þegar hann gekk til liðs við eigendur að M hf. þann 1. nóvember 2004 var nokkrum mánuðum áður lokið því verki sem sú lögmannsstofa hafði unnið að fyrir kæranda með stjórnsýslukæru til menntamálaráðuneytisin.

 Að mati úrskurðarnefndar fól sú breyting á högum S, hdl., þegar hann hætti sem starfsmaður hjá L ehf. og gerðist einn af eigendum að M hf., ekki í sér hagsmunaárekstur að því er varðaði erindi það, sem kærandi á þeim tíma rak fyrir Samkeppnisstofnun eða hættu á slíkum árekstri. Hafa hvorki S, hdl., né M hf. að þessu leyti gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Þeim þætti í erindi kæranda er varðar ágreining um áskilið endurgjald M hf. er vísað frá.

 S, hdl., og M hf. hafa ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna með ritun greinargerðar fyrir Q til Samkeppnisstofnunar og síðar með eignarhaldi lögmannsins í lögmannsstofunni.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA