Mál 3 2012

Ár 2012, fimmtudaginn 3. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 3/2012:

K

gegn

L hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi Ktil úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 9. febrúar 2012, var kvartað yfir háttsemiL hrl., kærða, er kærandi hugðist fela honum málarekstur fyrir sína hönd.

Með bréfi, dags. 15. febrúar 2012 var kröfu kæranda um ómerkingu ummæla vísað frá nefndinni, en það að öðru leyti tekið til afgreiðslu á grundvelli 27. gr. laga 77/1998 um lögmenn.

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann20. febrúar 2012 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 19. mars 2012, en lokaathugasemdir kærða vegna málsins bárust 27. mars 2012.

Málsatvik og málsástæður.

Eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærða og gögnum málsins eru málsatvik þau að kærandi hringdi í kærða og mælti sér mót við hann á skrifstofu hans vegna ágreiningsmáls sem laut að synjun á rekstrarleyfi fyrir veitingastað kæranda. Taldi kærandi að bæjaryfirvöld og sýslumaður á [Xbæ] hefðu brotið á rétti sínum þegar þau synjuðu um leyfið.

Þegar kærandi kom til fundar við kærða kom í ljós að kærði taldi fyrirliggjandi gögn gefa til kynna að réttur kæranda til skaðabóta úr hendi yfirvalda væri varla fyrir hendi. Upplifði kærandi fundinn þannig að kærði hefði verið búinn að hafa samband við gagnaðila sína og stilla upp málsvörn fyrir þá í málinu. Á fundi þessum höfðu þeir símasamband við starfsmann Mannvirkjastofnunar, en þeim ber ekki fyllilega saman um hver niðurstaða þess símtals varð. Kærði telur að starfsmaðurinn hafi staðfest að ýmsu væri ábótavant í umræddu húsnæði og nauðsynlegt að gera á því ákveðnar breytingar svo þar mætti áfram reka kaffihús. Þessar breytingar mætti þó útfæra með ódýrari hætti en ráðgert væri í  niðurstöðum bæjaryfirvalda. Kærandi telur kærða hins vegar rangtúlka niðurstöðu símtalsins.

Kærandi sendi kærða í framhaldi af þessu orðsendingu þann 2. maí 2011 þar sem hann krefst afsökunarbeiðnar af kærða og sakar hann um að hafa lagt trúnað á lygaþvætting yfirvalda um málið. Kærði brást við með því að rita kæranda bréf þar sem fram kemur að honum þyki miður að kærandi hafi upplifað fund þeirra þannig að hann væri handbendi yfirvalda á [Xbæ]. Áréttaði kærði að það hefði einfaldlega verið niðurstaða sín að kærandi ætti ekki skaðabótakröfu vegna synjunar um rekstrarleyfi. Hefði starfsmaður Mannvirkjastofnunar staðfest að nauðsynlegt væri að gera breytingar á húsnæðinu. Þá áréttaði kærði að hans aðkoma að málinu hefði aðeins falist í tilraun hans til að leiðbeina kæranda um réttarstöðu sína. Þar sem kærandi vildi ekki hlusta á rök sín gæti hann ekki aðstoðað hann frekar en óskaði kæranda alls góðs og að hann fyndi lögmann sem myndi treysta sér með málið fyrir dómstóla. Kærði svaraði þessu á þann veg með orðsendingu 23. maí að hann teldi að kærði hefði látið hafa áhrif á sig fyrir fund þeirra. Hafi hann sýknað fyrir fram þá sem kærandi hafi ætlað honum að reka málið gegn.

II.

Að frágengnum kröfum kæranda um ómerkingu ummæla, sem vísað hefur verið frá nefndinni hefur kærandi ekki gert sérstakar kröfur. Í samræmi við þær leiðbeiningar sem veittar voru með bréfi nefndarinnar 15. febrúar 2012 er litið svo á að þess sé krafist, að kærði verði beittur viðurlögum samkvæmt 27. gr. laga um lögmenn.

Efni kvörtunarinnar er mjög í samræmi við þau bréf sem kærandi hafði sent kærða og fyrr eru rakin. Telur kærandi að kærði hafi haft samband við yfirvöld á [Xbæ] fyrir fund þeirra og lagt trúnað á rangfærslur þeirra um sakarefnið. Gengur kærandi svo langt að fullyrða í athugasemdum sínum vegna málsins að kærði hafi „makkað" við bæjaryfirvöld í aðdraganda fundar þeirra. Þá telur kærandi einsýnt að kærði hafi setið beggja vegna borðs og notað rangfærslur sem afsökun fyrir því að vinna ekki fyrir kæranda. Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða kemur auk þess fram að hann telur kærða hafa sýnt sér lítilsvirðingu og dónaskap.

III.

Kærði hefur ekki lýst sérstökum kröfum fyrir nefndinni. Málatilbúnaður hans fyrir nefndinni verður skilinn svo að hann krefjist þess aðöllum kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði ber ekki á móti því að hann hafi verið búinn að fá einhver gögn fyrir fund þeirra kæranda og kveðst hann ekki muna hvort hann hafi aflað þeirra sjálfur eða kærandi sent sér þau. Af þeim gögnum sem fyrir lágu á fundinum hafi verið ljóst að synjun um rekstrarleyfi væri veitt á lögmætum forsendum, enda hægt að synja um það þegar af þeirri ástæðu að húsnæðið uppfyllti ekki lögmælt skilyrði. Hann hafi séð í hendi sér að engin von væri til þess að fá yfirvöld dæmd til skaðabótagreiðslna fyrir valdníðslu í málinu og hafi símtal þeirra við starfsmann Mannvirkjastofnunar staðfest það enn frekar. Hann hafi tjáð kæranda þessa skoðun sína, en kærandi ekki viljað sætta sig við hana. Kærði kveðst hafa sýnt kæranda kurteisi og þolinmæði og hafnar með öllu ásökunum um vanvirðingu í garð kæranda.

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Um atvik máls þessa telur nefndin óhætt að slá því föstu að kærði hafi undirbúið sig undir fund þeirra kæranda með því að afla gagna um þá stjórnsýsluákvörðun sem kærandi taldi ólögmæta. Á hinn bóginn er ekkert fram komið sem að mati nefndarinnar sannar eða gerir sennilegt að kærði hafi látið stjórnvöld á [Xbæ] hafa óeðlileg áhrif á sig. Verður á því byggt að kærði hafi einfaldlega metið stöðu kæranda í skaðabótamáli vonlausa á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Hafa engin gögn verið lögð fyrir nefndina sem benda til þess að sú ályktun hafi verið fráleit. Verður hér einnig að líta til þess að kærði tók í raun mál kæranda aldrei að sér og hvatti hann fremur en latti til að fá sér lögmann sem treysti sér til að reka málið.

Ekkert er fram komið sem styður einhliða yfirlýsingar kæranda um dónaskap kærða eða lítilsvirðandi framkomu í garð kæranda.

Með vísan til alls framangreinds verður að hafna því að kærandi teljist hafa gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna í störfum fyrir kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, L hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, K, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, hrl., formaður

Kristinn Bjarnason, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________