Mál 26 2016

Ár 2017, föstudaginn 26. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík. Fyrir var tekið málið nr. 26/2016:

A

gegn

B hdl., C hdl., D hdl. og E hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 18. október 2016 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir meintri aðkomu kærðu, sem skráðra eigenda Æ lögmenn ehf. að störfum Þ, innan og á vegum lögmannsstofunnar. Kvörtunin beindist upphaflega einnig að Z hdl., en með bréfi, dags. 7. nóvember 2016 afturkallaði kærandi kvörtun sína að því er hann varðaði og var málið að því leyti fellt niður með bréfi nefndarinnar til Z, dags. 11. nóvember 2016.

 

Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 24. október 2016. Kærðu leituðu sameiginlega til lögmanns, sem hefur síðan komið fram fyrir þeirra hönd og skilað greinargerðum fyrir hvern þeirra um sig, þar sem að verulegu leyti er byggt á sömu atvikum og málsástæðum, þó þátttaka þeirra í meintum brotum gegn siðareglum lögmanna sé ekki sú sama og því nokkur munur á atvikum sem varða hvern og einn þeirra að því leyti. Bárust greinargerðir kærðu 7. nóvember 2016.

 

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðir kærðu þann 14. nóvember 2017. Bárust athugasemdir kæranda 1. desember 2016 og voru kynntar kærðu með bréfi dags. 6. desember 2016. Lokaathugasemdir kærðu bárust nefndinni að fengnum fresti þann 9. janúar og voru kynntar kæranda með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Kvörtun kæranda lýtur að því að nafngreindur maður, Þ, hafi átt og stjórnað Æ ehf. um árabil, ásamt því að sinna þar lögmannsstörfum. Enda þótt Þ eigi enga aðild að máli þessu er óhjákvæmilegt að rekja helstu atvik sem hann varða og þau gögn sem fyrir liggja um tengsl hans við Æ lögmenn, áður en vikið er að þeim atvikum er snúa að hverjum kærðu um sig.

 

Þ lauk lagaprófi árið 199X og fékk málsflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 199X. Með dómi héraðsdóms var hann árið 20XX sakfelldur fyrir brot á 211. gr. almennra hegningarlaga og dæmdur til X ára fangelsisrefsingar. Með sama dómi var hann sviptur leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Bú Þ var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms í október 20XX og lauk skiptum árið 20XX. Þ var veitt skilorðsbundin reynslulausn í maí 20XX.

 

Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrá tók Þ sæti í stjórn Æ lögmanna í desember 2010, en í varastjórn eftir aðalfund í október 2012 og fór þá jafnframt með framkvæmdastjórn og prókúruumboð. Hann vék úr stjórn í mars 2013, en var kjörin í stjórn félagsins á ný í júní 2015 og tók þá jafnframt við prókúruumboði á ný.

 

Samkvæmt upplýsingum sem fylgdu ársreikningi Æ lögmanna fyrir árið 2011 var félagið þá að fullu í eigu Ö ehf., en því hefur ekki verið mótmælt sérstaklega að það félag var í eigu Þ. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2012 var lögmannsstofan þá að fullu í eigu kærða D, en að fullu í eigu kærða B í lok árs 2013. Með ársreikningi sem skilað var fyrir árið 2014 fylgdu hins vegar þær upplýsingar að félagið væri að fullu í eigu Þ. Áréttað skal að réttmæti þessara upplýsinga hefur verið andmælt. Þá liggur fyrir tilkynning Æ lögmanna ehf. til fyrirtækjaskrár RSK, sem stimpluð er um móttöku 25. mars 2013, þar sem tilkynnt er að nýir hluthafar hafi komið inn í rekstur félagsins og það sé nú í eigu D.

 

Á útprentun af heimasíðu Æ lögmanna frá desember 2015 er Þ tilgreindur sem starfsmaður stofunnar. Kemur fram að hann sinni allri almennri lögfræðiþjónustu til viðskiptavina. Tilgreind sérsvið hans eru viðskipta- og verðbréfamarkaðsréttur, félagaréttur, samninga- og kröfuréttur, sifja og barnaréttur, stjórnsýsluréttur, réttarfar og fjármunaréttur. Í kröfu hans til héraðsdóms um niðurfellingu réttindasviptingar frá desember 20XX kemur fram að hann hafi „allt frá árinu 20XX starfað við lögmannsstörf og stefnir að því að starfa áfram við slík störf".

 

Kærandi fer með ákveðið eftirlitshlutverk með lögmönnum, lögum samkvæmt, en afmörkun þessa eftirlitshlutverks er á meðal þess sem deilt er um í máli þessu. Af kæru má ráða að aðkoma Þ að rekstri og starfsemi Æ lögmanna hafi fyrst komið til skoðunar kæranda þegar ríkissaksóknari óskaði umsagnar kærða á fyrrgreindri kröfu Þ um endurveitingu lögmannsréttinda með bréfi, dags. 21. desember 20XX. Félagið lagðist gegn endurveitingu. Í framhaldi af þessu sendi kærandi bréf til allra kærðu, en einnig þeirra Z hdl., F hdl. G hdl., sem komið höfðu að starfsemi Æ lögmanna með einhverjum hætti undanfarin misseri. Í bréfinu var þess óskað að hver og einn móttakenda upplýsti um aðkomu sína að eignarhaldi, rekstri og starfsemi Æ lögmanna ehf. allt frá árinu 2011 ásamt vinnusambandi viðkomandi við skráðan eiganda stofunnar. Þá var óskað eftir afriti af ráðningarsamningi Þ við Æ lögmenn.

