Mál 22 2010

Mál 22 2010

Ár 2011, föstudaginn 16. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 22/2010:

U

gegn

H hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna  barst þann 15. desember 2010 erindi U þar sem krafist er niðurfellingar reiknings varnaraðila frá 31. október 2010 að fjárhæð 48.750 auk kr. 12.431 í Vsk., alls kr. 61.181.-

Varnaraðili sendi nefndinni greinargerð um málið þann 28. janúar 2011 og var sóknaraðila gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir sóknaraðila við greinargerð varnaraðila bárust 22. febrúar 2011. 16. júní. Varnaraðila var gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir vegna þeirra, en þær hafa ekki borist.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Nokkur ágreiningur er um málsatvik, en fyrir liggur að sóknaraðili leitaði til varnaraðila í ágústlok 2010. Taldi sóknaraðili sig hafa orðið fyrir tjóni vegna mistaka prentsmiðju sem hafði tekið að sér að prenta bók hennar. Taldi sóknaraðili hugsanlegt að hún væri tryggð fyrir lögmannskostnaði, sem á henni kynni að lenda ef hún sækti rétt sinn í málinu og segir hún tryggingafélag sitt hafa leiðbeint sér um að leita til lögmanns til að fara yfir réttarstöðu sína. Upphaflega var sóknaraðili í símasambandi við varnaraðila og fulltrúa hans þann 30. ágúst og var ákveðið að funda 2. september og að sóknaraðili myndi þá taka með sér gögn vegna málsins. Sóknaraðili kveðst hafa skilið það svo að tryggingafelag hennar myndi greiða kostnað vegna þessa, eða að það væri fyrsta skref málsins að kanna hvort svo væri.

Sóknaraðila segist svo frá að á fundi hennar með fulltrúa varnaraðila, sem staðið hafi frá kl. 12:35 - 12:45 hafi komið í ljós að fulltrúinn hefði ekki fengið upplýsingar um álitamál varðandi málskostnað (þ.e. hvort trygging sóknaraðila næði til málskostnaðar í málinu).

Sóknaraðili kveður fulltrúann hafa tekið að sér að kanna málið og þá sérstaklega kostnaðarþátttöku tryggingafélagsins. Hefði hún átt að senda honum tölvupósta sem málið vörðuðu.

Varnaraðili kveður hins vegar fulltrúa sinn hafa á þessum fundi bent sóknaraðila á þann kostnað sem gæti hlotist af málinu og beðið hana að kanna hvort hún hefði tryggingu.

Í framhaldi af þessum fundi sendi fulltrúi varnaraðila, strax sama dag tölvupóst til sóknaraðila og óskaði eftir upplýsingum um nafn tryggingarinnar sem sóknaraðili hafði. Hún svaraði því um hæli og svaraði fulltrúinn henni þá og kvaðst sjá í skilmálum tryggingarinnar að tjón af því tagi sem sóknaraðili hafði orðið fyrir væri undanskilið bótaábyrgð. Allt að einu kvaðst hann myndu senda félaginu erindi og athuga hvort tjón sóknaraðila félli undir trygginguna. Daginn eftir héldu tölvupóstsamskipti fulltrúans og sóknaraðila áfram. Hann kvaðst myndu tilkynna sóknaraðila þegar svar bærist frá tryggingafélaginu

Sóknaraðili sendi þann 9. september fulltrúa varnaraðila tölvupósta sem vörðuðu ágreining hennar við prentsmiðjuna og það prentverk sem úrskeiðis fór. Er þar einkum um að ræða samskipti útgefanda hennar og fyrirsvarsmanns prentsmiðjunnar þar sem ferill verksins og samskipta þeirra er rakinn. Þann 10. september sendi hún fulltrúanum frekari pósta um þessi samskipti og svaraði fulltrúinn með svofelldum pósti: Sæl. Þú lætur mig vita ef þú vilt að ég blandi mér í málið.  Svaraði sóknaraðili svo að hún skyldi gera það, væntanlega í næstu viku.

13. september sendi sóknaraðili fulltrúanum enn tölvupóst. Þar framsendir hún honum samskipti sín við þann sem setti upp bókina, en í stuttu máli má ráða af póstunum að hann og/eða prentsmiðjan voru tilbúin til að axla nokkra ábyrgð með því að endurtaka verkið en það taldi sóknaraðili þýðingarlaust þar sem tækifæri hennar til að selja bókina væri að verulegu leyti tapað. Þá skrifar hún fulltrúanum m.a. „ég hugsa nú er tímin komin að þú taka við [...] Ég vil enga endurprentun, ég er búin að tapa gríðarlega mikið"

14. september móttók fulltrúinn höfnun tryggingafélagsins á bótaskyldu. Hann framsendi það þegar í stað til sóknaraðila. Sóknaraðili kvaðst þá vilja tala við tryggingafélagið en spurði jafnframt hvað lögmannsstofan tæki fyrir málið og hvort sú fjárhæð yrði greidd af þeim sem myndu greiða henni bætur. Þá bætti hún við „Ég var nú ekki að hugsa að setja mikið í þetta"

Fulltrúinn stakk þá upp á því að hann myndi skrifa rökstutt bréf með kröfu um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar og skaðabætur fyrir missi hagnaðar. Hann þurfi hins vegar að óska eftir fyrirframgreiðslu fyrir 4 tíma, en þegar hefðu 2,5 tímar farið í málið. Svaraði sóknaraðili því til að hún hefði aðeins greitt 110.000 fyrir vinnslu bókarinnar og væri hluti þess fyrir prófarkalestur. Ekki hefði verið greitt fyrir sjálfa prentunina. Verður svar hennar að öðru leyti skilið svo að hún óskaði ekki eftir frekari vinnu að svo stöddu.

Ekki varð af frekari samskiptum á milli aðila fyrr en sóknaraðili fékk sendan reikning dags. 31. október 2010. Ágreiningur um þann reikning og greiðsluskyldu vegna hans er það sem um er deilt í máli þessu.

II.

Í kvörtun sóknaraðila til úrskurðarnefndar kemur fram að það hafi ætíð verið hennar skilningur að ekki yrði unnið í málinu fyrr en fyrir lægi að tryggingafélagið gæti greitt lögmannskostnaðinn, en sjálf hafi hún engin tök á að greiða fyrir vinnu lögmanna. Hún hafi tekið þetta fram á fyrsta fundi sínum með fulltrúa varnaraðila en þá hafi hann ekki vitað um hvað hún var að tala og sagt að þessu hefði varnaraðili greinilega gleymt að segja sér frá. Hann hafi í framhaldi tekið að sér að skoða hvort tryggingin myndi greiða fyrir vinnuna, en hún hafi ekki átt von á neinum reikningi vegna þessa. Sóknaraðili telur ekki rétt að innheimta fyrir 2,5 klst vinnu fyrir að sinna þeirri athugun og gerir auk þess athugasemd við að sér hafi ekki verið kynnt gjaldskrá lögmannsstofunnar í upphafi. Hún hafi aldrei veitt lögmannsstofunni umboð til að vinna fyrir sig. Þegar hún hafi svo spurt fulltrúan þann 14. sept hvort hann geti aðstoðað sig, hafi hann svarað með því að fara fram á 100.000 kr. greiðslu.

Sóknaraðili krefst þess að umræddur reikningur verði felldur niður.

III.

Kærandi kannast í greinargerð sinni ekki við að hafa gert annað en unnið þau störf sem sóknaraðili bað um, án þess að nokkur áskilnaður væri gerður um að þau skyldu unnin gjaldfrjálst eða ádráttur gefinn um slíkt. Hafi sóknaraðila þegar á fyrsta fundi verið bent á að talsverður kostnaður gæti orðið af málinu og hafi hún ætlað að kann hvort hún hefði hugsanlega málskostnaðartryggingu.

Varnaraðili hefur ekki gert sérstakar kröfur fyrir nefndinni en greinargerð hans verður skilin svo að þess sé krafist að öllum kröfum sóknaraðila um niðurfellingu reiknings eða lækkun hans verði hafnað.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Ágreiningur í máli þessu snýst fyrst og fremst um það, hvort aðilum hafi verið rétt að líta svo á að ekki skyldi unnið fyrir sóknaraðila, nema að því marki sem það yrði greitt af hugsanlegri málskostnaðartryggingu hennar.

Það sem liggur fyrir og hér hefur verið rakið um samskipti sóknaraðila og varnaraðila rennir stoðum undir að eftir fund aðila 2. september 2010 hafi það verið skilningur þeirra beggja að beðið skyldi niðurstöðu um málskostnaðartryggingu áður en vinna yrði lögð í málið. Engu að síður sendi sóknaraðili töluverð gögn sem mál hennar varðaði og lét fulltrúann þannig fylgjast með samskiptum sínum við þá sem hún taldi bera ábyrgð á tjóni sínu. Þrátt fyrir þessar sendingar er greinilegt að hann taldi ekki rétt að leggja í vinnu vegna þeirra nema að fengnum skilaboðum sóknaraðila um að svo skyldi gert. Þann þrettánda september sendi hún fulltrúanum meldingu um að tími væri kominn til að hann tæki við og átti þá greinilega við samskipti sín við þá sem hún taldi bera ábyrgð á tjóni sínu. Daginn eftir, þegar fulltrúinn hafði tilkynnt sóknaraðila að ekki yrði greitt úr tryggingunni, hélt sóknaraðili áfram að bollaleggja um framhald málsins í skilaboðum til fulltrúans.

Er ljóst af þessum samskiptum að fulltrúi sá sem hélt utan um málið fyrir varnaraðila gætti að því að leggja ekki út í umfangsmikla vinnu við málið, jafnvel þótt sóknaraðili ýtti að honum gögnum og ráðfærði sig við hann. Verður að telja að umfang þeirra starfa sem unnin voru fyrir sóknaraðila á lögmannsstofu varnaraðila hafi verið hófleg miðað við hvernig hún hélt máli sínu fram gagnvart starfsmönnum stofunnar.  

 Þá verður ekki talið að varnaraðili eigi að vinna án endurgjalds að því að hitta sóknaraðila, fara yfir mál hennar og athuga hvort trygging hennar standi undir kostnaði.  Liggur ekkert fyrir um samkomulag um slíkt. Kærði hefur innheimt tímagjald fyrir 2,5 klst. af þeim 3,75 klst. sem bókfærðar voru vegna starfa fyrir kæranda.

Að öllu þessu athuguðu verða ekki gerðar athugasemdir við áskilda þóknun varnaraðila.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin verklaun varnaraðila, H hrl., vegna vinnu fyrir sóknaraðila,  U, eru hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.