Mál 35 2013

Ár 2014, fimmtudaginn19. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 35/2013:

A

gegn

R hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 23. desember 2013 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir störfum kærðu, R hdl., og áskilinni þóknun hennar.

Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 6. janúar 2014. Greinargerð kærðu barst þann 22. janúar 2014. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina þann 27. janúar 2014. Athugasemdir kæranda bárust þann 3. febrúar 2014. Kærðu var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum sínum þann 11. febrúar 2014. Athugasemdir bárust ekki frá kærðu. Óskað var eftir nánari upplýsingum frá kærðu þann 22. apríl 2014. Upplýsingarnar bárust þann 7. maí 2014.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Hvorki kærandi né kærða hafa gert grein fyrir atvikum málsins með heildstæðum hætti en af framlögðum gögnum og málatilbúnaði þeirra má ráða að málið varðar störf kærðu og áskilda þóknun hennar vegna vinnu hennar við mál kæranda vegna bifreiðaviðskipta hans.

Í júlí 2012 leitaði kærandi til innheimtuþjónustunnar T ehf. þar sem kærða starfar. Hafði kærandi meðferðis álit frá kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa vegna bifreiðaviðskipta hans við félagið S ehf. Ákveðið var að hefja innheimtuferli í samræmi við niðurstöðu kærunefndarinnar, þ.e. að krefja S ehf. um greiðslu að fjárhæð [u.þ.b. 600.000 kr.], sem samanstóð af kröfu um afslátt vegna bifreiðakaupanna vegna galla, auk andvirðis lykils að bifreiðinni sem ekki hafði verið afhentur. Hafði kærandi áður leitað til tveggja verkstæða til að láta meta viðgerðarkostnað en talið var að viðgerðarkostnaður gæti numið á bilinu kr. 500.000 til 900.000.

Innheimtuviðvörun var send S ehf. þann 5. júlí 2012 og innheimtubréf í kjölfarið þann 17. júlí s.á. Þar sem engin viðbrögð bárust frá S ehf. við innheimtubréfum T ehf. var stefna gefin út í málinu þann 28. september 2012 með þingfestingardegi í október s.á. Stefndi, S ehf., tók til varna í málinu og gaf jafnframt út stefnu á hendur kæranda þann 14. nóvember með þingfestingardegi í nóvember, vegna leynds galla í bifreið sem S ehf. keypti af kæranda í sömu viðskiptum. Krafðist S ehf. þess að kærandi yrði dæmdur til að greiða S ehf. [u.þ.b. 1.000.000 kr.]

Kærða skrifaði upp á stefnu á hendur kæranda með hans samþykki og var hann með tölvupósti, dags. 8. nóvember 2012, upplýstur um að vinna kærðu væri unnin í tímavinnu á tímagjaldinu 16.000 kr./klst.

Kærandi óskaði eftir því að skipta um lögmann þegar kom að málflutningi í máli S ehf. á hendur honum. Sagði kærða sig í kjölfarið frá málinu.

Dómur var kveðinn upp í máli kæranda á hendur S ehf. í júní 2013. S ehf. var sýknað af kröfum kæranda. Þann 23. september 2013 sótti nýr lögmaður kæranda um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Umsókninni var hafnað þann 8. október 2013, þar sem ekki voru fyrir hendi lagaskilyrði til að verða við beiðninni. Var stefnufjáræðin m.a. lægri en lágmarksfjárhæð til áfrýjunar.

Í nóvember 2013 var kveðinn upp dómur í máli S ehf. á hendur kæranda. Kærandi var sýknaður af kröfum S ehf.

Fyrir liggja tveir reikningar, báðir dags. 24. september 2013, til kærða frá T ehf. Reikningur nr. 0093339, að fjárhæð kr. 203.900 m/vsk og reikningur nr. 0093349, að fjárhæð kr. 301.200 m/vsk. Lýsing reiknings nr. 0093339 er eftirfarandi: „Kröfuh. gr. í útl.kostn. kr. 37.800, Kröfuh. gr. í vexti af útl. kr. 4.596, Kröfuh. gr. í vexti á áfl. kr. 864, Kröfuh. gr. í áfl. kr. 128.000". Lýsing reiknings nr. 0093349 er eftirfarandi: „MálS ehf. gegn A., magn 15, ein.verð 16.000, upphæð 240.000".

 

II.

Kærandi krefst þess að viðurkennt verði að kærða hafi ekki gert rétt í starfi sínu. Þá er þess krafist að felldir verði niður reikningar frá T ehf. eða þeir lækkaðir um 70%.

Kærandi kveður kvörtun sína byggjast á því að kærða hafi rukkað hann of mikið fyrir ekki nægilega góða vinnu. Þá telur kærandi að kærða hafi valdið honum réttarspjöllum með of lágri kröfugerð svo ekki hafi verið hægt að áfrýja málinu ásamt því að hún hafi ekki dómkvatt matsmenn vegna málsins.

Kærandi kveðst hissa á því að kærða hafi ekki óskað eftir olíureikningum hans í málinu. Hafi kærandi undir höndum mikið af olíukvittunum sem kærða hafi talið óþarfar. Í dómsmálinu hafi svo verið spurt eftir þeim og kveðst kærandi vonsvikinn að hafa ekki fengið að sýna þær.

Kærandi bendir á að vitni í málinu, báðir bílasölumennirnir, hafi ekki sagt satt fyrir dómi. Kærða hafi hringt í þá og beðið þá að mæta fyrir dóm. Hafi hún ekki hitt þá persónulega áður en þeir hafi borið vitni fyrir dómi.

Kærandi vísar til þess að trúnaðarbrestur hafi orðið milli hans og kærðu og því hafi hann skipt um lögmann.

 

III.

Kærða mótmælir því sem röngu að hún hafi valdið kæranda réttarspjöllum með lágri kröfugerð svo ekki hafi verið hægt að áfrýja málinu. Í ljósi þess að raunkostnaður viðgerðar á bifreiðinni hafi ekki legið fyrir þar sem kærandi hafi ekki látið gera við hana hafi niðurstaðan verið sú að innheimta kröfuna á grundvelli niðurstöðu kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa. Að auki hafi legið fyrir mat á viðgerðarkostnaði bifreiðarinnar upp á kr. 500.000 frá D ehf. en það verkstæði sérhæfi sig í viðgerðum á BMW bifreiðum sem hafi verið tegund umþrættrar bifreiðar.

Kærða kveður þá ákvörðun að innheimta kröfuna á grundvelli niðurstöðu kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa hafi verið tekna í fullu samráði við kæranda. Farið hafi verið yfir málið með kæranda á fundi í júlímánuði 2012 og hafi niðurstaðan orðið sú að innheimta kröfuna á grundvelli niðurstöðu kærunefndarinnar sem og mats á viðgerðarkostnaði sem fyrir hafi legið í málinu frá D ehf. Hafi kærandi sérstaklega verið inntur eftir því á þeim fundi hvort hann óskaði eftir því að innheimta kröfuna með áðurgreindum hætti, sem hann hafi staðfest.

Kærða kveður ástæðu þess að ekki hafi verið dómkvaddir matsmenn aðallega vera tvíþætta. Talið hafi verið nægjanlegt að gögn lægju fyrir í málinu til að fá kröfuna viðurkennda með dómi. Í málinu hafi legið fyrir álit frá kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, mat á viðgerðarkostnaði og fyrir dóminn hafi verið leiddur bifvélavirki frá D ehf. með yfir 20 ára reynslu af viðgerðum á BMW bifreiðum en hann hafi borið fyrir dómi að kr. 500.000 væri hámarksverð fyrir viðgerð á bifreiðinni.

Kærða bendir á að ljóst hafi verið að kostnaður af dómkvaðningu matsmanna myndi að öllum líkindum fara nærri stefnufjárhæð ef ekki verða hærri og því hefði áhættan af málinu orðið mun meiri en ella. Því hafi ekki verið talin nægilega rík ástæða til að óska eftir dómkvaðningu matsmanna. Hafi þessi ákvörðun verið í samræmi við upphaflega ákvörðun aðila um grundvöll málatilbúnaðarins og samtöl við kæranda undir rekstri málsins þó ekki hafi verið haft beint samráð við kæranda hvað þessa ákvörðun varði.

Kærða bendir á að kærandi hafi komið nokkrum sinnum til fundar við hana bæði áður og á meðan mál hans hafi verið rekið fyrir héraðsdómi. Hafi kærandi verið ítrekað upplýstur um það að kostnaður við rekstur málsins kynni að verða hár að tiltölu við hagsmunina.

Kærða bendir á að kærandi kvarti yfir því að ekki hafi verið lagðar fram fyrir dómi kvittanir fyrir olíukaupum og telji kærandi að hann hafi orðið fyrir réttarspjöllum af þessum sökum. Kærða bendir á að í niðurstöðu héraðsdóms frá júní sé það staðfest með vísan til gagna frá bifreiðaverkstæðum, einkum D ehf., og framburði bifvélavirkja að vél bifreiðarinnar hafi í raun brennt olíu en að ekki hafi legið fyrir viðhlítandi sönnun um ástæður þess. Ekki verði því séð að framlagning á kvittunum fyrir olíukaupum hefði haft nein áhrif á niðurstöðu dómsins.

Kærða vísar til þess að kvörtunin hafi einnig lotið að því að bifreiðasalar hefðu borið ljúgvitni fyrir dómi í málinu. Kærða byggir á því að ekkert liggi fyrir um að svo sé raunin og sé þessi fullyrðing ekki rökstudd af hálfu kæranda. Framburðir bifreiðasalanna fyrir dómi hafi heldur ekki haft sérstök áhrif á niðurstöðu dómsins að mati kærðu.

Kærða bendir á hvað varði mál S ehf. á hendur kæranda að þá hafi hann sjálfur óskað eftir því að skipta um lögmann þegar komið hafi að málflutningi S ehf. gegn sér og hafi kærða sagt sig frá málinu þrátt fyrir að vera reiðubúin að flytja það fyrir hann. Kærða kveðst hafa unnið í því máli fram að málflutningi þess, m.a. með ritun greinargerðar kæranda í málinu, en dómur hafi verið kveðinn upp í nóvember 2013, þar sem kærandi hafi verið sýknaður af kröfum S ehf. Niðurstaða dómsins hafi að miklu leyti verið byggð á þeirri röksemdafærslu sem fram hafi komið í greinargerð kærðu. Því verði að telja að kærandi beri alfarið ábyrgð á þeim lögmannskostnaði sem fallið hafi til fyrir lögmannsskiptin.

Kærða telur sig ekki hafa gert á hlut kæranda svo stríði gegn lögum og siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir hann heldur hafi hagsmuna hans verið gætt í hvívetna á meðan mál hans hafi verið til meðferðar hjá kærðu.

Kærða bendir á að T ehf. hafi gert kæranda tvo reikninga vegna vinnu hennar að fjárhæð samtals kr. 505.100. Kærða mótmælir því vegna T ehf. að reikningarnir verði látnir niður falla eða veittur verði 70% afsláttur af þeim, og krefst þess að þeir verði látnir standa. Þá sé því mótmælt að kærða hafi neitað að taka tillit til sjónarmiða kæranda en í ljósi stöðu hans og aðstæðna hafi verið reynt að koma til móts við hann en án árangurs. Telur kærða reikningana ekki vera úr hófi með tilliti til þess vinnuframlags sem innt hafi verið af hendi vegna málanna.

Kærða kveður útlagðan kostnað reiknings nr. 0093339 sundurliðast þannig: Útskrift úr hlutafélagaskrá kr. 1.800, birting stefnu kr. 2.500, þingfesting stefnu kr. 15.000, kostnaður við aðkeypt mót í héraðsdómi kr. 16.000, kostnaður við eignaleit kr. 2.500, samtals kr. 37.800.

Kærða kveður töluvert meiri vinnu af hennar hálfu hafa verið unna í máli þessu heldur en hafi verið kostnaðarfært á reikningnum en skv. málskostnaðarreikningi í málinu hafi verið gerð krafa um kr. 356.820. Hins vegar hafi sú ákvörðun verið tekin að gera ekki frekari kröfu um kostnað á hendur kæranda vegna málsins í ljósi allra aðstæðna.

Kærða kveður reikning nr. 0093349 sundurliðast þannig: Ritun greinargerðar og undirbúningur 8 klst., fundir með kæranda 4 klst. og mætingar í héraðsdóm 3 klst. Samtals 15 klst., einingaverð 16.000 kr./klst.

Kærða bendir á að talsverð vinna liggi að baki beggja málanna sem falist hafi í samskiptum við kæranda bæði á skrifstofu hennar og í gegnum tölvupósta, gagnaöflun, stefnugerð, ritun greinargerðar, mætingum í héraðsdóm, málflutningi, samskiptum við lögmann gagnaðila, vitni, héraðsdóm, túlkaþjónustu o.fl. og sé því talið að áðurgreindir reikningar vegna vinnu kærðu fyrir kæranda eigi fyllilega rétt á sér.

 

Niðurstaða.

I.

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.

 

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 1. gr.  siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 8. gr. segir að í samræmi við þessa meginreglu skuli lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna.

Það er  vandasamt álitamál hverju sinni hvernig best er að halda á máli af því tagi sem hér um ræðir. Kostnaður við að afla matsgerðar á því hvaða göllum vélin var haldin hefði verið mjög hár að tiltölu við viðgerðarkostnaðinn. Fyrir lá úrskurður kærunefndar sem taldi sig hafa nægar sannanir í höndum til að fallast á afsláttarkröfu kæranda og að meta hana að álitum til kr. 500.000. Hér verður einnig að líta til þess að gagnaðili kæranda taldi sig eiga rétt vegna galla á bíl sem kærandi hafði látið ganga upp í kaupin. Hefði kærða kallað eftir matsgerð f.h. kæranda, hefði það getað kallað á að beiðst hefði verið mats á göllum á hinum bílnum. Verða, vegna alls þessa, ekki gerðar athugasemdir við það mat kærðu að affarasælast væri að freista þess að halda áfram með málið án matsgerðar, enda þótt vissulega hafi þannig verið á brattann að sækja miðað við fjölmörg fordæmi um sönnunarfærslu í gallamálum.  Enda þótt það hefði verið vandaðra að bera á ný þá ákvörðun að afla ekki mats undir kæranda, að fenginni greinargerð stefnda verður að fallast á það með kærðu að það var í samræmi við upphaflegan grundvöll málatilbúnaðarins að leggja mat kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa til grundvallar. Þá verður hér að líta til yfirlýsingar kæranda sjálfs, sem kveðst hafa lagt ákvarðanir um málareksturinn alfarið í hendur kærðu. Þótt heppilegra hefði verið að kærða ræddi ákvörðun sína um að afla ekki mats við kæranda verður því ekki fallist á að gera aðfinnslur við störf kærðu vegna þess.Ekki verður talið að kærðu hafi borið að setja fram hærri stefnukröfu í þeim tilgangi að tryggja að unnt yrði að áfrýja málinu til Hæstaréttar. 

Þá verður að fallast á það með kærðu að þar sem lagt var til grundvallar í dómnum að umrædd bifreið brenndi olíu, hafi það ekki valdið kæranda spjöllum eða skemmt fyrir málinu að ekki voru lagðir fram reikningar um olíukaupin. Kærðu verður ekki um það kennt ef vitni að viðskiptunum lýsa þeim með öðrum hætti en kærandi telur réttan.

Kærandi hefur ekki gert athugasemdir við vinnubrögð kærðu þegar hún skrifaði greinargerð vegna stefnu gagnaðila kæranda við þessi bifreiðakaup.

Að öllu þessu athuguðu verður að hafna því að gera aðfinnslur við störf kærðu fyrir kæranda, eða beita hana viðurlögum á grundvelli 27. gr. laga um lögmenn.

 

III.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Kærða hefur ekki lagt fram dagsetta tímaskýrslu, en fyrir liggur nokkur sundurliðun á fram lögðum málskostnaðarreikningi og á útgefnum reikningum.

Nefndin hefur farið yfir áskilda þóknun kærðu vegna starfa hennar fyrir það mál sem hún stefndi fyrir kæranda. Ekki eru efni til að gera athugasemdir við kostnaðarliði vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð kr. 37.800. Þá virðist tímagjald og umfang vinnunnar, samtals 8 tímar sömuleiðis hóflegt miðað við hve langt dómsmálið var komið þegar kærandi ákvað að skipta um lögmann.

Að því er varðar þann þátt málsins sem snýr að málsvörn vegna ætlaðra galla á þeirri bifreið sem kærandi lét af hendi í viðskiptunum hefur nefndin einnig farið yfir gögn málsins. Fæst ekki séð að umfang vinnunnar sé umfram það sem vænta mátti miðað við gögn málsins og umfang þess.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, R hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Áskilið endurgjald kærðu vegna starfa hennar í þágu kæranda með reikningum nr. 93339 og 93349 að fjárhæð samtals kr. 505.100, telst hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson