Mál 20 2006

Ár 2007, fimmtudaginn 28. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 20/2006:

  A

gegn

B, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 16. júní 2006 frá A, kæranda, þar sem kvartað var yfir innheimtuaðferðum L hf., sem B, hrl., kærði, veitir forstöðu.

 Kærði sendi nefndinni greinargerð um erindið 11. júlí 2006. Athugasemdir bárust frá kæranda í bréfi, dags. 12. september 2006. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kærða um erindið.

  Málsatvik og málsástæður

  I.

Málsatvik eru þau að þann 25. október 2004 barst kæranda innheimtubréf frá I vegna kröfu T á hendur henni, sem var í vanskilum. Áður en krafan var send í innheimtu hafði kærandi greitt 589.000 krónur til tannlæknastofunnar vegna viðskipta sinna við hana, síðast 93.000 krónur þann 30. apríl 2003.

 Tilgreindur höfuðstóll kröfunnar í innheimtubréfi Intrum nam 143.040 krónum en við bættust dráttarvextir og kostnaður. Kærandi hafði samband við innheimtuaðilann og lét vita um innborgunina á kröfuna þann 30. apríl 2003, að fjárhæð 93.000 krónur. Skömmu síðar, eða þann 24. nóvember 2004, barst nýtt innheimtubréf, þar sem höfuðstóllinn hafði verið lækkaður í 50.040 krónur. Heildarkrafan nam þá 125.273 krónum. Nokkru síðar, eða þann 7. desember 2004, barst kæranda innheimtubréf frá L hf. þar sem sama höfuðstóls var getið auk vaxta og kostnaðar, en krafan þá nam alls 149.327 krónum.

 Þann 25. janúar 2005 barst kæranda enn innheimtubréf frá L hf., en samkvæmt því bréfi nam höfuðstóll skuldarinnar 639.040 krónum auk vaxta og kostnaðar, en að frádregnum innborgunum, alls 589.000 krónum. Eftirstöðvar kröfunnar, dráttarvaxta og kostnaðar samkvæmt bréfinu námu 310.170 krónum.

 Kærandi greiddi inn á kröfuna 25.000 krónur þann 25. mars 2005 og sömu fjárhæð þann 6. maí 2005. Þann 12. maí 2005 var þingfest mál, sem höfðað var gegn kæranda vegna kröfunnar. Dómkrafan var sett upp á sama hátt og krafan samkvæmt innheimtubréfinu frá 25. janúar 2005, að frátöldum kostnaði. Útivist varð af hálfu kæranda og var fallist á dómkröfur stefnanda málsins með áritun á stefnuna um aðfararhæfi þann 16. júní 2005.

 Kærandi greiddi 140.000 krónur inn á kröfuna þann 11. nóvember 2005 og 188.563 krónur þann 28. ágúst 2006.

 II.

Kærandi kveðst vera ósátt við það hvernig kröfufjárhæðinni var breytt hjá kærða, úr 50.040 krónum í 639.040 krónur, en síðarnefnda talan var heildarkostnaður tannviðgerða hjá T ehf. Á þá upphæð væru síðan lagðir fullir dráttarvextir.

 Kærandi kveðst hafa staðið við greiðslur til tannlæknastofunnar eins og um hafi verið samið og ýmist greitt á tannlæknastofunni eða lagt inn á bankareikninga hennar.

 Kveðst kærandi óska eftir því að úrskurðarnefndin kynnti sér málsatvik og úrskurðaði hið rétta í málinu.

 III.

Kærði kveðst hafa fengið til innheimtu kröfu vegna viðskipta kæranda við T ehf. Hafi krafan upphaflega aðeins numið eftirstöðvun, óvaxtareiknuðum að mestu leyti. Síðar hefði málinu verið breytt yfir í innheimtu á heildarkröfu kröfuhafans samkvæmt yfirliti um viðskiptin. Á grundvelli yfirlitins hefði kæranda verið stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og hún krafin um greiðslu skuldarinnar auk vaxta. Í stefnunni hefði viðskiptunum verið lýst og gerð grein fyrir kröfunni og innborgunum, auk þess sem þar hefði verið lögbundin áskorun og viðvörun til kæranda. Málið hefði verið þingfest þann xx. maí 200x og dómtekið sama dag, enda hefði ekki verið mætt af hálfu kæranda. Fallist hefði verið á dómkröfur stefnanda og stefnan árituð um aðfararhæfi þann xx. júní 200x.

 Kærði kveðst hafna því að nokkuð óeðlilegt hefði verið við framgang innheimtunnar eða það að kröfuhafinn hafi ákveðið að reikna fulla vexti á kröfu sína þegar kærandi sinnti ekki kröfum um greiðslu lægri fjárhæðar. Þá kveðst kærði einnig styðja málatilbúnað sinn við það að kæranda hafi borið að hafa uppi mótbárur fyrir dómi. Hún geti ekki krafist endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms fyrir úrskurðarnefndinni.

 Kærði kveðst að lokum geta upplýst að þann 26. ágúst 2005 hafi kæranda verið gefinn kostur á að ljúka kröfunni með helmings afslætti af áföllnum vöxtum, en það hafi hún ekki nýtt sér.

 Niðurstaða

 I.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf, sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

 Í hagsmunagæslu fyrir umbjóðendur sína ber lögmönnum að sýna gagnaðilum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum umbjóðendanna, sbr. 34. gr. siðareglna lögmanna. Er lögmanni þannig ekki heimilt, til framdráttar málum umbjóðanda síns, að beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, sbr. 35. gr. reglnanna, og skal lögmaður jafnan fyrir lögsókn kynna gagnaðila framkomnar kröfur umbjóðanda síns og gefa kost á að ljúka máli með góðu, sbr. 36. gr. reglnanna.

 II.

Samkvæmt gögnum málsins keypti kærandi þjónustu hjá T ehf. frá febrúar 2001 til maí 2002. Á því tímabili voru gefnir út 28 reikningar, samtals að fjárhæð 639.040 krónur. Kærandi greiddi í nokkur skipti alls 589.000 krónur til tannlæknastofunnar. Mismunurinn nam 50.040 krónum og fól tannlæknastofan þá kröfu I til innheimtu haustið 2004. Síðar, eða eftir að lögmannsstofa kærða hafði tekið við innheimtunni, var honum falið að innheimta kröfu tannlæknastofunnar frá upphafi viðskiptanna og voru þá útgefnir reikningar dráttarvaxtareiknaðir að því marki sem innborganir kæranda dugðu ekki til greiðslu þeirra.

 Að mati úrskurðarnefndar lögmanna verður að leggja til grundvallar að ákvörðun um innheimtu viðskiptakröfunnar hafi verið tekin af kröfuhafanum, tannlæknastofunni, þar á meðal ákvörðun um breytingu á innheimtufyrirkomulaginu sem tekin var skömmu eftir að lögmannsstofa kærða tók við málinu.

 Að mati nefndarinnar fól fyrrgreind stefnubreyting kröfuhafans um innheimtufyrirkomulagið það í sér að hann taldi sig eiga hærri kröfu á hendur kæranda en hann hafði upphaflega reynt að fá innheimta. Telur nefndin að kærða hafi borið að gæta hagsmuna kröfuhafans við innheimtuna eftir sem áður, sbr. áðurnefnd 18. gr. lögmannalaga.

 Á það reyndi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hvort krafa tannlæknastofunnar væri lögvarin eður ei. Fallist var á kröfuna fyrir dómi, enda var ekki haldið uppi vörnum af hálfu kæranda. Úrskurðarnefnd lögmanna er lögum samkvæmt ekki bær um að fjalla um réttmæti dómsniðurstöðunnar.

 Það er mat nefndarinnar að kærði hafi, í innheimtustörfum sínum gagnvart kæranda, ekki gert á hennar hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Kærði, B, hrl., hefur við innheimtu á kröfu T ehf. á hendur kæranda, A, ekki gert á hennar hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA