Mál 21 2006

Ár 2007, fimmtudaginn 12. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 21/2006:

  S

gegn

J, hdl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 15. júní 2006 frá P, hrl., fyrir hönd S, kæranda, þar sem kvartað var yfir drætti á uppgjöri innheimtumála, sem J, hdl., kærða, hafði verið falið að annast.

 Vegna flutnings kærða á starfsstöð sinni og breytingar á netfangi bárust honum gögn málsins og ítrekuð tilmæli nefndarinnar, þ. á m. í ábyrgðarbréfi, um að skila greinargerð af sinni hálfu, ekki fyrr en í lok október 2006.

 Lögmaður kæranda sendi nefndinni tölvupóst þann 29. nóvember 2006 þar sem fallist var á beiðni kærða um viðbótarfrest og var honum veittur frestur til 15. janúar 2007 til þess að skila greinargerð um málið.

 Kærði sendi nefndinni greinargerð um erindið í bréfi, dags. 15. janúar 2007. Athugasemdir bárust frá kæranda í bréfi, dags. 14. febrúar 2007. Kærða var gefinn kostur á að tjá sig frekar um málið, með fresti til 30. apríl 2007 til að senda inn skriflegar athugasemdir sínar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá honum.

 Málsatvik og málsástæður

  I.

Málsatvik eru þau að á árunum 2001 til 2004 annaðist kærði innheimtu fyrir kæranda á ýmsum kröfum er voru í vanskilum. Samkvæmt gögnum málsins kallaði kærandi eftir upplýsingum frá kærða um stöðu innheimtumálanna haustið 2004, sundurliðun krafna eftir kennitölu greiðanda, innborgun á hvert mál o.s.frv. Kærandi ítrekaði kröfur sínar um upplýsingar frá kærða um stöðu innheimtumálanna út árið 2004 og fram eftir árinu 2005. Í nóvember 2005 fól kærandi öðrum lögmanni að afla umbeðinna upplýsinga og voru kærða send bréf af því tilefni þann 26. nóvember og 29. desember 2005. Í síðast nefnda bréfinu var kærða veittur lokafrestur til 10. janúar 2006 til þess að verða við beiðni um upplýsingar.

 II.

Kærandi kveður kærða ekki hafa sinnt marg ítrekuðum beiðnum sínum um að fá send yfirlit vegna innheimtumálanna. Þá kveður kærandi kærða aldrei hafa gert upp mál við sig.

 Kærandi telur sig hafa vitneskju um að kærði hafi í einhverjum tilvikum tekið við greiðslum til lúkningar ákveðnum málum og innborgunum á önnur mál. Hins vegar hefði kærandi ekki fengið yfirlit um þessar greiðslur og mál hefðu ekki verið gerð upp við sig. Kærandi kveðst helst skilja það svo að kærði hafi talið sér heimilt að taka innborganir inn á þóknun, en hann hefði ekki sent sér reikninga vegna þessarar meðferðar fjármuna sinna.

 Kærandi vísar til 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, og krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna geri athugasemdir við vinnubrögð kærða og veiti honum áminningu.

  III.

Kærði mótmælir staðhæfingum kæranda um að hann hefði ekki sinnt beiðnum um að senda yfirlit og að hann hefði aldrei gert upp við kæranda vegna innheimtumála á tímabilinu 2001-2004. Útprentanir úr innheimtukerfi lögmannsstofu sinnar sýni að málum hafi verið skilað bæði til kæranda og R.

 Kærði getur þess í greinargerð sinni að nokkrar kröfur, sem innheimtar hefðu verið, væru ófrágengnar, þ.e.a.s. að ekki hefði verið gert upp við kæranda. Í því sambandi yrði að hafa í huga að eftir að innheimtuferli var hafið hefðu skuldarar iðulega haft beint samband við kæranda, sem eftir atvikum óskaði þess að mál yrðu sett í bið, afturkallaði kröfur eða gerði samkomulag um greiðslur, án þess að ganga frá greiðslum við kærða og án þess að upplýsa um gang mála. Í þeim málum hafi greiðslur runnið beint til kæranda án milligöngu kærða.

 Kærði heldur því fram að oft hafi verið rætt við kæranda um að rétt væri að skuldajafna greiðslum móti kostnaði í þeim málum, sem kærandi fékk greidd beint til sín, án samráðs við kærða. Af þessum ástæðum hafi greiðslum verið haldið eftir þegar kröfur voru greiddar beint til lögmannsstofunnar og talið að samkomulag væri um þá tilhögun, enda hafi ekki verið gerðar athugasemdir við það af hálfu kæranda fyrr en í tölvupósti, dagsettum 4. mars 2005. Þar hafi verið gerð athugasemd við fjárhæð kostnaðar, eftir að yfirlit um kostnað hafði verið sent til kæranda.

 Kærði kveður aldrei hafa verið gert samkomulag við lögmannsstofu sína um afslátt af þóknun og væri hún því reiknuð samkvæmt innheimtuforriti eftir gjaldskrá lögmannsstofunnar.

 Kærði bendir á að sumarið 2002 hafi verið stungið upp á því, að frumkvæði sveitarstjóra kæranda, að gerður yrði sérstakur samningur við lögmannsstofuna vegna innheimtumála og annarrar vinnu fyrir kæranda. Uppkasti að samningi hafi verið komið til kæranda þar sem m.a. var kveðið á um afslátt í innheimtumálum. Engin viðbrögð hafi fengist við uppkastinu, hvorki höfnun né samþykki. Ári síðar hafi kærandi samið við aðra lögmannsstofu um innheimtur og önnur verkefni. Kærði bendir á í þessu sambandi að aldrei hafi verið samið við sig um afslætti af vinnu við rekstur innheimtumála fyrir kæranda og engar kröfur hafi borist frá kæranda frá miðju ári 2003.

 Í tilefni af staðhæfingu um að engin yfirlit hafi verið send kæranda bendir kærði á afrit tölvupósts, dags. 12. janúar 2004, en þar komi fram að kæranda voru send yfirlit þann dag. Jafnframt hafi verið beðið um upplýsingar um innborganir og niðurfellingar í málum, sem gerð voru beint upp við kæranda. Engin svör hafi borist. Þá hafi einnig verið sendur listi til kæranda með tölvupósti þann 4. mars 2005 vegna kostnaðar.

 Með greinargerð kærða til nefndarinnar fylgdi afrit bréfs hans til kæranda, dagsett sama dag og greinargerðin. Kærði bendir á að þar komi m.a. fram að inneign lögmannsstofu kærða vegna vinnu fyrir kæranda í innheimtumálum hafi numið rúmlega 2,5 milljónum króna. Um sé að ræða mál sem virðist hafa verið greidd beint til kæranda eða sem kærandi samdi sjálfur um greiðslufyrirkomulag í, án þess að málin hefðu verið gerð upp við lögmannsstofu kærða.

 Kærði krefst þess að kæru kæranda verði vísað frá nefndinni sem tilhæfulausri, þrátt fyrir að lögmannsstofa sín beri sinn hluta ábyrgðar á því samskiptaleysi, sem óneitanlega væri meginskýringin á þeirri óánægju sem upp væri komin milli aðila.

 IV.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða er m.a. bent á að samkvæmt tölvupóstum, sem lagðir hafi verið fram, sé augljóst að umbeðnar upplýsingar hafi ekki verið veittar. Einnig er vísað til bréfs lögmanns kæranda til kærða, dags. 26. nóvember 2005, þar sem óskað var eftir upplýsingum um innheimtumál sem kærði var með fyrir kæranda. Þær upplýsingar, sem þar var óskað eftir, hafi enn ekki verið veittar, þótt ráða megi af greinargerð kærða að það hafi verið gert.

 Kærandi bendir á að kærði vísi til lista sem fylgt hafi greinargerð hans og telji þá sýna að málum hafi verið skilað. Kærandi kveður af þessum yfirlitum ekki verða séð að málum hafi verið skilað eða þau gerð upp við sig. Það tölvukerfi sem kærði noti geri ráð fyrir að skilagreinar séu gerðar til kröfuhafa og því sé mjög einfalt fyrir hann að gera grein fyrir þeim málum, sem hann hafi gert upp við kæranda, ef það sé það sem hann eigi við. Kærandi telur sig eiga ótvíræðan rétt á því að kærði geri grein fyrir hvernig hann hafi staðið að innheimtu þeirra mála sem honum voru falin.

 Kærandi bendir á að í greinargerð kærða sé viðurkennt að nokkrar kröfur, sem hafi verið innheimtar, séu ófrágengnar. Kærandi kveðst mótmæla fullyrðingum um að það hafi verið vandamál í samskiptum aðila að hann hafi tekið við greiðslum á kröfum sem kærði var með í innheimtu án þess að láta kærða vita um það. Kærandi kveðst hafa látið vita um þetta í tölvupósti eða í símbréfi, í þeim tilvikum sem þetta kom fyrir. Kærandi kveðst ekki kannast við að rætt hafi verið eða samið um að kærði gæti skuldajafnað greiðslum vegna innheimtumála á móti kostnaði af málum, sem greidd væru beint til kæranda.

 Kærandi kveður það skipta máli að kærði hafi ekki gert grein fyrir gangi innheimtumála. Hann hafi ekki skilað innheimtufé heldur beitt skuldajöfnuði sem hlyti að teljast í besta falli mjög vafasamt að honum væri heimilt að beita. Kærði hafi ekki gefið út reikninga þannig að kærandi gæti séð hvað væri að gerast í innheimtumálum sínum.

 Kærandi telur málið ekki snúast á þessu stigi um það hvort kærði eigi inni hjá sér þóknun vegna innheimtumála. Málið snúist eðlilega og sjálfsagða upplýsingagjöf lögmanns við skjólstæðing sinn og skil á innheimtufé. Kærandi bendir í því sambandi á 1. mgr. 12. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 og reglugerð nr. 1192/2000. Þá vekur kærandi athygli á því að kærði leggi ekki fram nein gögn úr bókhaldi sínu sem sýni hvernig innheimtum fjármunum hafi verið ráðstafað eða hvort að þeir séu inni á fjárvörslureikningi.

 

Niðurstaða

 I.

Í greinargerð kærða er krafist frávísunar málsins þar sem kæra kæranda sé tilhæfulaus. Úrskurðarnefnd lögmanna fellst ekki á þá röksemd kærða og er frávísunarkröfu hans hafnað.

 II.

Samkvæmt 13. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður halda fjármunum skjólstæðings aðgreindum frá eigin fé, í samræmi við ákvæði reglna um fjárvörslureikninga lögmanna. Skal lögmaður ávallt vera fær um að standa skil á þeim fjármunum sem hann varðveitir fyrir skjólstæðing sinn. Regla þessi fær stoð í 23. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

 Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. siðareglnanna ber lögmanni, án ástæðulauss dráttar, að gera skjólstæðingi skil á innheimtufé og öðrum fjármunum, sem lögmaður hefur móttekið fyrir hönd skjólstæðings síns. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er lögmanni þó ávallt rétt að halda eftir nægu fé til tryggingar greiðslu áfallins verkkostnaðar þeirra mála sem lögmaður hefur til meðferðar fyrir skjólstæðing sinn á hverjum tíma, enda geri lögmaður skjólstæðingi viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði. Uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skulu vera greinargóð, sbr. 3. mgr. 14. gr. siðareglnanna.

 Samkvæmt 15. gr. siðareglnanna ber lögmanni að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli.

 Í máli þessu er annars vegar kvartað yfir því að kærði hafi ekki sinnt ítrekuðum beiðnum kæranda um að senda yfirlit vegna þeirra innheimtumála, sem honum var falið að annast, en hins vegar er kvartað yfir því að kærði hafi aldrei gert upp mál við kæranda, þrátt fyrir að kærði hafi tekið við greiðslum í ýmsum málum.

 Að mati úrskurðarnefndar kemur til skoðunar í máli þessu hvort kærði hafi í störfum sínum brotið gegn framangreindum ákvæðum siðareglna lögmanna og lögmannalaga.

 III.

Að því er fyrra umkvörtunaratriðið varðar þá liggja fyrir í málinu nokkur gögn um samskipti fjármálastjóra kæranda við lögmannsstofu kærða vegna innheimtumálanna. Af þeim gögnum,  aðallega tölvupósti, má ráða að kærandi óskaði ítrekað eftir gögnum og upplýsingum frá kærða um innheimtumálin sem honum hafði verið falið að annast, þar á meðal sundurliðun kostnaðar í þessum málum. Þá fór kærandi ítrekað fram á greiðslur frá kærða vegna þess, sem greitt hafði verið til hans.

 Af hálfu kærða virðist í fá skipti hafa verið send yfirlit um innheimtumálin og a.m.k. í einu tilviki virðist hafa verið send tillaga að afskriftum nokkurra mála. Þrátt fyrir það benda þessi samskipti aðila, eins og þau birtast í gögnum málsins, til þess að í mörgum tilvikum hafi mjög dregist hjá kærða að gera kæranda á einhvern hátt grein fyrir stöðu innheimtumálanna. Hafa í sumum tilvikum liðið margar vikur, jafnvel mánuðir, án þess að kærði yrði við ítrekuðum óskum kæranda um gögn og upplýsingar.

 Samkvæmt gögnum málsins voru síðustu samskipti aðila haustið 2005. Þá virðist ítrekað hafa verið kallað eftir upplýsingum og gögnum frá kærða, síðast í bréfum P, hrl., þann 26. nóvember og 29. desember 2005. Í bréfinu þann 26. nóvember var sérstaklega óskað eftir yfirliti úr tölvukerfi kærða, þar sem fram kæmu allar kröfur í innheimtu, allar innborganir og þá hvenær greitt hefði verið. Einnig var óskað eftir yfirliti um stöðu mála í innheimtuferlinu og eftir atvikum mat kærða á möguleikum á innheimtu einstakra krafna. Ekki er að sjá að kærði hafi svarað þessum tilmælum kæranda um upplýsingar.

 Að mati úrskurðarnefndar lögmanna voru starfshættir kærða að þessu leyti algjörlega óviðunandi og ekki í samræmi við starfsskyldur hans gagnvart umbjóðanda sínum.

 IV.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, aðallega tveimur stöðuyfirlitum frá kærða, dags. 15. janúar 2007, tók hann við rúmlega 2,7 milljónum króna vegna innheimtumála fyrir kæranda og rúmlega 1,5 milljónum króna fyrir rafveitu kæranda, frá því honum var falið að annast innheimtumálin. Af þessum fjármunum greiddi kærði 590.000 krónur til kæranda og 732.000 krónur til rafveitunnar.

 Kærði heldur því fram að hann hafi talið vera í gildi samkomulag við kæranda um að hann gæti notað peninga, sem greiddir væru inn á hin ýmsu mál, til þess að skuldajafna við kostnað í öðrum málum, þ. á m. málum sem gerð voru upp eða greitt var inn á beint til kæranda. Kærandi kveðst ekki kannast við að samið hafi verið við kærða um þess háttar skuldajöfnuð.

 Eins og áður er getið ber lögmanni að gera án ástæðulauss dráttar upp við skjólstæðing sinn innheimtufé sem hann hefur móttekið í störfum sínum. Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði í 2. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni heimilt að halda eftir nægu fé til tryggingar greiðslu áfallins verkkostnaðar þeirra mála sem lögmaðurinn hefur til meðferðar fyrir skjólstæðing sinn á hverjum tíma. Áskilið er í þessu ákvæði að til þess að því verði beitt verði lögmaðurinn að gera skjólstæðingi sínum viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði sem hann er að tryggja greiðslu á.

 Eins og áður er komið fram leitaði kærandi ítrekað eftir upplýsingum um kostnað af innheimtustörfum kærða. Þá fór kærandi ítrekað fram á greiðslur frá kærða, en án árangurs. Úrskurðarnefnd lögmanna telur að gegn neitun kæranda hafi kærða ekki tekist að sýna fram á að í gildi hafi verið samkomulag um skuldajöfnuð innborgana og kostnaðar. Við þær aðstæður bar honum að gera kæranda viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði, er hann hugðist tryggja greiðslu á með því að halda innheimtufé í sínum vörslum. Að öðrum kosti bar honum að greiða innheimtuféð til kæranda.

 Þá bar kærða að gefa út reikninga í þeim tilvikum þar sem skilyrði voru til staðar um greiðslu kostnaðar. Kveður kærandi enga reikninga hafa verið gefna út. Er það brýnt brot á 15. gr. siðareglna lögmanna.

 Samkvæmt framangreindu innheimti kærði all nokkra fjármuni fyrir kæranda og rafveitu hans frá því honum var falið að annast innheimtur krafnanna. Ekki lá fyrir samkomulag um heimild kærða til þess að beita skuldajöfnuði á innheimtufé gagnvart kostnaði í öðrum málum. Þá hefur kærði ekki gert kæranda viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði, er hann hugðist tryggja greiðslu á með innheimtufénu. Kærði hefur ekki greitt til kæranda og rafveitunnar nema rétt um 31% af því fé er hann innheimti.

 Að mati úrskurðarnefndar hefur kærði vanrækt starfsskyldur sínar samkvæmt 14. og 15. gr. siðareglna lögmanna. Telur nefndin, í ljósi atvika málsins, um ámælisverða framkomu að ræða af hálfu kærða. Með vísan til 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er kærða veitt áminning fyrir brot sín.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Kærði, J, hdl., sætir áminningu fyrir brot á 14. og 15. gr. siðareglna lögmanna.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA