Mál 23 2016

Ár 2017, 28. júní  var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2016:

J

gegn

L hdl.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S KU R Ð U R:

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 12. október 2016 erindi kæranda, en í því er kvartað yfir því að kærði, L hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar 27. gr. laganna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 20. október 2016 og barst hún þann 2. nóvember 2016. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 8. nóvember 2016. Hinn 12. desember 2016 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærða þann 29. sama mánaðar. Svar kærða barst 17. janúar 2017 og var það sent kæranda með bréfi dags. 23. febrúar 2017 með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

Málsatvik og málsástæður

I

Kærði annaðist lögmannsstörf fyrir kæranda á árunum 2014 – 2016. Má upphaf þeirra starfa rekja til ágreinings á milli kæranda, sem verkkaupa, og M ehf., sem verktaka, vegna framkvæmda við sólskála á fasteign kæranda á árinu 2013 sem hinn síðarnefndi tók að sér fyrir kæranda. Samkvæmt gögnum málsins reis ágreiningur um rétt til greiðslu vegna tilgreindrar framkvæmdar en kærandi mun hafa talið að verulegir gallar væru á hinni veittu þjónustu og að af þeim sökum væri honum óskylt að greiða eftirstöðvar útgefins reiknings vegna framkvæmdanna.

 

Í kjölfar þess að innheimtuaðgerðir hófust á hendur kæranda vegna hins umþrætta reiknings leitaði kærandi til kærða í ársbyrjun 2014 um lögmannsaðstoð. Með umboði, dags. 13. janúar 2014, veitti kærandi kærða, og fulltrúum hans, fullt og ótakmarkað umboð til þess að gæta hagsmuna hans og annast fyrirsvar vegna ágreinings í tengslum við verkkaup og koma fram gagnvart M ehf. Var tiltekið að í umboðinu fælist aðstoð og fyrirsvar við bréfaskriftir, kröfugerð, sáttatilraunir og málflutning fyrir héraðsdómi eftir atvikum. Þá var því lýst að auk greiðslu fyrir útlagðan kostnað til lögmannsstofu kærða myndi kærandi greiðatímagjald að fjárhæð 17.500 krónur auk virðisaukaskatts og að reikningar væru á gjalddaga 20 dögum eftir útgáfu þeirra.

Þann sama sendi fulltrúi kærða á lögmannsstofu hans annars vegar tölvubréf til Lögmannafélags Íslands vegna þess innheimtuaðila sem hafði sent innheimtubréf til kæranda fyrir hönd M ehf. og hins vegar til fyrirsvarmanns tilgreinds félags þar sem sjónarmiðum kæranda vegna hinna umþrættu framkvæmda var lýst.

Innheimtuaðgerðum á hendur kæranda vegna hinnar umþrættu kröfu var framhaldið með bréfi nýs innheimtuaðila fyrir hönd M ehf., dags. 26. júní 2014. Ekki tókst að jafna ágreining um kröfuna og var mál vegna hennar höfðað á hendur kæranda þann 8. september 2014. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness þann 10. sama mánaðar. Tók kærði til varna í málinu fyrir hönd kæranda og var greinargerð lögð fram í þinghaldi þann 5. nóvember 2014.

Með matsbeiðni, dags. 4. desember 2014, óskaði kærði eftir fyrir hönd kæranda að dómkvaddur yrði hlutlaus og óvilhallur matsmaður til að staðreyna þá galla sem fasteign kæranda væri haldin vegna hinna umþrættu framkvæmda og meta fjártjón hans af þeim sökum. Hinn dómkvaddi matsmaður skilaði mati sínu í lok janúarmánaðar 2015. Var það niðurstaða hans að það myndi kosta 736.401 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, að framkvæma endurbætur á sólskála fasteignar kæranda. Var matsgerðin lögð fram í þinghaldi þann 5. febrúar 2015.

Hinn 19. mars 2015 var fyrirhuguð aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjaness. Með tölvubréfi lögmanns stefnanda þann 17. sama mánaðar voru kærði og dómari í málinu upplýstir um að aðilinn hygðist falla frá kröfum sínum á hendur kæranda og að farið yrði fram á að dómari myndi úrskurða um málskostnað honum til handa. Kærði svaraði erindi þessu um hæl þar sem upplýst var um að kærandi héldi fram kröfu sinni um málskostnað og að af þeim sökum gerði hann ráð fyrir að málið yrði flutt sérstaklega um þann þátt. Fór málflutningur fram um málskostnaðarkröfu kæranda þann 19. mars 2015 og var málið tekið til úrskurðar í kjölfar þess.

Úrskurður í málinu var uppkveðinn í Héraðsdómi Reykjaness þann 30. mars 2015. Samkvæmt úrskurðarorði var málið fellt niður og stefnanda gert að greiða kæranda 900.000 krónur í málskostnað. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum höfðu kærandi og kærði átt í reglulegum samskiptum undir rekstri málsins vegna meðferðar þess. Með tölvubréfum kærða til kæranda þann 31. mars 2015 var hann upplýstur um niðurstöðu málsins og að næsta verkefni væri að innheimta úrskurðaðan málskostnað. Sendi fulltrúi kærða viðvaranir um innheimtuaðgerðir vegna þessa til gagnaðila kæranda dagana 13. og 21. apríl 2015.

Með aðfararbeiðni, dags. 27. apríl 2015, til Sýslumannsins á Suðurlandi krafðist kærði þess fyrir hönd kæranda að gert yrði fjárnám hjá M ehf. til tryggingar skuld vegna málskostnaðarkröfu samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E. Var tilgreind aðfararbeiðni móttekin hjá embætti sýslumanns þann 28. sama mánaðar.

Þann 25. ágúst 2015 var aðfararbeiðnin tekin fyrir hjá Sýslumanninum á Suðurlandi. Samkvæmt fyrirliggjandi endurriti úr gerðarbók var við fyrirtöku málsins gert fjárnám fyrir kröfum kæranda, sem gerðarbeiðanda, í nánar tilgreindri fasteign og bifreið í eigu gerðarþola. Var tilgreindu fjárnámi þinglýst á viðkomandi eignir þann 4. september 2015 að kröfu kærða fyrir hönd kæranda. Fjárnáminu var annars vegar þinglýst á 2. veðrétt fasteignarinnar þar sem handhafaveðskuldabréfi að fjárhæð 20.000.000 krónur hafði verið þinglýst á 1. veðrétt eignarinnar í lok júlímánaðar 2015. Fjárnáminu var hins vegar þinglýst á 1. veðrétt bifreiðar gerðarþola.

Með nauðungarsölubeiðnum, dags. 28. september 2015, sem kærði útbjó og sendi fyrir hönd kæranda til Sýslumannsins á Suðurlandi annars vegar og Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hins vegar, var þess krafist að ofangreindar eignir gerðarþola yrðu seldar nauðungarsölu til lúkningar skuld hans við kæranda. Annaðist fulltrúi kærða samskipti vegna vörslusviptingar á bifreiðinni í nóvembermánuði 2015. Þá liggur fyrir að kærði og fulltrúi hans áttu í tölvubréfasamskiptum við kæranda vegna innheimtumála þessara í september- og nóvembermánuði 2015, þ. á m. vegna vörslusviptingar bifreiðar, auk þess sem ráðið verður af gögnum málsins að aðilar hafi átt með sér fundi um þau málefni á tilgreindu tímabili.

Frá 30. nóvember 2015 liggur fyrir umboð kæranda og kærða til Ö, dóttur kæranda, þar sem henni var veitt fullt og óskorað umboð til þess að mæta fyrir hönd kæranda á nauðungaruppboð hinnar fjárnumdu bifreiðar þann 5. desember 2015. Var bifreiðin seld á nauðungaruppboði þann dag á 100.000 krónur og fékk kærandi 9.292 krónur úthlutaðar upp í kröfu sína samkvæmt skilagrein frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 9. desember 2015. Fulltrúi kærða sendi kæranda þann sama dag tölvubréf þar sem upplýst var um niðurstöðu ofangreindrar nauðungarsölu auk þess sem tilgreint var að fyrirtaka vegna beiðni um nauðungarsölu á fasteign gerðarþola yrði tekin fyrir þann 17. desember 2015. Þá liggja fyrir í gögnum málsins tölvubréfasamskipti kæranda og fulltrúa kærða á tímabilinu frá desember 2015 til febrúar 2016 vegna nauðungarsöluferlis viðkomandi fasteignar hjá Sýslumanninum á Suðurlandi, þ. á m. vegna mætinga við fyrirtökur nauðungarsölubeiðninnar og kostnað vegna þeirra.

Með tölvubréfi fulltrúa kærða til kæranda þann 10. febrúar 2016 var upplýst um að framhaldssala færi fram á viðkomandi fasteign þann 1. mars 2016, að þörf væri á mætingu fyrir hönd kæranda við söluna auk þess sem útbúa þyrfti kröfulýsingu í söluandvirðið. Í gögnum máls fyrir úrskurðarnefndinni liggur fyrir kröfulýsing í söluandvirði, dags. 12. febrúar 2016, sem fulltrúi kærða undirritaði fyrir hans hönd. Þá liggur jafnframt fyrir umboð, dags. 29. febrúar 2016, þar sem kærandi veitti kærða,og/eða nánar tilgreindum lögmannsfulltrúa kærða, fullt og óskorðað umboð til þess að mæta á nauðungaruppboð fasteignarinnar og til þess að bjóða í fasteignina fyrir hans hönd.

Fulltrúi kærða annaðist mætingu á framhaldssölu fasteignarinnar þann 1. mars 2016 fyrir hönd kæranda. Var eignin seld þar á 4.000.000 krónur en samkvæmt gögnum málsins mun uppboðið hafa reynst árangurslaust vegna handhafaskuldabréfs á 1. veðrétti eignarinnar. Liggja fyrir í gögnum málsins tölvubréfasamskipti fulltrúa kærða við embætti Sýslumannsins á Suðurlandi frá 4. og 8. mars 2016 vegna nauðungarsölunnar. Þá liggja fyrir í gögnum málsins tölvubréf fulltrúa kærða til kæranda frá 4. mars, 29. marsog 5. október 2016 með skýringum á niðurstöðu tilgreindrar nauðungarsölu.

Samkvæmt hreyfingarlista lögmannsstofu kærða um viðskipti við kæranda, sem er meðal gagna í þessu máli fyrir úrskurðarnefndinni, voru fjórir reikningar gefnir út af lögmannsstofu kærða vegna lögmannsstarfa hans og fulltrúa hans í þágu kæranda.

Í fyrsta lagi var gefinn út reikningur nr. 1823 þann 10. nóvember 2014 að fjárhæð 588.156 krónur með virðisaukaskatti, þar af 22.400 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Samkvæmt tímaskýrslu, sem mun hafa fylgt með reikningnum og liggur fyrir úrskurðarnefndinni, var um að ræða reikning vegna lögmannstarfa kærða og fulltrúa hans á tímabilinu frá 13. október 2014 til og með 22. október 2014, alls 25,5 klukkustundir, í tengslum við rekstur héraðsdómsmálsins nr. E-1059/2014 sem áður er lýst.

Í öðru lagi var gefinn út reikningur nr. 2111 þann 12. maí 2015 að fjárhæð 595.000 krónur með virðisaukaskatti, þar af 9.100 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærða og fulltrúa hans á tímabilinu frá 3. nóvember 2014 til og með 27. apríl 2015, alls 27 klukkustundir, einkum í tengslum við rekstur ofangreinds héraðsdómsmáls.

Í þriðja lagi var gefinn út reikningur nr. 2791 þann 29. júní 2016 að fjárhæð 182.373 krónur með virðisaukaskatti, þar af 2.700 krónur vegna skráningargjalds. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærða og fulltrúa hans á tímabilinu frá 24. ágúst 2015 til og með 1. mars 2016, alls 8,3 klukkustundir, vegna þeirra innheimtustarfa sem lögmannsstofa kærða sinnti í þágu kæranda og áður er lýst.

Í fjórða og síðasta lagi var gefinn út reikningur nr. 2792 þann 29. júní 2016 að fjárhæð 60.148 krónur vegna útlagðs kostnaðar lögmannsstofu kærða vegna starfa í þágu kæranda.

Af ofangreindu hreyfingaryfirliti og málatilbúnaði aðila verður ráðið að kærandi hafi í þrígang greitt 100.000 krónur inn á útgefna reikninga, þ.e. með greiðslum 9. janúar 2015, 2. mars 2015 og 16. október 2015. Í kjölfar fyrirliggjandi samskipta kæranda og framkvæmdastjóra á lögmannsstofu kærða dagana 29. og 30. júní 2016 mun kærandi hafa gert að fullu upp reikningana með greiðslu til lögmannsstofunnar þann 1. júlí 2016 að fjárhæð kr. 1.125.677 krónur. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærði hafi sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kæranda eftir þann tíma.

 

II

Skilja verður kröfu kæranda þannig að kærði skuli gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, og gert að endurgreiða kærandahluta þess kostnaðar sem kærandi greiddi vegna lögmannsstarfa kærða, sbr.  1. mgr. 26. gr. laganna.

Kvörtun kæranda beinist að því að seinagangur hafi orðið hjá kærða við vinnslu þess máls sem hann hafi tekið að sér fyrir kæranda sem hafi leitt til þess að skaða meðferð og niðurstöðu þess. Hafi slíkt átt sér stað þrátt fyrir að kærandi hafi greitt óheyrilegan kostnað vegna lögmannsstarfa kærða.

Vísar kærandi til úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness frá 30. mars 2015 þar sem kæranda voru úrskurðaðar 900.000 krónur í málskostnað við niðurfellingu málsins. Kærandi kveður kærða hafa látið hjá líða að fara fram á fjárnám á fasteign gagnaðila í tæpa fimm mánuði eftir uppkvaðningu tilgreinds úrskurðar, eða ekki fyrr en þann 25. ágúst 2015. Þegar sú aðfarargerð hafi loks verið framkvæmd hafi gagnaðili kæranda verið búinn að þinglýsa handhafaveðskuldabréfi að fjárhæð 20.000.000 krónur á fasteignina. Hafi það verið gert þann 22. júlí 2015, þ.e. tæpum mánuði áður en aðfarargerð kæranda náði fram að ganga með aðstoð kærða.

Kærandi vísar jafnframt til tölvubréfa frá framkvæmdastjóra á lögmannsstofu kærða frá 30. júní 2016 og fulltrúa kærða frá 5. október 2016 varðandi lyktir á nauðungarsölu fasteignar viðkomandi gagnaðila á grundvelli kröfu kæranda. Byggir kærandi á að hann hafi átt að fá að vita niðurstöðu nauðungarsölunnar í marsmánuði 2016 en að hann hafi ekkert heyrt frá kærða um þetta efni fyrr en í byrjun októbermánaðar sama ár.

Kærandi kveðst hafa greitt til lögmannsstofu kærða alls 1.425.677 krónur auk þess sem þurft hafi að kveða til dómkvaddan matsmanns sem hafi gert honum reikning að fjárhæð 325.500 krónur vegna matsgerðarinnar.

Kærandi kveðst mjög ósáttur við seinagang kærða og alla vinnslu málsins. Gerir kærandi þá kröfu að kærði greiði til baka hluta af þeim greiðslum er kærandi innti af hendi og vegna þess tjóns sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir vegna áhugaleysis og seinagangs kærða. Þá telur kærandi að ekki verði séð að kærði hafi unnið málið með hagsmuni kæranda í huga.

 

III

Skilja verður málatilbúnað kærða þannig að hann krefjist þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað í málinu.

Kærði byggir á að staðhæfing kæranda um að meintur seinagangur í vinnslu málsins hafi skaðað meðferð og niðurstöðu þess fái ekki staðist. Vísar kærði um það efni til þess að aðfarar hafi verið krafist hjá gagnaðila kæranda með aðfararbeiðni, dags. 27. apríl 2015, aðeins fjórum vikum eftir að úrskurður lá fyrir, og innan við tveimur vikum eftir að aðfararfrestur samkvæmt 6. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 leið. Beiðnin hafi verið móttekin af hálfu Sýslumannsembættisins á Suðurlandi þann 28. apríl 2016. Hafi beiðnin ekki verið tekin fyrir fyrr en 25. ágúst 2015 og sé það alfarið tilgreint embætti sem geti svarað fyrir þær tafir. Þá hafi kærði með engu móti getað séð fyrir að handhafaveðskuldabréfi yrði þinglýst á viðkomandi eign í millitíðinni auk þess sem hann hefði engin tæki eða tól til þess að koma í veg fyrir slíkt.

Varðandi nauðungarsölu fasteignar gagnaðila kæranda frá 1. mars 2016 vísar kærði til þess að hún hafi orðið árangurslaus þar sem ekkert hafi fengist upp í kröfur kæranda en áður en samþykkisfrestur hafi liðið hafi hinn gerðarbeiðandinn, Sveitarfélagið Ölfuss, afturkallað nauðungarsölubeiðni sína. Hafi kærandi verið upplýstur um framangreint af fulltrúa kærða með tölvubréfi í byrjun októbermánaðar 2016 auk þess sem bent er á að réttarstaða kæranda sé ef eitthvað er betri en ef nauðungaruppboðið hefði farið fram og eignin verið seld hæstbjóðanda á 4.000.000 króna. Telur kærði liggja í augum uppi að aðkoma hans og fulltrúa hans að máli kæranda hafi með engu móti skaðað niðurstöðu þess og að hagsmunum kæranda hafi verið gætt í hvívetna.

Um lögmannskostnað kæranda vísar kærði til þess að lögmannsstofa hans hafi ekki gefið út reikning á hendur kæranda fyrr en 10. nóvember 2014, þ.e. 10 mánuðum eftir að kærandi leitaði fyrst til kærða. Hafi sá reikningur verið að fjárhæð 588.156 krónur. Næsti reikningur lögmannsstofunnar hafi verið gefinn út hálfu ári síðar eða þann 12. maí 2015, að fjárhæð 595.000 krónur. Hafi kærandi greitt þrisvar sinnum inn á þessa tvo reikninga, 100.000 krónur í hvert skipti, dagana 9. janúar 2015, 2. mars 2015 og 16. október 2015. Þrátt fyrir það hafi legið fyrir í mars 2015 að lögmannsstofa kærða hefði gjörsigrað það mál sem henni hefði verið falið að vinna að fyrir hönd kæranda. Þar sem illa hafi gengið að fá reikninga greidda af hálfu kæranda hafi ekki verið gefnir út frekari reikningar þrátt fyrir að útistandandi væri vinna sem ekki hefði verið reikningsfærð á þessum tíma.

Kærði kveður að framkvæmdastjóri á lögmannsstofu kærða hafi reglulega haft samband við kæranda á tilgreindu tímabili. Er meðal annars vísað til fyrirliggjandi samskipta frá 28. og 29. júní 2016 og tilgreint að hinn síðarnefnda dag hafi tveir reikningar til viðbótar verið gefnir út vegna vinnu og útlagðs kostnaðar, annars vegar að fjárhæð 182.373 krónur og hins vegar 60.148 krónur. Þann 29. júní 2016 hafi skuld kæranda við lögmannsstofu kærða staðið í 1.125.677 krónum með virðisaukaskatti sem hafi mátt rekja allt aftur til reiknings sem gefinn hafi verið út í nóvember 2014. Þrátt fyrir það hafi kæranda verið gefinn kostur á að greiða reikningana án þess að krafist væri vaxta, dráttarvaxta eða innheimtukostnaðar. Kveður kærði að kærandi hafi gert upp tilgreinda skuld við lögmannsstofuna þann 1. júlí 2016.

Kærði vísar til þess að lögmannsstofa hans hafi unnið eftir allra lægsta tímagjaldi stofnunnar fyrir kæranda, þ.e. 17.500 krónur auk virðisaukaskatts. Auk útlagðs kostnaðar sem stofan hafi þurft að leggja út fyrir þá hafi stofan þurft að standa skil á virðisaukaskatti vegna útgefinna reikninga á hendur kæranda. Byggir kærði á að lögmannsstofa hans hafi með öllu verið mjög sanngjörn í garð kæranda og vísar á bug kvörtunum hans.

Kærði vísar til þess að kærandi hafi ávallt verið upplýstur um hvert og eitt einasta skref í máli hans, hvort sem um hafi verið að ræða viðræður fyrir málshöfðun, dómsmálið sjálft eða innheimtuaðgerðir. Þá hafi kærandi verið upplýstur um alla kostnaðarliði, ýmist á fundi, í síma eða í tölvupóstum.

Þá kveður kærði að lögmannsstofa hans hafi ekki reikningsfært fyrir næstum alla þá vinnu sem unnin hafi verið fyrir kæranda. Sjáist það bersýnlega á fyrirliggjandi reikningum í málinu og tímaskýrslum sem þeim fylgdu. Þá hafi kærandi aldrei gert athugasemdir við þann útlagða kostnað sem hafi farið í innheimtuaðgerðir eða kostnað við matsgerð frá janúarmánuði 2015. Hafi kærandi fyrst með kvörtun við meðferð þessa máls gert athugasemd við þann kostnað sem hann hefði þurft að inna af hendi.

Kæri vísar til þess að frá því að málið kom fyrst til hans og þar til gripið var til síðustu innheimtuaðgerða og nauðungarsölu hafi liðið tæplega þrjú ár. Á því tímabili hafi verið tekið til varna vegna stefnu fyrir héraðsdómi með ritun greinargerðar, rituð matsbeiðni vegna meintra galla, aðalmeðferð málsins undirbúin til fulls og málið síðan flutt munnlega um málskostnaðarkröfu. Að því loknu hafi verið lagt í miklar innheimtuaðgerðir. Fyrir þessa vinnu hafi lögmannsstofa kærða innheimt samtals 1.149.740 krónur án virðisaukaskatts, þ.e. fyrir alla vinnu á öllu tímabilinu.

Með vísan til alls ofangreinds hafnar kærði þeim staðhæfingum sem fram koma í kvörtun kæranda og að honum sé skylt að endurgreiða kæranda hluta af hans greiðslum til lögmannstofu kærða.

 

Niðurstaða

Í málinu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.

 

I

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. siðareglnanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni, að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

Fyrir liggur að úrskurður í því máli sem kærði rak fyrir kæranda fyrir héraðsdómi var kveðinn upp þann 30. mars 2015 þar sem málið var fellt niður að kröfu gagnaðila kæranda og honum gert að greiða kæranda 900.000 krónur í málskostnað. Þá liggur fyrir að kærði beindi aðfararbeiðni fyrir kæranda vegna málskostnaðarkröfunnar til viðkomandi sýslumannsembættis þann 27. apríl 2015 og að sú beiðni var móttekin af embættinu þann 28. sama mánaðar. Í millitíðinni höfðu tvö innheimtubréf verið send til gagnaðila kæranda frá lögmannsstofu kærða vegna kröfunnar.

Samkvæmt ofangreindu var aðfarar krafist hjá gagnaðila kæranda innan fjögurra vikna eftir uppkvaðningu úrskurðarins og innan við tveimur vikum eftir að aðfararfrestur samkvæmt 2. kafla laga nr. 90/1989 um aðför var liðinn. Að áliti nefndarinnar voru innheimtustörf kærða í þágu kæranda að þessu leyti í samræmi við góða lögmannshætti og það verkefni rekið áfram af kærða með hæfilegum hraða í skilningi 12. gr. siðareglna lögmanna.

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 90/1989 ákveður sýslumaður svo fljótt, sem við verður komið eftir að aðfararbeiðni hefur borist, hvar og hvenær aðför fari fram, svo sem verða má eftir óskum gerðarbeiðanda. Á grundvelli tilgreinds lagaákvæðis er það á forræði sýslumanns að ákveða hvenær aðför fari fram. Samkvæmt því getur kærði hvorki borið ábyrgð á því gagnvart kæranda að aðfararbeiðnin hafi ekki verið tekin fyrir hjá viðkomandi sýslumannsembætti fyrr en þann 25. ágúst 2015 né að handhafaveðskuldabréfi hafi verið þinglýst á fasteign gagnaðila kæranda í júlímánuði sama ár. Verður því ekki fallist á með kæranda að seinagangur hafi orðið á störfum kærða í þágu kæranda að þessu leyti sem leitt hafi til þess að skaða meðferð og niðurstöðu þess máls sem rekið var.

Fyrir liggur að nauðungarsala sem fram fór á fasteign gagnaðila kæranda þann 1. mars 2016, á grundvelli beiðni kæranda, reyndist árangurslaus. Ekki verður fallist á það með kæranda að hann hafi fyrst verið upplýstur um lyktir nauðungarsölunnar í byrjun októbermánaðar 2016. Í gögnum máls fyrir úrskurðarnefndinni liggja fyrir tölvubréf til kæranda um þetta efni frá fulltrúum kærða annars vegar, dags. 4. og 29. mars 2016, og hins vegar framkvæmdastjóra á lögmannstofu kærða, dags. 29. og 30. júní 2016. Þótt fallast megi á að tilgreind tölvubréf hafi mátt vera skýrari um lyktir nauðungarsölunnar og mögulega fullnustu kröfu kæranda verður ekki fram hjá því litið að kærandi var sannanlega upplýstur um framvindu mála auk þess sem fullnægjandi skýringum var komið á framfæri við kæranda með tölvubréfi fulltrúa kærða þann 5. október 2016. Samkvæmt því verður hvorki talið að kærandi hafi orðið fyrir réttarspjöllum af þessum sökum né að kærði hafi gert á hlut kæranda að öðru leyti vegna samskipta aðila.

Samkvæmt ofangreindu er það niðurstaða nefndarinnar að kærði hafi ekki brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna í stöfum sínum fyrir kæranda.

 

II

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Fyrir liggur að kærði tók að sér að halda uppi vörnum fyrir kæranda fyrir héraðsdómi vegna kröfu á grundvelli þjónustukaupa. Var það mál fellt niður af hálfu stefnanda tveimur dögum fyrir fyrirhugaða aðalmeðferð málsins og aðilanum gert að greiða kæranda 900.000 krónur í málskostnað samkvæmt úrskurði héraðsdóms eftir að málið hafði verið flutt sérstaklega um þann þátt. Gögn málsins bera með sér að kærði hafi sett sig ítarlega inn í mál kæranda. Var framsetning á málsástæðum kæranda í greinargerð og matsbeiðni til héraðsdóms fyllilega frambærileg að mati nefndarinnar. Verður slíkt hið sama sagt um innheimtustörf kærða í þágu kæranda og skjalagerð kærða í tengslum við þau störf í kjölfar úrskurðarins.

Ekki er ágreiningur um tímagjald en samkvæmt umboði sem kærandi veitti kærða, dags. 13. janúar 2014, var því lýst að auk greiðslu fyrir útlagðan kostnað til lögmannstofu kærða myndi kærandi greiða tímagjald að fjárhæð 17.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Fyrir liggur að lögmannsstörf kærða í þágu kæranda stóðu yfir í tæplega þrjú ár. Á þeim tíma tók kærði til varna vegna stefnu fyrir héraðsdómi með tilheyrandi mætingum og skjalagerð. Þá mun kærði hafa undirbúið efnislega aðalmeðferð málsins enda ekki upplýst um að málið yrði fellt niður af hálfu stefnanda fyrr en tæplega tveimur sólarhringum áður en til hennar átti að koma. Þess í stað var málið flutt munnlega um málskostnaðarkröfu kæranda. Í kjölfarið þess hóf kærði innheimtuaðgerðir fyrir kæranda á grundvelli úrskurðar í málinu.

Á grundvelli tilgreindra lögmannsstarfa í þágu kæranda gaf lögmannsstofa kærða út fjóra reikninga, samtals að fjárhæð 1.425.677 krónur með virðisaukaskatti en þar af voru 91.648 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Tímaskýrslur fylgdu með tilgreindum reikningum. Gerði kærandi engar athugasemdir við útgefna reikninga eða tímaskýrslur kærða sem hún greiddi athugasemdalaust með fjórum innborgunum á árunum 2015 og 2016. Þá telur nefndin að af framlögðum gögnum megi ráði að kærði hafi sinnt lögmannsstörfum fyrir kæranda á tímabilinu án þess að innheimt væri sérstaklega vegna þeirra.

Að vandlega virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram, þ. á m. tímaskýrslu kærða og fulltrúa hans sem virðast greinargóðar um það sem gert var hverju sinni og ekki úr hófi, telur nefndin að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kærða í þágu kæranda, að teknu tilliti til útlagðs kostnaðar, sé 1.425.677 krónur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem kærði áskildi sér vegna starfa sinna í þágu kærða og hefur þegar innheimt, var hæfileg. Samkvæmt því er endurgreiðslukröfu kæranda í málinu  hafnað.

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, L hdl., hefur ekki brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir kæranda, J.           

Áskilin þóknun kærða, L hdl., vegna starfa hans í þágu kæranda, J, felur í sér hæfilegt endurgjald. Endurgreiðslukröfu kæranda er hafnað.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Snævarr hrl.