Mál 8 2023

Mál 8/2023

Ár 2023, þriðjudaginn 7. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2023:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 20. febrúar 2023 kvörtun sóknaraðila, A, gegn varnaraðila, B lögmanni, vegna starfa varnaraðila í sína þágu varðandi ágreiningsmáls um galla í ökutæki.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt lögmanns til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 15. maí 2023 ásamt fylgiskjölum. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila bárust nefndinni 9. júní 2023. Viðbótarathugasemdir varnaraðila bárust nefndinni þann 3. júlí 2023. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Með kaupsamningi dags. 10. október 2018 keypti sóknaraðili ökutæki af félagi [...] ehf. að fjárhæð 4.200.000 kr. sem fjármagnað var að hluta með [...] samningi hjá [...] hf. Í ljós komu gallar á ökutækinu strax við afhendingu og krafðist sóknaraðili að seljandi lagfærði ökutækið og afhenti í umsömdu ástandi.

Sóknaraðili fól varnaraðila að gæta hagsmuna sinna vegna viðskiptanna með umboði undirrituðu þann 12. september 2019.

Þann 17. febrúar 2020 sendi varnaraðili seljandanum yfirlýsingu um riftun ökutækjaviðskiptanna fyrir hönd sóknaraðila og krafðist endurgreiðslu og vangildisbóta.

Með málsóknarumboði dags. 11. júní 2020 veitti [...] ehf. sóknaraðila umboð til að höfða dómsmál á hendur seljandanum, í nafni [...] hf. sem þinglýstum eiganda ökutækisins sem sóknaraðili keypti með áðurnefndum kaupsamningi. Meðal skilyrða umboðsins voru að [...] hf. yrði haldið skaðlausu af öllum kostnaði vegna málarekstursins, þ.m.t. hugsanlegum kostnaði sóknaraðila vegna málshöfðunarinnar og þess kostnaðar sem [...] hf. kynni að vera dæmt til að greiða stefnda, seljanda, vegna málarekstursins.

Þann 11. september 2020 ítrekaði varnaraðili riftunaryfirlýsinguna en þá fyrir hönd sóknaraðila sem lýsti riftuninni vegna [...] hf. og hótaði málsókn ef ekki yrði greitt í samræmi við framsettar kröfur.

Í kjölfarið höfðaði varnaraðili mál í nafni [...] hf. vegna sóknaraðila. Í málinu var krafist riftunar kaupsamningsins um ökutækið auk endurgreiðslu kaupverðsins og vaxta. Samhliða var þess krafist að stefndi, seljandinn, endurgreiddi stefnanda, [...] hf., vexti af láni sem sóknaraðili tók hjá stefnandanum vegna kaupa ökutækisins auk útlagðs kostnaðar vegna trygginga ökutækisins og lögboðinna bifreiðagjalda. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 27. maí 2021 var málinu vísað frá dómi sökum vanreifunar á aðild og fjárkröfum málsins. Þá var stefnanda gert að greiða stefnda, seljandanum 600.000 kr. sem vegna áðurnefnds málsóknarumboðs [...] hf. til sóknaraðila, leiddi til þess að sóknaraðili var greiðsluskyldur fyrir málskostnaðnum.

Sóknaraðili lagði þá fjárhæð 600.000 kr. inn á fjárvörslureikning varnaraðila þann 13. ágúst 2021.

Í kjölfarið áttu aðilar samskipti og var ákvörðun tekin um að stefna málinu aftur fyrir dómstóla. Með tölvupósti þann 24. september 2021 sagði varnaraðili stefnuna alveg að verða tilbúna og að hún yrði birt næstu viku. Þann 16. nóvember 2021 sagði varnaraðili að málið yrði þingfest í næstu viku. Þann 9. janúar 2022 sagði varnaraðili að stefna færi úr húsi næstu daga. Þann 10. janúar 2022 sagðist varnaraðili ætla að reyna birta stefnu fyrir vikulok og þingfesta í næstu viku. Þann 1. mars 2022 lýsti varnaraðili því að stefnan færi út fyrir helgi. Þann 11. apríl 2022 sagði varnaraðili að stefnan væri á lokametrum og færi út fyrir páska. Þann 12. júní 2022 sagði varnaraðili að stefnan færi út næsta dag og yrði þingfest þriðjudag. Þann 6. október 2022 sagði varnaraðili að ekki væri komið númer á málið en að það væri um vika í það.

Þann 26. október 2022 leitaði sóknaraðili til annars lögmanns sem aflaði gagna frá varnaraðila og kom þá í ljós að mati sóknaraðila, að varnaraðili hafði ekki unnið þá vinnu sem hann hafði sagst hafa unnið. 

Skilja verður kvörtun sóknaraðila sem svo að hann krefjist endurskoðunar á rétti varnaraðila til endurgjalds eða fjárhæðar þess sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn fyrir störf í sína þágu auk þess sem hann krefjist þess að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Lýsir sóknaraðili málsatvikum með vísan til framlagðra gagna að miklu leyti líkt og framar greinir. Kveðst sóknaraðili hafa áttað sig á því þegar nýr lögmaður tók við málinu fyrir sína hönd og aflaði gagna frá varnaraðila þann 26. október 2022 að sú stefna sem varnaraðili hafði margendurtekið sagst hafa unnið hafi aldrei verið kláruð eða birt og telur sóknaraðili ljóst að málið hafi dregist úr hófi vegna athafnaleysis varnaraðila. Bendir sóknaraðili á að það athafnaleysi kunni að hafa orðið til þess að málið gegn seljandanum sé komið í uppnám vegna fyrningarhættu skaðabótakrafnanna.

Þá bendir sóknaraðili á að um hafi verið að ræða ökutæki framleitt árið 2015 og með 5 ára ábyrgð. Því hefði hann getað takmarkað tjón sitt vegna bilana í rafkerfi ökutækisins ef varnaraðili hefði ekki krafist þess að bíllinn yrði áfram í umsjá bílasölunnar í yfir tvö ár.

Telur sóknaraðili að ráðleggingar varnaraðila um að fara í riftunarmál sem síðan var frávísað líkt og framar greinir, löngu eftir að ökutækið var komið til landsins og sú staðreynd að hann hafi verið dreginn í gegnum uppspunnið ferli vegna seinni málshöfðunarinnar  brjóti í bága við siðareglur lögmanna.

Með framangreindri málsmeðferð varð sóknaraðili fyrir afnotamissi af ökutækinu í tvö ár sem hann kveður hafa verið sér afar þungbært. Allan þann tíma hafi ökutækið hvílt hjá söluaðila og hann borgað af bílaláninu og opinber gjöld án þess að komast nálægt ökutækinu.

Telur sóknaraðili framgöngu varnaraðila vítaverða og krefst þess að varnaraðila verði gert að endurgreiða allan kostnað sem af málinu hlaust, þ.m.t. hinn dæmda málskostnað sem hann þurfti að endingu að greiða að fjárhæð 600.350 kr. að teknu tilliti til innheimtukostnaðar [...] hf. og þá reikninga sem hann greiddi varnaraðila dags. 2.12.2019 að fjárhæð 207.823 kr., 1.4.2020 að fjárhæð 257.906 kr. og 28.5.2021 að fjárhæð 266.724 kr. 

III.

Varnaraðili hafnar því að hafa gerst brotlegur við siðareglur lögmanna.

Vísar varnaraðili til þess að krafa sóknaraðila um endurgreiðslu þeirrar lögmannsþóknunar sem hann greiddi sér sé lögð fyrir nefndina meira en ári eftir að kostur var á að koma slíkri kröfu á framfæri við nefndina sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Bendir varnaraðili á að kröfur sóknaraðila séu frá árunum 2019 og 2020 og eigi því ekki lengur undir úrskurðarnefndina og því beri að vísa erindinu frá nefndinni. Að sögn varnaraðila var niðurstaða í héraðsdómsmálinu sem um ræðir kynnt sóknaraðila um leið og niðurstaða lá fyrir þann 27. maí 2021. Þá séu fjárkröfur þær sem sóknaraðili byggir kröfu sína um endurgreiðslu á síðan 2019 og 2020. Byggir varnaraðili á að ef sóknaraðili taldi á sér brotið þá hefði hann þegar þann 27. maí 2021 getað lagt málið fyrir úrskurðarnefndina.  Þá telur varnaraðili að tjónvaldur í þessu máli geti ekki verið hann heldur sé það stefndi í umræddu dómsmáli, sem seljandi ökutækisins og mögulega [...] hf. vegna ákvæðis í [...]samningi þeirra sem leiði af sér skerta réttarstöðu fyrir þá sem skuldbindi sig með slíkum samningi. Telur varnaraðili að sóknaraðila væri nær að beina fjárkröfum sínum að [...] hf. til endurgreiðslu en ekki að sér. Þá telur varnaraðili ljóst að seljandi ökutækisins sé meintur tjónvaldur en ekki hann.

Kveðst varnaraðili ekki skilja með hvaða hætti unnt væri að beina greiðsluskyldu að honum sem ákvað að setja málatilbúnað sóknaraðila fram á tiltekinn hátt sem var svo vísað frá dómi vegna vanreifunar. Kveðst varnaraðili með öllu ósammála niðurstöðu dómsins hvað dómkröfur málsins varði. Bendir varnaraðili jafnframt á að á síðastliðnum tíu árum hafi 176 málum verið vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar og 755 frá Hæstarétti frá því að rétturinn hóf að birta dóma á netinu. Af því telur varnaraðili ljóst að frávísun vegna vanreifunar sé algeng.

Vísar varnaraðili til erindis sóknaraðila og telur af því ljóst að sóknaraðili beini kvörtun til nefndarinnar m.a. vegna þess að hann hafi verið of seinn að þingfesta málinu í annað sinn, en telur varnaraðili ekki vera í málinu krafa um að hann verði ávíttur eða áminntur fyrir störf sín. Að sögn varnaraðila fór mikil vinna í að greina dómaframkvæmd sem tók að sögn varnaraðila margar vikur auk gerð nýrrar stefnu. Að sögn varnaraðila var ljóst að vanda þurfti til verka svo niðurstaðan yrði á annan veg en í upphaflegri málshöfðun. Kveðst varnaraðili hafa heitið því við sóknaraðila að taka engan málskostnað ef málið tapaðist í annað sinn enda sé hann bundinn sóknaraðila fjölskylduböndum og þekkt hann frá bernsku og þykir annt um hagsmuni hans.

Að sögn varnaraðila dróst þingfesting málsins vegna umfangs þess og flókinnar réttarstöðu sóknaraðila gagnvart [...] hf., seljanda bifreiðarinnar auk þess sem heimsfaraldurinn Covid 19 hafi sett strik í reikninginn. Kveðst varnaraðili hafa legið mánuðum saman veikur vegna farsóttarinnar og afleiðinga hennar. Þá hafi gilt samkomubann sem gerði störf varnaraðila erfiðari. Engu að síður segir varnaraðili að stefnugerðin hafi gengið vel og hún verið tilbúin til birtingar þegar sóknaraðili ákvað að skipta um lögmann vegna málsins. Því séu staðhæfingar sóknaraðila um að engin stefna hafi verið tilbúin þegar hann skipti um lögmann rangar. Að sögn varnaraðila eru flestir lögmenn að glíma við flókin og erfið mál og kveðst varnaraðili vera eftirsóttur lögmaður. Því telur varnaraðili ljóst að margir þættir hafi spilað inn í það að önnur stefna hafi ekki verið þingfest. Þá ítrekar varnaraðili áhrif heimsfaraldursins á starfsemi sína sem annarra. 

IV.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar gerir sóknaraðili þá kröfu að varnaraðili verði áminntur sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Sóknaraðili mótmælir málatilbúnaði varnaraðila og kveður í honum koma fram ýmsar staðreyndavillur og rangfærslur. Byggir sóknaraðili á því að erindi hans sé ekki of seint fram komið til nefndarinnar enda var það ekki fyrr en fyrst 26. október 2022 sem honum bárust gögn málsins og varð kunnugt um að brotið hafi verið á sér. Telur sóknaraðili þau gögn bera með sér að málarekstur hans hafi dregist allverulega vegna framgöngu og athafnaleysis varnaraðila. Telur sóknaraðili að miða verði upphaf tímafrestsins við 26. október 2022.

Þá mótmælir sóknaraðili því að hann hafi átt að geta farið strax með ágreining fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þegar niðurstaða héraðsdóms lá fyrir þann 27. maí 2021. Vísar sóknaraðili til þess að aðilar hafi verið sammála um að lögð yrði fram ný stefna í því formi sem uppfyllti áskilnað 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kveðst sóknaraðili fyrst hafa áttað sig á því þann 6. október 2022 að varnaraðili hafði dregið málið í rúmt ár án þess að aðhafast nokkuð í því. Þar af leiðandi telur sóknaraðili að varnaraðili hafi brotið gegn skyldum sínum til að viðhafa góða lögmannshætti í störfum sínum.

Sóknaraðili mótmælir því sem varnaraðili byggir á að hún sé ekki tjónvaldur heldur seljandi ökutækisins og [...] hf.  Bendir sóknaraðili á að málinu hafi verið vísað frá dómi sökum vanreifunar þar sem málsóknarumboðið sem [...] hf. veitti hafi hvorki verið reist á lagaheimild eða venju.

Þá byggir sóknaraðili á því að lögmenn séu sérfræðingar í skilningi reglunnar um sérfræðiábyrgð og því séu gerðar ríkari kröfur til vandaðri vinnubragða af þeirra hálfu en annarra. Þá telur sóknaraðili að varnaraðila hafi strax mátt vera það ljóst að hann hefði ekki þá burði til að taka að sér umrætt mál teldi hann sig ekki geta það sökum vanþekkingar og hafi sú verið raunin hafi honum borið að gera kvartanda það ljóst strax.

Þá tekur sóknaraðili fram að hann hafi ekki gert þá kröfu í upphaflegri kvörtun að varnaraðili yrði ávítt eða áminnt fyrir störf sín en sóknaraðili taldi það ekki vera sitt hlutverk að krefjast þess að varnaraðili skyldi vera ávíttur eða áminntur fyrir störf varnaraðila í sínu þágu. Bendir sóknaraðili á að hann sé ekki löglærður. Því skýrir sóknaraðili kröfugerð sína nánar í viðbótarathugasemdum til nefndarinnar og tekur í þeim skýrt fram að kvörtunin varði jafnframt kröfu um að varnaraðili verði áminnt vegna vanrækslu í starfi.

V.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar áréttar hann kröfur sínar til nefndarinnar og fyrri málatilbúnað.

Ítrekar varnaraðili jafnframt að stefna hafi verið tilbúin til þingfestingar þegar varnaraðili skipti um lögmann. Jafnframt ítrekar varnaraðili að hann hafi ekki krafið sóknaraðila um neina þóknun fyrir þá vinnu sem farið hafði í málið hans mánuðina þar á undan. Kveðst varnaraðili þannig hafa fallið frá kröfu um endurgjald sem hann hafi þó átt fullan rétt til að rukka sóknaraðila um, en það kveðst varnaraðili ekki hafa viljað gera við sóknaraðila enda beri hann að sinni sögn hagsmuni varnaraðila fyrir brjósti.

Bendir varnaraðili á að sú þóknun sem sóknaraðili var krafinn um hafi í heild sinni numið 697.500 kr. auk virðisaukaskatts fyrir unna vinnu skv. tímaskýrslu. Þá bendir varnaraðili á að enginn lögmaður geti fullyrt um það hvernig dómstólar koma til með að dæma í málum hverju sinni.

Hafnar varnaraðili því að bera nokkra ábyrgð á meintu tjóni varnaraðila og áréttar fyrri málatilbúnað sinn hvað það atriði varðar.

Niðurstaða

I.

Að mati nefndarinnar þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins eins og það hefur verið lagt fyrir nefndina.

Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist annars vegar á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn en í því er lýst ósk um að nefndin endurskoði rétt varnaraðila til endurgjalds fyrir störf hans eða fjárhæð þess í þágu sóknaraðila. Hins vegar er það reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem sóknaraðili telur varnaraðila hafa gert á sinn hlut og með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Varnaraðili hefur borið því við í málinu að þegar sóknaraðili leitaði með erindi sitt til nefndarinnar hafi lengri tími en ár verið liðinn frá því að sóknaraðili átti þess kost að leggja erindið fram.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Í 1. mgr. 27. gr. sömu laga er kveðið á um að telji einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. geti hann lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa erindum frá ef þau berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Líkt og fram hefur komið í málsatvikalýsingu og málsástæðuköflum framar í úrskurði þessum gaf varnaraðili út þrjá reikninga til sóknaraðila sem hann greiddi í tengslum við umrætt verk. Fjárhæð 207.823 kr. samkvæmt reikningi dags. 2. desember 2019, fjárhæð 257.906 kr. samkvæmt reikningi dags. 1. apríl 2020 og fjárhæð 266.724 kr. samkvæmt reikningi dags. 28. maí 2021. Þá var frávísunarúrskurður uppkveðinn í málinu vegna ökutækjaviðskipta sóknaraðila þann 27. maí 2021. Frá þeim tíma virðist af gögnum málsins varnaraðili engrar þóknunar hafa krafist frá sóknaraðila. Eins og erindi sóknaraðila liggur fyrir nefndinni virðist á því byggt að varnaraðili hafi gerst brotleg með því að hafa stefnt málinu með óvandvirkum hætti og þannig bakað sóknaraðila fjártjón. Að öllu framanvirtu telur nefndin að sóknaraðili hafi fyrst átt þess kost að leggja fram erindi þetta vegna starfa varnaraðila við undirbúning og rekstur áðurnefnds héraðsdómsmáls við uppkvaðningu úrskurðar þess þann 27. maí 2021 eða þegar frestur til að kæra þann úrskurð til Landsréttar leið, enda var niðurstaðan þá orðin endanleg í því tiltekna máli. Síðasti reikningurinn vegna þeirrar vinnu var síðan útgefinn degi eftir að úrskurður var kveðinn upp í málinu og var hann greiddur. Telur nefndin því óhjákvæmilegt að vísa verði frá nefndinni þeim hluta kvörtunar sóknaraðila sem lýtur að endurskoðun á endurgjaldi sóknaraðila fyrir þau störf og vinnu varnaraðila við þann málarekstur fram að uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms í málinu.

Öðru máli gegnir hins vegar um háttsemi varnaraðila frá þeim tíma. Óumdeilt er í málinu að sóknaraðili vildi fylgja kröfum sínum eftir nema varnaraðili teldi ekki fót fyrir því, en þá hefði hann viljað takmarka tjón sitt og vitja ökutækisins sem hann hafði greitt af lengi og engin afnot geta haft af. Varnaraðili lýsti því endurtekið í svörum til sóknaraðila að hann hygðist stefna málinu aftur og gekk jafnvel svo langt að segjast eitt sinn ætla sér að vinna málið örugglega. Svo fór hins vegar að varnaraðili höfðaði málið aldrei í annað sinn á því tímabili sem leið frá því að málinu var upphaflega vísað frá héraðsdómi þar til sóknaraðili leitaði til annars lögmanns þann 26. október 2022. Í millitíðinni hafði varnaraðili hins vegar svarað endurteknum fyrirspurnum sóknaraðila um framvindu verksins á þann veg að stefnan væri nánast tilbúin og málið yrði höfðað á næstu dögum. Úr því varð hins vegar aldrei og dróst málið þannig mánuð eftir mánuð. Sóknaraðili kveðst ekki hafa áttað sig á því hve skammt á veg stefnuritun varnaraðila var komin fyrr en hann leitaði til annars lögmanns með verkið og sá óskaði eftir gögnum frá varnaraðila. Að mati nefndarinnar verður að telja að sóknaraðili hafi fyrst átt þess kost á að leggja fram erindi þetta þann 26. október 2022. Enda var það þann dag sem sóknaraðili fékk fyrst vitneskju um störf varnaraðila í þágu málsins frá því að áðurnefndur frávísunarúrskurður var uppkveðinn til þess dags. Því telst erindið ekki of seint fram komið hvað þann þátt málsins varðar þegar það var lagt fram þann 20. febrúar 2023.

 

 

 

II.

Eftir stendur þannig að meta það hvort varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna vegna starfshátta varnaraðila á tímabilinu frá 27. maí 2021 til 26. október 2022.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.  

Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð.

Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður sem tekur að sér verkefni, reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

Með vísan til þess sem fyrr greinir hélt varnaraðili því endurtekið fram í hvert sinn sem sóknaraðili spurði um stöðu máls hans að það væri á lokametrum og málið yrði höfðað í annað sinn á næstu dögum þegar sú varð ekki raunin. Fyrir nefndinni hefur varnaraðili borið því við að stefnan hafi verið tilbúin þegar sóknaraðili leitaði loks til annars lögmanns í október 2022. Drög að slíkri stefnu voru ekki lögð fram til nefndarinnar og í ljósi málsatvika allra telur nefndin ósannað að svo hafi verið. Þá telur nefndin óháð því að varnaraðila, sem var ekki skylt að taka við verkinu og mátti segja sig frá því teldi hann sig ekki hafa tök á að sinna því, bar að lágmarki að gera sóknaraðila grein fyrir raunverulegri framvindu verksins þegar hann spurði um það margendurtekið. Með þeim hætti hefði sóknaraðila verið gefinn kostur á að taka upplýsta ákvörðun um það hvort hann vildi leita með mál sitt annað. Hafi stefnan verið tilbúin í október 2022 er engu að síður ljóst að fyrri svör varnaraðila til sóknaraðila voru röng og villandi um framvindu verksins. Háttsemi varnaraðila leiddi til þess að sóknaraðili beið í verulega langan tíma eftir að varnaraðila stefndi málinu í annað sinn án þess að til þess hafi komið og að endingu kann hann að hafa beðið tjóns af þeirri vanrækslu. Í málatilbúnaði varnaraðila til nefndarinnar lýsir hann því að flókin aðild málsins og samspil samningsins við [...] hf. við réttindi sóknaraðila hafi torveldað það allt saman og sé meðal ástæðna þess að dráttur varð á því að hann höfðaði málið í annað sinn. Að mati nefndarinnar verður ekki fallist á að aðild málsins eða framsetning kröfugerðar sé svo flókin að réttlætt geti slíkan drátt á framvindu verksins og jafnvel ef svo hefði verið, hafi varnaraðila verið í lófa lagið að upplýsa sóknaraðila um það og gefa honum þar með kost á að hagræða hagsmunum sínum í samræmi við það.

Að mati nefndarinnar var háttsemi varnaraðila frá því að úrskurður var uppkveðinn í áðurnefndu héraðsdómsmáli þann 17. maí 2021 í andstöðu við lög og siðareglur lögmanna og ekki í samræmi við góða lögmannshætti, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 2., 8. og 12. gr. siðareglna lögmanna. Í samræmi við það sem að framan greinir er það mat nefndarinnar að varnaraðili hafi í störfum sínum gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Telur nefndin að um ítrekuð brot hafi verið að ræða af hálfu varnaraðila gegn þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt siðareglum lögmanna og lögmannalögum. Með þeim brotum hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, B lögmaður, sætir áminningu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

 

________________

Arnar Vilhjálmur Arnarsson