Mál 15 2015

 

 

Ár 2015, föstudaginn 11. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 15/2015:

R

gegn

S hrl.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 22. september 2015 erindi kæranda, R, þar sem kvartað var yfir ofrukkun, óvönduðum vinnubrögðum og skorti á skriflegu samkomulagi af hálfu kærða S hrl.

 

Með bréfi, dags. 29. september 2015, var óskað eftir greinargerð kærða um málið. Barst greinargerðin þann 12. október. Var kæranda kynnt greinargerðin með bréfi 15. október og gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum, ef einhverjar væru, fyrir 2. nóvember s.á. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Í máli þessu háttar svo til að kærandi hefur ekki lýst málsatvikum eins og þau snúa að honum nema að mjög takmörkuðu leyti. Verður málsatvikalýsing kærða því lögð til grundvallar án fyrirvara að því leyti sem hún er ekki í ósamræmi við kvörtun kæranda, enda hefur hún ekki sætt neinum andmælum af hans hálfu, auk þess sem byggt verður á fram lögðum gögnum í málinu.

 

Vinna kærða fyrir kæranda mun hafa hafist í september 2014 þegar kærði sat fund með honum og tveimur öðrum mönnum vegna óánægju þeirra í garð TR og RSK vegna meðferðar þessara stofnana á málum þeirra. Þá var ákveðið að kærði tæki að sér að kanna mál kæranda og sendi kærandi honum töluvert magn gagna vegna þessa. Kynnti kærði sér þessi gögn og einnig dómafordæmi, tvísköttunarsamninga o.fl. Um miðjan desember 2014 sendi kærði allítarlegt erindi til kærða þar sem hann rakti það sem hann taldi hafa misfarist í viðskiptum TR við sig. Í janúar 2015 fékk kærði svo formlegt umboð frá kæranda og eiginkonu hans til að afla frekari gagna og undirbúa eftir atvikum málssókn vegna meðferðar á málum þeirra hjá fyrrnefndum yfirvöldum. Skriflegur samningur um gjaldtöku vegna vinnunnar virðist hins vegar aldrei hafa verið gerður. Ritaði kærði tölvupóst til kæranda þann 9. janúar og gerði honum grein fyrir að hann myndi þurfa að greiða fyrir vinnuna en að sparlega yrði farið í tímaskriftir.

 

Kærandi fór svo fram á það við kærða að hann sæti fund með fulltrúum TR þann 20. febrúar 2015 vegna umrædds málareksturs. Eftir fundinn fóru aðilar þessa máls saman yfir þau atriði sem gætu gagnast kæranda varðandi greiðslur hans frá TR. Samhliða þessum störfum fékk kærði eldri gögn og úrskurði frá RSK vegna kæranda og konu hans varðandi álagningu opinberra gjalda. Þá ráðfærði hann sig við sérfræðing á þessu sviði vegna málsins. Ekki virðist hins vegar hafa komið til þess að kærði stefndi inn málum fyrir kæranda eða ritaði formleg erindi fyrir hans hönd.

 

Fyrir þessi störf kærða skrifaði hann 3,5 klst. vinnu auk 250 km. aksturs í janúar og febrúar 2015. Voru kr. 49.352 gjaldfærðar með reikningi nr. 348 þann 30. janúar 2015, en kr. 80.000 með reikningi 12. júní 2015. Báðar fjárhæðirnar eru að meðtöldum virðisaukaskatti. Gögn málsins bera með sér að veittur var umbeðinn greiðslufrestur á fyrri reikningnum til 20. apríl vegna veikinda kæranda. Þá bera gögn málsins með sér að aðstæður hans voru að ýmsu leyti mjög erfiðar þegar kom fram á sumarið 2015. Var kærði í samskiptum við son kæranda varðandi greiðslukjör á reikningunum, en eins og kæran í þessu máli ber með sér náðist ekki samkomulag. Var umboð kærða afturkallað með tölvupósti 19. apríl 2015. Virðist fyrri reikningurinn vera greiddur en sá síðari ógreiddur.

 

II.

Kærandi krefst þess að reikningur að fjárhæð kr. 80.000 verði felldur niður ásamt öllum innheimtukostnaði. Þá krefst kærandi viðurkenningar á því að aldrei hafi verið gerður skriflegur samningur á milli aðila málsins og að síðustu að allri innheimtu vegna þessa máls verði hætt tafarlaust.

Kærandi kveður kvörtun sína beinast að ofrukkun, óvönduðum vinnubrögðum og því að ekkert skriflegt samkomulag hafi verið gert. Hafi vinna kærða verið lítil sem engin og vinnubrögðin óvönduð. Hafi hann ekki annað fengið frá kærða en eitt handskrifað blað þar sem lítil svör sé að finna við því hvað kærði hafi gert. Þykir kæranda dýrt að greiða um 50.000 krónur fyrir eitt handskrifað A4 blað og mjög um of að ætla að innheimta 80.000 kr. til viðbótar á þeim grunni.

 

III.

Kærði hefur ekki gert sérstakar kröfur í málinu, en lýsir því í greinargerð sinni að hann „Geri ráð fyrir að mál þetta verði fellt niður hið snarasta" Er litið svo á að hann krefjist þess að málinu verði vísað frá, en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Kærði leggur í greinargerð sinni áherslu á að störf sín í þágu kæranda hafi augljóslega kallað á mun meira en 3,5 tíma vinnu auk þess aksturs sem hlaust af því að kærandi óskaði eftir því að kærði sækti með honum fund í Reykjavík. Sé vinnan að lágmarki 15 stundir. Kærandi hafi strax farið að kvarta þegar eitthvað átti að greiða og hafi krafan verið lækkuð og hann virst sáttur við það í símtali á milli aðila. Hafi mál kæranda verið á byrjunarstigi þegar vanskil urðu á reikningum og vinnu við þau hætt.

 

Niðurstaða.

Krafa kærða um að málið verði fellt niður er ekki rökstudd og verður að hafna henni.

 

Líta verður svo á að í aðalkröfu kæranda, þess efnis að reikningur að fjárhæð kr. 80.000 verði felldur niður, felist jafnframt að allur innheimtukostnaður og vextir falli þá jafnframt niður og innheimtu kröfunnar verði þá jafnframt hætt. Líta verður svo á að krafa hans um viðurkenningu á að aldrei hafi verið gerður skriflegur samningur á milli aðila málsins sé sett fram sem málsástæða til stuðnings þessari aðalkröfu.

 

Þar sem fram kemur í kvörtuninni að hún beinist m.a. að óvönduðum vinnubrögðum er óhjákvæmilegt að tekið sé til skoðunar hvort kærði hafi brotið gegn siðareglum lögmanna með vinnubrögðum sínum í máli kæranda. Þykir rétt að fjalla fyrst um þessa síðastnefndu kvörtun sem kærandi hefur fært fram vegna starfa kærða, en síðan um ágreining þeirra um endurgjald kærða. Áréttað skal að sönnunarbyrði vegna þess sem óljóst þykir verður ekki lögð með sama hætti á aðila í þessum tveimur þáttum málsins.

 

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

Í samræmi við þetta verður í máli þessu fjallað um það álitaefni hvort kærði verði beittur þeim viðurlögum sem að ofan greinir. Í því sambandi verður að líta til þess að fullyrðingar kæranda um óvönduð vinnubrögð eru ekki studd neinum gögnum eða dæmum, utan hvað lagt hefur verið fram handskrifað minnisblað um nokkur atriði sem varða mál kæranda. Óumdeilt virðist að mál hans var á undirbúningsstigi hjá kærða þegar vinnu var hætt og því eðlilegt að ekki liggi fyrir ítarlegar eða formlegar afurðir af þeirri litlu vinnu sem innheimt er fyrir. Fæst ekki séð að kærði hafi með nokkrum hætti brotið gegn siðareglum lögmanna eða sýnt af sér óvönduð vinnubrögð í máli kæranda.

 

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

 

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

 

Þeirri fullyrðingu kæranda er ómótmælt að ekki hafi verið gerður neinn samningur um gjaldtöku vegna vinnu kærða og verður það lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Er það í samræmi við þá viðurkenningarkröfu sem hann setti fram í erindi sínu. Þó þykir mega hafa hliðsjón af því loforði kærða í tölvupósti hans 9. janúar að tímaskráningu yrði stillt í hóf. Verður kærði að bera hallann af því að hafa ekki gengið frá skriflegum samningi við kæranda um gjaldtökuna, t.d. um leið og gengið var frá umboði.

 

Þegar litið er til þeirra gagna sem fyrir liggja og kærði sendi til má leggja nokkurt mat á umfang umræddra mála. Um var að ræða ágreining um ýmis atriði við tvær ríkisstofnanir. Þá verður að hafa hliðsjón af þeirri atvikalýsingu kærða, sem ekki hefur verið mótmælt. Af þessum gögnum er alveg augljóst að um var að ræða nokkuð umfangsmikil mál og að kærandi vildi að skoðuð yrðu fjölmörg atriði. Kallaði þetta á að kærði legði umtalsverða vinnu í að setja sig inn í þessi gögn og áttaði sig á því hvaða kröfur væri unnt að gera og á hvaða grundvelli. Ljóst er að þessi vinna var skammt á veg komin þegar hún var stöðvuð, en sú gjaldtaka sem kærði hefur áskilið sér vegna hennar er langt innan þeirra marka sem kærandi mátti reikna með. Verður heldur ekki litið fram hjá því að óumdeilt er að kærði sótti fund með kæranda hjá TR, samkvæmt beiðni hans, auk þeirra viðræðna sem þeir áttu sín á milli vegna málsins. Í ljósi þeirrar fjárhæðar sem kærandi áskildi sér vegna starfa sinna, verður ekki talið að óeðlilegt sé að umrædd undirbúningsstörf hafi ekki borið þann ávöxt að til sé að dreifa formlegum skjölum um væntanlegan málatilbúnað.

 

Þar sem kærði hefur ekki gert sérstakar kröfur um viðurkenningu á gjaldtöku sinni verður látið við það sitja að hafna kröfum kæranda um lækkun á henni í úrskurðarorði.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, S hrl., hefur ekki brotið gegn siðareglum lögmanna með því að sýna af sér óvönduð vinnubrögð í störfum sínum fyrir kæranda, R.

Kröfum kæranda um lækkun á áskilinni þóknun kærða er hafnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA