Mál 18 2006

Ár 2007, þriðjudaginn 19. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2006:

  T

og U

gegn

V, hdl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 8. júní 2006 frá T og U, sóknaraðilum, sem varðar ágreining um vinnubrögð og áskilda þóknun V, hdl., varnaraðila, fyrir störf að erfðamáli í þágu sóknaraðila.

 Afstaða varnaraðila liggur fyrir í bréfi, dags. 6. júlí 2006. Sóknaraðilum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð varnaraðila, sem þeir gerðu í bréfi, dags. 11. september 2006. Varnaraðili gerði nokkrar athugasemdir vegna þessa, í bréfi til nefndarinnar þann 28. nóvember 2006.

 Málsatvik og málsástæður.

  I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í nóvember 2005 ráðfærðu sóknaraðilar sig við varnaraðila um málefni föður síns, kaupmála er hann hafði gert við eiginkonu sína og erfðamál eftir hann. Samkvæmt kaupmálanum voru allmargar eignir taldar vera séreign eiginkonunnar.

 Varnaraðila var veitt umboð sóknaraðila þann 30. nóvember 2005, þar sem varnaraðila var falið að gæta hagsmuna sóknaraðila varðandi erfðamál eftir föður þeirra er lést xx. nóvember 200x.

 Samkvæmt umboðinu náði það til allra nauðsynlegra aðgerða vegna dánarbúsins, þar með talið að óska eftir opinberum skiptum eða að samþykkja fyrir hönd sóknaraðila einkaskipti og að kalla eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum um eignir dánarbúsins hvar og hvenær sem væri.

 Sama dag og gengið var frá umboðinu ritaði varnaraðili bréf til sýslumannsins í Reykjavík, þar sem tilkynnt var um hagsmunagæsluna og kallað eftir upplýsingum um aðgerðir sem þegar hefðu farið fram vegna andlátsins. Einnig var þess óskað að varnaraðila yrðu sendar nauðsynlegar tilkynningar, svo og annað er fylgdi búskiptum, þar með talið heimild til eignakönnunar. Bréfi þessu var svarað með bréfi embættisins, dags. 29. desember 2005, er barst varnaraðila eftir áramótin, þar sem varnaraðila var veitt heimild til þess að fá hjá fjármálastofnunum, opinberum aðilum og öðrum, er kynnu að hafa átt viðskipti við hinn látna, allar þær upplýsingar sem óskað yrði eftir um eignir og skuldbindingar dánarbúsins.

 Á grundvelli þessarar heimildar leitaði varnaraðili eftir upplýsingum frá nokkrum aðilum, eins og nánar kemur fram í gögnum málsins. Flest bréf varnaraðila vegna eignakönnunarinnar eru dagsett 9. janúar 2006 og bárust langflest svör dagana 11.-13. janúar 2006. Nokkur svör bárust í byrjun febrúar og nokkur í mars 2006. Um miðjan mars 2006 var farið fram á mat og skráningu á eignum dánarbúsins með vísan til heimildar í lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991.

 Í byrjun apríl 2006 tóku sóknaraðilar þá ákvörðun að fela mál sitt öðrum lögmanni. Var varnaraðila tilkynnt sú ákvörðun. Varnaraðili gerði reikning fyrir vinnu sína þann 10. apríl 2006, að fjárhæð 149.500 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 186.127 krónur. Reikningsfjárhæðin byggist á tímaskýrslu varnaraðila þar sem skráðir eru 13 tímar á verkið. Tímagjald varnaraðila er 11.500 krónur auk virðisaukaskatts.

 Áskilin þóknun varnaraðila og seinagangur í málinu varð, að sögn sóknaraðila, þeim tilefni erindis þessa, sem hér er til úrlausnar hjá úrskurðarnefnd lögmanna.

 II.

Í erindi sóknaraðila kemur m.a. fram að þeir telja varnaraðila hafa farið seint af stað í vinnu sinni. Það hafi fyrst verið eftir ítrekaðar fyrirspurnir um framgang málsins sem varnaraðili hafi farið að vinna í málinu, eftir áramótin 2005-2006.

 Sóknaraðilar telja að hið eina sem varnaraðili hafi fengið framgengt og frágengið fram til byrjunar apríl 2006 hafi verið að fá upplýsingar um eignastöðu hins látna. Sóknaraðilar telja varnaraðila að öðru leyti hafa sinnt verkinu seint og illa. Þeir telja sig hafa þurft í flestum tilvikum að ýta á eftir varnaraðila til þess að fá eitthvað gert í málinu og að jafnvel hafi varnaraðili ekki sinnt fyrirspurnum um málið. Telja sóknaraðilar vinnubrögð varnaraðila hafa verið ófagleg og ekki í samræmi við venjur. Sóknaraðilar kveðast hafa beðið varnaraðila að útskýra reikninginn fyrir vinnu sína og tímaskráningu í málinu, en án árangurs.

 III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar mótmælir varnaraðili því að hafa unnið of hægt í málinu fyrir sóknaraðila. Jafnframt mótmælir varnaraðili því að hafa gefið út of háan reikning fyrir störf sín í þágu sóknaraðila.

 Í greinargerðinni reifar varnaraðili upphaf afskipta sinna af málinu, en hann kveður það hafa verið rætt á þremur fundum með sóknaraðilanum T í nóvember 2005. Í lok mánaðarins hafi báðir sóknaraðilar komið á fund hjá sér og ritað undir umboð sér til handa, eftir að farið hafði verið yfir málið með þeim. Sama dag hafi verið ritað bréf til sýslumannsins í Reykjavík þar sem óskað var eftir upplýsingum um þær aðgerðir, sem þegar hefðu farið fram vegna andláts föður sóknaraðila og jafnframt hafi verið óskað eftir því að varnaraðila yrðu sendar tilkynningar og annað sem áhrif gæti haft á búskiptin, þar með talin heimild til eignakönnunar.

 Svar við þessu bréfi hafi borist í byrjun janúar 2006. Í framhaldinu hafi verið leitað eftir upplýsingum um eignir hins látna, aðallega hjá fjármálastofnunum en einnig hjá Umferðarstofu og Fasteignamati ríkisins. Varnaraðili kveðst hafa verið í sambandi við sýslumannsembættið á þessum tíma, svo og nokkrar af þeim fjármálastofnunum, sem eignakönnun fór fram hjá. Þá hafi verið haft samband við embætti landlæknis vegna upplýsinga um andlegt heilbrigði föður sóknaraðila síðustu dagana fyrir andlát hans.

 Varnaraðili kveðst hafa fengið upplýsingar um það í janúar 2006, frá sýslumanninum í Reykjavík, að fyrir lægi sameiginleg og gagnkvæm erfðaskrá, en samkvæmt henni hafði ekkja hins látna heimild til setu í óskiptu búi.

 Varnaraðili kveðst hafa verið þeirrar skoðunar að erfitt yrði að tengja ótilgreinda atburði innan fjölskyldu sóknaraðila við gildi erfðaskrár föður þeirra. Hafi sóknaraðilar verið vel upplýstir um þá afstöðu. Varnaraðili kveðst þó hafa talið rétt að afla upplýsinga um eignir búsins, því von væri til þess að kaupmáli hins látna og eiginkonu hans næði ekki til allra eigna búsins. Farið hafi verið fram á við sýslumanninn í Reykjavík að allar eigur búsins yrðu skráðar og metnar.

 Varnaraðili kveðst ávallt hafa lýst efasemdum sínum um að unnt yrði að ógilda kaupmála hins látna og eiginkonu hans vegna þeirra atburða sem sóknaraðili T taldi að hefði leitt til gerðar hans. Henni hefði verið fullkunnugt um þetta mat sitt.

 Varnaraðili telur að ekkert hafi verið athugavert við vinnubrögð sín í þessu máli. Þau hafi ekki verið ófagleg, heldur þvert á móti haf verið brugðist við á venjulegan hátt miðað við mál sem þessi. Sú vinna hefði verið unnin strax og vel.

 Varnaraðili kveður tímaskýrslu er fylgdi reikningi sínum vera í samræmi við unnar klukkustundir.

 IV.

Í ítarlegum athugasemdum sóknaraðila við greinargerð varnaraðila er vikið að allmörgum atriðum er varða vinnubrögð varnaraðila og þann tíma sem fór í einstaka liði í verkinu. Þar á meðal telja sóknaraðilar seinagang varnaraðila hafa gert það að verkum að ekkju föður þeirra var veitt leyfi til setu í óskiptu búi og því ættu þeir ekki jafn greiðan aðgang að upplýsingum úr búinu eins og áður. Telja sóknaraðilar málið hafa einkennst af seinagangi af hálfu varnaraðila og röngum upplýsingum. Kveðast þeir vera tilbúnir að greiða fyrir fyrsta fund með varnaraðila og bréfið er ritað var til sýslumannsins í Reykjavík.

 Í síðara bréfi sínu mótmælir varnaraðili því meðal annars að seinagangur af sinni hálfu hafi valdið því að ekkjunni var veitt leyfi til setu í óskiptu búi. Réttur hennar til slíks hafi byggst á sameiginlegri og gagnkvæmri erfðaskrá hjónanna.

 Niðurstaða.

 I.

Samkvæmt umboði sóknaraðila, dags. 30. nóvember 2005, var varnaraðila veitt heimild til þess að gæta hagsmuna þeirra varðandi erfðamál eftir föður þeirra, sem lést 15. nóvember 2005. Nánar tiltekið náði umboðið til allra nauðsynlegra aðgerða vegna dánarbúsins, þar með talið að óska eftir opinberum skiptum eða samþykkja einkaskipti og kalla eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum um eignir dánarbúsins, hvar og hvenær sem væri.

 Þrátt fyrir orðalag umboðsins er ágreiningslaust að verkefni það, sem sóknaraðilar fólu varnaraðila, tengdist einnig kaupmála sem faðir þeirra hafði gert nokkrum árum áður, þar sem tilteknar eignir voru gerðar að séreign eiginkonu hans. Upplýstu sóknaraðilar í athugasemdum sínum til úrskurðarnefndar að þegar þeir ræddu við varnaraðila hefðu þeir verið að leita lögfræðilegs mats á kaupmálanum.

 Eins og mál þetta liggur fyrir úrskurðarnefnd lögmanna verður það ráðið af fyrirliggjandi gögnum að varnaraðila hafi verið veitt almennt, víðtækt umboð til þess að gæta hagsmuna sóknaraðila í tengslum við dánarbú föður þeirra.

 Telja má eignakönnun, sem hófst fljótlega eftir að heimild var veitt til hennar, hafa verið eðlilegan lið í hagsmunagæslunni. Fram komu m.a. upplýsingar um bankareikninga á nafni hins látna, sem ekki voru taldir upp í kaupmála hjónanna. Að minnsta kosti einn þessara reikninga var með allhárri innistæðu, en út af þeim reikningi höfðu verið millifærðar háar fjárhæðir skömmu fyrir andlátið, í þremur tilvikum daginn fyrir það. Skráning og mat á eignum dánarbúsins gat þannig átt fullan rétt á sér, sérstaklega í ljósi þess að ekkja hins látna hafði á grundvelli gagnkvæmrar erfðaskrár heimild til setu í óskiptu búi eftir hann. Kæmi því ekki til skiptingar dánarbúsins og úthlutunar föðurarfs sóknaraðila meðan ekkjan væri á lífi, nema hugsanlega í því tilviki ef hún færi óráðvandlega með eignir búsins eða hætta væri á slíku.

 Nokkur tími leið frá því upplýsingar bárust um bankareikninga á nafni hins látna og þar til varnaraðili gerði reka að því að afla frekari upplýsinga, svo sem um úttektir. Í millitíðinni var varnaraðili í sambandi við sýslumannsembættið vegna mats og skráningar eigna dánarbúsins, auk þess sem fundur var haldinn með sóknaraðila T í byrjun mars, þar sem ræddar voru frekari aðgerðir. Í ljósi allra atvika málsins er það mat úrskurðarnefndar að ekki hafi orðið óhæfilegur dráttur af hálfu varnaraðila í vinnu að verkefninu.

 Aðila greinir á um ýmislegt í samskiptum þeirra meðan varnaraðili vann að verkefninu. Í sumum tilvikum stendur þar staðhæfing gegn staðhæfingu, sem erfitt er að leggja mat á, sérstaklega ef ekki nýtur við gagna um hin umdeildu atriði.

 Samkvæmt framangreindu telur úrskurðarnefndin að varnaraðili hafi ekki í störfum sínum fyrir sóknaraðila gert á hlut þeirra með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín. Fyrir liggur reikningur varnaraðila, ásamt tímaskýrslu þeirri, sem reikningurinn byggist á. Samkvæmt tímaskýrslunni varði varnaraðili 13 tímum í verkefnið og tímagjaldið er 11.500 krónur auk virðisaukaskatts.

 Eins og áður er fram komið átti varnaraðili nokkra fundi með sóknaraðilum, ýmist báðum eða öðrum þeirra. Varnaraðili annaðist meðal annars eignakönnun og átti í nokkrum samskiptum við embætti sýslumannsins í Reykjavík og fleiri aðila. Að mati úrskurðarnefndar veita framlögð gögn og tímaskýrsla varnaraðila vísbendingu um umfang málsins. Telur nefndin ekki ástæðu til annars en að fallast á áskilda þóknun varnaraðila vegna vinnu sinnar í málinu.

 III.

Eftir að umboð varnaraðila til verksins var afturkallað sendi hún sóknaraðilum reikning fyrir vinnu sína og tímaskýrslu þá, sem reikningurinn byggðist á. Sóknaraðilar óskuðu eftir nánari útskýringum varnaraðila á einstaka tímaeiningum í skránni. Þrátt fyrir ítrekaða beiðni þar að lútandi sendi varnaraðili ekki umbeðnar upplýsingar. Bar henni þó að gera það samkvæmt 15. gr. siðareglna lögmanna. Vanræksla varnaraðila að þessu leyti gagnvart sóknaraðilum er aðfinnsluverð, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Varnaraðili, V, hdl., hefur í störfum sínum fyrir sóknaraðila, T og U, vegna dánarbús föður þeirra, ekki gert á hlut þeirra með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Vanræksla varnaraðila, að senda ekki upplýsingar um tímaskráningu til sóknaraðila samkvæmt beiðni þeirra, er aðfinnsluverð.

 Sóknaraðilar greiði varnaraðila 149.500 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 186.127 krónur.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA