Mál 23 2015

Ár 2016, föstudaginn 9. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 23/2015:

S

gegn

O

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. desember 2015 erindi kæranda, S. Í erindinu eru rakin vandræði sem kærandi varð fyrir í leit sinni að hæfum lögmanni til að taka að sér dómsmál. Í erindinu kemur hins vegar einnig fram að kærða, O hafi að hans mati reynt að aðstoða þegar kæranda voru allar aðrar bjargir bannaðar og að hvað sem líði hugsanlegum mistökum hennar við meðferð héraðsdómsmálsins vilji kærandi helst forðast niðurstöðu sem gæti vegið að heiðri hennar. Á hinn bóginn telji kærandi nauðsynlegt að farið sé yfir hvers vegna ýmislegt í greinargerð hans til héraðsdóms virðist ekki hafa skilað sér inn í dóminn.

 

Nefndin ritaði kæranda bréf þann 4. janúar 2016 og fór yfir hvert væri hlutverk nefndarinnar og hvers kyns sakarefni gætu komið til kasta hennar.  Var því hafnað í bréfi þessu að nefndin tæki að sér að fara yfir hvort málstaður kæranda fyrir héraðsdómi hafi í raun komist til skila með réttum hætti og hverju væri ella um að kenna. Þá var áréttaður sá skilningur nefndarinnar á erindi kæranda að með því væri ekki stofnað til máls þar sem viðkomandi lögmaður væri sakaður um að hafa tekið mál kæranda að sér án þess að vera fær um að sinna því af kunnáttu og fagmennsku. Loks var í bréfinu tekið fram að í erindi kæranda væri á hinn bóginn vikið að því að honum hafi ekki verið tilkynnt um niðurstöðu héraðsdóms fyrr en eftir að áfrýjunar-frestur var liðinn. Var kærði inntur eftir því hvort hann vildi halda kærumálinu áfram á þessum síðastnefnda grunni. Staðfesti hann það með bréfi dags. 18. janúar 2016 og áréttaði jafnframt að kærða hefði aldrei kynnt sér niðurstöðu dómsmáls hans og honum ekki verið hún kunnug fyrr en með fjárnámsboðun.

 

Kærða hefur látið af lögmannsstörfum og hefur ekki virk lögmannsréttindi. Var erindi sent henni að lögheimili hennar og óskað eftir greinargerð, fyrst þann 23. mars 2016 og svo síðar ítrekanir með ábyrgðarpósti. Ábyrgðarbréfsins var ekki vitjað. Hefur hún í engu svarað tilmælum nefndarinnar um að skila greinargerð og hafa engin svör eða viðbrögð borist frá kærðu vegna málsins.

 

Málsatvik og málsástæður

Samkvæmt erindi kæranda eru málavextir í stuttu máli þeir, að því er varðar sakarefni máls þessa, að kærða rak fyrir hann dómsmál fyrir héraðsdómi. Féll dómur í maí 2013. Kærða hafði þó ekki samband við kæranda til að kynna honum þetta og frétti kærandi því fyrst af héraðsdómnum þegar gagnaðili fékk sýslumann til að boða hann í fjárnám vegna kröfu sem hann hafði verið dæmdur til að borga. Var áfrýjunarfrestur þá liðinn.

 

Niðurstaða

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 4. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. getur nefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 14. gr. laganna getur nefndin lagt til niðurfellingu eða sviptingu lögmannsréttinda þó svo að lögmaðurinn hafi lagt réttindi sín inn til sýslumannsog þau hafi verið lýst óvirk. Telur nefndin að hún geti á grundvelli þessara valdheimilda jafnframt beitt vægari úrræðum.

 

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti. Í 8. gr. er áréttað að  í samræmi við þessa meginreglu skuli lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna. Skal lögmaður m.a. reka þau verkefni áfram með hæfilegum hraða sem hann tekur að sér, sbr. 12. gr. reglnanna.  Það var í brýnni andstöðu við þessar starfsskyldur kærðu að hún léti hjá líða að upplýsa umbjóðanda sinn um að hann hefði verið dæmdur af héraðsdómi til fjárgreiðslu. Eru lögmenn aðila jafnan boðaðir til dóms-uppkvaðningar svo tryggt sé að dómar komist örugglega til vitundar málsaðila. Var þessi háttsemi kærðu mjög til þess fallin að valda umbjóðanda hennar réttarspjöllum og kostnaði, en kærða verður að bera hallann af því að ekkert liggur fyrir um hvort einhver málsatvik horfðu henni til málsbóta.

 

Samkvæmt 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni skylt að boði úrskurðarnefndar lögmanna að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á siðareglunum. Ber lögmanni í því efni að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum nefndarinnar.

 

Eins og lýst er hér að framan hefur kærðu verið veittur rúmur frestur af hálfu úrskurðarnefndar til að gera grein fyrir máli sínu, en hún hefur ítrekað hunsað tilmæli nefndarinnar þar að lútandi.

 

Að mati úrskurðarnefndar felur framferði kærðu, sem hér hefur verið lýst, þ.e. sú vanræksla hennar að upplýsa kæranda ekki um niðurstöðu héraðsdóms, í sér brot á starfsskyldum hennar samkvæmt siðareglum lögmanna. Einnig felur framferði hennar í sér brot á skyldum hennar gagnvart nefndinni, sbr. 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna, sem leiðir til þess að mál þetta verður ekki fyllilega upplýst á vettvangi nefndarinnar. Hefur kærða þannig sýnt af sér hegðun sem telja verður lögmannastéttinni ósamboðna.

 

Með hliðsjón af framangreindu og með vísun til 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 veitir úrskurðarnefnd lögmanna kærðu, O hdl., áminningu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, O hdl., sætir áminningu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson