Mál 29 2013

Ár 2014, föstudaginn 14. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 29/2013:

A og

B

gegn

R hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 21. nóvember 2013 erindi sóknaraðila, A og B, þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun varnaraðila, R hdl.

Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila um erindið þann 25. nóvember 2013. Greinargerð varnaraðila barst með bréfi dagsettu 9. janúar 2014. Sóknaraðilum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð varnaraðila þann 14. janúar 2014. Athugasemdir sóknaraðila bárust þann 10. febrúar 2014. Varnaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum þann 12. febrúar 2014. Athugasemdir bárust þann 17. febrúar 2014.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Þann 12. október 2009 leitaði sóknaraðili B fyrir hönd sóknaraðila til varnaraðila. Hafði skiptastjóri í dánarbúi föður þeirra þá sent héraðsdómi til úrlausnar ágreiningsmál þeirra systra við bróður sinn, C, vegna ágreinings um opinber skipti á dánarbúi föður þeirra. Ágreiningurinn laut að ákvörðun skiptastjóra um synjun á greiðslu reiknings vegna líkkistu og duftkers sem C smíðaði og hafði gert kröfu um að dánarbúið greiddi.

Þann 12. október 2009 skrifaði sóknaraðili B undir umboð til S og varnaraðila til að gæta hagsmuna sinna vegna ágreinings um skipti á dánarbúi föður hennar. Samkvæmt tímaskýrslu varnaraðila þann dag var vinna við málið 2 klst. Þann 18. nóvember 2009 skrifaði D f.h. hönd sóknaraðila A, skv. umboði dags. 4. ágúst 2009, undir umboð til S og varnaraðila til að gæta hagsmuna hennar vegna ágreinings um skipti á dánarbúi föður hennar. Ekki liggur fyrir að samið hafi verið um gjaldtöku vegna verksins.

Mál C gegn systrunum var fyrst tekið fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur þann 27. nóvember 2009 og mætti varnaraðili í þá fyrirtöku þar sem hún fékk afhent gögn málsins. Í fyrirtökunni óskaði lögmaður S eftir fresti til að skila greinargerð og var málinu frestað til 11. desember 2009. Skráning varnaraðila í tímaskýrslu var 0,5 klst. Málinu var frestað utan réttar þann 11. desember 2009 til 18. desember s.á.

Í desember 2009 áttu sér stað sáttaviðræður milli aðila. Skráning í tímaskýrslu varnaraðila vegna þeirra var 2 klst.

Í fyrirtöku þann 18. desember 2009 lagði lögmaður S fram greinargerð sína ásamt frekari gögnum og var varnaraðila veittur frestur til þess að leggja fram greinargerð til 8. janúar 2010. Skráning í tímaskýrslu vegna þessa er 0,5 klst.

Dagana 6. og 7. janúar 2010 ritaði varnaraðili greinargerð í málinu og var hún lögð fram við fyrirtöku málsins þann 8. janúar 2010. Þann dag var málinu frestað til aðalmeðferðar þann 17. febrúar 2010. Samtals var um að ræða 9 klst. vinnu við ritun greinargerðar.

Dagana 15. og 16. febrúar 2010 fór fram hjá varnaraðila undirbúningur aðalmeðferðar málsins, samtals 10,5 klst., skv. skráningu í tímaskýrslu. Þann 17. febrúar 2010 fór fram aðalmeðferð í málinu í héraðsdómi Reykjavíkur. Aðalmeðferðin stóð í 1,25 klst. samkvæmt tímaskýrslu.

Úrskurðað var í málinu þann 10. mars 2010 þar sem kröfum C á hendur sóknaraðilum var hafnað. Í úrskurðinum segir að málskostnaður skuli niður falla milli aðila. Í tímaskýrslu varnaraðila er skráð 0,5 klst. vegna uppkvaðningar úrskurðar.

Þann 11. mars 2010 prentaði varnaraðili út tímaskýrslu sína. Skýrsluna afhenti hún S hrl. ásamt gögnum málsins. Efst á skýrsluna ritaði varnaraðili: „Lokið - má gera reikning". Reikningur, dags. 11. mars 2010, var gerður í málinu, sem stílaður var á sóknaraðila B, samtals að fjárhæð kr. 373.607, vegna 19 klst. vinnu varnaraðila, en fyrir hverja klst. skyldu greiðast kr. 15.500 auk virðisaukaskatts og vinnslugjalds, allt í samræmi við þágildandi gjaldskrá T. Eindagi reikningsins var 26. mars 2010. Samkvæmt tímaskýrslunni var vinna við málið 26,5 klst. en mistök urðu við reikningsgerðina þannig að miðað var við fjölda verka í málinu en ekki skráðan tímafjölda. Var því miðað við 19 stundir í stað 26,5. Þetta hefur ekki verið leiðrétt.

Reikningurinn var enn ógreiddur 14. október 2013 og var þá sendur í innheimtu hjá Momentum. Fékk krafan þá nýjan gjalddaga, 18. október 2013 og eindaga 4. nóvember 2013.

Þann 21. október 2013 hringdi sóknaraðili B á skrifstofu T og mótmælti reikningnum.

II.

Sóknaraðilar kvarta undan reikningi sem þær kveða varnaraðila hafa boðist til að fella niður eftir lélega frammistöðu, að eigin sögn. Reikningurinn hafi nú, tæpum fjórum árum síðar, verið sendur í innheimtu.

Sóknaraðilar vísa til þess varnaraðili hafi beðið þær afsökunar á því að hún hafi ekki undirbúið sig nægilega vel og þess vegna hafi bróðir þeirra ekki verið dæmdur til að borga málskostnað verjanda. Varnaraðili hafi boðist til að fella niður sinn kostnað sem sóknaraðilar hafi fallist á og sætt sig við dóminn. Þrátt fyrir það hafi hún sent reikning þremur árum síðar, þ.e. árið 2013. Ekki sé rétt að reikningur hafi borist í mars 2010. Hefði svo verið væri skrýtið að lögmannsstofan hefði ekki sent ítrekun á þeim reikningi. Þar sem orð standi á móti orði hljóti orð sóknaraðila að vera líklegri til að vera rétt þar sem engin ítrekun hafi komið fyrr en 2013.

Sóknaraðilar benda á að þegar sóknaraðili B hafi haft samband við lögmannsstofuna og minnt á málsatvik þá hafi hún fengið þau svör að reikningurinn yrði líklegast felldur niður. Hálfu ári síðar hafi reikningurinn komið aftur með hótun um kostnaðarsamar innheimtuaðgerðir ef hann yrði ekki greiddur í tíma.

Sóknaraðilar kveðast hafa viljað fá vanan lögfræðing þegar þær hafi leitað til lögfræðiskrifstofunnar T. Þar sem málið hafi verið svo einfalt hafi þær sætt sig við að fá óreyndan lögfræðing, en varnaraðili hafi verið ný í starfi. Varnaraðili hafi ekki sóst eftir því fyrir héraðsdómi að málskostnaður yrði látinn niður falla eða að sóknaraðili málsins yrði látinn greiða hann.

Sóknaraðilar kveða varnaraðila hafa gert sér grein fyrir mistökum sínum og hafi viljað taka afleiðingunum. Þegar hún fari svo í barnseignarfrí taki starfsfélagar hennar málið upp aftur og krefjist fullrar greiðslu.

Sóknaraðilar benda á að það að reikningurinn komi eftir svo langan tíma komi sér mjög illa. Þær hafi engan möguleika á að mótmæla niðurstöðu héraðsdóms. Þær hafi ekki gert ráð fyrir þessum kostnaði núna. Þá hafi öll systkinin verið í sorg eftir andlát föður þeirra. Sorgin komi fram á mismunandi vegu. Illindin sem upp hafi komið séu að mestu leyti fallin í gleymsku. Að koma með reikning svo mörgum árum síðar auki vanlíðan og minnki möguleika á sáttum meðal systkinanna. Þá hafi uppgjöri dánarbúsins lokið árið 2010. Greiddur hafi verið erfðaskattur samkvæmt þeim upplýsingum sem varnaraðili hafi veitt sóknaraðilum, þ.e. að hún myndi fella niður reikning sinn.

Sóknaraðilar telja að það geti varla talist vel unnið verk, þegar þær séu sóttar fyrir héraðsdómi með svo illa grundaða kröfu sem bróðir þeirra hafi haft uppi gegn þeim og þær séu neyddar til að ráða lögfræðing, en endi svo uppi með reikning sem sé hærri en hinar illa grunduðu kröfur sem þær hafi fengið í upphafi. Teljist þetta eðlileg vinnubrögð velta sóknaraðilar fyrir sér hver réttur hins almenna borgara sé.

III.

Varnaraðili krefst þess í samræmi við málsmeðferðarreglur nefndarinnar að erindi sóknaraðila verði vísað frá nefndinni þar sem ársfrestur sá sem gefinn sé til þess að vísa erindi til nefndarinnar hafi runnið út þann 11. mars 2011. Þá gerir varnaraðili kröfu um málskostnað að mati nefndarinnar úr hendi sóknaraðila vegna reksturs málsins fyrir nefndinni, sbr. 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefndinni.

Varnaraðili hafnar því að vinna hennar hafi verið með nokkrum hætti ófagleg eða „léleg" eins og haldið hafi verið fram af hálfu sóknaraðila. Þvert á móti hafi varnaraðili unnið málið af samviskusemi og vandað til vinnunnar á öllum stigum, þ.e. bæði við ritun greinargerðar í málinu sem og við undirbúning málflutnings og við málflutning við aðalmeðferð málsins. Þessu til stuðnings vísast til ítarlegrar tímaskýrslu varnaraðila, afriti af greinargerð hennar, afriti af málflutningsræðu, spurningum til aðila málsins og tölvupóstsamskipta hennar við sóknaraðila vegna þess. Þá vísar varnaraðili til þess að vinna hennar hafi orðið til þess að kröfu C, bróður sóknaraðila, hafi verið hafnað í úrskurði héraðsdóms og hafi sóknaraðilar því unnið sigur í málinu. Það að dómari hafi úrskurðað svo að málskostnaður aðila skyldi falla niður hafi ekkert með frammistöðu varnaraðila að gera en leiða megi líkur að því að hagsmunir málsins hafi ráðið þar för, þó ekki verði fullyrt um það.

Varnaraðili bendir á að í greinargerð hennar hafi verið gerð eftirfarandi krafa varðandi málskostnað: „Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila skv. málskostnaðarreikning [svo] sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins auk þess að tekið verði tillit til skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt ofan á málflutningsþóknun." Það sé því rangt sem haldið sé fram að hálfu málshefjenda að varnaraðili hafi ekki gert kröfu um málskostnað fyrir hönd þeirra.

Varnaraðili hafnar því að nokkur umræða hafi átt sér stað milli aðila máls þessa um að vinna hennar hafi verið óvönduð eða að ekki stæði til að krefjast greiðslu vegna hennar. Þá sé það rangt sem haldið sé fram í kvörtun sóknaraðila að reikningur vegna málsins hafi verið sendur þremur árum eftir að málinu hafi lokið en eins og reikningurinn beri með sér hafi hann verið gerður daginn eftir að úrskurður hafi fallið í málinu. Það að reikningurinn sé ekki sendur til innheimtu fyrr en þremur og hálfu ári síðar geti ekki talist annað en til hagsbóta fyrir sóknaraðila, enda þeirra hagur að fá svo langan frest til þess að greiða reikninginn. Innheimtu umrædds reiknings hafi verið frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir.

Varnaraðili hafnar því að hafa gefið í skyn að fella ætti niður umræddan reikning enda hafi reikningurinn staðið ógreiddur í bókum T ehf. allt frá því hann hafi verið gefinn út þann 11. mars 2010. Ekkert í meðferð málsins hjá stofunni gefi enda tilefni til annars en að krafist verði greiðslu vegna vinnu varnaraðila í máli sóknaraðila. Þá sé því haldið fram að vinna varnaraðila, auk þess að hafa verið vönduð og unnin að öllu leyti í samræmi við kröfur sem siðareglur lögmanna geri til lögmanna í störfum sínum, hafi verið hófleg og í samræmi við umfang málsins og því sé fjárhæð reikningsins sanngjörn, einkum þegar litið sé til þess að einungis hafi verið krafist greiðslu vegna 19 klst. af 26,5 klst. sem unnar hafi verið í málinu.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Í 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanni kemur fram að lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Ágreiningur er um hvenær hinn umdeildi reikningur var fyrst sendur sóknaraðilum. Gegn andmælum sóknaraðila verður að telja ósannað að þeim hafi verið sendur reikningurinn fyrr en á árinu 2013. Verður því hafnað að vísa málinu frá á þeim grundvelli að erindi sóknaraðila  sé of seint fram komið.

II.

Ekki er fært að byggja niðurstöðu málsins á fullyrðingum sóknaraðila um að varnaraðili hafi gefið þeim eftir kröfu sína til endurgjalds, m.a. vegna slælegra vinnubragða sinna. Hefur varnaraðili mótmælt þessum fullyrðingum og að því marki sem þær byggja á því að varnaraðila hafi láðst að gera kröfu um málskostnað í skiptamálinu eru þær efnislega rangar.

Við mat á því hvað teljist hæfilegt endurgjald vegna skiptamálsins verður að líta til þess að um var að ræða ágreining sem aðilum tókst ekki að setja niður og var því vísað til héraðsdóms af skiptastjóra lögum samkvæmt.

Gögn skiptamálsins hafa verið lögð fram og eru þau ekki umfangsmikil. Liggur fyrir að um var að ræða ágreiningsmál um kröfu gagnaðila til verklauna úr hendi dánarbús þar sem erfingjar höfðu skipt með sér verkum. Þurfti þó bæði að skila greinargerð vegna málsins og flytja það. Þá var lítilsháttar vinna sett í að reyna að sætta málið. Nefndin telur að í ljósi þess að einungis hefur verið krafið um 19 tíma af þeirri vinnu sem lögð var í málið, verði að telja áskilda þóknun varnaraðila hæfilega.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald varnaraðila, R hdl., vegna starfa að skiptamáli sóknaraðila, A og B, samkvæmt reikningi nr. 2159 að fjárhæð kr. 373.607, telst hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson