Mál 30 2009

Ár 2011, fimmtudaginn 12. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 30/2009:

V

gegn

S hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi V, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, mótt. 22. október 2009, var kvartað yfir vinnubrögðum af hendi S hdl., kærðu, sérstaklega óeðlilegum töfum á málarekstri sifjamáls og kostnaði við málareksturinn. Með bréfi, dags. 5. nóvember 2009 var óskað eftir greinargerð kærðu. Kærða fékk ítrekað fresti til að skila greinargerð og barst hún 20. febrúar 2011. Kæranda var með bréfi dags. 23. mars 2011 gefinn kostur á að tjá sig um efni greinargerðarinnar en frekari athugasemdir bárust ekki.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau, eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærðu og gögnum málsins, að kærandi fól kærðu að annast fyrir hana málarekstur til að fá viðurkennt að ákveðinn maður, X, þá búsettur í Kaupmannahöfn, væri faðir hennar. Er umboð kæranda til kærðu dagsett í desember 2003. Eftir að reynt hafði verið að hafa samband bréflega við manninn var gefin út stefna í barnsfaðernismáli [vorið] 2004. Féllst stefndi á að undirgangast mannerfðafræðilega rannsókn vegna málsins með bréfi til skipaðs málsvara síns í september 2004. Í framhaldi af því fóru mannerfðafræðilegar rannsóknir fram og lá sú niðurstaða fyrir í mars 2005 að X gæti ekki verið faðir kæranda. Var þá fallið frá stefnukröfu um að hann yrði dæmdur faðir kæranda og í framhaldi af því var [um vorið] 2005 kveðinn upp úrskurður héraðsdóms um greiðslu alls málskostnaðar kæranda úr ríkissjóði, þar á meðal 150.000 kr. málflutningsþóknunar kærðu. 

Kærandi sætti sig ekki við þessi málalok og taldi að niðurstaðan væri röng. Leitaði hún á ný til kærðu vegna þessa og varð úr að ákveðið var að freista þess að láta fara fram nýja mannerfðafræðilega rannsókn á tengslum kæranda og X. Greiddi kærandi 50.000 kr. í september 2005 upp í kostnað vegna málsins, en aðila greinir á um hvað þeim fór á milli um væntanlegan kostnað. Kærandi kveðst eftir þetta ekkert hafa heyrt af málinu þrátt fyrir árangurslausar tilraunir sínar til að ná tali af kærðu og beiðnir um að hún hefði samband við sig fyrr en í nóvember 2008 að kærða hafi óskað eftir 124.500 kr. viðbótargreiðslu. Hafi sú greiðsla verið innt af hendi en kærða hafi sem fyrr ekki látið ná í sig og ekkert frést af málinu fyrr en í júní 2009 að kæranda hafi borist gögn vegna blóðrannsóknar. Hafi kærandi látið draga sér blóð vegna rannsóknar málsins í júlí 2009 en komist að því í október í símtali við eiginmann kærðu, sem starfaði á lögmannsstofu hennar að málið sé ekki í réttum farvegi.

Kærða hefur fyrir sitt leyti gert grein fyrir rekstri málsins frá haustinu 2005. Ætlunin hafi verið að fá X til að fallast á að blóðsýni það sem aflað var í faðernismálinu yrði rannsakað á ný í Noregi. Hann hafi verið orðinn mjög veikur og ósáttur við það áreiti sem stafaði frá kæranda. Hafi hann látist í desember 2006 án þess að hafa fallist á beiðnina. Er því haldið fram af hálfu kærðu að hún hafi verið í sambandi við kæranda á þessum tíma og að við andlát X hafi kærandi sagt sér að hún vildi hugleiða hvort hún vildi halda áfram með málið. Þann 5. maí 2008 hafi hún rætt við kæranda í síma og kærandi þá ákveðið að halda áfram með málið. Hafi  kærða ítrekað rætt við D, dóttur X, í maímánuði og þeim samtölum lyktað með því að hún féllst á að fram færi samanburðarrannsókn á blóði kæranda og sínu. Um sumarið hafi kærandi reynt að  ná sambandi við rétta aðila í Osló til að fá rannsóknina framkvæmda og hafi það tekist í lok júlí. Hún hafi móttekið svarbréf frá háskólasjúkrahúsinu í Osló, dags. 5. ágúst 2008, en áfall í fjölskyldu hennar og eigin veikindi hafi orðið til þess að hún hafi verið meira og minna frá vinnu frá ágústlokum. Þá hafi verið ókleift að greiða erlenda reikninga haustið 2008 og hafi málið af þessum sökum dregist lítillega. Hafi kærða haft samband við kæranda 12. nóvember 2008 til að fá staðfest að hún vildi halda þessum málarekstri til streitu auk þess sem hún vildi að kærandi greiddi 124.500 kr. vegna málsins, þar af 55.575 vegna útlagðs kostnaðar við rannsóknina. Það hafi fyrst verið í desemberlok 2008 sem hún hafi fengið staðfestingu á því að búið væri að senda greiðslu vegna rannsóknarinnar til sjúkrahússins í Osló og þá fyrst hafi verið unnt að taka blóð og senda til rannsóknar. Veikindi kærðu hafi þó leitt til þess að hún hafi ekki sent kæranda og D gögn vegna blóðrannsóknarinnar fyrr en í júní 2009. Þrátt fyrir ítrekanir kærðu hafi D ekki komist til blóðtöku fyrr en undir árslok 2009 og hafi blóðrannsókn þá farið fram og niðurstaða hennar (dags. í jan 2010) verið í samræmi við niðurstöðu fyrra málsins, þ.e. að yfirgnæfandi líkur séu á að kærandi og D séu ekki hálfsystur. Hafi kærandi neitað að koma til viðtals til að veita niðurstöðunum viðtöku, en vísað til kærumáls þessa.

II.

Kærandi kvartar sem fyrr segir i kvörtun sinni undan óeðlilegum drætti á rekstri faðernismálsins og kostnaði. Í greinargerð hennar til úrskurðarnefndarinnar koma auk þess fram ýmsar aðfinnslur við hvernig kærða hefur haldið á máli hennar. Finnur kærandi að því að kærða hafi ekki greint sér frá áfrýjunarfresti í dómsmálinu, að hún hafi ekki verið til svars um rekstur málsins og ekki tekið við símtölum frá sér þrátt fyrir að tekin hafi verið skilaboð. Þá þykir kæranda að kærða hafi ekki gert sér grein fyrir kostnaði við málareksturinn með fullnægjandi hætti.

Varðandi seinagang við málareksturinn byggir kærandi sérstaklega á því að það hafi tekið kærðu tæp 3 ár að senda beðni til Noregs vegna seinni sýnatökunnar og að kærða hafi haldið svargögnum frá Noregi í rúma 10 mánuði áður en hún kynnti kæranda þau.

III.

Kærða rekur í greinargerð sinni samskipti sín við kæranda frá upphafi málareksturs hennar og gerir ýmsar athugasemdir við málavaxtalýsingu í kvörtun hennar. Hún bendir á að þar sem fallið var frá þeirri meginstefnukröfu í dómsmálinu á hendur X að hann yrði dæmdur faðir kærðu, hafi áfrýjun aldrei komið til greina. Þá fullyrðir kærða að kærandi hafi verið fullmeðvituð um gang málsins eftir að tilraunir hófust til að fá erfðafræðilega rannsókn á blóði endurtekna og að kærandi hafi tekið sér tíma til að hugleiða hvort áfram skyldi haldið með málið eftir að X lést í desember 2006 (en ekki 2005 eins og fram komi í kvörtuninni)  og það hafi fyrst verið 5. maí 2008 að kærandi hafi ákveðið að halda málarekstri þessum áfram. Kærða fellst á að eftir að veikindi hennar hófust í ágúst 2008 hafi þau leitt til þess að tafir hafi orðið á málarekstrinum og sérstaklega til þess að hún hafi ekki sent gögn sem bárust vegna blóðrannsóknarinnar í ágúst 2008 til kæranda fyrr en í júní 2009, en unnt hefði verið að senda þau í desemberlok 2008, eftir að greiðslu var komið til Noregs. Hafi kærða ítrekað beðið kæranda afsökunar á þessum drætti og ítreki afsökunarbeiðni sína vegna þessa enn í greinargerð sinni.

Varðandi kostnað við málareksturinn vísar kærða til reiknings síns og tímaskýrslu. Hún hafi veitt kærðu nokkurn afslátt og krafið hana um 10 tíma vinnu auk útlagðs kostnaðar.

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í máli þessu ber nokkuð á milli frásagna aðila í ákveðnum atriðum. Sérstaklega á þetta við um hversu kærða upplýsti kæranda um gang mála eftir að ákveðið var að freista þess að endurtaka mannerfðafræðilegar rannóknir haustið 2005. Kærða hefur fullyrt að kærandi hafi verið fullmeðvituð um gang málsins og vísað til ákveðinna samtala þeirra á milli. Gegn andmælum hennar verður niðurstaða máls þessa ekki byggð á einhliða fullyrðingu kæranda um að hún hafi ekki fengið upplýsingar um gang málsins. Hið sama á við um þá umkvörtun að kærða hafi ekki veitt eðlilegar upplýsingar um þann kostnað sem vænta mátti vegna málsins.

Varðandi þá umkvörtun kæranda að kærða hafi ekki greint sér frá áfrýjunarfresti í dómsmálinu, verður að fallast á það með kærðu að eins og málsatvik birtast í gögnum málsins hefur ekki verið um það að ræða að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms eftir að dómkrafan um faðerni kæranda hafði verið felld niður. Verða ekki gerðar aðfinnslur við störf kærðu á þessum grunni.

Ljóst virðist að eftir að niðurstaða mannerfðafræðilegrar rannsóknar á kæranda og þeim manni sem hún hafði talið föður sinn lá fyrir vorið 2005, var málstaður hennar orðinn mjög erfiður og frekari málarekstur í raun háður samstarfsvilja hans og afkomenda hans, að honum gengnum. Eins og fyrr greinir verða aðfinnslur við störf kærðu ekki reistar á einhliða yfirlýsingum kæranda um málavexti og verður hér byggt á því að allt fram á sumarið 2009 hafi málareksturinn einkum falist í því að reyna að fá X, en síðar dóttur hans, til að fallast á frekari rannsóknir. Veikindi X og andlát hafi sett mark sitt á þessar tilraunir og kærða lítt haft á valdi sínu að knýja fram jákvæða niðurstöðu hraðar en raun varð á.

Eftir að dóttir X hafði fallist á að taka þátt í erfðafræðilegri rannsókn á skyldleika sínum við kæranda í maílok 2008 hófst nýr kafli í framvindu málsins. Verður að fallast á það með kæranda að nokkuð hefur þá skort á að málshraði væri með eðlilegum hætti, enda hefur kærða sjálf fallist á að dráttur hafi orðið á að hún sendi rannsóknargögn frá Noregi til hlutaðeigandi. Hefur kærða borið fyrir sig áfall í fjölskyldu sinni og erfið veikindi sín í kjölfarið.

Samkvæmt 12. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni, að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist, en lögmanni er heimilt á öllum stigum að segja sig frá verki. Það er mat nefndarinnar að enda þótt líta verði til atvika málsins í ljósi þessara aðstæðna kærðu, verði almennt að gera ákveðnar kröfur til lögmanna sem forfallast eða verða ófærir að sinna málum skjólstæðinga sinna af persónulegum ástæðum. Í slíkum aðstæðum þurfa þeir að grípa til ráðstafana til að fela öðrum að sinna verkefnum í sinn stað. Verður að gera aðfinnslu við að kærða skyldi láta málið liggja jafn lengi óhreyft og raun ber vitni, án þess að tilkynna kæranda sérstaklega um tafir, enda þótt það virðist ekki hafa valdið kæranda réttarspjöllum.

Nefndin hefur farið yfir þann kostnað, sem fallið hefur til vegna málareksturs þessa frá haustinu 2005, þ.á.m. framlagða tímaskýrslu kærðu. Ekki er unnt að fallast á að heildartímafjöldi málsins eða tímagjald sé umfram það sem reikna má með við málarekstur af því tagi sem hér um ræðir. Gögn málsins bera með sér að samræmi er á milli þess útlagða kostnaðar sem til féll vegna málsins og reikninga kærðu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Dráttur kærðu, S hdl., á að senda frá sér nauðsynleg gögn vegna blóðsýnatöku í máli kæranda, V, án þess að tilkynna um tafir á rekstri málsins, er aðfinnsluverður.

Áskilin þóknun kærðu, S, hdl., fyrir störf að faðernismáli fyrir sóknaraðila, telst vera hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.