Mál 20 2017

Ár 2017, 29. desember 2017, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2017:

A,

gegn

B hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 2. maí 2017 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærði, B hrl., með starfsstöð að Y, 105 Reykjavík, hafi brotið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 16. maí 2017, sem kærandi fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um endurgjald samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Var sérstaklega tilgreint í bréfinu að nefndin fjallaði einungis um ágreining um störf lögmanna og áskilda þóknun þeirra og að ekki yrði fjallað um kröfur kæranda sem féllu utan við starfsvið nefndarinnar. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar.

Greinargerð kærða barst þann 9. júní 2017 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi dags. 12. sama mánaðar. Hinn 27. júní 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 29. sama mánaðar. Svar kærða barst þann 17. júlí 2017 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 18. sama mánaðar. Viðbótarathugasemdir bárust frá kæranda þann 22. júlí 2017 og voru þær sendar til kærða með bréfi dags. 24. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Kærandi er eigandi efstu hæðar í fjöleignarhúsinu að L í Reykjavík en eignin skiptist í þrjá séreignarhluta. Í maímánuði 2015 mun kærandi hafa leitað til S sf. vegna ryðstíflu í sameiginlegu niðurfallsröri tilgreindrar fasteignar. Tók félagið að sér að losa stífluna og fór sú vinna fram á tímabilinu frá 22. – 29. maí 2015. Var gefinn út reikningur vegna vinnunnar á húsfélagið að L þann 1. júní 2015 að fjárhæð 89.947 krónur með virðisaukaskatti. Kærandi mun hafa innt greiðslu af hendi til verktakans vegna síns séreignahluta með millifærslum dagana 1. og 8. júlí 2015 að heildarfjárhæð 35.062 krónur.

Þar sem krafa á grundvelli reikningsins hafði ekki verið greidd að öllu leyti af hálfu húsfélagsins beindi viðkomandi verktaki innheimtuviðvörun til húsfélagsins þann 9. júlí 2015. Í kjölfar þess mun verktakinn hafa leitað til C ehf. um innheimtu kröfunnar, þar sem kærði í máli þessu starfar, sem sendi kröfubréf til húsfélagsins þann 24. júlí 2015 vegna hins ógreidda reiknings.

Kærandi kveðst hafa greitt hluta miðhæðar í fjöleignarhúsinu að L vegna viðgerðarinnar þar sem eigandi þess eignahlutar hafi leitt hjá sér hinn útgefna reikning og innheimtutilraunir á grundvelli hans og engir fjármunir hafi verið til reiðu í sjóðum húsfélagsins fyrir viðgerðinni. Hefur kærandi um það efni vísað annars vegar til millifærslukvittunar, dags. 27. ágúst 2015, þar sem kærandi lagði 31.912 krónur inn á reikning fyrrgreinds innheimtuaðila, C ehf., og hins vegar til millifærslukvittunar, dags. 9. mars 2016, þar sem kærandi lagði 4.927 krónur inn á nánar tilgreindan reikning í eigu eiganda neðstu hæðar fjöleignarhússins vegna ofgreiðslu þess aðila, þ.e. samtals 36.839 krónur.

Í kjölfar þess leitaði kærandi til D ehf., sem mun vera samstarfsaðili C ehf. sem áður greinir frá, vegna þeirra fjármuna sem kærandi hafði greitt umfram skyldu og fyrir hönd annars séreignarhluta í fjöleignarhúsinu vegna hins útgefna reiknings frá 1. júní 2015. Þann 11. mars 2016 var þannig gerður samningur á milli kæranda, sem kröfuhafa, og D ehf. um lögfræðiinnheimtu allra vanskilakrafna kæranda. Í samningnum var meðal annars tiltekið að ef greiðandi myndi taka til varna, fyrir dómi eða á öðrum stigum innheimtunnar, hefði D ehf. samráð við kröfuhafa um frekari aðgerðir og að innheimtuaðili myndi halda skrá yfir þá tíma sem varið væri til rekstrar málsins og gera kröfuhafa reikning samkvæmt gjaldskrá. Þá var því lýst í samningnum að innheimtuaðili skyldi jafnan kostgæfa að ekki yrði gripið til innheimtuaðgerða nema þær væru líklegar til að skila árangri og að í vafatilvikum skyldi haft samráð við kröfuhafa. Lýsti kærandi því sérstaklega yfir með undirritun sinni á samninginn að hann hefði kynnt sér þá skilmála sem þar var lýst og sætti sig við þá að öllu leyti.

Eftir undirritun samningsins munu innheimtuaðgerðir hafa hafist á hendur eiganda miðhæðar í fjöleignarhúsinu að L, T ehf. Þar sem krafan fékkst ekki greidd var mál höfðað af hálfu húsfélagsins að L fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur T ehf. með stefnu birtri x. ágúst 2016. Var málið þar rekið sem héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/2016. Mun kærði hafa verið skráður fyrir málinu fyrir hönd húsfélagsins sem stefnanda í málinu. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, þ. á m. tímaskýrslum, mun E hrl. hins vegar hafa annast innheimtu kröfunnar og málareksturinn vegna kærða.

Í stefnu var þess krafist að stefnda yrði gert að greiða húsfélaginu 33.937 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Var því lýst að reikningur hefði verið gerður á húsfélagið vegna stífluviðgerðar og að stefndi hefði ekki greitt sinn hluta af reikningnum, eða 33.937 krónur. Þar sem stefndi hafi ekki greitt skuldina við verktakann hafi eigandi risíbúðarinnar, kærandi í máli þessu, greitt hans hluta fyrir hönd húsfélagsins. Um greiðsluskyldu stefnda í málinu var vísað til nánar tilgreindra ákvæða laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur x. nóvember 2016 í tilgreindu máli nr. E-xxxx/2016 var málinu vísað frá dómi. Var vísað til þess í forsendum úrskurðarins að málið hefði verið höfðað í nafni húsfélagsins á hendur eiganda einnar af þremur íbúðum í húsinu. Ekki hefði verið lagt fram umboð til lögmanns húsfélagsins, sem stefnanda í málinu, til höfðunar málsins. Þá hefði verið lögð fram fundargerð húsfundar þar sem samþykkt hefði verið að hætta málarekstrinum. Þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að samþykkt hefði verið á húsfundi að höfða málið í nafni húsfélagsins var því vísað frá dómi. Var málskostnaður felldur niður á milli aðila.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru fjórir reikningar gefnir út af lögmannsstofu kærða vegna lögmannsstarfa við innheimtu ofangreindrar fjárkröfu.

Í fyrsta lagi var gefinn út reikningur nr. xxxx-xxxxx á húsfélagið að L þann 31. ágúst 2016 að fjárhæð 264.089 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu, sem mun hafa fylgt með reikningnum og liggur fyrir úrskurðarnefndinni, var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa E hrl. á tímabilinu 19. - 24. ágúst 2016, alls 9,25 klukkustundir, í tengslum við innheimtu fjárkröfunnar, þ. á m. vegna stefnugerðar. Eins og að ofan greinir var reikningurinn gerður á húsfélagið en beint til kæranda sem viðtakanda. Mun kærandi hafa greitt reikninginn sjálfur með greiðslum að fjárhæð 100.000 krónur þann 29. júní 2016 og 164.089 krónur þann 12. september 2016.

Í öðru lagi var gefinn út reikningur nr. xxxx-xxxx á viðkomandi húsfélag þann 30. september 2016 að fjárhæð 79.112 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa áðurgreinds lögmanns á tímabilinu 9. – 19. september 2016, alls 2,75 klukkustundir, vegna þeirra innheimtustarfa sem lögmannsstofa kærða sinnti og áður er lýst. Mun kærandi á sama hátt og áður hafa greitt reikninginn, sem gefinn var út á viðkomandi húsfélag, að öllu leyti þann 19. október 2016.

Í þriðja lagi var gefinn út reikningur nr. xxxx-xxxxx á húsfélagið þann 31. október 2016 að fjárhæð 50.344 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa áðurgreinds lögmanns þann 14. október 2016, alls 1,75 klukkustundir, vegna innheimtu áður lýstrar kröfu. Á sama hátt og áður er lýst greiddi kærandi sjálfur reikninginn að öllu leyti þann 16. nóvember 2016.

Í fjórða og síðasta lagi var gefinn út reikningur nr. xxxx-xxxxx á viðkomandi húsfélag þann 30. nóvember 2016 að fjárhæð 179.025 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannstarfa á tímabilinu 1. – 28. nóvember 2016, alls 6,25 klukkustundir, við innheimtustörf, þ. á m. við undirbúning og munnlegan málflutning um frávísunarkröfu í héraðsdómsmálinu nr.  E-xxxx/2016 sem áður er lýst. Í málatilbúnaði kærða er því lýst að gerður hafi verið kreditreikningur vegna tilgreinds reiknings þar sem fyrirséð hafi verið að húsfélagið myndi ekki greiða hann miðað við niðurstöðu dómsmálsins. Er tilgreindur kreditreikningur, útgefinn 31. janúar 2017, á meðal gagna málsins fyrir nefndinni. Vísar kærði til þess að samkvæmt því hafi kærandi hvorki verið krafinn um greiðslu fjórða reikningsins né um útlagðan kostnað af þingfestingu og stefnubirtingu í héraðsdómsmálinu.

Í samræmi við framangreint mun kærandi sjálfur hafa greitt samtals 393.545 krónur til lögmannsstofu kærða vegna innheimtustarfa, þ.e. vegna þeirra reikninga sem gefnir voru út á húsfélagið að L.

Í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá x. nóvember 2016 og til x. mars 2017 átti kærandi í tölvubréfasamskiptum við starfsmenn á lögmannsstofu kærða vegna innheimtumálsins og var þeim að hluta til beint til kærða. Kom fram í samskiptunum af hálfu kæranda að málinu hefði verið vísað frá dómi þar sem innheimtan hefði farið fram í nafni húsfélagsins en ekki kæranda sjálfs eins og samningur hefði kveðið á um. Lýsti kærandi yfir óánægju sinni með stöðu málsins og greiðslu kostnaðar vegna þess auk þess sem óskað var eftir að innheimta yrði hafin að nýju í nafni kæranda sjálfs sem kröfuhafa. Þegar ljóst var að D ehf. myndi ekki koma að frekari innheimtustörfum vegna kröfunnar fór kærandi fram á endurgreiðslu þess kostnaðar sem hann hefði innt af hendi vegna málsins. Tilgreind samskipti leiddu ekki til efnislegrar niðurstöðu á milli aðila um þetta efni. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærði eða lögmannsstofa hans hafi sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kæranda eftir þennan tíma.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé krafist að útgefnir reikningar lögmannsstofu kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda og/eða húsfélagsins að L í Reykjavík verði felldir niður þannig að greiðslur sem inntar hafa verið af hendi af hálfu kæranda, að heildarfjárhæð 393.545 krónur, verði endurgreiddar með vöxtum, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í málatilbúnaði kæranda var þess jafnframt krafist að lögmannsstofu kærða yrði gert að greiða útlagðan kostnað kæranda vegna stífluþjónustu í þágu íbúðar á miðhæð í fasteigninni að L að fjárhæð 36.839 krónur auk gjalds til Lögmannafélags Íslands að fjárhæð 12.500 krónur. Með bréfi úrskurðarnefndar til málsaðila, dags. 16. maí 2017, var því lýst vegna tilgreindra krafna kæranda að nefndin fjallaði einungis um ágreining um störf lögmanna og áskilda þóknun þeirra. Samkvæmt því yrði ekki fjallað um kröfur kæranda sem féllu utan við starfsvið nefndarinnar, þ. á m. kröfu vegna stífluþjónustu. Með vísan til tilgreinds bréfs og starfsviðs nefndarinnar verður ekki tekin efnisleg afstaða til ofangreindra krafna kæranda um útlagðan kostnað aðilans í máli þessu.

Í kvörtun kæranda er vísað til þess að kærandi hafi gert samning við D ehf., sem kærði sé í fyrirsvari fyrir, þann 11. mars 2016. Hafi félagið tekið að sér innheimtumál fyrir kæranda vegna ógreiddrar skuldar eiganda íbúðar á miðhæð í fasteigninni að L í Reykjavík vegna ryðstíflu í sameiginlegu niðurfallsröri fasteignarinnar. Hafi S sf. losað tilgreinda ryðstíflu en eigandi miðhæðarinnar ekki sinnt greiðsluskyldu sinni samkvæmt útgefnum reikningi vegna viðgerðarinnar. Kveðst kærandi, sem eigandi þakhæðar hússins, hafa greitt hlut miðhæðarinnar í viðgerðinni úr eigin vasa þar sem engir fjármunir hafi verið til í sjóðum húsfélagsins.

Vísar kærandi til þess að D ehf. hafi ekki innheimt fyrir kæranda persónulega í samræmi við efni samningsins frá 11. mars 2016. Þvert á móti hafi innheimtuaðilinn talið rétt að stefna fyrir húsfélagið, sem kærandi hafi ekki gert athugasemdir við á grundvelli þekkingar innheimtuaðilans um þetta efni. Mun kærandi hafa verið gjaldkeri húsfélagsins þegar innheimtukröfum var fyrst beint til eiganda miðhæðarinnar vegna ryðstíflunnar. Bendir kærandi á að innheimtuaðilinn hafi aldrei lagt fram fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur fundargögn kæranda vegna ryðstíflumálsins af löglegum húsfundi um það efni, þrátt fyrir að hafa haft þau gögn undir höndum.

Kærandi bendir á að eigandi miðhæðarinnar og lögmaður aðilans hafi farið fram með ótal rangfærslur og stórfelldar lygar í málatilbúnaði sínum fyrir dómstólum sem og gagnvart D ehf. Þá hafi viðkomandi gagnaðili lagt fram fölsuð skjöl í því dómsmáli sem rekið hafi verið. Vísar kærandi til þess að hann hafi upplýst innheimtuaðila um fals og lygar gagnaðilans, bæði í símtölum og tölvubréfum. Hafi þær ábendingar kæranda ekki ratað inn í það dómsmál sem rekið hafi verið vegna innheimtu kröfunnar enda hafi verið tekið tillit til hinna meintu fölsuðu gagna í forsendum úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur x. nóvember 2016 í tilgreindu máli nr. E-xxxx/2016 þar sem innheimtumáli húsfélagsins var vísað frá dómi.

Er vísað til þess í málatilbúnaði kæranda að eftir uppkvaðningu úrskurðarins þann x. nóvember 2016 hafi verið rætt að þrír kostir væru í stöðunni, þ.e. í fyrsta lagi að stefna á nýjan leik fyrir hönd húsfélagsins, í öðru lagi að hefja innheimtu fyrir kæranda persónulega og í þriðja lagi að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Hafi verið ákveðið að hefja innheimtu fyrir kæranda persónulega og höfða mál í því horfi fyrir héraðsdómi enda hafi innheimtuaðilinn ráðlagt að kæra ekki úrskurðinn til Hæstaréttar. Byggir kærandi á að það hafi verið samkomulag á milli aðilans og lögmannsstofu kærða að fara aftur fyrir dóm í samræmi við framangreint enda hafi það aldrei verið vilji kæranda að hætta við málið með stórfelldu fjárhagslegu tapi.

Kærandi kveðst hafa óskað eftir því við viðskiptastjóra hjá D ehf. í byrjun desembermánaðar 2016 að kostnaður vegna fyrri málareksturs yrði endurgreiddur. Byggði sú krafa í fyrsta lagi á því að mistök hefðu átt sér stað við innheimtu kröfunnar þar sem stefnandi málsins hafi verið rangur. Þannig hefði D ehf. ekki innheimt í samræmi við samning aðila frá 11. mars 2016 auk þess sem tekið hafi verið fram í forsendum áðurgreinds úrskurðar að umboð hefði vantað. Í öðru lagi hafi fölsuð fundargerð haft áhrif á niðurstöðu málsins samkvæmt forsendum úrskurðarins. Í þriðja lagi hafi viðskiptastjóri hjá D ehf. fallist á að kostnaðurinn yrði endurgreiddur. Þá hafi það í fjórða lagi verið einhliða ákvörðun D ehf. að hætta við málið, þvert gegn vilja kæranda.

Auk framangreinds bendir kærandi á í málatilbúnaði sínum að stefnufjárhæð innheimtumálsins hafi verið of lág að teknu tilliti til þess kostnaðar sem kærandi hafi greitt fyrir íbúð á miðhæð fasteignarinnar að L í Reykjavík vegna ryðstífluviðgerðarinnar.

Kærandi vísar til þess að hann hafi greitt samtals 393.545 krónur til D ehf. vegna innheimtumálsins, þ.e. með greiðslum að fjárhæð 100.000 krónur þann 29. júní 2016, 164.089 krónur þann 12. september 2016, 79.112 krónur þann 19. október 2016 og 50.334 krónur þann 16. nóvember 2016. Kveðst kærandi hafa verið svikin af innheimtuaðilanum þar sem ekki hafi verið hafin innheimta á nýjan leik fyrir hann persónulega í kjölfar úrskurðarins frá x. nóvember 2016. Þá hafi kærandi af þeim sökum tapað lögveði í fasteigninni auk þess að hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni, þ.e. annars vegar vegna útlagðs kostnaðar vegna ryðstífluviðgerðarinnar og hins vegar vegna kostnaðar af innheimtumálinu sem hafi endað með frávísunarúrskurði.

Með vísan til þessa krefst kærandi þess fyrir nefndinni að útgefnir reikningar lögmannsstofu kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda og/eða húsfélagsins að L í Reykjavík verði felldir niður þannig að greiðslur sem inntar hafa verið af hendi af hálfu kæranda, að heildarfjárhæð kr. 393.545 krónur, verði endurgreiddar með vöxtum.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða var því í fyrsta lagi mótmælt að D ehf. hefði verið falið að innheimta skuld vegna viðgerðar á röri í íbúð kæranda. Um það efni var á það bent að um hefði verið að ræða ryðstíflu í sameiginlegu niðurfallsröri fjöleignarhússins. Í öðru lagi var því mótmælt að kærandi hefði komið fram sem fyrirsvarsmaður fyrir húsfélagið. Vísar kærandi til þess að um rangfærslu og/eða mistúlkun sé að ræða af hálfu kærða þar sem einungis hafi komið fram að kærandi væri prókúruhafi og hefði séð um innheimtu vegna ryðstífluviðgerðarinnar. Hafi Lögheimtan ehf. átt að vinna fyrir og innheimta fyrir kæranda persónulega samkvæmt samningi aðila en ekki fyrir húsfélagið. Þá mótmælti kærandi því í þriðja lagi að fullt samráð hefði verið haft um það hvernig málatilbúnaðinum yrði háttað fyrir dómi. Vísar kærandi til þess að viðkomandi lögmaður sem hafði farið með málið hafi stefnt málinu með þessum hætti og tilkynnt kæranda um það, án nokkurs samráðs. Hafi kærandi treyst D ehf. fyrir réttum lagalegum formsatriðum í málinu, þ. á m. um að vita hver stefnandinn ætti að vera.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða þannig að þess sé krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að D ehf. hafi verið falið að innheimta skuld vegna viðgerðar á röri í íbúð kæranda í fjöleignarhúsi við L en kærandi hafi lagt út fyrir þeirri viðgerð. Hafi kærandi sagst vera í fyrirsvari fyrir húsfélagið í fasteigninni. Hafi krafan verið gerð í nafni húsfélagsins á þann meðeiganda kæranda sem ekki hefði viljað taka þátt í kostnaði af viðgerðinni. Í stefnu málsins hafi verið krafist lögveðs fyrir kröfunni og kostnaði af innheimtunni í íbúð viðkomandi meðeiganda. Vísar kærði til þess að fullt samráð hafi verið haft við kæranda um að málatilbúnaðinum yrði hagað með þessum hætti.

Kærði kveður jafnframt að kæranda hafi strax í upphafi verið gerð grein fyrir því að kostnaður vegna innheimtunnar væri margfaldur höfuðstóll kröfunnar, 33.937 krónur, þar sem fyrirfram hefði verið ljóst að ágreiningur yrði um greiðsluskylduna og grundvöll kröfunnar. Undir rekstri málsins hefðu verið lögð fram gögn, sem dómari hefði metið gild, um að meðeigandi kæranda, en ekki kærandi, væri í forsvari fyrir húsfélagið. Þau gögn hefðu borið með sér að ekki væri vilji til að halda málinu til streitu og hefði dómari því vísað málinu frá.

Er vísað til þess í málatilbúnaði kærða að fjórir reikningar hafi verið gerðir á húsfélagið vegna vinnu við málið. Vegna fjórða reikningsins hafi verið gerður kreditreikningur þar sem fyrirséð hafi verið að húsfélagið myndi ekki greiða þann reikning miðað við niðurstöðu málsins. Bendir kærði á að kærandi hafi ekki verið krafinn um fjárhæð fjórða reikningsins, ekki fremur en kostnað af þingfestingu og stefnubirtingu, enda þótt kærandi hafi falið L ehf. innheimtuna og ábyrgst kostnað.

Byggir kærði á að áskilin þóknun hafi í alla staði verið eðlileg og sanngjörn. Er á það bent að niðurstaða héraðsdóms hafi ekki verið kærð til Hæstaréttar enda hafi stefnufjárhæðin ekki náð tilskilinni fjárhæð auk þess sem ekki hafi verið talið líklegt að kæruleyfi fengist eða að Hæstiréttur myndi yfir höfuð komast að annarri niðurstöðu. Þá hafi hvorki kærði né aðrir lögmenn D ehf. séð sér fært að höfða nýtt mál fyrir kæranda í eigin nafni auk þess sem ekkert samkomulag hafi verið um slíkt efni á milli aðila.

Bendir kærði sérstaklega á að reikningarnir hafi verið gerðir á húsfélagið að L en ekki á kæranda. Hafi það verið gert í fullu samráði við kæranda.

Með vísan til alls framangreinds krefst kærði þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Fyrir liggur að kærandi leitaði til D ehf. í marsmánuði 2016 um innheimtu fjármuna sem kærandi taldi sig hafa greitt umfram skyldu og fyrir hönd annars séreignarhluta í fjöleignarhúsinu að L í Reykjavík, samtals að fjárhæð 36.839 krónur, vegna útgefins reiknings nánar tilgreinds verktaka frá 1. júní 2015 á grundvelli viðgerðar á sameiginlegu niðurfallsröri í fjöleignarhúsinu. Gerðu kærandi, sem kröfuhafi, og D ehf. af því tilefni með sér samning þann 11. mars 2016 um lögfræðiinnheimtu allra vanskilakrafna kæranda. Var meðal annars tiltekið í samningnum að ef greiðandi myndi taka til varna, fyrir dómi eða á öðrum stigum innheimtunnar, hefði D ehf. samráð við kröfuhafa um frekari aðgerðir og að innheimtuaðili myndi halda skrá yfir þá tíma sem varið væri til rekstrar málsins og gera kröfuhafa reikning samkvæmt gjaldskrá. Þá var því lýst í samningnum að innheimtuaðili skyldi jafnan kostgæfa að ekki yrði gripið til innheimtuaðgerða nema þær væru líklegar til að skila árangri og að í vafatilvikum skyldi haft samráð við kröfuhafa. Lýsti kærandi því sérstaklega yfir með undirritun sinni á samninginn að hann hefði kynnt sér þá skilmála sem þar var lýst og sætti sig við þá að öllu leyti.

Þá liggur fyrir að innheimtuaðgerðir hófust í kjölfar þessa á hendur eiganda miðhæðar í fasteigninni að L, T ehf., vegna kröfunnar. Þar sem krafan fékkst ekki greidd var innheimtumál höfðað í nafni húsfélags tilgreinds fjöleignarhúss fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/2016. Ágreiningslaust er að kærði var skráður fyrir málinu fyrir hönd húsfélagsins, sem stefnanda, og að annar lögmaður hafi annast innheimtu kröfuna og málareksturinn fyrir héraðsdómi vegna kærða. Þá er ágreiningslaust að málinu var vísað frá dómi, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem var uppkveðinn x. nóvember 2016, á þeim grundvelli að ekki hefði verið sýnt fram á að samþykkt hefði verið á húsfundi að höfða málið í nafni húsfélagsins.

Eins og áður er lýst voru fjórir reikningar gefnir út af lögmannsstofu kærða vegna lögmannsstarfa við innheimtu ofangreindrar fjárkröfu en þeir voru í öllum tilvikum gefnir út á húsfélagið að L, en beint til kæranda sem viðtakanda. Var þar um að ræða reikninga útgefna 31. ágúst 2016 að fjárhæð 264.089 krónur, 30. september 2016 að fjárhæð 79.112 krónur, 31. október 2016 að fjárhæð 50.344 krónur og 30. nóvember 2016 að fjárhæð 179.025 krónur. Ágreiningslaust er að kærandi greiddi fyrstu þrjá reikningana sem að ofan greinir sjálfur og úr eigin vasa, samtals að fjárhæð 393.545 krónur með virðisaukaskatti. Þá liggur fyrir að D ehf. gerði kreditreikning vegna fjórða reikningsins, þ.e. þess reiknings sem hafði verið útgefinn þann 30. nóvember 2016, þar sem fyrirséð hafi verið að húsfélagið myndi ekki greiða hann miðað við niðurstöðu tilgreinds héraðsdómsmáls. Samkvæmt því var kærandi hvorki krafinn um greiðslu fjórða reikningsins né um útlagðan kostnað af þingfestingu og stefnubirtingu í héraðsdómsmálinu.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að kostnaður við rekstur þess innheimtumáls sem hér um ræðir var mjög hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi voru, sbr. 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna sem áður er lýst. Þannig var stefnufjárhæð málsins að höfuðstólsfjárhæð 33.937 krónur en útgefnir reikningar vegna lögmannsstarfa við innheimtuna að fjárhæð 572.570 krónur með virðisaukaskatti.

Varðandi málatilbúnað kæranda um að mistök hafi átt sér stað við innheimtu kröfunnar þar sem rétt hefði verið að höfða málið í nafni kæranda sjálfs en ekki húsfélagsins að L er þess að gæta að samningur aðila frá 11. mars 2016 var gerður á milli D ehf. og kæranda sjálfs og var efni hans samkvæmt því bundið við lögfræðiinnheimtu vegna allra vanskilakrafna kæranda en ekki viðkomandi húsfélags.

Kærði hefur borið því við í málinu að kærandi hafi komið fram fyrir hönd viðkomandi húsfélags gagnvart D ehf. sem hafi samkvæmt því annast innheimtu kröfunnar fyrir þess hönd. Kærandi hefur hins vegar andmælt þeirri staðhæfingu með vísan til þess að um rangfærslu og/eða mistúlkun sé að ræða af hálfu kærða þar sem einungis hafi komið fram að kærandi hefði séð um innheimtu vegna ryðstífluviðgerðarinnar. Samkvæmt því hafi D ehf. borið að vinna fyrir og innheimta fyrir kæranda persónulega samkvæmt samningi aðila en ekki fyrir húsfélagið.

Þar sem ágreiningur er um þetta atriði eru ekki efni til annars að mati nefndarinnar en að líta til samnings aðila um lögfræðiinnheimtu, dags. 11. mars 2016. Samkvæmt skýru efni samningsins var hann gerður á milli kæranda sjálfs, sem kröfuhafa, og D ehf. Þannig var hvorki tekið fram í samningnum að kærandi væri í fyrirsvari fyrir húsfélagið að L í Reykjavík né að fyrirhuguð innheimta lyti að innheimtu vanskilakrafna fyrir hönd þess aðila. Með vísan til skýrs orðalags samningsins, sem og með hliðsjón af forsendum í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá x. nóvember 2016 í málinu nr. E-xxxx/2016 þar sem tiltekið var að ekki hefði verið lagt fram umboð til lögmanns húsfélagsins til höfðunar málsins og að húsfélagið hefði samþykkt á húsfundi að hætta málrekstrinum, verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærða og/eða D ehf. hafi skort umboð til málshöfðunarinnar í nafni viðkomandi húsfélags. Þá hafi kærða og/eða D ehf. í öllu falli borið að afla sér gilds umboðs frá húsfélaginu áður en til málshöfðunar kom en að öðrum kosti að höfða málið fyrir hönd kæranda sjálfs í samræmi við efni samnings aðila um lögfræðiinnheimtu vanskilakrafna. Verður kærði að bera hallann af því að hafa látið það ógert að mati nefndarinnar.

Um þetta efni er þess jafnframt að gæta að kærandi leitaði persónulega til kærða og D ehf. á grundvelli sérfræðiþekkingar hinna síðarnefndu á innheimtu vanskilakrafna. Samkvæmt því mátti kærandi treysta að réttilega yrði staðið að málarekstrinum af hálfu D ehf. hvað varðaði aðild að málinu, kröfugerð og önnur réttarfarsatriði. Með vísan til þess verður hvorki á það fallist að kærandi hafi glatað rétti til að hafa uppi mótbárur gagnvart kærða og/eða D ehf. á grundvelli þess að kæranda hafi verið kunnugt um aðild að dómsmálinu til sóknar undir rekstri þess né með vísan til þess að aðilinn hafi ekki hreyft athugasemdum gagnvart kærða, og/eða þeim lögmanni sem annaðist rekstur málsins, hvernig aðild að málinu væri háttað fyrr en eftir uppkvaðningu úrskurðar þann x. nóvember 2016.

Á grundvelli þess sem hér hefur verið lýst og að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu verður að leggja til grundvallar að kærandi hafi leitað sjálfur og persónulega sem kröfuhafi til D ehf. um innheimtu vanskilakrafna. Þá verður að leggja til grundvallar að D ehf. hafi höfðað mál í nafni þriðja aðila, þ.e. húsfélagsins að L, til innheimtu þeirrar kröfu sem kærandi hafði leitað til D ehf. með. Hafi sú málshöfðun bæði verið án umboðs og í trássi við samning aðila um lögfræðiinnheimtu frá 11. mars 2016. Þá bar D ehf. samkvæmt samningnum að kostgæfa að ekki yrði gripið til innheimtuaðgerða nema þær væru líklegar til að skila árangri og hafa samráð við kröfuhafa í vafatilvikum af þessum toga. Með vísan til þess bar kærða og/eða D ehf. að ganga úr skugga um að fyrirliggjandi væri umboð frá húsfélaginu áður en málið var höfðað.

Ágreiningslaust er að kærandi greiddi þrjá reikninga sem gefnir voru út af lögmannsstofu kærða, samtals að fjárhæð 393.545 krónur með virðisaukaskatti, vegna lögmannsstarfa við innheimtu fjárkröfunnar en þeir voru í öllum tilvikum gefnir út á húsfélagið að L en beint til kæranda sem viðtakanda. Þá liggur fyrir að gefinn var út kreditreikningur vegna fjórða reiknings þar sem fyrirséð var að húsfélagið myndi ekki greiða hann miðað við niðurstöðu þess héraðsdómsmáls sem rekið var.

Með vísan til alls framangreinds, sbr. einkum þess að ekkert samningssamband var á milli kærða og/eða D ehf. og húsfélagsins að L og að innheimta fjárkröfunnar var ekki í samræmi við efni samnings aðila um innheimtu vanskilakrafna kæranda, verður kærði úrskurðaður til að greiða kæranda umkrafða fjárhæð í málinu, 393.545 krónur, en ekki eru efni til að fallast á vaxtakröfu kæranda eins og hún hefur verið sett fram af hálfu aðilans fyrir nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B hrl., endurgreiði kæranda, A, 393.545 krónur.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson