Mál 18 2008

Ár 2009, miðvikudaginn 6. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2008:

 

C, hrl.

gegn

D, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 18. september 2008 frá C, hrl., kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum D, hrl., kærða, vegna afturköllunar umboðs lögmannsstofu kæranda til að annast slysamál fyrir sjómann. E, hrl., gerði grein fyrir afstöðu kærða til erindisins í bréfi, dags. 14. janúar 2009. Af hálfu kæranda voru gerðar nokkrar athugasemdir við greinargerð kærða, í bréfi, dags. 16. febrúar 2009, sem svarað var af hálfu kærða í bréfi lögmanns hans til nefndarinnar, dags. 25. mars 2009.

Málsatvik og málsástæður.

 

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í lok janúar 2008 veitti sjómaður, sem slasast hafði um borð í fiskiskipi, kæranda og syni hans, F, hdl., umboð til þess að gæta hagsmuna sinna, þar á meðal að innheimta slysabætur sem sjómanninum bar að lögum og samkvæmt vátryggingasamningum. Fljótlega var hafist handa á vegum lögmannsstofunnar að afla gagna til undirbúnings bótakröfu gegn útgerðinni og tryggingarfélagi hennar. Sonur kæranda hafð umsjón með málinu.

Þann 20. maí 2008 kom sjómaðurinn til fundar við F, hdl., og hafði meðferðis gögn er tengdust máli sínu. Hann átti samtal við kæranda og F, fyrst kæranda en svo báða. Meðal annars var rætt um óánægju sjómannsins með skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa sem fjallað hafði um slysið, en við það tækifæri kom fram að kærandi hefði eitt sinn átt sæti í þeirri nefnd.

Þann 28. maí 2008 barst lögmannsstofu kæranda afturköllun sjómannsins á umboði sínu. Við eftirgrennslan kæranda kom í ljós að sjómaðurinn fól lögmannsstofu kærða að gæta hagsmuna sinna í málinu. Varð það tilefni þess að kærandi sendi erindi það til úrskurðarnefndar lögmanna sem hér er til úrlausnar.

II.

Kærandi heldur því fram að kærði hafi náð til sín viðskiptum í slysamálum frá lögmannsstofu sinni og að hann hafi iðulega gert það gegnum tíðina. Kærandi kveðst ekki gera sér grein fyrir hvers vegna kærði beiti stöðugt þessum vinnubrögðum. Hugsanlega megi finna skýringu á þessu í blaðagrein, þar sem tekið var viðtal við kærða um veiðiáhuga hans, en í lok greinarinnar sé haft eftir honum að hann lifi fyrir veiðarnar og að það vilji svo til að hann sé skaðabótalögmaður og að það sé nú svolítið eins og að veiða, þannig að hann nái að sameina þetta tvennt. Kærandi telur að lögmenn verði að þjóna veiðieðli sínu með öðrum hætti en að stinga undan starfsbræðrum sínum og brjóta þá siða- og samskiptareglur lögmanna um leið.

Kærandi telur vinnubrögð kærða vera í andstöðu við góða lögmannsháttu og siðareglur lögmanna og vísar í því sambandi til 1. mgr. 25. gr., 1. mgr. 26. gr., 1. mgr. 28. gr. og 2. mgr. 33. gr. reglnanna. Verði þessi vinnubrögð liðin áfram hafi skapast fordæmi um það að lögmenn geti stungið undan starfsbræðrum sínum í öllum tilvikum og þar með væri lögmál frumskógarins ríkjandi í stétt lögmanna. Á þessu þyrfti lögmannafélagið að taka og stoppa, þótt það kostaði félagið vinnu. Þessi vinnubrögð kærða væru ólíðandi.

Kærandi bendir á að þetta sé sjötta tilvikið þar sem hann kæri til nefndarinnar slík vinnubrögð kærða. Tilgangurinn með kvörtun sinni sé fyrst og fremst sá að reyna að fá kærða til þess að láta viðskiptavini kæranda í friði í framtíðinni.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar krefst kærði þess að nefndin úrskurði að hann hafi í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda.

Um aðdraganda og ástæður þess að kærði tók að sér slysamálið vísar hann til frásagnar sjómannsins sem fylgdi greinargerð kærða til nefndarinnar. Samkvæmt þeirri frásögn taldi sjómaðurinn að um hagsmunaárekstur væri að ræða eftir að fram hafði komið í samtalinu við kæranda þann 20. maí 2008 að hann, kærandi hefði átt sæti í Rannsóknarnefnd sjóslysa í 15 ár. Kveður hann, eftir þetta, ekki hafa komið til greina að kærandi og F önnuðust hagsmuni sína í slysamálinu. Sjómaðurinn kveðst hafa rætt við son sinn um málið og í framhaldi af því hafi sonurinn pantað viðtalstíma hjá kærða. Sjómaðurinn kveðst hafa hringt í kærða og spurt hann að því hvort hann gæti séð um sín mál. Kærði hafi sagt það vera alveg sjálfsagt, eftir að búið væri að afturkalla umboðið frá lögmannsstofu kæranda.

Kærði telur ljóst vera að sjómaðurinn og kærandi hafi upplifað fund þeirra á gjörólíkan hátt. Á meðan efasemdir hafi vaknað í huga sjómannsins um hæfi kæranda almennt til þess að reka málið, vegna hagsmunaárekstra, hafi kærandi álitið fundinn hafa verið hinn ánægjulegasta. Kærði kveðst ekki hafa neinar forsendur til þess að meta hvað upp hafi komið í samskiptum kæranda og sjómannsins. Það sem öllu máli skipti og það sem mætti leggja til grundvallar, væri það að sökum vantrausts sjómannsins í garð kæranda, að því er best yrði séð vegna starfa hans í þágu Rannsóknarnefndar sjóslysa, hafi sjómaðurinn ákveðið að fela öðrum lögmanni málið. Kærði verði aldrei sakaður um að hafa haft áhrif á ákvörðunina, hvorki með beinum né óbeinum hætti, þegar af þeirri ástæðu að þegar hér hafi verið komið við sögu hafi kærði aldrei hitt sjómanninn.

Kærði bendir á, og vísar í því sambandi til 28. gr. siðareglna lögmanna, að það hafi verið sjómaðurinn sem afturkallaði umboð sitt til lögmannsstofu kæranda og það hafi ekki verið fyrr en eftir afturköllunina sem kærði hafi fallist á að taka slysamálið að sér. Hafi vinnubrögð sín í hvívetna uppfyllt skilyrði laga og siðareglna lögmanna. Þar sem engin efni væru til að fallast á kvörtun kæranda bæri að taka kröfur sínar til greina.

Kærði rökstyður málskostnaðarkröfu sína meðal annars með tilvísun í 3. mgr. 28. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, og 131. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Að því er síðari lagatilvísunina varðar bendir kærði á að reglan í því ákvæði markist af svonefndum refsisjónarmiðum er snúi einkum að þeim tilvikum þar sem mál hafi verið höfðað að ástæðulausu.

Kærði telur ásakanir kæranda, um að hann beiti óheiðarlegum vinnubrögðum í störfum sínum sem lögmaður og að hann stingi undan starfsbræðrum sínum við öflun viðskipta í slysamálum, vera grafalvarlegar og til þess eins fallnar að sverta mannorð sitt. Af þeirri ástæðu verði að gera þá skýlausu kröfu að ásakanirnar séu studdar traustum og haldbærum rökum. Rök kæranda í málinu sé blaðaviðtal við kærða og útlegging kæranda á því sem haft var eftir kærða. Allt skynsamt fólk sjái hversu fáránlegur og í raun fjarstæðukenndur málatilbúnaður kæranda sé. Hafa beri í huga að kærandi sé ekki venjulegur leikmaður heldur lögmaður með áratuga reynslu af lögmannsstörfum. Vegna þessa megi gera þá lágmarkskröfu að kærandi klæði mál sitt réttum búningi í réttarfarslegum skilningi, þ.e. að samhengi sé milli kröfugerðar og málsástæðna. Telur kærði að verulega skorti á að þetta grundvallarskilyrði sé uppfyllt og fyrir vikið sé sakarefnið ekki nægilega afmarkað. Óhjákvæmilegt sé að meta málatilbúnað kæranda í þessu ljósi. Hvað sem öðru líði geti úrslit málsins aldrei ráðist af þeirri ímyndun kæranda að kærði beiti óheiðarlegum vinnubrögðum við öflun viðskiptavina í slysamálum.

IV.

Í athugasemdum sínum við greinargerð kærða til nefndarinnar lýsir kærandi undrun sinn á ummælum sjómannsins og skýringum hans á því hvers vegna umboðið var afturkallað. Bendir kærandi meðal annars á að hann hafi greint sjómanninum frá því að hann hafi setið í Rannsóknarnefnd sjóslysa í 13 ár, á tímabilinu 197x-198x. Kveðst kærandi ekki eiga orð yfir lýsingar sjómannsins en bendir á að það gefi augaleið og segi sig sjálft að hann hafi eðlilega enga hagsmuni af því að reyna að eyðileggja bótamöguleika viðskiptavina lögmannsstofunnar og þá um leið að skerða tekjur hennar vegna skaðabótamála. Kærandi kveður það vekja undrun sína að kærði skyldi ekki reyna að pússa harmasögu sjómannsins áður en hún var send nefndinni, til þess að reyna að gera frásögnina trúverðugri og jafnframt að sýna fram á það hvers vegna sá, sem og allir hinir, hafi flúið í útbreiddan faðm kærða en ekki til annarra lögmanna.

Kærandi vísar einnig til frásagnar F, hdl., sem fylgdi athugasemdunum til úrskurðarnefndarinnar, um samskipti F og sjómannsins.

Að því er varðar tilvísun kærða í 28. gr. siðareglna lögmanna telur kærandi að lögmanni, sem taki við máli af öðrum lögmanni, beri að ganga úr skugga um að fyrri lögmanninum hafi verið greitt fyrir vinnu sína áður en viðtakandi lögmaður byrji að vinna í málinu. Í engum tilvikum hafi kærði gert tilraun til þess, heldur látið hlutaðeigandi tilkynna brotthvarfið, enda væri verið að fela hver tæki við verkinu. Þá hefði kærði heldur ekki séð til þess að greiðsla vegna lögmannsvinnu við umrædd mál hefði verið boðin fram, en viðtakandi lögmanni væri skylt að sjá til þess.

Í athugasemdum sínum leggur kærði áherslu á að sjómaðurinn hafi leitað til sín eftir að hafa tekið ákvörðun um að fela öðrum lögmanni en kæranda og F, hdl., rekstur máls síns. Kærði telur það engu máli skipta hvort það hafi verið vegna trúnaðarbrests eða einhvers annars atviks sem sjómaðurinn ákvað að leita til annars lögmanns. Afskipti sín af málinu hafi ekki hafist fyrr en sjómaðurinn hafði tilkynnt kæranda ákvörðun sína og afturkallað umboð sitt til hans. Kærði lýsir yfir óánægju sinni með að vera sakaður um að beita óheiðarlegum vinnubrögðum við öflun viðskiptavina. Kærði bendir á að það sé ekkert sem banni einstaklingi að skipta um lögmann á síðari stigum máls, með afturköllun umboðs, hvort heldur sem er vegna hagsmunaáreksturs, trúnaðarbrests eða hreinlega óánægju með störf lögmanns. Loks vísar kærði til þess að kærandi hafi áður kært sig til úrskurðarnefndar lögmanna fyrir ætluð óheiðarleg vinnubrögð við að ná til sín viðskiptamönnum í slysamálum, sbr. mál nr. 30/2006. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að kærði hafi í störfum sínum við hagsmunagæslu í slysamálum ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna. Til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar væri meðal annars það að tjónþoli hefði heimild til þess að afturkalla umboð sitt samkvæmt 5. mgr. 21. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Nákvæmlega sömu rök ættu við í þessu máli.

Niðurstaða.

 

Kærandi telur kærða hafa brotið gegn nokkrum ákvæðum siðareglna lögmanna, en öll hin tilvísuðu ákvæði eru í 4. kafla reglnanna þar sem fjallað er um samskipti lögmanna innbyrðis.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skulu lögmenn hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. má lögmaður ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt. Í 1. mgr. 28. gr. siðareglnanna er kveðið á um það að verði lögmanni falið verkefni, sem annar lögmaður hefur áður sinnt, skuli hann ekki hefja vinnu við það fyrr en hann hefur fullvissað sig um að hagsmunagæslu fyrri lögmannsins sé lokið eða verði lokið án tafar. Loks segir í 2. mgr. 33. gr. siðareglnanna að lögmanni sé óheimilt að greiða öðrum aðila sérstaka þóknun fyrir að láta hann vísa skjólstæðingum til sín.

Samkvæmt gögnum málsins afturkallaði G, sem hafði veitt lögmannsstofu kæranda umboð til að annast slysamál fyrir sig, það umboð og fól kærða að reka málið fyrir sig. Útskýringar G á afturköllun umboðsins og afstaða kæranda til þeirra útskýringa liggja fyrir í málinu. G var að lögum heimil afturköllun umboðsins samkvæmt 5. mgr. 21. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Að mati úrskurðarnefndar liggur ekkert fyrir í málinu sem bendir til þess að kærði hafi haft frumkvæði að afturköllun umboðsins eða að hann hafi að öðru leyti haft afskipti af þeirri ákvörðun G umfram þá eðlilegu ábendingu að G þyrfti að afturkalla umboð sitt til kæranda svo annar lögmaður gæti tekið við málinu.

Nefndin telur ekkert vera fram komið í málinu sem bendir til þess að kærði hafi í störfum sínum fyrir G og/eða í samskiptum sínum við kæranda, brotið gegn hinum tilvitnuðu ákvæðum siðareglna lögmanna og þannig gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna. Þannig er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærði hafi ekki sýnt kæranda fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Ekki verður heldur séð að 1. mgr. 26. gr. eigi hér við, en í því ákvæði er spornað við þeirri háttsemi að lögmaður snúi sér beint til málsaðila, sem hefur falið öðrum lögmanni að gæta hagsmuna sinna. Vegna túlkunar kæranda á 1. mgr. 28. gr. siðareglnanna tekur nefndin fram að ákvæðið leggur ekki þá skyldu á herðar lögmanni að hann tryggi að fyrri lögmaðurinn sé búinn að fá greiðslu eða tryggingu fyrir greiðslu áður en viðtakandi lögmaður hefst handa. Viðtakandi lögmaður þarf einungis að gæta þess að afskiptum fyrri lögmanns sé lokið eða verði lokið án tafar. Loks telur nefndin ekkert liggja fyrir í málinu um að kærði hafi gerst brotlegur við 2. mgr. 33. gr. siðareglnanna. Staðhæfing í bréfi kæranda til eins tryggingarfélags og umfjöllun þar um samstarf starfsmanns tryggingarfélagsins og kærða er án nokkurs rökstuðnings eða sönnunar.

Að öllu því virtu, sem fram er komið í málinu, telur úrskurðarnefnd lögmanna að kærði hafi í störfum sínum við slysamál og í samskiptum sínum við kæranda ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, D, hrl., hefur í störfum sínum að slysamáli fyrir G og í samskiptum sínum við kæranda, C, hrl., ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA