Mál 14 2015

Ár 2015, föstudaginn 11. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 14/2014:

H

gegn

I

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 31. ágúst 2015 erindi kæranda, H, þar sem kvartað er yfir störfum kærðu, I hrl. og aðstoðarlögmanns hennar, J hdl. eins og það er orðað í kærunni, og áskilinni þóknun þeirra.  Í gögnum málsins kemur fram að J starfar á lögmannsstofu kærðu og vinnur störf sín þar í umboði kærðu. Hafi kærða I nær alfarið séð um verkið og beri ein ábyrgð á tímaskráningu auk þess að vera ein eigandi þeirra hagsmuna sem um er deilt. Þá er ágreiningslaust að þær aðfinnslur sem kærandi hefur sett fram beinast að framgöngu kærðu I. Að athuguðu máli verður því litið svo á að kvörtunin beinist að I eingöngu.

Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 4. september 2015. Greinargerð kærðu barst þann 22. september 2015. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærðu þann 29. september 2015. Athugasemdir kæranda bárust þann 1. október 2015. Kærðu var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum sínum þann 13. október 2015. Lokaathugasemdir bárust frá kærðu þann 27. október2015.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Þann 11. maí 2015 tók kærða við gögnum frá kæranda og bókaði sama dag fund með honum þann 18. maí. Á þeim fundi var ákveðið að kærða myndi aðstoða kæranda við skipti á dánarbúi móður hans, en þau voru þá þegar í farvegi opinberra skipta. Þá tók kærða jafnframt að sér að útbúa fyrir kæranda yfirlýsingu um forsjá barns og aðstoða hann við gerð erfðaskrár, en þeim verkum virðist hafa verið lokið á allra næstu dögum eftir þennan fyrsta fund.

 

Í upphafi virðist hafa verið um það rætt að kærða myndi ekki taka alfarið að sér alla hagsmunagæslu fyrir kæranda við skiptin. Myndi hann t.a.m. sjálfur sjá um það sem lyti að innbússkiptum, en kærða yrði honum til ráðgjafar. Með umboði sem kærandi ritaði undir þann 22. maí 2015 fól hann kærðu „að annast gagnaöflun, könnun á réttarstöðu, veita ráðgjöf og reka fyrir mína hönd á allan hátt mál vegna opinberra skipta..." Varðandi gjaldtöku er í umboðinu svofelld klausa „Undirritaður skuldbindur sig til að greiða lögmannsstofunni fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá stofunnar á hverjum tíma á grundvelli tímaskráningar á verkinu."

 

Eftir að kærða hafði tekið að sér hagsmunagæslu eða ráðgjöf við dánarbússkiptin virðist umfang vinnunnar hafa undið nokkuð upp á sig miðað við það sem fyrst var ráðgert. Deilt var um ýmislegt sem viðkom skiptunum, þar á meðal eldri erfðamál, eignir dánarbúsins í útlöndum, rekstur þeirra og ráðstöfun. Þá dróst kærða að einhverju marki inn í deilur um innbú og lausafjármuni eins og nánar er lýst í málatilbúnaði aðila.

 

Fyrir liggur vinnuskýrsla, dagsett 25. ágúst, sem virðist hafa verið send til kæranda ásamt reikningi. Þar eru skráðar 17,20 vinnustundir á tímagjaldinu 25.000 kr. vegna tímabilsins 11. maí - 21. ágúst 2015, samtals 430.000 kr., en samtals 533.200kr. að virðisaukaskatti meðtöldum. Á tímaskýrslunni kemur einnig fram að með reikningi nr. 4239 hafi verið reikningsfærðar „þóknun 375.000, f 15 st.", en fjárhæðin sem er dregin frá í uppgjöri neðst á tímaskýrslunni er kr. 465.000 (þ.e. 375.000 að viðbættum 24% virðisaukaskatti). Ofan á fjárhæðina 465.000 er síðan bætt virðisaukaskatti og er tilgreind fjárhæð frádráttarins í tímaskýrslunni því kr. 576.600. Þá skráði kærða reikning í heimabanka kæranda að fjárhæð alls kr. 465.075.

 

Kærandi andmælti reikningnum við kærðu með tölvupósti 25. ágúst 2015. Fór hann í tölvupóstinum yfir að á tímaskýrslunni væru ýmsar færslur er vörðuðu innbússkiptin þrátt fyrir að hann hefði frá upphafi lýst því að hann vildi ekki að kærða kæmi að þeim þætti málsins. Þá fann hann að einstökum þáttum í tímaskráningunni varðandi framsendingar á gögnum og tölvupóstum þar sem honum þótti of vel í lagt við skráningarnar. Kærða hafnaði þessum andmælum hins vegar algjörlega með tölvupósti samdægurs að öðru leyti en því að hún féllst á að tvískráðir væru tímar 27. júlí, sem hún kvaðst mundu leiðrétta. Kemur fram í þessu skeyti hennar að ef kærandi óski ekki eftir frekari aðkomu hennar að málinu þá sé það alveg sjálfsagt og muni hún þá tilkynna gagnaðila og skiptastjóra um það. Segir kærða svo í skeytinu. „í heild eru skráðir 17.2 vinnustundir á málið, að gerðri framangreindri leiðréttingu og ég fellst ekki á lækkun eða niðurfellingu á þegar útgefnum reikningi stofunnar, en ef hann er greiddur í vikunni um leið og ég segi mig þá frá málinu, þá mun ég ekki gera þér frekari reikning vegna þessa."

 

Varð þessi ágreiningur um gjaldtöku til þess að kærða lét af lögmannsstörfum fyrir kæranda, en reikninginn greiddi hann þegar daginn eftir, þann 26. ágúst 2015.

 

II.

Kærandi óskar eftir leiðréttingu á reikningi og verður sá skilningur lagður í þá ósk að þess sé krafist að reikningur kærðu sæti lækkun að mati nefndarinnar. Þá óskar kærandi eftir því að það sé skoðað hvort hótun kærðu um að frekari reikningsfærslu vegna vinnunnar brjóti í bága við siðareglur lögmanna. Verður sá skilningur lagður í þennan þátt málsins að þess sé krafist að kærða sæti viðurlögum á grundvelli 27. gr. laga um lögmenn vegna brota á siðareglum lögmanna.

 

Erindi kæranda til nefndarinnar fylgdi ítarleg yfirferð yfir tímaskrá kærðu með athugasemdum en ekki þykir ástæða til að rekja hér einstaka liði í þeim athugasemdum. Kærandi áréttar að kærðu hafi aldrei verið falið að sjá um innbússkipti fyrir sína hönd, sem þó sé innheimt fyrir. Hafi öll samskipti, t.d. við skiptastjóra, átt að fara í gegnum kæranda, en kærða hafi átt að vera honum til ráðgjafar. Þá hafi kærða fundið sér ýmsar átyllur til að útbúa kostnað á sig. Þannig hafi verið skráðir tímar vegna tölvupósta þar sem hún staðfesti að hafa móttekið póst frá kæranda og mikið sé skráð fyrir einfaldar framsendingar, t.d. á póstum frá skiptastjóra. Innihald umræddra tölvuskeyta sé oft mjög knappt, og fylgigögn einföld, jafnvel þótt einhverjar blaðsíður af fyrri samskiptum hengist neðan á pósta. Kærða innheimti af fullum þunga fyrir að svara fyrirspurnum kæranda, jafnvel þótt hún svari aðeins helmingi spurninganna. Kærandi kveður gjaldskrá lögmannsstofu kærðu aldrei hafa verið kynnta sér, en kannast við að tímagjaldið hafi verið kynnt á fyrsta fundi þeirra. Vinnubrögðin við tímaskráningu hafi þó ekki verið kynnt.

 

Kærandi telur kærðu hafa hótað sér því að ef reikningur hennar yrði ekki greiddur í vikunni, fyrir 28. júní þá muni hún senda frekari reikning fyrir 1,9 vinnustund. Hún hafi sagt að hún myndi leiðrétta tímaskráninguna en ekki reikninginn. Fáist það ekki staðist þar sem tvískráningin sé á reikningi. Telur kærandi þetta ekkert annað en hótun og ósæmandi vinnubrögð. Hafi hann óskað kurteislega eftir endurskoðun reiknings, en uppskorið dónaskap í staðinn.

 

III.

Kærða hafnar alfarið öllum ásökunum og kröfum kæranda. Krefst hún þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og honum gert að greiða málskostnað fyrir nefndinni.

 

Kærða telur tímaskráningar vera eðlilegar og í samræmi við umfang verksins, þótt ýmislegt sé þar raunar vanskráð. Hafi tölvupóstsamskipti við kæranda þannig farið fram 192 sinnum m.v. leit í tölvupóstforriti og samskipti við konu hans 7 sinnum. Þar við bætist samskipti við skiptastjóra og lögmann gagnaðila vegna málsins.

 

Vinnan hafi verið vel unnin og í samræmi við hagsmuni kæranda. Gjaldtakan hafi verið byggð á gjaldskrá stofunnar eins og fram komi í umboði vegna verksins. Lágmarkseining vegna vinnu sé 0,2 stundir eða 12 mínútur. Kveðst kærða ekki vita til að aðrar lögmannsstofur skrái minni einingar vegna starfa fyrir umbjóðendur. Hafi ekkert í samskiptum aðila getað undirbyggt þá hugmynd kæranda að honum bæri ekki að greiða fyrir alla þá vinnu sem unnin var í hans þágu.

 

Kærða kveðst hafa sinnt eftir mætti þeim tilmælum kæranda að sinna ekki innbússkiptum dánarbúsins. Hvort tveggja hafi þó komið til, að kærandi sjálfur og eiginkona hans beindu erindum vegna innbússkiptanna til kærðu og að skiptastjóri og gagnaðili sendu kærðu erindi vegna þeirra sem þurfti þá a.m.k. að bera undir kæranda.

 

Kærða hafnar því alfarið að í tölvupósti hennar frá 25. ágúst 2015 felist nokkur hótun af neinu tagi. Hafi kæranda einfaldlega verið boðið upp á að ljúka fjárhagslegu uppgjöri með greiðslu fyrir 15 vinnustundir í stað 17,2 stunda sem unnar höfðu verið. Brjóti þetta ekki í bága við nokkra siðareglu eða góða lögmannshætti. Sé raunar venjubundið að gefa umbjóðendum kost á að greiða lægra verð, sé það gert innan ákveðins frests, enda sé það eingöngu til hagsbóta fyrir greiðandann.

 

Kærða styður kröfu sína um málskostnað við það að til máls þessa sé stofnað að ófyrirsynju. Séu aðfinnslur kæranda svo ítarlegar og margháttaðar að tímafrekt sé að koma vörnum við gagnvart þeim öllum.

 

Niðurstaða.

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærða hafi gerst brotleg við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.

 

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

Þegar tölvuskeyti kærðu til kæranda, dagsett 25. ágúst er virt í heild sinni fæst ekki séð að í því felist sérstök hótun. Í skeytinu er aðfinnslum kæranda við tímaskrif og störf kærðu hafnað mjög afdráttarlaust og má auðveldlega af því ráða að kærðu hefur mislíkað að fá þær sendar. Ekki verður á hinn bóginn fallist á að þar sé að finna merki um þá ókurteisi eða dónaskap sem kærandi les úr orðsendingunni. Kærða setur þarna fram þá kröfu að greitt verði fyrir vinnu hennar samkvæmt tímaskrá og býður kæranda að binda enda á störf sín í hans þágu ef hann sætti sig ekki við það og þá jafnframt að hann geti greitt þegar útgefinn reikning, án þess að komi til frekari reikningaútgáfu vegna vinnustunda sem ekki hefðu verið greiddar. Virðist ekki óeðlilegt að þetta tilboð væri háð því að reikningurinn yrði greiddur um leið og gögnum vegna málsins væri skilað, sbr. 16. gr. siðareglna lögmanna um haldsrétt lögmanns í gögnum. Verður í þessu ljósi að hafna því að kærða hafi gerst brotleg við siðareglur lögmanna í störfum sínum fyrir kæranda.

 

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

 

Ekki er ágreiningur í máli þessu um tímagjald, enda óumdeilt að það var kynnt kæranda á fyrsta fundi hans á lögmannsstofu kærðu. Þá er ágreiningslaus með öllu sú gjaldtaka sem hlaust af störfum kærðu við gerð erfðaskrár og yfirlýsingar um forsjá. Ágreiningurinn stafar hins vegar af ýmsum atriðum í tímaskráningum kærðu.

 

Varðandi færslur á tímaskrá sem lúta að innbússkiptum verður að fallast á skýringar kærðu að fram lögðum gögnum athuguðum. Til hennar var beint ýmsu sem laut að innbússkiptunum, þrátt fyrir þá fyrirætlan frá upphafi að leggja þau fyrst og fremst í hendur erfingjanna sjálfra. Liggja m.a. fyrir tölvupóstar þar sem kærandi eða eiginkona hans velta efnislega upp ýmsum atriðum sem innbússkiptin varðar við kærðu. Verður að leggja það til grundvallar, að þessum samskiptum virtum, að þrátt fyrir upphaflega fyrirætlan hafi kærða dregist inn í þessi innbússkipti að nokkru marki með vitund og vilja kæranda. Þá er til þess að líta að ekki er um mjög umfangsmiklar tímaskriftir að ræða vegna þessa.

 

Kærandi hefur gert ýmsar athugasemdir sem lúta að því að jafnvel sú lágmarkstímaeining sem kærða notaðist við í tímaskrifunum virðist óhófleg, þegar henni er beitt á jafn einfaldar athafnir og að staðfesta móttöku á tölvupósti. Þá finnst honum í einstökum færslum að of langur tími hafi farið, einkum í einföld samskipti. Þegar verk eru unnin í tímavinnu er óhjákvæmilegt að miða við einhverja lágmarkstímaeiningu, sem miðast gjarnan við það að þegar unnið er í máli þarf oft að leggja önnur verkefni frá sér, ná í gögn málsins, skjala o.þ.h., jafnvel þótt um sé að ræða minniháttar viðvik. Ef mikið er um mjög lítilsháttar afskipti af þessu tagi, s.s. framsendingu tölvupósta o.þ.h. getur komið til þess að slík lágmarksskráning fari upp fyrir þau mörk sem eðlilegt getur talist, fyrir það eitt að halda máli til haga. Þegar farið er yfir tímaskrá kærðu eins og kærandi hefur gert, má fallast á það að unnt er að efast um að í hvert einasta sinn hafi allur sá tími farið í slík viðvik sem færður er. Á það ber hins vegar að líta, að fyrir liggur að kærða hefur bæði gert upp við kæranda án þess að innheimta vegna tæplega tveggja tíma vinnu, en sá afsláttur virðist koma vel til móts við athugasemdir af þessu tagi. Þá hefur kærða einnig lagt fram gögn sem sýna að alls ekki hefur verið ritað í tímaskrá fyrir hvert einasta viðvik sem unnið hefur verið í þágu kærða. Loks skal áréttað að sá tímafjöldi sem skráður var, virðist í heild sinni ekki óhóflegur miðað við verkið eins og það birtist af gögnum málsins. Að þessu athuguðu verður ekki fallist á að kærandi geti gert kröfu um endurgreiðslu vegna þeirrar greiðslu sem hann innti af hendi.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, I hrl, hefur ekki brotið gegn siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir kærða, H.

Áskilið endurgjald kærðu, vegna starfa hennar í þágu kæranda, telst hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA