Mál 20 2016

Ár 2017, fimmtudaginn 26. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið mál nr. 20/2016:

 

A og B

gegn

C hrl.

og kveðinn upp svofelldur

 

                                                                  Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 5. september 2016 erindi kærenda, A og B. Þar er kvartað yfir því að kærði, C lögmaður, hafi tekið að sér mál fyrir skjólstæðing vegna ágreinings þess manns og kærenda um landamerki, þrátt fyrir að kærði hefði áður veitt kærendum lögfræðiþjónustu varðandi sama mál.

 

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindis kærenda með bréfi dags. 13. september 2016 og barst greinargerð hans úrskurðarnefnd þann 28. september 2016. Var kærendum síðan send sú greinargerð til athugasemda með bréfi dags. 18. október 2016 og bárust athugasemdir þeirra við greinargerðina með bréfi dags. 11. nóvember 2016. Þær athugasemdir voru sendar kærða til umsagnar með bréfi dags. 1. desember 2016 og bárust lokaathugasemdir hans með bréfi 14. desember 2016. Úrskurðarnefnd sendi kærendum afrit þeirra athugasemda til kynningar með bréfi dags. 29. desember og lýsti því að hún teldi gagnaöflun lokið.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Á árinu 2004 leituðu kærendur til kærða vegna ágreinings við nágranna kærenda á bújörðinni F sem töldu sig eiga eignarrétt að landi sem kærendur höfðu nýtt sem hluta af jörð sinni, G. Er að nokkru leyti umdeilt hvað kærða og kærendum fór á milli og hvaða störf kærði tók þá að sér fyrir kærendur. Óumdeilt er þó að aðilar máls þessa hittust á fundi vegna málsins og ræddu það. Þá ritaði kærði stutt bréf eða drög að bréfi til sýslumanns 27. júlí 2004 þar sem óskað var eftir því að boðað yrði til sáttafundar vegna málsins. Kemur fram í bréfinu að kærandinn A hafi leitað til kærða og farið fram á að hann gætti hagsmuna hans í málinu. Áhöld eru um hvort bréf þetta var sent sýslumanni eða aðeins sent kærendum sem tillaga. Ekki virðist hafa verið aðhafst neitt frekar í málinu og er þeirri staðhæfingu kærenda ómótmælt að kærði hafi ráðlagt þeim að láta kyrrt liggja ef eigendur F hefðust ekki frekar að.

Ekkert gerðist frekar í þessu máli fyrr en á árinu 2010 þegar eigendur F leituðu til kærða og óskuðu eftir því að hann aðstoðaði þá við að vinna að hnitsetningu jarðarinnar og gætti hagsmuna þeirra gagnvart þremur aðliggjandi jörðum. Var hann þá í sambandi við kærendur og kynnti þeim að hann hefði tekið að sér að gæta hagsmuna nágranna þeirra. Það dróst þó fram til ársins 2013 að haldinn væri sáttafundur hjá sýslumanni, en þangað mætti kærði og einnig lögmaður kærenda. Málið lá þá aftur niðri um sinn en annar sáttafundur var haldinn í mars 2016 án þess að sættir næðust. Um haustið 2016 stefndi kærði, f.h. eigenda F kæranda A til að þola dóm um landamerki milli jarðanna G og F.

 

II.

Kærendur krefjast þess að kærði verði beittur viðurlögum fyrir brot gegn lögum og siðareglum lögmanna. Úrskurðarnefnd lítur svo á að kvörtunin sé reist á 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Mál þetta snýst um að kærendur halda því fram að kærði hafi á árinu 2004 gerst lögmaður þeirra vegna sömu landamerkjadeilu og hann reki nú mál vegna fyrir gagnaðila. Hann hafi því brotið gegn trúnaðarskyldu gagnvart þeim.

Kærendur segja að það sé rangt að kærði hafi ekki tekið að sér vinnu fyrir þau í framhaldi af fundi hans með kæranda A árið 2004. Kærði hafi m.a. lagt til að landamerkjadeilunni yrði vísað til sáttameðferðar og er vísað í afrit af óundirrituðu bréfi kærða til sýslumannsins á T dags. 27. júlí 2004 því til stuðnings. Jafnframt halda kærendur fram að þeir hafi veitt kærða trúnaðarupplýsingar landamerkjadeiluna varðandi. Þeim hafi svo orðið ljóst að kærði væri orðinn lögmaður gagnaðila í málinu þegar hann talaði við þau „fyrir hönd F, sem hann segir að sé á árinu 2010".

 

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni skv. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 en til vara að hafnað verði sjónarmiðum kærenda um að tilefni sé til athugasemda við störf lögmannsins.

Kærði andmælir því að hafa tekið að sér að vera lögmaður kærenda og að hafa búið yfir trúnaðarupplýsingum eða brotið gegn þagnarskyldu lögmanna. Kærandi A hafi komið á skrifstofu hans sumarið 2004, þegar kærði starfaði á X lögmannsstofu á Z, og rætt við hann um landamerki G. Segist kærði ekki muna efni fundarins en að hann hafi ekki tilefni til annars en að ætla að hann hafi stuttlega velt upp skýringarkostum á landamerkjalýsingu, sem sé opinbert gagn, og lýst almennri stöðu vegna landamerkjamála. Kærði starfi nú orðið hjá Y lögmannsstofu og hafi ekki aðgang að 12 ára gömlu verkbókhaldi X lögmannsstofu, en því félagi hafi verið slitið. Aftur á móti telji hann með hliðsjón af reikningi, sem fyrir liggur í málinu, að fundur sinn með kæranda hafi tekið um hálftíma. Samkvæmt gögnum úr tímaskráningu vegna starfa kærða fyrir eigendur F hafi hann tekið að sér málið þeirra vegna 16. ágúst 2010. Skráð sé símtal hans við kæranda A 23. sama mánaðar þar sem fjallað hafi verið um fyrri samskipti þeirra og að kærða hefði verið falið að vinna að hagsmunum eigenda F. Einnig sé skráð símtal þeirra 13. október 2010 og símtal kærða við lögmann kærenda 18. nóvember 2010. Þá liggi fyrir bréf kærða dags. 18. október 2010 til kæranda A sem skrifað sé í þágu eigenda F vegna málsins. Þá vísar kærði til sáttafundar 11. apríl 2013 sem hann sótti fyrir umbjóðendur sína og kærandi A hafi einnig setið ásamt lögmanni sínum. Loks hafi verið reyndar sættir í febrúar 2016 en þær ekki borið árangur og undirbúningur stefnu hafi hafist í kjölfarið á því.

 

Kærði viðurkennir í tilefni af andmælum kærenda að hafa í fyrstu ekki munað eftir því að hafa unnið „tillögu að bréfi til sýslumannsins á T, sem sent var kvartanda", sbr. bréf hans til úrskurðarnefndarinnar dags. 13. desember 2016, en að það hafi ekki verið sent heldur unnið sem tillaga ef kærendur hefðu ákveðið að fela kærða vinnu vegna landamerkjaágreiningsins. Kærði kveðst ekki vera vanhæfur til að vinna að máli síðar gegn viðkomandi enda eigi lögmaður rétt á að vera ekki samkenndur málstaði umbjóðenda síns, sbr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Það standist ekki skoðun að lögmaður sé útilokaður frá því að vinna að ágreiningsmáli ef annar aðili máls hefur kynnt honum það lauslega áður án þess að fela honum að vinna frekar að því. Í þessu tilviki sé staðan sérstaklega ljós þar sem álitamálið varði skýringu á 60 til 70 ára gömlum opinberum gerningum 6 árum áður en kærði tók að sér hagsmunagæslu fyrir eigendur F.

 

Niðurstaða

Í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 er mælt svo fyrir að úrskurðarnefndin vísi frá kvörtun ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er þessi skýra lagaregla áréttuð í 6. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

Eins og frá er greint hér að framan er óumdeilt og stutt málsgögnum að kærendum var það ljóst af samskiptum þeirra við kærða að hann sinnti lögmannsþjónustu fyrir eigendur F sumarið 2010 eða eigi síðar en kærendur móttóku bréf kærða dags. 18. október 2010. Kvörtun kærenda til úrskurðarnefndar um upplýsingamál er dagsett 31. ágúst 2016. Ef kærðu mislíkaði afskipti kærða af málinu vegna fyrri aðkomu hans að því, var þeim í lófa lagið að gera athugasemdir þá þegar, en nefndin telur ekkert fram komið sem réttlætir þennan drátt. Þarf kærði ekki að sæta því að kærendur láti hjá líða árum saman að hreyfa athugasemdum á meðan hann kemur fram fyrir hönd gagnaðila þeirra, en haldi því svo fram að hann hafi þannig brotið trúnað gegn þeim þegar málið er komið til dóms.

 

Að þessu gættu er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Snævarr hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson