Mál 45 2023

Mál 45/2023

Ár 2023, þriðjudaginn 13. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2023:

A og B

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 11. október 2023 kvörtun sóknaraðila, A, og B, gegn C lögmanni vegna háttsemi varnaraðila sem lögmanns gagnaðila sóknaraðila í lögreglumáli […].

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dag. 8. nóvember 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 9. nóvember 2023. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 27. nóvember 2023. Varnaraðila var gefinn kostur á að senda viðbótargreinargerð en með tölvubréfi 28. nóvember 2023 upplýsti varnaraðili að hún teldi ekki tilefni til frekari athugasemda og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Eftir það bárust tvö erindi frá sóknaraðilum, 28. og 29. nóvember 2023, sem fjölluðu um hæfi nefndarmanna.

Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns til meðferðar málsins og kom varamaður í hans stað.

Málsatvik og málsástæður

I.

Kvörtun lýtur að háttsemi varnaraðila sem lögmanns kærenda í lögreglumáli […]. Umbjóðendur varnaraðila eru foreldrar fjögurra ólögráða barna sem varnaraðilar telja líffræðileg börn sín. Sóknaraðilar voru kærð fyrir umsáturseinelti sem umbjóðendur varnaraðila töldu sig hafa sætt af hálfu sóknaraðila. Auk þess fóru kærendur fram á nálgunarbann sóknaraðila gagnvart sér.

Sóknaraðilar telja að varnaraðili hafi, í tengslum við og við framlagningu kæru f.h. umbjóðenda sinna hjá embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þann 13. júní 2023 brotið gegn ákvæðum 1., 3., 6., 8., 34. og 35. siðareglna lögmanna, ákvæðum XV. og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ákvæðum 1., 6. og 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 og ákvæðum 1., 3., og 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Kvörtun byggir á 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðili verði beitt viðurlögum og nafn varnaraðila verði tilgreint við birtingu úrskurðar.

Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum XV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um rangan framburð og rangar sakargiftir. Sóknaraðilar halda því fram að í kæru varnaraðila til lögreglu f.h. umbjóðenda sinna dags. 13. júní 2023 sé ranglega farið með atvik sem ágreiningslaust sé að hafi átt sér stað auk þess sem í henni séu staðreyndavillur og uppspuni sem sóknaraðilar telja að varnaraðili hafi spunnið upp í því skyni að styðja við ótrúverðugan og órökstuddan málatilbúnað umbjóðenda sinna. Í kvörtun lýsa sóknaraðilar einstökum atriðum í málsatvikalýsingu varnaraðila í kæru til lögreglu sem þau telja röng, órökstudd og ósönnuð auk þess sem varnaraðili geri engar tilraunir til þess að renna stoðum undir þær staðhæfingar um málsatvik sem sett séu fram í kærunni. Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa skáldað málsatvik í samráði við umbjóðendur sína og að kæra og kærumálsgögn beri þess skýrt merki. Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa útbúið skjal undir því yfirskyni og með þeirri yfirskrift að um raunverulega lýsingu á atburðum sé að ræða, þegar skjalið innihaldi í raun uppspuna og rangar lýsingar á málsatvikum, og lagt það fram sem sönnunargagn hjá lögreglu. Þannig hafi varnaraðili afbakað staðreyndir og falsað sönnunargögn með það að markmiði að byggja undir ótrúverðugan málatilbúnað umbjóðenda sinna og knýja á um að lögregla fallist á nálgunarbann, sem sé afar íþyngjandi og hafi verulega þungbær áhrif fyrir sóknaraðila. Það hafi enda gengið eftir en lögregla féllst á kröfu umbjóðenda varnaraðila um nálgunarbann þann 23. júní 2023. Telja sóknaraðilar að málatilbúnaður og vinnubrögð varnaraðila hafi vegið þungt í þeirri ákvörðun lögreglu.

Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 1. gr. siðareglna lögmanna í veigamiklum atriðum með háttsemi sinni gagnvart þeim. Einnig feli háttsemi varnaraðila í sér brot gegn 3. gr. siðareglna lögmanna.

Brot varnaraðila gegn 3. og 8. gr. siðareglna lögmanna telja sóknaraðilar felast í því að hún hafi bersýnilega blandað hagsmunum aðila sér tengdum saman við hagsmuni umbjóðenda sinna í máli gegn sóknaraðilum. Nánar tiltekið hafi dóttir fyrrum alnöfnu annars sóknaraðila orðið fyrir læknamistökum af hálfu eiginmanns móðursystur varnaraðila auk þess sem sonur eiginmanns móðursystur varnaraðila hafi valdið skemmdum á skrifstofuhúsnæði sóknaraðila fyrir nokkrum árum.

Brot varnaraðila gegn 6. gr. siðareglna lögmanna telja sóknaraðilar felast í því að ekki sé loku fyrir það skotið að varnaraðila hafi borist upplýsingar með einhverjum hætti úr stjórnsýslunni þess efnis að annar sóknaraðila sé handhafi skotvopnaleyfis. Það að varnaraðili hafi notað sér þær upplýsingar með þeim hætti sem gert var í kæru til lögreglu 13. júní 2023 er að mati sóknaraðila ámælisvert og felur í sér brot á ákvæðum siðareglna lögmanna og almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Sóknaraðilar telja framgöngu og háttalag varnaraðila í þeirra garð ennfremur fela í sér brot á 34. gr. siðareglna lögmanna. Þá telja sóknaraðilar að framganga varnaraðila feli í sér ótilhlýðilega þvingun í skilningi 35. gr. siðareglna lögmanna, einkum umfjöllun varnaraðila um skotvopnaleyfi og hugsanlega skotvopnaeign annars sóknaraðila í kæru til lögreglu. Þá telja sóknaraðilar að yfirlýsing sem varnaraðili lagði fram hjá embætti Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu og óskaði eftir að sóknaraðilar undirrituðu þess efnis að þeir myndu „halda sig frá kærendum og láta vera að setja sig í samband við þau með öðrum hætti“, og þá myndi varnaraðili ekki fylgja kærumáli […], frekar eftir hjá lögreglu, hafi falið í sér ótilhlýðilega þvingun skv. 35. gr. siðareglna lögmanna. Sóknaraðilar telja að málatilbúnaður varnaraðila í kærumálinu sé svo rýr að lögmaður hafi séð sig knúinn til þess að grípa til slíkra örþrifaráða til þess að renna stoðum undir málatilbúnað sinn. Þá telja sóknaraðilar ekki ómögulegt að varnaraðili sé undir einhvers konar þrýstingi eða þvingun af hálfu umbjóðenda sinna og vísar til 3. og 4. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna og að varnaraðila hafi borið að taka ekki að sér mál sem líkur væru á að hann gæti ekki sinnt af fagmennsku.

Sóknaraðilar telja að með framlagningu á kæru á hendur þeim til lögreglu 13. júní 2023 hafi varnaraðili gerst brotleg við ákvæði 2. og 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 með því að hafa lagt fram kæruna fyrir hönd fjögurra barna sem rökstuddur grunur sé um að séu líffræðileg börn sóknaraðila. Það sé börnunum því bersýnilega ekki fyrir bestu að vera gerðir aðilar að umræddu kærumáli að þeim forspurðum. Sóknaraðilar telja blasa við að þessi ráðstöfun varnaraðila þjóni engum tilgangi öðrum en að beita börnunum fyrir sig sem verkfæri gegn kvartanda í umræddu kærumáli í því skyni að torvelda sóknaraðilum að framfylgja framkominni kröfu um framkvæmd erfðafræðilegrar rannsóknar sem sóknaraðilar hafi beint að umbjóðendum varnaraðila áður en til lögreglukæru kom. Fyrrgreind ráðstöfun varnaraðila sé til þess fallin að meiða hlutaðeigandi börn og gangi gegn velferð og hagsmunum þeirra. Þá hafi varnaraðila borið að gefa börnunum færi á að láta skoðanir sínar í ljós í samræmi við aldur og þroska þeirra, sem ekki hafi verið gert. Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa staðhæft ranglega um málsatvik sem ekki sé ágreiningur um í því skyni að fá samþykkt nálgunarbann sem engin skilyrði séu fyrir. Það sé alvarlegt þegar um er að ræða ólögráða börn. Framangreinda meðhöndlun málefna barna umbjóðenda varnaraðila telja sóknaraðilar fela í sér brot gegn 1., 6. og 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 og ákvæðum 1., 3., og 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Að mati sóknaraðila fól kæra, dags. 13. júní 2023, í sér brot gegn 1. mgr. 148. gr. og 149. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í kærunni hafi varnaraðili ranglega sakað sóknaraðila um refsiverðan verknað. Kröfugerð varnaraðila sé röng og órökstudd með öllu og telja sóknaraðilar að í þeim felist alvarlegar aðdróttanir og þungar ásakanir af hálfu varnaraðila í garð sóknaraðila. Þá telja sóknaraðilar skilyrði laga um nálgunarbann ekki uppfyllt enda hafi þeir ekki nálgast umbjóðendur varnaraðila með neinum hætti nema einu bréfi sem þeir hafi sent þeim þar sem farið var fram á framkvæmd erfðafræðilegrar rannsóknar á börnum umbjóðenda varnaraðila. Ennfremur telja sóknaraðilar að í tilvísun lögmannsins til skotvopnaleyfis og mögulegrar skotvopnaeignar annars sóknaraðila í kæru til lögreglu geti falist dulin hótun í þeirra garð. Þá telja sóknaraðilar athyglisvert að lögmannsstofa varnaraðila gæti hagsmuna fyrir […] sem sóknaraðilar segjast eiga í djúpstæðum ágreiningi við og telja ekki útilokað að varnaraðili hafi verið beitt einhvers konar þrýstingi eða þvingunum vegna þessa.

Sóknaraðilar vísa til 232. gr. a. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og telja að framganga varnaraðila í aðdraganda og með framlagningu kæru 13. júní 2023 feli í sér brot á fyrrnefndum lagaákvæðum. Þá telja sóknaraðilar að gögn sem varnaraðili lagði fram með kæru 13. júní 2023 séu málinu óviðkomandi og varnaraðili haldi því ranglega fram að nafnlaus bréf sem fylgdu kærunni stafi frá sóknaraðilum. Sú fullyrðing sé órökstudd og framlagning umræddra bréfa, auk rangra og ósannaðra staðhæfinga varnaraðila um málsatvik og rangar sakargiftir í garð sóknaraðila, feli í sér brot á 233. gr. a., 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá hafi varnaraðili eða umbjóðendur hennar ritað nafn látins manns á nafnlaust bréf sem lagt var fram með kæru og slíkt geti falið í sér brot gegn 240. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Að mati sóknaraðila ber varnaraðili ábyrgð á ritun kæru, framsetningu kærutexta og framlagningu kærumálsgagna gagnvart embætti Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu. Kæran eigi ekki við rök að styðjast og varnaraðili sé grandsamur um hvernig málum sé háttað. Þannig hafi varnaraðili brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna og laga eins og rakið sé í kvörtun. Málatilbúnaður varnaraðila einkennist að mati sóknaraðila af hótunum, tilhæfulausum málatilbúnaði sem feli í sér rangar sakargiftir, afbökun málavaxta og hreinan uppspuna auk þess sem óumdeildum málavöxtum sé snúið á hvolf.

Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og að nafn varnaraðila verði tilgreint við birtingu úrskurðar nefndarinnar.

II.

Varnaraðili gerir þá kröfu að úrskurðarnefnd lögmanna staðfesti að hún hafi ekki í störfum sínum gert á hlut sóknaraðila, sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar sameiginlega úr hendi sóknaraðila að mati úrskurðarnefndar.

Varnaraðili kveður málsatvik vera með þeim hætti að hún hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir nokkrar fjölskyldur sem hafi talið sig verða fyrir umsáturseinelti og áreitni af hálfu sóknaraðila. Áreitni sóknaraðila eigi rót að rekja til þess að þau telji sig raunverulega foreldra barna þeirra, þar sem fósturvísum þeirra hafi verið stolið og komið fyrir í legi umbjóðenda varnaraðila. Varnaraðili segir sóknaraðila byggja á samanburði á myndum af börnum umbjóðenda hennar og þeim sjálfum sem börnum. Enginn fótur sé hins vegar fyrir þessum hugarburði sóknaraðila sem sé með öllu úr lausu lofti gripinn. Jafnvel þótt einhver fótur væri fyrir þessum hugmyndum sóknaraðila væri framganga þeirra í garð umbjóðenda varnaraðila eftir sem áður ólögleg og fram úr öllu hófi. Sóknaraðilar eigi enga lögmæta kröfu af neinu tagi gagnvart umbjóðendum varnaraðila.

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa sent umbjóðendum hennar kröfubréf, hringt í ættingja, samstarfsmenn og yfirmenn þeirra. Í einhverjum tilvikum hafi atvinnuöryggi umbjóðenda hennar verið beinlínis ógnað. Um sé að ræða umsáturseinelti og ofsóknir sem beri að líta mjög alvarlegum augum enda sé um að ræða brot á friðhelgi einkalífs. Eðli máls samkvæmt hafi framganga sóknaraðila í garð umbjóðenda varnaraðila valdið þeim miklu hugarangri, kvíða og ótta, ekki síst þar sem hún hafi beinst að ólögráða börnum þeirra. Umbjóðendur varnaraðila hafi óttast að sóknaraðilar myndu grípa til „örþrifaráða“ eins og þau hafi beinlínis orðað það í bréfum sínum til umbjóðenda varnaraðila. Af þessu tilefni hafi varnaraðili farið fram á að lagt væri nálgunarbann á sóknaraðila samkvæmt lögum nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili segir lögreglu hafa gefið sóknaraðilum færi á að tjá sig um beiðnina auk þess sem þeim hafi verið gefinn kostur á að lýsa því yfir að þau létu sjálfviljug af áreitni í garð umbjóðenda varnaraðila. Það hafi þau ekki verið tilbúin til að gera og hafi farið svo að lögregla hafi fallist á kröfu um nálgunarbann í öllum tilvikum. Það nálgunarbann standi enn og hafi ekki verið hnekkt af dómstólum.

Varnaraðili hafnar því að hafa brotið gegn siðareglum lögmanna, lögum um lögmenn eða góðum lögmannsháttum. Þvert á móti hafi hún gætt hagsmuna umbjóðenda sinna til samræmis við góða lögmannshætti, lög og siðareglur að öllu leyti. Því beri að hafna kröfum sóknaraðila í málinu.

Varnaraðili hafnar því að hafa farið rangt með málsatvik í kröfu til lögreglu um nálgunarbann. Fullyrðingar sóknaraðila um að enginn fótur sé fyrir kröfunni fái ekki stoð í niðurstöðu lögreglu sem hafi fallist á kröfu umbjóðenda varnaraðila um nálgunarbann. Að mati varnaraðila er lýsing hennar á málsatvikum í beiðni um nálgunarbann hluti af hagsmunagæslu fyrir umbjóðendur hennar og getur hvorki talist óeðlileg né brot á siðareglum lögmanna eða lögum um lögmenn. Þvert á móti sé hún í samræmi við skyldur varnaraðila sem lögmanns að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna af einurð.

Varnaraðili kveðst ekkert kannast við lýsingar sóknaraðila á læknamistakamáli á Akranesi árið 2011, samskipti sóknaraðila við stjúpfrænda varnaraðila, forstjóra Landspítala Háskólasjúkrahúss eða umfjöllun um […] sem varnaraðili þekki ekki til. Ekki sé vísað til þessara atvika í hagsmunagæslu varnaraðila fyrir umbjóðendur sína og útilokað sé að sjá hvernig það hafi á einhvern hátt haft áhrif á þá hagsmunagæslu. Að sama skapi fái varnaraðili ekki séð hvernig þetta tengist ætluðum brotum varnaraðila á siðareglum lögmanna. Það að samstarfsmaður varnaraðila hafi á einhverjum tímapunkti gætt hagsmuna […] breyti ennfremur engu um hagsmunagæslu varnaraðila enda ekki um neinn hagsmunaárekstur að ræða.

Varnaraðili kannast ekki við að hafa komist yfir trúnaðarupplýsingar með ólögmætum hætti um skotvopnaeign eða skotvopnaleyfi annars sóknaraðila. Í kröfu um nálgunarbann hafi verið hreyft við því að það væri eðlilegt að lögregla kannaði það sjálfstætt hvort sóknaraðilinn hefði vopn í sínum fórum og hvort það væri eðlilegt að svo væri.

Hvað varðar meint brot varnaraðila gegn 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna og staðhæfingar um að varnaraðili hafi ekki gætt háttsemi í ræðu og riti áréttar varnaraðili að hún hafi eingöngu lagt fram skriflega beiðni um nálgunarbann fyrir umbjóðendur sína og rökstutt grundvöll hennar og lagaskilyrði. Umrædd beiðni liggi fyrir í málinu og sjá megi á henni að málið hafi verið byggt á ríkum hagsmunum umbjóðenda hennar um vernd friðhelgi einkalífs þeirra. Umbjóðendur varnaraðila hafi haft lögmæta og fulla ástæðu til þess að telja sóknaraðila brjóta friðhelgi einkalífs þeirra og barna þeirra og þess vegna krafist þess að lögregla ákvarðaði um nálgunarbann sóknaraðila gagnvart þeim. Á þá kröfu hafi verið fallist. Að mati varnaraðila eru fullyrðingar um að hún hafi ekki sýnt sóknaraðilum tilhlýðilega virðingu í ræðu og riti og þá tillitssemi sem samrýmanleg var hagsmunum umbjóðenda hennar með öllu staðlausar. Það sama eigi við um fullyrðingar um að varnaraðili hafi beitt sóknaraðila ótilhlýðilegum þvingunum í skilningi 35. gr. siðareglna lögmanna.

Varnaraðili hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum barnalaga nr. 76/2006 og barnaverndarlaga nr. 80/2002 enda hafi hún beinlínis gætt hagsmuna barna umbjóðenda sinna með kröfu um nálgunarbann gagnvart sóknaraðilum. Jafnframt hafnar varnaraðili því að í beiðni um nálgunarbann hafi falist ærumeiðingar, rangar sakargiftir eða hótanir sem feli í sér brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrir liggi að varnaraðili hafi undirbúið og lagt fram rökstudda kröfu um nálgunarbann þar sem byggt hafi verið á lýsingum umbjóðenda hennar á atvikum máls sem hafi stuðst við gögn um háttsemi sóknaraðila í garð umbjóðendanna. Þar hafi verið teflt fram röksemdum og sjónarmiðum um að skilyrði laga nr. 85/2011 um nálgunarbann væru uppfyllt. Lögreglan hafi rannsakað málið og í framhaldinu tekið ákvörðun um að fallast á kröfu umbjóðenda varnaraðila um nálgunarbann sóknaraðila gagnvart þeim. Að mati varnaraðila getur úrskurðarnefnd ekki tekið til meðferðar efnisatriði málsins eða skorið úr um réttmæti staðhæfinga sóknaraðila um það sama. Sóknaraðilar hafi lagalegan rétt til þess að bera ákvörðun lögreglu um nálgunarbann undir dómstóla en hafi kosið að gera það ekki og því standi ákvörðunin óhögguð.

Varnaraðili áréttar að hún hafi hvergi komið fram á opinberum vettvangi og fjallað um framgöngu sóknaraðila í garð umbjóðenda hennar. Því sé erfitt að henda reiður á hvernig hagsmunagæsla hennar fyrir umbjóðendur sína, sem hafi sætt alvarlegri innrás í einkalíf sitt og áreitni af hálfu sóknaraðila, geti talist brot á siðareglum lögmanna eða lögum. Þá bendir sóknaraðili á að það sé í verkahring lögreglu að fjalla um möguleg brot á almennum hegningarlögum en ekki úrskurðarnefndar lögmanna.

Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á 3. mgr. 15. gr. laga um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Að mati varnaraðila er kvörtunin með öllu tilefnislaus og því full ástæða til þess að gera sóknaraðilum að greiða varnaraðila málskostnað. Varnaraðili telur að kvörtunin sé einn liður í umsáturseinelti í garð umbjóðenda hennar. Í ljósi þess að umfjöllunarefni málsins tengist náið umbjóðendum varnaraðila og ólögráða börnum þeirra er þess óskað að gætt verði sérstakrar varúðar við birtingu úrskurðar nefndarinnar og fjarlægðar verði allar rekjanlegar upplýsingar úr úrskurði nefndarinnar við birtingu hans. Að lokum áréttar varnaraðili kröfu um að úrskurðarnefnd staðfesti að hún hafi í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

III.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar árétta þeir margt það sem kom fram í kvörtun og svara síðan sérstaklega atriðum úr greinargerð varnaraðila til nefndarinnar. Málsástæðum varnaraðila mótmæla sóknaraðilar sem röngum og órökstuddum. Þá mótmæla sóknaraðilar kröfu varnaraðila um málskostnað úr hendi sóknaraðila vegna reksturs málsins fyrir nefndinni og hafna því alfarið að kvörtun sé tilefnislaus.

Sóknaraðilar árétta að þeir hafi hvorki áreitt né staðið að umsáturseinelti gagnvart umbjóðendum varnaraðila og að skilyrði laga um nálgunarbann séu ekki uppfyllt í máli umbjóðenda varnaraðila gegn þeim. Þá byggi sú skoðun þeirra um að þau séu líffræðilegir foreldrar barna umbjóðenda sóknaraðila á læknisfræðilegum gögnum. Varnaraðili reyni að mati sóknaraðila eftir fremsta megi að lítilsvirða og smætta málatilbúnað þeirra sem gangi út á að virða lögbundinn rétt barna um að vita hver uppruni þeirra er og þekkja líffræðilega foreldra sína, sbr. ákvæði barnalaga nr. 76/2003 og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Sóknaraðilar segja rangt að þau hafi hringt í ættingja, samstarfsmenn og yfirmenn umbjóðenda varnaraðila. Þá hafna sóknaraðilar því að þau hafi í hyggju að grípa til „örþrifaráða“ eins og varnaraðili hafi haldið fram, enda sé ekki rökstutt hver þau „örþrifaráð“ ættu að vera. Ráðstafanir sóknaraðila eigi stoð í lögum og reglum og njóti þau aðstoðar löglærðra aðila í hvívetna varðandi framgang málsins. Ennfremur árétta sóknaraðilar að nafnlaus bréf sem lögð voru fram með kæru varnaraðila f.h. umbjóðenda sinna stafi ekki frá sóknaraðilum og ekkert renni stoðum undir að svo sé. Þá hafi varnaraðili ranglega haldið því fram að tilteknum einstaklingum hafi verið send umrædd bréf en umræddir einstaklingar kannist ekki við að hafa móttekið slík bréf.

Sóknaraðilar segja að hluti kærumálsgagna hafi enn ekki fengist afhent frá lögreglu þrátt fyrir endurteknar beiðnir þar að lútandi. Telja þau ekki loku fyrir það skotið að varnaraðili hafi beitt sér fyrir því að gögnin yrðu ekki afhent. Þá gera sóknaraðilar að umtalsefni tengsl eins umbjóðanda varnaraðila við yfirmann ákærusviðs Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu, tengsl lögmannsstofu varnaraðila við […] auk ýmis konar tengsla fjölskyldu­meðlima núverandi og fyrrverandi samstarfsmanna varnaraðila við umbjóðendur varnaraðila sem valdi því að varnaraðili samkenni sig umbjóðendum sínum og málefninu sem ágreiningur þeirra við sóknaraðila lýtur að. Háttsemi varnaraðila er að mati sóknaraðila ekki í samræmi við góða lögmannshætti.

Sóknaraðilar árétta að umfjöllun í lögreglukæru um skotvopnaleyfi annars sóknaraðila og hugsanlega skotvopnaeign hafi verið ómálefnaleg og ekki í samræmi við góða lögmannshætti enda sé sóknaraðilinn ekki á sakaskrá og hafi aldrei hlotið dóm fyrir refsiverða háttsemi. Í umfjöllun um skotvopnaleyfi og hugsanlega skotvonaeign annars sóknaraðila í kæru felist ærumeiðandi ummæli og mannorðsmeiðandi háttsemi af hálfu varnaraðila í garð sóknaraðila. Varnaraðili geri enga tilraun til þess að færa sönnur á málatilbúnað sinn að þessu leyti. Þá telji sóknaraðilar hugsanlegt að í umfjölluninni felist hótun varnaraðila í þeirra garð sem, ef rétt reynist, sé ámælisvert og klárt brot á siðareglum lögmanna, góðum lögmannsháttum og lögum.

Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa nálgast aðila tengdum sóknaraðilum og vísa til yfirlits um atvik í tímaröð sem lagt var fram með kæru 13. júní 2023. Í því felist brot á siðareglum lögmanna. Þá árétta sóknaraðilar að yfirlýsing sem þeir voru beðnir að skrifa undir við skýrslutöku hjá lögreglu feli í sér tilraun varnaraðila til þess að fá sóknaraðila til þess að afsala sér grundvallar mannréttindum. Slíkt sé í ósamræmi við góða lögmannshætti, lög og reglur.

Sóknaraðilar greina frá því þau hafi ákveðið að vísa ákvörðun embættis Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu ekki til héraðsdóms þar sem ágallar hafi verið á meðferð málsins hjá lögreglu, m.a. vegna vanhæfis starfsmanna embættisins. Þá árétta sóknaraðilar að úrskurðar­nefnd sé ekki ætlað að fjalla um réttmæti ákvarðana lögreglu heldur einungis háttsemi varnar­aðila gagnvart sóknaraðilum í málinu.  

IV.

Varnaraðili taldi athugasemdir sóknaraðila ekki gefa tilefni til frekari athugasemda af sinni hálfu og vísaði til greinargerðar sinnar. Hún áréttar að framganga hennar og hagsmunagæsla fyrir skjólstæðinga sína hafi verið í samræmi við þær skyldur sem á henni hvíla sem lögmanni.

 

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Þá skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 3. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar. Þá skal lögmaður ekki óviðkomandi hagsmuni, hvort heldur eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf sína, meðferð máls fyrir stjórnvaldi eða dómi eða á annað það, sem lögmaður vinnur í þágu skjólstæðings síns.

Samkvæmt 6. gr. siðareglna lögmanna skal upplýsingum, sem lögmaður fær í starfi, haldið frá óviðkomandi, þótt lögboðin þagnarskylda banni ekki. Þá reglu skal lögmaður brýna fyrir starfsfólki sínu. Ekki má lögmaður nota sér upplýsingar, sem honum hefur verið trúað fyrir í starfi, til hagsbóta fyrir gagnaðila.

  1. gr. siðareglna lögmanna kveður á um að lögmaður skuli gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð. Þá ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn. Lögmaður skal ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.

Samkvæmt 34. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður sýna gagnaðilum umbjóðanda sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum umbjóðendanna. Þá er því lýst í 35. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki til framdráttur málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum  en það telst m.a. ótilhlýðilegt samkvæmt ákvæðinu að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli sem óviðkomandi er máli skjólstæðings, að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli er valdið getur gagnaðila hneykslisspjöllum og loks að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi venslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns eða hóta gagnaðila slíku.

II.

Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem sóknaraðili telur varnaraðila hafa gert á sinn hlut og með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 1., 3., 6., 8., 34. og 35. siðareglna lögmanna, ákvæðum XV. og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ákvæðum 1., 6. og 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 og ákvæðum 1., 3., og 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Fyrir liggur að umbjóðendur varnaraðila leituðu til hennar vegna áreitis og umsáturseineltis sem þau telja sig og börn sín hafa orðið fyrir af hálfu sóknaraðila. Varnaraðili tók að sér að kæra meinta háttsemi sóknaraðila til lögreglu og gera kröfu um að sóknaraðilar yrðu látin sæta nálgunarbanni gagnvart umbjóðendum hennar.

Mat á sannleiksgildi þeirra staðhæfinga sem settar eru fram í kæru varnaraðila til lögreglu f.h. umbjóðenda sinna, dags. 13. júní 2023, er utan verksviðs úrskurðarnefndar. Þar til bært yfirvald, embætti Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu hefur þegar tekið afstöðu til kæruefnisins og fallist á kröfu umbjóðenda varnaraðila um nálgunarbann sóknaraðila gagnvart þeim og þau rök sem færð voru fyrir þeirri kröfu. Í samræmi við ákvæði laga nr. 85/2011 um nálgunarbann gátu sóknaraðilar krafist þess að lögreglustjóri bæri ákvörðun um beitingu nálgunarbanns undir dómstóla en gögn málsins bera með sér að það hafi sóknaraðilar ekki gert.

Við rækslu starfa sinna koma lögmenn jafnan fram fyrir hönd sinna umbjóðenda í hagsmunagæslu og halda fram þeim sjónarmiðum og úrræðum sem best eru til þess fallin að gæta þeirra hagsmuna. Varnaraðila bar, líkt og lögmönnum endranær, að rækja af alúð þau störf sem hún sinnti í þágu umbjóðenda sinna og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna þeirra, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum. Að sama skapi á lögmaður kröfu til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn. Af þessu leiðir að mikilvægt er að lögmenn gæti þess að greina eins og kostur er á milli eigin sjónarmiða og sjónarmiða og hagsmuna umbjóðenda þeirra. Að mati nefndarinnar getur orðaval og framsetning þeirra í skrifum lögmanna skipt máli í þessu sambandi.

Nefndin telur að við þær aðstæður sem uppi eru í þessu máli, þar sem foreldrar telja börn sín verða fyrir áreitni og einelti sem ógni öryggi þeirra og velferð, þurfi lögmaður ákveðið svigrúm til að tjá skoðanir og sjónarmið umbjóðenda sinna. Að mati nefndarinnar ber kæra og krafa um nálgunarbann, dags. 13. júní 2023, með sér að kæruefni og röksemdir byggi á frásögn umbjóðenda varnaraðila af málsatvikum og sjónarmiðum þeirra en ekki varnaraðila sjálfrar. Að mati nefndarinnar er ekkert sem bendir til þess að í hinni umþrættu kæru felist persónulegar athugasemdir, skoðanir eða sjónarmið varnaraðila sjálfs í garð sóknaraðila eða að varnaraðili hafi þar veist persónulega að sóknaraðilum með nokkrum hætti. Þá er ekkert sem bendir til þess að varnaraðili hafi í störfum sínum fyrir umbjóðendur sína, í því máli sem hér um ræðir, samkennt sig umbjóðendum sínum eða sjónarmiðum þeirra og viðhorfum til meintrar háttsemi sóknaraðila gagnvart þeim, þannig að geti talist brot gegn 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Þá skal áréttað að í umræddu ákvæði siðareglna felst jafnframt að varnaraðili á skýlausan rétt til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gætir fyrir umbjóðendur sína.

Að mati nefndarinnar eru sjónarmið umbjóðenda varnaraðila sett fram með málefnalegum og tilhlýðilegum hætti í hinni umþrættu kæru og ekki gengið lengra en tilefni var til. Þá hefur varnaraðili að mati nefndarinnar sýnt sóknaraðilum tilhlýðilega virðingu og tillitssemi í samræmi við hagsmuni umbjóðenda hennar, í samræmi við 34. gr. siðareglna lögmanna.

Að mati nefndarinnar verður heldur ekki séð að varnaraðili hafi með einhverjum hætti beitt sóknaraðila ótilhlýðilegri þvingun í skilningi 35. gr. siðareglna lögmanna. Ósk umbjóðenda varnaraðila sem varnaraðili setur fram í kæru um að kannað verði hvort sóknaraðilar séu með skráð vopn í sínum fórum og þess krafist að reynist svo vera verði þeim gert að afhenda lögreglu vopnin og leyfi afturkallað, felur að mati nefndarinnar ekki í sér ótilhlýðilega þvingun í skilningi 35. gr. siðareglna lögmanna eða hótun af neinu tagi gagnvart sóknaraðilum af hálfu varnaraðila. Það sama á við um aðrar lýsingar umbjóðenda varnaraðila á málavöxtum, sjónarmið, kröfur og röksemdir fyrir þeim, sem varnaraðili setur fram í kæru f.h. umbjóðenda sinna.

Að mati nefndarinnar hafa engin gögn verið lögð fram í þessu máli sem gefa tilefni til að ætla að varnaraðili hafi með einhverjum hætti komist yfir trúnaðarupplýsingar um sóknaraðila og notað gegn þeim í máli umbjóðenda varnaraðila gegn sóknaraðilum, þannig að í felist brot gegn 6. gr. siðareglna lögmanna.

Ekki verður að mati nefndarinnar séð að varnaraðili hafi í störfum sínum fyrir umbjóðendur sína í máli þeirra gegn sóknaraðilum brotið gegn 1. gr. siðareglna lögmanna. Þá verður ekki séð að varnaraðila hafi skort kunnáttu eða fagmennsku til þeirra starfa, sbr. 4. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Að mati nefndarinnar er ekkert fram komið í máli þessu sem með réttu gefur ástæðu til að ætla að varnaraðili hafi látið óviðkomandi hagsmuni, sína eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf til umbjóðenda sinna í málinu eða að eitthvað annað en hagsmunir umbjóðendanna og barna þeirra hafi ráðið för í störfum varnaraðila. Af því leiðir að varnaraðili hefur ekki brotið gegn ákvæði 2. mgr. 3. gr. siðareglna lögmanna í störfum sínum fyrir umbjóðendur sína í máli þeirra gegn sóknaraðilum.

Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili ekki brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna, góðum lögmannsháttum eða lögum í störfum sínum fyrir umbjóðendur sína í máli þeirra gegn sóknaraðilum, þ.m.t. við framlagningu kæru á hendur sóknaraðilum til embættis Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu, dags. 13. júní 2023, í máli […]. Að sama skapi er það mat nefndarinnar að háttsemi varnaraðila í garð sóknaraðila sé í fullu samræmi við góða lögmannshætti, lög og siðareglur lögmanna. Að mati nefndarinnar getur hagsmunagæsla varnaraðila fyrir umbjóðendur sína í máli þeirra gegn sóknaraðilum með engu móti talist fela í sér brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940, barnalaga nr. 76/2003, barnaverndarlaga nr. 80/2002 eða annarra laga. Hefur varnaraðili í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu. 

Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns til meðferðar málsins og kom varamaður í hans stað. Af hálfu sóknaraðila var farið fram á að sá varamaður, auk annars aðalmanns í nefndinni vikju sæti vegna vanhæfis. Í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um það hvenær starfsmaður eða nefndarmaður teljist vanhæfur til meðferðar máls. Í máli þessu hafa nefndarmenn upplýst að þær vanhæfisástæður sem taldar eru upp í 1.-5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, séu ekki fyrir hendi. Í 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna er að finna matskennda hæfisreglu sem felur í sér grunnreglu um sérstakt hæfi. Í lögskýringargögnum með lögunum er kveðið á um að til að starfsmaður eða nefndarmaður teljist vanhæfur á grundvelli hinnar matskenndu hæfisreglu verði hann að hafa einstaklega hagsmuni af úrlausn málsins, svo sem ágóða, tap eða óhagræði. Þar koma einnig til skoðunar hagsmunir venslamanna og annarra þeirra sem eru í svo nánum tengslum við starfsmanninn að almennt verði að telja hættu á að þau geti haft áhrif á hann. Þá verði eðli og vægi hagsmunanna að vera þess háttar að almennt verði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið geti haft áhrif á ákvörðun málsins. Þá getur mjög náin vinátta eða fjandskapur við aðila máls valdið vanhæfi. Með vináttu sem valdi vanhæfi nægir ekki að aðeins sé um að ræða kunningsskap eða að fyrir hendi séu þær aðstæður, t.d. á fámennum stöðum, að „allir þekki alla“, heldur verður vináttan að vera náin. Svo óvinátta valdi vanhæfi verður að vera um að ræða einhverjar sannanlegar hlutlægar ástæður sem almennt verða taldar til þess fallnar að draga megi í efa óhlutdrægni starfsmanns. Ekki nægir að aðili máls álíti starfsmann eða nefndarmann sér fjandsamlegan. Að mati nefndarinnar eru ekki uppi neinar ástæður í máli þessu sem gefa ástæðu til þess að draga óhlutdrægni þeirra nefndarmanna sem um málið fjalla, með réttu í efa, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafa sóknaraðilar ekki bent á atvik, aðstæður eða ástæður sem geta verið til þess fallnar að efast megi um hæfi einstakra nefndarmanna. Kröfu sóknaraðila um að nefndarmenn sem um málið fjalla víki sæti vegna vanhæfis, er því hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, C lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A og B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Hulda Katrín Stefánsdóttir

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 


Eva Hrönn Jónsdóttir