Mál 7 2006

Ár 2007, miðvikudaginn 16. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 7/2006:

  S

gegn

T, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 7. febrúar 2006 frá S, kæranda, þar sem kvartað var yfir innheimtuaðferðum T, hrl., kærða, og Lögheimtunnar hf.

 Kærði sendi nefndinni greinargerð um erindið 24. mars 2006. Athugasemdir bárust frá kæranda í bréfi, dags. 7. apríl 2006. Þá bárust athugasemdir frá kærða í bréfi, dags. 19. maí 2006.

 Málsatvik og málsástæður

  I.

Málsatvik eru þau að þann 30. nóvember 1999 gaf fyrirtæki, sem kærandi veitti forstöðu, út nokkur skuldabréf, en kærandi ábyrgðist greiðslu krafnanna með sjálfsskuldarábyrgð. Meðal þessara bréfa voru þrjú bréf, eitt að fjárhæð 400.000 krónur, annað að fjárhæð 200.000 krónur og hið þriðja að fjárhæð 100.000 krónur, með sömu gjalddögum, fyrst 1. júní 2000 og síðan tveimur gjalddögum á ári. Eigandi bréfanna, R ehf., framseldi þau öll til Búnaðarbanka Íslands 26. janúar 2000 en leysti þau svo til sín þann 20. nóvember 2003. Eftirstöðvar bréfanna voru þá 285.998 krónur, 115.522 krónur og 54.281 króna.

 L hf. var falið að innheimta kröfurnar hjá kæranda og voru af því tilefni skráð þrjú innheimtumál, eitt fyrir hverja kröfu. Þrjú innheimtubréf voru send þann 26. nóvember 2003 til kæranda, með innheimtukostnaði vegna hverrar kröfu um sig.

 Þrjár greiðsluáskoranir, allar dagsettar 29. desember 2003, voru sendar til birtingar hjá kæranda. Í kjölfarið fylgdu aðfararbeiðnir, boðanir í fjárnám, fjárnámsgerðir og þinglýsing fjárnámsgerða, allt í þrennu lagi en samtímis.

 Kærandi greiddi hæstu kröfuna þann 8. desember 2005 með 599.935 krónum. Var þá rekið uppboðsmál vegna þeirrar kröfu. Hinar kröfurnar tvær voru greiddar 13. janúar 2006 með 303.293 krónum og 187.494 krónum. Greitt var með fyrirvara um endurgreiðslukröfu vegna oftekins kostnaðar.

II.

Kærandi telur að í rauninni hafi kærða verið falið að innheimta eina kröfu samkvæmt þremur samrættum skuldabréfum og að hann hefði átt að innheimta hana með einföldum kostnaði, en ekki þreföldum, eins og gert var. Allar innheimtuaðgerðir hafi verið gerðar sömu daga og innheimtuaðilinn hefði ekki haft þann mikla kostnað af innheimtunni, sem hann krafði kæranda um.

 Þá telur kærandi að kærði hafi hækkað eftirstöðvar tveggja bréfanna til þess að ná fram hærri innheimtukostnaði. Telur hann að um fölsun af hálfu kærða hafi verið að ræða í þessu skyni.

 Loks telur kærandi að kærði hafi ekki aflýst fjárnámsveðum í eignum sínum, þrátt fyrir að kærandi hafi sérstaklega vakið athygli á því atriði í bréfi til kærða, dags. 13. janúar 2006.

 Kærandi kveðst hafa átt viðræður við kærða á árinu 2004 um hin þreföldu innheimtulaun. Hefði kærði sagt að þetta væru mistök sem yrðu leiðrétt. Kærandi kveðst hafa reynt að ná aftur tali af kærða, í byrjun desember 2005, bæði með heimsókn á skrifstofu hans og símleiðis, en ekki tekist.

 Kærandi kveðst í sjálfu sér ekki gera athugasemdir við taxta kærða, heldur það að gera þrjár kröfur úr einni, samrættri kröfu, til þess að margfalda sínar tekjur og íþyngja greiðanda krafnanna.

 Kærandi telur háttsemi kærða brjóta í bága við siðareglum lögmanna, sbr. einkum 3. grein b í málsmeðferðarreglum úrskurðarnefndarinnar. Kveðst kærandi gera kröfu um að úrskurðuð verði endurgreiðsla á ofteknum kostnaði. Kærandi telur fulla þörf á því að úrskurðarnefndin veitti kærða áminningu.

 III.

Kærði mótmælir því að kvartanir kæranda séu á rökum reistar og krefst þess að úrskurðað verði að hann hafi ekki sýnt af sér neina þá háttsemi sem andstæð sé lögum og siðareglum lögmanna. Telur kærði sig hafa fylgt lagafyrirmælum og góðum lögmannsháttum við innheimtu krafnanna á hendur kæranda að öllu leyti. Kærði styður kröfur sínar við eftirfarandi sjónarmið.

 1. Kærði telur að skuldabréf, eins og mörg önnur viðskiptabréf, eigi sér sjálfstæða tilvist, óháð uppruna þeirra. Þannig geri viðskiptabréfsreglur íslensks réttar alla jafna ekki greinarmun á bréfum eftir lögskiptum að baki bréfunum og bréfin bera uppruna sinn að jafnaði ekki með sér að þessu leyti. Margvísleg réttaráhrif séu tengd hverju bréfi og ekki ávallt hin sömu, þótt svo hafi verið í umræddu tilviki. Kærði bendir á að við innheimtu slíkra „samkynja“ bréfa geti komið til þess að vörnum sé haldið uppi gagnvart innheimtu þeirra og enn komi þá til, að varnirnar geti verið mismunandi þótt um „samkynja“ bréf sé að ræða. Kærði kveður sér því hafa verið nauðsyn á að haga innheimtunni með því móti sem gert var, til þess að geta gætt ítrustu hagsmuna umbjóðanda síns við slíkar aðstæður.

 Kærði telur að ætla megi að meðal annars af þessum ástæðum bjóði innheimtukerfi það, sem helst sé notað hérlendis við lögfræðiinnheimtu krafna, ekki upp á að skráð séu fleiri en eitt bréf að baki hverri kröfu (hverju málanúmeri) og engin lagafyrirmæli séu því heldur til fyrirstöðu.

 Kærði kveðst hafa tjáð kæranda, þegar sá síðarnefndi gerði athugasemd við þennan hátt á innheimtunni, að honum stæði til boða að gera upp kröfurnar með kostnaði eins og um eitt mál væri að ræða. Kærandi hafi ekki sinnt því boði. Þetta hafi verið í ársbyrjun 2004 eftir að aðfararbeiðni hafði verið send. Kærði kveðst hafa átt ítrekað fundi með kæranda þá um vorið og fram á sumar, um lausn málsins. Hafi kærandi þá boðist til að greiða 250.000 krónur til uppgjörs á öllum málunum, en kærði kveðst hafa fengið heimild kröfuhafa til að bjóða 300.000 krónur á móti. Hafi kærandi fyrst við boðinu og boðið á móti 200.000 krónur. Kærði kveðst þá hafa talið einsýnt að frekari samningaviðræður skiluðu ekki árangri og hafi innheimtuaðgerðum því verið haldið áfram.

 Kærði kveður kæranda hafa, í apríl 2005, boðist til að ljúka greiðslu allra krafnanna með 250.000 krónum. Kröfueigandinn hafi boðið á móti að ljúka mætti greiðslu allra málanna með 500.000 krónum. Hafi þar verið um verulegan afslátt að ræða, bæði á kröfum og kostnaði, en kröfurnar hafi þá numið samtals 863.000 krónum. Kærandi hafi ekki þekkst þetta boð.

 Kærði kveður kæranda enn á ný hafa boðið fram 200.000 króna greiðslu, í ágúst 2005, til uppgjörs á málunum. Því boði hafi verið hafnað. Kærði kveður kæranda hafa mótmælt við sýslumanninn í Reykjavík framgangi nauðungarsölu, en sýslumaður hafi ekki fallist á þau mótmæli og ákveðið að nauðungarsalan færi fram.

 Kærði kveður kröfueigandann, þegar hér var komið sögu, hafa fengið sig fullsaddan af framkomu kæranda og dregið til baka fyrri tilboð um afslætti. Kærandi hefði þá greitt eina kröfuna þann 8. desember 2005 að fullu og fyrirvaralaust, enda hefði þá verið ákveðin framhaldssala á eign kæranda sem fjárnámsveð var í fyrir kröfunni.

 Kærði kveður kæranda hafa kosið að greiða hinar kröfurnar með fullum kostnaði þann 13. janúar 2006, með fyrirvara um endurkröfu vegna kostnaðar, eftir að honum hafi staðið til boða að ljúka greiðslu þeirra með 70.000 króna afslætti.

 Kærði kveðst mótmæla kröfu kæranda um endurgreiðslu kostnaðar. Byggist sú afstaða hans á því að allt frá fyrstu stigum innheimtunnar og gegnum allt innheimtuferlið hafi kæranda staðið til boða að greiða kröfurnar með verulegum afslætti. Þau boð hafi hann ekki þekkst. Eftir því sem á innheimtuferlið hefði liðið og meiri vinna og útlagður kostnaður hefði safnast á málin, hefði orðið erfiðara um vik að gefa afslátt af kostnaði. Kærði telur því kæranda eiga að verulegu, ef ekki öllu leyti, sjálfur sök á meintu tjóni sínu af innheimtuaðgerðunum. Kærði vekur athygli á því að kærandi hafi sjálfur bent á eignir til fjárnáms og að einungis hafi verið krafist nauðungarsölu til fullnustu einnar af kröfunum þremur, til þess að halda kostnaði í lágmarki, ekki síst með hagsmuni kæranda í huga.

 2. Kærði mótmælir því að hafa falsað eftirstöðvar tveggja skuldabréfanna og hækkað þær um 48.483 krónur. Telur hann þennan lið í erindi kæranda vera á misskilningi byggðan. Hið rétta sé að kröfuhafinn hafi þurft að leysa til sín umrædd skuldabréf og hafi höfuðstóll þeirra numið 115.522 krónum og 54.281 krónu, í báðum tilvikum miðað við innlausnardag, 19. nóvember 2003. Á innlausnardegi hafi hins vegar gjalddaginn 1. júní 2003 verið í vanskilum á báðum bréfunum og hafi uppgjör gjalddagans bæst við innlausnarfjárhæðina. Hafi höfuðstóll annarrar kröfunnar þannig orðið 144.983 krónur og höfuðstóll hinnar kröfunnar orðið 73.283 krónur.

 3. Kærði kveðst fallast á það með kæranda að fyrr hefði mátt bregðast við með því að aflýsa aðfarargerðum af eign sóknaraðila. Kveður hann sér vera ljúft að biðjast afsökunar á því óhagræði sem það kynni að hafa valdið kæranda. Tekur kærði fram að aflýsing hafi þegar farið fram.

IV.

Í athugasemdum sínum við greinargerð kærða kveður kærandi aðalatriði málsins hafa verið það að skuldabréfin þrjú hafi verið gefin út af sama aðila, til sama eiganda, þau hafi verið samferða í banka og úr banka og til kærða. Svokölluð málssaga innheimtumálanna sýni að skuldabréfakröfurnar hafi að öllu leyti verið samferða í innheimtukerfinu, í átta tilvikum allar og í öllum tilvikum tvær þeirra. Um margfaldan kostnað sé að ræða sem geti ekki talist eðlilegur.

 Kærandi kveður kærða blanda saman viðræðum um afslætti og þess háttar, sem ekki komi þessu kærumáli við. Hver krafa hafi borið fullan kostnað og ekki sé hægt að halda því fram að kostnaður hafi verið meiri við hverja kröfu þótt vörnum væri við komið.

 Kærandi telur innheimtuaðferðir kærða hafa verið ósanngjarnar, siðlausar og í andstöðu við góða lögmannshætti. Kærandi vísar til þess að Hæstiréttur Íslands hafi talið sér fært að dæma um mál á sanngirnisgrundvelli og vísar í því sambandi til hæstaréttarmálsins nr. 375/2005. Eins ætti úrskurðarnefndin að geta gert.

 Kærandi kveðst mótmæla skýringum kærða um hækkun eftirstöðva tveggja skuldabréfanna.

  Niðurstaða

 I.

Í máli þessu er aðallega deilt um það hvort kærða hafi borið að reka innheimtu á þremur skuldabréfakröfum sem eitt mál í stað þriggja, með þar af leiðandi lægri innheimtukostnaði á hendur kæranda.

 Hin umdeildu skuldabréf voru við útgáfu þeirra að öllu leyti eins hvað varðaði kjör og skilmála, nema að því er varðaði fjárhæð þeirra. Meðferð og ferill bréfanna frá útgáfu og þar til greiðslutilmælum var beint til kæranda var eins, nema hvað varðaði dagsetningu síðasta greidda gjalddaga á einu bréfanna, þegar kröfueigandinn leysti þau til sín frá Búnaðarbanka Íslands. Var dagsetningin á hæsta bréfinu sögð vera 1. desember 2002 en 1. júní 2003 á hinum bréfunum tveimur.

 Þrátt fyrir framangreindan mun á dagsetningum er það mat úrskurðarnefndar að á þeim tíma, þegar kærða var falin innheimtan, hafi réttarfarsreglur ekki staðið því í vegi að kröfurnar yrðu reknar saman í einu innheimtumáli. Er það í samræmi við góða lögmannshætti að vinna verkið þannig að ekki hljótist af meiri kostnaður fyrir gagnaðila en nauðsynlegt sé, en regla þessi fær m.a. stoð í 2. mgr. 27. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Telur nefndin tæknilega annmarka í tölvuforriti ekki breyta neinu hvað þetta sjónarmið varðar.

 Innheimtumálunum þremur lauk með því að kærandi greiddi kröfurnar upp, með fullum innheimtukostnaði í hverju máli fyrir sig. Að mati úrskurðarnefndar var rekstur þriggja innheimtumála og frágangur málanna af hálfu kærða á þann hátt í andstöðu við fyrrgreinda reglu. Telur nefndin þennan frágangsmáta aðfinnsluverðan, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

 Hvorki 26. né 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, fela í sér heimild fyrir úrskurðarnefnd lögmanna til að ákveða í úrskurðarorði um skyldu lögmanns til að endurgreiða oftekinn kostnað til gagnaðila umbjóðanda hans, þ.e. til skuldara.

 II.

Samkvæmt áritun á eitt skuldabréfanna var það innleyst af umbjóðanda kærða með 115.522 krónum, sem var höfuðstóll skuldabréfsins eftir síðasta greiddan gjalddaga þann 1. júní 2003. Eitt bréfanna var innleyst samkvæmt áritun á það með 54.281 krónu, en það var höfuðstóll bréfsins eftir síðasta greiddan gjalddaga þess þann 1. júní 2003. Verður af þessu ekki annað séð en að kærandi hafi mátt ætla að hann yrði ekki krafinn um greiðslu krafna með hærri höfuðstól en samkvæmt framangreindum tölum. Áritun á bréfin bar ekki með sér að höfuðstóll krafnanna væri annar og hærri.

 Kærði heldur því hins vegar fram að inn í hinar árituðu höfuðstólstölur hafi vantað afborganir á gjalddaga þann 1. júní 2003, sem voru í vanskilum þegar umbjóðandi hans leysti kröfurnar til sín. Vísar kærði í þessu sambandi til tveggja skilagreina frá Búnaðarbanka Íslands er sýna innlausnarverð annars bréfsins að fjárhæð 144.983 krónur og hins bréfsins að fjárhæð 73.283 krónur, en þessar fjárhæðir voru höfuðstóll tveggja innheimtumálanna gegn kæranda.

 Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á með kæranda að kærði hafi falsað höfuðstól krafnanna tveggja, sem hér um ræðir. Hins vegar kunni að vera uppi ágreiningur, einkaréttarlegs eðlis, um hvort kæranda hafi borið að greiða kröfurnar með hærri eða lægri höfuðstólnum. Nefndin telur ágreining af þessu tagi falla utan lögbundins valdsviðs síns. Það sé einungis á færi almennra dómstóla landsins að skera úr slíkum ágreiningi.

 III.

Kærandi greiddi eina kröfuna að fullu þann 8. desember 2005 en hinar tvær þann 13. janúar 2006. Við greiðslu tveggja síðar nefndu krafnanna minnti kærandi sérstaklega á að aflétt yrði fjárnámsgerðum vegna allra krafnanna og að Lánstrausti yrði tilkynnt um uppgjör málanna. Ekki liggur ljóst fyrir hvenær fjárnámsveðunum var aflýst, en það hefur verið á tímabilinu frá því kærandi sendi erindi sitt til úrskurðarnefndarinnar þann 7. febrúar 2006 til þess er kærði sendi nefndinni greinargerð sína þann 24. mars 2006.

 Eins og fram hefur komið baðst kærði afsökunar á því óhagræði sem kærandi kynni að hafa orðið fyrir vegna þessa.

 Þótt vissulega hefði mátt aflýsa fjárnámsveðunum nokkru fyrr en gert var af fasteign kæranda, verður ekki talið að um slíkan drátt og slíka yfirsjón hafi verið að ræða að það kalli á beitingu sérstakra viðurlaga gagnvart kærða.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Rekstur kærða, T, hrl., á þremur innheimtumálum í stað eins, með þreföldum innheimtukostnaði gagnvart kæranda, S, er aðfinnsluverð.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA