Mál 2 2008

Ár 2008, miðvikudaginn 31. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Lágmúla 7, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2008:

T ehf.

gegn

U, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2008, lagði S, f.h. T ehf., kæranda, fram kvörtun á hendur U, hdl., kærða, vegna ákvörðunar hans um að segja sig frá máli sem hann hafði tekið að sér að gæta hagsmuna kæranda í, án fullnægjandi ástæðu eða útskýringa.

Hjá úrskurðarnefndinni var málinu gefið númerið 2/2008. Greinargerð kærða, ásamt fylgiskjölum, barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 14. mars 2008, og með bréfi, dags. 15. apríl 2008, gerði kærandi athugasemdir við greinargerð kærða.

Málavextir, kröfur og málsástæður.

I.

Málavextir eru þeir að vorið 2007 leitaði fyrirsvarsmaður kæranda, S, til A lögmannsstofu ehf. með beiðni um að stofan skoðaði nokkur mál, m.a. málsókn á hendur fyrirtækinu J ehf. Á grundvelli umboðs frá kæranda aflaði kærði gagna í málinu og hélt nokkra fundi með forsvarsmanni kæranda. Í framhaldi af því var höfðað mál á hendur J ehf. og var það þingfest í Héraðsdómi X x. september 200x. Lögmaður stefnda, J ehf., skilaði greinargerð í málinu 7. nóvember sama ár og í þinghaldi þann x. desember 200x var ákveðið að fresta málinu til munnlegs flutnings um frávísunarkröfu stefnda þar til x. janúar 200x.

Af gögnum málsins má ráða að fyrirsvarsmaður kæranda hafi átt í nokkrum samskipt­um við kærða vegna framangreinds máls í lok árs 2007, auk a.m.k. eins annars máls sem fyrirsvarsmaðurinn hafði borið undir og notið aðstoðar við hjá kærða. Í kjölfar útgáfu reiknings fyrir vinnu kærða fyrir kæranda, sendi fyrirsvarsmaður kæranda kærða tvo tölvupósta, þann fyrri 13. desember 2007 og þann síðari 14. desember s.á, þar sem fyrirsvarsmaðurinn eys úr skálum reiði sinnar vegna reikninganna, þar sem hann segir m.a. að: „... ef það er einhver samnefnari yfir lögmenn og að þeir séu samviskulausir fégráðugir og óréttlátir, þá er þetta mál sjálfsagt vel til þess fallið að sanna þá reglu!” Í kjölfar þessara tölvupósta og samtala við fyrirsvarsmann kæranda, ákvað kærði, í samráði við framkvæmdastjóra lögmannsstofunnar, að segja sig frá því máli sem hann hafði tekið að sér fyrir kæranda, á grundvelli trúnaðarbrests milli aðila. Tilkynnti kærði fyrirsvarsmanni kæranda um þessa ákvörðun með ábyrgðarbréfi, dags. 3. janúar 2008, auk þess sem öll gögn málsins voru látin fylgja með. Í bréfi kærða er sérstaklega tekið fram að hann geri sér grein fyrir hagsmunum kæranda, en að gengið verði þannig frá málum að kærandi verði ekki fyrir réttarspjöllum, m.a. með því að óska eftir því við Héraðsdóm X að málflutningi frávísunarmálsins verði frestað um sinn. Var afrit þessa bréfs sent Héraðsdómi X.

Í framhaldi af bréfi til Héraðsdóms X hafði kærði samband við viðkomandi dómara og óskaði eftir að fyrirtaka færi fram í málinu þannig að unnt yrði að staðfesta frestun þess með formlegum hætti. Í þinghaldi þann x. janúar 200x lagði kærði fram fyrrgreint bréf sitt til kæranda og lét jafnframt bóka að hann segði sig frá málinu. Málinu var frestað til x. febrúar 200x, sem talið var nægur frestur fyrir kæranda til að finna nýjan lögmann til að reka málið og gæta hagsmuna félagsins.

Með bréfi til A lögmannsstofu, dags. 18. janúar 2008, óskaði fyrirsvarsmaður kæranda eftir afstöðu stofunnar til málsins og lét þess getið að hugsanlega yrði stofan krafin um skaðabætur. Í svarbréfi lögmannsstofunnar, dags. 23. janúar 2008, var kærandi upplýstur um að stofan hyggðist ekki meðhöndla málið á neinn sérstakan hátt enda færi fjarri að kærandi hefði orðið fyrir tjóni vegna þess.

II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar kvartar kærandi yfir störfum kærða með því að hafa sagt sig frá málinu fyrirvaralaust og án fullnægjandi ástæðna eða útskýringa og ekki gætt þess að forða félaginu frá réttarspjöllum. Kærandi hafi engan trúnað brotið gagn­vart kærða, heldur hafi hann gagnrýnt ákveðna gjaldtöku og kærði hafi enga tilburði haft uppi til að kanna hvort um væri að ræða fullkomna meiningu í póstum kæranda og því verði að skoða þá sem persónulegt „fjas” tveggja manna. Skoða verði sam­hengi tilvísaðra pósta þeirra í milli í samhengi við aðra pósta sem geri fyrri pósta meiningarlausa, enda hefði kærði hugsanlega átt að líta á póstana sem „kerskni” eða tilraun til gamansemi. Þá hafi kærði enga tilburði haft uppi til að afstýra eða takmarka tjón kæranda. Hafi málið ónýst með því að því var vísað frá dómi þann x. febrúar 200x og réttarspjöll þar með komin fram. Fer kærandi fram á að kærði verði víttur og að lögmannsstofan endurgreiði sér það sem greitt hafi verið fyrir lögmannsaðstoðina, þar sem kærði hafi sagt sig frá málinu á eigin ábyrgð, auk þess sem krafist er skaðabóta fyrir tjón fyrirtækisins.

III.

Í greinargerð kærða vísar hann umkvörtunum kæranda á bug og bendir á að staðhæf­ingar og yfirlýsingar fyrirsvarsmanns kæranda, sem settar voru fram í tölvupósti til kærða, hafi án nokkurs vafa verið þess efnis að hagsmunum beggja aðila væri best borgið með því að kærði segði sig frá málinu sem lögmaður kæranda. Samkvæmt 6. mgr. 21. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, geti lögmaður á öllum stigum sagt sig frá verki sem honum hefur verið falið, enda gæti hann þess að umbjóðandi hans verði ekki fyrir réttarspjöllum af þeim sökum. Í því sambandi vísar kærði til þess að hann hafi tilkynnt fyrirsvarsmanni kæranda formlega um afstöðu sína með ábyrgðarpósti þann x. janúar 200x og hafi í fyrirtöku málsins fyrir dómi þann x. janúar s.á. óskað eftir fresti þannig að kæranda gæfist kostur á að finna nýjan lögmann til reksturs málsins. Málinu hafi verið frestað til x. febrúar 200x og því væri ljóst að kærði hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að tryggja að kærandi yrði ekki fyrir réttarspjöllum. Fráleitt sé að halda því fram að það sé kærða um að kenna að kæranda tókst ekki að fá nýjan lögmann að málinu á þeim fjórum vikum sem hann hafi haft til stefnu, enda sé slíkt svigrúm nægjanlegt og í samræmi við tilvitnuð ákvæði lögmannalaga og siða­reglur lögmanna. Hafi kærandi orðið fyrir tjóni, sem reyndar sé með öllu ósannað, sé ljóst að kærða verði ekki um kennt. Þá sé það ekki á valdi úrskurðarnefndar lögmanna að úrskurða um bætur til kæranda eða endurgreiðslu greiddrar þóknunar til lögmanns­stofunnar. Úrskurðarnefndin geti aðeins fundið að vinnubrögðum kærða eða veitt hon­um áminningu, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 og 15. gr. málsmeðferð­arreglna úrskurðarnefndar.

Þá vísar kærði til þess að í ákvæðum 6. mgr. 21. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 og 2. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna felist sú grundvallarregla að engu máli skipti hvaða ástæða liggi að baki því að lögmaður ákveður að segja sig frá verki, enda sé þess gætt að umbjóðandi hans verði ekki fyrir réttarspjöllum af þeim sökum. Því skilyrði hafi verið fullnægt enda þótt litið yrði svo á að tilvísaðar tölvupóstsendingar geti ekki talist til trúnaðarbrests.

Loks gerir kærði kröfu um málskostnað úr hendi kæranda, samkvæmt mati nefnd­arinnar, á grundvelli 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Niðurstaða.

I.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í V. kafla laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. getur nefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lög­manns eða veitt honum áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við dómsmála­ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður um tiltekinn tíma eða ótímabundið, ef sakir eru miklar, sbr. 1. mgr. 14. gr. lögmannalaga.

Jafnframt segir í 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga að greini lögmann á við umbjóð­anda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

II.

Umkvörtunarefni kæranda er þríþætt, sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Verður nú tekin afstaða til þessara atriða og málsástæðna aðila.

A. Lögmaður segir sig frá máli án ástæðu - réttarspjöll.

Kvörtun kæranda byggist á því að kærði hafi sagt sig frá máli fyrirvaralaust og án full­nægjandi ástæðna og ekki gætt þess að kærandi yrði ekki fyrir réttarspjöllum.

Samkvæmt gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærði hafi með all nokkr­um fyrirvara tilkynnt fyrirsvarsmanni kæranda um ákvörðun sína um að segja sig frá málinu. Hefur úrskurðarnefnd undir höndum bréf þessu til staðfestingar, sem sent var kæranda með ábyrgðarbréfi, dags. x. janúar 200x. Jafnframt liggur fyrir í málinu að kærði óskaði eftir því við fyrirtöku málsins fyrir dómi þann x. janúar 200x að málinu yrði frestað, með það fyrir augum að kæranda gæfist kostur á að finna nýjan lögmann í sinn stað til að taka við rekstri málsins. Loks liggur inni í málinu endurrit úr þingbók Héraðsdóms X, þar sem fram kemur að málinu hafi verið frestað til x. febrúar 200x.

Samkvæmt 6. mgr. 21. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 2. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna, getur lögmaður sagt sig frá verki, sem honum hefur verið falið, á öllum stigum máls, enda gæti hann þess að umbjóðandi hans verði ekki fyrir réttarspjöllum af þeim sökum.

Í ljósi þessara heimilda og fyrirliggjandi upplýsinga um ráðstafanir þær, sem kærði greip til í framhaldi af því að segja sig frá verkinu, m.a. með frestun máls fyrir dómi í um fjórar vikur, verður að líta svo á að kærði hafi gripið til fullnægjandi ráðstafana til að tryggja að kærandi yrði ekki fyrir réttarspjöllum, svo sem kveðið er á um í fram­angreindum ákvæðum. Verður því ekki talið að kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna hvað þetta kæruatriði varðar.

B. Endurgreiðsla lögmannsþóknunar.

Krafa kæranda um að kærða verði gert að endurgreiða þóknun sem honum og lög­mannsstofunni A var greidd vegna málsins, byggist á því að kærði hafi enga tilburði haft uppi til að afstýra eða takmarka tjón kæranda og því hafi sú vinna, sem þegar hafði verið lögð í málið, eyðilagst við þá ákvörðun kærða að segja sig frá verkinu.

Þrátt fyrir að þessi kæruliður sé að nokkru leyti skaðabótalegs eðlis og eigi því ekki undir úrskurðarnefnd lögmanna samkvæmt 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, er rétt að benda á að samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín. Með vísan til þess að kærði telst hafa gert nauðsynlegar ráðstafanir til að forða réttarspjöllum í því máli sem um ræðir, m.a. með því að fá nægan frest í málinu fyrir dómi, þannig að kæranda gæfist tóm til að fá nýjan lögmann að verkinu, auk þess sem kæranda voru send öll skjöl málsins, verður að líta svo á að öll sú vinna, sem þegar hafði verið innt af hendi í þágu málsins, hefði nýst fyrir áframhaldandi rekstur þess.

Telur úrskurðarnefnd því að áskilin þóknun kærða og lögmannsstofunnar A teljist hæfilegt endurgjald fyrir þá vinnu sem þegar hafði verið innt af hendi, enda hefur kær­andi ekki gert sérstakan ágreining um fjárhæðina sem slíka.

C. Greiðsla skaðabóta vegna tjóns kæranda.

Þriðji þáttur umkvörtunar kæranda snýr að kröfu um skaðabætur úr hendi kærða vegna meints tjóns sem fullyrt er að kærandi hafi orðið fyrir í kjölfar þess að kærði sagði sig frá málinu. Þar sem krafa kæranda um greiðslu skaðabóta fellur utan lög­bundins valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, ber að vísa þessum hluta erindis kæranda frá nefndinni.

III.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar lög­manna að kærði hafi í störfum sínum ekki gerst brotlegur við lögmannalög nr. 77/1998 eða siðareglur lögmanna við hagsmunagæslu fyrir kæranda.

Áskilin þóknun kærða fyrir störf í þágu kæranda telst hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga.

Kröfu um skaðabætur úr hendi kærða er vísað frá.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, U, hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, T ehf., með háttsemi er stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna.

Áskilin þóknun kærða fyrir störf í þágu kæranda er hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

Kröfu kæranda um skaðabætur er vísað frá.

Málskostnaður fellur niður.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA