Mál 5 2006

Ár 2007, fimmtudaginn 12. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2006:

  V

gegn

E, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 27. janúar 2006 frá V, kæranda, þar sem kvartað var yfir meðferð E, hdl., kærða, á slysamáli kæranda gegn Í hf. og reikningsgerð kærða vegna málsins.

 Kærði sendi nefndinni bréf, dags. 6. mars 2006, þar sem hann tilkynnti að samkomulag hefði orðið milli sín og lögmanns kæranda um að gengið yrði frá greiðslu þóknunar fyrir atbeina sinn að málinu, þegar uppgjör færi fram. Vegna þessa samkomulags fór kærði fram á að málið yrði fellt niður á vettvangi úrskurðarnefndar, þar sem ekki væri lengur forsenda fyrir frekari framvindu þess.

 Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um beiðni kærða um niðurfellingu málsins. Í tölvupósti kæranda til nefndarinnar þann 10. maí 2006 var fallist á ósk kærða um niðurfellingu þess hluta málsins er sneri að reikningsgerð hans. Kærandi kvaðst engu síður fara fram á við úrskurðarnefndina að hún kannaði og tæki afstöðu til þess atriðis er nefnt væri í rökstuðningi með upphaflegu kærunnu, um möguleg hagsmunatengsl kærða við tryggingafélagið. Kvaðst kærandi telja það skipta miklu fyrir almenningshagsmuni að trúnaðarstörf lögmanna fyrir skjólstæðinga sína væru hafin yfir allan grun um hagsmunaárekstra.

 Kærða var gefinn kostur á að tjá sig um þennan þátt í erindi kæranda og sendi hann nefndinni greinargerð sína þar að lútandi þann 31. maí 2006. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerðina í bréfi, dags. 10. júlí 2006. Kærði tjáði sig frekar um málið í bréfi, dags. 18. september 2006.

 Af hálfu úrskurðarnefndar lögmanna var kallað eftir upplýsingum frá kærða um hvort viðskiptatengsl væru milli lögmannsstofu hans og/eða tengdra félaga og Í hf. og/eða tengdra félaga. Hefur kærði svarað fyrirspurn nefndarinnar og veitt umbeðnar upplýsingar.

Málsatvik og málsástæður

  I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að þann xx. mars 200x lenti kærandi í umferðarslysi og slasaðist illa. Hún fól kærða að gæta hagsmuna sinna gagnvart Í hf. vegna bótakröfu sinnar. Umboð kæranda til kærða er dagsett xx. mars 200x. Kærði hófst fljótlega handa um gagnaöflun og stóð hún yfir fram á vor 2005.

 Í byrjun árs ákvað kærandi að leita aðstoðar annars lögmanns við innheimtu slysabóta sinna og tilkynnti kærða í febrúar 2005 að þjónustu hans væri ekki lengur óskað. Kærði gaf út reikning fyrir vinnu sína þann 19. apríl 2005 og nam áskilin þóknun 182.500 krónum auk virðisaukaskatts. Kærandi taldi sitthvað athugavert við reikningsgerðina og ákvað að bera málið undir úrskurðarnefnd lögmanna. Í tengslum við þann þátt málsins er laut að þóknun og reikningsgerð taldi kærandi vera ástæðu til þess að nefndin athugaði sérstaklega hvort óeðlilegt tengsl væru milli lögmannsstofu kærða og Í hf.

 II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna kveðst kæranda vera kunnugt um að kærði væri fyrrverandi starfsmaður tryggingafélagsins og hann hefði raunar notað það í þeirra fyrsta samtali sem sérstök rök fyrir því að hún gæti sérlega vel treyst honum til að annast bótakröfuna á hendur félaginu. Kærandi kveður reynslu sína af störfum kærða gefa sér ástæðu til að ætla að væru hagsmunir sínir aðrir en hagsmunir tryggingafélagsins tæki hann hagsmuni þess fram yfir sína. Ljóst væri að hann hefði hag af því að félagið héldi áfram að benda þeim, sem lentu í tjóni, á að fyrirtæki hans væri hið besta til að sjá um bótamál. Kærandi kveðst hafa fengið það á tilfinninguna að lögmannsstofu kærða væri meira í mun að viðhalda viðskiptasamböndum sínum við tryggingafélagið heldur en að halda fram bótakröfu sinni af ítrustu hörku.

 III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndarinnar rekur kærði rekstur slysamálsins fyrir kæranda. Gerir hann þar nánari grein fyrir gagnaöflun í málinu og á hvaða stigi málið var þegar kærandi leitaði með það til annars lögmanns. Kveður hann beðið hafa verið eftir lokavottorðum svo setja mætti kæranda í örorkumat, þ.e. ef gögnin bærust og staðfestu að örorkumat væri tímabært. Kærði kveður yfirlit um vinnu á lögmannsstofu sinni að skaðabótamálinu fyrir kæranda staðfesta að unnið hafi verið með eðlilegum hætti að málinu. Grunur sinn væri hins vegar sá að kærandi væri þannig umbjóðandi að erfitt væri að gera henni til hæfis og að væntingar hennar til málshraða væru meiri en með sanngjörnum hætti væri hægt að reikna með.

 Kærði kveður því slegið fram í erindi kæranda, algjörlega órökstuddu, að um möguleg hagsmunatengsl milli sín og Í hf. væri að ræða. Kærði kveður hér um mjög alvarlega ávirðingu að ræða þar sem vegið væri að starfsheiðri sínum. Kærði kveðst hafa hafið störf hjá tryggingafélaginu rétt eftir útskrift úr lagadeild, eða um haustið 199X. Hann kveðst hafa starfað þar um 5 ára skeið, eða fram í desember 199X. Fyrstu árin kveðst hann hafa unnið í x-deild félagsins, framan af sem almennur starfsmaður, en síðar sem deildarfulltrúi. Síðasta árið hafi hann verið deildarstjóri í P-félagi Íslands hf.

 Kærði kveðst telja að sé meintur hagsmunaárekstur byggður á því einu að hann hefði fyrir x árum verið starfsmaður félagsins, þá sé sú ályktun í besta falli hlægileg en í versta falli tilraun til að sverta þann góða árangur sem hann hefði náð í þessum málaflokki. Kærði kveðst vera með verulegan fjölda skaðabótamála í gangi gegn öllum tryggingafélögunum og að hann gerði sitt ítrasta til þess að gæta í hvívetna hagsmuna skjólstæðinga sinna. Besta staðfesting þess væri sú að flestir viðskiptamenn sínir væru komnir í viðskipti fyrir ábendingar frá eldri viðskiptamönnum, eins og hefði átt við í tilviki kæranda. Kærði fullyrðir að engin hagsmunatengsl séu milli sín og Í hf. og hann fullyrðir jafnframt að annarleg sjónarmið hljóti að búa að baki erindi kæranda, þar sem það væri algjörlega órökstutt.

 Í greinargerði sinni lýsir kærði nánar umfangi viðskipta sinna á þessu sviði, deildaskiptingu á lögmannsstofunni og hversu margir ynnu í þeirri deild er sinnti skaðabótamálum. Kærði kveður það leiða af sjálfu sér að útilokað sé og algjörlega óhugsandi að dreginn væri taumur einhvers eins tryggingafélags á kostnað umbjóðenda sinna, eins og ýjað væri að í erindi kæranda.

 Kærði kveðst telja útilokað að störf sín fyrir Í hf. fyrir x árum gætu valdið vanhæfi sínu nú. Hins vegar hefðu meðeigendur sínir að lögmannsstofu bent sér á, eftir að kæra kæranda kom fram, að á vegum lögmannsstofunnar hefði verið unnið lítillega fyrir eigendur Í hf., sem leitt hefði til þess að unnin hefðu verið einstaka verkefni fyrir félagið á sviði félagaréttar, einu sinni á sviði samkeppnisréttar og nokkrum sinnum aðstoð við samningagerð í tengslum við kaup á fyrirtækjum, sem í engum tilvikum hefðu tekið til sjálfrar vátryggingastarfseminnar. Kærði kveður þóknun lögmannsstofunnar vegna þessarar þjónustu hafa numið um eða innan við 1% af heildartekjum stofunnar. Á sama tíma hefðu tekjur stofunnar vegna vinnu að slysamálum gegn tryggingafélögunum numið um helmingi heildartekna hennar.

 Kærði bendir á að þegar litið væri til þess að hagsmunir lögmannsstofunnar féllu greinilega með þeim viðskiptavinum sem sæktu rétt sinn á hendur tryggingafélögunum, að starfsemi lögmannsstofunnar væri deildaskipt, þar sem engar upplýsingar gengju á milli um verkefni í hverri deild, með hliðsjón af því hversu litlar þjónustutekjur lögmannsstofan hefði haft frá Í hf. og með tilliti til eðlis þeirra verkefna sem unnin hefðu verið fyrir félagið, þá væri enginn vafi í sínum huga að enginn fótur væri fyrir umkvörtun kæranda á hendur sér.

 IV.

Kærandi gerði m.a. þá athugasemd við greinargerð kærða að hann hefði veist að persónu fyrrum umbjóðanda síns með ummælum þess efnis að kærandi væri þannig umbjóðandi að erfitt væri að gera henni til geðs. Það gæti vart talist góðum lögmanni sæmandi að komast þannig að orði. Þá bendir kærandi á að kærði upplýsi, að ábendingu meðeigenda sinna, að lögmannsstofa hans hafi undanfarin ár unnið lítillega fyrir eigendur Í hf., m.a. á sviði félagaréttar og samningsgerðar. Þetta samræmdist ekki fullyrðingu kærða framar í greinargerð hans um að alls engin hagsmunatengsl væru milli sín og tryggingafélagsins. Kærandi kveður ummæli kærða, um að annarleg sjónarmið byggju að baki erindi sínu, vera algjörlega órökstudd og væri þeim harðlega mótmælt. Kæran væri tilkomin vegna ítrekað seinagangs og tafa í málarekstri kærða, sem komið hefðu sér illa fyrir líf sitt og heilsu og hefðu valdið sér verulegu tjóni og óþægindum.

 Í athugasemdum kærða kveðst hann mótmæla því að hafa veist að persónu kæranda. Þvert á móti hefði hann farið mjög hófstilltum orðum um kæranda, þrátt fyrir alvarlegar og óréttmætar ásakanir í sinn garð. Kærði kveðst ekki telja það vera hagsmunatengsl milli sín og Í hf. þótt einn meðeigenda sinn að lögmannsstofunni ynni tímabundið að verkefnum á sviði félagaréttar fyrir fyrrum eigendur tryggingafélagsins. Kærði vekur einnig athygli á því að sú deild sem hann stýrir á lögmannsstofunni er algjörlega sjálfstæð og sinnir einvörðungu skaðabótamálum. Engar upplýsingar gangi milli þeirrar deildar og starfsmanna hennar og annarra deilda og starfsmanna á lögmannsstofunni. Starfsemin sé deildarskipt og Kínamúrar á milli. Ef þessar ráðstafanir dygðu ekki þá væru flestar stærri lögmannsstofur landsins í verulegum vandræðum.

 V.

Vegna þess þáttar í erindi kæranda er varðaði hugsanleg hagsmunatengsl kærða við Í hf. sendi úrskurðarnefnd lögmanna fyrirspurn til hans um það efni. Óskað var eftir upplýsingum frá honum um það hvort lögmannsstofa hans og/eða tengd félög væri með í gildi samning við Í hf. og/eða tengd félög um fast viðskiptasamband er varðaði til dæmis lögmannsþjónustu, innheimtuþjónustu o.s.frv. Jafnframt var óskað upplýsinga um það hvert væri umfang þjónustunnar ef í gildi væri slíkur samningur.

 Í svari kærða kom m.a. fram að ekki væri í gildi samningur milli lögmannsstofu hans og Í hf. og/eða tengdra félaga um lögmannsþjónustu, innheimtuþjónustu o.s.frv. Slíkir samningar væru hvorki í gildi nú né hefðu slíkir samningar verið í gildi áður. Að því er varðaði störf lögmannsstofunnar fyrir Í vísaði kærði til fyrra svars síns til nefndarinnar. Kærði benti á að við sölu hlutafjár Í-eignarhaldsfélags hf. til X hf. vorið 2006 hafi verið slitið á þá eigendatengdu vinnu sem lögmannsstofan hefði unnið fyrir Í og tengd félög. Þá upplýsti kærði að lögmannsstofan væri ekki eigandi að öðrum félögum sem störfuðu í þágu Í og/eða tengdra félaga, hvorki við innheimtuþjónustu né aðra þjónustu.

 Kærði kvað tvo hluthafa í lögmannsstofunni eiga eignarhlut í innheimtufyrirtæki, en kærði ætti þar engan hlut.

 Niðurstaða

 I.

Erindi það, sem hér er til úrlausnar og sætt hefur nokkrum breytingum eftir að það barst úrskurðarnefnd lögmanna, lýtur nú einvörðungu að meintum tengslum kærða og Í hf. og hagsmunaárekstrum er slíkum tengslum kynnu að fylgja.

 Kærandi styðst helst við þau rök í málatilbúnaði sínum að kærði hafi unnið á árum áður hjá tryggingafélaginu og að slík tengsl hljóti að orka tvímælis. Álitamál sé hverra hagsmuna lögmaður sé að gæta þegar fyrir liggi að tryggingafélag, sem hann hefur áður starfað hjá, ráðleggur tjónþolum sínum að leita til hans með uppgjörsmál sín, eins og dæmi séu um hjá tryggingafélaginu.

 Kærði neitar því að störf sín hjá Í hf. fyrir x árum síðan skapi hagsmunatengsl milli sín og tryggingafélagsins. Þá hafnar hann því að störf meðeiganda síns að lögmannsstofu að einstaka verkefnum fyrir fyrrum eigendur tryggingafélagsins geti valdið hagsmunaárekstrum. Færir kærði ýmis rök fyrir þessum sjónarmiðum sínum, eins og áður er rakið.

 Kærði hafnar því að viðskiptatengsl séu milli lögmannsstofu sinnar og/eða tengdra félaga við Í og/eða tengd félög.

 II.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður ekki láta óviðkomandi hagsmuni, hvort heldur eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf sína, meðferð máls fyrir stjórnvaldi eða dómi eða á annað það, sem lögmaður vinnur í þágu skjólstæðings síns, sbr. einnig 1. mgr. 8. gr. reglnanna.

 Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. siðareglnanna skal lögmaður jafnan varast að taka sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku. Sama gildir um lögmenn sem hafa samstarf um rekstur lögmannsstofu eða reka lögmannsstofu í félagi.

 Samkvæmt lýsingu kærða á störfum sínum og verkaskiptingu á lögmannsstofunni sinnir hann sem deildarstjóri nær eingöngu skaðabótamálum í þeirri deild stofunnar sem annast slík mál. Hann og starfsfólk hans kemur fram fyrir hönd tjónþola gagnvart tryggingafélögunum og ber honum að rækja þau störf af alúð og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna tjónþolanna, sbr. 18. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

 Að mati úrskurðarnefndar liggur ekkert fyrir í málinu sem bendir til þess að slík tengsl séu milli kærða og Í hf., hvort sem þau tengsl stafa frá fyrra starfi hans hjá félaginu eða af öðrum ástæðum, að þau leiði til hagsmunaárekstra eða efasemda um að hann gæti hagsmuna skjólstæðinga sinna af þeirri alúð sem honum er skylt að viðhafa. Nefndin bendir á að langt er um liðið frá því kærði lét af starfi hjá tryggingafélaginu og hóf rekstur eigin lögmannsstofu.

 Þá telur nefndin ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um að störf meðeigenda kærða að lögmannsstofu fyrir fyrrum eigendur Í hf. hafi skapað hættu á hagsmunaárekstri er kærði sinnti verkefninu fyrir kæranda, enda er um verkefni að ræða á ólíkum sviðum.

 Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefnd lögmanna að kærði hafi ekki í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Kærði, E, hdl., hefur í störfum sínum við innheimtu slysabóta fyrir kæranda, V, ekki gert á hennar hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Rétt endurrit staðfestir:

___________________________

Marteinn Másson