Mál 23 2014

 

 

Ár 2015, föstudaginn 17. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 23/2014:

A

gegn

R hrl.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi Atil úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 18. september 2014, var kvartað yfir háttsemiR hrl., kærða, vegna atahafnaleysis hans við að innheimta oftekin fasteignagjöld hjá sveitarfélaginu L og vegna þóknunar sem hann hafði innheimt fyrir starfann.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða með bréfi, dags. 30. september 2014. Kærandi sendi nefndinni viðbótarathugasemdir vegna málsins þann 17. október 2014 og greinargerð kærða barst svo þann 17. nóvember 2014. Með bréfi nefndarinnar til aðila, dags. 26. febrúar 2015 voru þessi gögn kynnt aðilum og jafnframt að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið, en ef óskað væri að koma að frekari athugasemdum vegna þess sem fram kæmi í bréfunum væri þess óskað að það yrði gert fyrir 9. febrúar 2015. Með tölvupósti 24. mars 2015 upplýsti kærði svo um ný tölvupóstsamskipti sín við sveitarfélagið L vegna máls kærða. Frekari gögn hafa ekki borist frá aðilum.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærða og gögnum málsins eru málsatvik þau að kærandi fékk E hdl., sem þá starfaði sem fulltrúi á lögmannstofu kærða, í nóvember 2009 til að taka að sér innheimtu ofgreiddra fasteignagjalda af bílskúrslóðum sem voru skráðar á hans nafn fyrir mistök eftir því sem fram kemur í málatilbúnaði hans.Er óumdeilt að kærandi hefur greitt kr. 200.957 vegna málsins. Í upphafi fór E með málið.  Sendi hann erindi til sveitarfélagsins í janúar 2010 þar sem farið var fram á stöðvun innheimtuaðgerða vegna fasteignagjaldanna. Í bréfi framkvæmda- og eignasviðs sveitarfélagsins til E vegna málsins frá febrúar 2010 segir að komið hafi í ljós misræmi á milli Fasteignaskrár Íslands, sem sé grundvöllur fyrir álagningu fasteignagjalda og þinglýsingabóka. Kemur fram að Fasteignaskráin og fjármálaskrifstofa L hafi verið beðin að leiðrétta skráninguna. Jafnframt er fallist á að fasteignagjöld kunni að hafa verið ranglega lögð á kæranda vegna rangrar skráningar.

Þann 9. febrúar framsendi E þetta bréf L til kæranda og ræddi þar um að hann myndi gera kröfu um greiðslur, en ráðlegt væri að bíða um sinn og sjá hvort greiðslur bærust.  Kröfubréfið sendi E svo til fjármálaskrifstofu sveitarfélagsins í apríl 2010 og fór þar fram á endurgreiðslu 62.811 króna ásamt vöxtum. Þá krafðist hann innheimtuþóknunar vegna málsins. Samkvæmt tímaskrá og innheimtubréfinu hafði hann þá varið 4,25 tímum til málsins.

Sveitarfélagið brást lítt við erindum þessum og hélt áfram að senda kæranda innheimtuseðla vegna fasteignagjalda. Gekk E illa að fá viðbrögð við erindum sínum, en í mars árið 2011 framsendi hann tölvupóst frá starfsmanni fjármálaskrifstofu um að vænta mætti uppgjörs innan tveggja vikna. Ekki virðist það hafa gengið eftir því E var enn að reka á eftir uppgjöri í júlí 2011 eftir því sem fram kemur í greinargerð kærða.

E hætti eftir þetta tímamark störfum sem fulltrúi kærða, en ekki liggur fyrir hvenær það var. Þá hætti kærði sjálfur einnig þátttöku í rekstri umræddrar lögmannsstofu. Af gögnum málsins má ráða að kærði hafi þó áfram haft málið á sinni könnu.

Samkvæmt því sem fram kemur í tölvupósti frá L, sem kærði framsendi nefndinni 24. mars 2015 voru umræddir bílskúrar færðir af nafni kæranda með eignaskiptayfirlýsingu sem móttekin var til þinglýsingar 8. nóvember 2010. Frá 2011 hafi engin gjöld verið lögð á kæranda vegna þeirra. Kemur þar einnig fram að gjöld vegna áranna 2009 og 2010 hafi verið felld niður á árinu 2011 og hafi það verið fullnaðarafgreiðsla málsins af hálfu L. Fáist ekki séð að þeirri afgreiðslu hafi verið mótmælt. Þá er í tölvuskeyti þessu staðhæft að hafi kærandi átt réttmæta kröfu til endurgreiðslu samkvæmt lögum 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta, sé sú krafa fyrnd samkvæmt 4. gr. laganna. 

                              

II.

Kærandi krefst þess í fyrsta lagi að kærunefndin úrskurði að honum beri að fá endurgreiddar kr. 200.957 sem hann hafi greitt vegna fasteignagjaldamálsins. Kvartanir hans yfir framgöngu kærða verða skildar svo að þess sé krafist að nefndin beiti agaviðurlögum. Þá krefst kærandi þess að kærði bæti honum þann kostnað sem hann hafi af því að fá úrskurð nefndarinnar.

Kærandi tekur fram að hann telji að vinnubrögð E í málinu hafi verið óaðfinnanleg. Eftir að hann lét af störfum og kærði tók við málinu hafi hins vegar ekkert gerst málinu og engin svör fengist um framgang þess. Undanfarið ár, áður en hann lagði inn kvörtun sína hafi hann ítrekað talað við kærða í síma en viðbrögðin ávallt verið á sama veg. Kærði hafi ekki haft tíma til að ræða við hann, spurt hvort hann gæti hringt seinna eða lofað að hringja sjálfur, sem ekkert hafi orðið úr. Í apríl 2014 hafi tekið steininn úr þegar kærði hafi ekki þóst heyra í honum í símanum.

Kærandi kveðst hafa haft áhyggjur af því hvað málið tæki langan tíma, en E hafi tjáð honum á sínum tíma að það væri ekkert að óttast því málið safnaði bara á sig dráttarvöxtum. Eftir að hann hafði fengið tilkynningu frá L um að gengið yrði frá uppgjöri innan tveggja vikna hafi hann hins vegar verið rólegur yfir málinu. Þegar hann hafi svo síðar farið að forvitnast um hvað málinu liði hafi komið í ljós að E var hættur störfum sem fulltrúi á stofunni. Jafnframt hafi komið fram að kærði sjálfur væri farinn annað,

Kærandi áréttar að samskiptin hafi aldrei komist á það stig á milli þeirra kærða að ágreiningur yrði um þóknun kærða. Kærði hafi alltaf verið á flótta og hafi kærandi óttast að hann hefði þegar tekið við greiðslu frá L.

 

III.

Kærðikveðst í greinargerð sinni hafa tjáð kæranda í símtölum að hann hafi tekið yfir málið af fyrrum fulltrúa sínum og að hann þyrfti tíma til að setja sig inn í það og ræða við E. Hann hafnar því að hafa komið sér hjá því að ræða við kæranda í síma.

Kærði bendir á að E hafi haldið ágætlega á málinu en staðið hafi á svetarfélaginu L að ganga frá málum gagnvart kæranda. Það hafi verið sameiginlegt mat þeirra E að upphæðin sem um ræddi væri of lág til að stefna L vegna hennar og hafi kæranda verið gerð grein fyrir því.

Kærði lætur í ljósi þá skoðun í greinargerð sinni að ástæðulaust sé að láta málið liggja og kveðst hafa sent ítrekun á lögfræðing hjá fjármálaskrifstofu L. Sem fyrr greinir bárust viðbrögð frá L við því bréfi.

 

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 8. gr. siðareglnanna er mælt fyrir um að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna og í 12. gr.  segir að lögmanni, sem tekur að sér verkefni, beri að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

 

II.

Þótt ýmislegt í máli þessu sé ekki eins skýrt og æskilegt væri, eru meginatriði þess óumdeild. Fyrir liggur að eftir að fulltrúi kærða fékk þau skilaboð í mars 2011 að uppgjörs væri að vænta á ofgreiddum fasteignagjöldum hélt fulltrúinn áfram að ganga á eftir málinu allt fram til nóvembermánaðar 2011, en án sýnilegs árangurs. Virðist nú upplýst að sveitarfélagið L tók í framhaldi af því ákvörðun um að fella niður álögð gjöld fyrir árin 2009 og 2010 en endurgreiða ekki ofgreidd gjöld allt frá árinu 2006 svo sem krafist hafði verið. Ekki er í ljós leitt hvort vanhöld voru á því að fulltrúa kærða væri tilkynnt um þessa niðurstöðu en telja verður upplýst að kærði hefur ekki móttekið neinar greiðslur fyrir hönd kæranda sem hann á eftir að standa skil á.  Á hinn bóginn er óumdeilt að kærði gerði ekkert til að halda málinu til haga, jafnvel eftir að kærði ýtti á eftir málinu við hann síðla árs 2013. Var það ekki fyrr en að fenginni tilkynningu um kæru í máli þessu sem kærði útvegaði upplýsingar um stöðu málsins hjá L. Ber svarið með sér að tómlæti kærða hafi valdið kæranda réttarspjöllum þótt óvíst sé að svo sé í raun.

Var framganga kærða að þessu leyti í andstöðu við fyrrgreind ákvæði 8. og 12. gr. siðareglna lögmanna og var tómlæti hans varðandi mál kæranda aðfinnsluvert.

 

III.

Því er ómótmælt af kærða að kærandi hafi greitt honum kr. 200.957 fyrir störf hans og fulltrúa hans að málinu og hefur kærandi lagt fram greiðslukvittanir fyrir þeirri fjárhæð. Samkvæmt tímaskrá og innheimtubréfinu sem sent var L hafa verið gjaldfærðar kr. 104.008 vegna 4,25 tíma vinnu E að málinu á tímabilinu nóvember 2009 - apríl 2010. Ekkert er komið fram um fyrir hvað var innheimt að öðru leyti ef frá er talið blað frá 31. mars 2012 þar sem gjaldfærðar eru 66.358 vegna 2,25 klst „vegna vinnu[...], sbr. meðfylgjandi tímaskýrslu", en sú tímaskýrsla liggur ekki fyrir eða neinar frekari skýringar á þessu.

Í þessu máli verður ekki tekin nein afstaða til þess hvort kærandi kunni að eiga bótakröfu á hendur kærða vegna þess hvernig haldið var á máli hans. Í þeim þætti málsins sem lýtur að gjaldtöku verður að líta til þess að fyrir liggur að fulltrúi kærða vann þær stundir sem greitt var fyrir á tímabilinu nóvember 2009 - apríl 2010 og er enginn ágreiningur vegna þeirrar vinnu. Skilaði hún þeim árangri að skráning fasteignanna var leiðrétt auk þess sem álagning var í framhaldinu felld niður. Þótt E hafi í framhaldinu ýtt eitthvað á eftir málinu liggur ekki fyrir nein tímaskráning vegna þess og ekkert um neina vinnu annarra. Eins og hér stendur á þykir rétt að takmarka gjaldtöku vegna verksins við fyrrgreinda tímaskýrslu E en mæla fyrir um endurgreiðslu á því sem greitt hefur verið umfram það.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, R hrl., að láta hjá líða að sinna innheimtumáli kæranda, A, allt frá árinu 2012 og þar til kvörtun barst honum í máli þessu, er aðfinnsluverð.

Hæfilegt endurgjald, vegna vinnu kærða fyrir kæranda í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998 eru kr. 104.008.Kærði endurgreiði kæranda kr. 96.949.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson