Mál 23/2013

Ár 2014, föstudaginn14. mars janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 22/2013:

A

gegn

R hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. október 2013 erindi A þar sem kvartað er yfir áskilinni þóknun R hdl. og þess krafist að hann endurgreiði kr. 2.300.000 auk virðisaukaskatts og að gefinn verði út kreditreikningur fyrir upphæðinni. Varnaraðili skilaði greinargerð um málið þann 25. október 2013. Óskað var eftir athugasemdum sóknaraðila við greinargerðina og bárust þær 5. desember 2013. Lokaathugasemdir varnaraðila vegna málsins bárust 17. desember 2013.

I.

Eftir því sem fram kemur í gögnum máls, athugasemdum og greinargerðum aðila eru málsatvik þau að Ríkisskattstjóri sendi fyrirspurn um skattskil sóknaraðila dags. 18. október 2012 vegna B hf., fyrirtækis sem sóknaraðili er framkvæmdastjóri og meirihlutaeigandi í, vegna fyrirhugaðar endurákvörðunar gjalda fyrir árið 2007. Þann 25. október 2012 veitti sóknaraðili lögmannsstofunni S,  varnaraðila, T hdl.og U hdl. umboð til þess að svara fyrirspurn Ríkisskattstjóra, gæta hagsmuna sinna fyrir skattayfirvöldum og leita úrræða þar um. Í úrskurði Ríkisskattstjóra dags. 14. desember 2012 var ákveðið að endurákveða opinber gjöld í B hf. á gjaldárinu 2007. Sú breyting á skattframtali félagsins hafði einnig áhrif á skattskyldu félagsins á árunum 2008-2012. Varnaraðili kærði þá ákvörðun fyrir hönd sóknaraðila með kæru til yfirskattnefndar dags4. mars 2013. 2. júní 2013 gaf varnaraðili út reikning upp á kr. 517.928 án vsk., en sóknaraðili hafði þá þegar greitt kr. 3.398.750 án vsk. Sóknaraðili andmælti reikningi þessum og varð að samkomulagi að hann var felldur niður. Í ágústmánuði 2013 setti sóknaraðili fram athugasemdir við reikningagerð af hálfu varnaraðila og fór fram á að sér yrði gerður kreditreikningur fyrir kr. 2.300.000 auk vsk vegna þess sem hann taldi ofreiknaða þóknun. Varnaraðili svaraði þessu erindi, gerði grein fyrir hvernig málið horfði við sér og kvaðst vilja hitta sóknaraðila á fundi í því skyni að reyna að setja ágreining þeirra niður. Sem fyrr greinir barst úrskurðarnefndinni svo erindi sóknaraðila 10. október 2013.

II.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili endurgreiði kr. 2.300.000 auk virðisaukaskatts og að gefinn verði út kreditreikningur fyrir upphæðinni.

Sóknaraðili kveðst hafa leitað til varnaraðila vegna álagningar sem hann og félag í hans eigu fékk frá skattinum. Hann hafi falið varnaraðila að svara fyrirspurnum frá skattinum og í framhaldi af því að kæra úrskurð Ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar.

Sóknaraðili greinir frá því að hann sé ekki vanur því að þurfa að leita til lögmanns og hafi þar af leiðandi greitt reikninga varnaraðila athugasemdalaust þrátt fyrir að honum hafi fundist þetta vera orðið ansi dýrt. Þann 2. júní 2013 hafi sóknaraðili síðan fengið reikning upp á kr. 517.928 án vsk., löngu eftir að búið hefði verið að kæra ákvörðun ríkisskattstjóra til yfirskattnefndar. Þegar sóknaraðili leitaði skýringa á þessum reikning hafi varnaraðili fellt hann niður, en þá hafi hann varnaraðili þegar rukkað sóknaraðila um kr. 3.398.750 kr án vsk. Sóknaraðili greinir frá því að eftir að mál hans hafi verið komið til yfirskattanefndar, hafi varnaraðili rukkað hann um 978.125 án vsk, en sá kostnaður hafi komið til vegna stöðvunar á fjarnámi hjá sýslumanni og ráðstafana vegna einkaframtals og  eignatilfærslu.

Sóknaraðili kveðst hafa kynnt sér hvað aðrir lögmenn taki fyrir sambærileg verk og þau sem hann hafi falið varnaraðila og telur að um mikla ofrukkun sé að ræða af hans hálfu. Telur sóknaraðili sig ekki hafa óskað eftir þeim verkum sem varnaraðili vann eftir að kæra til yfirskattanefndar var lögð fram, þ.e.a.s. aðstoð við skattframtalsgerð og eignapælingar. Sóknaraðili hafi ávallt verið tilbúin að greiða upp skuld við skattinn en varnaraðili hafi sannfært sig um að greiða ekki skuldina strax þar sem hún bæri ekki dráttarvexti. Síðar hafi sóknaraðili komist að því að þetta væri rangt og ef hann hefði greitt skattaskuldina strax hefði ekki komið til fjarnáms.

Sóknaraðili telur að samkvæmt sínum upplýsingum felist ekki mikil vinna  í því að stöðva fjarnám hjá sýslumanni. Þá komi það honum á óvart að U hdl. hafi annast mál hans, þar sem hann hafi einungis leitað til varnaraðila. U hafi einungis setið með þeim einn eða tvo fundi.

Sóknaraðili kveðst hafa hringt oft í varnaraðila þar sem hann vildi vera upplýstur um gang mála Varnaraðili hafi hins vegar sjaldnast svarað og sjaldan hringt til baka. Þá er því mótmælt af hálfu sóknaraðila að ekki hafi verið hægt að ná í hann í tölvupóst en varnaraðila hafi verið fullkunnugt um að unnt var að

 senda tölvupóst til konu sóknaraðila eða sonar hans.

III.

Varnaraðili krefst þess í upphafi að C víki úr nefndinni meðan mál er til meðferðar þar sem draga megi óhlutdrægni hans í efa vegna ummæla hans í fjölmiðlum um varnaraðila og störf hans.

Varnaraðila gerir í fyrsta lagi þá kröfu að úrskurðarnefndin vísi málinu frá vegna þess að málatilbúnaður sóknaraðila sé óskýr. Verði nefndin ekki við því, er þess krafist að nefndin synji kröfum sóknaraðila.

Varnaraðili bendir á að þóknun sem sóknaraðili kvartar yfir hafi ekki einungis verið vegna vinnu í hans þágu heldur einnig í þágu félaga sem hann á hlut í. Sú upphæð sem sóknaraðili kvarti yfir hafi því ekki verið reikningsfærð á sóknaraðila persónulega heldur einnig á félög í hans eigu. Krefjist sóknaraðili þess engu að síður að honum verði persónulega endurgreidd þóknun án tillits til þessa.

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa leitað til sín og U hdl. saman og veitt báðum lögmönnum umboð í máli sínu. Tímaskýrsla sé ósundurgrein vinna tveggja lögmanna og verði að taka tillit til þess. Þá hafi ekki verið tekið þóknun fyrir alla tíma í tímaskýrslu en alls séu um 28 tímar sem ekki hafi verið rukkaðir fyrir.

Varnaraðili greinir frá því að sóknaraðili hafi leitað til hans og U vegna fyrirspurnar Ríkisskattstjóra um skattskil hans og félaga sem hann á hlut í. Sóknaraðila hafi verið gert að greiða hærri tekjustofn en hann hafi gefið upp og hafi Ríkisskattstjóri talið að um undanskot eigna hefði verið að ræða eða skattasniðgöngu. Með fyrirspurnarbréfi Ríkisskattstjóra dags. 18. október 2012 hafi verið óskað eftir skýringum á skattskilum sóknaraðila. Sökum þess að málið var að renna út á 6 ára reglunni hafi mjög skammir frestir verið veittir til þess að svara fyrirspurnum Ríkisskattstjóra.

Varnaraðila og U hafi verið fyrrverandi starfsmenn Ríkisskattstjóra og hafi þeir því þekkt til laga og reglna á sviði skattaréttar. Þess vegna hafi verið æskilegt að báðir ynnu fyrir sóknaraðila vegna þeirra hagsmuna sem í málinu voru og naumra tímarfresta til þess að svara og fylgja málum eftir.

Varnaraðili greinir frá því að í þessari vinnu hafi falist mikil gagnöflun og samskipti við Ríkisskattstjóra og sóknaraðila. Umfang máls hafi verið gríðarlegt og vinna við málið hafi strax verið mikil í upphafi. Nauðsynlegt hafi verið að leggja út í vinnu við að greina skattalega stöðu sóknaraðila og félaga hans og finna þær lausnir sem í boði voru. Þá hafi þurft að greina afleiðingar af skattabreytingum ríkisskattstjóra og skoða dóma og úrskurði í sambærilegum málum. Bréf hafi svo borist frá Ríkisskattstjóra 9. nóvember 2012 þar sem byggt hafi verið á þeirri niðurstöðu að um skattasniðgöngu hafi verið að ræða. Í kjölfarið hafi varnaraðili og U farið í mikla vinnu við að athuga skattskil sóknaraðila og félaga hans. Varnaraðila kveður að samhliða þessu hafi sóknaraðili óskað eftir því að kanna hvort söluaðili eða bókari sóknaraðila kynnu að vera ábyrgir gagnvart honum og hvernig staðið var að sölu eða skattskilum.

Eftir úrskurð Ríkisskattstjóra dags. 14. des greinir varnaraðili frá því að ljóst hafi orðið að umfang málsins væri mikið. Sjáist þetta t.d. af blaðsíðufjölda úrskurðarins. Varnaraðili kveðst hafa reynt að fá málið endurupptekið, þeirri beiðni hafi verið hafnað og í kjölfarið hafi úrskurður ríkisskattstjóra verið kærður til yfirskattanefndar þann 4. mars 2013. Varnaraðili greinir frá því að hluti af vinnu hans og U hafi falist í því að fara yfir að skattskil sóknaraðila og félaga sem hann ætti hlut í væru í lagi, enda hafi mikið verið í húfi. Leggja hafi þurft mat á eignir varnaraðila og félaganna til að kanna hvaða möguleikar væru fyrir hendi á því að greiða upp umræddar skattkröfur. Samhliða þessu hafi sóknaraðili viljað skoða breytingar á rekstraformi, tilfærslu eigna og fleira sem hafi svo verið hætt við. Þá hafi einnig verið unnið af því að forða sóknaraðili undan fjarnámi meðan mál var í ferli yfirskattanefndar og möguleika á því að greiða upp kröfur Ríkisskattstjóra.

Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila þess efnis að hann hafi ekki verið upplýstur um stöðu mála og umfang vinnu þeirra. Af gögnum máls sé ljóst að sóknaraðili hafi verið vel meðvitaður um feril málsins. Sóknaraðili hafi greitt alla reikninga og hafi verið ljóst hverjir hagsmunir væru í málinu.

Varnaraðili mótmælir jafnframt ummælum sóknaraðili um að bakfærsla reiknings frá júní sl. sýni að ofrukkað hafi verið vegna vinnu hans. Hið rétta sé að sóknaraðili hafi óskað eftir því að hann yrði felldur niður og varnaraðili hafi verið tilbúin til þess að veita afslátt.

Varnaraðili telur mjög erfitt að átta sig á því til hvaða annarra sambærilegra mála sóknaraðili vísi til og hvernig hann geti metið umfang þeirra hvað varðar vinnuframlag lögmanns. Þá eigi fullyrðingar sóknaraðila um að ekki hefði komið til fjarnáms hefði hann fengið að gera upp skuld strax ekki við rök að styðjast. Fjarnámsgerð hafi verið felld niður vegna þess að búið var að kæra úrskurð til yfirskattanefndar enda sé það venjan í slíkum málum. Þá hafi störf varnaraðila við að stöðva fjarnámið einungis verið lítill hluti af málinu.

Varnaraðili telur það vera rangt sem sóknaraðili heldur fram að fyrirspurnum hanshafi ekki verið svarað. Þvert á móti hafi ávallt verið haft samband til baka. Eðli máls samkvæmt hafi varnaraðili aðeins getað notað tölvupóstfang sóknaraðila takmarkað þar sem það var ekki á nafni hans.

Varnaraðili telur málatilbúnað sóknaraðila byggja á furðulegustu fullyrðingum, sem eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Þá hafi hann ekki lagt fram nein haldbær gögn máli sínu til stuðnings. Varnaraðili bendir á því sambandi að úrskurðarnefnd lögmanna hafi vísað máli frá þar sem byggt var á fullyrðingum en ekki haldbærum gögnum sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 19/2001.

Að lokum telur varnaraðili það vera algjörlega óásættanlegt miðað við umfang máls og hversu margir aðilar eigi í hlut, (tveir lögmenn og ýmis félög sem kvartandi eigi hlut í) að hann endurgreiði meirihluta af reiknisfærðri vinnu tveggja lögmanna. Þá bendir varnaraðili á að virðisaukaskattur af umræddum reikningum hafi án nokkurs vafa verið í nýttur í rekstri þeirra félaga sem sóknaraðili á í hlut.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.  Samkvæmt 2. mgr. skuldbindur loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns ekki umbjóðanda hans.

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Samkvæmt 7. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna skal erindi til nefndarinnar vera skriflegt og í því skal greint frá nafni, kennitölu og heimilisfangi þess sem sendir erindið. Einnig skal koma fram hvaða lögmaður á í hlut, málsatvik þau, sem eru tilefni erindisins og hvaða kröfur séu gerðar. Erindi skulu fylgja sönnunargögn þau, sem á er byggt.

II.

Nefndin hefur við meðferð málsins leitað nánari upplýsinga og skýringa á því samningssambandi sem um ræðir og aðila að því. Ljóst er að um var að ræða verk sem fleiri lögmenn tóku sameiginlega að sér samkvæmt umboði og unnu tveir þeirra saman að verkefninu samkvæmt tímaskýrslum sem fylgdu reikningum. Í málinu er því krafist endurgreiðslu fjármunavegna vinnu sem sóknaraðili réð tvo menn að. Ekki er unnt að leggja mat á umfang vinnu varnaraðila án þess að meta hana í samhengi við það sem unnið var og innheimt vegna vinnu U hdl. Fyrir liggur að U starfaði ekki hjá varnaraðila heldur var hann í beinu samningssambandi við sóknaraðila.

Er því með öllu útilokað að fjalla um endurgreiðslukröfuna án aðildar þeirra beggja sem unnu verkið. Er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá nefndinni vegna þessa.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Berglind Svavarsdóttir, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson