Mál 3 2011

Ár 2011, fimmtudaginn 1.desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 3/2011:

N

gegn

V

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi N til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 22.mars 2011, var kvartað yfir háttsemi V hrl., kærða, vegna reikninga sem hann hafði gefið út og ófullnægjandi hagsmunagæslu fyrir kæranda

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann14. október 2011 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 7. nóvember 2011, og var kærða boðið að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna þeirra, en lokaathugasemdir kærða vegna málsins bárust 25. nóvember 2011.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærða og gögnum málsins eru málsatvik þau að kærandi samdi við málara um að mála íbúðarhús sitt. Var m.a. svo um samið að hún skyldi útvega allt efni til verksins en ekki var gerður skriflegur verksamningur um verkið. Verkið gekk ákaflega illa og var illa unnið að sögn kæranda og kveðst hún m.a. hafa komið að verktakanum við drykkju í húsnæðinu ásamt öðrum manni. Hafi farið svo að lokum að hún hafi rekið málarann, en þá hafi henni borist reikningur frá þessum samverkamanni hans fyrir vinnu og efni. Fór svo að henni var stefnt til greiðslu þessa reiknings og leitaði þá til lögmannsstofu kærða. Mun það hafa verið í febrúar 2010.Nam stefnufjárhæðin 190.756 krónum.

Aðila kærumáls þessa greinir á um það, hvernig á því stóð að ákveðið var að taka til varna í þessu dómsmáli í stað þess að semja um kröfuna. Kærandi kveðst telja að kærði hafi gert mistök í þessu og þannig haft sig að féþúfu. Kærða segist svo frá að kærandi hafi haldið því fram að stefnandi hafi aldrei unnið við málun í húsnæðinu. Henni hafi verið ráðlagt að semja um kröfuna en það hafi hún ekki gert. Fyrir liggur að þann 8. mars spurðist fulltrúi kærða fyrir um það hjá lögmanni gagnaðila hvort líta mætti svo á að tilboði um 50.000 króna fullnaðargreiðslu hefði verið hafnað og fékk samdægurs staðfestingu á því að gagnaðilinn hafnaði þessu tilboði.

Kærði fól fulltrúa sínum að vinna að málinu og skrifaði hann m.a. greinargerð f.h. kæranda. Kveður kærandi það hafa komið sér á óvart þegar hún komst að því kvöldið fyrir málflutning að fulltrúi kærða myndi flytja málið, en kærði byggir á því að fulltrúinn hafi frá upphafi unnið að málinu fyrir sína hönd og verið í samskiptum við kæranda vegna þess.

Þann 31. ágúst 2010 gaf kærði út reikning á hendur kæranda nr. T08350. Reikningurinn er að fjárhæð 209.428 að meðtöldum virðisaukaskatti. Þennan reikning greiddi kærandi þann 25. október 2010, en kveðst þá jafnframt hafa tjáð kærða að þetta yrði að duga, enda þætti henni málið orðið dýrt, hvernig sem það færi.

Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í desember 2010. Þangað mætti kærandi með reikninga sína vegna efniskaupa. Kveðst hún hafa afhent lögmannsstofu kærða þá ásamt frekari gögnum, en fengið þá aftur síðar í sama umslaginu án þess að séð yrði að þeir hefðu verið skoðaðir. Kærði segir að kærandi hafi mætt með reikninga í dómssal, sem lögmenn hennar hefðu ekki áður séð. Lögmaður gagnaðila hafnaði framlagningu þessara gagna.

Þegar kom að aðilaskýrslum við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kom fram að kærandi kannaðist við að stefnandi í dómsmálinu hefði verið við vinnu í húsnæðinu og að sú vinna hefði nýst að einhverju leyti.

Eftir aðila- og vitnaskýrslur leitaði dómari sátta með aðilum. Lauk því svo að kærandi gerði sátt um að ljúka málinu með greiðslu 80.000 króna, en hvor aðili stæði straum af sínum kostnaði við málið. Er á því byggt af hálfu kæranda að hún hafi sjálf annast gerð þessarar sáttar en kærði byggir á því að fulltrúi hans hafi séð til þess að þessir samningar næðust.

Þann 30. desember 2010 gaf kærði út síðari reikning sinn á hendur kæranda. Er hann nr. T08350 vegna tímavinnu á tímabilinu 17. september 2010 - 15. desember 2010, alls 10,25 klst. Að teknu tilliti til afsláttar af tímagjaldi og að meðtöldum virðisaukaskatti er heildarfjárhæð þessa reiknings. kr. 188.250. Verður málatilbúnaður aðila skilinn svo að hann sé ógreiddur.

Í febrúarbyrjun 2011 sendi kærði kæranda innheimtuviðvörun vegna hins ógreidda reiknings. Hófust þá nokkur tölvupóstsamskipti vegna málsins. Í þeim kemur fram af hálfu kærða að hann telur málið einfaldlega snúast um uppgjör kæranda á reikningi. Reikningurinn sé vegna vinnu fulltrúa sem unnið hafi óaðfinnanlega að máli kæranda og sé byggður á tímaskýrslu. Þá staðhæfir kærði í þessum tölvupóstsamskiptum að margítrekað hafi verið hvatt til sátta þar sem stefnufjárhæðin hafi verið lág. Telur kærði ekki efni til að fjalla sérstaklega um uppgjörið á fundi. Af hálfu kæranda koma hins vegar fram umkvartanir m.a. vegna þess að kærði hafi ekki sjálfur séð um málið eins og hún hafi lagt upp með

II.

Kærandi krefst þess í fyrsta lagi að kærunefndin úrskurði að henni beri ekki skylda til að greiða reikning nr. T08350 að fjárhæð kr. 188.250.

Í öðru lagi krefst kærandi þess að kærði fái tiltal vegna þess að hann geri út á viðskiptavini eins og sig.

Umkvartanir kæranda eru þessar:

Kærði hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að semja um lækkun kröfunnar heldur farið með málið fyrir dóm með ærnum tilkostnaði fyrir hana

Kærði hafi ekki unnið sjálfur að máli hennar, heldur falið það öðrum. Kærandi kveðst hafa leitað til kærða vegna reynslu hans og ákveðni, en hún hafi átt í deilum við mjög frekan gagnaðila. Vinur hennar hafi beðið kærða sjálfan fyrir málið og kærði sjálfur tekið það að sér. Hafi komið sér mjög á óvart kvöldið fyrir aðalmeðferð málsins þegar hún komst að því að kærði hygðist ekki flytja málið sjálfur.

Fulltrúi kærða hafi ekki lagt fram nauðsynleg gögn í málinu. Kærandi hafi afhent honum reikninga vegna efniskaupa sinna í umslagi og fengið þá aftur ásamt fleiri gögnum án þess að litið hafi verið á þá. Þegar hún mætti svo með reikningana til aðalmeðferðar hafi framlagningu þeirra verið hafnað, enda gagnaöflun þá lokið.

Kærandi byggir á því að hún hafi hringt í kærða þegar hún greiddi fyrri reikninginn og komið því á framfæri að þessi greiðsla yrði að duga vegna málsins, enda væri málið þegar orðið henni dýrt.

Kærandi telur að kærði hafi svívirt það traust sem hún bar til hans með því að fela öðrum mál hennar án þess að ræða það við hana, en sá hafi  unnið illa að því og hvorki gætt að því að leggja fram nauðsynleg gögn né að því að sætta málið, en þess í stað safnað upp kostnaði umfram það sem efni stóðu til.

III.

Kærði hafnar í greinargerð sinni öllum umkvörtunum kæranda og er litið svo á að kærði krefjist þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði byggir á því að þegar í upphafi hafi kæranda verið gerð grein fyrir því að fjárhæð kröfunnar væri fremur lág með hliðsjón af hugsanlegum lögfræðikostnaði og því æskilegast fyrir kæranda að reyna að semja um kröfuna.

Þegar ljóst varð að ekki var fyrir hendi vilji hjá gagnaðila til að semja um málið á þeim nótum sem kærandi sætti sig við hafi fulltrúi hans unnið greinargerð í málinu. Það sé rangt að kærandi hafi ekki vitað að fulltrúinn ynni að máli hennar, enda beri tímaskýrslur fulltrúans með sér að það var hann sem var í samskiptum við kæranda.

Kærði telur að hvorki hann né fulltrúi hans hafi séð þá reikninga sem kærandi vildi leggja fram við aðalmeðferð málsins, fyrr en hún birtist með þá við það tækifæri.

Kærði byggir á því að í aðilaskýrslu sinni hafi kærandi fallist á að stefnandi í dómsmálinu hefði verið við vinnu í húsnæðinu og að sú vinna hefði nýst að einhverju leyti. Þar með hafi aðalkrafa um sýknu vegna aðildarskorts verið úr sögunni. Með fulltingi fulltrúa kærða hafi þá tekist sættir um niðurfellingu málsins gegn 80.000 kr. greiðslu eða um 42% stefnufjárhæðar. Kærandi hafi hvorki þurft að greiða dráttarvexti né taka þátt í lögmannskostnaði stefnanda.

Kærandi telur að að unnið hafi verið fyrir kæranda í samræmi við góða lögmannshætti og siðareglur lögmanna. Hafi erindum kæranda verið svarað án tafar, kvartanda veittar allar umbeðnar upplýsingar og hagsmuna hennar að fullu gætt.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

II.

Krafa kæranda um að kærði fái tiltal verður skilin svo að þess sé krafist að úrskurðarnefnd beiti kærða viðurlögum á grundvelli 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Er á því byggt að þessi krafa sé reist á öllum aðfinnslum kæranda, bæði um óhóflega reikningagerð í garð kæranda og vegna þessi hvernig kærði hélt á máli hennar

Eins og fram kemur í lýsingu á málavöxtum og málsástæðum aðila, ber þeim í veigamiklum atriðum ekki saman um ýmis atriði sem varða meðferð á dómsmáli kæranda. Sum þessara atriða snerta með beinum hætti matið á því hvort kærði hélt á máli kæranda með forsvaranlegum hætti. Er til þess að líta að þegar metið er hvort kærði verði beittur viðurlögum á grundvelli aðfinnslna kæranda, á kærandi almennt sönnunarbyrðina um þessi atriði, en aðfinnslur verða ekki gerðar við aðrar yfirsjónir kærða en þær sem tekist hefur að sanna.

Eitt af þeim umdeildu atriðum sem kærandi byggir á, er að kærði hafi ekki lagt sig nægilega fram um að sætta málið í ljósi þess hve stefnufjáræðin var lág í samanburði við málskostnaðinn. Þegar í tölvupósti sem kærði sendi kæranda þann 7. febrúar 2011 staðhæfir kærði við kæranda „Margítrekað var hvatt til sátta þar sem stefnufjárhæðin var lág". Hefur kærði aldrei hvikað frá þeirri staðhæfingu sinni að lagt hafi verið að kæranda að sætta málið en það hafi ekki tekist þar sem gagnaðilinn hafi ekki þegið sættir á þeim nótum sem hún gat sætt sig við. Er þetta í samræmi við fram lagða tölvupósta í málinu. Þegar á því tímamarki að búið var að stefna málinu fyrir dóm, var búið að stofna til kostnaðar, sem hlaut að hafa áhrif á möguleika til sátta. Þótt svo kunni að virðast nú að rétt hefði verið að ganga lengra í sáttaumleitunum verða athugasemdir við störf kærða ekki byggðar á því að hann hafi með ámælisverðum hætti stýrt málinu í farveg dómstólameðferðar í því skyni að hafa sem mest fé af kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, getur lögmaður ráðið annan lögmann til starfa hjá sér. Ber lögmaður ábyrgð, þ. á m. fébótaábyrgð, á störfum þessa starfsmanns. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laganna ber lögmaður þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Starfsmaður lögmanns er einnig bundinn þagnarskyldu um slík trúnaðarmál sem hann kann að komast að vegna starfa sinna. Sams konar ákvæði og hér hafa verið nefnd eru í 17. og 38. gr. siðareglna lögmanna.

Úrskurðarnefnd lögmanna hefur í nokkrum málum fjallað um það álitaefni hvort lögmanni sé rétt að fela fulltrúa sínum að vinna að málum umbjóðenda sinna.Að mati úrskurðarnefndar verður að ætla lögmönnum nokkurt svigrúm til að skipuleggja störf á stofum sínum, þ. á m. að fela starfsmönnum að leysa ákveðin verk. Starfsmenn með lögmannsréttindi starfa á ábyrgð viðkomandi lögmanns eða lögmanna sem eiga stofuna, eins og fyrrgreind ákvæði laga og siðareglna bera með sér, auk þess sem á þeim hvílir trúnaðarskylda gagnvart umbjóðendum lögmannsstofunnar. Þeir hafa til að bera menntun og eftir atvikum ákveðna reynslu sem nýtast í lögfræðistörfum. Verður því að öllu jöfnu telja það eðlilegan lið í rekstri lögmannsstofu að fela starfsmanni með lögmannsréttindi ákveðin mál til vinnslu eða að vinna við afmarkaða þætti í málum. Eru þau störf unnin á ábyrgð og undir handleiðslu lögmannsins er á og rekur lögmannsstofuna.

Að mati úrskurðarnefndar verður þess almennt ekki krafist að lögmaður upplýsi umbjóðanda sinn sérstaklega um það þegar starfsmanni lögmannsstofunnar hefur verið falin hefðbundin gagnaöflun vegna málareksturs fyrir dómstólum, eins og hér háttar til. Samkvæmt þessu telur nefndin kærða ekki hafa brotið starfsskyldur sínar gagnvart kæranda með því að fela starfsmanni lögmannsstofu sinnar að vinna að dómsmáli hennar, þ.á.m. að flutningi þess fyrir dómi.

Sem fyrr greinir byggir kærandi á því að fulltrúi kærða hafi gert mistök þegar hann lagði ekki fram reikninga hennar fyrir efniskaupum vegna hins umdeilda málningarverks.

Það eina sem er óumdeilt varðandi þetta er að kærandi kom með gögnin til aðalmeðferðar málsins. Óvíst er hvaða máli framlagning umræddra reikninga kynni að hafa skipt fyrir framgang dómsmálsins. Ekkert hefur verið sannað um þá staðhæfingu kæranda að hún hafi afhent lögmannsstofu stefnda þessi gögn en fengið þau endursend, að því er virtist ólesin. Hefur kærði hafnað því að hann eða fulltrúi hans hafi séð þessi gögn fyrr en kærandi birtist með þau við aðalmeðferð málsins. Eru atvik að þessu leyti því ósönnuð, en sem fyrr greinir verða athugasemdir ekki gerðar við önnur störf kærða en þau sem sannað er að hann hafi sýnt óvandvirkni í.

Að öllu þessu athuguðu telur nefndin ekki að kærði hafi með háttsemi sinni gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

III.

Kærandi krefst þess að kærunefndin úrskurði að henni beri ekki skylda til að greiða reikning nr. T08350 að fjárhæð kr. 188.250. Verður hér fjallað um ágreining aðila um  rétt kærða til frekara endurgjalds en kærandi hefur þegar greitt, sbr.  26. gr. lögmannalaga. Þegar metið er hvað telst hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga fyrir störf kærða, verður litið til umfangs málsins og hagsmuna sem þar var fjallað um og einnig til þess tímafjölda sem innheimt er fyrir og áskilda þóknun fyrir hvern útseldan tíma. Á hinn bóginn verður niðurstaðan ekki byggð á einhliða fullyrðingum kæranda um að hún hafi í símtali við kærða áskilið sér rétt til að hafna öllum frekari greiðslum vegna málsins, áður en málflutningur í því fór fram.

Reikningar kærða eru byggðir á tímaskýrslum og gjaldskrá lögmannsstofu hans. Kærandi hefur ekki gert sérstakar athugasemdir við tímaskráningu, né við tímagjald, en telur gjaldtökuna óhæfilega.

 Með fyrri reikningnum sem er fyrir störf á tímabilinu 3. febrúar 2010 - 11. maí 2010 er innheimt 19.500 króna tímagjald fyrir 8,25 tíma vinnu fulltrúa á lögmannsstofu hans, auk gjalds fyrir mætingu, sem er óverulegur hluti reikningsins. Með virðisaukaskatti eru innheimtar kr. 209.428 vegna þessara starfa.

Með síðari reikningi kærða er innheimt fyrir 10,25 klst. vinnu á tímabilinu 17. september 2010 - 15. desember 2010, en þá er veittur um 25% afsláttur af tímagjaldinu. Leiðir þetta til niðurstöðunnar 188.250 að virðisaukaskatti meðtöldum.

Rétt er að virða þessa reikningagerð í einu lagi, en samkvæmt því er áskilin þóknun kærða 310.875 krónur fyrir 18,5 klst. útselda vinnu fulltrúa auk 7.530 fyrir mætingu og 79.273kr. í Vsk. Þegar fjárhæðin er metin heildstætt, að teknu tilliti til þess að taka þurfti til varna í málinu fyrir dómi, getur þetta ekki talist óhæfilegt endurgjald fyrir málflutningsstörfin og þá vinnu sem þeim tengdist.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, V hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, N, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Áskilin verklaun kærða, vegna vinnu fyrir kæranda að dómsmáli hennar eru hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Berglind Svavarsdóttir hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________