 

Þeir G og F svöruðu bréfinu hvor í sínu lagi og upplýstu að á hluthafafundi 21. mars 2013 hafi félag í þeirra eigu eignast 40% hlut í félaginu en aðrir eigendur þá verið kærði B að 40% hlut og kærði D að 20% hlut. Þá upplýsti F að félag þeirra hafi ekki gengið frá afhendingu á þessum hlut sínum í Æ lögmönnum fyrr en í upphafi árs 2015, en ekki kemur fram hverjir tóku þá við honum. Í þessum bréfum kemur jafnframt fram að samstaða þeirra sem störfuðu undir merkjum stofunnar hafi verið lítil og mannabreytingar tíðar. Af svari Z hdl. má ráða að aðkoma hans hafi engu skipt fyrir mál þetta.

 

Kærðu B, C, D og E svöruðu erindinu sameiginlega með bréfi, dags. 5. febrúar 2016. Í svari þeirra kemur í fyrsta lagi að tilgreining á Þ sem 100% eiganda félagsins í ársreikningi þess fyrir árið 2014 sé röng. Þá er rakið hvernig eignarhald félagsins hafi þróast. Kærði B hafi átt félagið fram til 21. mars 2013, en þá hafi kærði D og fyrrnefnt félag þeirra F og G bæst í eigendahópinn. Þetta hafi verið tilkynnt fyrirtækjaskrá með tilkynningu móttekinni 23. mars 2013. Þeir kærðu E og C hafi  svo tekið við eignarhlut félagsins á árinu 2015.

 

Í bréfinu er því hafnað að Þ hafi unnið önnur störf en honum voru heimil og sérstaklega tilgreint að hann hafi ekki unnið nein þau störf sem einungis lögmönum er ætlað að rækja. Hann hafi sömuleiðis verið meðstjórnandi án þess að það fæli í raun í sér nokkurn rekstur stofunnar. Þ hafi upplýst að orðalag hans í kröfu um endurveitingu réttinda þar sem hann lýsti störfum sínum hafi verið sótt í dóm Hæstaréttar í sambærilegu máli, þar sem lögmanni voru veitt réttindi á nýjan leik.

 

Kærandi taldi þessar skýringar ekki fullnægjandi og óskaði frekari skýringa með bréfum til kærðu, dags. 16. mars 2016. Var þar óskað afrita skattframtala þeirra sem þarna væru tilgreindir sem eigendur auk fleiri upplýsinga. Þá voru í bréfinu gerðar ýmsar athugasemdir við svör kærðu. Þessu bréfi var ekki svarað þrátt fyrir ítrekun 5. apríl 2016 að öðru leyti en því að kærði D ritaði allítarlegt svar, dags. 15. apríl 2016, þar sem hann rekur takmarkaða aðkomu sína að rekstri Æ lögmanna og styður eignarhald sitt í félaginu frá mars 2013 með afritum af viðkomandi síðum eigin skattframtals. Þá kveðst hann hafa setið einn eftir í stjórn félagsins eftir brotthvarf F og G og því ekki getað sagt sig úr henni án þess að aðrir væru reiðubúnir að taka við.

 

Með bréfum kæranda til Z og kærðu B, C og E, dags. 18. maí var varað við því að málið yrði sent til úrskurðarnefndar ef svör bærust ekki.

 

II.

Kærandi gerir þær kröfur að úrskurðarnefnd lögmanna leggi til í rökstuddu áliti við sýslumann að kærðu verði sviptir réttindum til að vera héraðsdómslögmenn, eða réttindi þeirra felld niður um stundarsakir, sbr. 1. mgr. 14. gr. og 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

Kærandi telur heimild sína til að beina þessari kvörtun að úrskurðarnefnd hafna yfir vafa. Fram komi í 27. gr. lögmannalaga að telji „einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr." geti hann lagt mál fyrir úrskurðarnefndina. Orðið „einhver" í þessu sambandi nái yfir kæranda. Í 3. mgr. 43. gr. siðareglnanna komi svo fram að nefndin skeri úr ágreiningi um skilning á reglunum. Málsmeðferðarreglur nefndarinnar, sem settar séu með stoð í 1. mgr. 4. gr. lögmannalaga og komi þar m.a. fram að hlutverk nefndarinnar sé „að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ" og „að fjalla um erindi sem stjórn A sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna". Þessar reglur séu í samræmi við lögmannalög, enda sé vandséð hvernig A gæti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu geti það ekki leitað úrlausnar nefndarinnar um meint brot lögmanna á siðareglum. Kvörtun í þessu máli varði brot gegn þeim hagsmunum sem félaginu beri að gæta og vinna að.

 

Kærandi gerir athugasemd við að seta annarra en lögmanna í stjórn og framkvæmdastjórn Æ lögmanna brjóti gegn 4. mgr. 19. gr. lögmannalaga og 38. gr. siðareglna lögmanna. Vísar kærandi til upplýsinga úr hlutafélagaskrá um að Þ hafi setið í stjórn Æ lögmanna.

 

Í öðru lagi kvartar kærandi yfir því að eignarhald Þ á Æ lögmönnum brjóti gegn sömu ákvæðum og hafnar því að kærðu hafi tekist að sýna fram á að þessar upplýsingar séu rangar.

 

Áréttar kærandi að umrædd ákvæði snúi að mikilvægum þáttum varðandi sjálfstæði lögmannastéttarinnar. Aðkoma Þ að stjórn stofunnar sé enn virk við framlagningu kærunnar samkvæmt opinberum skráningum. Hann hafi verið einn eigandi að henni á árinu 2011 í gegn um félag sitt, Ö, sem nú sé gjaldþrota. Þá hafi samþykktum félagsins verið breytt á hluthafafundi 9. júní 2015 og undirritaðar, m.a. af Þ, en sú undirskrift hefði verið óþörf ef hann væri ekki hluthafi í félaginu. Áréttar kærandi að beiðnum hans um nánar tilgreind gögn varðandi raunverulegt eignarhald stofunnar hafi ekki verið svarað og verði að miða við opinber gögn, en samkvæmt nýjasta ársreikningi sé hann einn eigandi. Kærandi telur ekki að nein sú venja hafi skapast varðandi eignarhald og stjórnarsetu í félögum sem reka lögmannsstofur að máli skipti fyrir úrslit málsins.

 

Í þriðja lagi lýtur kvörtunin að því að innan lögmannsstofunnar hafi Þ stundað lögmannsstörf án lögmannsréttinda og án þess að fullnægja skilyrðum til þess að geta unnið þar sem fulltrúi, en þetta sé í andstöðu við 1. mgr. 11. gr. lögmannalaga og 4. gr. siðareglna lögmanna. Hafi kærðu ljáð honum nafn sitt til að stunda lögmannsstörf án þess að hann hefði til þess rétt að lögum. Þá hafi kærðu brotið gegn bannreglu ákvæðis 2. mgr. 4. gr. með því að stuðla að því að Þ fengi unnið verk sem skuli samkvæmt venju eða lögum aðeins unnin af lögmanni. Leggur kærandi í þessu samhengi áherslu á að hugtakið lögmannsstörf nái ekki aðeins til þeirra starfa sem einkaréttur lögmanna samkvæmt lögmannalögum nær til. Þessi ákvæði varði bæði sjálfstæði lögmannsstéttarinnar og neytendavernd, því þau tryggi að þeir sem leiti aðstoðar á lögmannsstofu njóti í reynd hagsmunagæslu einhvers þess sem beri skyldur samkvæmt lögmannalögum og siðareglum. Leggur kærandi áherslu á að hugtakið lögmannsstörf nái yfir margvísleg önnur störf en þau sem einkaréttur lögmanna nær til, s.s. lagalega ráðgjöf og hagsmunagæslu. Vísar kærandi um þetta til dómaframkvæmdar þar sem ákvæði lögmannalaga hafi verið talin ná yfir ýmis störf á sviði ráðgjafar og erindisrekstrar. Kærandi vísar til þess að Þ sjálfur hafi lýst því svo skriflega í dómsmáli að hann hafi starfað við lögmannsstörf og að á heimasíðu Æ lögmanna hafi komið fram að hann sinni allri almennri lögfræðiþjónustu til viðskiptavina og séu þar talin upp ýmis sérsvið. Hafi á heimasíðunni ranglega verið staðhæft að lögmannsréttindi Þ væru ekki virk, en sú staðhæfing hafi verið fjarlægð vegna athugasemda kæranda ásamt þeirri fullyrðingu að eitt af sérsviðum hans væri réttarfar. Rekur kærandi einnig að störf Þ geti ekki fallið undir heimildarákvæði 1. mgr.11. gr. lögmannalaga til að ráða fulltrúa eða undanþáguákvæði 2. tl. 2. mgr. 12. gr. laganna. Skráðir eigendur Æ lögmanna beri ábyrgð á þessum lögmannsstörfum Þ. Kærandi telur að skýringar kærðu undir rekstri málsins í þá veru að Þ hafi aðeins starfað sem almennur starfsmaður á skrifstofu þeirra, þvert ofaní það sem áður hafi verið lýst opinberlega séu í andstöðu við það sem fyrir liggi í málinu.

 

Í fjórða lagi beinist kvörtun kæranda að vanrækslu allra kærðu á því að hafa góða skipan á skrifstofu sinni, svo sem áskilið er í 1. og 2. mgr. 40. gr. siðareglnanna. Vanhöld á því að umbeðnar upplýsingar um skipulag og eignarhald að lögmannsstofunni hafi verið lagðar fram bendi til þess að þessi skylda hafi verið vanrækt. Kvörtunin í heild sinni beinist að því að kærðu beri ábyrgð á að rekstur lögmannsstofu þeirra sé í samræmi við lög og siðareglur. Aðkoma Þ að rekstri og eignarhaldi lögmannsstofunnar, ásamt lögmannsstörfum hans innan stofunnar, sé í andstöðu við gildandi reglur. Félag kærðu um lögmannsstofu hafi verið nýtt til að gera manni sem hefur verið sviptur lögmannsréttindum mögulegt að gegna lögmannsstörfum. Telur kærandi að kærðu geti ekki vikið sér undan ábyrgð sinni með tilvísunum til þess að bannreglur við því að taka að sér þessi hlutverk, beinist aðeins að þeim einstaklingi sem í hlut á, en ekki þeim lögmönnum sem geri honum kleift að brjóta reglurnar.

 

Í fimmta lagi telur kærandi að vanhöld á því að kærendur svöruðu erindum stjórnar A, sem hún sendi þeim í krafti eftirlitshlutverks síns feli í sér brot gegn 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

 

III.

Kærðu krefjast þess að málinu verði vísað frá, en ella að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir nefndinni úr hendi kæranda.

 

Frávísunarkröfu sína byggja kærðu á því að úrskurðarnefnd lögmanna sæki valdheimildir sínar til lögmannalaga og sé bundin af því hlutverki sem þar er afmarkað. Valdsviðið verði ekki víkkað út með siðareglum lögmanna eða málsmeðferðarreglum, sem ekki eigi sér efnislega stoð í lögum. Aðild að kærumálum á borð við þetta sé samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga bundinn við þann sem telji að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut. Verði aðild samkvæmt ákvæðinu ekki skýrð svo vítt að kærandi geti átt aðild að kærumálum á þeim grunni að félagið eigi hagsmuni af því að lögmenn virði lög og siðareglur lögmanna í störfum sínum.

 

Kærðu benda á að kærandi sé félag lögmanna sem starfi samkvæmt sérstökum lögum, þ.e. lögmannalögum. Þar sé sérstaklega tekið fram í 2. mgr. 3. gr. að félagið skuli ekki hafa með höndum „aðra starfsemi en þá sem sérstaklega er mælt fyrir um í lögum." Hvergi í lögmannalögum sé mælt fyrir um eftirlitshlutverk félagsins eða stjórnar þess með því að lögmenn fari eftir siðareglum. Benda kærendur á að gild rök virðist enda mæla gegn því að stjórn A, sem skipuð er lögmönnum sem eru í samkeppnisrekstri við aðra lögmenn, hafi slíkt hlutverk með höndum. Kærðu byggja á því að eftirlitshlutverk kæranda með lögmönnum sé bundið við að þeir uppfylli tiltekin hlutlæg skilyrði þess að fá haldið lögmannsréttindum. Krafa A um að kærðu stæðu því skil á upplýsingum og á gögnum á borð við persónuleg skattframtöl sín hafi ekki stuðst við þær heimildir sem kærandi hafi til eftirlits og hafi kærðu verið í fullum rétti til að hafna þeim.

 

Kærandi telur ákvörðun stjórnar kæranda um að stofna til þessa kærumáls vera mikils háttar og óvenjulega og skorti stjórnina, samkvæmt reglum félagaréttar, umboð félagsmanna til að stofna til málsins og fylgja því eftir.

 

Kærðu hafi ekki brotið nein ákvæði lögmannalaga eða siðareglna lögmanna þótt Þ hafi setið í stjórn Æ lögmanna. Slíkt sé hvergi bannað, þótt kærandi telji sig geta lesið slíkt bann úr ákvæði 4. mgr. 19. gr. lögmannalaga og 38. gr. siðareglna lögmanna. Þá benda kærðu á að seta annarra en lögmanna í stjórnum félaga sem reka lögmannsstofur sé útbreidd og algeng. Það sama gildi að sínu leyti um eignarhald í félögum sem reki lögmannsstofur. Venja hafi skapast fyrir því í framkvæmd að aðrir en lögmenn eigi hluti í þeim. Færa kærðu fram fjölmörg dæmi um þetta.

 

Um eignarhaldið á Æ lögmönnum byggja kærðu hins vegar á því að það hafi verið í höndum B fram til 21. mars 2013, þegar félag þeirra F og G kom inn í eigandahópinn ásamt D. Kærðu E og F hafi svo tekið við eignarhlut þessa félags eftir að F og G höfðu flutt starfstöðvar sínar frá stofnunni í ágúst 2015. Vísa þeir um þetta í bréf bókara félagsins þar sem hún lýsir því yfir að það hafi verið mistök að Þ hafi verið skráður eigandi félagsins í ársreikningaskrá með ársreikningnum 2014, auk þess sem kærði D hafi lagt fram um skattskil sín þar sem hann upplýsti um eignarhaldið á félaginu. Loks er upplýst að eftir að kærði B flutti rekstur sinn í nýtt félag, Ð slf. í nóvember 2015 hafi allir eigendur Æ lögmanna flutt rekstur sinn í sérfélög og enginn rekstur sé eftir í félaginu Æ lögmenn ehf.

 

Kærðu benda á að ef einhver tekur að sér lögmannsstörf án þess að hafa lögmannsréttindi sé kveðið á um viðurlög í 29. gr. lögmannalaga. Viðurlögin séu fésekt og beinist að þeim sem hafi gerst sekur um háttsemina. Engin ákvæði séu um að aðrir verði beittir viðurlögum vegna þessa og kærandi byggi ekki á því að kærðu séu hlutdeildarmenn í slíku broti. Hafi kærðu ekki brotið neinar reglur lögmannalaga. Kærðu benda í þessu sambandi á að dæmi séu um að lögfræðingar starfi á lögmannsstofum án þess að hafa lögmannsréttindi og án þess að uppfylla skilyrði þess að fá lögmannsréttindi. Benda kærðu m.a. á dæmi þar sem lögmaður sem sviptur var réttindum tímabundið í eitt ár hélt áfram að starfa á viðkomandi lögmannsstofu og annað dæmi þar sem löglærður maður var við störf sem ráðgjafi á lögmannsstofu verjanda síns áður en hann hafði að fullu lokið afplánun. Hafi það ekki leitt til þess að kærandi hafi brugðist við með nokkrum hætti, jafnvel þegar umræddra starfsmanna sé sérstaklega getið á heimasíðum viðkomandi lögmannsstofa. Telja kærðu að jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að löglærðum einstaklingum væri aðeins heimilt að starfa á lögmannsstofum sem lögmenn eða fulltrúar, þá hljóti nefndin að fallast á í ljósi framkvæmdarinnar að um afsakanlega lögvillu sé að ræða í því máli sem hér um ræðir.

 

Kærðu telja að jafnvel þótt talið yrði að þeir hafi með einhverjum hætti brotið gegn siðareglum lögmanna, verði að líta svo á að þar sé um að ræða afsakanlega lögvillu eða mjög minni háttar brot, ekki síst í ljósi framkvæmdar um árabil, sem kærandi hafi látið átölulausa. Vísa kærðu m.a. til sjónarmiða um meðalhóf og jafnræði í þessu sambandi.

 

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

Í 43. gr. siðareglna lögmanna segir.

„Stjórn félagsins hefur eftirlit með því, að reglum þessum sé fylgt. Hún hefir um það samráð við dómstóla og stjórnardeildir eftir því sem ástæða er til.

 

Stjórn A skal leitast við að leysa úr deilum lögmanna innbyrðis.

 

Úrskurðarnefnd lögmanna sker úr ágreiningi um skilning á reglum þessum.

 

Lögmanni er skylt, að boði stjórnarinnar eða, eftir atvikum, úrskurðarnefndar lögmanna, að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á reglum þessum. Ber lögmanni í því efni að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum stjórnarinnar eða úrskurðarnefndarinnar."

 

Í 3. mgr. 3. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar, þar sem fjallað er um hlutverk hennar, er eitt af hlutverkunum tilgreint svo. að fjalla um erindi sem stjórn A sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

 

Úrskurðarnefnd telur ekkert hafa komið fram um að stjórn kæranda hafi ekki stöðuumboð til að koma fram fyrir hönd félagsins við málarekstur þennan eða að ákvörðun stjórnarinnar um að stofna til málsins teljist ómarktæk.

 

Frávísunarkrafa kærðu byggist annars einkum á því að stjórn kæranda hafi að eigin frumkvæði beint kæru til úrskurðarnefndarinnar en sé ekki til þess bær að stofna til málsins. Er vegna þessa nauðsynlegt að fara nokkuð yfir hvort og þá í hvaða mæli kærandi geti staðið að kvörtunum til nefndarinnar.

 

Kærandi hefur samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/1998 m.a. það hlutverk að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem varða stétt lögmanna. Eru samþykktir kæranda í samræmi við þetta og er tilgangur félagsins skilgreindur svo í 2. gr. þeirra að hann sé m.a. að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi.

 

Að ofan er rakinn áskilnaður 27. gr. lögmannalaga um að kærandi í máli byggi á því að kærði hafi gert á sinn hlut. Allsherjarnefnd Alþingis mótaði þetta lagaákvæði og orðalag þess með eftirfarandi röksemd: „Þá leggur nefndin til breytingu á 27. gr. varðandi það hver hefur aðild til að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefndina. Í frumvarpinu er aðeins gert ráð fyrir að umbjóðandi lögmanns hafi kvörtunarrétt, en eðlilegt þykir að víkka heimildina út, þannig að um greiða kæruleið verði að ræða. Því er lagt til að ef einhver telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum geti hann lagt kvörtun fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er þetta í samræmi við gildandi rétt."

 

Af ofangreindum ummælum allsherjarnefndar virðist ljóst að skilningur löggjafans var sá að rétt væri að víkka aðildina að kærum út fyrir þann hóp sem telur umbjóðendur lögmanna svo hún næði einnig til annarra þeirra sem misgert kynni að vera við með brotum.

 

Samkvæmt þessu og með hliðsjón af fyrrgreindu ákvæði 1. mgr. 43. gr. verður að játa stjórn A formlegan rétt til þess að bera fram kvörtun þegar hún telur að lögmaður hafi brotið gegn lögum eða siðareglum og að brotið hafi beinst gegn hagsmunum lögmanna almennt eða félagsins. Þykir því mega hafna kröfu kærðu um frávísun málsins á þessum grunni. Hins vegar felst ekki í þessu að kærandi geti knúið fram umfjöllun vegna kvartana sinna sem beinast að því að lögmaður hafi í störfum sínum brotið gegn ákveðnum aðila, sem fer þá með forræði á því sakarefni, þ.á.m. á ákvörðun um hvort þeir beini kæru til úrskuðarnefndar eða ekki. Beinist skoðun nefndarinnar á meintum brotum jafnan að því hvort kærði hafi gerst brotlegur við kæranda. Jafnvel þótt það kunni að þykja óheppilegt að lögmenn geti brotið siðareglur án nokkurra afleiðinga ef þeir sem hagsmuni eiga hverju sinni stofna ekki til kærumáls, fær það ekki haggað þessari niðurstöðu.

 

Telur úrskurðarnefndin að í fyrrgreindum reglum felist áskilnaður um að úrslit máls varði kæranda með þeim hætti að hann verði talinn hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Fyrrnefnt ákvæði í siðareglum lögmanna um að stjórn A hafi eftirlit með því, að reglunum sé fylgt fær ekki hnekkt því. Í því felst bæði að lögvarðir hagsmunir þurfa að vera fyrir hendi og að kærandi sé réttur eigandi þeirra. Til þess er einnig að líta að umræddir hagsmunir séu ekki of almennir. Þeir þurfa að einhverju marki að vera beinir og einstaklingslegir umfram það sem aðrir hafa að gæta. Að öðrum kosti ætti hver sök sem vill, (actio popularis).

 

Áskilnaður 2. mgr. 3. gr. lögmannalaga um að A skuli ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem sérstaklega er mælt fyrir um í lögum girðir ekki fyrir aðild kæranda, enda er í 1. mgr. 5. gr. laganna mælt fyrir um það hlutverk kæranda að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varða. Verður að líta á úrskurðarnefndina sem stjórnvald í þessu samhengi.

 

Matið á því hvers konar brot fela í sér brot gegn hagsmunum lögmanna almennt er ekki einfalt, en þar undir virðist þó mega fella þá hagsmuni að lögmannastéttin gegni því hlutverki og njóti þeirrar stöðu sem henni er ætluð í lögum og að ekki sé grafið undan henni með háttsemi sem fer í bága við góða lögmannshætti og ýmsar siðareglur, einkum í I., III og VI. kafla, en einnig ákvæði í öðrum köflum þar sem verndarhagsmunir eru almennir, t.d. 18. gr. og 2. mgr. 33. gr. 

 

Athugasemdir kærðu um að það sé ekki heppilegt að stjórnarmenn kæranda, sem séu í samkeppnisrekstri á sviði lögmannsþjónustu taki ákvarðanir um kærur, eða að óskynsamlegt sé af öðrum sökum að félagið taki sér stöðu kæranda gegn einstökum félagsmönnum fá ekki hnekkt þessu. Verður frávísunarkröfu kærðu því hafnað.

 

II.

Samkvæmt 4. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki ljá þeim nafn sitt eða lögmannsaðstoð, er stunda vilja lögmannsstörf, en hafa ekki til þess rétt að lögum. Þá má lögmaður á engan hátt stuðla að því, að þeir er ekki hafa lögmannsréttindi, fái unnið verk, sem skulu lögum eða venju samkvæmt aðeins unnin af lögmanni.

 

Í 3. mgr. 19. gr. lögmannalaga er lögmönnum heimilað að stofna félag um rekstur sinn í því formi sem þeir sjálfir kjósa, þar á meðal með takmarkaðri ábyrgð. Kemur í ákvæðinu fram að slík takmörkun breytir ekki því að lögmaður ber alltaf óskerta ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmaður hans bakar öðrum með störfum sínum. Í 4. mgr. ákvæðisins kemur fram að öðrum en lögmönnum er óheimilt að reka félag um skrifstofu lögmanns eða eiga hlut í því.

 

Í samræmi við þetta segir í 38. gr. siðareglna lögmanna að lögmaður beri persónulega ábyrgð á lögmannsstörfum sínum og fulltrúa sinna. Í 4. og 5. mgr. ákvæðisins er lögmönnum jafnframt gert skylt að tilkynna stjórn A hverjir séu eigendur félags um rekstur lögmannsstofu. Segir jafnframt að lögmaður skuli sérstaklega gæta þess, að óheimilt er að stunda lögmannsstörf nema á skrifstofu, sem rekin er af lögmanni, sbr. 19. gr. laga um lögmenn.

 

Þrátt fyrir bréfaskipti á milli aðila máls þessa og framlagningu á fjórða tug skjala er ýmislegt illa upplýst varðandi fyrirkomulag rekstrar á lögmannsstofunni Æ lögmönnum undanfarin misseri og þó sérstaklega um ástæður þess að opinberar upplýsingar um eignarhald einkahlutafélagsins hafa verið nokkuð reikular. Hvergi í gögnum málsins er að finna andmæli við því að félagið hafi verið í eigu Ö ehf. í árslok 2011 og að það félag hafi verið í eigu Þ. Engar skýringar hafa komið fram á því að lögmannsstofan var skráð að fullu í eigu kærða D í árslok 2012 og engin gögn um ráðstöfun á hlutafé Æ lögmanna ehf. úr þrotabúi Ö hafa komið fram, né gögn um síðari eigendaskipti á borð við kaupsamninga um hlutafé eða hlutabréf. Þrátt fyrir skriflega staðfestingu bókara félagsins um að það hafi verið fyrir mistök sem tilkynnt var að Þ væri eini eigandi félagsins í árslok 2014, hefur í engu verið skýrt hvernig þau mistök gátu orðið eða á hverju var byggt þegar ranglega var ályktað að eignarhaldið væri með þeim hætti.

 

Um eignarhaldið virðist að þessu athuguðu rétt að leggja til grundvallar að Þ hafi átt félagið Æ lögmenn í gegnum einkahlutafélag sitt, a.m.k. á árinu 2010 og 2011, en að miða við þær frásagnir kærðu að eftir það hafi kærði B eignast félagið að fullu. Félag þeirra F hdl. og G hdl. hafi komið inn í eigendahóp Æ lögmanna árið 2013, en ráðstafað sínum hlut í lögmannsstofunni til kærðu E og C árið 2015. Jafnframt að kærði D hafi verið orðinn einn eigenda félagsins í síðasta lagi árið 2013. Fær þetta stoð í gögnum málsins. Fjárhagsleg samstaða eigenda félagsins virðist þó lengst af hafa verið mjög takmörkuð síðustu árin og samstarf þeirra lögmanna sem störfuðu undir merkjum stofunnar takmarkað. Er ýmislegt til marks um að þeir sem stóðu að rekstri Æ lögmanna hafi ekki litið svo á að verulegir fjárhagslegir hagsmunir hafi verið fólgnir í eignarhlut þeirra. Um það hvort Þ hafi verið raunverulegur eigandi að hlut í Æ lögmönnum eftir árið 2011 nýtur við misvísandi upplýsinga sem kærðu báru þó, að mismiklu leyti, ábyrgð á að væru réttar. Það er á hinn bóginn alveg hafið yfir vafa og raunar óumdeilt að Þ sat í stjórn og varastjórn Æ lögmanna á ofangreindu tímabili, fór með framkvæmdastjórn og prókúruumboð.

 

Sú þátttaka Þ sem að ofan greinir í rekstri Æ lögmanna, var í andstöðu við 4. mgr. 19. gr. lögmannalaga. Heimild lögmanna til að stofna félög um rekstur sinn, sbr. 3. mgr. ákvæðisins nær ekki til þess að reka félög um lögmannsstofur með öðrum en lögmönnum. Telur nefndin haldlausa þá viðbáru kærðu að þeir hafi enga bannreglu lögmannalaganna brotið. Þótt þessum ákvæðum hafi ekki verið fylgt eftir af festu haggar það ekki við þessari staðreynd, þótt það geti haft áhrif á ákvörðun viðurlaga, en um sjónarmið varðandi viðurlög er nánar fjallað að neðan.

 

Deilt er um það hvort Þ hafi stundað lögmannsstörf á skrifstofu Æ lögmanna og í því samhengi hvað felist í hugtakinu lögmannsstörf, en einnig að hvaða marki kærðu verða beittir viðurlögum á þeim grundvelli að sú háttsemi hafi þá verið á þeirra ábyrgð. Nefndin telur í fyrsta lagi að hugtakið lögmannsstörf sé ekki afmarkað við þau störf sem lögmenn hafa einkarétt til að sinna. Ákvæði lögmannalaga, m.a. um lögmannsstörf og um störf lögmanna fela í sér lögfestingu á þeirri grundvallarskipan að í landinu starfi sjálfstæð lögmannastétt, sem hafi einkarétt til ákveðinna starfa, sérstaklega fyrir dómstólum, en sinni jafnframt m.a. ráðgjöf um lagaleg efni, umboðsmennsku og skyldum verkefnum. Með því að setja þessari starfsemi sérstakan lagaramma, sem felur m.a. í sér ströng hæfisskilyrði, ákveðið eftirlit lögmannafélagsins, skyldu til ábyrgðartryggingar o.fl., er leitast við að byggja upp ákveðið traust til lögmannastéttarinnar. Jafnvel þótt mörk þeirra starfa sem lögmenn sinna og annarra starfa séu um sumt óljós og víða séu dæmi um að t.d. endurskoðendur eða lögfræðingar sinni störfum á borð við ráðgjöf sem lögmenn hafa venjulega sinnt, fær það ekki haggað þessari skipan, enda virðist beinlínis gert ráð fyrir því í lögunum að það ráðist nokkuð af samhenginu hverju sinni hvaða störf teljist lögmannstörf. Sérstaklega er rétt að leggja áherslu á mismuninn á því annars vegar þó ýmis störf séu ekki aðeins unnin af lögmönnum og hins vegar því að slík störf séu unnin á lögmannsstofum af réttindalausum einstaklingum í trássi við ákvæði lögmannalaga og siðareglna lögmanna. Sá sem leitar eftir þjónustu á lögmannsstofu getur því jafnan treyst því að um störfin gildi sérstakar reglur og þau séu unnin af lögmönnum eða á ábyrgð lögmanna eftir þeim reglum sem settar hafa verið. Ákvæði 4. gr. siðareglna lögmanna sem bannar lögmönnum að ljá þeim nafn sitt eða lögmannsaðstoð, er stunda vilja lögmannsstörf, en hafa ekki til þess rétt að lögum, byggir á þessu grundvallarviðhorfi laganna. Það sama gildir um 2. mgr. ákvæðisins, þar sem segir að lögmaður megi á engan hátt stuðla að því, að þeir er ekki hafa lögmannsréttindi, fái unnið verk, sem skulu lögum eða venju samkvæmt aðeins unnin af lögmanni.

 

Þegar litið er til þess sem fram er komið um störf Þ á lögmannsstofunni Æ lögmönnum þarf að hafa í huga að hans eigin yfirlýsingar í tengslum við umsókn um endurveitingu réttinda verða vart lagðar einar og sér til grundvallar sem raunsannar lýsingar gegn andmælum kærðu. Hins vegar verður að líta á yfirlýsingar hans í því ljósi að lögmannstofa kærðu birti opinberlega á heimasíðu sinni þær upplýsingar að hann hefði óvirk málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi, sinnti allri almennri lögfræðiþjónustu til viðskiptavina og gat um sérsvið hans. Telur nefndin að ekki verði hjá því komist að draga þá ályktun af öllu þessu að í rekstri lögmannsstofunnar Æ lögmanna hafi verið brotið gegn fyrrnefndri 4. gr. siðareglna lögmanna á þeim tíma þegar kærðu báru ábyrgð á að starfsemin samræmdist lögmannalögum og reglum settum samkvæmt þeim.

 

III.

Andstæð sjónarmið vegast á þegar afstaða er tekin til alvarleika þeirra brota gegn lögum og siðareglum sem hér hefur verið fjallað um.

 

Eins og fyrr er rakið hefur ákvæðum 19. gr. lögmannalaga um þátttöku annarra en lögmanna í rekstri lögmannsstofa ekki verið fylgt stranglega í framkvæmd. Enda þótt kærandi hafi bent félagsmönnum sínum á nauðsyn þess að færa rekstur sinn til samræmis við þessi ákvæði, eftir að til máls þessa var stofnað, verður ekki litið fram hjá því að þegar umrædd brot gegn ákvæðunum áttu sér stað voru ýmis dæmi um að aðrir en lögmenn kæmu að rekstri lögmannsstofa að einhverju takmörkuðu leyti.

 

Á hinn bóginn verður heldur ekki litið fram hjá því að með því að horfa alveg einangrað á brot gegn einstökum ákvæðum og meta alvarleika hvers og eins þeirra, tapast heildarmyndin. Sú heildarmynd lýtur að því að lögum samkvæmt var lögmaður sviptur lögmannsréttindum í sakamáli þar sem hann var sakfelldur fyrir x. Þegar við lok afplánunar virðist hann þrátt fyrir það hafa komið sér upp einkahlutafélagi þar sem hann hefur síðan stundað lögmannsstörf án starfsréttinda og án þess að uppfylla lögmælt skilyrði. Enda þótt ekki sé í ljós leitt að kærðu í málinu hafi beinlínis ranglega skráð sig sem eigendur félagsins í þeim tilgangi að dylja eignarhald hans, þá hafa allir kærðu að meira eða minna leyti borið einhverja ábyrgð á skráningum og tilkynningum varðandi eignarhaldið sem orka tvímælis. Þá hafa þeir með þátttöku sinni í rekstri lögmannstofunnar, m.a. undir hans stjórn, allir ljáð því atbeina sinn að maður sem sviptur var lögmannsréttindum með þungum refsidómi héldi þrátt fyrir það áfram að reka lögmannsstofu og sinna þar lögmannsstörfum.

 

Kærði E hóf störf hjá Æ lögmönnum árið 2014 samkvæmt því sem upplýst var á heimasíðu stofunnar. Hann gerðist eigandi að stofunni árið 2015 og tók sæti í stjórn stofunnar sem stjórnarformaður árið 2015. Hann hefur nú flutt sig um set samkvæmt skráningu hans hjá lögmannafélaginu.

 

Kærði C hóf einnig störf hjá Æ lögmönnum árið 2014 samkvæmt því sem upplýst var á heimasíðu stofunnar og gerðist einnig eigandi að stofunni árið 2015. Hann varð meðstjórnandi í félaginu á sama aðalfundi og kærði E tók við stjórnarformennsku, í júní 2015. Hann hefur nú flutt sig um set samkvæmt skráningu hans hjá lögmannafélaginu. Virðast þeir C og E hafa haft samflot í þátttöku sinni í Æ lögmönnum.

 

Kærði D hóf störf hjá Æ lögmönnum árið 2013 samkvæmt því sem upplýst var á heimasíðu stofunnar. Óupplýst er af hverju hann var í ársreikningi stofunnar fyrir reikningsárið 2013 talinn einn eigandi stofunnar, en ekki er til að dreifa gögnum um að hann hafi sjálfur staðfest þær upplýsingar. Hins vegar liggur fyrir að hann var þá orðinn einn eigenda. Í bréfi kærða D til kærenda frá apríl 2016 kemur fram að hann hafi ekki haft afskipti af daglegum rekstri stofunnar, en honum hafi verið óhægt um vik að losna úr stjórn stofunnar eftir að þeir F og G sögðu sig úr stjórninni og hann sat einn eftir. Hann hafi enga aðkomu haft að störfum Þ. D færði starfsstöð sína frá Æ lögmönnum, en ekki liggur skýrlega fyrir hvenær.

 

Nefndin telur nægilegt að gera aðfinnslu við þátt hvers og eins þeirra sem að ofan eru nefndir. Fæst ekki betur séð en að þeir hafi allir haft takmörkuð raunveruleg áhrif á daglegan rekstur Æ lögmanna og þá ekki um mjög langa hríð.  

 

Kærði B hóf störf hjá Æ lögmönnum árið 2007 samkvæmt því sem upplýst var á heimasíðu stofunnar og var því starfandi þar á þeim tíma þegar Þ átti stofuna í gegnum einkahlutafélagið Ö. Hann sat í stjórn stofunnar til mars 2013 og tók þar aftur sæti þegar aðrir þátttakendur í rekstrinum voru að hverfa annað árið 2015. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð hans til nefndarinnar hefur kærði rekið lögmannsstofu sína í félaginu Ð frá nóvember 2015, en það athugast að samkvæmt skráningu hans hjá A er starfsstöð hans enn hjá Æ lögmönnum. Telur nefndin að þátttöku kærða B í rekstri Æ lögmanna og samstarfi við Þ um þann rekstur, verði ekki jafnað til takmarkaðra afskipta annarra kærðu í mun skemmri tíma. Verður kærði B að axla ábyrgð á því að hafa veitt manni sem sviptur var lögmannsréttindum fulltingi sitt í hvívetna til að halda áfram lögmannsstörfum. Í ljósi reglna um meðalhóf og þess sem fyrr hefur verið rakið um framkvæmdina á einstökum ákvæðum siðareglnanna verður þó látið við það sitja að hann sæti áminningu og gefst honum þannig kostur á að bæta ráð sitt til að komast hjá því að nefndin geri tillögu til sýslumanns um réttindasviptingu hans.

 

IV.

Að ofan er rakið ákvæði 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna, þar sem kveðið er á um skyldu lögmanns til að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á siðareglunum. Er þar skýlaust kveðið á um skyldu til að „svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum stjórnarinnar eða úrskurðarnefndarinnar." Eftir að kærðu höfðu svarað upphaflegu erindi A, var óskað frekari skýringa hjá þeim með bréfum, dags. 16. mars 2016. Jafnvel þótt kærðu teldu sjálfir að stjórnin gengi þá of langt í kröfum sínum um gögn og skýringar þegar hún óskaði eftir afritum skattframtala, gat það ekki leyst þá undan þessari skyldu sinni. Er þá einnig til þess að líta að í upphaflegum svörum kærðu kom fram að opinber skráning þeirra á ýmsu varðandi lögmannsstofuna Æ lögmenn væri alröng. Máttu kærðu búast við því að það kallaði á frekari útskýringar af þeirra hálfu, enda hlaut A að leitast við að upplýsa málið, sem var mjög alvarlegs eðlis. Þrátt fyrir ítrekun 5. apríl 2016, bárust þó engin svör frá kærðu B, C og E, en kærði D ritaði svarbréf, dags. 15. apríl 2016.

 

Með lögmannalögum og siðareglum lögmanna er leitast við að byggja upp ákveðið traust til lögmannastéttarinnar. Hluti af þeirri skipan snýr að sjálfstæði lögmannastéttarinnar og eftirliti með störfum þeirra. Er ákvæði 43. gr. siðareglnanna mikilvægur hluti þessa, enda yrði þessu eftirliti ekki við komið ef einstakir lögmenn gætu valið að upplýsa ekki um mál þegar vafi vaknar um hvort lögmann hafi farið gegn lögum eða siðareglum í störfum sínum.

 

Á grundvelli þessara sjónarmiða hefur verið við það miðað að óhjákvæmilegt sé að beita lögmenn áminningu ef þeir sinna ekki fyrirspurnum úrskurðarnefndarinnar. Telur nefndin að það sama gildi um fyrirspurnir sem A sendir lögmönnum vegna starfa þeirra. Sæta kærðu B, C og E því áminningu fyrir að svara ekki fyrirspurn stjórnar A um eignarhald, rekstur og starfsemi Æ lögmanna.

 

Rétt þykir að hver málsaðila beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærðu C hdl., D hdl. og E hdl. að stuðla með eignarhaldi sínu, störfum og þátttöku í stjórn Æ lögmanna að því að maður sem sviptur var lögmannsréttindum ræki lögmannsstofu og sinnti þar lögmannsstörfum, er aðfinnsluverð.

 

Kærði B sætir áminningu fyrir að stuðla að því að maður sem sviptur var lögmannsréttindum ræki lögmannsstofu og sinnti þar lögmannsstörfum.

 

Kærðu C hdl., E hdl. og B hdl. sæta áminningu fyrir að svara ekki fyrirspurnum stjórnar A um eignarhald, rekstur og starfsemi Æ lögmanna.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA