Mál 6 2007

Ár 2007, mánudaginn 3. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2007:

  R

gegn

S, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 13. apríl 2007 frá R, sóknaraðila, þar sem borinn er undir nefndina ágreiningur um endurgjald S, hrl., varnaraðila, fyrir málflutningsstörf. Varnaraðili tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 16. maí 2007. Sóknaraðili tjáði sig um greinargerðina í bréfi, dags. 26. júní 2007. Varnaraðili tjáði sig ekki frekar um málið.

 Málsatvik og málsástæður.

  I.

 Sóknaraðili varð fyrir slysi við heimili dóttur sinnar og tengdasonar áramótin 2001-2002 er skoteldur sprakk og skaðaði hann á hendi. Hann leitaði til T, hrl., eftir aðstoð við að kanna réttarstöðu sína. Lögmaðurinn aflaði örorkumats um tjón sóknaraðila og annarra gagna en gat síðan ekki haldið áfram með málið. Sóknaraðili leitaði til varnaraðila í desember 2004 og fól honum að gæta hagsmuna sinna í málinu.

 Farið var fram á dómkvaðningu matsmanna til að endurskoða fyrirliggjandi örorkumat, en frá dómkvaðningu var síðan horfið. Í október 2005 var gefin út stefna á hendur M, N og tengdasyni sóknaraðila, þar sem krafist var skaðabóta úr hendi stefndu að fjárhæð 3,1 milljón króna auk vaxta og málskostnaðar. Skaðabótakrafan byggðist á reglum skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð, skaðsemisábyrgð, sakarábyrgð og hlutlæga ábyrgð. M og N gripu sameiginlega til varna í greinargerð til héraðsdóms. Tengdasonur sóknaraðila greip einnig varna í málinu.

 Aðalmeðferð í málinu var háð x. maí 200x. Dómur var kveðinn upp x. maí 200x og féll hann þannig að M og N voru dæmd til að greiða sóknaraðila in solidum 3,1 milljónir króna í skaðabætur auk málskostnaðar. Tengdasonur sóknaraðila var sýknaður.

 Undir rekstri málsins eða í byrjun nóvember 2005, skömmu eftir að það hafði verið þingfest, krafði varnaraðili sóknaraðila um greiðslu upp í verklaun, rúmlega 500 þúsund krónur. Ágreiningur reis milli aðila um þá kröfu en nokkru síðar var hún greidd og naut sóknaraðili þar m.a. greiðslna úr tryggingu atvinnurekanda og úr heimilistryggingu.

 Eftir að áfrýjunarfrestur leið, og ljóst varð að málinu yrði ekki áfrýjað til Hæstaréttar, var gengið til uppgjörs við tryggingarfélag dómþola um bótagreiðslu. Dæmdar skaðabætur og vextir námu 4.127.188 krónum og tildæmdur málskostnaður nam 300 þúsund krónum. Þá fékkst greitt úr málskostnaðartryggingu í heimilistryggingu sóknaraðila 725.600 krónur.

 Áskilið endurgjald varnaraðila vegna málflutningsstarfanna nam 987.500 krónum auk virðisaukaskatts, svo og útlagðs kostnaðar að fjárhæð 7.800 krónur, eða alls 1.239.788 krónur. Endurgjaldið varð sóknaraðila tilefni þessa erindis, sem hér er til meðferðar og afgreiðslu.

  II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar krefst sóknaraðili þess að málskostnaðarreikningur varnaraðila verði lækkaður verulega og vísar hann í því sambandi til dómsorðsins í málinu sínu, þar sem kveðið var á um 300 þúsund króna málskostnað. Bendir sóknaraðili á að reikningurinn sé hvorki rökstuddur né hafi tímaskýrslu verið framvísað. Þá telur sóknaraðili að samkomulag hafi verið um það að hann greiddi ekkert nema útlagðan kostnað til varnaraðila þar til dómsniðurstaðan lægi fyrir. Því hafi það komið sér mjög á óvart þegar varnaraðili hafi krafið sig um greiðslu á rúmlega 500 þúsund krónum skömmu eftir þingfestingu málsins. Hafi varnaraðili þá haldið því fram að búið væri að vinna um það bil í 40 tíma að málinu.

 Auk athugasemda við áskilið endurgjald varnaraðila gerir sóknaraðili nokkrar athugasemdir vegna samskiptanna við hann, svo sem að varnaraðili hafi oft svarað skilaboðum seint og vegna tafa á frágangi uppgjörs við sig. Þá kvartar sóknaraðili yfir því að hafa ekki fengið tímaskýrslu frá varnaraðila um vinnu hans að málinu.

 III.

Varnaraðili kveður það ekki vera rétt að það hafi verið um samið að ekki yrði gerð krafa um greiðslu þóknunar fyrr en málinu væri lokið. Kveðst varnaraðili hafa sagt sóknaraðila að ekki væri tímabært að hann greiddi inn á málið fyrr en varnaraðili væri búinn að vinna eitthvað í því. Varnaraðili kveðst hafa gert sóknaraðila grein fyrir því að hann væri búinn að vinna við málið í yfir 40 tíma þegar fyrri reikningurinn var gefinn út og að hann væri einungis að krefja um innborgun á málið, ekki fyrir alla þá vinnu sem þá hafði verið lögð í það. Jafnframt hefði varnaraðili lýst því yfir að þá væri búið að vinna meiri hluta verksins. Varnaraðili kveður raunina hafa verið þá að búið hafi verið að vinna um það bil 45 tíma að málinu þegar málið var þingfest, en í heildina hafi sóknaraðili verið krafinn greiðslu fyrir vinnu í 79 tíma.

 Varnaraðili kveður það vera ósannindi að reikningar sínir hafi ekki verið rökstuddir og að tímaskýrslu hafi ekki verið framvísað. Sóknaraðili hafi fengið tímaskýrslu afhenta vegna málsins og hafi eiginkona sóknaraðila gert tvær athugasemdir þegar þau komu á skrifstofu varnaraðila og fengu skýrsluna afhenta. Varnaraðili kveðst ekki hafa fært nein símtöl á tímaskýrslu sína, þótt þau hafi verið fjölmörg við vinnslu málsins. Kveður varnaraðili verulegan tíma hafa farið í undirbúning málsins, enda hafi það verið að mörgu leyti einstakt, þ.e. að fordæmum hafi ekki verið fyrir að fara og að á margs konar skaðabótaábyrgð hafi reynt.

 Varnaraðili kveðst vera ósammála kröfugerð sóknaraðila fyrir nefndinni og bendir á að ef tekin yrði til greina krafa sóknaraðila um málskostnað varnaraðila, þ.e. 300 þúsund krónur, þá næmi þóknun sín um það bil 232 þúsund krónum eða sem næmi þóknun fyrir 18,5 tíma vinnu. Bendir varnaraðili jafnframt á að sóknaraðili hagnaðist þannig jafnframt um 735 þúsund krónur vegna greiðslna úr málskostnaðartryggingu sóknaraðila.

 Varnaraðili kveðst hafa innheimt slysabætur upp á rúmlega 4,1 milljón króna auk tildæmds málskostnaðar. Þá hafi hann jafnframt aðstoðað sóknaraðila við að frá greiddar úr slysatryggingu launþega og fjölskyldutryggingu sóknaraðila um 1,8 milljónir króna, auk 725.600 krónur úr málskostnaðartryggingunni. Alls hafi verið innheimtar 6.950.985 krónur, þar af 1.025.600 krónur vegna málskostnaðar.

 Varnaraðili kveðst telja tímafjöldann sem í málið hafi farið hafa verið afar eðlilegan. Kveðst hann telja tímana vanskráða hjá sér, enda hefðu engin símtöl verið skráð og að engir tímar hefðu verið skráðir eftir aðalmeðferð málsins. Þá hafi ekki verið gjaldfærður á sóknaraðila ljósritunarkostnaður, en mörg hundruð ljósrit hafi verið tekin vegna málsins. Varnaraðili vekur athygli á því að dómkvaddir hafi verið matsmenn þar sem sóknaraðili hafi verið óánægður með fyrra örorkumat. Eftir viðræður við reynda matsmenn hafi dómkvaðningin verið afturkölluð, þar sem fyrri matsgerðin hafi verið talin eðlileg að teknu tilliti til afleiðinga slyssins, aldurs sóknaraðila o.fl.

 Varnaraðili hafnar kvörtunum sóknaraðila vegna framkomu sinnar.

 Varnaraðili kveðst hafa afhent sóknaraðila afrit allra gagna málsins.

 Varnaraðili krefst hæfilegs málskostnaðar úr hendi sóknaraðila vegna meðferðar máls þessa fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og að sérstaklega beri að taka tillit til þess að kvörtunin væri með öllu tilhæfulaus.

IV.

Í athugasemdum sóknaraðila kemur m.a. fram að varnaraðili hafi samþykkt skilmála um að gert yrði upp við hann við endanlega dómsniðurstöðu. Lýsir hann í nokkrum orðum hvernig þessum samskiptum þeirra var háttað. Þá segir hann það vera ósannindi hjá varnaraðila að tímaskýrslan hafi verið afhent. Hið sanna sé að tímaskýrslan hafi fyrst borist sóknaraðila þegar greinargerð varnaraðila í þessu máli hafi borist þann 5. júní 2007.

 Í síðara bréfi sóknaraðila eru gerðar athugasemdir við það að annar lögmaður, Þ, hdl., frá Æ, hafi unnið í málinu á vegum varnaraðila, án þess að sóknaraðili hafi haft vitneskju um það eða leitað hafi verið samþykkis hans fyrir því. Bendir sóknaraðili á að hafi Þ unnið að gerð stefnu málsins, þá kunni varnaraðili að hafa þurft að eyða meiri tíma í undirbúning sjálfs málflutningsins heldur en ef hann hefði sjálfur  gert stefnuna og lesið sér til.

 Sóknaraðili kveður Þ hafa upplýst að hann hafi gert varnaraðila reikning vegna 40 tíma vinnu við gerð stefnunnar í dómsmálinu. Sóknaraðili kveður eiginkonu sína hafa fengið þær upplýsingar hjá skrifstofu Lögmannafélags Íslands að Þ hafi ekki verið tilkynntur sem fulltrúi varnaraðila.

 Með bréfi sóknaraðila fylgdi tímaskýrsla varnaraðila með árituðum athugasemdum við skráðar tímaeiningar.

 Sóknaraðili krefst hæfilegs málskostnaðar úr hendi varnaraðila vegna reksturs máls þessa fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

 Niðurstaða.

  Til úrlausnar í máli þessu eru annars vegar ágreiningur aðila um áskilið endurgjald varnaraðila fyrir málflutningsstörf í þágu sóknaraðila, en hins vegar kvörtun sóknaraðila um atriði í samskiptum sínum við varnaraðila.

 I.

Að því er fyrra atriðið varðar þá gildir sú regla samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 að lögmaður á rétt á hæfilegu endurgjaldi fyrir störf sín. Hann getur áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem fæst greidd í máli og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast.

 Sóknaraðili styður kröfu sína um verulega lækkun endurgjaldsins til varnaraðila við þann málskostnað sem tildæmdur var í héraðsdómi. Úrskurðarnefnd lögmanna felst ekki á þetta sjónarmið sóknaraðila. Málskostnaðarákvörðun dómara í venjulegu einkamáli bindur ekki lögmann dómhafa þegar hann gerir umbjóðanda sínum reikning vegna málflutningsstarfa sinna. Málskostnaðarákvörðun dómara í héraðsdómsmálinu verður því ekki lögð til grundvallar niðurstöðu í máli þessu.

 II.

Ekki liggur fyrir í málinu skriflegur samningur aðila um endurgjald til varnaraðila fyrir málflutningsstörfin. Aðilar eru sammála um að rætt hafi verið um kostnað af málaferlunum í upphafi, en ágreiningur er með þeim um það hvort þá hafi verið rætt um að sóknaraðili greiddi ekkert nema útlagðan kostnað meðan á rekstri málsins stæði, svo sem hann heldur fram. Ekki liggur fyrir að upplýst hafi verið á hvaða grunni endurgjald yrði reiknað.

 Krafa varnaraðila um endurgjald fyrir málflutningsstörfin styðst við tímaskýrslu hans. Samkvæmt henni eru skráðar 79 klukkustundir á verkið. Sóknaraðili hefur gert ýmsar athugasemdir við skráðar tímaeiningar og eftir atvikum stutt þær gögnum. Helstu athugasemdir hans lúta að þætti Þ, hdl., í undirbúningi málshöfðunarinnar og að fjölda skráðra tíma við útreikning bóta, vinnu að stefnu og frágangi hennar og loks að vinnu við undirbúning aðalmeðferðar.

 Það mál sem varnaraðili rak fyrir sóknaraðila varðaði fyrst og fremst ágreining um bótaskyldu og ábyrgðargrundvöll. Málsóknin byggðist á nokkrum reglum skaðabótaréttar, svo sem lögum og reglum um skaðsemisábyrgð vegna meints galla í skottertu, húsbóndaábyrgðarreglunni, hlutlægri ábyrgðarreglu og sakarreglunni. Auk ágreinings um bótaskyldu og ábyrgðargrundvöll var m.a. deilt um sönnunarbyrði, fyrningu og eigin sök.

 Þegar varnaraðili tók málið að sér í desember 2004 var búið að afla margra og e.t.v. flestra gagna, svo sem örorkumats. Hann fékk dómkvadda 2 matsmenn til að endurskoða örorkumatið, en sóknaraðili var ósáttur við niðurstöðu þess. Dómkvaðningin var síðar afturkölluð, að höfðu samráði við reynda matsmenn, sem töldu fyrra örorkumat eðlilegt, meðal annars að teknu tilliti til aldurs sóknaraðila og afleiðinga slyssins fyrir hann.

 Haldið var uppi fullum vörnum í málinu, annars vegar sameiginlega af hálfu M og N en hins vegar af hálfu tengdasonar sóknaraðila, og látið reyna á hvert þeirra atriða sem málsókn sóknaraðila byggðist á.

 Niðurstaða málsins var hagfelld fyrir sóknaraðila, en viðurkennd var að öllu leyti krafa hans um skaðabætur úr hendi M og N á grundvelli skaðsemisábyrgðar vegna galla í skottertu. Tildæmdur málskostnaður nam 300.000 krónum. Tengdasonur sóknaraðila var sýknaður og honum tildæmdur 200.000 króna málskostnaður úr hendi sóknaraðila. Tengdasonurinn féll síðar frá málskostnaðarkröfu sinni.

 Samkvæmt tímaskýrslu varnaraðila var 45 tímum varið í undirbúning að málshöfðuninni, gagnaöflun, dómkvaðningu matsmanna, samningu og frágang stefnu, undirbúning fyrir þingfestingu málsins o.fl. Frá því málið var þingfest voru skráðir 34 tímar á verkið, einkum vegna yfirlestrar gagna málsins og greinargerða stefndu, svo og vegna undirbúnings málflutnings og vegna aðalmeðferðarinnar sjálfrar.

 Eins og áður er komið fram setti sóknaraðili fram nokkrar athugasemdir við skráðar tímaeiningar. Að mati úrskurðarnefndar ber í því sambandi að líta á það að málið, sem höfðað var fyrir sóknaraðila, varðaði á ýmsan hátt óvenjuleg og/eða flókin lögfræðileg álitaefni, sem búast mátti við að tækju nokkurn tíma að kanna og eftir atvikum að nota við málsóknina eða leggja til hliðar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var undirbúningur aðalmeðferðar nokkur að umfangi, meðal annars vegna ítarlegra hliðsjónarrita og -gagna, sem flokkuð voru eftir þeim lögfræðilegu álitaefnum sem þau vörðuðu. Þremur aðilum var stefnt í málinu og átta manns gáfu skýrslur fyrir dómi.

 Nefndin telur, að við heildarmat á málinu, eftir eðli þess og umfangi, sýnist tímaskýrsla varnaraðila gefa trúverðuga mynd af störfum varnaraðila og þeim tíma sem fór í málareksturinn. Telur nefndin þannig að tímaskýrsluna, eins og hún hefur verið lögð fyrir nefndina, megi leggja til grundvallar við ákvörðun á umfangi málsins. Ekki er ágreiningur um tímagjald það sem varnaraðili miðar við, 12.500 krónur auk virðisaukaskatts.

 Samkvæmt þessu er það mat úrskurðarnefndar að áskilið endurgjald varnaraðila sé hæfilegt endurgjald í skilningi 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 fyrir málflutningsstörf hans.

 III.

Seinni þátturinn í erindi sóknaraðila varðar samskipti hans og varnaraðila og þá ákvörðun varnaraðila að láta annan lögmann vinna að verkinu með sér og fyrir sig, án vitneskju og samþykkis sóknaraðila.

 Að því er fyrra atriðið varðar, þá greinir aðila á um þau vandræði sem sóknaraðili telur hafa verið í samskiptum þeirra. Er við þær aðstæður, þegar gögn málsins styðja ekki staðhæfingar aðila að þessu leyti, erfitt eða ómögulegt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna að taka afstöðu til slíkra fullyrðinga. Stendur þar staðhæfing gegn staðhæfingu.

 Að því er varðar þá aðferð varnaraðila, að fela Þ, hdl., að vinna að málinu með sér, án vitneskju og samþykkis sóknaraðila, þá hefur lögmaður jafnan heimild til þess að fela löglærðum fulltrúa sínum eða lögfræðingi með lögmannsréttindi sem starfar hjá honum, að vinna undir sinni umsjón og ábyrgð að einstaka verkefnum, án þess að þurfa að bera það sérstaklega undir umbjóðanda sinn. Getur lögmaður, sem starfar undir umsjón og á ábyrgð annars lögmanns, á skrifstofu hans, sinnt ýmsum verkefnum, svo sem bréfaskriftum, samningu greinargerða og stefna, mætt í þinghöldum o.s.frv., án þess að það teljist í ósamræmi við góða lögmannsháttu.

 Sóknaraðili veitti Lögfræðistofu S, hrl., umboð til þess að koma fram fyrir sína hönd vegna slyssins. Þ vottaði undirskrift sóknaraðila á umboðið.

 Þ mun hafa starfað á lögmannsstofu varnaraðila meðan hann stundaði háskólanám í Reykjavík. Ekki liggur ljóst fyrir hvort varnaraðili tilkynnti Þ sérstaklega til skrifstofu Lögmannafélags Íslands og dómstóla sem starfsmann sinn, en samkvæmt greinargerð hans til úrskurðarnefndar leit hann á Þ sem fulltrúa sinn.

 Samkvæmt gögnum málsins var Þ kallaður inn á fund varnaraðila með sóknaraðila, þar sem rætt var um fyrirliggjandi örorkumat, og leitað álits hans á því hvort rétt væri að láta endurskoða niðurstöðu örorkumatsins. Varnaraðili fól síðan Þ að vinna að afmörkuðum þáttum verkefnisins, þ. á m. beiðni um dómkvaðningu matsmanna og ritun stefnu. Þ ritaði jafnan undir skjöl fyrir hönd varnaraðila og/eða ritaði erindi á bréfsefni hans. Þegar varnaraðili sendi drög að stefnu í málinu til sóknaraðila í lok júní 2005 til yfirlestrar var afrit skjalsins sent eiginkonu sóknaraðila og Þ.

 Að virtum þessum gögnum og upplýsingum telur úrskurðarnefndin vera ljóst að Þ, hdl., vann ekki að afmörkuðum þáttum málsins sem sjálfstætt starfandi lögmaður, heldur í umboði og á ábyrgð varnaraðila á skrifstofu hans. Telur nefndin þennan hátt, sem varnaraðili hafði á verkaskipan á skrifstofu sinni, ekki vera andstæðan góðum lögmannsháttum. Samkvæmt þessu hefur varnaraðili ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi, sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Áskilið endurgjald varnaraðila, S, hrl., fyrir málflutningsstörf í þágu sóknaraðila, R, 987.500 krónur auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar, er hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

 Varnaraðili hefur í störfum sínum fyrir sóknaraðila ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Málskostnaður fellur niður.

  ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA