Mál 10 2014

Ár 2014, föstudaginn 10. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 10/2014:

A

gegn

R hdl.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 1. apríl 2014 erindi sóknaraðila, A, þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun varnaraðila, R hdl.

Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila um erindið þann 10. apríl 2014. Greinargerð varnaraðila barst þann 9. maí 2014. Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð varnaraðila þann 16. maí 2014. Athugasemdir sóknaraðila bárust þann 2. júní 2014. Varnaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum þann 16. júní 2014. Athugasemdir bárust þann 4. júlí 2014.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Sóknaraðili leitaði til lögmannstofunnar T, upphaflega til U hrl., vegna skilnaðarmáls síns. Þegar U fór í leyfi tók varnaraðili við máli sóknaraðila.

Málið fór í hefðbundinn farveg skilnaðarmála þar sem reynt var að ná samkomulagi milli málsaðila, sóknaraðila og þáverandi eiginmanns hennar B. Fóru samkomulagsumleitanir fram með hefðbundnum hætti, samskiptum á tölvupósti, með símtölum, bréfum og á fundi auk þess sem gerð voru drög að skilnaðarsamkomulagi. Lögmaður af lögmannsstofunni mætti með sóknaraðila hjá embætti sýslumanns[...]þar sem kærandi lagði fram kröfu um skilnað og gerð var krafa um makalífeyri. Skilað var greinargerð og gögnum vegna kröfunnar. Fljótlega kom fram sú krafa af hálfu þáverandi eiginmanns sóknaraðila að helmingaskiptaregla hjúskaparlaga yrði ekki lögð til grundvallar í málinu. Þeirri kröfu var hafnað og þess krafist fyrir hönd sóknaraðila að helmingaskiptareglan yrði lögð til grundvallar. Þar sem ekki náðist samkomulag á milli málsaðila um skiptin krafðist lögmaður mannsins opinberra skipta til fjárslita. Var málið tekið fyrir hjá héraðsdómi R og skipaði dómurinn skiptastjóra. Alls voru haldnir sjö skiptafundir á skrifstofu skiptastjóra [...]þar sem lögð voru fram gögn vegna málsins og skiptastjóri leitaði sátta.

Þann 13. nóvember 2012 óskaði varnaraðili eftir því að sóknaraðili greiddi kr. 200.000 inn á málið sem sóknaraðili gerði. Þegar greiðsla hafði borist frá sóknaraðila var gerður reikningur sem færður var á viðskiptamannareikning sóknaraðila hjá lögmannsstofunni. Fyrir liggur reikningur, nr. 0011456, dags. 17. desember 2012, til sóknaraðila frá varnaraðila, sem innborgun á lögfræðiþjónustu, einingaverð kr. 159.363 án vsk, en kr. 200.000 með vsk.

Ekki tókst samkomulag með málsaðilum með aðkomu skiptastjóra og var málið því sent héraðsdómi til úrlausnar. Af hálfu sóknaraðila voru gerðar þær kröfur að viðmiðunardagur skipta væri sá dagur þegar málið var fyrst tekið fyrir hjá embætti sýslumanns, að helmingaskiptaregla hjúskaparlaga yrði lögð til grundvallar við skiptin og að viðurkennd yrði helmingshlutdeild í lífeyrisréttindum frá upphafi sambúðar. Vegna þeirrar dómkröfu var óskað eftir útreikningi S hf. á réttindum málsaðila. Þann 12. mars 2013 bað varnaraðili sóknaraðila um að endurgreiða reikning S og kvaðst senda sóknaraðila greiðsluseðil. Sóknaraðili svaraði samdægurs og upplýsti varnaraðila um heimilisfang sem senda mætti greiðsluseðilinn á. Sama dag varð gerður reikningur nr. 0011883, að fjárhæð kr. 101.152 vegna útlagðs kostnaðar skv. meðf. S hf.

Við aðalmeðferð málsins var lagður fram málskostnaðarreikningur að fjárhæð kr. 2.364.232. Úrskurður héraðsdóms R var kveðinn upp í nóvember 2013, þar sem fallist var á helstu kröfu sóknaraðila, þ.e. að leggja ætti helmingaskiptareglu hjúskaparlaga til grundvallar. Þá var ennfremur fallist á kröfu sóknaraðila um viðmiðunardag skipta, en kröfu um skiptingu lífeyrisréttinda var hafnað. Eiginmaður sóknaraðila var úrskurðaður til að greiða sóknaraðila kr. 300.000 í málskostnað.

Eftir að niðurstaða héraðsdóms lá fyrir var varnaraðili í samskiptum við sóknaraðila, lögmann þáverandi eiginmanns sóknaraðila og skiptastjóra. Varnaraðili mætti við uppkvaðningu úrskurðar í héraðsdómi R, sendi sóknaraðila úrskurðinn, var í tölvupóstsamskiptum við lögmann mannsins og skiptastjóra, hitti sóknaraðila á fundi og mætti á skiptafund til að ljúka málinu. Varnaraðili kveðst hafa haft fullt samráð við sóknaraðila um framgang málsins, bæði símleiðis, með tölvupósti auk þess sem aðilar máls þessa hittust á fundum.

Þann 22. desember 2013 undirritaði sóknaraðili umboð til handa varnaraðila til þess að skrifa undir fjárslitasamning fyrir hennar hönd vegna fjárskipta hennar og B. Umboðið náði ennfremur til þess að taka á móti greiðslu þeirri sem B ætti eftir að inna af hendi til sóknaraðila vegna skiptanna, allt skv. fyrirliggjandi fjárskiptasamningi sem skiptastjóri hafði samið, með þeirri breytingu þó að staða á bankareikningi 526-26-13969 þann 7. mars 2012 var kr. 549.926 en ekki 607.762, eins og greindi í fyrirliggjandi samningsdrögum. Ekki liggur fyrir að samið hafi verið sérstaklega um gjaldtöku vegna verksins.

Þegar greiðslur bárust frá skiptastjóra var gengið frá greiðslum til sóknaraðila að frádregnum kostnaði vegna vinnu varnaraðila og annarra lögmanna lögmannsstofunnar og útlögðum kostnaði vegna málsins. Þann 27. desember 2013 var sóknaraðila gerður reikningur, nr. 0013249, að fjárhæð kr. 1.724.488, án vsk eða kr. 2.164.232 með vsk. Tiltekið var að vinnutímar fram til 23. september 2013 hefðu verið alls 99,15. Gerði varnaraðili ekki reikning fyrir vinnu eftir þann dag. Vinnuframlag hafi m.a. verið fyrirtaka í héraðsdómi R vegna dóms, samskipti við skiptastjóra og lögmann mannsins, samskipti við Á.Þ. og skiptafundur þann 23. desember 2013.

Nokkru seinna gerði sóknaraðili athugasemd við uppgjör varnaraðila. Vegna anna varnaraðila og dvalar erlendis auk þess sem bókari lögmannsstofunnar var fjarverandi í skamman tíma vegna veikinda svo og varnaraðili, dróst að fara yfir málið. Varnaraðili gerði það að loknu leyfi. Voru sóknaraðila senda skýringar í tölvupósti auk þess sem varnaraðili hitti hana á fundi þann 18. mars 2014 og fór yfir málið.

Eftir að málið var sent úrskurðarnefnd lögmanna kom í ljós að á einum stað í verkskýrslu varnaraðila höfðu verið skráðir 10 tímar í stað 10 mínútna. Varnaraðili sendi sóknaraðila bréf þann 9. maí 2014 og kvað um augljós mistök að ræða, sem ekki hefði verið bent á fyrr. Sendi varnaraðili sóknaraðila ávísun að fjárhæð kr. 238.450.

 

II.

Sóknaraðili krefst a) leiðréttingar á lokareikningi frá varnaraðila vegna fyrirframgreiðslu í skilnaðar- og búskiptamáli. Sóknaraðili hafi greitt kr. 200.000 inn á vinnu varnaraðila þegar hún hafi óskað eftir því en fengið síðan lokareikning upp á kr. 2.164.232. Hafi varnaraðili haldið eftir peningum úr búskiptunum en gleymst hafi að draga fyrirframgreiðsluna frá þeirri upphæð.

Sóknaraðili telur b) lokareikninginn hærri en hún hafi átt von á. Er litið svo á að í þessari athugasemd felist krafa um að áskilið endurgjald sæti lækkun.

Þá hafi varnaraðili c) gert sóknaraðila reikning vegna aðkeyptrar en óumbeðinnar þjónustu. Er í ljósi málatilbúnaðar sóknaraðila, litið svo á að í þessu felist krafa um að þessi kostnaður verði dreginn frá áskilinni þóknun varnaraðila.

Varðandi lið a) bendir sóknaraðili á að með tölvupósti, dags. 17. mars 2014, hafi varnaraðili sent henni viðbótarreikning, dags. 17. desember 2012, upp á kr. 200.000, en varnaraðili hafi ekki getað útskýrt hvaða vinna lægi þar að baki. Hafi hún sagst geta sýnt fram á þennan reikning vegna þess að hún hafi lagt fram yfirlit til héraðsdóms Rþegar málinu hafi lokið. Sóknaraðili bendir á að í héraðsdómi hafi henni verið dæmdar kr. 300.000 í málskostnað sem sé aðeins brot af lokareikningi.

Sóknaraðili kveðst telja að áðurnefnd fyrirframgreiðsla eigi að koma til frádráttar á lokareikningi. Telur hún orka tvímælis að gefa fyrst út reikning sem nemi fyrirframgreiðslunni þegar ágreiningurinn hafi komið upp. Sóknaraðili bendir á að reikningurinn sé vissulega dagsettur 17. desember 2012 en samkvæmt neðanmálsgrein á honum virðist hann vera gerður eftir að reglugerð nr. 505/2013 tók gildi. Bendir sóknaraðili einnig á að á reikningnum sem gefinn hafi verið út í lok árs 2012 sé vísað til reglugerðar nr. 598/1999.

Varðandi lið b) bendir sóknaraðili á að lokareikningurinn sé hærri en hún hafi átt von á í ljósi þess að henni hafi verið dæmdar kr. 300.000 í málskostnað í héraðsdómi. Þar séu einkum tveir liðir sem henni finnist orka tvímælis, annars vegar svar að við tölvupósti taki 10:10 klst. og hins vegar að vinna við undirbúning við aðalmeðferð sé skráð í tíu tíma. Óskar sóknaraðili eftir áliti úrskurðarnefndar á því hvort hún eigi heimtingu á því að reikningurinn verði lækkaður og hversu mikið.

Varðandi lið c) vísar sóknaraðili til þess að henni hafi verið gert að greiða reikning vegna útreiknings frá S hf. sem hún hafi aldrei beðið um né heldur samþykkt að yrði gerður. Af þeim ástæðum telur sóknaraðili að henni hafi ekki borið skylda til að greiða hann. Sóknaraðili kveðst vísa til heimasíðu Lögmannafélags Íslands þar sem segi: „Lögmanni ber að leita samþykkis skjólstæðings, ef fela þarf mál hans öðrum lögmanni. Sama gildir að jafnaði, ef leita þarf annarrar sérfræðiaðstoðar, svo sem mats- eða skoðunarmanna, ef verulegur kostnaður er því samfara." Óskar sóknaraðili álits á því hvort hún eigi að fá þennan kostnað endurgreiddan.

 

III.

Varnaraðili tekur fram í upphafi að sóknaraðili hafi aldrei komið á framfæri við undirritaða kvörtunum eða athugasemdum vegna liða b og c í kvörtun þessari, en þær hafi borist henni fyrst með kvörtun sóknaraðila til úrskurðarnefndar.

Varðandi lið a) vísar varnaraðili til þess að við útreikning á málskostnaði í umræddu máli hafi verið lögð til grundvallar vinnuskýrsla sem haldin hafi verið vegna málsins. Hafi vinnustundir verið reiknaðar frá upphafi málsins, þann 31. janúar 2012, og fram til þess tíma er aðalmeðferð hafi farið fram fyrir héraðsdómi. Alls hafi verið 99,15 tímar skráðir í tímaskýrslu vegna málsins. Varðandi misritun á skráningu tíma sé vísað til kafla b). Reikningur hafi verið miðaður við tímagjald kr. 19.000, en málskostnaður hafi numið kr. 1.883.850, auk virðisaukaskatts kr. 480.382, alls kr. 2.364.232. Þegar málinu hafi verið lokið hafi verið gerður reikningur upp á kr. 2.164.232, þar sem áður inngreitt á árinu 2012, hafi verið dregið frá málskostnaði vegna málsins. Við gerð reikningsins hafi varnaraðili tekið þá ákvörðun að gera sóknaraðila ekki reikning vegna vinnu sem fram hafi farið eftir að málflutningi hafi lokið þann 23. september 2013. Lauslega áætluð sé sú vinna ekki undir 6 tímum.

Varnaraðili telur ljóst að við gerð reiknings nr. 0013249 hafi mátt koma fram að áður hefðu verið greiddar kr. 200.000 inn á málskostnaðinn en því sé alfarið hafnað að þessi framsetning reikningsins sé á einhvern hátt óeðlileg, enda hafi sóknaraðila verið fullkomlega ljóst að hún hafði áður greitt kr. 200.000 vegna málsins. Í framhaldi af þessu uppgjöri hafi sóknaraðili snúið sér til varnaraðila og kvartað yfir þessu og talið að hún ætti að fá endurgreiðslu sem næmi innborgun þeirri sem hún hafi innt af hendi í desember 2012, kr. 200.000. Varnaraðili kveðst hafa sýnt sóknaraðila afskrift úr viðskiptamannabókhaldi lögmannsstofunnar sem sýnt hafi að reikningur nr. 0011456 hafi verið gerður þann 17. desember 2012 og færður inn á viðskiptamannareikning hennar þann dag. Í kvörtun sinni bendi sóknaraðili á að neðst á reikningi nr. 0011456 sem varnaraðili hafi afhent henni á fundi í mars 2014 sé vísað til reglugerðar nr. 505/2013 og telji það væntanlega styðja það að varnaraðili hafi gert reikninginn eftir á. Sú skýring sé hins vegar á þessari áritun að þegar sóknaraðili hafi komið á fund með varnaraðila í mars 2014, þá hafi umræddur reikningur verið prentaður út úr DK-bókhaldskerfi skrifstofunnar. Þessi nýja tilvísun til reglugerðar nr. 505/2013, sem gildi hafi tekið í maí 2013, hafi væntanlega komið inn í bókhaldskerfi stofunnar við uppfærslu þess einhvern tíma síðla árs 2013. Í þeim afritun sem prentuð séu út eftir uppfærsluna komi því tilvísun í yngri reglugerð þrátt fyrir að reikningarnir hafi verið gerðir í tíð eldri reglna. Á ljósriti af þeim reikningi sem sé í bókhaldsmöppu skrifstofunnar sé vísað til reglugerðar nr. 598/1999 um reikninga úr rafrænu bókhaldskerfi.

Varnaraðili hafnar kröfu um leiðréttingu á lokareikningi umfram þær kr. 238.450 sem leiðréttar hafa verið vegna misritunar í tímaskýrslu, sbr. bréf dags. 9. maí 2013.

Vegna liðar b) vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi leitað til lögmannsstofunnar þann 31. janúar 2012, aðalmeðferð málsins hafi farið fram fyrir héraðsdómi í september 2013, úrskurður hafi verið kveðinn upp í nóvember og síðasti skiptafundur hafi verið haldinn vegna málsins á Þorláksmessu 2013. Mikill ágreiningur hafi verið uppi á milli málsaðila. Sáttaboð hafi borist frá lögmanni mannsins en sóknaraðili hafi tekið þá ákvörðun að hafna þeim. Henni hafi verið fullkunnugt um að það myndi hafa í för með sér að málið færi í opinber skipti og sá möguleiki væri í stöðunni að málinu yrði skotið til úrlausnar dómstóla. Sóknaraðili hafi verið upplýst um að þessi málsmeðferð hefði verulegan kostnað í för með sér og að ekki yrði endanlega hægt að segja fyrir um það hver niðurstaða yrði. Sóknaraðili hafi kosið að halda áfram enda um nokkra fjárhagslega hagsmuni að ræða fyrir hana.

Varnaraðili vísar til þess að haldin hafi verið tímaskrá á meðan vinna hafi farið fram og sóknaraðila hafi ítrekað verið gert ljóst að mikill kostnaður fylgdi því að mál færi í opinber skipti og til dómstóla. Tímagjald hafi verið kr. 19.000 eins og í öðrum málum á þessum tíma. Skuli sérstaklega bent á að umrædd gjaldskrá sé frá árinu 2012 og tímagjaldi hafi verið stillt í hóf að mati varnaraðila. Megi í því sambandi vísa til þess að tímagjald skiptastjóra hafi numið kr. 20.500. Varnaraðili bendir á að skiptastjóri hafi skráð 27 tíma vinnu við málið vegna skiptafunda og annarrar vinnu. Þori varnaraðili að fullyrða að skráðir 99,15 tímar sem eftir leiðréttingu vegna innsláttarvillu séu 89,15 sé alls ekki ofmetið, enda hafi vinnuframlag varnaraðila náð yfir mun lengra tímabil og tekið til fleiri atriða en það sem að skiptastjóra hafi snúið.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili geri athugasemdir við tímaskráningu hennar. Um innsláttarvillu sé að ræða og hafi varnaraðili ekki tekið eftir þessari villu við yfirferð tímaskýrslunnar fyrir aðalmeðferð málsins. Í tímaskrá vegna dagsins 22. nóvember 2012 séu skráðir 10.10 tímar vegna tölvupósts til sóknaraðila. Skráningin hafi átt að vera 10 mínútur en ekki 10 klukkutímar. Hefðu athugasemdir sóknaraðila vegna þessa þáttar borist varnaraðila fyrr hefði það verið leiðrétt.

Varnaraðili bendir á að útreikningur á málskostnaði sé miðaður við málskostnaðarreikning sem gerður hafi verið og lagður fram í héraðsdómi Rvið aðalmeðferð málsins.

Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili geri sérstakar athugasemdir við að undirbúningur undir aðalmeðferð sé 10 tímar. Í því sambandi vísar varnaraðili til þess að þarna sé um að ræða vinnu hennar við undirbúning aðalmeðferðar dagana 21. og 22. september 2013. Unnið hafi verið að öflun gagna og upplýsinga vegna dómafordæma. Skuli m.a. bent á að íslensk dómafordæmi í málum sem snúi að skáskiptum hjúskaparlaga séu afar fá og umfjöllun fræðimanna lítil sem engin. Varnaraðili hafi því þurft að leita í danskar og norskar fræðibækur og dóma vegna málsins og hafi m.a. leitað gagna og dóma í bókasafni Lögmannafélags Íslands. Þá hafi verið og unnið að öðrum undirbúningi aðalmeðferðar, málflutningsræða skrifuð og gengið hafi verið frá tilvísunum til dómafordæma og fræðirita. Því sé alfarið hafnað að óeðlilegum tíma hafi verið varið til undirbúnings aðalmeðferðar í málinu og öllum kröfum sóknaraðila vegna þessa hafnað.

Vegna liðar c) kveðst varnaraðili ekki geta annað en lýst furðu sinni á þeirri kröfu og fullyrðingu sem fram komi í þessum lið kærunnar þar sem fjallað sé um óumbeðinn erindisrekstur.

Varnaraðili bendir á að strax við upphaf málsins hafi verið rædd krafa um skiptingu lífeyrisréttinda. Þegar málsmeðferðin hafi hafist hjá skiptastjóra hafi varnaraðili rætt það á ný við sóknaraðila hvort hún vildi gera kröfu um skiptingu lífeyrisréttinda. Hafi verið farið ítarlega í hvaða möguleikar væru til staðar og vegna skammvinns sambands þeirra þá væru ekki miklar líkur á því að þessi krafa næði fram að ganga. Þrátt fyrir það hafi verið tekin sú ákvörðun að gera þessa kröfu og hafi sú ákvörðun verið tekin af sóknaraðila. Þegar ljóst hafi verið að ágreiningur vegna málsins færi fyrir héraðsdóm hafi þessi krafa verið rædd enn á ný og tekin sú ákvörðun að halda henni til streitu. Til þess að hægt væri að gera dómkröfuna hafi orðið að afla gagna um inneignir hjá lífeyrissjóðum málsaðila og í framhaldi af því fá útreikning á innstæðum þeirra í lífeyrissjóðum reiknað niður til eingreiðsluverðmætis. Slíkir útreikningar krefjist sérþekkingar sem ekki sé á sérsviði lögmanna og því hafi þurft að fá tryggingarstærðfræðing til þess að reikna réttindi þeirra út.

Varnaraðili vísar til þess að þegar niðurstaða útreikningsins hafi borist hafi hún sent hana til sóknaraðila með ósk um að hún greiddi reikning S hf.svo unnt væri að ganga frá greiðslu til fyrirtækisins. Greiðsluna hafi sóknaraðili innt af hendi umyrðalaust og án nokkurra athugasemda. Engar athugasemdir hafi borist frá sóknaraðila vegna útreikningsins og beri að taka fram að athugasemdir hennar vegna þessa þáttar málsins hafi borist varnaraðila fyrst með þessari kæru.

Varnaraðili byggir á því að útreikningurinn hafi verið fenginn í fullu samráði við sóknaraðila. Varnaraðili hafnar því kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu skv. þessum lið og þyki varnaraðila framganga hennar varðandi þennan þátt málsins ósæmileg.

 

IV.

Sóknaraðila var gefinn kostur á að kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við greinargerð varnaraðila.

Varðandi lið a) vísar sóknaraðili til þess að reikningur lögmannsstofunnar T nr. 0013249, tilgreini sem vöruheiti „Lögfræðiaðstoð v/sambúðarslitamáls og héraðsdómsmáls skv. verkskýrslu 31/1 2012-31/12 2013". Þar sé að auki tekið fram magn 1, og einingarverð kr. 1.724.488, auk virðisaukaskatts. Í ljósi þessa orðalags telur sóknaraðili einsýnt að reikninginn eigi að skilja þannig að hann nái til allrar lögfræðiaðstoðar lögmannsstofunnar í þessu tiltekna máli.

Sóknaraðili bendir á að á reikningi lögmannsstofunnar nr. 0011456 sé skýrt tekið fram að um innborgun á lögfræðiþjónustu sé að ræða. Sami reikningur sé ekki merktur sem frumrit heldur sem sýnishorn. Því kveðst sóknaraðili álíta að hann gildi sem kvittun fyrir innborgun, vegna þess að hann sé dagsettur löngu eftir að lögmannsstofan hafi fengið greiðsluna. Þar af leiðandi kveðst sóknaraðili telja að innborgunin eigi að koma til frádráttar tilgreindri upphæð, kr. 2.164.232, á reikningi lögmannsstofunnar nr. 0013249. Hafi henni því ekki verið skylt að greiða fyrirframgreidda upphæð kr. 200.000 á nýjan leik, enda komi ekki annað fram í reikningnum en að reikningsupphæðin kr. 2.164.232 sé endanleg upphæð.

Varðandi lið b) vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili staðhæfi að hún hafi aldrei komið kvörtunum á framfæri við hana varðandi villu í vinnuskýrslu fyrir daginn 22. nóvember 2012. Það sé rétt en eigi sér þá skýringu að þegar sóknaraðili hafi orðið villunnar áskynja hafi hún haft samband við skrifstofu T þann 24. mars 2014 og hafi óskað eftir fundi með einhverjum af eigendum stofunnar til að bera fram kvartanir vegna þessa og annarra atriða sem fram komi í kvörtun hennar. Ritarinn hafi sagst þurfa að skoða málið, finna tíma og hringja svo aftur. Hafi sóknaraðili samþykkt það og þakkað fyrir. Sóknaraðili vísar til þess að hefði hún fengið þennan fund hefði hún rætt kvörtunarefnin þar. Hafi hún engin frekari viðbrögð fengið við beiðni sinni. Þann 1. apríl 2014 hafi þolinmæði hennar verið þrotin og hafi hún ákveðið að leita til úrskurðarnefndar Lögmannafélagsins.

Sóknaraðili áréttar að héraðsdómur R hafi úrskurðað henni kr. 300.000 í málskostnað. Telur hún reikning nr. 0013249 háan í ljósi þess. Kveðst hún þó viðurkenna að henni sé ókunnugt um það hvaða reglur gildi þegar dómstóll ákvarði málskostnað.

Vegna liðar c) áréttar sóknaraðili að ekki hafi verið leitað eftir samþykki hennar þegar varnaraðili hafi falið S hf. að reikna út verðmæti lífeyrisréttinda hennar og fyrrum eiginmanns. Hér sé ótvírætt um „aðra sérfræðiaðstoð" að ræða, þótt ef til vill sé umdeilanlegt hvað eigi að teljast „verulegur kostnaður" svo vísað sé til heimasíðu Lögmannafélags Íslands.

 

V.

Varnaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við greinargerð sóknaraðila.

Varnaraðila kveðst ekki reka minni til að hafa fengið ósk um fund með eigendum lögmannsstofunnar, en hún sé einn af eigendum stofunnar og hafi fullt umboð annarra eigenda til þess að koma fram gagnvart viðskiptamönnum stofunnar.

 

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.  Samkvæmt 2. mgr. skuldbindur loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns ekki umbjóðanda hans.

Samkvæmt 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum. samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins ber lögmanni að leita samþykkis skjólstæðings, ef fela þarf mál hans öðrum lögmanni. Sama gildir að jafnaði, ef leita þarf annarrar sérfræðiaðstoðar, svo sem mats‑ eða skoðunarmanna, ef verulegur kostnaður er því samfara.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Nefndin vísar frá ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því kostur var að koma því á framfæri.

 

II.

Rétt þykir að fjalla heildstætt um réttmæti áskilinnar þóknunar varnaraðila og fjárhæð reiknings hennar. Er ekki annað í ljós leitt en að við útgáfu uppgjörsreiknings hafi verið tekið tillit til 200.000 króna innborgunar varnaraðila sem gjaldfærð hafi verið með sérstökum reikningi.

Gjaldtakan byggir í heild sinni á tímaskráningu, sem ekki hafa verið gerðar rökstuddar athugasemdir við. Leiðir yfirferð yfir hana heldur ekki í ljós neinar tímaskráningar umfram það sem vænta mætti miðað við umfang málsins ef undan er skilin ein skráning sem hefur verið leiðrétt með endurgreiðslu af varnaraðila. Verður hér að hafa í huga að frágangur hjónaskilnaðar kallar oft á lausn margra ágreiningsmála. Liggur fyrir að sá ágreiningur sem fjallað var um í héraðsdómsmálinu snerti aðeins hluta þeirra, en önnur atriði voru afgreidd innan og utan skiptafunda, svo sem títt er. Er ljóst af gögnum máls þessa að ágreiningur við skilnaðinn hefur verið víðtækur og ekki auðveldur viðfangs.

Þótt heppilegra hefði verið að samið hefði verið um gjaldtökuna fyrir fram, virðast hvorki efni til að gera athugasemdir við tímagjald né tímafjölda vegna málsins.

 

III.

Varðandi þann kostnað sem hlaust af vinnu S hf. í þágu sóknaraðila, hefur varnaraðili bent á að umrædd vinna hafi verið nauðsynleg og umræddur kostnaður hafi verið óhjákvæmilegur í ljósi ákvörðunar  sóknaraðila um að láta reyna á skiptingu lífeyrisréttinda. Varnaraðili hefur á hinn bóginn ekki borið á móti því að hafa stofnað til umrædds kostnaðar án samráðs við sóknaraðila.  Enda þótt umrædd fjárhæð, rétt rúmlega 100.000 kr. geti tæplega talist „veruleg" í ljósi atvika málsins, kostnaðar og þeirra hagsmuna sem deilt var um, hefði vissulega verið heppilegra að varnaraðili hefði borið þessi útgjöld undir sóknaraðila.  Á hinn bóginn virðist greiðsluskylda varnaraðila vegna þessa kostnaðar skýlaus og verður að hafna því að hann verði dreginn frá þóknun varnaraðila.

Í ljósi alls ofangreinds verður kröfum sóknaraðila hafnað. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald varnaraðila, R hdl.vegna starfa að hjónaskilnaðarmáli sóknaraðila,A, telst hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998. Hafnað er kröfum sóknaraðila um frádrátt á þessari þóknun vegna endurgreiðslu útlagðs kostnaðar.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson